Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Kynþáttaníð og kennimannleg dómharka.

Sá leiði atburður varð fyrir skömmu að unglingspiltum lenti saman í knattspyrnuleik. Annar mun hafa haft niðrandi orð og vísað til kynþáttar hins en sá lét hendur skipta. Báðir hafa fengið agaviðurlög frá KSÍ og beðist afsökunar á þessu leiða atviki eftir því sem ég fregna best.

Þeir sem hafa tekið þátt í hópíþrótt eins og knattspyrnu þekkja það að iðulega verður leikmönnum sundurorða og láta þá orð falla sem betur hefðu verið ósögð. Þetta gerist jafnvel í hópi þeirra bestu, jafnvel í úrslitaleik um heimsmeistaratitil í knattspyrnu eins og dæmin sanna.

Heimssamband knattspyrnumanna hafa sem einkenni að knattspyrna sé leikur án fordóma. Þess er jafnan getið í upphafi knattspyrnuleikja þar sem fólk greiðir aðgangseyri.  Þeir sem leika knattspyrnu þekkja þetta og játast undir þessi einkunarorð. Samt sem áður geta menn látið óheppileg orð falla, en það er þá gert í stundarreiði og venjulegast er óþarfi að leggja mjög djúpa merkinu í slíka stundarreiði.

Flestir sem til þekkja og hafa vit á reyna að gera sem minnst úr svona tilvikum. En það er ekki öllum þannig farið. 

Í samræmi við kristilegan kærleiksanda þá sýna þeir sem þá trú játa yfirleitt kristilegt umburðarlyndi og fyrirgefa í samræmi við kenningu Jesú. 

Baldur Kristjánsson prestur þjóðkirkjunnar, virðist ekki átta sig á inntaki kristinnar trúar um umburðarlyndi og fyrirgefningu og veður fram vegna þessa leiðindatilviks af óheyrilegri dómhörku. Hann krefst þess að sá sem vísaði til litarháttar hins leikmannsins verði beittur þungum refsingum. Baldur telur sig vera sérfræðing í öllum málum sem lúta að kynþátattamálum af því að hann var endur fyrir löngu kosin í nefnd sem fjallar um málið. Sérfræði hans virðist þó af skornum skammti.

Mér er sagt að báðir leikmennirnir hafi beðist afsökunar á því leiðindatilviki sem um ræðir. Þá er spurning hvort ekki sé tímabært að Baldur Kristjánsson prestur biðjist velvirðingar á fráleitum ummælum sínum í málinu og refsikröfum, sem eiga meira skylt við Íranska múlla og þeirra málstað,  en presta þjóðkirkjunnar og trúarviðhorf kristins fólks.


Samfylkingin svíkur.

Eitt helsta kosningaloforð Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar var að innkalla allar aflaheimildir með svonefndri fyrningarleið. Innkalla átti 5% árlega. Framboðshetjur Samfylkingarinnar riðu um héruð og fóru mikinn. Jóhanna Sigurðardóttir hallmælti íhaldinu sem engu vildi breyta og flokkssystir hennar úr Þjóðvaka, Ólína Þorvarðardóttir fór mikinn eins og henni einni er lagið.

Nú þrem árum seinna hefur ekki einn einasti fisksporður hvað þá meira verið fyrndur eða innkallaður.

Í sjónvarpsþætti í gær upplýsti fyrrum ráðherra Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason sem er einn af fáum hófsemdarmönnum í þeim flokki að alfarið hefði verið horfið frá fyrningarleiðinni.

Nú talar Jóhanna um þjóðarsátt í fiskveiðistjórnarmálum, þó það sé ekki ljós um hvað sú þjóðarsátt á að vera. Alla vega er ljóst að Samfylkingin miðar ekki við að ná þjóðarsátt um fyrningarleiðina.

Eftir því sem næst verður komist þá á þjóðarsáttin að felast í óbreyttu kvótakerfi með aukinni skattlagningu á útgerðina auk sérleiða sem leiða til aukinna ríkisafskipta, geðþóttaákvarðana stjórnmálamanna og óhagkvæmni í útgerð.  Þetta er sú stefna sem Samfylkingin og Vinstri grænir leggja nú fram.

Hefði Samfylkingin náð að slíta upp eitt einasta atkvæði í síðustu kosningabaráttu á þessum grundvelli?

Hvað sem því líður þá er nú endanlega staðfest að Samfylkingin er búin að svíkja enn eitt helsta kosningaloforð sitt.


Samstaða Samfylkingarinnar gliðnar.

Árni Páll Árnason alþingismaður sagði í viðtalsþætti í Ríkissjónvarpinu í dag, að nauðsynlegt væri að samstaða og þjóðarsátt yrði um nýja stjórnarskrá. Þrátt fyrir það að í öllum þróuðum lýðræðisríkjum sé fólk sammála þessum sjónarmiðum Árna Páls, þá hefur Jóhanna Sigurðardóttir rekið stjórnarskrármálið með þeim hætti að einræði meirihlutans ætti að ráða varðandi breytingar á stjórnarskrá.

 Ummæli Árna Páls sýna að samstaða innan Samfylkingarinnar um að keyra áfram breytingar á stjórnarskrá í  ósætti við stóran hluta þjóðarinnar nýtur ekki lengur fulls stuðnings. Ljóst er að Jóhanna þarf því að smala köttum á sínum eigin bæ en ekki aðeins hjá Vinstri grænum ætli hún að keyra fram þá einstöku aðferðarfræði í stjórnarskrármálinu sem hún hefur fylgt fram að þessu. Þannig er raunar farið að í einræðisríkjum og aðferðarfræði þeirra ríkja eru Jóhönnu Sigurðardóttur hugleiknari en virðing fyrir eðlilegum leikreglum lýðræðisinis.

Engin furða að hinu betra og góðgjarnara fólki innan Samfylkingarinnar sé ofboðið.

Þá var athyglivert að í sama umræðuþætti skyldi varaformaður stjórnarskrárnefndar Alþingis, Álfheiður Ingadóttir halda því fram að kosning til stjórnlagaþings hefði ekki verið dæmd ógild.  Hafi svo ekki verið af hverju þurfti Álfheiður Ingadóttir þá að bera fram sérstaka þingsályktunartillögu um stjórnlagaráð í stað stjórnlagaþings. 

Ákvörðun Hæstaréttar Íslands þ.25.1.2011 um stjórnlagaþingskosninguna var samt sem áður þessi:

Framangreindir annmarkar á framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 verða við úrlausn málsins metnir heildstætt og er það niðurstaða Hæstaréttar að vegna þeirra verði ekki hjá því komist að ógilda hana.

Ályktarorð:

Kosning til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 er ógild. 

Sérkennilegt að Álfheiði Ingadóttur skuli hafa sést yfir jafnmikilvæga staðreynd í málinu. En þessi yfirlýsing Álfheiðar vekur athygli þar sem hún hefur nýlega sent frá sér aðra yfirlýsingu vegna ummæla Geirs Jóns Þórissonar yfirlögregluþjóns um byltingarforingjann í Alþingishúsinu, en þar afneitaði hún að hafa haft afskipti af aðgerðum óeirðarfólks utan Alþingishússins. Skyldi minni Álfheiðar vera jafn óbrigðult um það sem um ógildingu kosninga til Stjórnlagaþings?


Rasistaflokkur Lindu Blöndal.

Lindu Blöndal útvarpskonu á RÚV fannst viðeigandi að kalla Front National í Frakklandi rasistaflokk í síðdegisþætti rásar 2. Þeim þætti stjórnar hún ásamt Hallrgími Thorsteinsen.

Í umræddu tilviki var þessi "hlutlægi" útvarpsmaður að fjalla um umsátur lögreglu um íslamskan hermdarverkamann sem hefur myrt 7 manns í Frakklandi undanfarna daga þar af þrjú börn.

Það er ekkert nýtt að ríkisfjölmiðillinn hengi sérkennileg heiti á þá stjórnmálamenn í Evrópu sem vara við sósíalísku fjölmenningarhyggjunni. RÚV kallar þá "hægri öfgamenn".  Erlendir fjölmiðar segja að þeir séu langt til hægri eða yst á hægri vængnum. Ríkisfjölmiðillinn einn notar hugtakið "hægri öfgamaður eða öfgaflokkur" eða "rasistaflokkur".  Spurning er raunar um suma slíka þar á meðal Front National hvort þeir falla að skilgreiningunni um að vera hægri flokkur.  

Ummæli Lindu Blöndal um Front National voru óviðurkvæmileg og röng. Hún ætti að biðjast afökunar á þeim. Útvarpsstjóri ætti líka að gera athugasemdir við framsetningu og pólitískar uppnefningar vinstri sinnaðra starfsmanna fjölmiðilsins. Ríkisfjölmiðillinn hefur ákveðnar skyldur sem honum ber að rækja.

Fölmiðlakonan Linda Blöndal er almennt að standa sig vel í starfi og þess vegna finnst manni þetta leiðinlegt. Þess vegna vona ég líka að hún þori að viðurkenna mistök sín og biðjast afsökunar á óréttmætum staðhæfingum um rasistaflokkinn.

Sérkennilegt að RÚV skuli eingöngu taka viðtal við vinstri sinnaðasta  forsetaframbjóðandann í Frakklandi sem mælist með um 1% atkvæða. Skyldu hægri menn vera á bannlista stofnunarinnar?

http://en.wikipedia.org/wiki/Marine_Le_Pen


Grænn vegur til versnandi lífskjara

Við húrrahróp og fögnuð samþykkti Alþingi einróma þingályktunartillögu um eflingu svonefnds græns hagkerfis. Verði þessi græna ályktun að veruleika þá verða meiri höft lögð á borgarana og  atvinnustarfsemi verður gert erfiðara fyrir.

Það er athyglivert að á sama tíma og íslenskir stjórnmálamenn sameinast í húrrahrópum og lýðskrumi um gildi græna hagkerfisins, þá eru þær þjóðir sem áður hafa lagt út á þessa braut að uppgötva hvílíka lífskjaraskerðingu það hefur í för með sér fyrir almenning. Einnig gríðarlegan kostnaðarauka fyrir ríki og sveitarfélög. Eðlilegt að þingheimur fagni.

Í Bretlandi er rætt um í tengslum við umræður um fjárlög og útgjöld ríkisins, að lög vegna meintrar hnattrænnar hlýnunar og græna hagkerfisins,  valdi gríðarlegum hækkunum á raforku til almennings. Með skírskotun til græna hagkerfisins eru skattar á bensín og aðrar munaðarvörur auknir- skemmtileg tilhugsun fyrir íslenska neytendur eða hvað?

Í grein enska stórblaðsins The Daily Telegraph í dag segir að græna hagkerfið valdi kostnaðarauka upp á 650 pund árlega á venjulega fjölskyldu eða 130.000 íslenskar krónur á ári. Skyldu íslenskir alþingismenn hafa hugsað um þennan viðbótarpinkil á fjölskyldurnar í landinu þegar þeir stigu stríðsdans á Alþingi til að fagna samþykkt þingsályktunartillögunnar um græna hagkerfið?

Fjármálaráðherra Breta hefur áhyggjur af uppsöfnuðum áhrifum "grænnar stefnumörkunar" eins og hún hefur verið rekin í Bretlandi og Evrópusambandinu og segir að endalausar kröfur um þjóðfélagsleg og umhverfisleg markmið þýði gjaldþrota fjölda fyrirtækja,  mörg störf muni tapast og landið verði fátækara."  Athyglisvert að þetta skuli fjármálaráðherra Breta segja á sama tíma og Alþingismenn á Íslandi dönsuðu stríðsdans af fögnuðu yfir því að koma þessum hömlum á íslenska þjóð.

Skrýtið að þessi græna leið til versnandi lífskjara skuli hafa forgang á Alþingi en verðtryggingu og skuldavanda skuli ýtt til hliðar.  Eðlilega nýtur Alþingi trausts þjóðarinnar í samræmi við þessa forgangsröðun.


Sérleiðirnar duga ekki.

Verðbólga mælist nú tæp 7%, en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er að verðbólga sé ekki yfir 2.5%. Seðlabankinn telur sig geta ráðið við vandamálin með því að beyta stýrivöxtum. Þess vegna eru stýrivextir Seðlabanka Íslands 4.75%. Þeir hæstu í okkar heimshluta.

Þrátt fyrir þessar aðgerðir Seðlabankans og séríslenskar sérleiðir í efnahags- og lánamálum þá er verðbólga hér sú hæsta í Evrópu.  Ákveðinn hluti fjármagnseigenda græða á því að verðbólgan sé sem mest vegna verðtryggingar lána. Mistökin í efnahagsstjórninni sem lýsa sér m.a. í  7% verðbólgu í efnahagslegri kyrrstöðu veldur því að lánþegar og launþegar eru arðrændir í hverjum mánuði.

Í Noregi eru stýrivextir seðlabankans 1.5% og verðbólga er 1%. Þar eru laun mun hærri en hér á landi og skattar lægri. 

Verstu lífskjör vinnandi fólks á Norðurlöndunum eru á Íslandi. Okkur liggur á að hætta sérleiðunum í efnahags- og lánamálum og afnema verðtrygginguna og koma á ábyrgri efnahagsstjórn á forsendum og með hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi.


Endalaus óánægja

Það er sérkennilegt að fylgjast með málflutningi vinstri sinnaða réttlætispöpulsins, með Egil Helgason, Björn Val Gíslason, Þorvald Gylfason og Þór Saari í helsta fyrirsvari.  Svo virðist að þrátt fyrir að Jóhanna hafi hlaupið eftir hverjum goluþyt þessara manna að þá sé aldrei hægt að gera þeim og helsta stuðningsfólki þeirra til hæfis.  Raunar á ríkisstjórnin líf sitt undir stuðningi Þór Saari svo mikið þarf að sjálfsögðu við að hafa.

Þessir menn héldu því fram að það væri ekki hægt að sleppa Landsdómsákæru á Geir H. Haarde af því að það þyrfti að gera upp við Hrunið. Þeir sögðu að skýrslur vitnanna sem leidd yrðu fyrir Landsdóm væru ómetanlegt innlegg. Svo hófst Landsdómsmeðferðin og þessir spekingar pópúlismans hamast nú við að lýsa því hvað réttarhöld, málsmeðferð og vitnaleiðslur í Landsdómi valdi miklum vonbrigðum.  Egill Helgason hafði Landsdómsmálið síðan í flimtingum með mjög svo ósmekklegum hætti. Enn ein rós í hnappagat "hlutlæga" þáttastjórnandans.

Allir gerðu þeir hróp að Baldri Guðlaugssyni og sumir þeirra voru sannfærðir um sekt hans áður en dómur gekk í Hæstarétti og virtist enginn dómur yfir Baldri nógu þungur til að það gæti sefað þessa spekinga. Svo fór að Hæstiréttur dæmi Baldur til fangelsisvistar, ranglega, að mínu mati en það er annað mál. Í morgun kom síðan frétt af því að Baldur hefði hafið afplánun en þá bregðst pópúlistarnir þannig við að ásaka fangelsisyfirvöld um að leyfa Baldri að byrja að afplána og látið í veðri vaka að það sé brot á jafnræðisreglu.

Jóhanna og Steingrímur færðu þessum hávaðasama hópi vinstri pópúlista stjórnlagaþing og þegar kosningin til þess var dæmd ólögmæt þá ákváðu þau að hafa dóm Hæstaréttar að engu og ákveða stjórnlagaráð með þingsályktunartillögu.  Það dugði ekki til, því að Þorvaldur Gylfason var ekki fyrr búinn að bulla úr skálum visku sinnar fyrr en hann krafðist þess að einræði meirihlutans yrði látið ráða því hvernig stjórnarskrá lýðvelsins yrði. Að vísu allt í andstöðu við stjórnarskrána, en hvað varðar einn prófessor um lög og rétt í landinu þegar hann telur að vinir sínir stjórni og hann geti komið málum fram að eigin geðþótta.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ættu að muna það að þeir sem fá sér reiðtúr á tígrisdýri enda í maganum á því. Þau geta aldrei gert neikvæðu vinstri pópúlistana ánægða hvað mikið svo sem þau reyna.

Þeir eru alltaf óánægðir og sjá spillingu í öllum hornum nema hjá sjálfum sér og vinum sínum eins og nýleg dæmi sanna.


Kanadadollari eða Evra?

Vikuritið The Economist segir frá hugmyndum um að taka upp Kanadadollar og nefnir greinina "A loonie idea"

Fram kemur í blaðinu að yfir 70% íslendinga séu óánægðir með íslensku krónuna og hugsi því til annarra gjaldmiðla  þess vegna Kanadollars eða Evru. Rakið er í greininnni að skiptar skoðanir séu um málið, en því sé hins vegar ekki að leyna að Kanadamenn séu ánægðir þá sjaldan sem einhver man eftir þeim.

Reikna má með að síðustu aðgerðir ríkisstjórnar og Seðlabanka við að herða gjaldeyrishöft, sem sýnir ákveðið skipbrot efnahagsstefnu þeirra beggja valdi því að fleiri og fleiri óski eftir því að taka upp annann gjaldmiðil. 

Nú erum við með tvo mjög virka gjaldmiðla í landinu, óverðtryggðu krónuna sem fólk notar við innkaup og fær greidd launin sín með og verðtryggðu lánskrónuna.  Ef til vill fyndist einhverjum til bóta að hafa bara einn gjaldmiðil sem gilti í öllum viðskiptum, líka lánaviðskiptum. Aðalatriðið er að hafa gjaldmiðil sem fólk og markaður treystir þannig að ekki þurfi að vera gjaldeyrishöft og síðhert gjaldeyrishöft og virkt eftirlit í Seðlabanka með öllum kreditkortafærslum neytenda.

The Economist kemur með þá hugmynd að þar sem vestur hluti Íslands sé á Ameríkuflekanum og austurhlutinn sé á Evrópuflekanum  að þá geti það verið lausn að vesturhlutinn taki upp Kanadadollar en autur hlutinn taki upp Evru.

Ef til vill er þetta ekki vitlausasta hugmyndin sem komið hefur fram um gjaldmiðilsmálin. Þó ekki verði annað séð en hún sé sett fram í hálfkæringi.


Draugurinn í Háskólanum

Fréttastofa ríkissjónvarpsins hefur vakið upp gamlan draug úr Háskóla Íslands, Gylfa Magnússon. Gylfi þessi stjórnaði atlögu að íslenska bankakerfinu í septemberlok 2008 og gerðist síðan mótmælandi á vegum Harðar Torfasonar, annars trúbadúrs. Framganga Gylfa sem mótmælanda varð síðan til þess að hann varð viðskiptaráðherra í stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Margir töldu að Gylfi þessi væri happafengur í ríkisstjórnina þar sem hann væri fræðimaður, mótmælandi og eini maðurinn sem hefði stjórnað alsherjar aðför að bankakerfi lands síns.  Það voru greinilega mannkostirnir sem Jóhanna Sigurðardóttir mat mest þegar hún valdi fólk til ráðherradóms.

Gylfi vann það sér síðan til frægðar sem ráðherra að vera einn verklausasti viðskiptaráðherra sem nokkru sinni hefur setið í landinu.  En hitt var þó verra að upp komst um strákinn Gylfa þegar hann hagræddi sannleikanum með þeim hætti að hann sagði Alþingi vísvitandi ósatt.  Þá var ljóst að dagar hans í ráðherrastól voru taldir.

Í kvöld birtist þessi draugur fortíðarinnar til að gagnrýna lánveitingu Seðlabankans til Kaupþings banka í byrjun október 2008.  Eins og fyrri daginn var Gylfi með það á hreinu hverjum um væri að kenna án þess þó að hafa kynnt sér málið til hlítar. 

Það vill svo til að ég sat í Viðskiptanefnd Alþingis þessa örlagaþrungnu daga í október 2008 og spurðist ítarlega fyrir um þetta lán, raunar sá eini sem það gerði. Mér er því ljóst hvað var um að ræða og það er annað en uppvakningur fréttastofu sjónvarpsins heldur fram.

Gaman væri að Gylfi Magnússon færði frekari rök fyrir þeim sjónarmiðum sem hann setti fram í kvöldfréttum sjónvarpsins ef hann hefur þá tíma til þess vegna anna við að verja verðtrygginguna.


Eru líkamsárásir á lögmenn afsakanlegar?

Skelfing er að lesa ummæli Þórs Saari alþingismanns á bloggsíðu hans á Eyjunni, þar sem hann reynir að finna skýringar já og jafnvel asfakanir á fólskulegri manndrápstilraun á starfsmann lögmannsstofu í gær.

Þór Saari virðist álíta að hann lifi í glæpamannasamfélagi þar sem allt er rotið og engu hægt að treysta. Það virðist að hans mati vera ástæða manndrápstilraunarinnar þó Þór fari að vísu fimlega í kring um heita grautinn sem hann kokkar upp hvað þetta varðar.

Þegar ógæfumaður eyðilagði hús sem hann hafði reist en skuldaði algerlega og braut það niður með stórvirkri vinnuvél tók þessi sami Þór Sarri brotna spítu úr húsinu og gerði að gunnfána Hreygingarinnar. Þar með samsamaði þessi þingmaður sig með ofbeldinu og lögleysunni.

Í skrifum Þórs er margt fullyrt sem ekki kemur heim og saman við raunveruleikann eins og t.d. um mikla aukningu sjálfsmorða og annað í þeim dúr.  Einfalt ætti að vera fyrir þingmanninn að afla sér haldbærra upplýsinga áður en hann ruglar svona í skrifum sínum.

Ef til vill áttar Þór Saari sig ekki á því að það er m.a. maður eins og hann sem veldur auknu vonleysi og erfiðleikum í þjóðfélaginu. Endalaus neikvæðni og rógur um samborgarana og samstarfsmenn og ítrekaðar upphrópanir um að heiðvirt fólk séu glæpamenn er ekki til þess fallið að glæða vonir fólks eða auka fólki bjartsýni. Þvert á móti leiðir það til þess að sumir aðrir taka trúa röngum fullyrðingum Þórs Saari með vondum afleiðingum fyrir samfélagið.

Það er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að átta okkur á því hvað við eigum mikla möguleika og viðurkenna hvað margt er þó gott í okkar samfélagi og mikið af góðu og grandvöru fólki. Það væri hægt að áorka miklu til góðs í samfélaginu með ögn af kristilegum kærleika og eðlilegri bjartsýni.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 127
  • Sl. sólarhring: 1299
  • Sl. viku: 5269
  • Frá upphafi: 2469653

Annað

  • Innlit í dag: 117
  • Innlit sl. viku: 4825
  • Gestir í dag: 117
  • IP-tölur í dag: 117

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband