Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Ræst í Reykjavík.

Það er öldungis merkilegt að það heiti að gangsetja stórvirkjun eins og Kárahnjúkavirkjun þegar tveir ráðherrar sitja í makindum og tala í síma. Að sjálfsögðu eru það þá aðrir sem annast um gangsetningu. Til stóð raunar að fjármála- og iðnaðarráðherra færu austur og gangsettu Kárahnjúkavirkjun en veður bönnuðu þeim alla för.

Vinstri grænir halda því fram að þar hafi landvættirnir gripið í taummana til að koma í veg fyrir að þessir ráðamenn gætu aðhafst það sem þeir ætluðu að gera.  Þeir geta trúað því en þetta veður sem bannaði ráðherrunum að taka flugið hefur verið á leiðinni og er ekki í neinu sambandi við gangsetningu Kárahnjúkavirkjunar.

En verst að ráðherrarnir skildu ekki ná í kokteilinn. Gangsetningin gengur hvort eð er með sama hætti hvort heldur svona herramenn eru viðstaddir eða ekki.


mbl.is Ræs! sagði Össur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristinn menningararfur.

Af hverju má skólastarf á Íslandi ekki byggjast á kristnum menningararfi og kristnum siðaskoðunum. Af hverju er þjóðfélag okkar eins og það er.  Kristin boðun kennir okkur umburðarlyndi, fyrirgefningu og kærleik. Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra. Af hverju má ekki byggja áfram á þessum sjónarmiðum í skólastarfi?  Menntamálaráðherra lagði áherslu á gildi kristninnar og kristinna lífsskoðana í umræðum á Alþingi í gær. Fyrst þær skipta svona miklu máli af hverju finnst henni þá réttlætanlegt að taka þau sjónarmið út sem viðmið við skólastarf í landinu.

Hverjir gera kröfu til þess að ekki sé talað um kristin gildi. Ekki þeir sem aðhyllast önnur trúarbrögð eða er það svo. Reynslan sýnir að þeir sem amast við kristnum gildum eru aðallega trúleysingjarnir sem bregða þá fyrir sig og nota aðra trúarhópa máli sínu til stuðnings. Þannig er það líka í okkar þjóðfélagi.

Við eigum ekki að gefa eftir hvað varðar íslenskan menningararf og kristin gildi.


Hnattrænn váboði?

Ég hlustaði á ræðu utanríkisráðherra áðan á fundi samtaka um vestræna samvinnu.  Ræðan var í sjálfu sér ágæt en það sem vakti sérstaka athygli mína var ýmislegt í orðfæri utanríkisráðherra. Hún talaði um:

Hnattræna váboða:   sem mér skilst helst að séu sendimenn Osama Ladenssonar,

Mannöryggi: Þar sem hingað til hefur verið talað um þjóðaröryggi.

Loftrýmiseftirlit: Sem þýðir væntanlega eftirlit í háloftunum í lofthelgi landsins. Loftrými freistast ég til að skilja með öðrum hætti en utanríkisráðherra en förum ekki lengra út í það

Loftrýmisgæsla: Sem þýðir sennilega þotuflug herþotna í íslenskri lofthelgi þegar flugmennirnir þurfa að æfa sig yfir landinu ( Ég hefði freistast til að ætla að loftrýmisgæsla væri gæsla á háaloftinu hjá mér eða öðrum)

Fjöleyðingarvopn: Það kom nú reyndar ekki frá utanríkisráðherra en á væntanlega að vera þýðing á weapons of mass destructions

Þessi nýyrði eru sennilega ekki ætluð alþýðu manna og eru varla sett fram til að sýna hvað íslenskan er fjölbreytt og lifandi tungumál. Það hvarflar frekar að mér að hér sé um svipað fyrirbrigði að ræða og George Orwell talar um í bók sinni 1984 þegar alræðið hafði tekið völdin en þá þurftu allir að tala einum rómi og töluðu tungumálið   "Newspeak" og vei þeim sem ekki gerðu það.

Þannig að nú þarf alþýðan að læra, um hnattræna váboða, mannöryggi, loftrýmiseftirlit, loftrýmisgæslu og fjöleyðingarvopn. Það er jú alltaf mikilvægt að vita þegar: Hnattrænn váboði ógnar mannöryggi í loftrými Íslands með fjöleyðingarvopnum.


Farsímaþjónusta dýrust á Íslandi.

Af hverju er farsímaþjónusta dýrari á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Samkvæmt því sem fram kemur í frétt í 24 stundir í dag þá er farsímaþjónusta á Íslandi 38% dýrari en hún er að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Þegar þjónustan kostar 1000 krónur á Íslandi þá kostar hún 620 krónur í Noregi, Svíþjóð og Danmörku kr. 380 eru teknar af hverjum þúsund kalli sem við borgum í símþjónustu vegna farsíma vegna skorts á samkeppni.

Fróðlegt væri að talsmenn símafyrirtækjanna íslensku skýrðu þennan mun. Af hverju er dýrara að tala í farsíma á Íslandi en í Noregi. Er einhver skynsamleg skýring á því önnur en sú að hér er ekki virk samkeppni á símamarkaði?

Hvað ætla stjórnvöld lengi að horfa á það aðgerðarlaus að það sé okrað á neytendum á flestum sviðum.

Við skulum ekki gleyma að hvert okurprósentið hvort heldur það er í matvælaverði, símþjónustu vegna dýrustu lyfja í heimi o.s.frv. hækkar lánin okkar líka vegna verðtryggingarinnar. Okrið á neytendum er því tvöfalt í hvert einasta skipti sem samkeppnin er eyðilögð. Ég treysti á að viðskiptaráðherra taki þetta mál til skoðunar sem fyrst.  Okurmálin þola ekki bið.


Kærleiksheimili Ingibjargar og Geirs?

Vel kann að vera að samstarf þeirra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Geirs Haarde sé með ágætum. Sé svo þá er ljóst að Össur Skarphéðínsson iðnaðarráðherra truflar farsæld þess kærleikssambands. Af ummælum iðnaðarráðherra að dæma allt frá því að ríkisstjórnin var mynduð virðist honum í mun að lífdagar hennar verði ekki langir.  Ítrekað fer iðnaðarráðherra þannig fram gagnvart samstarfsflokknum að margir þar á bæ eru búnir að fá yfir sig nóg af köpuryrðum iðnaðarráðherra.

Mörgum Sjálfstæðismönnum finnist það geðleysa hjá stjórn flokksins að láta iðnaðarráðherra komast upp með það óátalinn að vega að  forustumönnum Sjálfstæðisflokksins. Spurning er hvort að forsætisráðherra gerir eitthvað í málinu eða leyfir  Össuri óátalið að halda áfram að andskotast út í forustumenn Sjálfstæðisflokksins.


Geðleysi Sjálfstæðismanna.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefur löngum verið yfirlýsingaglaður og það hefur ekkert breyst þó hann settist í ráðherrastól og setti upp ráðherrabrosið sem ekki hefur farið af honum frá því ríkisstjórnin var mynduð.

Í bloggfærslu sinni um daginn uppnefndi iðnaðarráðherra Júlíus Vífil Ingvarsson borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins með svo ósmekklegum hætti að eðlilegt væri að iðnaðarráðherra bæðist afsökunar á þeirri nafngift sem hann kaus að velja Júlíusi Vífli.

Nokkru áður sendi iðnaðarráðherra okkur Frjálslyndum tóninn undir heitinnu "afturbatapíkur" iðnaðarráðherra verður að eiga svona nafngiftir við eigin smekkleysu. Það er eitt en svo er annað að það er ekkert að marka það sem iðnaðarráðherra skrifar um stefnu okkar í Frjálslynda flokknum í innflytjendamálum. Iðnaðarráðherra heldur því fram að stefnu Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum hafi verið breytt en það er rangt.  Hann kýs hinsvegar og hefur kosið  að mistúlka stefnu okkar eins margt annað vinstra fólk.

 Kjarni stefnu Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum kemur fram í stjórnmálayfirlýsingu flokksins en þar segir iðnaðarráðherra til upplýsingar:

"Frjálslyndi flokkurinn metur mikils vinnuframlag erlends fólks við uppbyggingarstarf í íslensku samfélagi síðustu misserin. Margt af þessu fólki mun dvelja langdvölum og ber samfélaginu skylda til að veita því stuðing og hjálp til að aðlagast íslensku samfélagi m.a. með íslenskukennslu. Frjálslyndi flokkurinn telur afar nauðsynlegt að stjórnvöld hafi fullt eftirlit með komu erlends verkafólks inn á vinnumarkaðinn og tryggi að réttur þess sé virtur og aðbúnaður mannsæmandi."

Síðan segir:

"Frjálslyndi flokkurinn mun þó beita sér fyrir að undanþága sú sem samið  var um í EES samningnum varðandi innflutning verkafólks frá aðildarlöndum EES verði nýt t og innflutningur takmarkaður í samræmi við ákvörðun íslenskra stjórnvalda. Yfirvöld verða á hverjum tíma að stjórn á því hvað margir innflytjendru koma til landsins."

Þetta er kjarninn í stefnu Frjálslynda flokksins í þessum málum og hefur ekkert breyst. Iðnaðarráðherra sá ástæðu til að snúa út úr við umræður um frumvarp Paul Nikolov sem hann talaði fyrir meðan ég var erlendis. Til að taka af öllu tvímæli þá var ég í meginatriðum sammála frumvarpi Paul Nikolov enda bað hann mig um að vera meðflutningsmann á frumvarpinu sem ég hefði verið hefði ég haft til þess aðstöðu að kynna mér það í þaula áður en ég fór af landi brott.

Þetta veit iðnaðarráðherra en kýs að halla réttu máli. Við Frjálslynd viljum takmarka aðflutning en gerum og höfum alltaf krafist þess að þeir sem eru í landinu njóti fullra mannréttinda. Iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson kýs frekar að veifa röngu tré en öngvu þegar svo hentar og það hentar honum yfirleitt.


mbl.is Gæti sín á stóryrðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkun skattleysismarka er líka kjarabót.

Við Frjálslynd höfum lagt fram á Alþingi frv til breytinga á skattalögum sem ef að lögum yrði mundi leiða til þess að fólk með tekjur að kr. 150.000 á mánuði yrði skattlaust. Þessi sérstaki skattaafsláttur minnkar síðan með skilgreindum hætti með hærri tekjum og fellur síðan niður við hærra tekjumark.

Ég sé ekki betri kjarabætur fyrir láglaunafólk en fara þessa leið. Með þeim hætti fær láglaunafólk raunverulega kjarabót án þess að allir fái það sama. Án þess að allt hækki í þjóðfélaginu. Væi ekki ástæða til að skoða þessa leið?


mbl.is Krafa um verulegar kjarabætur í komandi samningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi gengur þér vel Sveinn.

Sveinn Rúnar er ódrepandi baráttu- og hugsjónamaður. Ég vona að honum gangi vel á Gasa svæðinu. Það þarf áræði til að fara inn í þetta fjölmenna risastóra fangelsi Ísraelsmanna. Íbúar Gasa fá hvork að koma né fara nema með leyfi herraþjóðarinnar. Sveinn Rúnar á heiður skilið fyrir að leggja sig í stór hættu ítrekað til að bjarga mannslífum og styðja mannréttindi
mbl.is Sveinn Rúnar á leið inn á Gasasvæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru Bandaríkjamenn að gera í Afghanistan?

Af hverju eru Bandaríkjamenn og NATO með herlið í Afghanistan? Hvaða skilgreindu markmiðum á að ná með því að hafa her í Afghanistan. Hvers virði eru þau innlendu stjórnvöld sem hafa ekki getað komið á laggirnar her- og lögregluliði heimamanna  til að halda uppi lögum og alsherjarreglu í landinu. Hætt er við að erlenda herliðið verði stöðugt óvinnsælla og muni á endanum hrökklast brott sér í lagi hafi stjórnendur ekki skýra mynd af því hvenær eðlilegt sé að kalla erlenda herliðið frá landinu.

Mér finnst satt að segja ansi annkannanlegt að mannréttindi sértaklega réttindi kenna skulli ekki vera höfð í sama heiðri í dag í Afghanistan undir stjórn Hamid Karsai og þau voru á dögum kommúnistans Najibullah sem að Bandaríkjamenn eyddu milljörðum Bandaríkjadala í að steypa af stóli og þjálfuðu skæruher öfgahópa til þess þar á meðal skæruliðann Osama Ladenson.

Fyrst að Najibullah var svona slæmur og það þurfti að beita öllum ráðum löglegum og ólöglegum til að koma honum frá. Af hverju þá að standa í því að láta skæruliðanna sem að Bandaríkjamenn kenndu brögðin,  drepa krakka frá Norður Ameríku og Evrópu til að aðstoða máttlausa stjórn Hamid Karsai.


mbl.is Bandaríkjaher óttast að leita þurfi nýrra leiða til birgðaflutninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er vitræn glóra í að taka fasteignir úr vísitölunni?

Samkvæmt mælingum opinberra aðila hefur fasteignaverð hækkað um rúm 18% á árinu. Slík hækkun veldur hækkun á vísitölu neysluverðs. Nú tala ákveðnir aðilar um nauðsyn þess að taka fasteignir út úr vísitölunni. Fasteignaverð hefur hækkað gríðarlega mikið á undanförnum árum og valdið mikilli hækkun á vísitölu og þar með hækkað öll vísitölubundin lán í landinu. Ólíklegt er að verulegar hækkanir verði á næstunni á verði fasteigna og kemur þar tvennt til. Í fyrsta lagi er verðið komið verulega yfir byggingarkostnað og í öðru lagi þá eru lánakjör óhagstæðari en verið hefur. Nefna má til viðbótar að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu er nú minni en verið hefur lengi.

Það bendir því margt til þess að verðhækkanir á fasteignum verði litlar sem engar á næstunni á sama tíma og hætt er við að gengi krónunnar geti lækkað sem mun valda hækkun á verði innfluttra vara.  Með því að hafa fasteignir í vísitölunni gæti það því dregið úr áhrifum gengsissveiflna eins og nú háttar til.

Meðan við látum vísitöluútreikning skipta jafn miklu máli og við gerum nú með því að vísitölubinda lán þá skiptir máli að hafa alla liði inni í vísitölunni. Meginatriðið er þó að taka upp lánakerfi eins og  er með nágrannalöndum okkar og gjaldmiðil sem fólk og fyrirtæki treysta.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 118
  • Sl. sólarhring: 1292
  • Sl. viku: 5260
  • Frá upphafi: 2469644

Annað

  • Innlit í dag: 108
  • Innlit sl. viku: 4816
  • Gestir í dag: 108
  • IP-tölur í dag: 108

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband