Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Sigrar og siðferði

Á sama tíma og handboltalandsliðið vinnur verðskuldaða sigra er hver hrunbaróninn á fætur öðrum að vinna óverðskuldaða sigra. Í gær var sagt frá því að Ólafur Ólafsson héldi Samskipum og í dag berast fréttir af því að Jón Ásgeir hafi reitt fram milljarð til að halda fjölmiðlaveldi sínu sem kennt var við 365 miðla.  Bankakerfið stendur fyrir þessari endurskipulagningu til hagsbóta fyrir milljarðaskuldarana á sama tíma og verið er að hrekja venjulegt fólk úr húsunum sínum vegna milljónaskulda.

Kallast þetta að beita siðrænum lausnum við endurreisn þjóðfélagsins? 

Hver skyldi annars stjórna þessari vegferð?


Var þetta ekki Davíð að kenna?

Nýar fréttir af starfsemi Glitnis banka benda til að æskilegt hefði verið að ríkisvaldið gripi fyrr inn í rekstur og stjórn bankans en gert var.

Í september 2008 gat Glitnir ekki staðið við skuldbindingar sínar og leitaði til Seðlabankans. Í framhaldi varð ríkið aðaleigandi bankan. Sumir helstu hluthafar héldu því þá fram að þetta væri vegna haturs Davíðs Oddssonar á þeim.  Nú hefur annað komið í ljós. Þarna fór fram starfsemi sem varð að stöðva og rekstri bankans sjálf hætt vegna óstjórnar.

Vilhjálmur Bjarnason aðjúknt við HÍ hefur verið óþreytandi við að leita réttar litla hluthafns og náð fram mikilvægum upplýsingum í þeirri baráttu um vafasama starfsemi í bankakerfinu fyrir bankahrunið. Hann á heiður skilið fyrir það. Með þeim upplýsingum sem Vilhjálmur hefur aflað og duglegir fréttamenn hefur smám saman verið að koma í ljós að umræðan hér hefur verið á verstu villigötum. Í stað þess að ákæra þjófinn hafa þeir orðið illa úti sem stolið var frá.

Nú er spurningin hvort stjórnvöld og bankar ætla að halda hrungengjunum við völd í fyrirtækjunum  með því að  afskrifa milljarða skuldir þeirra.  

http://www.dv.is/frettir/2010/1/26/glitnir-daeldi-peningum-i-fons-rett-fyrir-hrun


Ósmekkleg fréttamennska RÚV

Á Stöð 2 og Ríkissjónvarpinu var sagt frá sérstökum vildarkjörum sem bróðir þingmannsins Björns Vals Gíslasonar Vinstri grænum hafði gert við kaup á stórhýsi á Grensásvegi. Þeir sem þekkja til fasteignaviðskipta sjá strax að þarna voru sérstök vildarkjör í boði þrátt fyrir að verð á fasteignum hafi lækkað. Þrátt fyrir það þurfa viðskiptin ekki að vera óeðlileg og þar vantaði upp á eðlilega fréttamennsku. Það eitt að vera bróðir Björns Vals Gíslasonar veldur því ekki sjálfkrafa að viðskipti séu óeðlileg.

Þá var það með endemum að nöfn þeirra Skúla Helgasonar þingmanns Samfylkingarinnar og Sigríðar Önnur Þórðardóttur fyrrum þingmanns Sjálfstæðisflokksins skyldu vera dregin inn í þessa umfjöllun. Við fyrsta augnakast þá verður ekki séð að um óeðlilega lágt verð hafi verið á þeirra eignum og það að vera eða hafa verið þingmaður gerir hluti ekki tortryggilega nema eitthvað meira komi til.

Það var með miklum ólíkindum að draga Skúla Helgason og Sigríði Önnu inn í umfjöllun um kaup á atvinnuhúsnæði. Fréttin á RÚV var fréttastofunni hvað þau varðaði var ósæmileg.


Ný samninganefnd um Icesave

Skv. samkomulagi stjórnar- og stjórnarandstöðu verður ný samninganefnd  skipuð til að leita nýrra samninga um Icesave. Er eðlilegt  að ríkisstjórn sem þegar hefur undirritað 2 samninga um Icesave og þrýst þeim í gegn um Alþingi sitji áfram og leiti í 3. sinn eftir samningum?

Með þessu viðurkennir ríkisstjórnin mistök. Er ekki eðlilegt að þeir sem bera ábyrgð á þessu axli ábyrgð?  Var það ekki Steingrímur J. Sigfússon sem fyrir ári síðan fór mikinn og krafðist þess að þeir sem bæru ábyrgð öxluðu hana. Hvenær ætlar Steingrímur J. Sigfússon að axla ábyrgð á vanhæfri samninganefnd og óviðunandi samningum um Icesave? 


Á að banna að ljósmyndir séu teknar í húsakynnum dómstóla?

Fyrir nokkru neitaði sakborningur að mæta við þingfestingu máls nema ljósmyndarar færu úr húsinu. Saksóknari sagðist þá mundu færa hann fyrir dóminn með lögregluvaldi. 

Víða um heim er bannað að taka ljósmyndir í húsakynnum dómstóla. Ljósmyndarar verða að bíða fyrir utan dómhús í Bretlandi og Bandaríkjunum svo dæmi séu tekin. Af hverju? Til að veita aðilum máls sérstaklega sakborningum lágmarksvernd.

Það er óneitanlega hvimleitt og óviðeigandi að grunaður maður þurfi að brjóta sér leið í lögreglufylgd framhjá her ljósmyndara þegar hann er færður fyrir dóm. Iðulega er um saklausa menn að ræða sem þannig eru myndaðir og fá ákveðna brennimerkingu almenningsálitsins algjörlega að ástæðulausu.

Væri ekki eðlilegt að banna aðgang ljósmyndara að dómhúsum eins og gerist víða í réttarríkjum? Er ekki sjálfsagt og eðlilegt að sakað fólk njóti þeirra mannréttinda að fá að teljast saklaust þangað til sekt þess er sönnuð?

Dómsmálaráðherra ætti þegar í stað að gera ráðstafanir til að banna aðgang ljósmyndara að dómhúsum. 

 


Óflekkaðar íslenskar konur.

Í viðtali í dag við dagblaðið New Statesman segir forsætisráðherra að konur séu ekki eins flekkaðar af efnahagsmistökum og karlarnir og eigi því skilið að fá tækifæri.  En hvað með þá karla sem ekki eru flekkaðir af efnahagsmistökunum eiga  þeir ekki skilið að fá sömu tækifæri?

Hvað yrði sagt ef karlmaður sem forsætisráðherra vísaði stöðugt til  kynbundinna gilda og mismunar eins og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gerir sig seka um aftur og aftur.

Í samræmi við þá skoðun forsætisráðherra  að skilja hafrana frá sauðunum og skilja á milli flekkunar og flekkleysis ákvað  Jóhanna Sigurðardóttur að velja kúlulánadrottningu sem forstjóra Bankasýslu ríkisins. Fannst ekki flekklausari kona úr röðum vinstra fólks á Íslandi? 

Flekklausir karlar komu að sjálfsögðu ekki til greina.


Góð tillaga Ingibjargar Sólrúnar.

Í grein í Fréttablaðinu í dag leggur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar til, að skipuð verði pólitísk sátta- og samninganefnd til að leiða ágreiningsmál okkar við Breta og Hollendinga til lykta. Í samninganefndina veljist fólk sem nýtur bæði trausts innan flokka og þvert á flokka. Ingibjörg vill til að nefndin leggi mat á þær leiðir sem færar eru og fái umboð til að semja fyrir Íslands hönd.

Mér finnst ástæða til að taka undir þessa tillögu Ingibjargar. Nefndin gæti þá látið reyna á málið og reynt að fara á byrjunarreit með málið eins og Eva Joly leggur til. Það sem gæti verið vandamál í því sambandi er þó að ríksstjórnin er búin að skrifa undir þjóðréttarsamninga tvisvar sinnum um Icesave málið.

En skyldu þau Steingrímur J. Sigfússon sem skipaði vanhæfu samninganefndina og Jóhanna Sigurðardóttir taka undir þessa tillögu Ingibjargar? Sennilega ekki. Sennilega líta þau svo  á að slíkt feli í sér  áfellisdóm yfir sérog ríkisstjórninni.  Raunar er það rétt.

Tillga Ingibjargar felur í sér ákveðinn áfellisdóm yfir ríkisstjórninni.


Ríkisstjórn eða forseti

Þórunn Sveinbjarnardóttir Samfylkingarþingmaður segir valið einfalt í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave lögin. Þar sé spurningin um hvort þjóðin vilji ríkisstjórnina eða forsetann kosninginn snúist um það. Hvað eigum við þá  að gera sem viljum hvorki  forsetann né þessa ríkisstjórnina?

Sennilega er þá ekki annað í stöðunni en taka afstöðu á grundvelli þess sem kosið verður um í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Þessi uppstilling ráðherrans er röng m.a. af því að það er ekki sjálfgefið að ríkisstjórnin fari frá þó Icesave lögin yrðu felld og næsta víst að forsetinn mundi ekki segja af sér þó þau yrðu samþykkt.

 

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/01/06/segir_valid_standa_milli_rikisstjornar_og_forseta/

 

 


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 17
  • Sl. sólarhring: 429
  • Sl. viku: 4233
  • Frá upphafi: 2449931

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 3944
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband