Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Francois Holland býður upp í dans

Sigur Francois Holland í frönsku forsetakosningunum kom ekki á óvart. Framfylgi hann því sem hann boðaði fyrir kosningar þá verður Evrunni ekki bjargað.

Holland mun án efa koma aftur á 35 stunda vinnuviku í Frakklandi og jafnvel lækka eftirlaunaaldurinn, en Sarkozy tókst að hækka hann eftir mikla baráttu. Þá ætlar Holland að ráða 60 þúsund nýja kennara og auka ríkisútgjöld og skattheimtu.

Kjósendur eru alltaf viðkvæmir fyrir að kjósa ókeypis hádegisverð og kvöldverð en komast síðan að því að það er ekkert slíkt til.  Sarkozy reyndi að lækka hallann á franska ríkissjóðnum, en gekk illa, en nú kemur maður sem lætur sér fátt um finnast, þrátt fyrir að ríkisskuldir séu miklar og vaxandi.

Franska ríkið er hlutfallslega stærst í Evrópu með um 56% af þjóðarframleiðslu Frakka. Bankarnir þurfa meira fjármagn til að geta starfað eðlilega eftir því sem The Economist segir og læknisráðið hjá Holland er aukin eyðsla og aukin skattheimta.  Þar með er samkomulag Evru ríkjanna rokið út í veður og vind nema Holland svíki á upphafspunktinum kosningaloforðin sín.

Franskir sósíalistar fagna að sjálfsögðu sigri síns manns og tala um að þessi nýi Francois fari í fótspor síðasta sósíalistans franska sem var forseti Francois Mitterand. Þeir mættu þá rifja upp, að þegar Mitterand kom til valda var hann síðasti raunverulegi ríkissósíalistinn sem komst til valda í Evrópu með hugmyndir um þjóðnýtingu, skattahækkanir o.fl. Innan 180 daga í embætti varð Mitterand að beygja sig fyrir staðreyndum, sem neyddu hann til að breyta um stefnu og leita til lausna markaðshyggjunnar.

Óneitanlega læðist að manni sá grunur, að það muni ekki taka jafn langan tíma fyrir Holand að svíkja öll sín helstu kosningaloforð. Annars verður Frakkland og sameinuð Evrópa strax í miklum vanda.


Hefur þú bréf upp á það?

Í valdatíð danskra arfakonunga var það alsiða að undirdánugir þegnar hans máttu ekkert nema þeir hefðu bréf upp á það að mega gera það sem bréfið heimilaði. Valdsmenn þess tíma spurðu því jafnan þeirrar einu spurningar hvort menn hefðu bréf upp á það. Þjóðfélag einvalds- og arfakonunga miðaði við að allt væri bannað nema það væri sérstaklega leyft og þá greindu konungsbréfin milli sektar og sakleysis. 

Eftir langa baráttu og harða varð til þjóðfélag lýðfrelsis þar sem viðmiðunin var að allt væri leyfilegt nema það væri bannað.

Nú hefur slegið í bakseglin fyrir þá sem unna frelsinu og vilja sem minnst afskipti ríkisins af borgurunum. Lög og reglur eru sett í miklum móð til að lögbinda sem flest í mannlegri starfsemi. Hetjur eftirlits- og leyfisveldisins leggja til og fá samþykktar nýjar reglur sem takmarka frelsi einstaklinga og atvinnulífs. Einhver þarf að hafa eftirlit með frumskógi regluverksins og þá ríða valdsmenn græna hagkerfisins, gjaldeyrisreglnanna, fjármálareglnanna, samkeppnisreglnanna, lánareglnanna o.s.frv. vígreifir fram á sviðið stöðugt fleiri og fleiri til að hafa afskipti af því sem áður var talið eðlileg mannleg starfsemi og verðmætasköpun.

Dæmið um manninn sem vildi skapa verðmæti með því að vinna skelfisk er lýsandi dæmi fyrir ríkis- og haftahyggju. Hann fékk bréf á bréf ofan þar sem allt var byggt á óraunhæfum valdboðum og þrátt fyrir að viðkomandi ríkisstofnun hafi haft algjörlega rangt fyrir sér skal maðurinn samt borga vitleysuna.

Á sama tíma bjástra alþingismenn við arfavitlaus frumvörp sjávarútvegsráðherra um að skattleggja frjálsa atvinnustarfsemi út yfir öll siðræn mörk og setja tálmanir á þá sem fiskveiðar stunda þannig að kommissarar ríkisvaldsins og stjórnmálamenn hafi með heill og hamingju mikilvægust atvinnugreinar á Íslandi að gera oft á tíðum að geðþótta.

Það þarf að vinda ofan af allri þessari vitleysu í landi frjálsborins fólks og segja Evrópusambandinu að við séum ekki lengur með í því að takmarka frelsi borgaranna þannig að þeim sé ekki lengur leyft að stunda eðlilega mannlega starfsemi án þess að hafa kanselíbréf upp á það.

Til hvers var þá annars baráttan háð fyrir lýðræði og mannréttindum þar með talið atvinnufrelsinu?


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 1699
  • Frá upphafi: 2503844

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1593
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband