Leita í fréttum mbl.is

Vont mál

Það er óafsakanlegt, að forsætisráðherra, fjármálaráðherra og fleira forustufólk í íslenskum stjórnmálum skuli hafa kosið að geyma peningana sína í hulduhvelfingum eyjunnar Tortóla í umsjá lögmannsstofu í Panama. Ég hef iðulega gagnrýnt Kastljós og RÚV, en í þetta sinn sýndi stofnunin að hún getur tekið heildstætt og hlutlægt á málum.

Á sama tíma og þessir sömu forustumenn hafa staðið vörð um verðtryggingu og hávaxtastefnu, sem hefur íþyngt fólkinu í landinu kýs það að vera í allt öðru umhverfi með sína peninga en fólkið í landinu. Þetta er líka fólkið sem hefur sagt að krónan væri framtíðargjaldmiðill íslensku þjóðarinnar. Af hverju vildu þau þá frekar vera með peningana sína erlendis í leynihvelfingum þar sem vextir eru lægri en hér á landi. Af hverju? Einhverjir hagsmunir eru því tengdir og það er í sjálfu sér ekki flókið að sjá hverjir þeir eru.

Þegar fullyrt er af forsætisráðherra að allt hafi verið talið fram og full skattaskil hafi átt sér stað þá má spyrja á móti hvort Wintris félagið hans eða önnur félög forustumanna í pólitík á Tortólu hafi skilað ársreikningum. Sé svo hvenær gerðu þau það og hvernig? Ég tel upp á að þau hafi ekki skilað ársreikningum og tal um rétt skil á sköttum og gjöldum eru þá einhliða yfirlýsingar sem ekki verða hraktar vegna leyndarinnar varðandi starfsemi og fjármál viðkomandi félaga.

Í kjölfar bankahrunsins í október 2008, skipti máli að byggja upp traust fólksins í landinu á mikilvægustu ríkisstofnunum og stjórnmálamönnum. Ég taldi á þeim tíma einsýnt að Sjálfstæðisflokkurinn mundi fara í gagnrýna skoðun á stefnu sinni og störfum næstu ár á undan, viki frá sérhagsmunavörslu og reyndi á nýjan leik að ná því trausti að flokkurinn gæti í raun talist flokkur allra stétta. Yrði á ný raunverulegur þjóðarflokkur. Þess vegna gekk ég á ný til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, þar sem ég aðhyllist einstaklingsfrelsi og athafnafrelsi einstaklingsins, lítil ríkisumsvif og frjáslynd viðhorf í stjórnmálum.

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði einum af hverjum þrem kjósendum sínum við Hrunið eða um 33% stuðningsfólks síns og hefur ekki endurunnið traust þeirra. Þverrandi líkur eru á því að núverandi forustufólk flokksins nái að endurvinna það traust.  

Nú þegar upplýst hefur verið að formaður Sjálfstæðisflokksins og fleiri forustumenn hans voru með hendurnar á bólakafi í kökuboxi skattaskjóla og leyndar sem og virkir leikendur í aðdraganda Hrunsins, þá er líklegt að traust á Sjálfstæðisflokknum minnki enn frekar og spurning hvort ekki sé nauðsynlegt að þau axli þá flokkslegu ábyrgð að segja af sér.

Jóhann Hafstein einn merkasti forustumaður Sjálfstæðisflokksins fyrr og síðar sagði einu sinni að það væri engin maður svo merkilegur að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki miklu merkilegri.

Það á að gera ákveðnar siðrænar kröfur til stjórnmálafólks. Þeir sem taka að sér forustustörf í stjórnmálum verða að afsala sér ýmsu sem afsakanlegt getur hugsanlega verið hjá öðrum.

Siðvæðing íslenskra stjórnmála er nauðsynleg. Byggja verður upp traust milli þjóðar, þjóðfélagsstofnana og stjórnmálamanna. Það þolir enga bið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú ert maður að meiri fyrir þessi orð Jón. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.4.2016 kl. 09:44

2 identicon

Uppljóstrunin vekur upp fleiri spurningar en svör. T.d. er þarna komið féð sem var afskrifað eða setti félög í þrot.

Magnus Magnusson (IP-tala skráð) 4.4.2016 kl. 11:51

3 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Góð grein hjá þér Jón. Það er að vísu óspurt og  því ósvarað, á hvaða verði keypti Wintris kröfurnar í þrotabú bankanna. Hafi verðið verið 10% af nafnverði eins og orðrómur gekk um að kröfurnar hafi verið seldar á eftir hrunið, ætti það að vera nokkuð sársaukalaust að greiða einhvern smáskatt til íslenska ríkisins (stöðugleikaskatt) og ekki ástæða til að mála sig sem einhvern píslarvott.

Nú tel ég eins og sennilega fjöldi annarra kjósenda Sjálfstæðisflokksins að ekki dugi að taka "HönnuBirnu" á þetta mál og segja að SDG hafi verið mun verri, engu saman að jafna og sitja sem fastast í ráðherrastólum.  

Ef Sjálfstæðisflokkurinn vill hafa tveggja stafa prósentutölu í fylgi, er ekki annað til ráða en að skipa strax nýtt fólk í stöðu fjármála-og innanríkisráðherra, áður en Byltingin rekur ríkisstjórnina alla og ræður Pírata til að taka við af þeim.

Kjartan Sigurgeirsson, 4.4.2016 kl. 13:45

4 Smámynd: Jón Magnússon

Takk fyrir það Ásthildur.

Jón Magnússon, 4.4.2016 kl. 14:18

5 Smámynd: Jón Magnússon

Við erum greinilega alveg sammála Kjartan.

Jón Magnússon, 4.4.2016 kl. 14:19

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Kjartan, þú kemur með nýjar upplýsingar. Keypti Wintris kröfur í gömlu bankana? Hvar hefur það komið fram?

Hingað til hafa öll gögn bent til þess að þarna sé um að ræða fyrirfram greiddur arfur forsætisráðherrafrúarinnar og ekkert annað. Kröfurnar á gömlu bankanna séu til komnar vegna eignar hennar innan bankanna við fall.

Þarna er því mikill stigsmunur á, annars vegar þeir sem raunverulega töpuðu á bankahruninu, eignum sem þeir áttu innan þess fyrir og í hruninu og hins vegar þeir sem nýttu sér hrunið til kaupa á kröfum fyrir lítið fé í von um gróða.

Ef forsætisráðherrafrúin er í síðari hópnum og þú hefur sannanir fyrir því, endilega upplýstu okkur hin um þær. Að öðrum kosti ættir þú að tala varlega og ekki búa til Gróusögur!!

Gunnar Heiðarsson, 4.4.2016 kl. 15:35

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir sérlega góðan pistil, Jón.

Ómar Ragnarsson, 4.4.2016 kl. 20:51

8 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Mikill álitshnekkir fyrir viðkomandi.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 4.4.2016 kl. 22:49

9 Smámynd: Jón Magnússon

Takk fyrir hólið Ómar.

Jón Magnússon, 5.4.2016 kl. 07:29

10 Smámynd: Jón Magnússon

Svo ekki verður um villst ef fólk vill sjá það Heimir.

Jón Magnússon, 5.4.2016 kl. 07:29

11 Smámynd: Samstaða þjóðar

Ríkisstjórnin hefur vissulega ekki staðið undir væntingum fjölmargra kjósenda. Hins vegar kemur ekki til álita, að láta S-maurana hrekja hana frá völdum. Baráttan gegn ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og hennar þjóðsvikaliði má ekki gleymast fyrir atbeina óheiðarlegra vinnubragða (svikamyllu) RUV og Jóhannesar Kr. Kristjánssonar. Atlagan að Sigmundi Davíð var það ógeðfeldasta  sem nokkru sinni hefur sést á þessu landi.

 

Aflands-reikningar eru ekki siðlegir, en Evrópusambandið er stofnað til að standa vörð um »Torgreinda peningastefnu« og ólýðræðislega stjórnarhætti. Ein af afleiðingunum eru frjálsir fjármagnsflutningar, innan ESB og einnig innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem S-maurarnir komu Íslandi í. Viðurkennt er að Bretland og Lúxemborg eru skattaskjól. Hver er munur á þessum skattaskjólum og Panama og Tortola?

 

Stuðningsmönnum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs ber skylda til að lagfæra það sem er aðfinnsluvert í störfum hennar. Látum ekki þá stjórna atburðarásinni í landinu, sem alltaf hafa unnið gegn hagsmunum þjóðarinnar. Það fólk sem laut í gras fyrir Icesave-kröfum nýlenduveldanna og elskaði svo hrægammana að þeim var færð Stóra bankagjöfin, er þess ekki verðugt að leiða þjóðmála-þróun landsins.

 

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 5.4.2016 kl. 14:20

12 identicon

Fyrirgefðu en leggur þú Jón virkilega að jöfnu hlut Sigmundar og fjármála- og innanríkisráðherra í þessu samhengi? Með hendurnar á bólakafi í kökuboxi skattaskjóla???? Ja hérna.

Ég sem hélt að þú værir einn af þeim er heyrandi, læs og allt. 

Vissulega tók þetta fólk eðlilegan þátt í lífinu fyrir ábyrgðahlutverk í stjórnmálum en eftir það veist þú og þið fullvel að þau hafa hreinan skjöld og ekkert í kökuboxum þeirra eins og Sigmundar.

Kröfur ykkar eru kannski bara eins og þeirra ungu og óreyndu að fá fólk til starfa sem hefur aldrei tekið þátt í einu né neinu og helst dundað sér við að vera heima á þunglyndislyfjum í tölvuleikjum eða semjandi ljóð - og sjá svo veröldina einfalda og rósrauða og tala voða fallega.

Fyrir mína parta treysti ég Bjarna og Ólöfu 110%, stöðug stjórn er það sem við þurfum núna - fyrst og fremst efnahagsmálin.

Fyrir utan að stjórnarandstöðuflokkarnir hafa ekkert fylgi - fyrir utan Píratana sem eru bara ekki tilbúnir sbr. hugmyndasmið þeirra hann Smára Mceitthvað.

Svo verðum við öll að muna að siðvæðingin á að ná alla leið, líka til okkar sjálfra. Berjumst t.d á móti öllum skattsvikum, kaupum ekki eða seljum svarta vinnu, vörur o.s.frv. Þá gerum við fyrst farið að kasta steinum.

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 5.4.2016 kl. 21:39

13 Smámynd: Jón Magnússon

Nei ég legg hann ekki að jöfnu Sigrún þar er verulegur munur á. Samt sem áður tel ég að þeir sem upplýst er um að hafi verið með peninga á Tortóla eða viðlíka stöðum í umsjá lögmannsstofunnar í Panama verði að axla ábyrgð á því. Sigrún í Bretlandi er meira að segja talað um að David Cameron eigi erfitt vegna þess að pabbi hans var með svona reikning. Þar gerir fólk greinilega meiri siðferðiskörfur en hér- því miður erum við það aftarlega á merinni.

Svo er annað Sigrún þó þú treystir Bjarna og Ólöfu 110% þá ert þú í miklum minnihluta landsmanna sem það gerir og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki náð vopnum sínum undir þeirra stjórn. Ef til vill vegna þess að þau voru með báðar hendur í kökuboxinu fyrir Hrun og framyfir það.

Jón Magnússon, 6.4.2016 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 375
  • Sl. sólarhring: 488
  • Sl. viku: 4196
  • Frá upphafi: 2427996

Annað

  • Innlit í dag: 345
  • Innlit sl. viku: 3881
  • Gestir í dag: 324
  • IP-tölur í dag: 302

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband