Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2017

Virðing Alþingis. Virðing þjóðar.

Umhverfisráðherra Björt Ólafsdóttir sættir sig ekki við ráðherralaunin og hefur því hafið fyrirsætustörf fyrir tískuvörumerkið Galvan í London. Ráðherranum finnst það sæma sitja fyrir og auglýsa vörurnar með upptökum úr þingsal Alþingis lýðveldisins Íslands. 

Skrifstofustjóri Alþingis segir, að þetta komi sér mjög á óvart, en strangt til tekið sé þetta ekki brot á reglum skv. því sem haft er eftir honum í Fréttablaðinu í dag. Reglurnar segir skrifstofustjórinn samt vera þær að myndatökur í einkaþágu séu óheimilar í þingsal. Erfitt er að átta sig á því fyrst myndatökur í einkaþágu séu óheimilar í þingsal, að það sé ekki brot, að Björt Ólafsdóttir láti taka af sér auglýsingamyndir í þingsal. 

Nú er spurning hvort aðrir ráðherrar fara að dæmi Bjartar og drýgi ráðherralaunin með sama hætti. Þá gæti Bjarni Benediktsson auglýst Armani föt og Benedikt Jóhannesson Rolex úr. Já og Þorgerður Katrín Channel ilmvötn og samgönguráðherra Toyota. Já og allt með upptökum úr þingsal Alþingis, þar sem strangt til tekið er það ekki brot á reglum þó myndatökur í þingsal í einkaþágu séu óheimilar.

Var einhver að tala um virðingu Alþingis og virðingu þjóðar þegar ráðherra og/eða ráðherrar landsins misnota stöðu sína með þeim hætti sem Björt Ólafsdóttir gerir í tekjuöflun sinni fyrir erlent "gróðafyrirtæki" eins og hún og flokksmenn hennar hafa iðulega talað um með mikilli fyrirlitningu. 

 

 


Fjármálaráðherra seðlar, evra og króna

Fjármálaráðherra hefur ítrekað lýst þeirri skoðun, að takmarka eigi eða banna viðskipti í íslenskri mynt. Þess í stað skuli öll viðskipti fara í gegn um debet- eða kreditkort. Fjármálaráðherra hefur einnig ítrekað amast við því að við skulum vera með 10 þúsund króna seðil og telur að svo há fjárhæð sé til þess fallin að auðvelda sjálfsbjargarviðleitni þeirra borgara, sem vilja komast undan ofurskattheimtu ríkisstjórnarinnar. 

Á sama tíma og fjármálaráðherra amast við notkun íslenskra seðla og vill eingöngu bankamillifærsluviðskipti á íslenska myntsvæðinu, þá er hann öflugur talsmaður þess að íslenska krónan verði lögð niður, en Ísland taki upp Evru. 

Nú vill svo til að myntkerfi Evrulandana er með þeim hætti að þar er stærsti seðillinn 500 Evrur sem samsvarar 60.000 sextíuþúsund íslenskum krónum miðað við gengi Evrunnar 120. 

Ólíklegt verður að telja að fjármálaráðherra telji sig þess umkominn komi til þess að Ísland taki upp Evru að breyta svo greiðslukerfi Evrulanda, að notkun myntar já og 500 Evru seðilsins verði bönnuð. 

Það er óneitanlega skondið að sami maður vilji afnema 10 þúsund króna seðil af því að svo hár seðill stuðli að skattsvikum og glæpum, á sama tíma og hann vill ólmur í Evrulandið þar sem 60 þúsund króna seðlar eru daglegt brauð. 

Gott væri að fá vitræna skýringu á þessari tvíhyggju fjármálaráðherra.

 


Af hverju þurfum við að fara í gegn um öryggishlið en ekki öfgaliðið?

Flugfarþegar þurfa að fara í gegn um stöðugt ákveðnari leit og öryggisráðstafanir á flugvöllum. Fara þarf úr skóm, taka af sér belti. Ekki má  hafa vökva eða krem nema í örlitlu magni. 

Af hverju er þetta svona? 

Að hluta til eru viðbrögðin umfram tilefni og beinast að öllum, en ekki þeim sem sérstök hætta stafar frá.

Af hverju er það svo?

Vegna þess að uppgjafar- og aumingjapólitík Vesturlanda segir að það megi ekki taka út þá sem eru hættulegir, heldur þurfi allir að sæta öryggisgæslu, jafnvel þó ljóst sé að engin hætta stafi af viðkomandi einstaklingi. 

Þessi öryggisgæsla varð til eftir að Palestínuarabar byrjuðu að sprengja upp og hertaka flugvélar. Enn hertist öryggisgæslan eftir árás Íslamista á tvíburaturnana 11. sept.2001 og tilraun Íslamista með sprengju í skónum til að sprengja farþegaþotu. 

Við búum því við ofuröryggisgæslu af gefnu tilefni frá Palestínuaröbum og Íslamistum.

Þann 14. júlí s.l. drápu þrír Palestínuarabískir hryðjuverkamenn tvo lögregluþjóna á Musterishæðinni í Jerúsalem og notuðu hnífa og vélbyssur í árásinni.  Þá settu stjórnvöld í Ísrael upp öryggishlið við Musterishæðina til að leita að vopnum, en vopnin sem voru notuð við hryðjuverkaárásina var smyglað þangað inn.

Þá bregður svo við að múslimar sem ætla að biðja í moskunum á Musterishæðinni neita að fara í gegn um málmleitarhliðið og telja það óbærilega ögrun og harðræði gagnvart sér.

Vinstri sinnuðu fjölmiðlarnir á Vesturlöndum jarma síðan eins og vel æfður kór með þessu fólki og telja að því sé sýnt óbærilegt harðræði, já og lítillækkun. 

En er það svo?

Eigum við sem ætlum að fara upp í flugvél að líta á það sem óbærilega lítillækkun og harðræði að þurfa að fara í gegn um málmleitarhlið á flugvöllum og fara úr skónum og taka af okkur beltin vegna hryðjuverka öfgamanna úr röðum Palestínumanna og Íslamista.

Af hverju er engin fjölmiðill á Vesturlöndum sem gerir réttmætt grín af þessu liði, sem telur sér allt heilagt en aðrir verði að þola möglunarlaust ofstæki þeirra og hryðjuverk. Já og fara í gegn um endalaus öryggishlið og þaðan af meira. Er ekki nóg komið góðir hálsar að þessari endalausu meðvirkni með ofbeldinu.

  

 

 

 

 

 


Bangsímon bannaður í Kína

Kommúnistastjórnin í Kína amast við því að fólk lesi um ævintýrapersónuna Bangsímon. Ekki er ljóst hvað Bangsímon hefur til saka unnið í Kína eða með hvaða hætti hann geti verið hættulegur kommúnistastjórninni. 

Alræðisstjórnir kommúnista, fasista og Íslamskra ríkja eru stöðugt á varðbergi gagnvart öllu því sem gæti orðið til þess að fólkið hugsi sjálfstætt og fái önnur sjónarmið og viðmiðanir en þær sem stjórnvöld alræðisins vilja leyfa því að sjá. 

Þessi atlaga Kommúnistanna í Kína að Bangsímon, sem er svo einkar hlýr og jákvæð persóna, sýnir okkur hvað það er stutt í takmörkun einstaklingsfrelsins. Við þurfum stöðugt að vera á varðbergi gagnvart einræðis- og öfgaöflunum til að tryggja opið þjóðfélag og eðlilegt einstaklings- og tjáningarfrelsi.

 

 


Gott frumkvæði utanríkisráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræddi fyrir nokkru við utanríkisráðherra Breta, Boris Johnson um hugsanlega aðild Breta að EFTA, fríverslunarsambandi Evrópu, en við ásamt Norðmönnum, Sviss og Lichtenstein erum í því bandalagi og Bretar voru það áður en þeir gengu í Evrópusambandið.

Mikilvægt er fyrir Ísland að ná góðu viðskiptasambandi við helstu viðskiptaþjóð Íslands, Bretland, og hluti af því ferli gæti verið að Bretar tengdust EFTA á nýjan leik. 

Spurning er þá einnig hvort að Bretar telji það kost að tengjast Evrópska efnahagssvæðinu ásamt okkur Norðmönnum og Lichtenstein, en sennilega eru minni líkur á því en meiri, þó slíkt mundi tryggja Brexit að nokkrum hluta fljótt og örugglega og síðan gætu þeir haldið áfram og sagt sig frá EES samningnum með tíð og tíma.

EES samningurinn er að sumu leyti góður, en öðru leyti slæmur. Stór hluti þeirra sem studdu Brexit vildu koma í veg fyrir frjálsa för fólks frá Evrópusambandinu og tryggja að Bretar hefðu meiri stjórn á landamærum sínum.  

Brexit viðræðurnar og þeir kostir sem óneitanlega geta opnast með þeim þarf að skoða vel og reyna að ná góðu sambandi við Breta og jafnframt að fá fram breytingar á EES samningnum varðandi frjálsa för í samræmi við þann fyrirvara sem Ísland gerði með bókun við EES samninginn, sem felur í sér heimild til að takmöaka frjálsa för fólks til landsins með tilliti til íslenskra hagsmuna.

Utanríkisráðherra heldur vonandi vel á þessum flóknu en að mörgu leyti góðu spilum sem við höfum á hendi og ég treysti honum til góðra verka og ná fram betri stöðu með samningum fyrir Ísland. 

 

 

 


Rafmagnsbílaaðallinn.

Rafmagnsbíllinn minn er orðinn eins árs og þetta ár hef ég ekki notað jarðefnaeldsneyti ekki einu sinni á sláttuvélina sem líka er rafmagnsdrifin. Samneyti mitt við bíl og sláttuvél hafa verið með ágætum þrátt fyrir að þau séu ekki knúin jarðefnaeldsneyti. 

Eitt fer þó í taugarnar á mér í þessu sambandi. Ríkisvaldið mismunar mér á kostnað annarra borgara, sem nota bensín eða olíur til að knýja farartæki sín eða annað áfram. 

Ríkið leggur gríðarlega skatta á bensín og olíur, en okkur rafbílaeigendum stendur til boða ókeypis rafmagn úr hraðhleðslustöðvum þar sem þær eru. Auk þess borgum við lægri aðflutningsgjöld og bifreiðagjöld. Er eitthvað réttlæti í því?

Það er alltaf hættulegt þegar ríkisvaldið fer að beita ávirkum aðgerðum til að breyta neysluvenjum fólks. Stutt er síðan fólk fékk umbun fyrir að kaupa díselbíla. Nokkru síðar kom í ljós að díselinn er mun verri en bensínið. 

Við rafbílaeigendur eigum að borga okkar hlut til veghalds og aðrir bíleigendur með hvaða hætti svo sem það kann að vera innheimt. Þá er glórulaust að hafa rafmagnið úr hraðhleðslustöðvunum ókeypis. Eðlilegt væri að fólk borgaði ákveðna upphæð t.d. fyrir tengingu og síðan mínútugjald. Það gjald mætti síðan nota til að byggja upp hraðhleðslustöðvakerfi hringinn í kring um landi með um 50 km. millibili. 

Hvernig væri t.d. að tengigjald við hraðhleðslustöð væri kr. 500 og síðan greiddu menn ekkert fyrir fyrstu 10 mínúturnar en þá kr. 50 á mínútuna næstu 10 mínutur og kr. 250 næstu 10 mínútur. Það væri alla vega sanngjarnt og gæti stuðlað að því að fólk væri ekki að hanga lengur í hraðhleðslustöð en brýna nauðsyn bæri til.   

 


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 18
  • Sl. sólarhring: 429
  • Sl. viku: 4234
  • Frá upphafi: 2449932

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 3945
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband