Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Tungumál og bækur

Bækur og bóklestur er forsenda kröftugs og lifandi tungumáls.

Lestur ritaðs máls á blöðum minnkar. Fólk sækir í auknum mæli fréttir, fróðleik og afþreyingu á netmiðla og tölvurit. Þessi þróun er bara á byrjunarstigi. Fullkomnari og fullkomnari lestölvur verða til.

Lestölvan er handhægari og léttari en hefðbundar bækur. Bækurnar sem keyptar eru á lestölvuna eru mun ódýrari og  koma strax og pöntun er staðfest. Ekki þarf að bíða í biðröð.

Á síðasta ári telst mér til að hafa keypt 17 rafbækur. Heildarkostnaður er um 23.000 krónur. Þessar bækur keyptar hér hefðu kostað yfir 100 þúsund krónur. Segir þetta einhverja sögu?

Þróunin bíður upp á möguleika og nú skiptir máli fyrir okkur sem viljum vernda tunguna að taka myndarlega á og tölvubókarvæða það sem gefið er út og hefur verið gefið út á íslenskri tungu. Ef vil vill missir einhver spón úr aski sínum við það. En aðrir spónar koma þá í staðinn.

Framrás tækninnar verður ekki stöðvuð.    Vefarar í Bretlandi gátu ekki sigrað saumavélina.


Borgarstjórinn hugumstóri

Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr hefur fundið köllun sína. Hann talar ekki illa um fólk.

Í Kastljósi kvöldsins kom fram að tugir fólks liggur beinbrotið heima vegna skorts á hálkuvörnum í Reykjavík. Óneitanlega hlýtur það að lina þrautir og sársauka slasaðra að verða vitni að þessari  köllun Jóns Gnarr.

Mitt í aukinni skattheimtu, innilokunar vegna snjóa og hálku og hærri reikninga frá Orkuveitu Reykjavíkur hefur  Jón Gnarr þennan gleðiboðskap að flytja Reykvíkingum.  En ekkert annað.

Þegar ég hlustaði á viðtalið við borgarstjórann datt mér í hug sagan af Alexandrínu drottningu Dana, þegar hún spurði um sósíalismann í upphafi síðustu aldar og henni var sagt að margt fólk væri óánægt með kjör sín. Þá sagði Alexandrína. Hvílíkt vanþakklæti og við sem höfum gefið fólkinu  Tívolí.

Það væri allt í lagi fyrir Jón Gnarr ef tilveran væri eilíft Tívolí. Pólitískur raunveruleiki hans virðist svipaður og dönsku drottningarinnar fyrir einni öld. 

Þeir sem kusu Jón Gnarr átta sig á því í dag að pólitík er ekki brandari heldur fúlasta alvara á stundum og þá skiptir máli hver stjórnar.


Vindmyllur græna hagkerfisins.

Í Hollenskri skýrslu sem sagt er frá í enska stórblaðinu Daily Telegraph í gær kemur fram að vindmyllur til rafgmangsframleiðslu valdi meiri koltvísýringsmengun en þau orkuver sem knúin eru með olíu. Auk þess er kostnaður neytenda miklu hærri.

Sama gildir fyrir Bretland og væntanlega aðrar þjóðir sem hafa komið sér upp vindmyllufrumskógum eins fallegt og það nú er í landslaginu.

Hollenska skýrslan er gefin út af Dr. C le Pair sem er efnafræðingur á eftirlaunum og þar segir m.a.

" Vindmyllurnar eru ekki sjálfbærar. Þær eyða meira eldsneyti en þær spara og þær draga ekki úr útblæstri koltvísýrings. Þvert á móti þá valda þær auknum umhverfisskaða."

Þá hefur Civitas hugmyndabankinn gefið út skýrslu þar sem niðurstaðan er svipuð. Það virðist því vera niðurstaðan að hvar sem gripið er á hinu svonefnda "græna hagkerfi" að þá fylgja því meiri vandamál en það leysir.

Við búum svo vel að hafa náttúrulega orku úr iðrum jarðar og afli fossa. Þess vegna eigum við ekki að láta okkur dreyma um að fara í kostnaðarsama tilraunastarfsemi græna hagkerfisins. 


Landsbyggðin borgar eða við öll.

Ríkisstjórnin hefur aukið skattheimtu á flugstarfsemi á rúmu ári um 400 milljónir. Hluti af þessari skattlagningu er vegna átrúnaðar ríkisstjórnarinnar á draugasöguna um hnattræna hlýnun af mannavöldum.

Þessi aukna skattlagning hækkar verðlag í landinu og framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands segir að þessi skattur bitni harðas á landsbyggðinni. Raunar veit ég ekki hvernig á að skilgreina landsbyggð í þessu sambandi. Fólk á höfuðborgarsvæðinu flýgur jú eins og aðrir.

Það er hins vegar ekki aðalatríðið heldur endalaus aukning á gjaldtöku ríkisins af neytendum.

Lendingagjöld hækka á Reykjavíkurflugvelli um 72%, farþegagjöld um 71% og flugleiðsögugjald um 22%

Hvert var annars verðbólgumarkmið ríkisstjórnarinnar? Var það ekki töluvert lægra en þessar  hækkanir?

Er virkilega engin sem vill tala máli neytenda varðandi þessar glórulausu skattahækkanir?


Mekka íslenskrar tónlistar

Harmur er nú kveðinn að íslenskum tónlistarmönnum þar sem talað er um að loka skemmtistaðnum Nasa við Austurvöll í Reykjavík.

 Ástsælasti hljómlistamaður þjóðarinnar samkvæmt fréttum RÚV, Páll Óskar Hjálmtýsson, segir að Nasa við Austurvöll sé Mekka íslenskrar tónlistar og ómissandi eigi íslensk tónlist að þrífast.

Synd að Páll Óskar skyldi ekki upplýsa þjóðina um þetta áður en lagt var út í þá vitfirringu að byggja tuga milljarða músikhúsið á Austurbakka Reykjavíkurhafnar.

Harpan er semsagt mistök. Nasa er málið.


Gutti borgar biluð brjóst

Gutti velferðarráðherra lofar að borga konum sem hafa leka bjóstastækkunarpúða kostnað við lagfæringar á þeim.

Yfirlýsingin um greiðslur vegna gallaðra fegrunar- og lýtaaðgerða vekur upp ýmsar spurningar.

Hvað með mistök vegna rass- og magalagfæringar eða tatóveringa.

Hvað svo með  þær sem  hafa flata eða feita rassinn, kartöflunefið, appelsínuhúð og litlu brjóstin. Fyrst velferðarráðherra telur eðlilegt að borga kostnað vegna gallaðra lýta- og fegrunaraðgerða eiga þá þær sem ákveða að þola útlit sitt ekkert að fá?

Er ekki rétt að  Ríkið taki þá ábyrgð á öllum mistökum á markaðnum og bæti neytendum allar gallaðar vörur hverju nafni sem nefnast.

Hvar er þá ábyrgð neytandans við val á vöru og þjónustu?  Hver er þá ábyrgð seljenda?

Með greiðslum eins og þeim sem velferðarráðherra lofar, þá er hann ekki að bæta konunum neitt sem þær eiga ekki rétt á samkvæmt lögum frá seljendum vegna gallaðrar vöru eða þjónustu.  Velferðarráðherra ætlar í raun að borga fyrir mistök markaðarins á gallaðri söluvöru.

Þá verður líka allt í lagi að fá sér ódýrustu þjónustuna því Ríkið borgar ef eitthvað verður að.

Þegar ríkissjóður tekur 20 krónur af hverjum hundrað sem það eyðir að láni frá framtíðinni er þá ekkir rétt að skoða hvar setja á mörkin á greiðsluþáttöku ríkisins. Eiga brjóstastækkanir að vera þar í forgangsröð?


Actavis og okurverð á lyfjum

Actavis hefur samþykkt að greiða 14.6 milljarða króna í bætur vegna okurs á lyfjum til bandarískra neytenda.

Hvað með verðlagningu Actavis á lyfjum á  Íslandi? Hefur sú verðlagning verið innan ásættanlegra marka?

Fyrir nokkrum árum benti ég á að samheitalyf frá Actavis væru dýrari á Íslandi en sambærileg samheitalyf erlendis. Þannig er það enn.

Actavis  hefur í raun viðurkennt að hafa farið yfir eðlileg mörk í verðlagningu á lyfjum í Bandaríkjunum. Eru einhverjar líkur á því að fyrirtækið hafi farið öðru vísi að hér?

Væri ekki rétt að velferðarráðherra léti fara fram skoðun á verðlagningur Actavis á Íslandi með hagsmuni neytenda og íslenska ríkisins að leiðarljósi?

Það munar um milljarðana.


Orsök og afleiðing

Eitt mikilvægasta í starfi Háskóla og háskólakennara var lengi talið að rökfæra með skynsamlegum hætti þær kenningar og sjónarmið sem þeir settu fram. Þegar hlustað er á rökfærslu Þorvaldar Gylfasonar prófessors í hagfræði, um íslenskan veruleika þá virðist þetta liðin tíð.

Þorvaldur Gylfason hélt því fram í viðtali á RÚV í kvöld, að nú væri sannað að bankakreppan íslenska árið 2008 ætti ekki rót sína að rekja til heimsvandans  í bankamálum,  af því að íslensk heimili hefðu það mikið verra en heimili á Norðurlöndum, sem einnig hafi þurft að taka á sig afleiðingar kreppunar eins og aðrar þjóðir. Fullyrðingin er raunar röng en það er annað mál.

Rökfærsla prófessors Þorvaldar er þessi: Þar sem íslensk heimili standa miklu verr efnahagslega, en heimili á Norðurlöndum, þá er sannað að  bankakreppan árið 2008 hefur ekkert með alþjóðlegu bankakreppuna að gera.

Óneitanlega vantar töluvert upp á þessa röksemdafærslu. Hvað leiðir til hvers og hvað sannar hvað og af hverju?

Noregur, Svíþjóð og Finnland gengu í gegn um bankahrun fyrir um 2 áratugum. Þá var ekki sambærileg alþjóða bankakreppa og árið 2008. Heimilin í þessum löndum fóru ekki eins illa út úr bankahruninu og hér vegna þess að þar er ekki verðtrygging á neytendalánum. Í annan stað þá lækkuðu rauntekjur fólksins ekki sambærilega og hér og í þriðja lagi þá var skattheimta á almenning ekki aukin með sama hætti og hér. Þetta er mergurinn málsins. En það kemur alþjóða bakakreppunni og íslenska bankahruninu árið 2008 ekki við.

Norðurlöndin lentu ekki í sambærulegu bankahruni og við árið 2008. Þegar af þeirri ástæðu stenst samlíking og rökfærsla prófessors Þorvaldar ekki. Í annan stað þá urðu heimilin á Norðurlöndunum ekki fyrir skakkaföllum vegna bankahruns árið 2008. Þess vegna er samlíking prófessors Þorvaldar einnig röng.

Íslenska bankabólan var eðlilslík bankabólunni í Bandaríkjunum, Englandi, Írlandi og víðar. Sú staðreynd verður ekki hrakinn með vísan til stöðu heimila á Íslandi og hinum Norðurlöndunum.

Óneitanlega er það athyglivert að prófessor Þorvaldur skuli ekki átta sig á að sá meginmunur sem er á stöðu íslensku heimilanna og frænda okkar á hinum Norðurlöndunum er sú að þar er ekki verðtrygging á neytendalánum.  


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 265
  • Sl. sólarhring: 784
  • Sl. viku: 4086
  • Frá upphafi: 2427886

Annað

  • Innlit í dag: 246
  • Innlit sl. viku: 3782
  • Gestir í dag: 242
  • IP-tölur í dag: 234

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband