Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2018

Kynbundinn launamunur?

Ekki er ágreiningur um það að kynbundinn launamunur er fyrir hendi í þjóðfélaginu. Ágreiningur er um hvað hann er mikill. Það er heldur ekki ágreiningur um að eyða þurfi kynbundnum launamun og greiða skuli sömu laun fyrir sömu vinnu óháð kynferði. 

Öllum ætti að vera ljóst, að vinni Sigríður helmingi lengri vinnutíma en Sigurður og fái helmingi meira kaup, þá er ekki um kynbundinn launamun að ræða heldur fá þau sömu laun fyrir sömu vinnu. 

Á þessa staðreynd benti Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og þess vegna væru tölur um kynbundin launamun, sem unnið væri út frá m.a. af talskonum gegn launamisrétti, rangar. Þetta leiddi til þess, að Sigríður fékk á sig fordæmingu úr ýmsum áttum. En engin gagnrýnandanna talaði um nauðsyn þess að fá betri tölfræðileg gögn til að vinna út frá til að umræðan væri byggð á þeim raunveruleika sem um er að ræða, en ekki tilbúningi á grundvelli fórnarlambavæðingar.

Frá því var skýrt í Bretlandi á föstudaginn var að skv. tölfræðilegum upplýsingum frá ONS (breska hagstofan) væri engin kynbundinn launamunur hjá fólki undir 40 ára aldri (launamunurinn sem var mældur var undir 2% sem er innan skekkjumarka)Kynbundin launamunur starfsfólks í fullu starfi mældist þó 8.6% í Bretlandi og það er að sjálfsögðu talið óviðunandi, þó verulega hafi þokast í rétta átt. 

Engin ágreiningur er um það að útrýma beri kynbundnum launamun og það er ekki sérstakt baráttumál kvenna heldur baráttumál allra sem vilja jafnstöðu borgaranna í þjóðfélaginu. Engin pólitískur ágreiningur er um þessa stefnu og þessvegna er það aumkunarvert þegar einstakir stjórnmálamenn reyna að slá sig pólitískt til riddara réttlætisins með orðhengilshætti í málum eins og þessum. 

Nauðsynlegt er að Hagstofan mæli kynbundin launamun í mismunandi aldurshópum og hjá fólki sem vinnur fullan starfsdag til að fá betri tölfræðileg gögn og tala um vandann út frá raunverulegum staðreyndum en ekki tilbúnum.

Forsenda þess að ná árangri í þessum efnum eins og mörgum öðrum, er að vinna út frá réttum forsendum eins og Sigríður Andersen bendir réttilega á.  


Sjáandi sjá þeir ekki

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur staðfest dóm æðsta dómstóls Austurríkis þess efnis, að það sé ekki brot á 10.gr. mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi, að dæma konu sem sagði að Múhameð hefði verið barnaníðingur til sektar fyrir þau ummæli, sem voru túlkuð sem hatursorðræða. 

Konan flutti fyrirlestur um Íslam haustið 2009, þar sem hún fjallaði um hjónaband Múhameðs spámanns Allah og stúlkunnar Aishu, sem var sex ára þegar Múhameð þá 56 ára giftist henni og hafði fyrst við hana samfarir þegar hún var níu ára og hann þá 59 ára.

Fyrirlesarinn konan E.S. sem býr í Vín í Austurríki spurði "hvað köllum við svona háttalag annað en barnaníð". 

Frú E.S. var dæmd af æðsta dómstól Austurríkis fyrir að kalla framferði Múhameðs barnaníð og dæmd til að greiða 480 Evrur í sekt fyrir að vanvirða trúarkenningar.

Frú E.S vísaði málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu og taldi dóm æðsta dómstóls Austurríkis vera brot á tjáningarfrelsi. Á fimmtudaginn var kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp þann dóm, að sektardómurinn yfir E.S væri ekki brot á 10.gr. mannréttindasáttmálans um tjáningarfrelsi.

Í niðurstöðu Mannréttindadómstólsins er vikið að því að fólk eigi rétt á því að trúarskoðanir þeirra séu verndaðar og dómur æðsta dómstóls Austurríkis væri til þess fallinn að viðhalda friði milli trúarbragða í Austurríki og ummæli frú E.S væru umfram það sem væri leyfilegt í málefnalegri umræðu og taldi þau niðrandi ummæli um spámanninn Múhameð, sem gæti leitt til fordóma og ógnað friði milli trúarbragða.

Hvað nefnum við sextugan mann, sem hefur samræði við níu ára stúlku? Barnaníðing. Í öllum tilvikum nema um sé að ræða Múhameð spámann af því það geta ógnað friði í samfélaginu. Hvers konar samfélag er það þá eiginlega?

Í hinni vestrænu Evrópu má ekki segja sannleikann um Múhameð spámann að viðlögðum sektum. 

Hversu langt á læpuskapur og aumingjadómur Evrópskra stofnana og stjórnvalda að ganga áður en fólk hristir af sér þessa hlekki fáránleikans. 

Dómur Mannréttindadómstólsins  í Evrópu í máli frú  E.S hefur ekkert með mannréttindi eða lögfræði að gera heldur er hann dæmigerður fyrir dómstól, sem sveiflast eftir almenningsáliti og tekur afstöðu á ómálefnalegum grundvelli. 

Mannréttindi þ.á.m. tjáningarfrelsi eru algild. Það má aldrei gefa afslátt af því eins og því miður er gert í þessum dómi.


Tillögur hinnar "róttæku" verkalýðshreyfingar ganga ekki nógu langt

Sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn barðist hart gegn auknum ríkisútgjöldum og aukinni skattheimtu. Eftir að ríkisbáknið hefur þanist út m.a. vegna aðhaldsleysis Sjálfstæðisflokksins og þáttöku í velferðaryfirboðum hinna flokkanna, er skattheimtan á launafólk í landinu orðin óbærileg.

Sú var líka tíðin að verkalýðshreyfingin þrýsti á um félagsmálapakka og aðrar aðgerðir sem miðuðu að því að stækka ríkisbáknið og mæltu samhliða með aukinn skattheimtu því eitt leiddi af öðru. Nú krefst það sem er kallað hin "róttæka" verkalýðshreyfing að skattleysismörk verði hækkuð í rúmar 400 þúsundir, semsagt veruleg skattalækkun á launafólk í landinu.

Formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra finnur þessum hugmyndum verkalýðshreyfingarinnar allt til foráttu en setur ekki fram neinar hugmyndir um skattkerfisbreytingar eða sparnað. 

Ef eitthvað er þá ganga hugmyndir "róttæku" verkalýðsforustunar varðandi skattleysismörk ekki nógu og langt. Það á ekki að skattleggja tekjur undir 500 þúsund krónum. Er ekki kominn tími til að gefa launþegum sem enn nenna og geta unnið tækifæri til að njóta atvinnutekna sinna í ríkara mæli?

Væru skattleysismörk hækkuð í 500 þúsund krónur þá þyrfti ekki að eyða tímanum í að tala um frítekjumark ákveðinna hópa. Draga mundi úr svartri atvinnustarfsemi og aukinn hvati væri til þess hjá ýmsum að auka tekjur sínar, sem mundi leiða til aukinnar einkaneyslu en hluti þess mundi síðan renna í ríkissjóð í formi óbeinna skatta. Tekjuskerðing ríkisins yrði því mun minni en möppudýrin í fjármálaráðuneytinu segja fjármálaráðerra að raunin verði. 

Allt er þetta spurning um pólitískan vilja og grundvallarstefnu í pólitík. Vilji stjórnmálamenn draga úr bákninu þá er það hægur vandi þar sem að á það hefur verið hlaðið alla þessa öld og auðvelt að skera verulega niður. Bara bruðlið og óráðssían kostar laun þúsunda láglaunafólks.

Burt með báknið og burt með ofurskattana. Með því bætum við lífskjör í landinu og gerum ungu fólki auðveldara að hasla sér völl í þjóðfélaginu verða eignafólk. 

En því miður virðast þeir sem helst ættu að mæla fyrir sparnaði og ráðdeild í ríkisbúskapnum vilja einhenda sér í aukna samneyslu og gæluverkefni í stórum stíl á kostnað skattgreiðenda og eru því orðnir hluti af því sósíalska kerfi ánauðar og ofurskattheimtu sem dregur mátt úr þjóðinni. 

Við það er ekki hægt að una.


Þursaríkið afhjúpað

Undanfarin ár hefur Saudi Arabía stutt við hryðjuverkastarfsemi vítt og breytt um heiminn, konur og farandverkafólk er nánast svipt öllum mannréttindum. Þá fer Saudi Arabía með hernaði á hendur Yemen þar sem þúsundir almennra borgara hafa verið drepin og hungursneið milljóna fólks vofir yfir. Framferði Sáda í Yemen hefur verið óafsakanlegt, en einhverra hluta vegna hefur þetta verið gleymda stríðið og fjölmiðlar á Vesturlöndum hafa ekki séð ástæðu til að fordæma það með sama hætti og t.d. borgarastryjöldina í Sýrlandi.

Ekkert af þessu hefur leitt til fordæmingar alþjóðasamfélagsins á Sádi-Arabíu og refsiviðurlaga. Þvert á móti þá eru Sádar með fulltrúa í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og stjórnendur lýðræðisríkja í Evrópu einkum Trump og May mæla til mikillar vináttu við þursaríkið og setja kíkinn fyrir blinda augað þegar rætt er um framferði þessa þursaríkis.

þ.2.október s.l. fór landflótta Sádi Arabi Jamal Khashoggi inn á sendiskrifstofu Sáda í Istanbúl og kom ekki lifandi út af henni aftur. Khashoggi sem bjó í Bandaríkjunum hafði snúið sér til sendiskrifstofu Sádi-Arabíu í Whasington DC til að fá skilnaðarpappíra vegna þess að hann ætlaði að giftast tyrkneskri unnustu sinni. Honum var sagt að þeir gætu ekki afgreitt það heldur yrði hann að fara til Istanbúl þ.2. október og sækja pappírana þangað. 

Sama dag og Khashoggi átti að fá pappírana flugu 15 opinberir starfsmenn frá Saudi Arabíu og komu sér fyrir á sendiskrifstofunni og tóku síðan á móti Khashoggi þegar hann birtist. Þeirra á meðal voru þrír menn úr lífverði krónprinsins og sérfræðingur í að saga upp líkama með beinasög mann að nafni Salah Tubaigy.

Þegar Khashoggi kom ekki lifandi út, sögðu Sádi Arbar, að hann hefði víst gert það. Síðan sögðu þeir að hann hefði látið lífið eftir að kom til átaka milli hans og einhverra í sendiráðinu. Í síðustu útgáfunni segja stjórnvöld í Sádi Arabíu, að teppi hafi verið vafið utan um lík hans og honum komið fyrir í því og flutur þannig út úr sendiráðinu. 

Allt í einu vaknaði heimurinn og hafði meiri áhyggjur af morði blaðamannsins, en öllum þeim ódæðum sem þetta þursaríki fremur á degi hverjum. Trump rembist þó eins og hann getur við að bera blak af stjórnvöldum í Saudi Arabíu, enda telur hann stjórnendur þessa þursaríkis til vina sinna. Theresa May mælir ekki með refsiaðgerðum eins og hún gerði gagnvart Rússlandi vegna máls Skrípal feðga enda eiga bretar billjóna hagsmuni af samskiptum við Sáda eins og Bandaríkin. 

En með morðinu á Khashoggi hefur verið velt hlassi, sem hefði átt að vera velt fyrir áratugum síðan og vonandi láta stjórnendur Vesturlanda nú til sín taka þannig að heimurinn sjái að vinnubrögð eins og þau að myrða fólk á sendiskrifstofum, svipta fólk mannréttindum og ógna lífi heillar þjóðar með miskunarlausum hernaðaraðgerðum verður ekki liðið. 

Það verður fróðlegt að sjá hvort að stjórnvöld á Vesturlöndum falla á þessu prófi og það verður líka fróðlegt að sjá hvort að Pútín Rússlandsforseti muni reyna að fiska í gruggugu vatni eða sýna þann manndóm að fordæma aðfarir Sáda. 

Skipan mála í Sádi Arabíu og framferði stjórnvalda þar hefði átt að vera öllum á Vesturlöndum ljós, eftir að fyrrum forstöðumaður CIA leyniþjónustu Bandríkjanna í Mið-Austurlöndum skrifaði eftir starfslok bókina:

¨Sleeping with the Devil"  

Hvað sem líður billjóna viðskiptahagsmunum þá er ekki hægt að láta framferði eins og Sádi Arabar sýna nánast á öllum sviðum viðgangast. 


Prinsinn fagri gekk of langt

Nýjasta fórnarlamb Me-too byltingarinnar er prinsinn fagri sem kyssti Þyrnirós og vakti hana af værum 100 ára svefni. Nútíma öfgakonur hafa komist að því að prinsinn hafi ekki fengið leyfi og sýnt sofandi konu ósæmilegt kynferðislegt áreiti.

Vafalaust hefur höfundur ævintýrisins um Þyrnirós aldrei látið sér til hugar koma, að prinsinn fagri yrði sekur fundinn um eitthvað ósæmilegt þegar hann í aðdáun sinni smellti kossi á varir Þyrnirósar. Þetta fallega ævintýri um Þyrnirós var ekki skrifað út frá kynrænum sjónarmiðum heldur sem fallegt ævintýr sem fær góðan enda, einmitt vegna þess að prinsinn fagri frelsar Þyrnirós úr álögum með því að kyssa hana.

Hefði prinsinn fagri ekki kysst Þyrnirós, þá svæfi hún enþá og þau hún og prinsinn hefðu ekki lifað hamingjusömu lífi það sem eftir var þeirra ævi eins og segir í ævintýrinu að þau hafi gert. 

Umræða sem þessi og fordæming á söguhetjum ævintýra eins og þessu er til þess fallin að draga athyglina frá ósæmilegu og jafnvel hrottafengnu áreiti sem margt fólk verður fyrir, en það er einmitt slík hegðun sem er fordæmanleg, en ekki eðlileg athygli og viðbrögð fólks varðandi hitt kynið. 

 


Sendum utanríkisráðherra til Moskvu í kjölfar Matteo Salvini.

Íbúar og stjórnendur fyrirtækja víða á landsbyggðinni gera sér grein fyrir að refsiaðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn Rússum kosta magar milljarða á ári. Ítrekað hefur verið farið fram á það að stjórnvöld hætti að troða illaskir við Rússa enda eigum við þeim ekki annað en allt gott upp að inna.

Fleiri þjóðir en við finna fyrir því að Evrópusambandið skuli halda fast við refsiaðgerðir gegn Rússum. Í gær hótaði Ítalía að beita neitunarvaldi gegn því að refsiaðgerðunum yrði haldið áfram.

Matteo Salvini innanríkisráðherra Ítalíu sagði í Moskvu í gær að refsiaðgerðirnar væru efnahagslegt, þjóðfélagslegt og menningarlegt brjálæði og gjörsamlega fráleitt og hefði kostað Ítali billjónir Evra. Salvini sagði auk þess, að hann treysti því að þeir væru nógu gáfaðir í Brussel til að skilja að þeir væru komnir of langt og snúa yrði til baka til góðra samskipta milli Ítalíu, Evrópusambandsins og Rússlands. 

Vel má vera að Salvini hafi rétt fyrir sér að þeir séu nógu gáfaðir í Brussel til að átta sig á villu síns vegar varðandi refsiaðgerðir gegn Rússum þó draga megi það í efa. Hitta er annað mál, að það væri sterkur leikur hjá ríkisstjórninni að senda nú utanríkisráðherra til Moskvu til að gefa svipaða yfirlýsingu og Salvini og tilkynna afdráttarlaust, að íslendingar drægju sig einhliða út úr öllum refsiaðgerðum gegn Rússum. 


Dauðans alvara þegar fréttamiðlar stunda hatursáróður.

Varla hefur liðið sá frétttími í fjölmörgum fréttamiðlum í henni Ameríku án þess að andskotast væri út í Donald Trump og allt sem hann gerir og stendur fyrir. Garmurinn hann Ketill íslenska Ríkisútvarpið hefur fylgt dyggilega eftir þessum hatursáróðri, sem nú er farinn að taka á sig hættulega,  grafalvarlega og andlýðræðislega mynd.

Fyrir nokkru var Ted Cruz öldungardeildarþingmaður frá Texas, sem var helsti andstæðingur Trump í forkosningum Repúblikana fyrir síðustu kosningar á veitingastað ásamt konu sinni þegar hópur fólks veittist að þeim fyrir það eitt, að Ted Cruz hafði greitt atkvæði með staðfestingu dómarans Brett Kavanaugh í embætti Hæstaréttardómara. Hjónin þurftu á vernd lögreglu að halda þegar þau yfirgáfu veitingastaðinn. 

Öldungardeildarþingmaður Repúblikana frá Maine í norðausturhluta Bandaríkjanna hefur orðið fyrir ítrekuðu aðkasti undanfarið vegna þess að hún greiddi líka atkvæði með staðfestingu Brett Kavanaugh Hæstaréttardómara. Veitingahúsakeðja í Texas hefur hætt að kaupa skelfisk frá Maine og segist gera það til að refsa fylkinu fyrir að hafa Senator sem greiðir atkvæði með þessum hætti.

Ekki nóg með það. Öldungardeildarþingmaðurinn frá Maine, Susan Collins hefur fengið hótanir og í gær var lögreglan kvödd að heimili hennar í öryggisskyni vegna haturspósta og grunsamlegra sendinga.

Þessi tvö dæmi er það nýjasta af röð þess, sem að öfgafullir Demókratar hafa staðið fyrir, þar sem þeir hika ekki við að ráðast að fólki sem hefur aðrar skoðanir. Þessir Demókratar virða ekki það sjónarmið sem talsmenn lýðræðis, lýðfrelsis og hugmyndafræði upplýsingaaldarinnar færa fram um að allar skoðanir skipti máli og fólk hafi rétt til að tjá skoðanir sínar hversu vitlausar sem okkur þykja þær þó vera. 

Þegar vikið er frá þessu grundvallaratriði réttarríkisins og fasisminn tekur völdin og krest þess að fólki verði refsað vegna skoðana sinna þá er hætta á ferðum í lýðræðisríki. 

Sök þess fólks sem staðfesti tilnefningu Brett Kavanaugh í embætti Hæstaréttardómara var að greiða atkvæði með því að óumdeilanlega mjög hæfur lögfræðingur með óaðfinnanlegan feril sem dómari settist í Hæstarétt Bandaríkjanna. 

Demókratarnir veitast að fólki sem greiddi þessum hæfa dómara atkvæði sitt vegna þess að það hafnaði honum ekki vegna ósannaðara og upploginna saka sem á hann voru bornar.

Forusta Demókrataflokksins ætti að fordæma þetta athæfi öfgafullra flokkssystkina sinna og Ríkisútvarpið á Íslandi ætti að sjá sóma sinn í að flytja sannar hlutlægar fréttir af því sem gerist án þess að setja fram dóma. Væri e.t.v. ekki við hæfi að kalla þessa öfgafullu Demókrata sem hér er á minnst, "öfgavinstri" fólk. Það hugtak virðist ekki til á fréttastofu RÚV en "öfgahægri" að jafnaði fjórum sinnum í viku eða oftar. 

Það er dauðans alvara í orðsins fyllstu merkingu að vera í pólitík ef fréttamiðlar og skoðanafasistarnir hvaðan sem þeir koma heimila einstaklingum ekki að fylgja sannfæringu sinni án þess að þeir eigi það á hættu að vera úthrópaðir og hvatt til árása á þá vegna skoðana þeirra.


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 18
  • Sl. sólarhring: 429
  • Sl. viku: 4234
  • Frá upphafi: 2449932

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 3945
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband