Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Slæm tíðindi

Neyðarfundir Jóhönnu Sigurðardóttur vegna skuldavanda einstaklinga, með forustumönnum fjármálastofnana, lykilráðherrum nokkrum þingnefndum og fulltrúum Hagsmunasamtaka heimila og talsmanni neytenda virðast ekki ætla að skila neinu. Það eru slæmar fréttir.

Stærsti vandinn er sá að ríkisstjórnin hefur enga stefnu, engar tillögur og engar lausnir. Séð utanfrá þá virkar forsætisráðherra eins og aðkeyptur fundarstjóri á almennri helgarráðstefnu og ekki verður annað séð en helsti ráðamaður ríkisstjórnarinnar,  fjármálaráðherra, hafi takmarkaðan áhuga á ráðstefnu forsætisráðherra um skuldavandann.

Ötulasti talsmaður Hagsmunasamtaka heimilanna, Marinó G. Njálsson, segir á bloggi sínu í morgun að ríkisstjórnin bjóði í raun aðeins upp á þrjár leiðir sem allar feli í sér að fólk flytur úr landi með búslóðir sínar. Með því er Marinó í raun að segja að ekkert  hafi gerst á neyðarfundum forsætisráðherra. Ég verð að viðurkenna það að mér fannst slæmt að heyra að svona væri komið því að alltaf held ég í vonina um að forystumenn í íslensku stjórnmála- og fjármálalífs horfist í augu við staðreyndir þeirra vandamála sem venjulegt fólk glímir við í þjóðfélaginu í dag.

Forsenda þjóðarsáttar og nýs upphafs á Íslandi fellst í því að leiðrétta skuldir fólks og fyrirtækja. Hún fellst ekki í því að gefa einhverjum eitthvað heldur leiðrétta það sem ranglega er lagt á fólk eða frá því hefur verið tekið, á grundvelli verðtryggingar eða vegna þeirra fjármálahamfara í þjóðfélaginu sem byrjuðu með gengishruninu.  Annað þarf ekki en ekkert minna dugar.


Skuggaelítan

New Left Review, sem er málgagn fyrrum kommúnista og öfgafullra vinstri manna, og amast m.a. við frjálsu markaðsþjóðfélagi, birtir greiningu um hrunið á Íslandi. Greinin nefnist "Skuggaeilítan: Innherjarnir sem felldu efnahag Íslands."

Af fyrirsögninni að dæma hefði mátt ætla að umfjöllunin væri um fallin fjármálafyrirtæki og tug- og hundraðamilljarða skuldara sem voru orsakavaldar hrunsins.  Annað kom í ljós. Greinarhöfundar halda því fram, að Geir H. Haarde og Davíð Oddsson hafi af valdagræðgi og með því að stýra sjálfum sér og vildarvinum í lykilstöður, verið helstu orsakavaldar hrunsins.

Þessi niðurstaða kemur á óvart miðað við hlutlægustu greiningar sem farið hafa fram á hruninu eins og hjá Mats Josefsson, Karlo Jänneri og m.a. jafnvel hinni stjórnsýslumiðuðu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Niðurstöður greinarhöfunda New Left Review miðað við greiningar ofangreindra aðila er rugl.

Niðurstaðan kemur ekki á óvart þegar betur er að gáð. Höfundar þessarar rugluðu greinar og röngu greiningar í New Left Review eru nefnilega helstu viðmælendur og vildarvinir silfur Egils Helgasonar þau  Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur og Robert Wade sambýlismaður hennar. 

Með greinarskrifum sínum opinbera Robert Wade og Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur Sigurgeirsdóttir hvað það fer víðs fjarri að þau séu hlutlausir rýnendur í samtímaviðburði eða hafi hæfi eða burði til að horfa á mál og/eða atburði með hlutlægum hætti. Þeirra viðmið eru pólitísk og grunduð á hatri á markaðsþjóðfélaginu sem persónugerist í tveim einstaklingum að þessu sinni. 

Skrýtið að Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur skuli gleyma því að Ingibjörg Sólrún vinkona hennar og fyrrum sambýlingur var alveg sammála þeim Davíð og Geir um markaðsþjóðfélagið og vildi jafnvel gefa peningaöflunum enn lausari tauminn en þeir vildu. 

Bullið í Robert Wade og Sigurbjögu Sigurgeirsdóttur ber þess glöggt vitni að þau eru fyrst og fremst pólitískt ofstækisfólk. Þau hafa vaðið uppi í skjóli Silfur Egils Helgasonar og fréttamanns á RÚV. Þeim hefur verið gefinn kostur á því af Silfur Agli og fréttamanninum vini Sigurbjargar að sveipa um sig kufli fræðimennskunnar við hefur blasið nakið lýðskrum og pólitískt ofstæki þessara skötuhjúa.

Vonandi kemur sá tími að  Sigurlaug og Wade,  fái ekki frekari tækifæri til að rógbera land og þjóð á erlendum vettvangi og níða niður fólk vegna pólitískra skoðana þess. Þá verður fróðlegt að sjá hvort og þá hverjir það verða sem kalla í annað hvort eða bæði þessara skötuhjúa til að tjá sig um mál í framtíðinni.

Hin raunverulega skuggaelíta er allt annað fólk en Davíð og Geir. Þeir eiga ekki heima þar en það eiga þau bæði Wade og Sigurbjörg.


Hræðslan við lýðræðið

Fáum dylst að innan ríkisstjórnarinnar skortir bæði samstöðu og hugmyndir til að stjórna með þeim hætti sem nauðsyn krefur. Ríkisstjórnin gerir því það mesta gagn að segja af sér.

Innan ríkisstjórnarinnar er full samstaða um að sitja sem lengst. Ekki vegna þess að mikil ástúð ríki á stjórnarheimilinu heldur vegna óttans við lýðræðið. Sá ótti nær einnig  til stjórnarandstöðunnar.

Veður eru öll válynd í íslenskum stjórnmálum og engin getur sagt fyrir um hvað muni koma út úr kosningum. Ríkisstjórn og stjórnarandstaða hræðist að nýr flokkur eða flokkar komi fram og nái árangri eins og gerðist í Reykjavík og Akureyri við síðustu sveitarstjórnarkosningar.  Slík hræðsla er í raun hræðsla við lýðræðið.

Í landi sem tæpast er stjórnhæft lengur er eðlilegt að festu skorti í stjórnmálin meðan kjósendur og stjórnmálamenn eru að finna sér nýja fótfestu í breyttu umhverfi og við aðstæður ólíkar þeim sem þeir þekkja.  Lausn á því fæst ekki með því að ríkjandi stjórnmálastétt skríði öll í eina sæng til að koma í veg fyrir að lýðræðið hafi sinn gang. Lausnin fæst með því að láta lýðræðið vinna sína vinnu jafnvel þó að það þurfi að kjósa oftar en einu sinni á ári á næstunni.

Við því er ekki að búast að þjóðin eða stjórnmálamennirnir finni hugmyndafræðilega fótfestu í einu vetvangi en lýðræðið verður að fá að vinna sína vinnu.  

 


Nú ríða hetjur um héruð

Nú ríða sérkennilegar hetjur um héruð í líki þingmannanna Kristjáns L. Möller, Ólínu Þorvarðardóttur, Sigmundar Ernis Rúnarssonar og fleiri af sama sauðahúsi. Þessar hetjur hafa tekið sér stöðu með stofnunum í kjördæmum sínum gegn fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Í hópi þessara hugdjörfu þingmanna er Guðbjartur velferðar Hannesson sem sagði að ýmsu þyrfti að breyta í fjárlagafrumvarpinu.

Fyrir nokkru stóðu þessar sömu hetjur að því í Alþingishúsinu við Austurvöll í Reykjavík að leggja fram fjárlagafrumvarpið sem þau eru á móti heima í héraði.  Ekki nóg með það, Guðbjartur velferðar Hannesson var formaður fjárlaganefndar Alþingis sem hefur undirbúið og á mesta heiðurinn og/eða skömmina af fjárlagafrumvarpinu.

Fjárlagafrumvarp verður ekki til á einum degi og er ekki afrakstur eða hugarfóstur fjármálaráðherra eins. Mikil vinna fer fram í fjárlaganefnd Alþingis og áður en fjárlagafrumvarpið er lagt fram á Alþingi sem stjórnarfrumvarp er það kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna og lagt fram eftir að þeir hafa lagt blessun sína yfir frumvarpið. Hetjurnar í héraði og Gutti velferðar tala því með einum rómi á Alþingi en öðrum heima í héraði.

Nú eru það þingmenn Samfylkingarinnar til hægri og vinstri sem reyna að slá sig til riddara með því að berjast gegn eigin frumvarpi heima í héraði. Fróðlegt verður að sjá hvernig Jóhönnu Sigurðardóttur gengur að smala þessum hérum í Samfylkingunni til stuðnings við fjárlagafrumvarpið.


Uppgötvun Jóhönnu

Það var athyglivert að heyra það  í hádegisfréttum að forsætisráðherra hafði uppgötvað að stór hópur fólks ætti í skuldavanda.  Hún sagði að nú þyrfti að skoða málin en vildi ekki segja hvað ætti að gera. Hefur Jóhanna virkilega ekki skoðað málin og liggja ekki staðreyndir fyrir hjá henni eftir samfellda setu í ríkisstjórn frá 2007 og þingsetu nokkru eftir að Úlfljótur og Grímur geitskór hættu á Alþingi.

Eftir að hafa hlustað á stefnuræðu forsætisráðherar og viðbrögð núna þá datt mér í hug það sem danska drottningin sagði í byrjun síðustu aldar þegar hún spurði af hverju fólk væri sósíalistar og var svarað að sumir væru ekki ánægðir með ríkisstjórnina og konunginn. Þá sagði drottningin. "Hvílíkt vanþakklæti og við sem höfum gefið fólkinu Tívolí." 

Þá eins og nú þá má upplýsa Jóhönnu um að fólk hvorki borðar né býr í sértækri skuldaaðlögun.


Enn einn hring

Fjórum sinnum hefur ríkisstjórnin boðað til blaðamannafunda og sagt að nú væri kynnt hin endanlega lausn í málum skuldsettra einstaklinga. Jafn oft hafa landsmenn orðið fyrir vonbrigðum með boðskapinn.

Tveimur árum eftir hrun hafa höfuðstólar verðryggðra lána hækkað gífurlega vegna ímyndaðra hækkana, sem reiknaðar eru út á Hagstofunni, þrátt fyrir að engin virðisauk mælist í þjóðfélaginu heldur þver öfugt.  Það þýðir að verið sé að taka frá skuldurum og gefa fjármagnseigendum.

Verðtryggingarbullið og aðrar sérokurleiðir í lánamálum eru að éta upp eignir venulegs fólks. Jóhanna og Steingrímur hafa horft á með velþóknun ásamt ömurlegustu verkalýðshreyfingu veraldar.

Óneitanlega er það sérkennilegt að þau Jóhanna og Steingrímur skuli standa varðstöðuna með fjármagnseigendum. Raunar er mér sagt að Jóhanna hafi þegar byrjað þá varðstöðu í ríkisstjórn Geirs H. Haarde fyrir tveim árum síðan.

Þegar ríkisstjórn hefur misst traust þá er erfitt að ávinna það aftur.  Stefnulaus og úrræðalaus forsætisráðherra ætlar samt að freista þess enn einu sinni að kaupa sér vinsældir með því að spila einhverju út hvað svo sem það verður. 

En það dugar ekkert minna en að afnema sérleiðirnar í lánamálunum. Það verður að afnema verðtrygginguna. Það verður að reikna höfuðstólana aftur til október 2008. Eitt verður yfir alla að ganga í því efni.   

 


Dagar ríkisstjórnarinnar eru taldir

Flestum er ljóst að dagar ríkisstjórnarinnar eru taldir.  Forsætisráðherra biðlar nú til stjórnarandstöðunnar um að koma að borðinu með henni, en það getur stjórnarandstaðan ekki gert að óbreyttu.

Með aðgerðarleysi varðandi stökkbreyttu höfuðstólana og með því að horfa aðgerðarlaus á þegar fjöldi einstaklinga eru reknir út af heimilum sínum og í gjaldþrot vegna okurlánanna hefur ríkisstjórnin tapað tiltrú fólksins í landinu.

Ríkisstjórnin hefur magnað upp reiðina í þjóðfélaginu og vantrú á stjórnmálamönnum með því að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra. Þingmenn allir gerðust sekir um afglöp þegar þeir greiddu atkvæði með niðurstöðu Atlanefndarinnar þrátt fyrir að hún stangist á við heilbrigða skynsemi í ýmsum tilvikum.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur varð til eftir að Vinstri grænir og hluti Samfylkingarinnar kynntu undir mótmælum og aðför að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins.  Ef til vill sannast hið fornkveðna. "Illur fengur illa forgengur"

Vandi í lýðræðisþjóðfélagi verður ekki leystur með öðru en lýðræðið fái að hafa framgang.  Sennilega er rétt að ákveða kosningar til Alþingis fyrri hluta næsta árs og fresta kosningum til stjórnlagaþings.


Mótmæli við Alþingishúsið

Verið er að boða fólk niður á Austurvöll til að mótmæla við Alþingishúsið meðan forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína og umræður verða um hana.  Vissulega er ástæða til að mótmæla stefnu og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega úrræða- og aðgerðarleysi hennar gagnvart vanda fólks og fyrirtækja vegna stökkbreyttra höfuðstóla.

Það hefur því sjaldan verið meiri ástæða til að mótmæla duglausri og úrræðalausri ríkisstjórn en einmitt núna.

Á sama tíma og það er full ástæða til að mótmæla á Austurvelli þá er líka full ástæða til að fólk taki höndum saman um að koma í veg fyrir ofbeldi og skemmdarverk. Alþingishúsið er þjóðarhús. Það er húsið okkar allra. Það á engin að sýna þá skrílmennsku að henda einhverju í Alþingishúsið eða sóða það út. Lögregluþjónarnir sem eru við skyldustörf eru að vinna við að halda uppi friði og allsherjarreglu. Við eigum að virða það sem þeir gera og hlýða þeim og koma því fólki burt sem sýnir lögreglu óvirðingu eða veitist að lögregluþjónum.

Við eigum hvort heldur við mótmælum eða tökum þátt í umræðu að sýna að við séum siðað fólk sem leikum eftir þeim leikreglum sem lýðræðið og réttarríkið heimila.


Lettar

Lettar lentu í efnahagshruni eins og við og að mörgu leyti af sömu ástæðum þó að bankakerfi þeirra væri miklu minna hlutfallslega en okkar.  Strax eftir hrunið í Lettlandi greip ríkisstjórnin til margháttaðra aðgerða til að reisa efnahaginn við. Það var ekki sársaukalaust. Atvinnuleysi hefur farið upp í 20% og ríkisútgjöld hafa verið skorin mjög mikið niður til að ná jafnvægi í ríkisfjármálin.

Margir spáðu því að kjósendur mundu refsa stjórnarflokkunum í Lettlandi fyrir að ganga fram af jafn mikilli skynsemi og þeir gerðu og hörku við að koma hlutum í lag á nýjan leik. Þannig skrifaði tímaritið the Economist fyrir nokkru að líklega yrðu þeir stjórnmálamenn sem stjórnuðu í Lettlandi látnir taka út refsingu af hálfu kjósenda fyrir að gera strax það sem nauðsynlegt væri að gera með meðfylgjandi tímabundnum þrengingum í landinu.

Nú að loknum kosningum í Lettlandi liggur fyrir að stjórnarflokkurinn heldur velli. Lettneskir kjósendur eru ekki svo heillum horfnir að þeir hlaupi eftir fagurgala Steingríma þess lands heldur horfa á málin með skynsemi og virða það sem vel hefur verið gert.

Í Lettlandi hefur verið hagvöxtur að undanförnu og spáð er að atvinnuleysi fari minnkandi og hagvöxtur aukist enn.

Því miður er íslenska ríkisstjórnin að gera allt annað en ríkisstjórnin í Lettlandi. Hér dregst þjóðarframleiðsla  saman  tveim árum eftir hrun. Hver fjárlögin af öðrum eru lögð fram þar sem lagt er til að við höldum áfram að lifa um efni fram. Opinberum starfsmönnum er fjölgað og föllnum fyrirtækjum haldið lifandi með fjárgjöfum frá ríkisbönkum. Ekki eru gerðar nauðsynlegar hagræðingar í utanríkisþjónustu eða fjármálakerfi landsins.  Atvinnuleysistölur eru falasaðar með því að halda uppi óarðbærum opinberum störfum. 

Kjósendur á Íslandi eru ekki fífl frekar en í Lettlandi. Þvert á spár þá ákváðu kjósendur í Lettlandi að velja þá til áframhaldandi forustu sem hafa stýrt landinu farsællega í efnahagskreppunni þrátt fyrir þrengingar.  Með sama hætti munu íslenskir kjósendur velja þá valkosti í næstu kosningum sem eru líklegir til að skila þjóðinni áfram.


Ákall Steingríms J

Steingrímur J. Sigfússon hefur gengið harðast fram í því að andskotast út í andstæðinga sína í stjórnmálum og ber mestu ábyrgð á ákærum á hendur fyrrverandi ráðherrum og skrípaleiknum í kring um þær.  Steingrímur J og Atli hinn "frómi" Gíslason stóðu þar fyrir aðför að pólitískum andstæðingum í þeim helsta tilgangi að leiða athyglina frá eigin getu- og úrræðaleysi.

Fimm dögum eftir að Steingrímur J. stóð fyrir aðgerð sem var pólitísk griðrof, kallar hann eftir samstöðu stjórnmálamanna. Það er svipað og maður sem sparkar í annan og fótbrýtur hann biðji þann fótbrotna síðan um að hjálpa sér að bera fyrir sig innkaupapokana.

Því miður er útilokað að verða við tilmælum Steingríms J. vegna þess að honum er ekki treystandi. Eftir það sem gerðist á þriðjudaginn 28. september getur Steingrímur J. ekki kallað eftir samstöðu stjórnmálamanna. Slík samstaða getur ekki myndast meðan hann situr sem ráðherra.

Heift Steingríms J og pólitískur loddaragangur auk fjandskapar hans og flokks hans við frjálst atvinnulíf og atvinnuuppbyggingu leiðir til þess að samstaða stjórnmálamanna er ekki fyrir hendi með honum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 10
  • Sl. sólarhring: 122
  • Sl. viku: 4600
  • Frá upphafi: 2267744

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 4248
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband