Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016

Neytandinn borgar

Samkeppnisstofnun hefur beitt Mjólkursamsöluna viðurlögum fyrir ólögmæta markaðsstarfsemi til að koma í veg fyrir samkeppni á þessum mikilvæga neytendamarkaði. Forstjóri fyrirtækisins segir að neytendur muni á endanum borga þessar sektir. Hvort sem fólki líkar það betur eða verr þá er það staðreyndin þegar markaðsráðandi fyrirtæki eru beitt slíkum viðurlögum.

Af hverju þá að leggja höfuðáherslu á það að sekta fyrirtæki?

Fyrirtæki sem slíkt brýtur ekki lög heldur þeir sem stjórna því. Það eru alltaf einstaklingar sem standa að lögbrotum -líka brotum á samkeppnislögum. Af hverju ekki að leggja höfuðáherslu á að refsa þeim seku í stað þess að refsa neytendum?

Í 41.gr.a og b samkeppnislaga er heimild til að refsa einstaklingum fyrir tiltekin brot á Samkeppnislögum. Breyta þarf samkeppnislögum á þann veg að refsing einstaklinganna sem standa að brotunum verði aðalatriðið og sektir eða stjórnvaldssektir fyrirtækja verði aukaatriði nema til að gera upptækan ólögmætan hagnað fyrirtækjann af markaðshindrandi starfsemi.

Mikilvægast fyrir neytandann í frjálsu markaðshagkerfi er að virk samkeppni sé á markaði. Virkasta leiðin til að svo geti verið er að gera einstaklingana ábyrga fyrir samkeppnisbrotum.

 

 


500 þúsund deyja árlega úr malaríu og ábyrgð umhverfisverndarsinna.

Í frétt Daily Telegraph 2. júní kom fram að árlega deyja 500.000 einstaklingar vegna malaríu. Á tveggja mínútna fresti deyr barn úr malaríu. Hér er á ferðinni mannlegur harmleikur vegna áhrifa öfga umhverfisverndarsinna.

 Verulegur árangur hafði náðist í baráttunni gegn malaríu fram á áttunda áratug síðustu aldar. Þá var eiturefnið DDT bannað vegna áróðurs og áhrifa öfga umhverfisverndarsinna.

DDT bjargaði uppskeru, skógum,nytjadýrum og fólki. Árið 1970 taldi stofnunin: U.S National Academy of Science:, að DDT hefði bjargað meir en 500 milljón mannslífum. Ýmsir þar á meðal vísindamenn halda því fram að DDT sé ekki skaðlegt fyrir umhverfið og ætti ekki að banna.

Á Sri Lanka voru árið 1948 voru tæplega 3 milljónir sem smituðumst af malaríu og um 8 þúsund dauðsföll á ári. Með notkun DDT þá  náðist sá árangur árið 1963 að aðeins 17 voru smitaðir af malaríu og ekkert dauðsfall. Eftir að DDT var bannað fjölgaði malaríusmitum á Sri Lanka í 2.5 milljónir nokkrum árum síðar.

Hundruðir þúsunda dóu í Afríku eftir að DDT var bannað. Í Suður Ameríku gekk vel að ráða við malaríu þar sem DDT var notað.

Kostnaðurinn við að úða hús með DDT kostar um 300 krónur á ári. Önnur efni kosta margfalt meira og eru ekki eins áhrifarík.

Rík lönd sem eiga ekki við ógn malaríunar að glíma hóta fátækum löndum refsiaðgerðum ef þau nota DDT. 

Þjóðkirkjan, aðrar kirkjudeildir og annað velmeinandi fólk, sem er annt um fátækt fólk, ætti að taka höndum saman um að vinna bug á malaríunni og nota áhrifaríkusta efnið sem við eigum kost á til að koma í veg  fyrir að hundruðir þúsunda deyi árlega.

Væri það ekki verðugt og í raun skylduverkefni?

 


Stríðsglæpamenn

Skýrsla opinberu bresku rannsóknarnefndarinnar um innrásina í Írak árið 2003 staðfestir það sem öllum átti að vera ljóst. Í fyrsta lagi voru brotin alþjóðalög. Í annan stað voru röksemdir fyrir nauðsyn innrásar rangar. Í þriðja lagi var beitt fölsunum og blekkingum, af æðstu yfirmönnum Breta og Bandaríkjanna. Í fjórða lagi þá var Saddam Hussein tilbúinn til samninga. Í fimmta lagi þá gættu hvorki Bandaríkjamenn né Bretar að öryggi hinnar hernumdu þjóðar í Írak svo sem þeim bar skylda til.

Innrásin í Írak 2003 á fölskum forsendum með lygum, í trássi við alþjóðalög ætti að duga til að draga þá sem stóðu að innrásinni fyrir alþjóðlegan stríðsglæpadómstól. Af hverju gerðu Bretar og Bandaríkjamenn þessa glórulausu vitleysu. Það er erfitt að finna svar við því. Blair og Bush var það alltaf ljóst að þeir voru að ljúga þjóðir sínar í stríð. Þáverandi utanríkisráðherra Breta sagði af sér og flutti eina af bestu ræðum sem haldnar hafa verið í breska þinginu við það tækifæri.  

Ég gagnrýndi þessa innrás strax og íslensk stjórnvöld fyrir að setja okkur í hóp viljugra ríkja. Það var brot á utanríkisstefnu Íslands. Því miður fylgdum við þessari ólöglegu innrás þó það væri bara í orði.

Verða einhverjir í Bretlandi og Bandaríkjunum látnir sæta ábyrgð fyrir að hafa átt þátt í morðum og dauða tuga þúsunda einstaklinga. Það væri e.t.v. ekki úr vegi að miða þá við sömu sönnunarreglur og ábyrgðarkröfur eins og fyrrum hermenn nasista hafa þurft að sæta vegna ábyrgðar á Gyðingamorðum.

Vesturlönd geta ekki sótt einræðisherra í Afríku eina til saka og þáttakendur í upplausnarstríði Júgóslavíu, en sleppt sínum eigin mönnum sem bera ábyrgð á dauða mun fleiri.


The lowly Iceland

Gremja Englendinga brýst fram með ýmsum hætti vegna þess að landsliðið þeirra tapaði fyrir Íslandi. Í grein í Daily Telegraph í dag er talað um að þeir hefðu tapaði fyrir "the lowly Iceland" þ.e. tapað fyrir þessu ómerkilega Íslandi. Annarsstaðar í blaðinu er liðinu hins vegar hrósað fyrir einbeitni og góðan fótbolta.

Seinna í dag keppir Íslenska landsliðið við það franska á þjóðarleikvangi Frakka í París. Leikvangurinn rúmar meir en 80 þúsund manns eða eins og einn af hverjum fjórum Íslendingum. Þannig kæmust rúmlega 25% íslensku þjóðarinnar á þennan völl.

Þessi stærðarhlutföll og sú staðreynd að við erum ítrekað að keppa við milljónaþjóðir og höfum haft betur fram að þessu sýnir hversu frábær árangur íslenska landsliðsins er.

Það þarf margt að ganga vel og fótboltinn er nú einu sinni þannig að það þarf góða og sterka liðsheild ásamt heppni til að vinna leiki þegar keppt er við álíka góð eða betri lið. Við höfum aldrei átt jafn sterkt og heilstætt landslið þar sem valinn maður er í hverju rúmi og við getum valið um frábæra varamenn til að fylla þeirra skörð ef nauðsyn ber til.

Synir mínir ákváðu að skella sér til Parísar til að styðja okkar menn og buðu mér að koma með, en ég sagðist frekar vilja slá tvær flugur í einu höggi og sjá undanúrslitaleik Íslands við Þýskaland og síðan úrslitaleikinn. Ég vona að mér verði að ósk minni og Ísland vinni Frakkland seinna í dag.

Þegar sú stund nálgast að strákarnir okkar fari að spila á þjóðarleikvangi Frakka í París mun ég fara í svitastorkinn íþróttabúninginn minn, en ég hef ekki viljað þvo hann síðan við byrjuðum að vinna af eintómri þjóðlegri hjátrú, en ég er eins og margir aðrir sem halda að þeir eigi besta leik allra á hliðarlínunni og það sé undir þeim komið hvernig leikurinn fer.

Hvernig svo sem gengur í dag þá erum við samt með langbesta landslið í heimi miðað við fólksfjölda.


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 181
  • Sl. sólarhring: 835
  • Sl. viku: 4002
  • Frá upphafi: 2427802

Annað

  • Innlit í dag: 169
  • Innlit sl. viku: 3705
  • Gestir í dag: 167
  • IP-tölur í dag: 164

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband