Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Takmarkað upplýsingagildi skoðanakönnunar?

Svona skömmu fyrir kosningar gefur skoðanakönnun eins og þessi takmarkaðar upplýsingar. Það ber þó að nefna að það sem skoðanakannanir mæla best er hvort flokkur er á upp- eða niðurleið. Samkvæmt því eru þrír flokkar á uppleið samkvæmt skoðanakönnunninni Frjálslyndir, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin. Framsóknarflokkurinn tapar enn fylgi og sama er um Íslandshreyfinguna. Að þessu leyti getur skoðanakönnunin gefið vísbendingar.

Ánægjulegu tíðindin fyrir okkur Frjálslynd er að við erum á uppleið og það er í samræmi við það sem við höfum fundið undanfarna daga. Fólk hefur streymt til okkar og sjálfboðaliðum okkar er vel tekið. Vonandi skilur þjóðin nú sínn vitjunartíma, fellir ríkisstjórnina og kýs með þeim hætti að mögulegt verði að mynda Frjálslynda umbótastjórn.


mbl.is Samfylking og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var kveikt í?

Hafi verið kveikt í gám við Valhöll hús Sjálfstæðisflokksins þá er það fordæmanlegt.  Brotnar hafa verið rúður á skrifstofum Frjálslynda flokksins í Aðalstræti og sjálfur varð ég fyrir því að hent var grænni snöru inn í garðinn heima hjá mér. Svona atvik eru slæm og fordæmanleg. Virðing fyrir skoðunum annarra er grundvöllur menningarsamfélags og virks lýðræðis.

Allir stjórnmálaflokkar verða að taka höndum saman um að vinna gegn fordómum og neikvæðri andfélagslegri hegðun gagnvart andstæðingum sínum.


mbl.is Eldur í gámi við Valhöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkur forseti.

Nicolas Sarkozy gefur vonir um kærkomnar breytingar í frönskum stjórnmálum. Sitjandi forseti hefur setið of lengi og er dæmi um hvað þráseta getur verið skaðleg í stjórnmálum. Kyrrstaða og úrræðaleysi einkennir jafnan stjórnmálamenn og stjórnmálaöfl sem sitja of lengi sbr. Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn hér.

Nicolas Sarkozy er á móti því að Tyrkir verði aðilar að Evrópusambandinu. Ég er sammála honum. Þeir eiga ekki erindi í Evrópusambandið. Hann leggur áherslu á að ná góðu sambandi við Bandaríkjamenn. Sérstaða Frakka í NATO og gagnvart Bandaríkjunum ætti því brátt að heyra sögunni til. Það er gott að nú skuli vera í forustu í þrem öflugustu ríkjum Evrópu, Bretlandi. Þýskalandi og Frakklandi fólk sem skilur mikilvægi góðra samskipta Evrópu og Bandaríkjanna.


mbl.is Sarkozy lýsir yfir sigri í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vörusvik

Samkvæmt hugmyndum um almennt viðskiptasiðferði og reglum sem um það gilda eiga auglýsingar að greina frá staðreyndum og vera sannar. Mér datt þetta í hug þegar ég horfði á auglýsingu nú áðan frá Sjálfstæðisflokknum. Auglýsingin var bæði röng og villandi í mörgum aðalatriðum.

Í fyrsta lagi var auglýst að stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn þýddi að fólk borgaði lægri skatta. Þetta er rangt. Sjálfstæðisflokkurinn er heimsmethafinn í skattahækkunum frá því að hann tók við stjórn fjármálaráðuneytisins fyrir 15 árum. Opinber útgjöld hafa vaxið úr 32% í 42% en af því hafa aðeins 4% runnið til velferðarmála. Auglýsingin gefur því rangar væntingar og er ósönn.

Í öðru lagi er látið í það skína að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið sig í velferðarmálum. Það er rangt. Við búum við að fjöldi þriðjungur aldraðra býr fyrir neðan fátæktarmörk og margir aldraðir og öryrkjar eiga ekki fyrir mat út mánuðinn. Auglýsingin er röng og ósönn.

Í þriðja lagi þá er talað um efnahagslegan stöðugleika. Fólkið sem er með verðtryggðu lánin veit að þau hækka og hækka. Verðbólgan er meiri hér en í nokkru öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Gjaldmiðillinn breytist með þeim hætti að stórfyrirtæki hafa tekið upp erlenda gjaldmiðla sem viðmiðun m.a. stærsta ríkisfyrirtækið, Landsvirkjun sem hefur ákveðið að hafa uppgjör sín í dollurum.

Í almennum viðskiptum mundi sá sem auglýsti með svona röngum og ósönnum hætti verða úthrópaður á markaðnum. Fólk mundi snúa sér til annarra til að fá það sem það leitar að. Þannig á það líka að vera í pólitík. Sjálfstæðisflokkurinn þarf virkt aðhald. Það aðhald geta kjósendur gefið honum með því að kjósa Frjálslynda flokkinn.


Vefsjónvarp

Frjálslyndi flokkurinn er með netsvjónvarp sem hægt er að komast inn á á slóðinni xf.is

Hægt er að kynna sér áherslur flokksins og einstaka frambjóðenda og sjá helstu atburði úr starfinu. Hvet ykkur til að kynna ykkur þetta af eigin raun.


Tekst að fella ríkisstjórnina?

Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag þá heldur ríkisstjórnin velli. Það er ávísun á áframhaldandi velferðarhalla, áframhaldandi misnotkun, áframhaldandi spillingu, okurverð á matvælum og dýrustu lán í heimi bundin verðtryggingu. Áfram verður gætt hagsmuna hinna fáu á kostnað fólksins í landinu. Það verður að breyta. Burt með spillinguna. Burt með okurstjórnina.

Fjálslyndi flokkurinn þarf ekki að bæta við sig nema 2% til að ríkisstjórnin falli. Atkvæði greitt Frjálslynda flokknum nýtist að fullu óháð því í hvaða kjördæmi það er greitt. Atkvæði greitt Frjálslynda flokknum nýtist betur en atkvæði greitt hinum stjórnarandstöðuflokkunum til að fella ríkisstjórnina. Frjálslyndi flokkurinn er því besta og jafnvel eina ávísunin á jákvæðar breytingar í þjóðfélaginu.

X-F á kjördag er ávísun á jákvæðar breytingar. Nú liggur á.


Pólitísk misnotkun

 

Þessi samningur er dæmi um misnotkun ríkisstjórnarinnar á fé skattborgarana í kosningabaráttu. Engin heimild er í fjárlögum fyrir þessu. Af hverju er verið að gera þetta núna.

Hvernig stendur á því að það eru allt í einu til peningar til ýmissa góðra mála sem ríkisstjórnin hefur ekki sinnt og ekki sinnt að leggja til við Alþingi að fjárveitingar yrðu lagðar til þessara mála.

Núna í kosningabaráttunni er gengið frá samningum og peningum ausið út í því skyni að slá ryki í augu á fólki og kreista út atkvæði til handa stjórnarflokkunum.

 Spilling? Er ekki ástæða til að gera úttekt á fjárveitingum ríkisstjórnarinnar og ráðherra í kosningabaráttunni?


mbl.is Samið um tannlæknaþjónustu og forvarnarskoðanir 3 og 12 ára barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrar gerast sekir um misnotkun.

 

Ráðherrar gera nú hvern samninginn af öðrum og tilkynna um fjárveitingar hægri vinstri.  Þessar fjárveitingar eru án heimilda í fjárlögum.  Ég get ekki betur séð en ráðherrar séu með þessu að misnota fjármuni ríkisins í kosningabaráttu sinni.  Krefjast verður rannsóknar á heimildum ráðherra til þeirra fjárframlaga sem þeir tilkynna nú dag hvern. Frjálslyndi flokkurinn mun krefjast slíkrar rannsóknar og gera kröfu til þess að ráðherrum verði óheimilt að ákveða hluti sem hafa útgjöld í för með sér umfram fjárlagaheimildir frá þinglokum á kosningaári fram að kjördegi nema sérstakar aðstæður krefjist þess enda samþykki þá formenn allra þingflokka ráðstöfunina.

Framganga ráðherrana núna ekki síst menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra er dæmi um pólitíska spillingu sem ekki er hægt að líða í lýðfrjálsu landi.

Enn einu sinni kemur í ljós að valdaflokkarnir svífast einskis og virðast telja eins og Loðvík 14 Frakkakonungur "Ríkið það er ég."  Kjósendur eiga að sýna þessu liði rauða spjaldið og vísa því af leikvelli.


Naut í flagi

 

Illugi Jökulsson segir að umhverfisráðherra sé eins og naut í flagi varðandi umfjöllun Kastljóss um ríkisborgararétt tengdadóttur sinnar. Hver notar það orðfæri sem hann telur hentast.

Spurningin er var umfjöllun Kastljós óeðlileg eða ómakleg? Var hallað réttu máli? Var óeðlilegt að taka þetta mál til umfjöllunar? Svarið við öllum þessum spurningum er nei. Hvað ætlar umhverfisráðherra þá að kæra til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands? Á að kæra það að háttsettur opinber starfsmaður hafi þurft að svara fyrir sig?

Veiting ríkisborgararéttar til tengdadóttur umhverfisráðherra var einstakur. Ekki er hægt að nefna neitt fordæmi. Um sérstaka og sértæka afgreiðslu var að ræða. Af hverju var hún gerð? Vinnunefnd Allsherjarnefndar segist ekki hafa vitað neitt um stúlkuna sem þeir lögðu til að fengi ríkisborgararétt.  Ótrúverðug vinnubrögð það, og ekki í samræmi við áratuga starfsvenjur.

Stúlkan átti ekki að líða fyrir að vera tengdadóttir umhverfisráðherra segja sumir. Í siðmenntuðum löndum  gæta stjórnendur sín á að aðilar þeim tengdir fái ekki sér fyrirgreiðslu vegna þess að alvöru fjölmiðlar eru fljótir að vekja athygli á því. Þannig á það líka að vera. Það má ekki misbeita valdi þeim valdamiklu í hag. Málið snýst um það.

Því er haldið fram að ekki hafi verið vitað um tengsl stúlkunnar við umhverfisráðherra. Getur það verið? Stillum upp spurningunni með öðrum hætti: Mundi tengdadóttir umhverfisráðherra hafa fengið sérmeðferð og afgreiðslu og orðið íslenskur ríkisborgari með þeim hætti sem um var að ræða hefði hún ekki verið tengdadóttir umhverfisráðherra?

Hvað ætlar Jónína Bjartmars að kæra Kastljós fyrir?


Nýtt fangelsi í Reykjavík.

Nýtt fangelsi á að rísa í Reykjavík segir fangelsismálastjóri. Það er löngu tímabært og einn hópur sem stjórnmálamenn gleyma yfirleitt eru fangar. Fangelsið við Skólavörðustíg hefði átt að leggja niður fyrir löngu og verulegur bagi hefur verið af því að ekkert gæsluvarðhaldsfangelsi skuli vera á höfuðborgarsvæðinu. Kostnaður við að hafa gæsluvarðhaldsfangelsi á Litla Hrauni er gríðarlegur á hverju ári. Lögmenn, fangar og lögregluþjónar eru í sífelldum ferðalögum af höfuðborgarsvæðinu austur fyrir fjall vegna þessarar furðulegu ráðstöfunar.

Fangelsin eru full og menn bíða afplánunar. Slíkt er óviðunandi. Mikilvægt er að þeir sem hafa hlotið refsidóm taki út refsingu sína eins fljótt og unnt er.  Mér er sagt að á Litla Hrauni séu yfir 20% fanga af erlendu bergi brotin. Það sýnir með öðru að það verður að bregaðst við óheftum innflutningi fólks. Það er ekki nóg að opna landamærin það verður að gera ráðstafanir hvort heldur það er í fangelsis- eða kennslumálum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 390
  • Sl. sólarhring: 486
  • Sl. viku: 4211
  • Frá upphafi: 2428011

Annað

  • Innlit í dag: 359
  • Innlit sl. viku: 3895
  • Gestir í dag: 336
  • IP-tölur í dag: 314

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband