Leita í fréttum mbl.is

Sigurvegararnir

Þann 17 júní 2020 fyrir 14 mánuðum var slegið upp veislu á Bessastöðum og forseti lýðveldisins hengdi æðsta heiðursmerki Íslands, fálkaorðuna í barm landlæknis, sóttvarnarlæknis og Víðis yfirlögregluþjóns fyrir að hafa unnið sigur á hinni illvígu Kóvíd veiru. 

Í kvæði Steins Steinars um Jón Kristófer Sigurðsson kadet í Hjálpræðishernum segir m.a.

"En syndin er lævís og lipur og lætur ei standa á sér".

Eins var farið með veiruna og syndina. Veiran reyndist lævís og lipur og aftur kom hún á fullri ferð tveim mánuðum eftir sigurhátíðina á Bessastöðum og hefur hrjáð landann síðan.

Einn sigurvegaranna sóttvarnarlæknir hefur skilað minnisblöðum til ráðherra og ríkisstjórnar, þegar honum hefur þótt mikið liggja við og ætíð hefur verið við brugðist og farið að minnisatriðum hans í öllum atriðum sem máli skipta. 

Í vor og sumar hófst nýtt áhlaup, bólusetningar, gegn veirunni og sigurstefið sungið dag hvern í Laugardalshöllinni og klappað fyrir veirutríóinu. Lúðraþeytarar þeyttu horn sín og skemmtikraftar létu til sín taka í hinni nýju sigurhátíð, þar sem engu skyldi eirt í baráttunni við hina lævísu veiru og allir bólusettir með illu eða góðu og veirunni útrýmt í eitt skipti fyrir öll. 

Enn á ný reyndist veiran samt lævísari og liprari og sat um mannanna heilsu og bar þann sigur af hólmi að smit fór í hæstu hæðir þó að fáir veikist og að enn á ný er hafinn hræðsluáróður m.a. af valinkunnu sæmdarfólki eins og Helgu Völu Helgadóttur alþingismanni, lögfræðingi,  sérfræðingi í veirufræðum en þó aðallega sérfræðingi í að fiska í gruggugu vatni.

Helga Vala Helgadóttir, lýsir því fjálglega í þætti á Hringbraut hversu lævís og lipurt nýja afbrigði veirunnar sé og helst var á henni að skilja, að einn heilbrigðisstarfsmaður þyrfti að sitja við rúmstokk smitaðs einstaklings nótt sem nýtan dag vegna ofskynjana sem fylgdi sýkingu af þessu afbrigði veirunnar. Raunar koma þessar staðhæfingar Helgu nokkuð flatt upp á þá sem hafa afskipti af þeim sem nú eru Kóvíd smitaðir. En sérfræðingi í sjónhverfingum verður allt að vopni.

Fáum kom á óvart að Helga Vala Helgadóttir vildi reyna að slá sig til pólitísks riddara á fölskum forsendum og freista þess að koma höggi á ríkisstjórnina. Afstaða og framganga ýmissa annarra kom meira á óvart.

14 mánuðum eftir að forseti lýðveldisins lýsti yfir sigri í baráttunni við veiruna rétt eins Bush jr. forðum í Írak, með orðunum "Mission accomplised" þótti forseta lýðveldisins við hæfi að afloknum ríkisráðsfundi, að snupra ríkisstjórnina eins og þar fari óþekkir krakkar fyrir að fylgja ekki ráðum sigurvegaranna orðum prýddu. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin verði um margt annað sökuð með réttu en einmitt það.  Á sama tíma bregður krossriddarinn Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sér í hlutverk eins og talsmaður stjórnmálaflokks með gildishlaðinn pólitískan málflutning. 

Það er hægt að fyrirgefa Helgu Völu margt vegna þess að takmarkaðar kröfur eru til hennar gerðar um rökfastan málflutning raunar því miður eins og fjölmarga aðra alþingismenn.

Ýmsir aðrir eiga meira undir og á þá við hið latneska máltæki.

Nomina sunt odiosa.

 

 


Bloggfærslur 6. ágúst 2021

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 265
  • Sl. sólarhring: 1067
  • Sl. viku: 7719
  • Frá upphafi: 2311980

Annað

  • Innlit í dag: 253
  • Innlit sl. viku: 7143
  • Gestir í dag: 251
  • IP-tölur í dag: 246

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband