Í dag höldum við félagar áfram skrifum okkar um ákæru á hendur Bretlandi. Við byggjum skoðun okkar á þeim gífurlega skaða sem hryðjuverkalögin höfðu í för með sér gagnvart íslenskum hagsmunum, ríki, sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum. Jafnframt lýsti Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, yfir að Ísland væri gjald-þrota. Ennfremur var það ljóst á sama tíma og þessi aðför var gerð að Íslandi að bæði mannréttindasamtök og lögfræðingar, ekki síst í Bandaríkjunum, töldu að þessari árás yrði að hrinda. Hryðjuverkalög voru umdeild á sínum tíma, ekki síst af því að ýmsir töldu að löggjöfin yrði misnotuð og beitt í efnahagslegu stríði á milli þjóða. Jafnframt liggur fyrir að Alistar Darling og bresk stjórnvöld geta ekki varið gerðir sínar, hvorki fyrir sjálfum sér né öðrum.
Hvað hefur komið í ljós?
Förum nú yfir nokkur atriði í aðgerðum Bretanna. Jafnvel þó að hryðjuverkalögunum væri ekki beitt gagnvart Singer og Friedlander banka Kaupþings sem laut breskri lögsögu heldur Landsbankanum þá eyðilagði beiting þeirra starfsemi Singer og Friedlander á sama augnabliki.Nýlokið er í Bretlandi rannsókn SFO, (stofnunar sem rannsakar alvarlega fjármálaglæpi m.a.) en sú rannsókn snéri að einstaklingum og kemur beitingu hryðjuverkalaganna ekki við. Í sumar sem leið lauk hins vegar máli breska fjármálaeftirlitsins gegn stjórnendum Singer Friedlander/Kaupþings og Singer Friedlander vegna brots á lausafjárreglum með lítilli sekt. Þær aðgerðir sem gripið var til gagnvart Singer og Friedlander voru því umfram meðalhóf og góða stjórnsýslu og bankinn borgaði til baka yfir 80% af kröfum, sem er athyglisvert í ljósi þess að honum var kippt úr sambandi fyrirvaralaust vegna aðgerða breskra stjórnvalda.
Ekkert hefur komið fram sem réttlætir aðgerðir Breta gagnvart Landsbanka Íslands. Engar fréttir sýna fram á stóra fjármagnsflutninga úr útibúinu í London hinum svokölluðu Icesave-reikningum.
Nú fjórum árum eftir að Bretar beittu Ísland og Landsbanka Íslands hryðjuverkalögum hefur ekkert komið fram sem réttlætir aðgerðir þeirra. Ekki neitt.
Alistair Darling ver fólskuverkið með réttarhöldum Alþingis
Það er hins vegar slæmt og sýnir hvað óvönduð vinnubrögð og pólitískar hefndarráðstafanir geta haft slæma hluti í för með sér að sá ráðherra í bresku ríkisstjórninni Alistair Darling sem ber mesta ábyrgð á því að hryðjuverkalögunum var beitt gagnvart Íslandi, skuli reyna að réttlæta þá aðgerð sína með því að vísa til rangra staðhæfinga og staðreyndavillna í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um glæpi íslenskra bankamanna og þess að pólitískir andstæðingar Geirs H. Haarde töldu rétt að leggjast í hatursréttarhöld gagnvart honum, sem sköðuðu fyrst og fremst hagsmuni Íslands eins og berlega kemur fram í ályktunum og réttlætingu breska fjármálaráðherrans sem þarf að seilast þangað til fanga til að réttlæta fólskuverk sín gagnvart Íslandi.Við höfðum sem þjóð ekkert til saka unnið
Staðreyndin er sú að við höfðum sem þjóð ekkert til saka unnið og vorum með ólögmætum hætti beitt hryðjuverkalögum af breskum stjórnvöldum.Ítrekaðar beiðnir voru settar fram um að meta tjónið vegna þessa, en við því varð ekki orðið fyrr en á árinu 2011 eftir að Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður hafði sótt það mál fast á Alþingi. Sú skýrsla um fjárhagslegt tjón Íslands er mjög takmörkuð og ljóst að ekki var aflað fullnægjandi upplýsinga við vinnslu þeirrar úttektar sem gerð var á tjóni Íslands vegna beitingar Breta á hryðjuverkalögunum gagnvart Íslandi.
Við kröfðumst þess strax árið 2008 um leið og Bretar beittu hryðjuverkalögunum að hagsmuna Íslands yrði gætt í hvívetna og ekki yrði gengið til samninga við Breta um Icesave nema samið yrði jafnhliða um bætur til handa Íslandi vegna þess tjóns sem Bretar ollu á hagsmunum Íslands og Íslendinga.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur brást íslenskum hagsmunum
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur í engu gætt íslenskra hagsmuna varðandi það að sækja rétt okkar vegna ólögmætrar beitingar Breta á hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi. Ríkisstjórnin hefur látið ítrekaðar kröfur um það eins og vind um eyrun þjóta, lagði upp í samningaferli um Icesave án þess að halda á hagsmunum Íslands að nokkru leyti hvað þetta varðar.Það mun lengi í minnum haft hversu dáðlaus ríkisstjórnin var við að gæta hagsmuna þjóðarinnar og með hvaða hætti hún samdi algjörlega af sér oftar en einu sinni og gætti ekki allra lagasjónarmiða varðandi rétt Íslands. Í þessu efni er ekki við embættismenn að sakast sem fóru fyrir samninganefndunum, það er hin pólitíska forysta sem réð ferðinni og hvernig lagt var upp með málið.
Stöndum saman Íslendingar
Það er hins vegar ekki tilgangur okkar með þessum skrifum að sækja að ríkisstjórninni eða efla flokkadrætti meðal landsmanna. Þvert á móti viljum við benda á nauðsyn þess að við stöndum saman um að vernda íslenska hagsmuni gagnvart erlendu valdi. Við viljum að Íslendingar allir sem einn skipi sér í þann flokk sem sækir með reisn réttlæti fyrir hönd þjóðarinnar.Þannig að orð skáldsins verði enn einu sinni að veruleika: Að þegar býður þjóðarsómi þá á Ísland eina sál.
Ríkisstjórn Verkamannaflokksins í Bretlandi beitti Ísland hryðjuverkalögum til að draga athygli frá alvarlegri stöðu fjármálastofnana í Bretlandi og sótti að okkur í samræmi við hugsunarhátt nýlenduveldisins. Við þessu verðum við að bregðast þó að seint sé.
Við höfðum vonað að íslensk stjórnvöld mundu grípa til aðgerða en þar sem það hefur ekki verið gert þá beinum við því til ráðamanna íslensku þjóðarinnar að þeir bregðist nú strax við fyrir hagsmuni Íslands.
Við leggjum til að hver þingflokkur á Alþingi skipi einn mann í nefnd ásamt bestu sérfræðingum okkar, sem hafi það verkefni að undirbúa málsókn á hendur Bretum og sækja það mál á alþjóðlegum vettvangi og fylgja hagsmunum eftir í hvívetna.
Aðildarviðræður að Evrópusambandinu mega ekki verða til að spilla því að Ísland sæki rétt sinn í þessu efni.
Við höfum áður háð baráttu við Breta. Baráttu sem ávallt var byggð á grundvelli réttlætis og lífshagsmuna íslensku þjóðarinnar. Í hvert skipti sem við færðum út landhelgi okkar þurftum við að heyja baráttu við Breta, einu sinni fór því miður þannig að mannskaði varð af hernaðaraðgerðum Breta gagnvart okkur. En við létum ekki bugast þá og sóttum rétt okkar m.a. hjá NATO og Sameinuðu þjóðunum auk þess sem við slitum stjórnmálasambandi við Breta, bandalagsþjóð okkar í NATO vegna óréttlætanlegrar frekju þeirra og yfirgangs.
Nú verður þjóðin enn einu sinni að standa saman og sækja fram fyrir hagsmuni Íslands í órofa fylkingu til sigurs gegn óréttlætinu. Fyrir Ísland og íslenska hagsmuni. Við skorum á ríkisstjórn Íslands og Alþingi Íslendinga að ganga til þessara mikilvægu verka strax. Í þessu máli liggja ekki bara fjárhagslegir hagsmunir heldur og mannréttindi smáþjóðanna gegn offorsi og beitingu hryðjuverkalaga með ólögmætum hætti.
Guðni er fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins. Jón er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.