Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Allt upp á borðið strax.

Jóhannes Kr.Kristjánsson segist hafa undir hönum lista með nöfnum 600 íslendinga sem voru með fjármálastarfsemi í gegn um lögmannsstofuna í Panama og földu peningana sína á Tortóla eða öðrum álíka skattaskjólum.

Eftir Kastljós sem Jóhannes Kr. stýrði af miklum myndarskap á sunudaginn riðar ríkisstjórn Íslands til falls og allar líkur eru á því að forsætisráðherra verði að taka pokann sinn fyrr heldur en síðar og líklega tveir ráðherrar til viðbótar sem tengjast skattaskjólum eins og forsætisráðherrann.

Spurningin er þá hvað með hina 597 sem þjóðin á eftir að fá upplýsingar um í fyrsta lagi hverjir eru. Í öðru lagi hvað þeir gerðu. Í þriðja lagi hvað miklar peningalegar eignir um var að ræða. Í fjórða lagi hverjir tengdust viðskiptalega þessum einstaklingum og í fimmta lagi voru kjörnir fulltrúar fólksins eða háttsettir ríkisstarfsmenn tengdir eða viðriðnir aflandsstarfsemi þessa fólks.

Þjóðin þarf að fá að vita um öll þessi atriði og allar nauðsynlegar upplýsingar nú þegar til að geta gert sér grein fyrir heildarmyndinni og geta mótað afstöðu til þess hvernig á að bregðast við. Upplýsingarnar eru nauðsynlegar í lýðræðislegri umræðu og það er ekki tækt fyrir Jóhannes Kr. Kristjánsson að halda þessum upplýsingum frá þjóðinni og birta þær eftir geðþótta næstu daga og/eða vikur. Annar er hætt við að umræðan verði ekki nægjanlega markviss eða niðurstaðan rétt.

Við verðum að fá allt upp á borðið strax. Það er eðlileg krafa þjóðar í lýðræðisríki. Okkur er í mun að bregðast við og hreinsa þá óværu sem enn býr með þjóðinni af þjóðarlíkamanum.

Jóhannes Kr. Kristjánsson birtu listann strax í dag annað gengur ekki ef þú vilt að nú þegar fari fram upplýst lýðræðisleg umræða.

 


Boðað til þingrofs

Upplýst hefur verið að nokkrir stjórnmálamenn þ.á.m. ráðherrar eigi og/eða hafi átt reikninga í aflandsfélögum staðsettum í skattaskjólum eins og Tortóla. Fjarri fer því að þáttaka þessa fólks í Hrunadansinum sem náði hámarki í lok árs 2008 sé því til álitsauka.

Þetta fólk býr ekki við þann raunveruleika sem meginhluti íslensku þjóðarinnar býr við. Einn ráðherra Framsóknarflokksins orðaði það enda svo að það væri erfitt að eiga peninga á Íslandi. Hingað til hefur meginþorri þjóðarinnar talið það vera öllu erfiðara að eiga ekki peninga á Íslandi.

Í framhaldi af upplýsingum um eignarráð forustufólks í stjórnmálum og/eða umgengni við reikninga á Tortóla hófst hefðbundin lögfræðileg vörn alþingismannsins Brynjars Níelssonar undir vígorðinu "Þau brutu ekki lög".

En pólitík snýst ekki fyrst og fremst um það hvort stjórnmálamaður brýtur lög heldur hvort hann eða hún er verðug trausts.

Í því sambandi má spyrja af hverju þurfti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir að segja af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hafði hún brotið einhver lög? Fjarri fór því. Samt var hún knúin til að segja af sér sem varaformaður. Gilda önnur lögmál fyrir þá ráðamenn sem nú hafa komið fram sem þáttakendur í Hrunadansinum?

Þegar neyðin er stærst er hjálpin stundum næst. Stjórnarandstaðan lætur hjá líða að bregðast málefnalega við þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir um Tortóla og annarra skattaskjóls ævintýra nokkurra forustumanna í pólitík og telur að það sem helst megi verða til varnar vorum sóma að þing verði rofið. Af hverju. Brutu þingmenn almennt af sér? Er ekki vandinn einstaklingsbundinn og á þá ekki að taka á því. Skiptir þá ekki máli að þeir sem bera ábyrgð verði látnir sæta ábyrgð en ekki einhverjir sem hafa ekkert með málið að gera?

Sjálfskipaður eða skipaður hvort sem er Foringi Pírata Birgitta Jónsdóttir segir "þess vegna datt okkur í hug að boða til þingrofs" Allir forustumenn stjórnarandstöðunar taka undir með Birgittu og segjast ætla að boða til þingrofs.

Boða hvað? Hefur stjórnarandstaðan eitthvað með þingrof að gera? Samkvæmt 24.gr. stjórnarskrárinnar getur forseti rofið Alþingi. Samkvæmt 13.gr. stjórnarskrárinnar lætur forseti ráðherra framkvæma vald sitt. Þingrofsrétturinn er því í raun í höndum forsætisráðherra. Það er því afglapalegt þegar stjórnarandstaðan bregst þannig við upplýsingum um Hrunadans einstakra ráðamanna að hún ætli að boða til þingrofs, sem henni kemur ekkert við og hefur ekkert með að gera.

Stjórnarandstaðan getur hins vegar lagt fram vantraust á ríkisstjórn og/eða einstaka ráðherra. Það gæti verið málefnalegt ef tilefni er til. Samt sem áður ber að varast  að hrapa að ákvörðunum hvað það varðar og leita allra upplýsinga um mál áður en ýtt er úr vör til mikilvægra aðgerða.

Vanhæfni stjórnarandsstöðunnar er eitt. Þáttaka einstaklinga í áhrifastöðum í Hrunadansinum fyrr og síðar er svo annað.

Því miður leiðir hvorttveggja til enn minnkandi trausts almennings á forustufólki íslenskra stjórnmála.  


Verðtrygging lögleg

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 160/2015 kveður á um það að verðtrygging neytendaláns sé ekki ólögmæt samkvæmt íslenskum rétti að teknu tilliti til þess regluverks sem við höfum samþykkt sem EES þjóð.

Þar með liggur fyrir að verðtrygging neytendalána er gild og sú ætlan margra að hægt væri að fá henni hnekkt með dómstólaleið er röng. Ég hef verið og er andvígur verðtryggðum neytendalánum  og taldi að dómstólaleiðin væri til þess fallin að draga kraft úr baráttunni fyrir breyttri löggjöf sem tæki af tvímæli um að verðtryggð neytendalán yrðu gerð ólögleg. Mér finnst samt miður að ég skyldi hafa haft rétt fyrir mér varðandi væntanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu en fannst það raunar nokkuð borðleggjandi allan tímann og var gefið bágt fyrir af mörgum að hafa þá skoðun.

Ríkisstjórnin lofaði að afnema verðtryggingu af neytendalánum og nú skiptir máli að þeir sem vilja réttlátt lánakerfi á Íslandi þar sem lánakjör verða sambærileg og á hinum Norðurlöndunum einhendi sér nú í baráttu gegn óréttlátri verðtryggingu.

Í því sambandi mega neytendur ekki láta svikalognið sem verið hefur undanfarna mánuði blekkja sig. Framundan er verðbólguholskefla ef fram heldur sem horfir- Nýr forsendurbrestur. Áður en það verður skiptir öllu máli að ná fram nauðsynlegum breytingum á lánakjörum fólksins í landinu.

Okurþjóðfélagið getur ekki gengið lengur þar sem fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir hafa bæði axlabönd og belti í samskiptum sínum við fólkið í landinu. Það verður að koma réttlæti strax með afnámi verðtryggingar á neytendalánum þar með talið lánum til fasteignakaupa. Á því er ekki hægt að gefa afslátt.


Flokkur verðtryggingar og banka

Sigríður Inga Ingadóttir sem býður sig fram til formanns í Samfylkingunni sagði í framboðsræðu að Samfylkingin ætti ekki að vera flokkur verðtryggingar og banka í hugum fólks.

Á þessari dyggu stuðningskonu Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrum forsætisráðherra mátti skilja að það væri bara í hugum fólks sem Samfylkingin væri flokkur verðtryggingar og banka. Furðulegt að þingkonan skuli ekki vita að Samfylkingin er einmitt flokkur verðtryggingar og banka og engin hefur staðið betri vörð um þetta tvennt en foringi hennar og leiðtogi Jóhanna Sigurðardóttir með fylgi flokksins í heild, líka Sigríðar Ingu.

Sigríður Inga Ingadóttir sat á þingi síðasta kjörtímabil. Þá neitaði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ítrekað að gera nokkrar lagfæringar á verðtryggingunni en bauð ofurskuldugu fólki upp á 110% leið sem fól í sér að kaupa húsin sín á 10% yfirverði. Hún sat líka á þingi sem stuðningsmaður ríkisstjórnar þegar erlendum hrægammasjóðum voru færðir bankarnir á silfurfati án þess að svigrúm til skuldaleiðréttingar fyrir almenning væri nýtt.

Hafi þessi formannskandídat Samfylkingarinnar fylgst með þjóðmálum í lengri tíma en hún hefur setið á þingi þá hefur hún sennilega vitað af því að ég vildi að verðtryggingin væri tekin úr sambandi strax við hrunið og þáverandi forsætisráðherra vildi skoða þá hugmynd, en málið stoppaði hjá Jóhönnu Sigurðardóttur.

Án efa veit Sigríður Inga þetta allt saman en telur líklegt til fylgisaukningar að þykjast og reyna að slá ryki í augun á auðtrúa sálum Samfylkingarinnar. Eitt má Sigríður Inga eiga, en það er að hún hefur lipran talanda og nú kemur einnig í ljós varðandi Sigríði Ingu það sem skáldið sagði:

Gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri.

 


Spáð fyrir um bankahrun?

Ítrekað halda fjölmiðlungar því fram að Lars Christiansen hafi spáð fyrir um bankahrunið í skýrslu sinni "Iceland Geysir crisis" árið 2006. Það gerði hann ekki. Skýrslan fjallar um ofhitnað efnahagskerfi og hvaða bankana varðar að þeir gætu lent í mótvindi og þurft að selja hluta eigna sinna erlendis. En ekkert bankahrun var í spilunum hjá Lars

Það ber ekki vott um góð vinnubrögð hjá fjölmiðlafólki þegar það heldur ítrekað fram að eitthvað sé með allt öðrum hætti en það er og það jafnvel þó búið sé að leiðrétt það oftar en einu sinni.

Þeim varnaðarorðum sem Lars Christiansen kom með í skýrslu sinni árið 2006 var vísað út í hafsauga af ráðandi stjórnmálamönnum og útrásarvíkingum sem töldu skýrsluna sína afbrýðisemi Dana út í viðskiptalegu ofurmennin með hið sérstaka viðskiptagen sem forseti lýðveldisins talaði um.

Það væri e.t.v. mikilvægara fyrir þjóðina að skoða það hvað Lars sagði í raun og veru árið 2006, hvernig brugðist var við og hverjir andmæltu því sem hann sagði og hverjir tóku undir með honum og vöruðu við. 

Í framhaldi af varnaðarorðum Lars Christiansen árið 2006 um ofhitnað efnahagskerfi ákváðu þáverandi stjórnarflokkar að hækka útgjöld ríkisins um rúm 20% að raunvirði til að ofhita það ennþá meira. Slík var hagspekin.


Talsmaður notaðra heimilistækja

Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur gerst talsmaður notaðra heimilistækja og sér möguleika á því fyrir sauðsvartan almúgann að geta nú veitt sér þann munað að kaupa heimilistæki af þeim efnammeiri sem verði líklegri til að skipta út því gamla og fá sér nýtt vegna verðlækkana í kjölfar afnáms vörugjalda.

Margir hafa tekið þessari hagsmunagæslu Vilhjálms fyrir notendur notaðra heimilistækja óstinnt upp. Ef til vill er það vegna þess að Vilhjálmur er helst þekktur af því að gæta hagsmuna fjármagnseigenda en ekki almennra neytenda. E.t.v er hann grunaður um græsku og horft er framhjá því hvaða hagsmunum þingmaðurinn var að tala um.

Fúkyrðin i garð Vilhjálms vegna þessara ummæla eru innistæðulaus. Vilhjálmur hefði getað orðað þetta með þeim hætti að valkostir neytenda aukist þar sem meira magn af notuðum vörum komi á markað og það betri notuðum vörum þar sem fólk fái sér nýja hluti fyrr en annars hefði verið. Þeir efnaminni hafa ótvírætt hagræði af því að fá betri vörur og minna notaðar á lægra verði af því að aukið framboð veldur verðlækkun á þessum markaði. Er eitthvað að því að orða þessa staðreynd?

Engum finnst neitt að því að kaupa notaðan bíl, húsgögn, ískáp, þvottavélar o.fl. heimilistæki nema stórbokkum og yfirlætisfullu fólki. Á netinu er afar þriflegur markaður með þessa muni. Það er þjóðhagsleg hagkvæmni að hlutum sé ekki hent þegar það er hægt að hafa full not af þeim. Fólk sem leggur áherslu á nýtingu og sparnað ætti að vera ánægt með að fá fleiri og betri muni til að velja úr á lægra verði. Var einhver ástæða til að sletta skyrinu á Vilhjálm fyrir þessi ummæli?

 


Hefur bensín lækkað um 30%

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur verið að lækka undanfarna mánuði. Olíuverð er nú rúmlega 30% lægra en það var í byrjun ársins. Sú verðlækkun ætti að skila sér í a.m.k  30% verðlækkun á bensíni og olíuvörum til neytenda.

Hafa neytendur orðið varir við að bensín og olíur væru að lækka verulega í verði?

Sé ekki svo þá getur samkeppni ekki verið virk á þessum markaði og bensínverð allt of hátt.

En svo getur náttúrulega birgðastaðan verið óheppileg þannig að olíufélögin geta ekki lækkað fyrr en þegar nýjar birgðir eru keyptar. Slíkt var jafnan viðkvæðið þegar gengið gekk í bylgjum. En nú er því ekki að heilsa.

Eru olíufélögin á beit í buddunni þinni?


Ranglæti skammsýninnar

Við bankahrun var ákveðið að skattgreiðendur ábyrgðust allar innistæður Íslendinga í íslenskum bönum. Þá gerði VG og Samf  ekki athugasemdir. Fulltrúar fjármagnsaflanna réðu sér lítt fyrir gleði. Ekki var talað um að það hefði mátt fara betur með skattfé eða eyða því í annað.  

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar segir að stökkbreytt verðtryggð lán einstaklinga almennt skuli leiðrétt að hluta, til að ná fram örlitlu réttlæti. Þá brá svo við að VG og Samfylkingin ákváðu að vera á móti réttlátri leiðréttingu og fengu til liðs við sig helstu fulltrúa fjármagnsaflanna í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Pétur Blöndal og Vilhjálm Bjarnason. Þeir Pétur og Vilhjálmur greiddu síðan atkvæði á móti eins og stjórnarandstaðan þrátt fyrir að hafa samþykkt þetta við stjórnarmyndun. Óneitanlega sérkennilegt bandalag sósíalistanna í VG og Samfylkingunni og fjármagnsfurstana.

Þegar meginhluti gengislána til einstaklinga reyndust ólögmæt þá fengu þeir sem þau tóku leiðréttingu. Talsmenn VG og Samfylkingarinnar lýstu ánægju með það. Afskriftir skulda fyirrtækja og rekstraraðila upp á hundruðir milljarða nutu líka velvilja fjármagnsfurstana, VG og Samfylkingarinnar. 

Þá átti eftir að leiðrétta verðtryggð lán venjulegs fólks sem hafði ekki farið offari í fjárfestingum en tapað miklu vegna galinna verðtryggðra lánakjara og óráðssíu annarra.

Við umræðu um neyðarlögin 2008 og síðar benti ég ítrekað á það sem hlyti að gerast í kjölfar bankahruns og gengisfellingar væri: Í fyrsta lagi mundi þjóðarframleiðsla dagast saman með tilheyrandi tekjuskerðingu. Í öðru lagi yrði verðhrun á fasteignum. Í þriðja lagi mundu verðtryggð lán hækka þó engin væri virðisaukinn í þjóðfélaginu. Af þeim sökum vildi ég láta taka verðtrygginguna úr samabandi. Allt þetta gekk eftir en vegna skammsýni mallaði verðtryggingin áfram og át upp eignir venjulegs fólks. Það var óréttlátt. Ranglæti.  

Venjuleg fasteign lækkaði við Hrun um 65% í Evrum, pundum eða dollurum talið, en verðtryggðu lánin hækkuðu verulega á sama tíma. Það er sú stökkbreyting sem verið er að litlum hluta að leiðrétta hjá venjulegu fólki.

Þessi leiðrétting er lágmarksleiðrétting og kostnaðurinn er þeim Jóhönnu Sigurðardóttur, Gylfa Arnbjörnssyni og öðru áhrifafólki að kenna sem stóð á móti því að verðtryggingin væri tekin úr sambandi á sínum tíma. Sá kostnaður sem ríkissjóður þarf að bera vegna þess að reynt er að ná fram skrefi í réttlætisátt er þeim að kenna sem neituðu að horfast í augu við staðreyndir við Hrun og gera raunhæfar ráðstafanir.

Þessar leiðréttingar kosta mikið fé en eru hluti sanngirnisbóta þar sem galið lánakerfi verðtryggingar fær að viðgangast á neytendalánum.

Mér er með öllu óskiljanlegt að þeir sem hæst gala um félagslegt réttlæti VG og Samf o.fl. skuli í þessu máli samsama sig með fjármagnsöflunum í landinu gegn fólkinu á sama tíma og foringjar þeirra sækja allir um að fá að vera með og njóta sanngirninnar sem þau eru samt á móti.

Þeir eru margir Hamletarnir í íslenskri pólitík þessa dagana.

 


Eitthvað annað

Fátt sýnir betur stefnuleysi og hugmyndasneyð stjórnarandstöðu en þegar forstumenn hennar segja allir sem einn að það hefði ekki átt að gera þetta, heldur eitthvað annað.

Í gær kynnti ríkisstjórnin skuldaleiðréttinu, sem gagnast venjulegu fólki verulega til frambúðar einkum ef verðtryggingin verður tekin af hið snarasta og það verður að gera. Forustufólk stjórnarandstöðunar voru í framhaldi af því spurð um aðgerðirnar og þá komu þau Katrín Jakobs, Árni Páll, Birgitta Jóns og Guðmundur Steingríms fram eins og einradda kór sem kyrjaði sömu hjáróma laglínuna. "Ekki þetta heldur eitthvað annað."

Nánar aðspurð sögðu leiðtogar stjórnarandstöðunnar eins og í vel æfðu leikriti nákvæmlega það sama eða  "Það hefði t.d. mátt greiða niður skuldir, leggja meira í heilbrigðiskerfið, leggja meira í menntakerfið o.s.frv."  Semsagt það mátti gera eitthvað bara eitthvað annað en kom skuldsettum einstaklingum til aðstoðar.

Það er athyglisvert að stjórnarandstöðunni kom ekkert annað í hug en endilega að eyða þeim fjármunum í eitthvað annað en að ná fram meira réttlæti fyrir þá sem þurftu að þola óréttlæti stökkbreyttu höfuðstóla verðtryggðu lánanna.

Athyglisvert að engum í stjórnarandstöðunni datt í hug að koma með hugmynd um að lækka skatta. Nei það mátti ekki rétta hag skuldugra heldur eyða því í annað.

Skattalækkun hefði þó líka dugað skuldsettum einstaklingum sem og öðrum og stuðlað að auknum hagvexti. En það datt semsagt stjórnarandstöðunni ekki í hug enda flokkslíkamabörn hugmyndafræði aukinnar skattheimtu.


Leiðrétting og mótmæli

Á sama tíma og ríkisstjórnin kynnir langþráða leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstólum verðtryggðra lána er boðað til mótmælafundar á Austurvelli til að mótmæla einhverju.

Leiðrétting höfuðstólanna sem hækkuðu svo mikið í efnahagslegum ólgusjó banka- og gengishruns á árunum 2008 og 2009 var sjálfsögð, en hefði verið einfaldari og deilst með réttlátari hætti hefðu stjórnendur þessa lands samþykkt að taka verðtrygginguna úr sambandi strax við bankahrunið eins og ég lagði til eða þá fljótlega á eftir.

En betra er seint en aldrei. Ríkisstjórnin er nú að framkvæma það sem lofað var fyrir kosningar og er að því leyti ólík ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem lofaði og sveik.

Einhverjir munu gagnrýna þessa millifærslu fjármuna, sem með einum eða öðrum hætti kemur frá skattgreiðendum hvað sem hver segir. En þeir hinir sömu hefðu þá frekar átt að gagnrýna það þegar ríkið tók á sig hundraða milljarða skuldbindingar með því að ábyrgjast allar innistæður á innistæðureikningum í bönkum langt umfram skyldu.

Hefði skuldaleiðréttingin ekki verið gerð á óréttlátum ímynduðum virðisauka verðtryggingarinnar, en bara borgað fyrir þá sem áttu, en þeir sem skulda látnir liggja óbættir hjá garði þá yrðum við áfram þjóðfélag sem ekki gætti neins réttlætis.

Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar er staðfest algjör skömm og svik þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar og skjaldborgar þeirra um skuldsett heimili.

Í stað þess að fagna því jákvæða sem ríkisstjórnin er að gera, þá finnst sporgöngufólki Samfylkingar og Vinstri grænna rétt að mótmæla við Alþingishúsið, jafnvel því sem Alþingi kemur ekkert við og hefur ekkert með að gera. 

Lánleysi mótmælandanna sem koma saman til að mótmæla einhverju af því bara er í besta falli grátbrosleg við þessar aðstæður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.4.): 31
  • Sl. sólarhring: 74
  • Sl. viku: 2691
  • Frá upphafi: 2508774

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 2532
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband