Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Lúxusvandamál íbúa á Suðurlandi og Suðvesturlandi

Það er orðið næsta fátítt að landsbyggðarþingmenn tali niður til þeirra sem búa á Suðvesturhorni landsins en þeir sem þar búa eru hvort sem okkur likar betur eða verr um 70% landsmanna.  Þó bregður svo við að landsbyggðarþingmaðurinn Ólína Þorvarðardóttir bregður út af þessu og segir að vegabætur á Suðvesturhorninu séu lúxusvandamál meðan verulegar umbætur séu ekki gerðar í vegagerð á Vestfjörðum.

Það er vægast sagt tæpast viðeigandi af þingmanninum að taka svona til orða þegar um er að ræða valkosti í vegamálum þar sem spurningin er um vegabætur þar sem slysatíðni er hæst og annarra vega þar sem umferð er mjög takmörkuð og innan við  eitt prósent af þeirri umferð sem um ræðir þar sem slysatíðni er hæst. Frumskylda samgönguyfirvalda hlítur að vera að forgangsraða í vegamálum fyrir öryggi borgaranna.

Þessi framsetning þingmannsins er ekki málefnaleg heldur til að rugla umræðuna. Samgönguráðherra flokksbróðir Ólínu Þorvarðardóttur hefur ekki getað rökstutt með málefnalegum hætti að forgangsraða fyrir kjördæmi sitt.  Þess vegna telur Ólína rétt að hjálpa flokksbróður sínum með því að tala um vegagerð sem eru ekki á dagskrá og því ekki deilt um. 

Það er mikilvægt að þingmenn hugsi fyrst og fremst um þjóðarhag en ekki hagsmuni heimabyggðar. Svona málefnaframsetningi sýnir hvað það er rangt að svipta íbúa Suðvesturhornssins þeim mannréttindum að hafa sama atkvæðavægi og fólk í Suðvesturkjördæmi.  Það má e.t.v. minna á að helmingi færri kjósendur eru að baki hvers þingmanns í Suðvesturkjördæmi en í kjördæmunum á Suðvesturhorni landsins. 

Skyldi Ólínu Þorvarðardóttur  þykja slik mismunun á borgaralegum og lýðræðislegum réttindum vera afsakanleg.

Banaslys og alvarleg umferðarslys eru aldrei lúxusvandamál. Það er og verður að vera forgangsatrðii að koma í veg fyrir þau.  Slíkar vegabætur geta aldrei verið lúxusvandamál.

 


Birtingarmynd bullsins.

Vátryggingafélag á Íslandi Sjóvá-Almennar tryggingar er í áhætturekstri í Macau í Kína. Hvernig skyldi nú standa á því? Er ekki Sjóvá-Almennar tryggingar vátryggingafélag?  Hvernig stendur þá á því að Sjóvá Almennar tryggingar er að kosta byggingu glæsihúss í Kína?

Frétt um það að Sjóvá Almennar tryggingar tapi rúmum 3 milljörðum á byggingarstarfsemi glæsihúss í Kína fannst mér með miklum ólíkindum. Raunar er þetta ein birtingarmynd þess bulls sem hefur verið í gangi og nefnd útrás.  Þetta er sorgleg birtingarmynd vegna þess að áður en fjárfestingarbullið byrjaði og Sjóvá-Almennar tryggingar var rekið sem tryggingarfélag þá skilaði það þokkalegum arði og átti digra sjóði. Á þeim tíma var tryggingarfélagið ekki í áhættufjárfestingum í Kína eða öðru því um líku bulli sem tryggingarfélagi kemur ekki við.

Þegar að er gáð þá virðist birtingarmynd efnahagshrunsins á Íslandi vera margbreytilegri en ætla mátti í fyrstu. Það er greinilegt að margir leikendur hafa leikið þar afgerandi afleiki. 

Mig minnir að John D. Rockefeller hafi sagt að góður kaupsýslumaður færi aldrei í önnur viðskipti en þau sem hann gjörþekkti.  Hann taldi að menn gætu hagnast á grundvelli yfirburðarþekkingar. Með gagnályktun má þá ætla að tapið sé ekki síst vegna vanþekkingar.

En hver tók eiginlega ákvörðun um það að vátryggingafélag á Íslandi færi að reisa lúxusíbúðir í Kína til að tapa á því milljörðum króna?


mbl.is Sjóvá tapar 3,2 milljörðum í Hong Kong
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjör aldraðra skert verulega en ekki hróflað við sendiráðunum.

Ríkisstjórnin með Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar leggur til m.a. að kjör aldraðra verði skert verulega.  Þær sjálfsögðu réttarbætur sem aldraðir fengu með lagabreytingum árið 2008 verða með þessu teknar allar til baka og rúmlega það. Þær réttarbætur sem aldraðir fengu með breytingu varðandi frítekjumark o.fl voru sjálfsagðar og það er fráleitt að krukka í kjör aldraðra með þeim hætti sem ríkisstjórnin leggur til.

 Á sama tíma og ríkisstjórnin vegur að öldruðum og skerðir kjör þeirra þá koma ekki fram tillögur um að skera bruðlið í burtu af ríkisbákninu. Hvað með sendiráðin? Á áfram að reka öll sendiráð? Sé svo þá til hvers.

Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er röng og það hefði verið spurning um hvort ekki hefði verið rétt við þessar aðstæður að hugsa stórt og breita velferðarkerfinu með þeim hætti að koma á svonefndum neikvæðum tekjuskatti þannig að þeir sem þyrftu á aðstoð frá hinu opinbera að halda fengju hann en aðrir ekki. Það mundi spara ríkissjóði stórfé á sama tíma og skjaldborg yrði slegið um velferðina.

Þá verður það að vera forgangsatriði að skera í burtu útgjöld sem eru óþörf á þessu stigi eins og hin útþanda utanríkisþjónusta. En þess í stað ætlar ríkisstjórnin að vega að öldruðum og ná fram sparnaði með því að láta eignir og mannvirki drabbast niður vegna skorts á viðhaldi. Hefði einhvern tíma verið ástæða til að skoða slíkar áætlanir og leggja fé í viðhald og endurbyggingu þá er það einmitt á atvinnuleysistímum.

 


mbl.is Skref til baka í réttindum aldraðra og öryrkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birtið Icesave samninginn á íslensku á netinu strax.

Ríkisstjórnin verður að birta Icesave samninginn á íslensku þannig að hann sé aðgengilegur fólkinu í landinu.

Það er óviðunandi að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Ríkisstjórn gagnsæisins sem lofaði að hafa allar upplýsingar upp á borðinu sé að pukrast með samninginn sem þau Jóhanna og Steingrímur skrifuðu undir fyrir hálfum mánuði og neiti þjóðinni að sjá  þennan mikilvæga milliríkjasamning okkar við Breta og Hollendinga.

Þjóðin á rétt á að fá allar upplýsingar strax og þó fyrr hafi verið. Hvurs konar dónaskapur er það eiginlega að ætla Alþingi að samþykkja og þjóðinni að móta sér skoðun á samningi sem liggur ekki fyrir í heild sinni á móðurmáli okkar. Við erum þó altént aðilar að þessum samningi er það ekki svo?

Þetta Icesave mál er að verða hið versta klúður ríkisstjórnarinnar til þessa og er samt af mörgu að taka.


Óttalegt rugl.

Það er ótrúlegt að ríkisstjórnin skuli ætla Alþingi að samþykkja samninginn um Icesave skuldbindingarnar án þess að þingmenn fái að sjá samninginn eða fái nauðsynleg gögn sem hann varðar. Nú er hálfur mánuður frá því að Jóhanna og Steingrímur skrifuðu undir en Alþingi hefur ekki mátt sjá það sem þingmenn eiga þó að taka afstöðu til, samþykkja, sitja hjá eða hafna.  Þetta er með ólíkindum mikið rugl af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Hvernig ætlar ríkisstjórnin að rökfæra það að þingmenn fái ekki að sjá samning sem þeir eiga að taka afstöðu til. Hvernig ætlar ríkisstjórn að sýna fram á nauðsyn þess að alþingismenn fái ekki allt sem þeir telja nauðsynlegt og snýr að Icesave samningunum.

Það er e.t.v. rétt að minna á að forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa talað um að með þessari ríkisstjórn yrði breyting og allt yrði upp á borðinu. Þá má minna á traustan málflutning félaga Ögmundar Jónassonar frá því s.l. janúar þegar hann talaði um nauðsyn þess að allar upplýsingar yrðu að vera uppi á borðinu og pukur væri ekki lengur ásættanlegt eða tækt af stjórnvöldum. 

Skyldu þeirra eigin orð vera farin að þvælast fyrir ríkisstjórninni?

Getur það verið að við séum að horfa framan ríkisstjórn sem hefur öll einkenni ráðstjórnar.


Vond skuldastaða vegna ónýts gjaldmiðils.

Athyglivert er að heyra það frá fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að staða fyrirtækja og sveitarfélaga sé verri en staða heimilanna í landinu.  Franek Rozadowzki fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann staðfesti að slæm skuldastaða íslenskra heimila sé vegna verðtryggðra lána og slæm staða fyrirtækja og sveitarfélaga sé vegna þess að þau tóku mikil lán í erlendum gjaldeyri sem hafa margfaldast við hrun krónunnar.

Afleit skuldastaða og jafnvel bankahrun er gjaldið sem við greiðum vegna tilraunarinnar til að setja íslensku krónuna á flot í byrjun þessara aldar í stað þess að tengjast fjölþjóðlegri mynt. Einnig vegna þeirra afglapa að keyra stýrivexti Seðlabankans upp fyrir alla stýrivexti annarsstaðar í okkar heimshluta. Það gerði íslensku krónuna að lottómynt sem hækkaði og hækkaði án nokkurra forsendu nema vegna innflæðis peninga m.a. vegna þess að það var svo hagstætt að taka erlend lán. Nú brenna fyrirtækin og sveitarfélögin á því vegna gengishruns krónunnar.

Íslensk heimili eru illa skuldsett vegna verðtryggingarinnar sem hækkaði og hækkaði lánin jafnvel þó að íslenska krónan væri á tímabili sterkasti gjaldmiðill í heimi vegna spákaupmennsku. 

Íslenska þjóðin hafði aldrei efni á því að vera með vondan gjaldmiðil þegar annar betri var í boði. Það er vont að taka versta kostinn þegar góðir kostir eru í boði.

Forgangsverkefni í stórnun landsins er að taka upp fjölþjóðlega mynt. Tryggja eðlileg lánakjör sem eru sambærileg því sem gerist í nágrannalöndum okkar og tryggja að íslenskir neytendur geti keypt vörur á sambærilegu verði og fólkið í nágrannalöndum okkar.  Þetta er forsenda viðreisnar efnahagslífs þjóðarinnar.


mbl.is Stýra þarf skipinu af varfærni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brennuvargur gengur laus

(Flutt á Sögu 15.6. og birt á fréttavefnum  amx.is) 

Mig langar til að segja ykkur sögu sem er í sjálfu sér fáránleg en gæti samt hafa gerst.

Fyrir nokkru var kveikt í húsi við Laugaveginn og það fuðraði upp. Um var að ræða gamalt tréhús þannig að eldsmatur var mikill og það var ekki að sökum að spyrja. Nokkru síðar kviknaði í húsi við Bankastræti og það brann líka til kaldra kola. Daginn eftir kviknaði í húsi í Hafnarstræti og það brann til kaldra kola.

Eldsvoðar í Reykjavík eru næsta fátíðir og þetta var í fyrsta skipti síðan steinsteypuvæðing byggingariðnaðarins byrjaði sem að þvílíkir eldsvoðar höfðu átt sér stað og ollið jafnviðamiklu eignatjóni og um var að ræða. Því að til viðbótar við húsin sem kviknaði í þá eyðulögðust nærliggjandi hús sum að öllu leyti en önnur að hluta. Margir urðu því fyrir verulegu eignatjóni. Sumir misstu aleiguna. Þetta var hörmulegt og borgarstjórnin í Reykjavík kom saman til að ræða þessi alvarlegu tíðindi og með hvaða hætti mætti aðstoða þá sem höfðu orðið fyrir tjóni í þessum hræðilegu eldsvoðum.

Brunamálastofnun, eldvarnaeftirlit og slökkvulið komu að málinu og eftir nokkra rannsókn virtist þessum stofnunum sem eldsvoðarnir stöfuðu af því að það hefði verið kveikt í húsunum. Þá var það líka samdóma álit þessara stofnana að brunavörnum hefði verið áfátt. Ljóst var að eigendur sumra húsanna hefðu ekki gætt þess að fylgja byggingarreglugerð um brunavarnir. Þá kom í ljós að eitt húsið hafði verið á undanþágu þar sem brunamálastofnun hafði vakið athygli á nauðsynlegum úrbótum en ekkert hafði enn verið aðhafst vegna þess að sú stofnun Reykjavíkurborgar sem málið heyrði undir hafði gefið eigendunum heimild til að fresta þeim aðgerðum sem brunamálastofnun hafði talið nauðsynlegt að gripið yrði til hið fyrsta.

brennuvargur

Margir áttu um sárt að binda og höfðu orðið fyrir miklu eignatjóni. Mikil reiði greip því um sig meðal þeirra svo og þeirra sem sáu fram á að þeir mundu þurfa að bera hærri gjöld og líða fyrir það að svo gríðarlegt brunatjón hafði orðið. Reiðin magnaðist og mótmælt var við ráðhúsið dag eftir dag og þess krafist að borgarstjórn segði af sér þar sem hún væri vanhæf fyrir það að hafa heimilað undanþágu í einu tilviki og að öðru leyti ekki gætt þess að hafa nægjanlegan viðbúnað til að tryggja að eldur kviknaði ekki í húsum í Reykjavík. Því var haldið fram að reglur um brunavarnir væru ekki nægjanlega víðtækar og strangar og það væri á ábyrgð borgarstjórnar og þá hefðu borgaryfirvöld heimilað undanþágur sem hefðu orsakað það í einu tilviki að hús brann til grunna og nærliggjandi hús eyðilögðust alveg eða að hluta.

Þá töldu mótmælendur að yfirstjórn slökkviliðsins væri í molum. Ekki hefði verið gætt að því að endurnýja tæki. Það var skýlaus krafa mótmælenda að borgarstjórn færi frá og ný yrði kjörin sem tryggði það að ekki yrðu eldsvoðar aftur í Reykjavík.

Í nokkra stund reyndi borgarstjórinn að andæfa og benti á að eldsvoðinn hefði orðið vegna þess að kveikt var í húsunum en viðurkenndi að betur hefði mátt standa að brunavörnum og eðlilegt væri að herða mjög reglur um eldvarnir og brunamál. Mótmælendur ærðust alveg við þetta og söfnuðust saman daglega og höfðu uppi hróp og köll þannig að ekki var stundarfriður í Ráðhúsinu.

Svo fór að meirihluti borgarstjórnar splundraðist og nýr meirihluti var myndaður. Nýr borgarstjóri var valin kona að nafni Jóhanna, sem þekkt var fyrir að dreifa jólagjöfum á annarra kostnað jafnvel þó að ekki væru jól. Nýi meirihlutinn kom sér saman um að reka yfirmann slökkviliðsins, forstjóra Brunamálastofnunar og forstjóra eldvarnareftirlitsins. Nýi meirihlutinn sagði í samstarfssamningi að þeir sem bæru ábyrgð á þeim hræðilegu eldsvoðum sem hefðu orðið í Reykjavík yrðu að axla ábyrgð og nauðsynlegt væri að leita allra leiða til að koma í veg fyrir svona tjón í framtíðinni og tryggja það að þeir sem bæru ábyrgð á þessu tjóni yrðu látnir sæta ábyrgð.

Rannsóknarnefnd

Sérstök rannsóknarnefnd var skipuð til að gera stjórnsýsluúttekt á ábyrgð embættismanna borgarinnar í sambandi við eldsvoðana en einnig var nefndinni falið að endurskoða þann lagaramma sem að ætti við varðandi brunarvarnir.

Mótmælendur færðu sig nú um set og mótmæltu við slökkviðstöðina og síðar hjá Brunamálastofnun og loks hjá Eldvarnareftirlitinu.

Slökkviliðsstjórinn var kallaður á fund borgarstjóra og sagðist borgarstjóri krefjast þess að hann segði af sér ásamt varaslökkviliðsstjóra og þeim varðstjórum sem voru á vakt þegar eldur kviknaði í húsunum þrem sem hér ræðir um. Slökkviliðsstjóri maldaði í móinn og sagðist hafa gert allt rétt. Slökkviðliðið hefði gætt þess að hafa nauðsynlegan viðbúnað og væri ágætlega tækjum búið og þá hefði slökkviðliðið verið komið á vettvang stuttu eftir útkall í öllum tilvikum þegar um þá bruna var að ræða sem hér ræðir um. Borgarstjóri sagði þá að margt benti nú til annars og þá hefði slökkviliðið ekki gætt að þeirri sjálfsögðu eftirlitsskyldu sem því bæri að sinna með húsum í miðborginni þegar eldarnir kviknuðu með þeim adrifaríku afleiðingum sem hinn nýi borgarstjóri ræddi í löngu máli við slökkviliðsstjóra að hefði átt sér stað og allt á ábyrgð stlökkviliðsins. Slökkviliðsstjórinn var vanur maður sem hafði marga fjöruna sopið og var ekki tilbúinn til að taka þessum ávirðingum jafnvel þó að borgarstjórinn setti þær fram.

Slökkviliðsstjórinn sagði allar þessar ávirðingar rangar. Hann og slökkviliðið hefðu að öllu leyti farið að reglum og staðið sig mjög vel. Slökkviliðið hefði í raun unnið þrekvirki og náð að koma í veg fyrir að allar fúaspýturnar í miðbænum brynnu til kaldra kola þrátt fyrir að norðaustanbál hefði verið allan tímann sem slökkviliðið barðist við eldinn. Þá sagði slökkviliðsstjóri að slökkviðliðið væri fáliðað og hann hefði ítrekað farið fram á það við borgaryfirvöld að fjölgað yrði í slökkviliðinu og það betur búið tækjum og búnaði. Í lokin sagði slökkviliðsstjóri að borgarstjóri yrði að hafa það hugfast að það sem í raun hefði valdið eldinum væri ekki slökkviliðinu að kenna. Í öllum tilvikum hefði verið kveikt í húsunum. Ljóst væri að hættulegir brennuvargar gengju lausir í borginni og brýnast væri að hafa hendur í hári þeirra. Slökkviliðsstjóri sagði að það væri alveg sama hvaða reglur yrðu settar meðan brennuvargarnir gengju lausir í borginni.

Þessi orðræða slökkviðliðsstjóra virtist ekki hafa önnur áhrif en þau að borgarstjóri æstist til muna titraði og greip um stóran blómavasa og sagði eldrauð bæði í kinnum og á hálsi svo langt sem niður var séð. Á ég að skilja orð þín svo að þú neitir að verða við tilmælum mínum um að segja af þér.

Slökkviliðsstjórinn sagðist ekki mundu segja af sér. Varð síðan fátt um kveðjur og strunsaði slökkviliðsstjórinn eins og kolsvart þrumuský til sín heima og lét ekki af símhringingum fyrr en hann hafði talað við helstu vini sína um þá ruglukolla sem tekið hefðu við stjórn borgarinnar og það óréttlæti sem ætti að sína sér og öðrum yfirmönnum í slökkviliðinu. Daginn eftir ræddi slökkviliðsstjóri við yfirmenn í slökkviliðinu sem voru honum sammála um að best væri að borgarstjórn bæri þá út ef það væri eindreginn vilji borgarstjórnar.

Borgarstjóri boðaði í skyndingu til borgarstjórnarfundar. Hann varð sá lengsti sem sögur fóru af og á endanum samþykkti nýi meirihlutinn að hvað svo sem það kostaði borgina þá skyldu yfirmenn í slökkviliðinu taka pokann sinn þar sem nauðsynlegt væri að fá hæft starfsfólk með sérþekkingu í slökkviliðið.

Fjölmiðlar tóku allir sem einn undir með meirihluta borgarstjórnar um að nauðsyn væri á að hæft fólk tæki við slökkviliðinu. Þá töldu fjölmiðlar að þar með ætti ekki að láta staðar numið heldur þyrftu yfirmenn Brunamálastofnunar og Eldvarnareftirlits líka að taka pokann sinn.

Svo fór eftir nokkuð stapp að slökkviliðsstjóri ásamt helstu yfirmönnum slökkviliðsins voru bornir út úr slökkvistöðinni en þegar til átti að taka fannst ekki slökkviliðsstjóri sem gæti tekið við á stundinni og var því fenginn fyrrum lögreglustjóri frá Lillehammer í Noregi til að taka við slökkviliðinu enda hafði sá getið sér gott orð fyrir frábæra stjórn á lögregluliðinu í Lillehammer þegar vetrar Olympíuleikarnir voru haldnir þar. Tekið var fram að þrátt fyrir að flest hús í Lillehammer væru úr timbri þá hefði engin eldsvoði orðið í Lillehammer þær vikur meðan Olympíuleikarnir stóðu. Raunar var um vetrarleikana að ræða og frostið í Lillehammer var á annan tug stiga alla daganna en það skiptir ekki máli í sjálfu sér því allir vita að eldur getur jú líka kviknað í frosti. Í því sambandi benti borgarstjórinn nýi sérstaklega á að þeir eldsvoðar sem um hafði verið að ræða hefðu jú allir kviknað í norðaustanbáli þegar hitastig var undir frostmarki. Þá var þess getið að uppgjafarlögreglustjórinn frá Lillehammer væri bara ráðinn til bráðabirgða meðan verið væri að leita að hæfum Íslendingi til að taka við starfi slökkviliðsstjóra í Reykjavík.

Mótmælendur ætluðu að ærast úr gleði yfir því að hafa komið fram kröfum sínum og komið því til leiðar að slökkviliðsstjórinn var látinn víkja og gamli löreglustjórinn skyldi vera tekinn við. Á næsta mótmælafundi talaði fundarboðandi um það hvað allt væri nú orðið með öðrum blæ eftir að nýja borgarstjórinn tók við og léti hendur standa fram úr ermum. Meira þyrfti þó að gera þar sem að forstjórar Eldvarnareftirlits og Brunamálastofnunar sætu enn en allir gætu séð að þessir menn væru ekki vanda sínum vaxnir og gætu ekki gegnt störfum áfram þar sem að þessar stofnanir hefðu átt að sjá um að eldvarnir væru í góðu lagi en það hefðu þær ekki verið. Þá hefðu þessar stofnanir gefið út margar yfirlýsingar um að eldvarnir væru í lagi sem síðar hefði komið á daginn að þær væru ekki. Ljóst væri því að yfirmenn þessara stofnana yrðu að fara.

Borgarstjórinn nýi var mótmælendum sammála enda átti hún starf sitt mótmælendunum að þakka. Ekki var eins örðugt að segja upp forstjórum Brunamálastofnunar og Eldvarnareftirlits og því var það gert næsta dag. Þeir mótmæltu að vísu á svipuðum forsendum og slökkviliðsstjórinn hafði gert áður og bentu sérstaklega á það eins og hann að kveikt hefði verið í húsunum sem um ræddi og breyttar reglugerðir, byggingarsamþykktir eða álagspróf breyttu engu um þau tilvik sem um ræðir.

Nýi borgarstjórinn leiður að hlusta á þusið

Nýi borgarstjórinn var nú orðinn næsta leiður á að hlusta á þetta þus og þessar sífelldu endurtekningar um að íkveikja hefði valdið þessum eldsvoðum og sagði þessum góðu forstjórum að vera ekki með þessar málalengingar heldur hypja sig hið fyrsta og hún skyldi tryggja þeim góða starfslokasamninga á kostnað Reykjavíkurborgar. Forstjórarnir sáu að ekki yrðu um þokað og gerðu því hinar ítrustu kröfur sem gengið var að á kostnað borgarbúa. Þeir héldu síðan á braut en störf þeirra voru auglýst laus til umsóknar.

Fjölmiðlafólkið réði sér ekki fyrir kæti og taldi sig hafa unnið sigur á spilltu kerfi óhæfra brunavarða og eftirlitsaðila með brunavörnum. Einráður digri sem stjórnaði víðkunnum spjallþætti um brunamál í sjónvarpi fór síðan mikinn og fékk til sín fjölda spekinga á helstu helgidögum þjóðkirkjunar og þeir bentu allir á með hvaða hætti þeir hefðu séð það fyrir að ógæfan mundi dynja yfir og fjöldi eldsvoða mundi valda óbætanlegu tjóni. Enginn kannaðist þó við að samspjallarar Einráðs digra hefðu nokkru sinni gert sérstakar athugasemdir við brunavarnir áður en eldsvoðarnir urðu. Það skipti í sjálfu sér ekki máli. Þessir spekingar höfðu greinilega vitað þetta allan tímann og þó þeim hefði e.t.v. láðst að gera nokkuð með þetta á sínum tíma þannig að sönnur mætti færa á það þá bentu þeir á að þeir hefðu iðulega rætt um þessi mál við vini sína á síðkvöldum í síma eða í partíum. Einn kallaði konuna sína til vitnis um að hann hefði verið venju fremur órór þær nætur sem að eldsvoðarnir voru og talað um að við hana að eitthvað hræðilegt væri að gerast og ljóst að það hlyti að vera slökkviliðinu að kenna.

Í útimótmælunum hafði komið fram kennarinn Gylfi sem krafðist þess að brunavarnir yrðu efldar með ákveðnum hætti sem hann rakti í löngu máli. Þá gerði hann þá kröfu að þeir sem höfðu orðið fyrir tjóni í eldsvoðunum fengju tjón sitt bætt að fullu. Borgarstjórinn nýi sá að það yrði happafengur að ráða þennan háskólakennara sem aðstoðarmann sinn og gerði það strax næsta dag og fól honum að hafa með þau mál að gera sem snertu eldsvoðana og með hvaða hætti ætti að bæta fólki það tjón sem það hefði orðið fyrir og mundi fyrirsjáanlega verða fyrir. Háskólakennarinn tók við embættinu lítillátur að vanda og sagði það vera mikinn heiður fyrir sig að fá að vera aðstoðarmaður borgarstjóra og hann mundi að sjálfsögðu sjá til þess að allir gætu orðið glaðir aftur þar sem hann hefði þau ráð undir rifi hverju sem hann hefði svo fjálglega talað um á útifundinum þar sem pólitískar ástir tókust með borgarstjóranum og aðstoðarmanninum nýráðna.

Fjölmiðlamenn og mótmælendur réðu sér ekki fyrir kæti. Nú voru hlutirnir komnir í eðlilegan farveg. Fjölmiðlamenn gættu þess nú að spyrja borgarstjóra og aðstoðarmann hans engra leiðinlegra spurninga og létu nægja að borgarstjórinn segði að málin væru í athugun og borgarstjórnarmeirihlutinn væri allur af vilja gerður að taka á málum og koma ábyrgð yfir þá sem bæru ábyrgð á því að stjórnsýslan hefði brugðist í þeim hræðilegum eldsvoðum sem orðið hefðu.

Dvergvaxið ofurmenni mætir

Sem pólitískan meðreiðarsvein hafði borgarstjórinn fengið dvergvaxið ofurmenni, Steingrím, sem hafði haft uppi óp og köll að borgarstjórninni um árabil og talað um nauðsyn þess að verklagi yrði breytt á víðtækan hátt og tekið tillit til sanngjarnra krafna minnihlutans. Dvergvaxna ofurmennið tók nú til við að aðstoða borgarstjórann og þess var ekki lengi að bíða að hann varð mun áhrifameiri en borgarstjórinn. Við allar erfiðar ákvarðanatökur kom dvergvaxna ofurmennið fram og gerði borgurum Reykjavíkur grein fyrir því með áunnum elegans sem honum einum var lagið að hlutirnir væru í raun allt annars eðlis en þeir hefðu verið hjá fyrri valdhöfum jafnvel þó að verið væri að gera það nákvæmlega sama. Þá tók hann einnig sérstaklega fram að jafnvel þó að verklagið í borgarstjórninni hefði ekkert breyst og minnihlutinn væri sniðgenginn mun meira en minni hluti hefði nokkru sinni verið sniðgenginn áður þá væri hér um allt annað að ræða. Fólkið hefði í raun komið að ráðningu núverandi meirihluta sem væri allt annað en um hafi verið að ræða með gamla meiri hlutann og þar sem að nýi meiri hlutinn væri í raun meiri hluti fólksins þá talaði fólkið í gegn um hann og nægjanlegt væri að hann tæki ákvarðanir á grundvelli þess sem fólkið hefði falið honum sérstakt umboð til að framkvæma.

Þegar í sérstakar nauðir rak þá sagði dvergvaxna ofurmennið að hann væri í raun mótfallinn því sem hann væri að gera en hinsvegar bundinn af því sem fyrri meiri hluti hefði verið búinn að gera og því gæti hann ekki annað en gert það sem fyrri meiri hlutinn hefði viljað gera. Þetta sagði dvergvaxna ofurmennið tárfellandi að væru hræðileg örlög en þeim örlögum yrði hann að sæta þar sem að hversu mótfallinn sem hann væri því að gera það sem hann væri að gera þá yrði hann samt að gera það. Í því sambandi tók dvergvaxna ofurmennið fram, en hann bar af öðru fólki fyrir málsnilld og víðtæka þekkingu í ritningunni og fjölmörgum öðrum fagurbókmenntum, að í raun væru örlög hans þau sömu og Páls postula. Postula Jesús Krists þegar hann hefði sagt:

„Vér vitum að lögmálið er andlegt, en ég er holdlegur, seldur undir syndina. Því að ég veit ekki, hvað ég aðhefst. Það sem ég vil, það gjöri ég ekki, en það sem ég hata, það gjöri ég. En ef ég nú gjöri einmitt það sem ég vil ekki, þá er ég samþykkur lögmálinu, að það sé gott. En nú er það ekki framar ég sjálfur, sem gjöri þetta, heldur syndin sem í mér býr.“

Allir viðstaddir viknuðu en fögnuðu síðan gríðarlega þegar dvergvaxna ofurmennið lauk máli sínu með þessari tilvitnun í Rómverjabréf Páls postula og sáu að þar fór sannur spámaður sem ekki voru svik í.

Nokkru síðar komu upp eldsvoðar í borginni með þeim afleiðingum að hús brunnu og eignatjón varð. Það eignatjón varð þó ekki jafn mikið og í fyrri eldsvoðum. Ljóst var að kviknað hafði í þessum húsum af sömu ástæðu og þeim fyrri. Eldur hafði verið borinn að þeim eins og aðstoðarmaður borgarstjórans orðaði það en þar sem hann hafði verið háskólakennari þá notaði hann tungutak sem fólki var almennt framandi og venjulegt fólk hefði sagt að kveikt hefði verið í húsunum eins og átti sér stað þegar húsin brunnu sem ollu öllu uppistandinu. Einhver spurði aðstoðarmanninn hvort hann bæri enga ábyrgð á þessum eldsvoðum en hann sagðist ekki gera það þar sem hann væri nýtekinn við og í raun hefði hann ekkert getað gert þetta hefði allt verið á ábyrgð fyrri borgarstjórnar sem hefði ekki gætt þess að hafa gott slökkvilið eða nægjanlega gott regluverk sem umgjörð um eignir brorgaranna.

Einhver var svo óskammfeilinn að tala um það hvort ekki ætti að bæta fólki eignatjón sem það hefði orðið fyrir eins og aðstoðarmaðurinn hefði talað um að gert yrði á útifundinum þegar pólitískar ástir tókust með honum og nýja borgarstjóranum. Aðstoðarmaðurinn sagði að það hefði verið snúið út úr orðum sínum. Hann hefði í raun ekki sagt það sem hann sagði á útifundinum og þó hann hefði sagt það þá hefði það verið rangtúlkun og útúrsnúningur vegna þess að orð hans hefðu verið rifin úr eðlilegu samhengi og þegar málið væri skoðað í eðlilegu samhengi þá hefði hann í raun sagt allt annað. Síðan setti aðstoðarmaðurinn á langa tölu sem skýrði það nákvæmlega út fyrir fólki hvað það væri sem hann hefði í raun átt við með orðunum á útifundinum sem fólk hafði misskilið svo rækilega þegar það hlustaði á hann þar. Nú skyldi fólkið loks að það hafði ekki bara eignast tvo nýa afburðarmenn í stjórnsýslu borgarinnar heldur þrjá. Nýja borgarstjórann, dvergvaxna ofurmennið og aðstoðarmanninn fyrrum háskólakennarann sem nú hafði á örskömmum tíma lært alla klæki hinna tveggja.

Þetta var næsta ótrúlegt þar sem hann hafði aðeins verið í lýðskrumi í nokkra mánuði á meðan nýi borgarstjórinn og dvergvaxna ofurmennið höfðu haft atvinnu af lýðskrumi allt sitt líf.

Nú gat almenningur sofið rólegur

Nú gat almenningur í borginni sofið öruggur þar sem að ráðvandir, klókir stjórnendur höfðu tekið við. Stjórnmálamenn fólksins. Þeir breyttu að vísu ekki neinu en það skipti ef til vill ekki svo miklu máli þegar að var gáð.

litlastulkanmeðeldspyturnar 

Litla stúlkan með eldspýturnar sat í tröppunum á ráðhúsinu og hugsaði hvað það væri gott að eiga svona góða stjórnendur. Stjórnendur sem allt vissu og kæmust jafnan að hinni einu réttu niðurstöðu. Ég var satt að segja orðin hrædd um að þetta væri mér að kenna sagði litla stúlkan með eldspýturnar af því að ég seldi þeim sem kveiktu í húsunum eldspýturnar.


Nýtt Þjóðleikhús

þjoðleikhusið.jpg.Á forsíðu Fréttablaðsins er sagt frá því að Þjóðleikhúsið sé að hruni komið auk þess sem tækjabúnaður sé gamall úreltur og jafnvel hættulegur. Þá sé vinnuaðstaða ófullnægjandi og brunavörnum verulega áfátt.

Ekki er svo ýkja langt síðan kostnaðarsömum viðgerðum og endurbótum lauk á Þjóðleikhúsinu. Nú þarf marga milljarða í viðbót. Mér er ljóst að margir hafa viðkvæmar taugar til gamalla bygginga. Þjóðleikhúsið er þó ekki eldra en 59 ára sem telst ekki mikið þegar um hús er að ræða. 

Ég tel mikilvægt að búa íslenskri leiklist góð skilyrði. Spurningin er þá hvernig á að gera það. 

Er skynsamlegt að endurbyggja Þjóðleikhúsið?

Er e.t.v. skynsamlegt að skoða möguleika á samvinnu við Borgarleikhúsið?

Væri hugsanlega mesta þjóðráðíð að setja þá fjármuni sem ella færu í endurbyggingu og viðhald Þjóðleikhúss í músikhúsið við höfnina og gera það að  Þjóðleikhúsi?

Ég er hræddur um óháð því hvaða tilfinningar fólk ber til Þjóðleikhúsbyggingarninar að það borgi sig ekki að halda áfram að tjasla upp á það. Aðrar lausnir séu líklegri til að hlúa að og örva gott og nútímalegt leiklistarstarf  og listastarf í landinu.


Það besta sem komið hefur fram lengi.

Tillögur Sjálfstæðisflokksins um aðgerðir vegna alvarlegs ástands í efnahagsmálum eru mjög góðar. Fátítt er að stjórnmálaflokkur í stjórnarandstöðu á Íslandi setji fram góðar heildstæðar tillögur eins og þær sem settar voru fram í gær en með þessu brýtur Sjálfstæðisflokkurinn þá neikvæðu stjórnmálahefð sem einkennt hefur íslenska stjórnarandstöðu um langt skeið.

Tillögurnar um að ríkið taki skatta af lífeyrisgreiðslum strax við greiðslu lífeyrisins í stað þess að lífeyrissjóðirnir fái peningana til sín eru frábærar. Með þeim hætti fær ríkið tekjur sem því ber skv. skattalögum í stað þess að lífeyrissjóðirnir séu í raun að valsa með þær. Það hefur líka þýðingu að fólk fái lífeyrinn sinn þegar byrjað er að taka lífeyri og allir skattar og gjöld hafi þá verið greidd þannig að fjárhæðin komi þá að fullu til fólksins. 

Einhvern veginn finnst mér ég sjá handbragð Tryggva Þórs Herbertssonar á þessum tillögum sem sýnir ef rétt reynist að hann er að koma sterkur inn í þingflokk Sjálfstæðisflokksins

Ég hefði að vísu viðjað ganga lengra varðandi lífeyrismálin og hafa einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn sem að væri í vörslu, meðferð og á ábyrgð ríkisins. Núverandi lífeyrissjóðakerfi gengur ekki. Þar hefur sá sem borgar ekkert að segja. Hann ræður engu og fær síðan iðulega ekki nema hluta af peningunum sínum til baka.  

Þessar tillögur Sjálfstæðismanna eru líka góðar vegna þess að með þeim þá má komast hjá nýrri skattheimtu.  Stjórnendur þessa lands hafa því miður ekki áttað sig á því að aukin skattheimta getur virkað til þess að dýpka kreppuna og draga hana á langinn.

Ríkisstjórnin ætti að taka þessum tillögum fagnandi og vinna að því með Sjálfstæðisflokknum að hrinda þeim í framkvæmd


mbl.is Lýstu ánægju með tillögur sjálfstæðismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva Joly ráðherra án ráðuneytis?

Óneitanlega er það sérstakt þjóðfélag sem við búum í.

eva_jolyÍ gær kom í sérstakan Kastljósþátt sérstakur aðstoðarmaður sérstaks saksóknara Eva Joly vegna efnahagshrunsins. Eva Joly gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum og kröfum. M.a. sagði Eva Joly að ríkissaksóknari væri vanhæfur og yrði að víkja auk þess sem skipa þyrfti marga nýja saksóknara sem hún tilgreindi. Ekki veit ég hvort Eva Joly er sérstakur sérfræðingur um íslenska réttarskipun sem er nokkuð frábrugðin franskri en það skiptir e.t.v. ekki máli.

Vanhæfi ríkissaksóknara að mati Evu Joly er vegna þess að hann á son sem er forstjóri fjárfestingarsjóðsins Exista.  Jafnvel þó að Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari hafi í maí s.l.  sjálfur sagt sig frá málum sem varða mál vegna bankahrunsins og heyra undir sérstakan saksóknara þá verður hann samt að víkja að öllu leyti samkvæmt kröfu Evu Joly.

Sérstaklega aðspurð í Kastljósþættinum, um það hvort hún hafi rætt þessi mál við ráðherra, þá sagði Eva Joly að það hefði hún ekki gert en hún snéri sér til fólksins í landinu. Hvernig á að skilja það? Að hún beini máli sínu til Alþingis götunnar?

Hvað sem því líður þá þurfti ekki lengi að bíða vegna þess að rúmri einni og hálfri klukkustund eftir að Eva Joly hafði krafist  þess að ríkissaksóknari yrði rekinn og meiriháttar uppstokkun yrði gerð í réttarkerfinu þá kom dómsmálaráðherra í viðtal í ríkissjónvarpinu og sagði að hún hefði skipað sérstakan ríkissaksóknara í þeim málum sem gætu varðað son ríkissaksóknara og taka yrði á þeim málum að öðru leyti sem Eva Joly talaði um. Ég gat ekki skilið hana með öðrum hætti en þeim að þrátt fyrir að hún hefði haft ákveðna lagasmíð í huga þá yrði nú að breyta til vegna þess sem þessi talsmaður sem snúið hafði sér til fólksins einni og hálfri klukkustund áður gerði kröfu til.

Í dag orðaði dómsmálaráðherra þetta síðan svo í ríkisútvarpinu rás 2. "Ef Eva segir að það þurfi að gera betur þá verður að gera betur."  En hvað með sjálfstætt mat dómsmálaráðherra?  Er það ekki fyrir hendi? 

Á Alþingi sagði forsætisráðherra í dag að ríkissaksóknari ætti að víkja.  Hún skýrði þó ekki í hverju vanhæfi hans til starfans væri fólgið umfram það sem Eva Joly hafði gert. 

Skyldi einhver hafa áhyggjur af því hvort að réttarríkinu á Íslandi sé hætta búin?

Nú tel ég uppá eins og kellingin sagði að það væri helst til heilla íslenskri þjóð að Eva Joly yrði tekin inn í ríkisstjórnina sem ráðherra án ráðuneytis þar sem að hún stjórnar hvort eða er skoðunum og viðbrögðum forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og e.t.v. fleiri ráðherra í gegn um Kastljósþætti sjónvarpsins. Það yrði óneitanlega skilvirkari stjórnsýsla ef það yrði þannig og þá bæri þessi kona líka ábyrgð á orðum sínum og gerðum, sem hún gerir ekki í dag.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 18
  • Sl. sólarhring: 430
  • Sl. viku: 4234
  • Frá upphafi: 2449932

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 3945
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband