Leita í fréttum mbl.is

Öryrkjabandalagið og mannréttindi

Formaður Öryrkjabandalagsins hefur kynnt þá fyrirætlun bandalagsins að kæra framkvæmd forsetakosninga fyrir þann ágalla, að farið skuli að íslenskum kosningalögum við framkvæmd kosninganna. Fróðlegt verður að sjá málatilbúnað lögmanns bandalagsins þegar kæran lítur dagsins ljós.

Stjórn Öryrkjabandalagsins heldur því fram að framkvæmd forsetakosninganna hafi verið mannréttindabrot af því að farið hafi verið eftir 3.mgr. 63 gr. laga um kosningar til Alþingis, sem einnig gilda um forsetakjör, en þar er kveðið á um það að fulltrúar kjörstjórnar megi einir veita aðstoð þeim sem þurfa.

Formaður Öryrkjabandalagsins og nokkrir sem hafa tjáð sig telja það mannréttindi sín að geta sjálfir valið hver skuli aðstoða þá við að kjósa. Það gleymist í þessari umræðu að þetta ákvæði var sett til að tryggja leynilega kosningu þeirra sem þurfa á aðstoð að halda með tilliti til hagsmuna þeirra.

Í mörgum tilvikum er heppilegt að sá sem öryrki kýs að aðstoði hann geri það. Það er þó ekki einhlítt. Í sumum tilvikum getur öryrkinn verið undir óeðlilegum og óþægilegum þrýstingi og verður að hlíta því með breyttum reglum að velja þess vegna aðila sér nákominn sem ræður þá atkvæði hans í raun. Tryggjum við mannréttindi betur með þeim hætti? Tryggjum við betur leynilegar kosningar?

Skv. samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið á um það að fatlaðir geti notið aðstoðar einstklings að eigin vali við að greiða atkvæði.  Eðlilegt er að löggjöfinni verði breytt til að fullnægja því ákvæði, en spurningin er hvað átt er við með ákvæðinu. Nú getur fatlaður einstaklingur valið hvern sem er úr kjörstjórninni til að aðstoða sig, en vafi er um hvort það uppfylli skilyrði ákvæðisins. Ef til vill mætti hugsa sér að hópur trúnaðarmanna yrði ákveðinn og fatlaðir gætu valið úr þeim hópi. Það er nefnilega ekki endilega víst að það þjóni best hagsmunum fatlaðra að vera undir handarjaðri fólki sem er þeim nátengt ef tryggja á að vilji þeirra í leynilegri kosningu nái fram að ganga.

Það eru hræðileg örlög að búa við alvarlega fötlun. Þjóðfélaginu ber að gera það sem unnt er til að tryggja hag og réttindi þeirra sem þannig er komið fyrir. Bestu úrræðin þurfa ekki alltaf að vera þau að þeir sem næst standi þeim fatlaða hafi í raun vald yfir honum.

Hafi einhver brugðist í því að aðlaga íslenska löggjöf að samningi Sameinuðu þjóðanna þá eru það viðkomandi ráðherra og Alþingi. Eðlilegt er að ræða þau mál öfgalaust og ná sem bestri niðurstöðu fyrir fatlaða svo það sé tryggt sem best að vilji þeirra fái að koma fram í leynilegum kosningum. Það borgar sig hins vegar ekki að hrapa að niðurstöðunni og fordæma ákvæði löggjafar sem einmitt var sett á sínum tíma til að tryggja hagsmuni þeirra sem þurfa á aðstoð að halda í kjörklefanum.

Sú afstaða Öryrkjabandalagsins að ætla að kæra forsetakosningar er í ljósi þessa vægast sagt vafasöm. Ekki verður séð að sú kæra þjóni hagsmunum fatlaðra, en gæti e.t.v. flokkast undir pólitíska misnotkun á Öryrkjabandalaginu. Hagsmunir öryrkja eru fólgnir í því að um þessi mál verði rætt öfgalaust og náð þeirri niðurstöðu sem best hentar hagsmunum fatlaðra til að tryggja réttindi þeirra í stað pólitískra upphlaupa eins og þessi málflutningur formanns Öryrkjabandalagsins ber með sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Er ekki eitthvað sem þú gleymir Jón.Hvað með að allir skuli jafnir fyrir lögum.Þess var ekki gærtt við kosninguna.Tveir einstaklingar fengu sérmeðferð við kosninguna.Annar var fatlaður einstaklingur,sem fékk að velja sér aðstoðarmann sem var ekki frá kjörstjórn.Hinn var forsetaframbjóðandi, sem gat ekki framvísað persónuskilríkjum, en fékk samt að kjósa.Ítrekað hafði verið auglýst fyrir kosninguna að fólk yrði að framvísa persónuskilríkjum. Ekki var minnst á að nein undanþága væri gefin fyrir öðru.Með lögum skal land byggja og forseta kjósa.

Sigurgeir Jónsson, 5.7.2012 kl. 09:15

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Kannski "VILL" formaður Öryrkjabandalagsins ekki varpa ábyrgðinni á formann síns stjórnmálaflokks, vegna þess að hans flokkur er ábyrgur og flokksbróðir hans er ráðherra og ber ábyrgð á málflokknum?????

Jóhann Elíasson, 5.7.2012 kl. 09:28

3 identicon

Jón ég er sammála þessu sem þú berð fram í þessu bloggi.

Þetta er ekki eins einfalt og sumir á mbl. blogginu vilja halda fram. Það er ekki hægt að hafa leynilegar kosnigar á Íslandi og þar á meðal öðrum löndum fyrir þá sem þurfa aðstoð í kjörklefa, eins og kosnigar fara fram í dag.

Ef kjósandi þarf aðstoð annara í kjörklefa þá er það auðvitað ekki lengur leynileg kosning.

Tökum sem dæmi blindann kjósanda; getur blindur kjósandi vitað að aðstoðarmaður hans/hennar í kjörklefa hafi merkt við það val sem kjósandi vildi?

í þessu tilfelli væri kanski betra að hafa persónulegan og opinberan aðstoðarmenn í kjörklefa. Minni líkur á kosningasvindli.

En að tala um leynilegar kosningar þegar kjósandi þarf aðstoð í kjörklefa er alveg út í hött.

Kveðja frá Las Vegas.

Jóhann Kristinsson (IP-tala skráð) 5.7.2012 kl. 09:57

4 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Sammála góðum hugleiðingum þínum Jón.

Guðmundur Pálsson, 5.7.2012 kl. 16:34

5 identicon

Mikið er ég sammála þér núna Jón.

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 5.7.2012 kl. 17:57

6 identicon

Góður punktur hjá þér með þrýstinginn frá nákomnum, sem örugglega geta átt sér stað í einhverjum tilfellum.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.7.2012 kl. 18:07

7 identicon

 Ekki veit ég hvaðan í ósköpunum sú hugmynd kemur að kosning með eigin aðstoðarmanneskju sé eitthvað meira leynileg en kosning með opinberum aðstoðarmanni.

 Fram kemur í núgildandi lögum að sá sem ekki er fær að kjósa án aðstoðar skuli sjálfur benda á einhvern í kjörstjórn sér til aðstoðar.

 Fulltrúum í kjörstjórn er ennfremur óheimilt að bjóða fram aðstoð að fyrra bragði.

 Fulltrúar í kjörstjórn eru bundnir þagnarheiti, eins og gildir um ýmsar starfsstéttir, svo sem lækna og lögmenn og sjálfsagt fjölda opinberra starfsmanna.

 Ég sé ekki betur en að með þessu fyrirkomulagi sé mun betur búið að leynd kjósandans en ef einhver honum nákominn er með nefið ofan í hans málum.

 Með því að leyfa ótakmarkaðan aðgang "aðstoðarfólks" í kjörklefann opnast möguleikar á alls konar misferli og misnotkun, eins og t.d. atkvæðasölu, sem núgildandi lögum er einmitt ætlað að fyrirbyggja.

Ég held að þarna hafi fatlaðir hlaupið á sig í einhverri misskilinni réttlætisherferð. Það að þvinga sitt fram með frekju, og kæra svo kosningarnar er þeim a.m.k. ekki til framdráttar.

 Reyndar er það svo að það er búið að teygja hugtakið "mannréttindi" allt of langt. Það liggur við að fatlaðir líti svo á að geti þeir fötlunar sinnar  vegna ekki gert eitthvað sem aðrir geta gert sé það skylda stjórnvalda að gera þeim það kleift hvað sem það kostar.

 Ég bðí eftir því að Freyja ákveði að það séu hennar mannréttindi að fara í fallhlífarstökk.

Árni Árnason (IP-tala skráð) 5.7.2012 kl. 18:13

8 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er alveg sammála þér Sigurgeir. Ég tel að kjörstjórnir hafi gert mistök í báðum tilvikum.  Í öðru tilvikinu var brotið gegn ótvíræðu lagaákvæði sem er alvarlegt mál og í hinu tilvikinu er brotið gegn starfsreglum sem yfirkjörstjórnir höfðu sett.  Þetta voru þó minni háttar hnökrar á framkvæmd kosninganna. En að sjálfsögðu eiga sömu lög að gilda fyrir alla.

Jón Magnússon, 5.7.2012 kl. 22:00

9 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta hvarflaði líka að mér Jóhann. En þá er líka um að ræða pólitíska misnotkun á Öryrkjabandalaginu.

Jón Magnússon, 5.7.2012 kl. 22:01

10 Smámynd: Jón Magnússon

Það má til sanns vegar færa Jóhann, en þarna er verið að miða við að fulltrúinn í kjörstjórn er bundinn þagnarskyldu og ákveðnum trúnaðarskyldum við þann sem þarf að hjálpa til að kjósa. Þeir sem geta kjósa með leynilegum hætti, en til að tryggja að þeir sem ekki geta kosið hjálparlaust þá var við það miðað að aðstoðin væri sem ópersónulegust.

Jón Magnússon, 5.7.2012 kl. 22:04

11 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka ykkur fyrir Guðmundur, Sigurður og Rafn.

Jón Magnússon, 5.7.2012 kl. 22:04

12 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er hjartanlega sammála Árni.  Góður punktur með með meintu  mannréttindinn sem ekki er hægt að fullnægja vegna ómöguleika.

Jón Magnússon, 5.7.2012 kl. 22:07

13 Smámynd: Hilmar Guðmundsson

Haldi þið virkilega að einn maður hjá ÖBÍ geti tekið svona ákvörðun. Það eru 33 aðildarfélög að ÖBÍ og um svona hluti fjallar framkvæmdarstjórnin. Vildi bara leiðrétta þann miskiling að þetta sé frá formanninum þó hann komi fram fyrir hönd félagsins.

Hilmar Guðmundsson, 6.7.2012 kl. 10:36

14 Smámynd: Hilmar Guðmundsson

Vildi leiðrétta þann miskiling að formaður hafi einn tekið þessa ákvörðun. Þessi ákvörðun er tekin af framkvæmdarráði en aðildarfélög að ÖBÍ eru 33.

Hilmar Guðmundsson, 6.7.2012 kl. 10:44

15 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir þessar upplýsingar Hilmar. Það er ennþá undarlegra að fjölskipuð stjórn skuli hafa látið sér detta í hug að kæra kosningarnar á þessum forsendum.

Jón Magnússon, 6.7.2012 kl. 16:39

16 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Hversvegna eru þessi mótmæli ÖBÍ núna fyrst tilkomin þegar ÓRG er kjörinn?

Hefðu þessi mótmæli komið fram ef Þóra hefði sigrað?

Hví var ekki mótmælt í síðustu Alþingiskosningum þega VG og Samfylkingin unnu.

Vegna þess að formaður ÖBÍ hann Guðmundur Magnússon er kommúnisti sem fylgir udir fölsku flaggi.

Köllum mennina sínu rétta nafni.

Sigurbjörn Friðriksson, 7.7.2012 kl. 00:05

17 identicon

Sæll Jón.

Í þessari athugasemd ætla ég ekki að hafa skoðun á því hvort fatlað fólk á að njóta aðstoðar einhvers úr kjörstjórn eða að eigin vali, ég hef skoðun á því, en ætla ekki að tjá hana hér. Hins vegar finnst mér að þú ættir að vanda skrif þín betur og gæta betur að þeim staðhæfingum (fleiri en einni) sem þú setur hér fram á opnu bloggi. Ein þeirra er eftirfarandi:

"Það eru hræðileg örlög að búa við alvarlega fötlun."

Í fyrsta lagi; hvað er "alvarleg" fötlun?

Í öðru lagi; hefurðu yfirleitt einhverja hugmynd um hvað þú ert að segja með þessari staðhæfingu þinni? Ef þú getur áttað þig á því hvað þér finnst vera alvarleg fötlun, hefurðu þá kynnt þér það með einhverjum hætti hversu "hræðilegt" því fatlaða fólki finnst að búa við fötlun sína?

Ef svörin við þessum spurningum eru "nei", gættu þá betur að því hvað þú ert að skrifa og staðhæfa áður en þú setur það fram á opinberum vettvangi.

Það er enginn fær um, hvorki þú né ég, að segja til um hversu hræðilegt líf og örlög einhvers eru, allra síst þegar um heilan hóp fólks er að ræða, sem ég reyndar átta mig ekki á hversu stór er í þínum huga.

Ágústa Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 8.7.2012 kl. 02:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 94
  • Sl. sólarhring: 186
  • Sl. viku: 4277
  • Frá upphafi: 2296067

Annað

  • Innlit í dag: 86
  • Innlit sl. viku: 3918
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 81

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband