Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Alvöru gjaldmiðill

Alvöru gjaldmiðill er til staðar ef fyrirtækin treysta honum og gera upp á grundvelli hans og miða viðskipti sín við hann. Alvöru gjaldmiðill er til staðar ef hann þarf ekki að styðja sig við hækjur eins og verðtryggingu lánsfjár sem kostar alla lántakendur sérstaklega ungá fólkið í landinu gríðarlegar fjárhæðir. Alvöru gjaldmiðill sveiflast ekki til um tugi prósenta á ári. Alvöru gjaldmiðill hefur þýðingu fyrir stöðugleika og er líklegur til að stuðla að jafnvægi í milliríkjaviðskiptum.

Við höfum gjaldmiðil sem sveiflast eftir því hvað margir vilja kaupa hann  og selja hverju sinni. Við erum fámennasta þjóð í heimi með sjálfstætt fljótandi gjaldmiðil. Afleiðingin er sú að fyrirtækin eru í auknum mæli farin að miða uppgjör sín og viðskipti við Evru eða Dollara. Síðast Landsvirkjun. Gríðarlegur viðskiptahalli meiri en hjá nokkurri þjóð í okkar heimshluta er afleiðing af gengisstefnunni. Verðtrygging er afleiðing þess að hvorki fólk né ráðamenn treysta gjaldmiðlinum. Gengisstefnan getur valdið efnahagslegri lægð og jafnvel kreppu innan fárra ára.

Bregðumst við áður en ekki verður við neitt ráðið. Miðum gengi krónunnar við meðalgengi viðskiptaþjóðanna og afnemum verðtryggingu. Höfum alvöru gjaldmiðill sem gengur í öllum viðskiptum.


Ekkert augljóst jafnvægi í nánd í hagkerfinu.

Mat hagdeildar ASÍ er að ekkert augljóst jafnvægi sé í nánd  í hagkerfinu. Þá er komist að þeirri niðurstöðu að vextir verði áfram háir og einnig verðbólga. Þá kemst hagdeildin að þeirri niðurstöðu að ekki verði séð að viðskiptahallinn verði viðráðanlegur í náinni framtíð.

Þetta mat hagdeildar ASÍ er alvarlegt. Greinilega eru mikil vandkvæði í hagkerfinu. Hvergi má út af bregða til að ekki fari illa. Ríkisstjórnin hefur í svo mörgum efnum strengt bogann til hins ítrasta. Svo mjög að hann er við það að bresta.

Einar Þambaskelfir á að hafa sagt þegar boginn hans var höggvin í tvennt og Ólafur konungur Tryggvason spurði hvað brast svo hátt "Noregur úr hendi þinni konungur"  Kjósendurn verða að átta sig á að stefnan sem ríkisstjórnin fylgir er að stjórna frá degi til dags í þeirri von að allt fari vel.  Þannig er ekki hægt að reka efnahagskerfi endalaust. Við verðum að fá ábyrga ríkisstjórn sem gætir aðhalds í ríkisbúskapnum, lækkar ríkisútgjöld og skatta.  Ná verður niður verðbólgunni og taka upp aðra viðmiðun varðandi gjaldmiðilinn til að draga úr viðskiptahallanum.

Ný ábyrg ríkisstjórn verður að taka við.


mbl.is ASÍ gerir ekki ráð fyrir harðri lendingu hagkerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burt með lágtekjuskattana

Forusta Sjálfstæðisflokksins lét sér annt um að fella niður hátekjuskattinn en berst með oddi og egg fyrir því að viðhalda lágtekjuskatti. Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki leiðrétta skattleysismörk.

Tillaga Frjálslyndra er að hækka skattleysismörk í 150.000.- á mánuði. Með því viljum við  aflétta lágtekjusköttum og forgangsraða fyrir venjulegt fólk. Sjálfstæðisflokkurinn hefur forgangsraðað fyrir Bjarna Ármannsson og aðra milljarðagreifa.  Við segjum hins vegar burt með lágtekjuskattinn.

Aðrar tillögur hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki í skattamálum og opinber útgjöld stefna í 49% af landsframleiðslu undir þeirra stjórn. Glæsilegur árangur í baráttunni við báknið. Opinberu útgjöldin voru 30% þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við fjármálaráðuneytinu. Fátt sýnir betur að Sjálfstæðisflokkurinn berst gegn eigin stefnumörkun af því að hann er þreyttur gamall úrræðalaus valdaflokkur. Burt með

Lagfærum velferðarhallan. Frjálslyndi flokkurinn er með bestu tillögur í velferðarmálum.  X-F á kjördag er fyrir fólkið í landinu.


Ríkisstyrkt kosningabarátta

Það væri fróðlegt ef einhver háskólinn tæki að sér að reikna út hvað stjórnarflokkarnir eyða miklu af peningum skattgreiðenda í kosningabaráttu sína. Ráðherrar fara á milli þessa daganna og gefa peningagjafir og loforð hægri vinstri. Allt í einu er hægt að semja við stofnanir, samtök og félög.

Hvað skyldi þessi liður kosningabaráttunnar kosta.

 Þá væri líka gaman að sjá útreikning á því hvað kosningaloforð stjórnmálaflokkana kosta og útreikning þeirra á því með hvaða hætti á að spara eða ná í tekjur til að efna loforðin.

Mér vitanlega hafa engir nema við í Frjálslynda flokknum sett fram velferðarstefnu í samræmi við útreikning á kostnaði og með hvaða hætti hægt er að ná í tekjur á móti.

X- F er fyrir ábyrga stefnu í velferðar- og skattmálum.


Magnús Þór Hafsteinsson stóð sig best.

Ég gleymdi að benda fólki á að hægt er að skoða þáttinn með frambjóðendum í Reykjavík norður á vísir.is Ég skora á alla að gera það og dæma fyrir sig sjálf um málflutning frambjóðendanna. Eins og kom fram í bloggi mínu áðan þá fannst mér Magnús Þór mjög sterkur og Össur Skarphéðinsson kom einnig sterkur inn. Guðlaugr þór stóð sig hins vegar miður. En hafa verður í huga að hann á erfiðan málstað að verja.

Góð frammistaða Magnúsar Þórs Hafsteinssonar.

Magnús Þór Hafsteinsson stóð sig sýnu best í þætti Stöðvar 2 í kvöld með efstu mönnum á framboðslistum fyrir Alþingiskosningarnar. Össur Skarphéðinsson var líka snarpur og mér finnst alltaf gaman að sjá til Katrínar Jakobsdóttur. Hún kemst yfirleitt vel frá sínu máli.

Málflutningur Guðlaugs Þórs var frekar dapur og sýnir e.t.v. betur en margt annað hvað Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn úrræðalaus, þreyttur kerfisflokkur. Flokkur sem hefur hækkað skatta á almenningi gegndarlaust. Það þýðir lítið fyrir talsmenn Sjálfstæðisflokksins eins og Guðlaug að tala um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lækkað skatta á fólkinu í landinu. Tölulegar staðreyndir sýna að það er tómt rugl. Á valdatíma Sjálfstæðisflokksins síðustu 15 ár hafa opinber útgjöld aukist úr 32% af þjóðartekjum í 42%. Hvaðan koma tekjurnar? Frá fólkinu í landinu. Hvað hefur mikið af þessari 10% aukningi útgjalda runnið til velferðarmála? Aðeins 4%. Þess vegna hefur myndast velferðarhalli í þjóðfélaginu. Velferðarhalli sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn bera alla ábyrgð á.

Við Frjálslynd höfum bestu stefnuna í velferðarmálum. Hækkum skattleysimörkin í 150.000 leyfum bótaþegum að vinna fyrir milljón á ári án skerðingar bóta. Afnemum tekjutengingu við maka og skattleggjum lífeyri sem fjármagnstekjur.

X-F Frjálslyndi flokkurinn fyrir fólkið í landinu.


Neytendur borga starfslok Bjarna.

Bjarni Ármannsson hefur fengið mynarlega brottfarargjöf frá nýrri stjórn Glitnis áður Íslandsbanka. Þessi gjöf er út fyrir öll velsæmismörk. Milton Friedman átrúnaðargoð Frjálshyggjumanna sagði á sínum tíma að það væri ekkert til sem héti ókeypis hádegisverður það væri alltaf einhver sem borgaði. Þannig er það líka með kaupauka og starfslokasamninga upp á milljarða.

Það er regindjúp á  milli fólks sem á ekki fyrir mat út mánuðinn í íslensku velferðinni og bankastjóranna sem fá skammtaða kaupsamninga, kaupaukasamninga og starfslokasamninga sem nema hærri fjárhæð en starfsmenn í meðalstóru bankaútibúi Glitnis geta látið sig dreyma um að fá sameiginlega í laun fyrir alla starfsævi sína. Ég spyr hvað var athugavert við að vera með hátekjuskatt? Mundi það ekki jafna kjörin lítilega?  Af hverju fannst Sjálfstæðisflokknum svona mikilvægt að afnema hátekjuskattinn en mega ekki heyra á það minnst sem við Frjálslynd leggjum til að afnema lágtekjuskattinn.

Bankokrið á neytendur sem hefur fengið að þrífast í skjóli stjórnavalda og skertrar samkeppni. Verðtrygging á lánum er þar  verst. Íslenskir neytendur borga hæstu húsnæðislánin í Evrópu og þó víðar væri leitað. Ég hef lengi krafist þess að við segðum bankaokrinu stíð á hendur og afnemum verðtrygginguna af lánum, þessa hækju ruglaðs gengiskerfis.

Fólkið í landinu á líka rétt á því að fá að lifa og njóta annars en skuldsettrar framtíðar. Bruðlið í bankakerfinu sem kristallast í dapurlegum fáránleika starfslokasamnings Bjarna Ármannssonar ætti að opna augu almennings fyrir því að svona er ekki hægt að líða.  Svona gerir maður ekki.

Forgangsröðum fyrir fólk. X-F


Tengdadóttirinn þurfti að komast inn á Evrópska efnahagssvæðið.

Þá er það komið fram að tengdadóttir Jónínu Bjartmars umhverfisráðherra þurfti að fá íslenskan ríkisborgararétt til að komast inn á Evrópska efnahagssvæðið. Ekki vegna þess að hún ætlaði að búa hér. Ekki vegna sérstakra tengsla  við land þjóð og umhverfisráðherra. Nei bara til að hafa frjálsan aðgang að Evrópska efnahgssvæðinu. Hvað skyldu margir tugir milljóna fólks vilja slíka fyrirgreiðslu?

Væntanlega hafa þau Bjarni Benediktsson, Guðjón Ólafur Jónsson og Guðrún Ögmundsdóttir staðið alveg klár á þessu þegar þau lögðu til við Alþingi að stúlkan fengi íslenskan ríkisborgararétt  á þessum forsendum. Spurningin er hins vegar af hverju höfnuðuð þau þeim umsækjendum sem ekki fengu náð fyrir augum þremenningana. Getur verið að afgreiðsla málsins hafi verið ómálefnaleg. Reynist svo vera að afgreiðslan hafi miðað við fordæmi verið ómálefnaleg þá er spurningin af hverju?

Það er áleitin spurning einkum vegna þess að þau Bjarni Benediktsson, Guðjón Ólafur Jónsson og Guðrún Ögmundsdóttir segjast ekki hafa vitað um atriði sem þeim bar að kanna varðandi umsókn stúlkunnar og tillögu um ríkisborgararétt. 

Hvort sem þessir nefndarmenn Alsherjarnefndar Alþingis vissu um tengsl stúlkunnar við Jónínu eða ekki þá hljóta þau fyrst svona er komið að gefa trúverðuga skýringu af hverju þau vildu rugla biðröðinni og hleypa stúlkunni fram fyrir ýmsa sem áttu betri rétt. Af hverju Bjarni? Af hverju Gjón? Af hverju Guðrún?


Hverjum á að trúa?

Guðrún Ögmundsdóttir Samfylkingarþingmaður sagði að gögnin um afgreiðslu hennar, Bjarna Benediktssonar og Guðjóns Ólafs Jónssonar á máli tengdadóttur Jónínu Bjartmars væru kominn í pappírstætara. Nú segir Bjarni Benediktsson þegar honum þóknast eftir þriggja daga fjarveru að svara fjölmiðlum um málið að gögnin sem Guðrún segir að hafi lent í pappírunum verði afhent Sigurjóni Þórðarsyni þingmanni Frjálslynda flokksins þegar búið verði að flokka þau.

Hvenær skyldi vera búið að flokka gögnin? 15 maí að loknum kosningum eða næstu daga. Fróðlegt verður að sjá hvaða gögn verða afhent og hvað kemur í ljós. Miðað við það sem Bjarni Benediktsson segir um að gögnin verði afhent og það sé verið að flokka þau, þá er Guðrún Ögmundsdóttir að segja ósatt þegar hún segir að þeim hafi verið eytt.  Þegar hafa þau Bjarni og Guðrún orðið tvísaga. Gæti það orðið í fleiri þáttum þessa máls?

Watergate málið byrjaði sem lítið mál. En þar urðu ráðamenn margsaga og djúpir hálsar (deep throat) voru tilbúnir að koma upplýsingum á framfæri /

Raunar eins og í þessu máli.

Þau Guðrún, Bjarni og Guðjón Ólafur ættu að hafa það í huga þegar þau gefa yfirlýsingar í málinu.


Sjálfstæðisflokkurinn er stefnulaus í skatta- og ríkisfjármálum.

Í umræðuþætti í kvöld í Ríkissjónvarpinu kom í ljós af málflutningi fjármálaráðherra að Sjálfstæðisflokkurinn er bæði úrræða og stefnulaus í skatta- og ríkisfjármálum. Á 15 ára valdatímabili Sjálfstæðisflokksins hafa opinber gjöld vaxið sem hlutfall af þjóðartekjum úr 32% í 42%. Samkvæmt spá Seðlabankans segir að með óbreyttri stefnu verði opinber útgjöld sem hlutfall af þjóðartekjum orðið 49% árið 2009.  Hafa verður í huga að þjóðartekjur hafa á þessu tímabili vaxið hraðar en nokkru sinni fyrr þannig að opinberu gjöldin hafa fengið að vaxa aðhaldslítið eða aðhaldslaust.

Það alvarlega við þetta er að þó að opinber útgjöld hafi vaxið úr 32% í 42% af þjóðartekjum þá hafa aðeins 4% af þessari 10% aukningu runnið til velferðarmála. Það skýrir að hluta þann velferðarhalla sem hefur myndast í tíð ríkisstjórnarinnar. Hinn hluti skýringarinnar er að skattleysismörk hafa ekki hækkað í samræmi við breytingar á launum. Þessvegna er greiðslubyrði láglaunafólksins allt of þung og kaupmáttaraukningin hefur ekki komið til þess hóps.

Í Þættinum kom fram að Frjálslyndi flokkurinn einn flokka er með heilsteypta skynsamlega stefnu í skattamálum.

Við viljum afnema stimpilgjaldið strax. Öðrum flokkum vefst tunga um tönn hvað það varðar.

Við viljum ekki hækka fjármagnstekjuskatt. Við erum ekki skattahækkunarflokkur.

Við viljum hins vegar hækka skattleysismörk í 150.000 til að bæta hag láglaunafólks og bótaþega.

Enginn annar flokkur býður jafn ákveðna og jákvæða  skattastefnu fyrir neytendur og launafólk og Frjálslyndi flokkurinn.

 Við viljum taka á ríkisbákninu og henda burt óhófinu og bruðlinu.

Það var nokkuð dapurlegt að í lok þáttarins skyldi fjármálaráðherra missa algjörlega tengsl við raunveruleikann en það er e.t.v. eina vörnin sem Sjálfstæðisflokkurinn á til þar sem hann hefur svo gjörsamlega brugðist stefnu sinni og stuðningsmönnum sínum í þessum málaflokki.

Sjálfstæðisflokkurinn sagðist bjóða upp á Kóka kóla en bauð í raun upp á Stalín Kóla. Því miður er þessi flokkur orðinn að úrræðalausum ríkishyggjuflokki. Styrkur hans hefur falist í lélegri stefnumörkun Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í þessum málaflokki. Leiðin er því að kjósa Frjálslynda. Sá sem vill koma böndum á ríkisútgjöldin á samleið með okkur en ekki Sjálfstæðisflokknum.

Frjálslyndi flokkurinn X-F. Fyrir skynsamlega hagstjórn, minni ríkisútgjöld og minni skatta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 429
  • Sl. sólarhring: 445
  • Sl. viku: 4250
  • Frá upphafi: 2428050

Annað

  • Innlit í dag: 396
  • Innlit sl. viku: 3932
  • Gestir í dag: 367
  • IP-tölur í dag: 346

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband