Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Það sem vantaði í úttekt Seðlabankans

Athyglisvert er að skoða úttekt Seðlabanka Íslands á veitingu neyðarláns til Kaupþings banka í október 2008 ekki sérstaklega vegna þess sem fram kemur í skýrslunni heldur vegna þess sem vantar í hana. 

Fram kemur að takmörkuð gögn liggi fyrir um veitingu neyðarláns til Kaupþings þá myrku daga þegar Íslendingar uppgötvuðu sér til skelfingar að þeir voru ekkert merkilegri en aðrir og í stað þess að vera ofurríkir þá var neyðarástand. Það eru í sjálfu sér ekkert ný sannindi. Þá kemur ekki fram að árhifamiklum aðilum ekki síst verkalýðshreyfingunni var í mun að hægt væri að bjarga Kaupþingi banka ekki síst vegna hagsmuna lífeyrissjóðanna.

Það sem kemur hins vegar ekki fram í skýrslunni af skiljanlegum ástæðum er umfjöllun um það með hvaða hætti var staðið að því að hámarka verð þeirrar tryggingar sem sett var að veði fyrir veitingu neyðarlánsins. Ljóst er að hefði tryggingin verið fullnægjandi þá hefði ekki orðið neitt tjón. 

Ég skrifaði ítarlega grein fyrir nokkrum árum í Morgunblaðið þar sem ég rakti að tilboð lá fyrir í það sem sett var að veði, sem hefði leitt til fullrar endurgreiðslu neyðarlánsins, en Már Seðlabankastjóri kaus að taka öðru tilboði, sem var vafasamara og gat eingöngu þjónað hagsmunum kröfuhafa Kaupþings banka en ekki þjóðarinnar. 

Hvernig skyldi standa á því að Már Guðmundsson Seðlabankastjóri vill ekki gera grein fyrir þessum þætti málsins þó mikilvægastur sé?


Okurlandið Ísland, orsök og afleiðing.

Fyrrverandi viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon sagði í gær á málþingi Neytendasamtakanna o.fl. um hátt verðlag á nauðsynjavörum,skv. fréttum að dæma, að orsök allt að 60% hærra verðs á nauðsynjavörum en í viðmiðunarlöndunum væri góð launakjör í landinu. 

Mikilvægt er að gera sér jafnan grein fyrir orsökum og afleiðingum. En það getur tæpast skýrt mun hærra verð á Kornflexi eða annarri innfluttri pakkavöru að kaupgjald hér á landi sé hærra en einhvers staðar annarsstaðar. 

Niðurstaða málþingsins var, að verðlag væri mun hærra en í viðmiðunarlöndunum. Brýnt er því að gera ráðstafanir til að íslendingar búi við svipuð kjör og eru í nágrannalöndunum. Þar er kaupgjald ekki síður hátt eins og hér á landi. 

Miklu skiptir, að neytandinn fái sem mest fyrir peningana sína það er augljós kjarabót ekki síst í háskattalandi eins og Íslandi.  

Ekki er ágreiningur,að verðlag á nauðsynjavörum er mun hærra en í viðmiðunarlöndunum þá ber brýna nauðsyn til að gera eitthvað annað í málinu en tala bara um það. Nú þegar ætti ríkisstjórnin að einhenda sér í það að skipa nefnd til að kanna hvað veldur háu verðlagi í landinu og koma með tillögur til úrbóta. Þar verða allir sem vilja eðlilega viðskiptahætti í landinu að leggjast á eitt. Miðað væri við að nefndin skilaði af sér svo fljótt sem verða má. 

Ég skora á ríkisstjórnina á alþjóðadegi neytenda, að einhenda sér í það verkefni að koma landinu úr því að vera okurland í það að búa við sambærirlegt verðlag og nágrannaþjóðir okkar búa við. Það gildir ekki bara fyrir nauðsynjavörur. Það gildir líka hvað varðar lána og vaxtakjör. Þar á meðal að afnema verðtryggingu á neytendalánum þ.m.t. húsnæðislánum  til neytenda.


Hverjir standa undir verðmætasköpun í þjóðfélaginu?

Mér skilst að um helmingur vinnandi fólks séu opinberir starfsmenn. Ansi hátt og raunar allt of hátt hlutfall. Nánast allir sem vinna hjá hinu opinbera eru af íslensku bergi brotnir. 

Þá er spurningin hvað stór hluti þeirra sem vinna á almenna vinnumarkaðnum þ.e. annarsstaðar en hjá hinu opinbera eru af íslensku bergi brotnir og hvað margir af erlendu. Þetta hefur fyrst og fremst þýðingu til að gera sér grein fyrir því hvernig íslenskt þjóðfélag er að þróast. 

Sé það rétt að um eða yfir helmingur vinnuaflsins vinni beint hjá hinu opinbera þá er það alvarleg þróun, sem getur ekki leitt til annars en kjararýrnunar í framtíðinni. Verðmætasköpunin fer ekki fram hjá ríki og bæ, en þrátt fyrir það stendur ríkisstjórnin fyrir aukningu útgjalda um rúma 100 milljarða á tveimur árum.

Þá er líka í framhaldi af því spurning hvort þannig sé fyrir okkur komið að vegna stöðugrar útþennslu ríkisbáknsins, þá þurfum við að flytja inn starfsfólk til að sinna arðbærum störfum því annars ætti verðmætasköpunin sér ekki stað í sama mæli. Já og minni hluti starfsfólks á almennum vinnumarkaði standi í raun undir verðmætasköpun í þjóðfélaginu. 


Er þetta virkilega svona

Fyrir nokkru var skýrt frá því að bankastjóri Landsbankans hefði fengið ríflega launahækkun í prósentum talið. Í umræðum þann daginn varð hún óvinur þjóðarinnar og forsætis- og fjármálaráðherra sem og stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins gerðu harkalegar athugasemdir við þessar launahækkanir. 

Landsbankinn og Íslandsbanki eru í eigu ríkisins nánast að öllu leyti og ríkið sem helsti hluthafinn eða eini hluthafinn mætir á aðalfundi hlutafélaganna sem reka bankann, kjósa bankaráðsfólk og samþykkja starfskjarastefnu fyrirtækisins fyrir næsta starfsár. Í hlutafélagalögum er mælt fyrir um það í grein 79 a með hvaða hætti og hvernig starfskjarastefna fyrirtækisins skuli vera næsta ár. 

Í ljós kom að bankastjóri Landsbankans er lægst launaði bankastjórinn af stóru viðskiptabönkunum þrem og fyrir lá mótuð starfskjarastefna samþykkt af ríkinu að hækka laun bankastjóra Landsbankans. Þegar það er skoðað þá er með ólíkindum að viðbrögð forsætis- og fjármálaráðherra skuli hafa verið með þeim hætti og þau voru hvað þá stjórnarformanns Bankasýslu ríkisins. 

Stóru spurningarnar sem krefjast svara í sambandi við viðbrögð ráðherranna og stjórnarformannsins eru þessar: Fylgist þetta fólk ekki með því sem gerist á aðalfundum stærstu fyrirtækja ríkisins og hvaða starfskjarastefna er mótuð? Eru viðbrögð þessa fólks bara látalæti til að slá ryki í augu almennings?


Skammarlegt bruðl og óráðssía Alþingis og stjórnmálastéttarinnar

Í gær var sagt frá því að bæta ætti við 17 aðstoðarmönnum til þingflokka. Hver um annan þveran lýstu formenn stjórnmálaflokka og þingflokka því yfir að þetta væri brýn nauðsyn. 

Fólk veit ef til vill ekki hve vel er búið að þingmönnum án þess að fleiri flokkslíkamabörn séu tekin á launaskrá Alþingis.

Nú þegar geta alþingismenn fengið virka aðstoð starfsfólks Alþingis, ef þeir þurfa á að halda við samningu frumvarpa, þingsályktana o.s.frv. Bókasafn Alþingis er með virka upplýsingaþjónustu. Þegar ég sat síðast á þingi fannst mér alþingismenn í raun vera í bómull og mættu meir en vel við una. 

Á þeim tíma var borin fram tillaga um að hver þingmaður fengi aðstoðarmann. Ég var eindregið á móti þeirri tillögu og taldi það algjört bruðl og er enn í dag ánægður með að hafa staðið í lappirnar og vera eini þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn því bruðli. Þetta varð þó ekki að veruleika, en það var Hrunið sem leiddi til þess. 

Á þeim tíma sem aðstoðarmaður fyrir hvern þingmann var til umræðu sögðu margir þáverandi kollegar mínir við mig, að þetta væri ekkert mál vegna þess að við værum svo rík. Ég svaraði því til að hvað sem liði ríkidæmi þá væri það aldrei afsökun fyrir að fara illa með fé eða sóa fjármunum. 

Nú er staðan sú, að stjórnmálaflokkarnir hafa aukið framlög til sjálfra sín frá skattgreiðendum um 7-800 milljónir og stálu þeir þó ærnu fé frá skattgreiðendum fyrir það.

Mér sagt að aðstoðarmenn ráðherra séu 25. Þingið greiðir fyrir 1 aðstoðarmann formanna stjórnmálaflokka og 1 framkvæmdastjóra þingflokks alls 16 manns í dag. Þess utan er þingflokkunum séð fyrir ritara einum hverjum eða 8. Nú á að bæta við 17 og verða þá þessir sérstöku aðstoðarmenn orðnir 52 fyrir utan annað starfslið Alþingis sem þingmenn geta leitað til. Með þessum hætti  er hægt að koma fullt af flokkslíkamabörnum, sem geta ekki fengið starf annarsstaðar á jötuna. 

Ofan á óráðssíu stjórnmálamanna á Alþingi koma síðan sveitarstjórnir sem bjóða sjálfum sér upp á starfs- og launakjör sem eru margfalt betri en stórborgarfultrúar í nágrannalöndum okkar hafa. Auk þess sem sveitarstjórnir borga drjúgar fjárhæðir til stjórnmálaflokkanna.

Það ber að lýsa vantrausti á stjórnmálastétt sem svona hagar sér. Skammtar sjálfri sér og háembættismannaaðlinum margfalda launahækkun og hikar ekki við að stela peningum af skattgreiðendum til félagsstarfsemi sinnar og til að koma gæðingum og vildarvinum í góð hálaunaembætti.

Meðan svo fer fram eiga stjórnmálamenn hvorki að njóta virðingar eða atvkæðis venjulegs launafólks eða vinnuveitenda í landinu. 


Fjármálaráðherra seðlar, evra og króna

Fjármálaráðherra hefur ítrekað lýst þeirri skoðun, að takmarka eigi eða banna viðskipti í íslenskri mynt. Þess í stað skuli öll viðskipti fara í gegn um debet- eða kreditkort. Fjármálaráðherra hefur einnig ítrekað amast við því að við skulum vera með 10 þúsund króna seðil og telur að svo há fjárhæð sé til þess fallin að auðvelda sjálfsbjargarviðleitni þeirra borgara, sem vilja komast undan ofurskattheimtu ríkisstjórnarinnar. 

Á sama tíma og fjármálaráðherra amast við notkun íslenskra seðla og vill eingöngu bankamillifærsluviðskipti á íslenska myntsvæðinu, þá er hann öflugur talsmaður þess að íslenska krónan verði lögð niður, en Ísland taki upp Evru. 

Nú vill svo til að myntkerfi Evrulandana er með þeim hætti að þar er stærsti seðillinn 500 Evrur sem samsvarar 60.000 sextíuþúsund íslenskum krónum miðað við gengi Evrunnar 120. 

Ólíklegt verður að telja að fjármálaráðherra telji sig þess umkominn komi til þess að Ísland taki upp Evru að breyta svo greiðslukerfi Evrulanda, að notkun myntar já og 500 Evru seðilsins verði bönnuð. 

Það er óneitanlega skondið að sami maður vilji afnema 10 þúsund króna seðil af því að svo hár seðill stuðli að skattsvikum og glæpum, á sama tíma og hann vill ólmur í Evrulandið þar sem 60 þúsund króna seðlar eru daglegt brauð. 

Gott væri að fá vitræna skýringu á þessari tvíhyggju fjármálaráðherra.

 


Okurlandið

Mér er sagt að hægt sé að kaupa ákveðnar íslenskar merkjavörur ódýrara erlendis frá í netverslun en út úr búð framleiðandans hér heima.

Vextir eru langtum hærri hér en í okkar heimshluta og lánakjör verri. Þetta bitnar á fólki og fyrirtækjum og eykur dýrtíð.

Frelsi fólks til að gera hagkvæm innkaup er takmarkað af stjórnmálamönnunum,  með ofurtollum og innflutninghöftum. 

Þegar krónan lækkar gagnvart erlendum gjaldmiðlum þá hækka vörur samstundis og það verður verðbólga með tilheyrandi hækkun verðtryggðra neytendalána.

Þegar krónan hækkar í verði gagnvart erlendum gjaldmiðlum þá lækka vörur seint og illa og meiri háttar verðhjöðnun mælist ekki í vísitölunni.

Verðlag er svo hátt og okrið mikið, að það er líklegur orsakavaldur þess að blómlegasti og mest gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur okkar ferðamennskan verði eyðilögð.

Í öllum löndum sem við viljum líkjast hafa stjórnvöld virk afskipti af markaðnum fyrir neytendur, ef vextir eða verðlag er óeðlilegt. Hér hafa stjórnvöld jafnan slegið skjaldborg um okrið og skiptir þá engu hvort sjálfkallaðir félagshyggjuflokkar eru við stjórn eða aðrir.

Er ekki tími tilkominn að breyta þessu?

Hvernig væri að stjórnendur þjóðfélagsins einhentu sér í að bæta kjör almennings með því að tryggja okkur sömu og sambærileg kjör á vöxtum, vörum og þjónustu og annarsstaðar í okkar heimshluta. 


Skepnuskapur gagnvart ungu fólki.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi hefur bent á þann skepnuskap sem ríkisvaldið veldur með því að ganga erinda lífeyrissjóða og okurleigufélaga á húsnæðismarkaði. Hann á heiður skilið fyrir það. 

Ármann vekur athygli á því, að á sama tíma og lífeyrissjóðirnir fjárfesta í félögum sem leigja síðan ungu fólki á uppsprengdu verði,þá eru þeir ekki að lána sjóðsfélögum sínum til að koma sér upp eigin þaki yfir höfuðið. Unga fólkið á því aldrei kost að vera sjálfs síns ráðandi í eigin húsnæði, en verður að sætta sig við að vera leiguþý okurleigufélaga í eigu lífeyrisfurstana.

Sú var tíðin að það var grundvallarstefna Sjálfstæðisflokksins að auðvelda ungu fólki að eignast eigið húsnæði. Eign fyrir alla, sem hafa dug og getu til að brjótast til bjargálna sögðu forustumenn Sjálfstæðisflokksins hver á fætur öðrum allt fram á þessa öld.

Svo breyttist eitthvað. Fjármagnseigendur og lífeyrissjóðir fóru að hafa meiri og meiri áhrif í Sjálfstæðisflokknum og flokkurinn hélt sig í verðtryggingar björgunum gegn hagsmunum fólkins. Sósíalistarnir og afthurhaldið sameinuðust um að skammta launþegum naumt og koma því til leiðar að lánakjör hér á landi væru með þeim hætti að allir aðrir en ofurlaunafólk yrðu gjaldþrota ef þau reyndi að koma sér eigin þaki yfir höfuðið.

Ríkið neyðir vinnandi fólk til að greiða 12% af launum sínum til lífeyrisfurstana. Þeir fá að valsa með peninga fólksins að vild án þess að greiða af þeim skatta. Fólkið þarf síðan að greiða skatta af hverri krónu sem það fær endurgreitt sem lífeyri.     

Það var því tími til kominn að ráðamaður í Sjálfstæðisflokknum andmælti þessu og vill endurvekja stefnu þess Sjálfstæðisflokks sem var flokkur allra stétta. Því miður held ég að það dugi samt skammt. Stjórnmálaelítan er upp til hópa svo bundin á klafa hagsmuna lífeyrissjóða og leigufélaga, að það gæti þurft verulega byltingu í stjórnmálalífi landsins til að ná fram nauðsynlegum breytingum til þess að ungt fólk sem dugur er í geti eignast sitt eigið húsnæði.

Þannig þjóðfélag þurfum við að fá. Þjóðfélag þar sem borgararnir geta notið verka sinna og komið sér upp eigin eignasafni á eigin forsendum og verið sinnar gæfu smiðir. Við þurfum að vinna fyrir fólkið í landinu en ekki hlaða endalausri hælisleitendaómegð inn í landið á kostnað vinnandi fólks

Átti Sjálfstæðisflokkurinn sig ekki á því að hann verður þegar í stað að skipta um stefnu og standa með unga fólkinu og þjóðlegum gildum gegn auðfélögunum og menningarlegri uppgjöf,  þá er hætt við að fljótlega fari fyrir honum eins og Samfylkingunni í síðustu kosningum.

 


Er þetta ekki í stjórnarsáttmálanum?

Nú hef ég hraðlesið stjórnarsáttmálann í tvígang og lýst svona og svona á afurðina. Í fyrra skiptið  las ég stjórnarsáttmálann og skipti í efnisflokka og sá að fyrir utan hefðbundin kyrrstöðuviðhorf í bankamálum, sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum sem og fleiri málaflokkum þá eru teknir inn í stjórnarsáttmálann nokkrir vinstri grænir sósíalískir  gullmolar um grænt hagkerfi og meira splæs o.s.frv.

Einnig einsetur ríkisstjórnin sér að fjölga innflytjendum sem mest hún getur og taka á móti fleiri flóttamönnum. Spurning var hvort áherslan á það skipti meira máli en á fjármál einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja. Alla vega virðist svo vera í stjórnarsáttmálanum.

Umfjöllun um okurvextina og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þeim sé ég hvergi í stjórnarsáttmálanum. Þá sé ég ekki að vikið sé að verðtryggingu lána og staðið við þá marmiðssetningu sem Sjálfstæðisflokkurinn gaf við myndun síðustu ríkisstjórnar.

Nú viðurkenni ég að vera nærsýnn og að flýta mér við yfirlesturinn. En getur einhver verið svo vænn að benda mér á hvar í stjórnarsáttmálanum er vikið að okurvöxtunum og verðtryggingunni í stjórnarsáttmálanum.

Það hlítur að hafa farið fram hjá mér því að jafn mikilvægt mál og verðtrygging og viðbrögð til að almenningur og fyrirtæki búi við sömu lánakjör og tíðkast í nágrannalöndum okkar hefði ég haldið að væri eitt það þjóðfélagslega mikilvægast.

En fyrsti dómur minn um stjórnarsáttmálann er að hann er eins og svissneskur ostur. Það eru fleiri holur á honum en matur.

 


Besta ríkisstjórnin

Hlutir virðast ganga betur á Alþingi en mörg undanfarin ár.

Afleiðingarnar eru ekki allar góðar sbr. afgreiðsla þensluhvetjandi fjárlaga þar sem fjármunum er ausið út á lokametrunum án þess að fullnægjandi greining liggi fyrir um raunþörf.  Afgreiðslan er í takt við velferðarkerfið;  "þeir sem þurfa fá ekki nóg en margir sem síður þurfa fá meira en nóg".

Eftir að hafa lesið Kristilega kommúnistaávarp Davíðs Þórs Jónssonar sóknarprests, sem hann úðaði yfir sóknarbörn sín við messu, þá finnst mér ástæða til að minna á, að ríkið á ekki neitt. Ríkið getur ekki borgað neitt til neins nema taka það frá öðrum. Eitthvað sem kommúnistum sést jafnan yfir. Frá lokum fyrri heimstyrjaldar fyrir um öld síðan hefur millistétt allra landa borið hita og þunga af sjálftöku ríkisins úr vasa skattgreiðenda.

Einn mikilvægasti réttur borgaranna er hvergi til stjórnarskrárvarinn,  svo ég þekki til. Það er ákvæðið sem takmarkar möguleika ríkisins til að taka tekjur og eignir fólks til að fara með að geðþótta.

Afleiðingar af samþykkt þensluhvetjandi fjárlaga er aukin verðbólga. Verðbólgan er versti óvinur þess unga fólks sem vill spjara sig á eigin vegum og hefur neyðst til að taka verðtryggð lán. Hún er líka óvinur launafólks sem horfir á minnkandi kaupmátt vegna hækkandi vöruverðs.  Þannig getur góðmennska stjórnmálamanna á annarra kostnað iðulega hitt þá illa fyrir sem síst skyldi.

Thomas Jefferson Bandaríkjaforseti sagði að besta ríkisstjórnin væri sú ríkisstjórn sem stjórnaði sem minnstu. En það dugar illa ef þeir sem hafa fjárveitingavaldið, Alþingi, bregðast þeirri skyldu sinni að gæta aðhalds og sparnaðar í ríkisrekstri og takmarka skattheimtu. Slíka ríkisstjórn þurfum við að fá, en vandséð miðað við afgreiðslu fjárlaga að venjulegt fólk sem vill spjara sig á eigin forsendum muni eiga farsæla daga hverjir svo sem sitja í næstu ríkisstjórn.

Ef til vill er það rétt hjá Henry David Thoreau í riti sínu um almenna óhlýðni: "Besta ríkisstjórnin er sú sem stjórnar engu."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 82
  • Sl. sólarhring: 636
  • Sl. viku: 2403
  • Frá upphafi: 2506165

Annað

  • Innlit í dag: 78
  • Innlit sl. viku: 2245
  • Gestir í dag: 78
  • IP-tölur í dag: 78

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband