Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2018

Berið hvers annars byrðar

Gleðileg jól.

 

Jesús sagði við mörg tækifæri við lærisveina sína að þeir skyldu bera hvers annars byrðar til að bera vitni trú sinni og fullvissu um réttlætingu fyrir góð verk og trú.

Við njótum þess, að geta haldið heilög jól í friði og kyrrð. Fjölskyldur njóta samvista, þeir sem eldri eru minnast liðinna jóla og horfinna ástvina með hlýhug og söknuði. Borð svigna undan veisluföngum og stórir hlaðar af jólagjöfum eru stöðugt að verða mikilvægari hluti og inntak hátíðarhaldanna. 

Berið hvers annars byrðar. Við mættum í alsnægtum okkar minnast þess, að víða er kristið fólk, sem fær ekki notið jólahátíðarinnar. Kristið fólk er víða ofsótt.  Meira en 200 milljónir kristins fólks í meira en 50 löndum á í vanda með að iðka trú sína vegna ofsókna á hendur þeim.

Kristnu löndin bregðast ekki við og kirkjudeildir í Evrópu og víðar láta eins og þeim komi þetta ekki við. Kirkjuleiðtogar á Vesturlöndum hafa almennt sammælst um að bera ekki byrðar þeirra trúarsystkina okkar sem verða fyrir ofsóknum eða er meinað eða gert erfitt að iðka trú sína. Sumsstaðar minnast kristnir þó erfiðleika og ofsókna trúarsystkina sinna. Í Hong Kong mættu kirkjugestir s.l. sunnudag svartklæddir til að sýna samstöðu með  ofsóttu kristnu fólki. 

Á fjórða þúsund kristins fólks hefur verið drepið á árinu 2018 vegna trúar sinnar tvisvar sinnum fleiri en næstu 12 mánuði á undan. 

Kristni í Mið-Austurlöndum er að verða útdauð vegna ofsókna Íslamista. Þau lönd sem tróna á toppnum af þeim löndum þar sem kristið fólk verður helst fyrir ofsóknum og dauða eru t.d. Norður Kórea, Líbýa, Egyptaland, Indland. Í Pakistand er kristið fólk stöðugt ákært fyrir guðlast. Skemmst er að minnast konunnar Asia Bibi sem var dæmd til dauða fyrir guðlast, en dómurinn síðan mildaður. Hún býr samt við stöðuga ógn frá Íslamistum og mun týna lífinu fyrr heldur en síðar bregðist vestræn ríki ekki við og nái henni frá Pakistan og veiti henni skjól og griðarstað svo hún og fjölskylda hennar fái að njóta þess að iðka trú sína óttalaus.

Í síðustu viku voru tveir kristnir bræður dæmdir til dauða vegna ásakana um guðlast. Ef kristnu þjóðirnar beittu Múslima sömu viðurlögum og kristið fólk verður að þola t.d. í Pakistan, Saudi-Arabíu  og víðar yrðu Múslima ríkin æf og það réttilega. En af hverju gildir ekki það sama um trúarsystkini okkar. Af hverju eru kristnu ríkin ekki æf og beita þau ríki alvarlegustu viðurlögum, sem viðurkenna ekki mannréttindi kristins fólks og ofsækir það vegna trúar sinnar?

Páfinn sagði á dögunum þegar hann minntist ofsókna á hendur kristnu fólki, "að nýr Neró  fæddist stöðugt til að þjá og þjaka fólk vegna trúar þess á Jesús og líkti þeim ofsóknum sem kristið fólk verður fyrir við þær ofsóknir sem kristið fólk mátti þola á árdögum kristninnar, þegar það var rifi á hol af villidýrum á Colosseum leikvanginum í Róm. 

Hvað er til ráða. Kristið fólk ætti að gera kröfu til ríkisstjórna kristinna ríkja, að þau beittu öll þau ríki harkalegum viðurlögum sem virtu ekki trú- og skoðanafrelsi. 

Spurning er hvort ekki sé rétt, að kristið fólk bindist sammælum um að stofna sérstakan sjóð til hjálpar ofsóttu kristnu fólki. Hvernig væri að slíkur sjóður yrði orðinn virkur fyrir næstu jól og hvetti kristið fólk til að láta 10% af því sem það eyðir til jólagjafa ganga til þess, að létta byrðum af ofsóttum trúarsystkinum okkar.


Þjóðarsjóður

Formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann lýsir svonefndum þjóðarsjóði sem meiningin er að setja á laggirnar með framlögum frá skattgreiðendum með millilendingu í ríkissjóði. Svo virðist sem þessi þjóðarsjóður eigi að vera eins konar vogunarsjóður til að takmarka áhættu Íslands komi til óvæntra náttúruhamfara eða einhvers sem jafna má til slíks. 

Fjármálaráðherra lýsir því að fjármunir þjóðarsjóðsins verði ávaxtaðir erlendis. Röksemdirnar fyrir því eru vægast sagt veikar og í andstöðu við þá hugmyndafræði sem t.d. Eyjólfur Konráð Jónsson fyrrum þingmaður flokksins og ritstjóri Morgunblaðsins boðaði á sínum tíma.

Ekki verður séð að þessi vogunarsjóður ríkisins bæti miklu við varðandi hagsmuni almennings í landinu. 

Það er hins vegar til sjóður sem gerir það og það er sjóður íbúa Alaska sem heitir "The Permanent Fund" sá sjóður nýtur ávaxta náttúruauðlinda Alaska aðallega olíunnar og eftir að fjármunir hafa verið teknir frá til rekstrar og nátturlegs viðhalds þá er því sem eftir er dreift til íbúa Alaska. Ekki skiptir þar máli hvor þú ert 90 ára eða eins árs. 

Árið 2015 voru greiddar USD 2.072 til hvers íbúa Alaska úr sjóðnum eða kr. 257.000 á hvern íbúa. Hver fjögurra manna fjölskylda fær þannig rúma milljón skattfrjálst. Væri ekki meira vit í að stofna slíkan sjóð og deila út arði af þjóðarauðlindunum eins og t.d. fiskimiðunum o.fl. til fólksins í landinu. Það væri búbót fyrir vísitölufjölskylduna að fá um milljón úr þjóðarsjóðnum og það mundi leiða til mun meira öryggis en að stofna vogunarsjóð til að leika sér með peninga almennings í landinu vegna þess að ef til vill gæti eitthvað vont gerst einhvern tímann. 

Má minna á að lífeyrissjóðirnir töpuðu rúmlega 500 milljörðum árið 2008 að hluta til vegna fjárfestinga sem vogunarsjóðir. 

Sjálfstæðisflokkurinn hafði einu sinni þá skoðun að almenningur gæti betur ávaxtað sitt pund sjálfur. Væri ekki ráð að hverfa til þeirrar stefnu aftur. 


Gagnrýni refsiverð

Samningurinn um réttindi innflytjenda, sem íslenska ríkisstjórnin ætlar að undirrita á morgun fyrir Íslands hönd felur í sér, að gagnrýni á fólksflutninga sé glæpsamleg. Sú stefnumörkun ein hefði átt að leiða til þess, að ríkisstjórnir lýðræðisríkja segðu nei við getum ekki samþykkt þetta. 

Fleira kemur til. Samningurinn felur í sér yfirlýsingar, sem veikja þjóðleg landamæri og lýsir fjölda innflutning á fólki eðlilegan. Línan á milli þess hvað er löglegur innflytjandi og ólöglegur er ómarkviss.

Engin í hinum vestræna heimi bað um svona samning. Þetta er samningur, sem stjórnmálaelítan hefur sýslað með og tilraun Sameinuðu þjóðanna til að ná til sín enn meiri völdum í þessum málum.

Nánast hvergi í Evrópuríkjum hefur samningurinn verið til umræðu og fólk í Evrópu vissi ekki af honum fyrr en kom að því að undirrita samninginn. Þar sem umræða hefur orðið um hann í framhaldi hefur það leitt til þess að ríki hafa neitað að undirrita hann eða hann hefur valdið pólitískri ólgu og deilum. 

Hér á landi var þess vandlega gætt, að engin pólitísk umræða færi fram um samninginn. Sú skoðun hefur verið sett fram til að réttlæta þetta, að samningurinn sé viljayfirlýsing og ekki bindandi og það eigi að ræða hann frekar á þingi Sameinuðu þjóðanna. Þetta er ómerkilegt yfirklór og ekki sæmandi fólki sem telur sig vera lýðræðissinna. 

Þegar samningurinn hefur verið undirritaður og pólitíska elítan hefur einu sinni enn náð að kúga borgara Evrópu, mun hann fara í farveg elítunnar hjá Sameinuðu þjóðunum og ljóst að yfirstjórn Sameinuðu þjóðanna er mikið í mun að hann verði samþykktur. Það verður ekki gefinn neinn kostur á því að nokkur vitræn pólitísk umræða fari fram um samninginn þá frekar en nú. Almenningur í Evrópu á ekki fulltrúa á þingi Sameinuðu þjóðanna. Þar ríkir alþjóðlega pólitíska elítan nánast öll eins og snýtt út úr sama nefinu.

Undirritun Íslands á morgun þýðir að pólitísk elíta landsins telur ekki þörf á að tala við fólkið í landinu um mikilvæg þjóðréttindi landsins og með hvaða hætti móta eigi framtíðarsýn fyrir landið. 

Rikisstjórnarfokkarnir, sem bera ábyrgð á þessu hafa í raun sagt sig frá því að vera marktækir lýðræðisflokkar og gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar.

Þeir eru ekki að setja hagsmuni Íslands í fyrsta sæti. 


Hvað hefði Ólafur Thors fyrrverandi forsætisráðherra gert?

Í allri þeirri orrahríð sem verið hefur vegna köpuryrða nokkurra drukkinna þingmanna á Klausturbar með víðtækri fordæmingu og kröfu um afsögn þeirra sem viðstaddir voru hvort heldur þeir voru sekir um eitthvað eða ekki datt mér í hug saga af Ólafi Thors fyrrum forsætisráðherra. Ólafur Thors var formaður Sjálfstæðisflokksins um áratugaskeið og er tvímælalaust farsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar á síðustu öld. 

Ungur róttækur maður var kjörinn á þing og hataðist út í Ólaf Thors meir en nokkurn annan því að í huga unga þingmannsins var Ólafur Thors talsmaður og fulltrúi auðvaldsins og andstæðingur verkalýðsins. 

Í fyrstu þingveislu fyrsta vetrar kjörtímabilsins varð ungi þingmaðurinn víðáttu drukkinn og hellti sér yfir meintan óvin sinn Ólaf Thors með heitingum,frýjunarorðum og hótunum. Viðstaddir sáu og heyrðu hvað fram fór. 

Morguninn eftir vaknaði ungi þingmaðurinn í herbergi sínu á Hótel Borg, en í þann tíð bjuggu utanbæjarþingmenn iðulega þar. Hann var uppfullur af skömm yfir framferði sínu og vissi að hann hefði orðið sér til mikillar skammar. Hann velti fyrir sér mitt í öllum timburmönnunum hvað hann ætti að gera og komst að þeirri niðurstöðu að hann yrði að segja af sér þingmennsku og fara aftur til sín heima með skottið á milli lappana. Leið nú dagurinn í einveru og þungum þönkum. Engin talaði við hann eða reyndi að setja sig í samband. 

Unga þingmanninum auðnaðist lítt að sofa aðfaranótt mánudagsins en sofnaði undir morgun og vaknaði seint og fór þá að undirbúa afsögn sína og leið svo fram að hádegi. Hann heyrði ekki í neinum, sem hann teldi að segði sína sögu um stöðu hans. Í hádeginu var barið að dyrum og ungi þingmaðurinn fór til dyra og varð bæði undrandi og nokkuð skelkaður þegar hann sá að fyrir utan stóð engin annar en óvinurinn sjálfur Ólafur Thors.

Ólafur falaðist eftir að fá að koma inn og var það auðsótt mál. Ungi þingmaðurinn byrjaði á að biðja Ólaf fyrirgefningar og fór að afsaka sig og sagði að hann gerði sér grein fyrir því að hann hefði skandalíserað þvílíkt að það væri ekkert annað í stöðunni fyrir sig en að segja af sér.

Ólafur Thors horfði á hann og sagði hvað er eiginlega að þér ungi maður. Láttu þetta ekki hvarfla að þér. Eins og það geti ekki komið fyrir unga menn að fá sér of mikið neðan í því og segja einhver vanhugsuð orð og vitleysu. Ekki erfi ég það við þig og drífðu þig nú í fötin og komdu síðan með mér út á Alþingi og við skulum labba saman inn í þingsalinn rétt eftir að þingfundur hefst og ég á undan og þegar við erum komnir inn í þingsalinn þá klappar þú á öxlina á mér og ég sný mér við og við klappa þér á öxlina og síðan skiptumst við á orðum þannig að allir sjái að við erum vinir og þá stendur ekkert eftir af þessu rugli í þér í þingveislunni. 

Þeir gengu síðan saman í þingsal og allt gekk eftir svo sem Ólafur hafði fyrirlagt. Ungi þingmaðurinn átti síðan farsælan þingferil og varð síðar ráðherra. 

Þennan unga mann hefði Ólafur Thors getað eyðilagt ef hann hefði viljað. En Ólafur var mannkostamaður og sem ráðherra og valdamaður í þjóðfélaginu taldi hann sér að sjálfsögðu ekki ógnað þó að ungur þingmaður í fyllirýi væri að veitast að sér með orðum sem allir máttu vita að engin innistæða væri fyrir. 

Einhvernveginn virðist nú sem tímar fyrirgefningar og umburðarlyndis séu liðnir í íslensku samfélagi og hver og einn reynir að slá pólitískar keilur vegna vanhugsaðra óhæfuorða tveggja þingmanna á Klausturbar og krefjast þess að allir sem viðstaddir voru orðræðu þeirra segi af sér þingmennsku.

Mér er sem ég sjái Ólaf Thors upplifa þessa orðræðu. Af framangreindri sögu mætti e.t.v. ráða að honum hefði brugðið við að sjá hvers konar fólk situr á Alþingi í dag og hvernig þjóðfélagið hefur þróast.


Mótmæli Guljakkana í Frakklandi. Eiga þau erndi við okkur?

Skoðanakannanir sýna að mótmæli þeirra sem kallaðir er gulu jakkarnir í Frakklandi vegna klæðaburðar þeirra í mótmælunum njóta stuðnings um 77% þjóðarinnar. Á sama tíma mælist stuðningur við Macron Frakklandsforseta 24%.

Mótmæli Gulu jakkanna eru gegn háu vöruverði og háskattastefnu ríkisins. Fólkið vill ekki borga endalaust fyrir ríkisstjórn,sem virðist ekki hafa hæfi til að takmarka ríkisútgjöldin ekki frekar en sú íslenska.

Það sem hleypti mótmælunum af stað var m.a. hækkun á bensínverði í því skyni að vinna gegn meintri hlýnun andrúmsloftsins. Frökkum er greinilega nóg boðið, en svar Macron er að búa til sérstakt loftslagsráð.

Mótmælin hafa breiðst út til annarra landa og það sem er merkilegt við þau er að þau virðast sjálfsprottinn og engin stjórnmálasamtök standa á bak við þau svo vitað sé. Ef til vill sýnir það hversu fjarlæg stjórnmálaelítan og fjölmiðlaelítan er orðin almenningi. 

Hér hafa verið lagðir á himinháir skattar vegna trúarbragða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og félaga á hnattræna hlýnun af mannavöldum, en almenningur lætur það yfir sig ganga 

Svo virðist líka sem að íslensk þjóð ætli líka að láta það yfir sig ganga að ríkisstjórnin skrifi þegjandi og hljóðalaust undir samning Sameinuðu þjóðanna um afsal fullveldis varðandi innflytjendamál. Það mun leiða til enn meiri skattheimtu vegna fjölgunar velferðar innflytjenda. 

Þá hefur almenningur í þessu landi sýnt ótrúlegt afskiptaleysi af því með hvaða hætti okrið í þjóðfélaginu er látið afskiptalaust. 

Við búum við hæstu vexti og verstu lánakjör í okkar heimshluta.

Við búum við verðtryggingu af neytendalánum. 

Við búum við hæsta vöruverð í okkar heimshluta og sennilega í veröldinni.

Við búum við kerfi þar sem ungt fólk fær ekki úthlutað lóðum á Stór Reykjavíkursvæðinu til að geta komið sér þaki yfir höfuðið. en stjórnmálaeltían virðist sammála um að við lóðaúthlutun skuli byggingarfélög og leigufélög hafa forgang.

Er ekki kominn tími til þess að við sláumst í hóp með Gulu jökkunum í Frakklandi og mótmælum öll gjörspilltu ríkiskerfi þar sem stjórnmálaelítan gerir ekkert til að draga úr skattpíningu á borgarana og telur að sér komi ekki við að okursamfélagið gagnvart neytendum fái að dafna og þroskast óáreitt af stjórnvöldum.

Ef til vill raska stjórnvöld við sér þegar síðasti ferðamaðurinn þakkar fyrir sig. En er ekki ástæða til að fólkið í landinu láti í sér heyra fyrr og hafni því að lífskjör á Íslandi fari versnandi vegna skattaokurs, lánaokurs og okurs á vörum og þjónustu?


100 ára Fullveldi. Þökk sé Dönum.

Til hamingju Ísland með að eiga 100 ára fullveldisafmæli. 

Við hefðum mörgum sinnum á þeim tíma getað misst fullveldið eða deilt því þannig með öðrum að lítið stæði eftir. Sem betur fer höfum við átt stjórnmálamenn, sem hafa gætt þessa fjöregg þjóðarinnar og jafnan gætt þess, að halda fram lands- og lýðréttindum þrátt fyrir að tekið væri þátt í fjölþjóðlegu samstarfi. Með EES samningnum var þó gengið að ystu mörkum. 

Fáir hafa bent á það hve lánsöm við vorum sem þjóð, að við skyldum heyra undir Dani. Hefði svo ekki verið er næsta víst, að við hefðum orðið bresk nýlenda og þá værum við ekki frjáls og fullvalda þjóð heldur hluti Stóra Bretlands og miðað við reynslu annarra þjóða, sem hafa lent í þeim hremmingum þá er ólíklegt að íslenska væri til sem lifandi tungumál.

Þrátt fyrir að íslenskir sagnritarar hafi iðulega skrifað söguna með þeim hætti, að við værum undir vondri nýlendustjórn Dana, þá er það rangt. Danir voru mildir og góðir nýlenduherrar og reyndu oftast að koma á framförum og við getum frekar sakast við íslensk yfirvöld vegna skammsýni þeirra og aumingjaskap. 

Alþýða Íslands varð ekki fyrir meiri áþján en alþýðan í Danmörku og jafnvel minni ef eitthvað var. Viðskilnaður Íslands og Danmörku varð síðan í fullum friði og með samkomulagi landanna fyrir 100 árum og slíkt er fáheyrt í mannkynssögunni um nýlendu og herraþjóð. 

Þrátt fyrir að viðskilnaður þjóðanna Danmerkur og Íslands hafi orðið stjórnarfarslega fyrir 100 árum þá hafa tengslin alltaf verið sterk sem betur fer og við megum taka Dani okkur til fyrirmyndar í mörgu og æskilegt væri að tengslin milli þjóðanna mundu vaxa frekar en minnka. 

Á þessum tímamótum ættum við að minnast þeirra íslendinga sem börðust fyrir íslensku fullveldi, en það var jafnan sótt með rökum og fullri einurð, en á sama tíma af kurteisi og virðingu fyrir Dönum. Nú á þessum tímamótum er það ánægjulegt að helsta forustufólk Dana skuli sækja okkur heim. Danir eiga að vera aufúsugestir hjá Íslendingum fyrir það að hafa í raun tryggt það að við áttum þess kost að verða sjálfstæð og fullvalda þjóð.

 


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 22
  • Sl. sólarhring: 817
  • Sl. viku: 5758
  • Frá upphafi: 2472428

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 5249
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband