Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2017

Hinir hrjáðu flóttamenn í Evrópu

Skammsýnir stjórnmálamenn opnuðu Evrópu fyrir, að þeirra sögn, hrjáðum flóttamönnum, sem neyddust til að flýja til Evrópu. 

Víðtæk flóttamannaaðstoð var skipulögð og fjöldi herskipa og íslensk varðskip, hjálpuðu flóttamönnum á leið yfir Miðjarðarhafið á lekahripum til Evrópu, í stað þess að flytja þá til baka. Afleiðingin: Enn fleiri sækja í lekahripin og fleiri koma til Evrópu og fleiri farast á Miðjarðarhafinu. 

 Í aðdraganda kosninga í Þýskalandi er rætt um, að fjöldi flóttamannanna fer í orlof til heimalanda sinna þaðan sem þeir flúðu ofsóknir og hörmungar að eigin sögn. Velferðarfarþegar sem kallaðir eru flóttamenn koma svo aftur til að njóta allrar þjónustu á kostnað skattgreiðenda í móttökulöndunum.

Þetta má ekki ræða. Stjórnmálaelítan og fréttaelítan hafnar því að öfgalausar alvöru umræður fari fram um innflytjendamál. 

Á fundi þar sem Angela Merkel hitti stofnanda Fésbókar, kvartaði Merkel yfir því að alls kyns óþverralýður væri að skrifa á fésbók og gagnrýna innflytjendastefnu hennar og Evrópusambandsins og spurði hvort ekki væri hægt að koma í veg fyrir þetta. Fésbókarstjórnandinn svaraði og sagði. "We are working on it." Við erum að vinna í því. (Það gleymdist að skrúfa fyrir hljóðnemann og þess vegna heyrðu allir)

Þeir sem hafa slæmt mjöl í pokanum og segjast ekki sjá eftir neinu eins og Merkel hermir nú eftir Edith Piaf, geta það ef þeir eru ekki minntir á eigin syndir og afglöp. En nú eru þýsku fjölmiðlarnir farnir að verða svolíti óþægilegir. Merkel gæti e.t.v farið að dæmi vinar síns Erdogan eða þess sem hún þekkir frá barnæsku og hlutast til um að fjölmiðlar hagi sér. 

 


God bless Robert E. Lee

God bless you Robert E. Lee er heiti lags sem Johnny Cash söng á sínum tíma til að þakka Robert E. Lee fyrir að hafa bundið endi á borgarastyrjöldina í Bandaríkjunum með því að gefast upp þegar hann sá, að áframhaldið væri ekki annað en tilgangslaust blóðbað þar sem talið var að a.m.k. 40 þúsund manns til viðbótar mundu falla. Johnny Cash verður seint talinn í hópi hægri öfgamanna. 

Nú hafa "frjálslyndu fasistarnir" í Bandaríkjunum, sem telja sig siðferðilega yfir aðra hafnir og hafa að eigin mati einir höndlað hvað er sannleikur, krafist þess að styttur af Robert E. Lee verði fjarlægðar þar sem hann hafi verið vondur þrælahaldari og barist fyrir málsstað Suðurríkjanna, sem hafi háð styrjöld til að viðhalda þrælahaldi í Suðurríkjunum.

Nú er það svo með marga sem telja sig hafa höndlað hinn eina sannleik, að oft skortir þá almenna þekkingu m.a. í sögu.

Robert E. Lee var ekki sérstakur verndari þrælahalds. Hann gaf þrælum sínum frelsi árið 1862 og eftir borgarastyrjöldina lagði hann gjörva hönd á að sætta Suðrið og Norðrið eftir þær hamfarir sem Borgarastyrjöldin hafði valdið og vann með og fyrir Andrew Johnson forseta sem tók við af Lincoln.

Lee var ekki stuðningsmaður þess að Suðurríkin segðu sig úr lögum við Bandaríkin og það var fyrst þegar heimaríki hans Virginía ákvað að fylgja Suðurríkjunum, að hann hlýddi kalli heimaríkis síns og leiddi síðan her Suðurríkjamanna og reyndist meðal bestu hershöfðingja sögunnar. 

Fólk verður að sjálfsögðu að ráða því hvaða styttur það vill hafa og iðulega eru styttur hluti af sögu viðkomandi lands og/eða borgar. Sókn "frjálslyndu fasistanna" gegn sögulegum styttum og táknum, sem þeir telja siðferðilega ógna sinni réttlætiskennd er því miður nokkuð í ætt við bókabrennur fyrri tíma, þar sem þeir sem höndlað hafa sannleikann reyna að koma í veg fyrir óæskilegar skoðanir með því að bannfæra þær og eyða. 

Í sumar urðum við vitni að því að hópur "frjálslyndra fasista" hér á landi reyndi að koma í veg fyrir að Robert Spencer fengi að tjá skoðanir sínar, af því að þær voru ekki þóknanlegar þeim sem vilja óheftan innflutning Íslamista til landsins. En þá sigraði tjáningarfrelsið og metfjöldi sótti fyrirlestur Roberts Spencer.

Í Bandaríkjunum reynir vinstri fréttaelítan og vinstri stjórnmálaelítan að útmála þá sem vilja viðhalda sögulegum minjum eins og styttum af Robert E. Lee sem öfgafólk vegna þess að örlítill hluti þeirra sem eru í þem hópi tilheyra öfgasamtökum. Mikill meiri hluti er venjulegt fólk. Venjulegt fólk, sem áttar sig betur á sögulegu samhengi hlutanna en "frjálslyndu fasistarnir sem vilja að öllum öðrum skoðunum en sínum verði útrýmt. 

Fái "frjálslyndu fasistarnir sínu framgengt verður til alræðisríkið sem Benito Mussolini kallaði svo og George Orwell skrifaði um í bókum sínum "Animal Farm og "1984" Aðeins hin einu "réttu" sannindi mega koma fyrir almenningssjónir.

Fólk sem ann lýðræði þarf að halda vöku sinni og það skiptir í dag mestu máli að gjalda varhug við öfgaskoðunum "frjálslyndu fasistanna" til að viðhalda tjáningarfrelsi og lýðræði.


Þingmaður segir af sér

Þingkonan Theódóra S. Þorsteinsdóttir hefur ákveðið að segja af sér þingmennsku frá og með næstu áramótum, vegna þess hvað hún telur þingstörfin ómarkviss, hafi litla þýðingu og þingið sé eins og málstofa án takmarks eða tilgangs.

Fyrst svo er af hverju segir Theódóra ekki af sér nú þegar. Af hverju bíða til áramóta í málsstofunni við að sinna ómarkvissum störfum sem hafa litla þýðingu?

Gagnrýni Theódóru á vissulega fullan rétt á sér. Í tæpan áratug hefur Alþingi haldið sjálfu sér í gíslingu. Með aðkomu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar að landsstjórninni varð erfiðara en áður, að semja um mál milli stjórnar og stjórnarandstöðu sérstaklega vegna frekju og yfirgangs Jóhönnu Sigurðardóttur og sporgöngufólks hennar.

Frá þeim tíma hafa hlutirnir þróast í þá átt að þinginu er haldið í gíslingu meginhluta þingtímans eða þangað til nokkrir dagar lifa fram að þingfrestun fyrir áramót og síðar að vori. 

Að hluta til er þetta þingforsetum Alingis að kenna, sem hafa ekki haft eðlilega stjórn á umræðum. 

Meginástæðan er hins vegar sú að stjórnmálaforingjar flokkana hafa ekki myndað nýtan samstarfsvettvang. Hvort sem fólki líkar betur eða verr þá snúast stjórnmál í lýðræðisríki jafnan um að ná ásættanlegum málamiðlunum.

Málþóf sem er alvarlegur plagsiður á Alþingi Íslands, er nánast óþekkt á þjóðþingum hinna Norðurlandanna. Í Danmörku þar sem minnihlutastjórnir eru algengari en meirihlutastjórnir koma stjórnmálaleiðtogar saman áður en þing hefst og semja í meginatriðum um þingstörfin og framgang mála. Við slíkar aðstæður eru þingstörf og þingmennska mun meir gefandi en hér á landi og hafa meiri þýðingu fyrir land og þjóð sem og þingmenn. 

Annar hlutur sem Theódóra nefnir er frumkvæðisskortur Alþingis. Það er alvarlegt mál og kom glöggt í ljós í Hruninu. Þá áttu Alþingismenn þess ekki kost að koma að málum eða eiga frumkvæði vegna þess að stjórnkerfið eins og það hefur þróast er stjórnkerfi framkvæmdavaldsins. 

Stefnumótun og umræður um meginatriði eru fátíð á Alþingi og einstakir þingmenn hafa lítið svigrúm til að koma áfram einstökum málum og skiptir þá ekki máli hversu góð mál það eru og til hvaða framfara þau horfa. Alræði framkvæmdavalshafa þ.e. ríkisstjórnar ræður og mál fást ekki tekin á dagskrá eða um þau fjallað í nefndum nema ráðherra leyfi og á þessu eru fáar undantekningar. 

Það sem þarf til að koma er aukin virðing Alþingis fyrir sjálfu sér sem stjórnvaldi. Virðing sem felst í því að Alþingi tekur frumkvæði og skoðar mál ítarlega jafnvel áður en þau eru send til úrvinnslu í stjórnarráðinu. Það gerist hins vegar allt of oft, að málum er dengt inn á þing í rétt fyrir þinghlé og þau afgreidd í snarhasti nánast umræðu- og skoðunarlaust og reynast síðan meingölluð þegar til á að taka. 

Aukin virðing Alþingis fyrir sjálfu sér felst m.a. í því að taka tillit til þess sem hver einstakur þingmaður hefur fram að færa og þeim málum sem hann flytur. Þá bera fjölmiðlar mikla ábyrgð, en eins og ég hef ítrekað bent á, þá hefur þetta svokallaða fimmta vald í lýðræðisríkinu Íslandi verið versta brotalöm lýðræðísins í landinu. 

Þegar fjölmiðlar greina frá umræðum á Alþingi eða því sem þar er að gerast, þá beinist athygli þeirra sérstaklega að fyrirspurnum til ráðherra og því þegar einstakur þingmaður viðhefur rótarlegt, groddarlegt eða dónalegt orðbragð. Fjölmiðlar sinna ekki og greina ekki frá því sem dugmiklir þingmenn hafa fram að færa, fólk sem undirbýr frumvörp og ber þau fram eftir að hafa lagt í málin mikla vinnu. 

Alþingismenn eru á kjósendamarkaði og það er mikilvægt fyrir þá að fá athygli og þeir beina því kröftum sínum að því sem vekur athygli fjölmiðlafólks. Þess vegna er fáránleikinn oft í fyrirrúmi í stað stefnufesti, málafylgju og vel unninna þingmála.

En það skiptir máli að Alþingi vinni vinnuna sína með sóma og ástundi vandað löggjafarstarf og sé miðstöð stefnumótunar í þjóðmálum. Þess vegna verður að koma Alþingi frá þeim ömurleika sem hefur heltekið þingið og til meiri virðingar. Þar verða allir að leggjast á eitt. Forseti Alþingis, Fjölmiðlafólk, einstakir þingmenn og forustufólk þingflokka, sem verða að láta það eftir sér að haga sér eins og þroskað stjórnmálafólk en láta vera að fara fram eins og óþekkir krakkar.


Dagar hinna löngu hnífa

Fyrir rúmum 80 árum var talað um nótt hinna löngu hnífa, þegar forusta þýska þjóðernissósíalistaflokksins lét taka af lífi helstu forustumenn vígsveita flokksins.

Fyrir rúmum 10 árum kvartaði þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins Guðjón Jónsson yfir því að bakið á honum væri alsett hnífum eftir bakstungur fjandvinar síns í Framsóknarflokknum hann lifið það þó af þó pólitískt líf hans yrði ekki lengra. 

Nú hafa Framsóknarmenn dregið hnífana úr baki Guðjóns og nota þá óspart á Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur borgarfulltrúa og gengur þar hart fram sá borgarfulltrúi Framsóknar sem er hinn fulltrúi þessa litla flokks í borgarstjórn Reykjavíkur. 

Aðrir fylgja á eftir, en þó verður ekki séð hvort þeir gera það tilneydir. 

Eftir að Sveinbjörg Birna benti réttilega á annmarka á skólakerfinu, sem veldur því að það gagnast í mörgum tilvikum hvorki íslenskum börnum né börnum hælisleitenda og kostar of fjár,  fór fjölmiðlaelíltan úr öllum límingum einkum þeir sem þiggja laun sín frá skattgreiðendum, en með í för var einnig liðtækur sporgöngumaður, eiginmaður aðstoðarkonu forsætisráðherra. 

Fréttin um ummæli Sveinbjargar varð helsta ekki fréttin alla verslunarmannahelgina og fréttaelítan á RÚV var með þessa ekki frétt í öllum fréttatímum nema e.t.v. í einhverjum morgunfréttatímum kl. 6 á morgnana. 

Fréttamenn RÚV drógu fram hvern forustumann Framsóknar af öðrum til að fá þá til að fjalla um og fordæma ummæli Sveinbjargar og gerðu þeir það svikalaust með mismiklum þunga samt. Nú síðast ályktaði stjórn ungra Framsóknarmanna um málið. Kom það nokkuð á óvart, þar sem þjóðin hafði ekki vitað af tilvist þeirra. 

Atgangur ríkisfréttamanna var slíkur að það minnti á þekkt kvæði eftir Stein Steinar um Jón Kristófer og samneyti hans við Hjálpræðisherinn en þar orti Steinn;

"Jón Kristófer kadett í hernum

 í kvöld verður samkundan háð 

 og lautinant Valgerður vitnar 

 um veginn að Drottins náð

 Og svo verður sungið og spilað

 á sítar og mandólín tvö

 ó komdu og höndlaðu herrann 

 það hefst klukkan rúmlega sjö"

 

Eins og í kvæðinu vitnaði fréttaelítan með sama hætti og lautinant Valgerður í kvæðinu um veginn að Drottins náð og sungu á sinn sítar og mandólín tvö þangað til að flokksforusta Framsónar áttaði sig á hvað þyrfti til að höndla herrann og brást við eins og fréttaelítan vildi.

Eftir situr framsóknarmaddaman Sveinbjörg Birna óverðskuldað með mörg hnífasett í bakinu og ekki sú fyrsta af forustufólki Framsóknar sem öðlast það hlutskipti. 


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 18
  • Sl. sólarhring: 429
  • Sl. viku: 4234
  • Frá upphafi: 2449932

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 3945
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband