Leita í fréttum mbl.is

Þursaveldið

Í síðustu viku hitti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ráðamann frá Saudi Arabíu og sagðist hafa rætt við hann um mannréttindi. Gaman hefði verið að vera fluga á vegg og hlusta á samtalið. Mannréttindi hafa nefnilega ekki þvælst fyrir þessu þursaveldi þar sem öfgafyllsta útfærsla af Íslam ræður ríkjum.

Baráttukonur í Saudi Arabíu gerðu kröfu um að þeim og öðrum konum í landinu yrði leyft að aka bifreið. Þegar ríkisstjórnin í þursaríkinu gat ekki lengur staðið gegn þeirri kröfu var það leyft, en síðan heimsótti lögreglan í fyllingu tímans baráttukonurnar og handtóku þær og margar sitja enn í fangelsi. Þursar bíða nefnilega síns tíma. 

Nokkrum mánuðum áður en fjármálaráðherra hitti fulltrúa þursaveldisins voru framkvæmdar fjöldaaftökur í þursaríkinu þar sem 81 maður var tekinn af lífi fyrir ýmsar sakir m.a. að hafa afbrigðilegar trúarskoðanir og ríkissjónvarpið sagði að þeir sem hefðu verið teknir af lífi hefðu gengið erinda Djöfulsins.

Fróðlegt hefði verið að heyra hvort fjármálaráðherra hafi tekið upp mál manns að nafni Badawi, sem hefur verið bannað að fara úr þursaríkinu til konu sinnar og þriggja barna sem búa í Kanada, en þau neyddust til að flýja eftir að Badawi hafði verið dæmdur til að þola 1000 vandarhög opinberlega, 50 á viku í 20 vikur og  tíu ára fangelsi að auki. Þegar hann var leystur úr haldi var sett á hann 10 ára ferðabann. Badawi fékk nýlega Sakharov verðlaunin fyrir hugsanafrelsi.

Badawi sem er bloggari hafði unnið sér það til sakar að gagnrýna Trúarbragðalögreglu þursaveldisins. Lögregluna sem bannaði að ungar stúlkur sem voru í brennandi húsi fengju að fara úr húsinu af því að þær voru ekki sómasamlega klæddar að mati lögreglunnar Þær brunnu allar inni. Ótrúlegt en svona ógeð gerist í þursaríkjum. Þessa lögreglu sem ber konur ef þær eru ekki í fylgd karlmanns eða það sést í öklana á þeim eða hárið leyfði Badawi sér að gagnrýna og  hefur þurft að þola fangelsi og vandarhögg og nú ferðabann í 10 ár fyrir. 

Við fulltrúa þessa þursaríkis sagðist íslenski fjármálaráðherrann hafa talað um mannréttindi. Það hafa raunar ýmsir aðrir vestrænir stjórnmálamenn sagst hafa gert. En þeir hafa annaðhvort ekki tjáð sig nægjanlega skírt eða þursaveldið tekur ekki neitt mark á þeim. Mér er næst að halda að hvorutveggja eigi við. 

Þursaveldið fer sínu fram vitandi að Vesturlönd gera ekki neitt þrátt fyrir glæpi þess innanlands sem erlendis eins og m.a. kemur fram í bókinni "Sleeping with the Devil" sem fyrrum háttsettur embættismaður í Bandaríkjunum skrifaði um samskipti ríkjanna.

Badawi hefur nú fengið Sakharov verðlaunin vegna baráttu fyrir hugsanafrelsi og ber að þakka það.  En baráttan gegn þursaveldinu þarf að taka aðra stefnu en vinsamleg orð um mannréttindi þar í land sem útúrdúr frá raunverulegu umræðuefni. Af hverju eru þeir ekki beittir sama harðræði og Rússar t.d. og eignir Saudi Arabískra auðmanna frystar? Það gæti haft áhrif.


Bloggfærslur 29. apríl 2022

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 29
  • Sl. sólarhring: 1127
  • Sl. viku: 7244
  • Frá upphafi: 2312892

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 6705
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband