Leita í fréttum mbl.is

Hakakross og hamar og sigð.

Hakakrossinn tákn nasistanna hefur verið bannaður í mörgum löndum  frá stríðslokum. Nú hefur þing Litháen bannað sovésk tákn eins og hamarinn og sigðina og sovésku kommúnistastjörnuna.

Hvað á að ganga langt í að banna? Mörgum kann að finnast meira spennandi að nota tákn sem eru bönnuð. Það er líka spurning um önnur merki og tákn hvort ekki eigi að banna þau eða taka úr umferð.

Ofan á Alþingishúsinu trónir merki dansks arfakonungs. Ekki er vilji til að taka það niður og setja íslenska skjaldarmerkið í staðinn. Þessi danski arfakonungur var andsnúinn þingræði merki hans er tákn um ófrelsi Íslands. Samt höldum við í það. 

Ég velti fyrir mér hvort það sé eðlilegt að banna merki eins og þessi og afmá spor sögunnar.  Hver tími verður að hafa frelsi til að aðlaga hlutina að eigin veruleika. Þess vegna vil ég losna við merki danska arfakonungsins af Alþingishúsinu. Það má þó nota annarsstaðar.

Hin merkin sem minna á ófrelsi, mannhatur og ógnarstjórnir hafa gildi til að minna okkur á. Er rétt að banna hakakrossinn og hamarinn og sigðina?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Krossar og hringir eru elsta trúartákn í heiminum, líklega ekki yngri en 7000 ára, og hakakrossinn er ekki langt undan. Hakakrossinn er í raun sama merkið og þórshamar sem er ein útgáfa að sólartákni, rétt eins og írsku krossarnir sem eru miklu eldri en kristni og er hægt að finna sem rún í norrænum sið og var notuð sem haugfé. Hindúar, búddistar og náttúrutrúarmenn, sem voru frumbyggjar Vínlands nota allir tákn sem líkist hakakross. Eimskipafélagið var með þetta gamla þjóð- og alþjóðlega merki í fána sínum en lét undan þrýstingi skammsýnna manna. Það geri ég ekki því ég hef gengið með lyklakippu í vasanum með hakakross (þórshamri) í 20 ár.  Hamar og sigð eru áhöld og þau verða ekki bönnuð þó einhver noti þau í röngum tilgangi.

Sigurður Þórðarson, 1.7.2008 kl. 12:07

2 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Þó ég skilji vel þær tilfinningar sem ráða slíku banni (eða skilið þær að því marki sem hægt er án þess að hafa upplifað hörmungar nasista og kommúnista stjórna) Þá má ekki gleyma því að hverskyns boð og bönn bera líka vott um ófrelsi.

Nútíma lýðræðissamfélög þurfa því að hampa frelsinu frekar enn ófrelsinu. Tjáningarfrelsið er lykill lýðræðis og að því leyti þykir mér bann við hverskyns táknmyndum hæpið...

Aðalheiður Ámundadóttir, 1.7.2008 kl. 12:53

3 Smámynd: Andrés Magnússon

Má ekki þvert á móti segja að konungsmerkið á Alþingishúsinu sé þörf, nei nauðsynleg, áminning þingmönnum um sjálfstæði og frelsi landsmanna?

Andrés Magnússon, 1.7.2008 kl. 13:23

4 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Það er ákveðin þversögn fólgin í því að banna merkjafræði kúgarana og gera þá þar með meira spennandi.

Persónulega óttast ég ekki hakakross sem merki, þar sem hann er ekki eingöngu merki þjóðernissósíalista, heldur líka flestra heiðinna trúarbragða, sólar og fl. Hamar og sigð eiga náttúrulega að tákna bændur og verkamenn en ekki kommúníska kúgun, gúlag og hugsanalögreglu, en þeirri merkingu hefur að sjálfsögðu verið hlaðið á þetta merki með sovéskri kúgun.

Persónulega skil ég ekkert hvað þetta skjaldarmerki er ennþá að gera þarna, en ég vil langt því frá banna það...

...bönn gera hlutina bara meira spennandi fyrir þá sem ekki skilja rætur bannsins. 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 1.7.2008 kl. 13:38

5 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Banna,  banna, brenna brenna, brjóta styttur og rústa húsum, burt með allar minjar.

Hverjar væru einkunnir slíkra ,,menningaþjóða"??

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 1.7.2008 kl. 15:13

6 identicon

Ég er sammála síðasta ræðumanni sem talaði á undan síðasta ræðumanni já eða nei það er víst annar þar á milli. Sjálfstæði Íslendinga hefur ekki farið hátt þegar við afsöluðum 17% af frelsi okkar til ESS samningsins. Kannski voru það mistök í munni Jón Sigurðssonar forseta þegar hann sagði forðum ,,Vér mótmælum allir.'' Honum hefði verið nær miðað við hnignandi sjálfstæði Íslands nú á dögum að segja ,,Vér samþykkjum allir.'' og þá hefðu við ekki þurft að vera með þennan rembing að nálgast evruna við hefðum gert það áfram sem áður í gegnum dönsku krónuna enn þann dag í dag.  Merki danska arfakonungsins á alþingishúsinu er því góður staður settur og þá í merkingunni - engin veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 22:07

7 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Á því Herrans ári (Guðs, ekki konungs) 1988 var flutt tillaga til þingsályktunar um að fjarlægja skyldi "monogram" Kristjáns níunda af þaki Alþingishússins. Þessi tillaga hlaut nú engan sérstakan hljómgrunn, upphafsstafir konungs standa enn-húsinu til mikillar prýði. Ég tek undir orð Andrésar Magnússonar um nauðsyn þess að merkið fái að standa þarna til framtíðar. Það má þá eins finna að því að Alþingi haldi fundi sína í húsi sem hinn téði konungur lét reisa yfir starfsemina?

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 1.7.2008 kl. 22:26

8 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Einn þeirra sem lögðu orð í belg á þessu þingi sem fyrr var nefnt var Þorvaldur Garðar :

"Mér þykir fara vel á að vitna til greinar í Morgunblaðinu frá 16. síðasta mánaðar sem rituð er af Þór Magnússyni þjóðminjaverði í tilefni af þeirri hugmynd að fjarlægja kórónuna. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingishúsið er friðlýst samkvæmt lögum sem Alþingi sjálft setti, enda er það hús eitt merkasta byggingarsögulega minnismerki landsins og verða menn að taka því að það skuli teiknað af dönskum arkitekt og byggt af dönskum múrarameistara. Friðun þess þýðir að húsinu skuli ekki breytt að ófyrirsynju, enda hefur þess verið gætt í seinni tíð að halda því sem best við og í sinni réttu og upphaflegu mynd, ytra sem innra. Færi Alþingi nú í fljótræði að svipta húsið þessu sögulega minnismerki væri framið mikið óhæfuverk og slíkt eru aðrar þjóðir löngu hættar að gera. Mundi þá fleira geta komið á eftir og mætti ætla að skjaldarmerkinu á safnahúsinu með kórónunni yrði þar næst lógað og síðan kynni mönnum að detta í hug að mátulegra væri að setja styttu af einhverjum stjórnmálamanni sem getið hefði sér orð framan við Stjórnarráðið í stað styttunnar af Kristjáni konungi níunda."

Síðan hélt Þorvaldur Garðar áfram :

    "Ég á ekki von á að minnismerkið gamla verði fjarlægt af Alþingishúsinu. Til þess eru hv. alþm. nógu víðsýnir og minnimáttarkenndin gagnvart Dönum er löngu farin veg allrar veraldar. Við megum heldur ekki gleyma að Kristján níundi var ekki einungis konungur Danmerkur, hann var konungur Íslands einnig.
    Við hljótum að vera menn til þess að varðveita sögulegar minjar og friðhelgi okkar fagra Alþingishúss. Mér skildist raunar í lokaorðum hv. 3. þm. Norðurl. e. að hann hefði sjálfur enga trú á því að þessi tillaga hans næði fram að ganga."

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 1.7.2008 kl. 22:40

9 Smámynd: Jón Magnússon

Bjarni ég er sammála þér einkunnir slíkra þjóðar væru lélegar. Ég held líka að þa skipti máli að varðveita söguna ekki bara það góða heldur líka það sem miður fer.

Jón Magnússon, 1.7.2008 kl. 23:47

10 Smámynd: Jón Magnússon

Aðalheiður það er einmitt mergurinn málsins að hampa frelsinu frekar en ófrelsinu. Mér finnst líka mikilvægt að það sé minnt á ófrelsið til að ungur kynslóðirnar gleymi því ekki.

Jón Magnússon, 1.7.2008 kl. 23:48

11 Smámynd: Jón Magnússon

Prédikari þakka þér fyrir vandað innlegg. Þó ég hafi ekki verið sammála Þorvaldi á sínum tíma eða því að Alþingishúsið eigi að vera friðlýst þá skil ég samt vel þá afstöðu.

Mér finnst mikilvægt að þjóðþingið sé lifandi vettvangur samtímans hverju sinni og sé það þannig að umgjörðin utan um þjóðþingið sé orðinn safngripur þá finnst mér eðlilegast að gera umgjörðina að safni og flytja þjóðþingið í nýtt lifandi umhverfi

Jón Magnússon, 1.7.2008 kl. 23:50

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hamar og sigð og hakakrossinn "gildi til að minna okkur á," segirðu? Er þér alvara, nafni? Og hvernig dettur þér í hug að líkja þessum viðbjóðstáknum við merki okkar ágæta, virta kóngs Kristjáns IX, 'tengdaföður Evrópu'? Er það okkar að álasa honum fyrir lítinn stuðning við lýðræði, þegar það var nánast nýtt hér á Vesturlöndum? Og var ekki lýðkjörið þing í Danmörku þá? Hvað ertu eiginlega að fara, nafni minn? Ertu ekki sjálfur að óska okkur þess að leggjast undir helsi ESB? Aldrei gæti ég kosið neinn, sem hefur þá stefnu, með fullri virðingu að öðru leyti.

Jón Valur Jensson, 1.7.2008 kl. 23:57

13 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þú ert yndislega öfgafullur Viðar.

Óskar Þorkelsson, 2.7.2008 kl. 01:26

14 Smámynd: Jón Magnússon

Það er mikill misskilningur ágæti Jón Valur að ég sé að bera saman nasista, kommúnista og Kristján 9. Danakonung. Þetta var tekið í dæma skyni vegna spurningar hvort við ættum að hafa fallin merki uppi eða ekki.

Svo er það mikill misskilningur Jón Valur að ég sé að óska eftir því að við göngum í Evrópusambandið. Ég tel hins vegar ábyrgðarleysi að kanna ekki hvort það er valkostur eða ekki. 

Jón Valur og Viðar teljið þið eðlilegt að við séum í EES? Ef svo er eru þá ekki e.t.v. kostir umfram það algjöra áhrifaleysi sem við höfum þar að vera frekar aðilar að Evrópusambandinu?

Viljið þið e.t.v. frekar fara leið Ögmundar Jónassonar og segja Ísland úr EES. Það er alla vega pólitísk afstaða sem er sjálfu sér samkvæm

Jón Magnússon, 2.7.2008 kl. 11:50

15 identicon

Ömurlegt að banna hakakrossinn.

"We fly the Swastika

We fly it strong and true

We are never gonna take you down

For a communist or jew" 

Johnny Rebel (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 23:10

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég þakka þér svarið, nafni. Svar mitt við spurningu þinni, hvort betra sé að vera í ESB en einungis í EES, er eindregið NEI.

Verð að láta þetta duga í bili, ágæti Jón. 

Jón Valur Jensson, 2.7.2008 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 30
  • Sl. sólarhring: 907
  • Sl. viku: 3718
  • Frá upphafi: 2449202

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 3489
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband