Leita í fréttum mbl.is

Eva Joly

Fyrrverandi dómsmálaráðherra gekkst fyrir því að skipaður var sérstakur saksóknari til að fara með máli sem tengdust bankahruninu. Það skiptir miklu að vel takist til með störf sérstaks saksóknara og starfsfólks hans. Ég var ánægður með það þegar fram kom að ráða ætti erlendan sérfræðing Evu Joly til starfa sem ráðgjafa í sambandi við þessa rannsókn. Þó að vissulega hafi runnið á mig tvær grímur þegar ég komst að því að hún virðist meiri stjórnmálamaður núorðið en rannsóknardómari þá útiloka ég ekki að það sé fengur að fá hana til starfa.  

Það sem kemur mér hins vegar nokkuð spánskt fyrir sjónir hvað varðar Evu Joly er að hún skuli ekki eiga að starfa á skrifstofu sérstaks saksóknara. Að hún skuli ekki vera algjörlega tengd því embætti. Ég hefði talið að störf hennar myndu nýtast best með þeim hætti. Ég get ekki séð að það sé eðlilegt að Eva Joly starfi í einhverjum óskilgreindum tengslum við sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins.   

Þá kom sú frétt Jón Þórisson, arkitekt og tengiliður Evu Joly á Íslandi eigi að fá  greiddar um 480 þúsund krónur í verktakagreiðslur næstu tólf mánuði vegna starfa fyrir hana gjörsamlega á óvart. En auk þess mun hann fá 1,3 milljónir króna til að koma upp og reka skrifstofu í hennar nafni. Að sögn Jóns munu heildargreiðslur vegna starfa hans nema um 6,7 milljónum króna á tímabilinu.

Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu er áætlað að heildargjöld vegna verkefna á vegum Evu Joly geti kostað um 67 milljónir króna á ári. Innifalið í þeirri upphæð eru laun hennar um 1,3 milljónir króna á mánuði, greiðslur til sérfræðinga sem hún og sérstakur saksóknari koma sér saman um að geti gagnast við rannsókn á bankahruninu og greiðslur til Jóns sem tengiliðs Joly.

Samningur Joly gerir ráð fyrir því að hún starfi við rannsóknina fjóra daga í mánuði. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins um málið kemur fram að Jón muni meðal annars „þýða nauðsynleg skjöl og afla trúnaðarupplýsinga hérlendis sem hann mun koma á framfæri við Evu Joly“. Mér finnst þetta með miklum ólíkindum. Nefndur Jón er arkitekt en ekki skjalaþýðandi. Hann hefur ekki svo vitað sé unnið að sakamálum eða hefur nokkra þekkingu eða reynslu í því sambandi. Þá velti ég því fyrir mér hvernig Jón á að afla trúnaðarupplýsinga. Hann hefur ekki stöðu til að skoða trúnaðarupplýsingar eða afla þeirra. Ég spyr af hverju er þessi maður ráðinn. Getur enginn annar unnið með Joly. Getur enginn sem hefur þekkingu og hæfi unnið þessi verk fyrir hana. Hvaða vitleysa er þetta eiginlega? 

Mér finnst eðlilegt að kallað verði eftir svörum frá dómsmálaráðherra hvað um er að ræða og hvort þetta geti kallast eðlilegt verklag og líklegra til að skila árangri en það að Eva Joly vinni á skrifstofu sérstaks Saksóknara og af hverju hún gerir það ekki.

Eins og ég var ánægður fyrst þegar ég frétti af komu Evu Joly til starfa þá verð ég að viðurkenna að allur þessi umbúnaður og undarlegheit valda mér miklum efa um að rétt sé að verki staðið hvað hana varðar og þá sérstaklega þennan sérstaka Jón skjalaþýðanda hennar og miðlara og aflara trúnaðarupplýsinga.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Eva bað um Jón, skilst mér og borgar honum! Ætli hún treysti honum ekki?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 9.4.2009 kl. 15:23

2 Smámynd: ThoR-E

Eva Joly hlýtur að mega ráða sér aðstoðarmann. Þessi maður hafði með það að fá hana til landsins og hefur augljóslega unnið með Evu og það gengið vel... þannig að ákveðið hefur verið að hann haldi áfram að aðstoða hana.

Þetta er full vinna hjá honum... finnst þér að hann ætti að vinna kauplaust??

Þetta eru nú engin ofurlaun sem hann hefur, frekar en frú Joly.

ThoR-E, 9.4.2009 kl. 17:30

3 Smámynd: Finnur Bárðarson

Það eru sterk öfl innan lands sem munu gera altt sem í þeirra valdi stendur til að hindra störf hennar.

Finnur Bárðarson, 9.4.2009 kl. 18:15

4 identicon

Er virkilega hægt að borga of mikið fyrir þetta þjóðþrifaverk sem Joly er að vinna? Þegar enginn "íslenskur fagmaður" er traustsins verður og þú getur ekki bent á aðra “billegri” kandídata - þá ættir þú ekki að sjá eftir laununum. Þessi láglaunarómantík er úrelt Marxísk hugsanavilla og kallar á ríkt hugsjónafólk en ekki eftirsótt hæfileikafólk til starfa. Og áfram á þeim sömu nótum þá finnst mér að það ætti að HÆKKA laun þingmanna svo fleiri hæfileikamenn & konur gæfu kost á sér. Hærri laun koma í veg fyrir spillingu - Árni Johnsen hefði eflaust keypt sitt byggingarefni og vinyldúk í Byko ef hann hefði notið betri launa. Svona sparnaðarhjal er arfur frá krepputímum og hundrað ára gömlum kommúnistaáróðri.

Jón Ármann Steinsson (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 19:00

5 Smámynd: Halldór Jónsson

heyra í kommunum !

Halldór Jónsson, 9.4.2009 kl. 21:46

6 Smámynd: Jón Magnússon

Það virðist einhver misskilningur í gangi hjá ykkur sem að bloggið hér athugasemdir. Það er ekki verið að gera athugasemdir við Evu Joly eða aðstoðarmanninn heldur það að þau skuli ekki vinna með sérstökum saksóknara á skrifstofu hans.  Lög um sérstakan saksóknaa tryggja honum aðgengi að ákveðnum upplýsingum sem Eva Joly og aðstoðarmaðurinn hafa ekki með skrifstofu úti í bæ.

Jón Magnússon, 9.4.2009 kl. 23:29

7 identicon

Er hennar ráðning ekki líka það sem er kallað fælingarmáttur.

Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 04:36

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón:

Sammála þér í einu og öllu. Auðvitað á konan að vinna með sérstökum saksóknara. Reyndar finnst mér merkilegt hversu margir aðilar eru að rannsaka þetta:

  • Sérstök þingnefnd
  • Sérstakur saksóknari
  • Fjármálaeftirlitið 
  • Ríkislögreglan
  • Skattrannsóknarstjóri

Væri málum ekki betur fyrir komið að einn rannsóknaraðili hefði yfirumsjón með verkinu og þá með alla ofangreinda aðila með þeirra sérþekkingu innanborðs?

Eru menn ekki að dreifa kröftum sínum um of?

Ég var einn af þeim sem mældust á blogginu til þess að Eva Joly yrði ráðin af íslenskum stjórnvöldum og sé ekkert eftir því. Að hún hafi aðeins 4 daga mánuði er skiljanlegt. Kona af þessu "kalíber" í 4 daga er eflaust meira virði en einhverjir óreyndir aðildar í heilan mánuð.

Þetta með arkitektinn er mjög merkilegt og óskiljanlegt, þótt greiðslur til hans hneyksli mig alls ekki.

Auðvitað eru 1,3 milljónir ofurlaun! Miðað við 20 daga á mánuði er um 6,5 milljónir á mánuði að ræða. Fyrir það er hægt að ráða 10 rannsóknarlögreglumenn! Ég vil samt meina að peningunum til Evu Joly sé vel varið.

Ég er sammála þér Jón, að dómsmálaráðherra skuldar okkur útskýringu á þessum málum. 

Finnur:

Ég efast ekki um að margir vilji stoppa hana.

Ég hef hins vegar ekki heyrt af neinum sjálfstæðismanni, sem ekki hefur stutt að allt komið upp á borðið í þessum efnum. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.4.2009 kl. 10:43

9 identicon

Skattrannsóknarstjóri rannsakar meint skattalagabrot og hefur ákæruvald í þeim efnum eingöngu. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur það hlutverk að rannsaka aðdraganda bankahrunsins FME er eftirlitsaðili og átti að sjá til þess að m.a. bankar og fjármálastofnanir  starfi lögum samkvæmt en sérstakur saksóknari hefur víðtækar heimildir til að rannsaka meint brot sem átt hafa sér stað og sérstakur saksóknari hefur ákæruvald. Allar þessar stofnanir eru fámennar en eiga að sjálfsögðu að starfa náið saman þar sem það á við. Eva Joly er "fagmaður" hefur rannsakað og dregið menn til ábyrgðar fyrir svipaða glæpi og búist er við að hafi verið framdir  hér.

Hvaða máli skiptir hvaða menntun aðstoðarmaður Evu hefur?  Ég hef miklu meiri áhyggjur af því að hinn sérstaki saksóknari standi sig ekki þrátt fyrir að hann sé löglærður!

EG (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 11:22

10 identicon

Halldór Jónsson bendir á það sem allir vita: Að það eru hægri menn sem hafa á móti rannsókn. Þeir þykjast vera hlynntir rannsókn, en það vekur athygli að af öllu því sem er að gerast í rannsóknarmálum er það eina sem hægt er að finna að rannsóknarmálum, tengist Evu Joly. Það er ekkert að hjá Sérstökum saksóknara, ekkert að hjá efnahagsbrotadeildinni, Fjármálaeftirlitinu, sérstakri þingskipaðri nefnd. Nei, það er "arkitektinn" hennar Joly sem er stóri skandallinn í efnahagshruninu. Einn kvartar yfir laununum, annar yfir menntuninni, þriðji yfir ráðningarferlinu, fjórði yfir hættu á að mál spillist og svona áfram veginn.

Það sem menn eru í raun að segja: Við viljum enga rannsókn. 

Þjóðin lenti í tíuþúsundmilljarða gjaldþroti vegna heimskulegrar og barnalegra trúarbragða öfga hægri manna og aðaláhyggjuefnið er hvort skrifstofuhald á ári fyrir 1,3 milljónir sé sanngjarnt eða ekki.

Einsog Halldór segir: Heyra í kommunum. Það er þá niðurstaðan, It´s all about politics. Eru hægri menn að segja að þeir vilji bara rannsókn sem þeir geti haft fulla stjórn á?

Doddi D (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 14:42

11 Smámynd: Jón Magnússon

Doddi ég er að tala um að rannsókn á meintum brotum fari að eðlilegum reglum réttarríkisins og hvað getur talist eðlilegt í því sambandi. Það hefur ekkert með pólitík að gera. Ég var að ljúka við að lesa bók Evu Joly sem er um margt athygliverð en hún er óneitanlega mjög sjálfmiðuð kona.

Halldór er síðan fullfær um að svara fyrir sig sjálfur en hann er væntanlega að vísa í þær færslur sem komnar voru á undan.

Jón Magnússon, 11.4.2009 kl. 00:20

12 identicon

Mér hefur fundist gagnrýni á rannsókn einkum koma frá hægri sinnuðum bloggurum og hef furðað mig á því.

Mér hefur líka fundist vera sparðatínslublær á gagnrýninni. Ennfremur hef ég aldrei heyrt neinn af þessum sömu gagnrýnendum koma með tillögur eða hugmyndir um það hvernig mætti efla eða auka rannsóknarstarfið.

Ég tel að vönduð rannsókn í samstarfi við erlenda aðila, einkum breska og bandaríska gæti látið reyna á hvort hægt væri að ná tilbaka einhverjum alvöru hagsmunum, helst peningum og orðstír. 

Mér hefur líka fundist óspennandi og sorglegt að horfa fram á óhjákvæmileg bræðravíg innlend, þarsem millistjórnendur í bönkum og kerfinu eru teknir og hýddir og þeim refsað, oftast fólk sem er fórnarlamb hrunsins, atvinnulega og peningalega, fólk sem taldi sig vera vinna þjóð sinni gagn og trúði á kerfið og útrásina.

Ég óttast að ef rannsóknin verður innlend eingöngu, þá mun hún snúast um að fullnægja hefndarþorsta og uppfylla óskilgreindar réttlætiskröfur: Að einhverjum verði að fórna.

Alvöru erlend rannsókn, í samstarfi við alvöru fólk erlendis, gæti skilað okkur virðingu meðal þjóða og hugsanlega einhverjum fjármunum.

Tuð um sjálfmiðað fólk og menntun aðstoðarmanna, um stjórnsýslu og réttarríki er ótrúverðugt í þessu samhengi. Það eru engir aðstoðarmenn að fara flytja nein mál, né heldur útbúa stefnur. Um karakter Frú Joly er það að sega að hún náði árangri í kerfi sem er margfalt þyngra og harðara en hið íslenska, en hitt er rétt að henni var ekki spöruð ómálefnaleg gagnrýni. Og mér sýnist sama verða upp á teningnum á Íslandi

Doddi D (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 107
  • Sl. sólarhring: 190
  • Sl. viku: 3608
  • Frá upphafi: 2513412

Annað

  • Innlit í dag: 104
  • Innlit sl. viku: 3381
  • Gestir í dag: 101
  • IP-tölur í dag: 99

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband