Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2016

Heyra má ég erkisbiskups boðskap en ráðinn er ég í að halda hann að engu.

Um aldir var um það deilt í kristna heiminum, hvort "Guðs lög" þ.e. klerkaræði eða almenn lög leikra manna skyldu vera æðri. Frægasta dæmið í Íslandssögunni um þetta, eru orð Jóns Loftssonar, Oddaverja sem mestur var höfðingi á landi hér í sinni tíð þegar hann sagði þegar biskup krafðist ættaróðals hans á grundvelli kirkjulaga:

"Heyra má ég erkibiskups boðsskap, en ráðinn er ég í að halda hann að engu og eigi hygg ég, að hann vilji betur eða viti, en mínir foreldrar Sæmundur hinn fróði og synir hans." Biskup hótaði þá að bannfæra Jón, en hann lét sig ekki og biskup þurfti frá að hverfa og var það hin mesta sneypuför.

Í kjölfar umbrota á síðmiðöldum og í kjölfar sigurs heimspeki upplýsingaaldarinnar, var oki kirkju og  klerkadóms létt af þjóðum kristna heimsins. Í kjölfarið varð sú þróun,að Evrópa varð forustuálfa um tjáningafrelsi,lýðréttindi, almenn mannréttindi og lýðræði. Af því leiddu framfarir í verklagi og skipulagi sem gerði Evrópu ekki bara að forustuálfu hvað varðar réttindi einstaklingsins heldur einnig á öllum sviðum verklags og viðskipta.

Því miður hefur Íslamski heimurinn ekki gengið í gegn um sama þróunarferli og því hamlar stirnað klerkaræði framþróun í þeim löndum sem klerkaræðið ríkir og á mikið undir sér.

Svo merkilega brá við þ.29.júní s.l., að biskupinn yfir Íslandi lýsti því yfir ásamt nokkrum prelátum sínum, að kirkjulög væru eftir allt saman æðri lögum leikra manna settra á Alþingi. Biskupinn og prelátarnir sögðu að hvað svo sem menn hefðu af sér brotið þá skyldu þeir eiga kirkjugrið án þess að útfæra það frekar. Helst var að skilja að kæmist afbrotamaður í kirkju þá gætu lögleg lýðræðislega kjörin stjórnvöld ekki komið fram lögum. Þessi skoðun biskups er afturhvarf til viðhorfa sem voru við lýði í kirkjurétti fyrir um 800 árum, en eru fyrir löngu aflögð, sem betur fer, lýðræði og borgaralegum réttindum til heilla.

Það er ekkert í íslenskum lögum, sem veitir sökuðum mönnum eða afbrotafólki vernd í kristnum kirkjum. Það væri ósvinna hin mesta að ætla að færa það í lög nú eða af kirkjunni að ætla að taka sér það vald. Þá yrði farið á svig við grunnréttinn um jafnrétti borgaranna hvað þá trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Þeir sem ekki kæmust í kirkju yrðu dæmdir og tuktaðir en þeir sem í kirkjuna kæmust fengju að sinna störfum kórdrengja allt undir náð biskupsins og preláta hennar. Hætt er þó við að þeir yrðu seint hvítskúraðir kórdrengir.

Í Laugarneskirkju var fyrir mannsöfnuður nokkur þ.29 júní og vildi varna því að lögreglan gæti framfylgt lögum. Allt var undirbúið og leikritið æft. Myndavélum var komið fyrir í   áróðursskyni fyrir aðstandendur "opinna landamæra" og gott fólk sem vill ekkert illt sjá eða heyra. Prelátarnir og aðrir sem að þessu stóðu og rugluðu um kirkjugrið í fyrirfram tilbúnu leikverki sínu, voru í raun að gerast brotlegir við 106.gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og eftir atvikum einnig 107.gr.sömu laga. 

Viðbrögðin létu ekki á sér standa öfgatrúleysingjafélagið Vantrú lýsti yfir stuðningi við þetta framferði Biskupsins yfir Íslandi og preláta hennar í Laugarneskirkju og stór hópur fólks sem þekkt hefur verið fyrir þjónkun við ákveðin kristnifjandsamlega isma máttu vart vatni halda af gleði yfir þessari lagalegu sjálftöku prelátanna í Laugarneskirkju. Fréttastofa RÚV sýndi áróðursmyndbandið svikalaust og Fréttablaðið sagði að fólk væri almennt slegið óhug yfir aðgerðum lögreglunnar. Sá óhugur virðist þó mjög staðbundinn við andstæðinga kirkju og kristni, biskupinn og legáta hennar.

Innanríkisráðherrann hafði það eitt að segja um málið að lögreglan væri sífellt að skoða verkferla sína. Það er heldur betur munur fyrir lögreglu og Útlendingastofnun að hafa yfirmann eins og Innanríkisráðherra sem stendur aldrei með sínu fólki og lögunum í landinu heldur sýnir í besta falli hlutleysi eða gengur þá í lið með upplausnaröflunum.

Nú hlítur það að vera verkefni ríkissaksóknara að kalla eftir rannsókn á málinu með tilliti til þess hvort prelátarnir og eftir atvikum biskupinn hafi brotið gegn 106.gr. sbr. 107.gr. almennra hegningarlaga. Ríkissaksóknara er þó nokkur vorkunn að ætla að framfylgja lögum í landinu og lögboðnum starfsskyldum sínum að þessu leyti þar sem að hennar æðsti yfirmaður mundi þá e.t.v. gera kröfu um endurskoðun á öllum verkferlum og fordæma það að saksóknari hagaði störfum sínum með þeim hætti að allir væru jafnir fyrir lögunum.

Vitið þér enn eða hvað?

 


Lífið er fótbolti

Ég hef ekki þorað að þvo landsliðsbúninginn minn frá því að EM byrjaði af ótta við að það muni breyta öllu til hins verra fyrir landsliðið. Það skiptir vissulega máli hvernig við á hliðarlínunni og/eða sjónvarpið undirbúum okkur fyrir leikinn. Ef svo heldur fram sem ég vona að íslenska landsliðið spili til úrslita á EM má búast við því að þeir sem næst mér standa þoli illa við í návist óþvegins landsliðsbúnings sem tekið hefur í sig og á öll geðhrif og spenning, gleði og sorg en þó aðallega gleði frá því að mótið byrjaði.

Landsliðsþjálfarinn sagði að úrslitin í leiknum í dag mörkuðu tímamót og mundi breyta einhverjum hlutum í ensku og íslensku þjóðfélagi til frambúðar. Ekki veit ég það svo gjörla en hitt veit ég að það hefði góð áhrif fyrir þjóðernistaugina ef við mundum vinna Breta. Jafnvel stagneraðir alþjóðahyggjukratar og kommar mundu þá ekki komast hjá því að viðurkenna að í þeim blundaði þjóðernissinni.

Hvað sem þessu öllu líður þá stöndum við með okkar mönnum hvernig sem fer og gleymum því ekki að þeir eru alltaf strákarnir okkar sem eru að gera sitt besta og þeir hafa verið og eru landi og þjóð til sóma. Þetta er besta knattspyrnulandslið sem við höfum nokkru sinni átt og vonandi tekst þeim það illmögulega í kvöld. Að vinna Breta.

Áfram Ísland.


Til hamingju Guðni Th. Jóhannesson forseti.

Guðni Th. Jóhannesson er réttkjörinn forseti Íslands með stuðningi 39% þjóðarinnar. Ég óska honum til hamingju með kjörið og vona að sú viðkynning sem ég hef haft af honum, að þar fari réttsýnn og vandaður maður, sé rétt og hef ekki ástæðu til að ætla annað.

Sá frambjóðandi sem ég studdi Davíð Oddsson fékk ekki brautargengi. Ljóst var frá upphafi að á brattann yrði að sækja þar sem megn pólitísk andstaða vinstri fólks var gegn honum og fáir menn hafa verið rægðir jafn vægðarlaust á undanförnum árum.

Guðni Th. Jóhannesson er kjörinn með minnihluta atkvæða þjóðarinnar, en hann er ekki fyrsti nýkjörni forseti lýðveldisins sem er það. Sú staðreynd er hins vegar hvatning til löggjafarvaldsins, að breyta ákvæðum um kjör forseta þannig að fái engin frambjóðandi meirihluta í fyrstu umferð skuli kjósa aftur milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu.

Guðna bíður það verkefni að móta forsetaembættið með nokkuð öðrum hætti en Ólafur Ragnar gerði. Vonandi verður minna um prjál og tildur. Nýkjörinn forseti sem ekki hefur leikið neina leiki á vettvangi stjórnmála hefur auk heldur ekki það vægi í stjórnmálalífi landsins sem fráfarandi forseti hefur. Sígandi lukka er best í því efni og aðalatriðið, að nýi forsetinn nái að verða sameiningartákn þjóðarinnar og verðugur fulltrúi hennar innanlands sem erlendis.

Óneitanlega er annkannanlegt að öfga-Evrópusinnar eins og m.a. Egill Helgason, skuli strax sækja að nýkjörnum forseta vegna ummæla sem hann lét falla um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi. Nýkjörinn forseti mælti þar af almennri skynsemi, en það dugar ekki fyrir fýlda Evrópusinna, sem fara hamförum yfir vilja almennings sem þeim er ekki að skapi í lýðræðislegum kosningum í öðru landi.

Um leið og ég óska nýkjörnum forseta til hamingju með kjörið þá vona ég að hann haldi áfram að tala af almennri skynsemi og nýti þá reynslu sem hann sækir í eitt mikilvægasta veganesti sem stjórnmálamaður getur haft með sér í farteski í viðureign við erfið vandamál. Yfirburðaþekkingu á sögu.

 


Forsetakosningar og framtíð þjóðar

Frækinn árangur landsliðsins í Frakklandi hefur fangað huga þjóðarinnar og dreift athyglinni frá því að á laugardaginn 25. júní kjósum við nýjan forseta lýðveldisins.

Allir eru sammála um, að til að landslið nái árangri verður að velja bestu leikmennina. Leikmenn sem hafa sýnt að þeir bugast ekki og kunna að bregðast við aðstæðum.

Í stjórnmálum telur fólk stundum að önnur sjónarmið gildi.

Sá frambjóðandi sem hefur bestan undirbúning og reynslu af þeim sem nú gefa kost á sér, er Davíð Oddsson. Miklu skiptir að við veljum þann hæfasta til að skipa þetta öndvegi í íslenskum stjórnmálum.

Því fer fjarri að við Davíð Oddsson höfum verið vinir í gegn um tíðina. Oft hefur okkur orðið sundurorða og haft mismunandi meiningar og átt í illdeilum. Ég hef oft á tíðum gagnrýnt Davíð hart m.a.afstöð hans til Íraksstríðsins, kvótakerfisins í sjávarútvegi og fjölmargra fleiri mála.

Hvað sem líður því að vera sammála eða ósammála þá er alltaf mikilvægt að virða hvern einstakling fyrir það sem hann stendur fyrir og getur. Þess vegna virði ég Davíð og hef gert vegna þeirra kosta sem hann hefur óháð því hvernig samskiptum okkar hefur verið háttað.

Í Hruninu 2008 varð mér ljóst að hrunvaldarnir gerðu allt sem þeir gátu til að koma þeirri sök á Davíð Oddsson að hann bæri ábyrgð á því að stærstu bankarnir urðu gjaldþrota. Það var ómaklegt og þau ár sem liðin eru frá Hruni hafa sýnt okkur að margt í starfsemi bankanna var andstætt lögum og aðgerðir framkvæmdar til að blekkja m.a. Seðlabanka og Fjármálaeftirlit.

Þau ár sem liðin eru frá Hruni hafa líka sýnt okkur að hefði ekki verið öflugur maður eins og Davíð Oddsson í áhrifastöðu þegar þeir atburðir gerðust þá hefðu afleiðingar Hrunsins orðið mjög þungbærar fyrir þjóðina og því fer fjarri að við byggjum við jafn góðan efnahag í dag og raunin er hefði hans ekki notið við.

Við greiðum ekki skuldir óreiðumanna sagði Davíð Oddsson þegar stærstu einkafyrirtækin á íslenskum fjármálamarkaði féllu. Davíð var legið á hálsi fyrir þessa afstöðu. Því var jafnvel haldið fram að vegna þessa hefðu Bretar beitt okkur því harðræði sem var langt yfir öll siðleg mörk í samskiptum þjóða, þegar þeir settu á okkur hryðjuverkalög. Allt slíkt tal var úr lausu lofti gripið eins og sagan hefur sýnt.

Það var einmitt þessi afstaða Davíð að greiða ekki skuldir óreiðumanna sem kristallaðist í aðgerðum stjórnvalda strax eftir Hrunið og þá var unnið þrekvirki við að bjarga málum og síðan í Icesave deilunni sem Davíð sýndi slíka dómgreind og fór fram með þeim hætti að komið var í veg fyrir að þjóðin yrði bundin á skuldaklafa erlendra áhættufjárfesta um áratuga skeið.

Þessar staðreyndir verður að hafa í huga. En það kemur fleira til. Því er haldið fram að maður sem hefur lengi verið í framlínu stjórnmála geti aldrei orðið sameiningartákn þjóðarinnar. Sé svo þá er eðlilegt að spurt sé hvort Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafi ekki fljótlega eftir að hann tók við embætti forseta Íslands áunnið sér slíka stöðu.

Davíð Oddsson leiddi Sjálfstæðisflokk og Alþýðuflokk til samstarfs í ríkisstjórn og síðan Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Hann var forsætisráðherra í samsteypustjórnum lengur en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður frá lýðveldisstofnun. Til að vel fari við slíkar aðstæður þarf stjórnmálamaður að búa yfir stjórnunarhæfileikum og nauðsynlegri lempni til að ekki springi allt í loft upp. Maður sem hefur þá hæfileika að ná samsteypustjórn um árabil til að vinna saman hefur meiri burði en flestir aðrir til að sameina þjóðina.

Margir töldu óráðlegt á sínum tíma að velja Ólaf Ragnar Grímsson til forseta vegna fortíðar hans í stjórnmálum. Hann hefur getað hafið sig yfir flokkspólitískar þrætur og náð frábærum árangri í þessu mikilvæga starfi. Með sama hætti og ekki síður er Davíð Oddsson líklegur til að hefja sig yfir flokkadrætti og sameina þjóðina þegar þess er mest þörf.

Nú berast þær fréttir að Bretar hafi ákveðið að ganga úr Evrópusambandinu. Það eru því að renna upp nýir tímar, þar sem nauðsynlegt er að við stjórnvölin í mikilvægustu embættum landsins sé fólk sem veit hvað það vill. Veit hvert nauðsynlegt er að stefna og hefur sýnt það að hagsmunum lands og þjóðar er vel fyrir komið í þeirra höndum. Í forsetakosningunum á laugardaginn eigum við kost á að velja slíkan frambjóðanda Davíð Oddsson.

Oft gerist það í lýðræðsríkjum að nýungin er valin fram yfir reynsluna. Það gerðu Bretar í lok síðara heimstríðs. Þeir höfnuðu Winston Churchill sem leitt hafði þjóðina til sigurs og völdu nýungina. Þess vegna töpuðu Bretar friðnum og efnahagsleg hnignun urðu þeirra örlög.  

Stríðshrjáð rústað Þýskaland aftur á móti valdi sína bestu menn til verka og varð efnahagslegt stórveldi nokkrum árum síðar.

Það nær engin þjóð árangri nema hún velji besta fólkið.

  

 


Brexit

Ég hlustaði á kappræður andstæðra fylkinga um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu í gærkvöldi. Fyrrum borgarstjóri London Boris Johnson var yfirburðamaður í umræðunum, en aðrir stóðu sig einnig vel enda toppfólk sem tók þátt í þessari umræðu á vegum BBC.

Talað hefur verið um hræðsluáróður útgöngufólks, sem reyni að vekja ótta vegna innflytjendastraumsins frá öðrum Evrópuríkjum og stefnu Evrópusambandsins í Evrópumálum. Boris Johnson gerði góða grein fyrir því og sýndi fram á fáránleika innflytjendastefnu Evópusambandins þar sem smygglarar eru teknir við stjórninni í boði Angelu Merkel.

Hræðsluáróðurinn virist mér fyrst of fremst vera einhliða og koma frá aðildarsinnum, sem töluðu um að enska pundið mundi falla niður úr öllu valdi. Bretum stæði ekki til boða jafngóð kjör í viðskiptum o.s.frv. o.s.frv. Í stuttu máli minnti umfjöllun aðildarsinna mig á rök talsmanna samninga um Icesave á sínum tíma þar sem fullyrt var að við yrðum annars flokks ríki á borð við Kúbu og Norður Kóreu ef við samþykktum ekki Icesave. Aðildarsinnar í Bretlandi nota í meginatriðum sömu röksemdirnar.

Fróðlegt verður að sjá hver niðurstaðan verður í kosningunum á morgun. Margir hafa talað um að umræðan hafi verið hatursfull og sumir hafa fullyrt að það hafi leitt til þess að truflaður maður myrti bresku þingkonuna Joe Cox. Slíkar fullyrðingar hafa takmarkaða innistæðu þegar betur er skoðað. Því miður þá gerast voðaverk, sem eru fyrst og fremst afleiðing af truflunar viðkomandi geranda. Þegar slíkir einstaklingar eiga í hlut þá skaða þeir að jafnaði þann málstað sem þeir segjast vilja þjóna eins og varð í þessu tilviki. 

Þeir sem leitt hafa umræðuna í Bretlandi á báða bóga hafa ekki verið með hatursáróður en þeir hafa haldið fast á sínum málum og yfirleitt gert það af mannviti, en óneitanlega minntu rök aðildarsinna í umræðum BBC í gær mig á rök stuðningsmanna Icesave á sínum tíma hér á landi.

 


Einu sinni enn

Enn eitt hryðjuverk Íslamista var framið í Orlando í Banaríkjunum í gær. Hryðjuverkamaðurinn réðist þar að hinsegin fólki vegna þess að hann telur að það sé brotlegt við lög Allah og hafi hvorki mannréttindi né tilverurétt. Þessi morð á samkynhneigðum eru ekkert einsdæmi. Vítt og breitt um hinn Íslamska heim hafa verið framin hryðjuverk og fjöldamorð á hinsegin fólki.

Þegar Obama segir það nú einu sinni enn að þetta hryðjuverk hafi ekkert með Íslam að gera þá hljómar hann eins og maðurinn sem endurtekur stöðugt sömu mistökin og heldur að niðurstaðan breytist. Þetta hefur allt með Íslam að gera þó að því miður séu til örlitlir vanmáttugir öfgahópar annarra trúarbragða sem eru haldnir sömu fordómunum. Munurinn er sá að þeir eru fordæmdir af nánast öllum trúbræðrum sínum. Íslamistarnir sem ráðast gegn hommum og lesbíum er hins vegar hampað sem hetjum víða í hinum Íslamska heimi og jafnvel í einstaka moskum Evrópu.

Fyrir nokkru var greint frá því að Hjörtur Magni Fríkirkjuprestur hefði tekið þá geðþóttaákvörðun að bjóða safnaðarheimili Fríkirkjunnar, kristins safnaðar, til afnota fyrir  öfgafyllsta trúarhóp Íslamista á Íslandi "Menningarsetur múslima"  Salman Tamimi sem ekki kallar nú allt ömmu sína í boðun Múhameðstrúar hefur lýst áhyggjum vegna þessa safnaðar og segir hann fjármagnaðan frá Saudi Arabíu, þar sem kirkjur eru bannaðar og fólk jafnvel fangelsað fyrir að vera með jólatré.

Imamin eða trúarleiðtogi gistivina Hjartar Magna er Ahmad Seddeq, sem vakti athygli á því fljótlega eftir að hann hóf hina trúarlegu boðun hér á landi að "samkynhneigð stuðlaði að barnsránum og að þau börn væru síðan seld á mörkuðum". Gæti þetta verið fordómar gagnvart samkynhneigðum Hjörtur Magni. Það hefur e.t.v. farið framhjá þér.

Imamin Seddeq hefur einnig lýst nauðsynlegu að konur séu með hulið hárið utandyra til að koma í veg fyrir framhjáhald. Orsakasamhengið liggur að vísu ekki í augum uppi nema menn trúi þeim kennisetningum í öfga Íslam sem stuðlar að kvennakúgun.

Hjörtur Magni virðist ekki átta sig á að það fer fram barátta milli hins kristna menningar- og trúarbragðaheims og hins Íslamska. Hann virðist ekki átta sig á að þeir sem hann hefur boðið velkomna í safnaðarheimili Fríkirkjusafnaðar eru andstæðingar kristi og kirkju, en ekki nóg með það þeir eru á móti þeim sjónarmiðum Upplýsingastefnunnar sem mótaði Evrópska menningu, lýðræði, mannréttindi og hófsamleg kristin gildi.

Hjörtur Magni hagar sér með sama hætti og hefði Rauðhetta boðið Úlfinum að dvelja hjá henni og ömmu sinni.


Einkunnir og palladómar RÚV spyrla í umræðum forsetaframbjóðenda

Umræður frambjóðenda til forseta á RÚV í gærkvöldi voru athyglisverðar um sumt. Einkum vakti þáttur stjórnenda RÚV athygli.

Í fyrsta lagi þá nálguðust stjórnendurnir frambjóðendur með mismunandi hætti:

Davíð þú ert nú svo umdeildur áttu þú eitthvað erindi og telur þú þig geta verið sameiningartákn þjóðarinnar?

Ástþór þú hefur nú ekki haft erindi sem erfiði af hverju ertu að bjóða þig fram?

Andri Snær þú ert umhverfissinni og vilt gæta viðkvæmrar náttúru landsins?

Guðni þú mælist langhæst í skoðanakönnunum hverju þakkar þú það?

Sturla þú hefur beitt þér fyrir hagsmunum fátæka fólksins hverju breytir það að þú verðir forseti?

Aðrir fengu líka sína dóma. Eins og Halla hrunverji og hinar konurnar þrjár hvers vegna ertu að þessu eiginlega? Í sjálfu sér spurning sem hefði þá átt að vera inngangsspurning hjá öllum án einkunnagjafa

Hér eru týnd til nokkur dæmi um ávirkar og skoðanamótandi spurningar stjórenda umræðuþáttarins. Þær eru til þess fallnar að gefa ákveðna sýn á frambjóðendur. Davíð er umdeildi maðurinn sem stendur ekki fyrir neitt jákvætt. Ástór er paufarinn sem er endalaust að berjast við einhverju sem á enga skírskotun. Andri Snær stendur fyrir jákvæð gildi náttúruverndar og Guðni er fyrirfram sigurvegari. Sturla er alþýðuhetjan í uppleggi þáttastjórnenda.

Annað vakti líka athygli. Sumir frambjóðendur voru nánast stöðvaðir strax af stjórnendunum eins og t.d. Ástþór hvað eftir annað, en aðrir eins og t.d. Andri Snær máttu láta móðan mása án inngripa þeirra.

Aldrei hef ég séð hvorki hér á landi né erlendis eins ávirka palladóma frá stjórnendum umræðuþáttar fyrir kosningar. Það verður að gera þá kröfu til RÚV að það sinni þeirri lágmarksskyldu við lýðræðið í landinu að velja hæft fólk til að stjórna mikilvægum umræðuþáttum frambjóðenda eins og þessum. Fólk sem kann, skilur og veit og gefur ekki palladóma en lætur fólkinu í landinu það eftir að móta sér skoðun á frambjóðendum á lýðræðislegum grundvelli óháð skoðunum og palladómum stjórnenda.

 


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 1251
  • Sl. sólarhring: 1309
  • Sl. viku: 6393
  • Frá upphafi: 2470777

Annað

  • Innlit í dag: 1168
  • Innlit sl. viku: 5876
  • Gestir í dag: 1120
  • IP-tölur í dag: 1085

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband