Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2019

Viðskiptabann Íslandsbanka. Frjáls markaður og fasismi.

Í gær tilkynnti Íslandsbanki að hann hefði sett bann á viðskipti við þá, sem bankinn skilgreinir sem "karllæga" fjölmila. Bankinn ætlar að hætta viðskiptum við fjölmiðla sem ekki standast skoðanir bankans varðandi kynjahlutföll þáttstjórnenda og viðmælenda. Bankinn ætlar þannig ekki að eiga viðskipti við fjölmiðla á grundvelli gæða þeirra og hagkvæmni fyrir bankann að eiga viðskiptin. Markaðslögmálum skal vikið  til hliðar en í stað ætlar Íslandsbanki að eiga viðskipti  við fjölmiðla á grundvelli skoðana þeirra og stjórnunar. 

Þegar eitt stærsta fyrirtækið á íslenskum frjámálamarkaði tilkynnir, að það ætli ekki að láta markaðssjónarmið ráða varðandi viðskipti sín á markaðnum heldur ákveðin pólitísk viðhorf þá er það alvarlegt mál óháð því hver þau pólitísku viðhorf eru. 

Í þessu sambandi er athyglisvert að Íslandsbanki setur bara bann á svonefnda "karllæga" fjölmiðla, en ekki önnur "karllæg" fyrirtæki á íslenskum markaði. Þetta bendir til þess, að markmið Íslandsbanka sé að hlutast til um skoðanamótun og viðhorf fjölmiðlafyrirtækja. Næsti bær við ritskoðun og þann fasisma, að þvinga aðila á markaði til að samsama sig sömu skoðun og ofbeldisaðilinn í þessu tilviki Íslandsbanki.

Með sama hætti getur Íslandsbanki sett sér frekari markmið t.d. í loftslagsmálum og sett bann á viðskipti við þá sem efast um hnattræna hlýnun af mannavöldum eða eru ósammála lögum um kynrænt sjálfræði eða hvað annað, sem stjórnendur bankans telja óeðlilegt. Aðgerðir Íslandsbanka mótast þá ekki af grundvallarsjónarmiðum  markaðsþjóðfélagsins en líkir eftir því sem gerðist í Þýskalandi nasismans upp úr 1930. Fasisminn byrjar alltaf á að taka fyrir mál sem flestir eru sammála um og fikrar sig síðan áfram. 

Íslandsbanki er fyrirtæki á markaði, sem á að hafa þau markmið að veita viðskiptavinum sínum góða og hagkvæma þjónustu á sem lægstu verði á sama tíma og bankinn reynir að hámarka arðsemi sína með hagkvæmni í rekstri. Það eru markaðsleg markmið fyrirtækisins. Hlutverk Íslandsbanka er ekki að blanda sér í pólitík eða aðra löggæslu en bankanum er áskilið að gegna skv. lögum. Eðlilegt er að löggjafarvaldið og dómsvaldið sinni sínum hlutverkum og bankarnir sínum en þvælist ekki inn á svið hvers annars. Íslandsbanki hefur betri fagþekkingu á lánamálum, en Hæstiréttur Íslands, en Íslandsbanki hefur ekki hæfi til að gerast Hæstiréttur í þeim málum sem þeim dettur í hug.

Það færi vel á því að stjórendur Íslandsbanka færu að eins og blaðasalinn, sem seldi blöð sín fyrir utan stórbanka í Bandaríkjunum gerði þegar viðskiptavinur bankans kom út úr leigubíl og skorti reiðufé til að borga og bað blaðasalann um lítið lán sem yrði greitt aftur innan klukkustundar til að greiða leigubílnum. Þá sagði blaðasalinn. Við höfum sérstakt samkomulag okkar á milli ég og bankinn. Ég sel blöð sem ég kann og þeir lána peninga sem þeir kunna, en við ruglumst ekki inn í viðkstipti hvors annars. Íslandsbanki ætti að huga að því að sinna því sem þeir kunna en láta aðra um pólitík og skoðanamótun í þjóðfélaginu.  


Guð hvað þetta kemur á óvart

Þegar íslensk stjórnsýsla stendur sig ekki og fær falleinkun í hvaða máli sem er, þá er viðkvæðið jafnan, að þetta komi á óvart og slæma umsögnin eða einkuninn eigi ekki rétt á sér. Erlendu aðilarnir hafi ekki skilið að þetta vonda eigi alls ekki við okkur.

Alltaf er látið eins og hlutirnir detti hreinlega ofan í höfuðið á ráðamönnum og embættismönnum eins og þruma úr heiðskíru lofti. 

Síðasta tilbrigðið við þetta stef eru viðbrögð dómsmálaráðherra og annarra ráðamanna íslenskra vegna þess að við erum í fjármálalegri lausung og peningaþvætti í hópi með löndum eins og Zimbabwe og örfáum öðrum sem uppfylla ekki skilyrði um skilvikt eftirlit með peningaþvætti, eiturlyfjasölu og hryðjuverkum.

Skv. skýrslu FATF alþjóðlega starfshópsins um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka kemur í ljós, að athugasemdir við aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda í þessum efnum eru ekki nýjar af nálinni. Athugasemdirnar hafa legið fyrir frá árinu 2017 og jafnvel fyrr. Íslenskum stjórnvöldum var í febrúar 2018 gefinn kostur á að bæta úr stöðunni, sem hefur tekist að nokkru leyti, en þó skortir verulega á, þannig að Ísland er í hópi örfárra landa sem fær falleinkun FATF varðandi ónógt eftirlit með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. 

Þar sem Ísland var ekki sett á þennan ljóta lista fyrr en eftir að hafa átt möguleika á að bæta úr stöðunni en gerði ekki með fullnægjandi hætti, þá þýðir ekki fyrir stjórnvöld og ráðherra dómsmála að láta sem þetta sé bara eins og þetta sé allt í plati og komi fólki jafnmikið á óvart og þegar eplið datt á hausinn á Isaac Newton forðum. 

Eðlilegt er að almenningur leiti skýringa af þegar skýringar koma ekki frá stjórnvöldum. Ein skýring sem sett hefur verið fram er að hluti af vandanum stafi frá svonefndri gjaldeyrisleið Seðlabanka Íslands, sem þáverandi Seðlabankastjóri setti í gang með velvilja ríkisstjórna, en hún gekk út á það að fólk gat selt erlendan gjaldeyri og fengið 20% álag á gjaldeyrinn. Góður kostur það allt í einu varð milljónin að tólfhundruð þúsund og hagnaðurinn eftir því meiri sem meira var selt af erlendum gjaldeyri.

Ekki liggur fyrir hvort þeir sem vildu selja gjaldeyri skv. þessari leið þurftu að gefa viðhlítandi upplýsingar um uppruna erlenda gjaldeyrisins. Miðað við lýsingu eins stjórnanda Seðlabankans, sem nýtti sér þessa leið, en sú sat áður í Rannsóknarnefnd Alþingis, þá vissi hún aðpurð upphaflega ekki hvað hún hefði selt mikinn gjaldeyri eða hver uppruni hans var. 

Hverjir voru það sem nýttu sér þessa gróðavænlegu fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Ekki voru það þeir, sem hafa stritað alla sína ævi hér á landi og fengið greitt í íslenskum krónum.

En hverjir voru það? Það fæst ekki uppgefið. 

Getur verið að eigendur leynireikninga á Tortóla og í öðrum skattaskjólum hafi nýtt sér þennan fjárfestingakost. Getur verið að starfsmenn íslensku utanríkisþjónustunnar hafi nýtt sér þennan fjárfestingakost. Getur verið að Seðlabankinn hafi verið svo gírugur í að ná erlendum gjaldeyri inn í landið að ekki hafi í raun þurft að gefa neinar haldbærar skýringar á uppruna fjármunana.

Þess hefur verið krafist m.a. af þeim sem þetta ritar, að gefið verði upp hverjir nýttu sér þessa fjárfestingaleið og auðguðust með aðgerðum sem íslensku almúgafólki stóð ekki til boða. Nú hlítur krafan líka að vera að Seðlabankinn gefi ekki bara upp nöfn þeirra aðila sem nýttu sér þessa fjárfestingaleið, heldur líka hvaða skýringar ef þá nokkrar hafi verið gefnar á uppruna fjármagnsins.

Nauðsynlegt er að þessar upplýsingar verði gefnar. Ekki sérstaklega vegna þess að við skulum vera komin á svarta listann sem íslensk stjórnvöld segja gráan. Miklu frekar vegna þess, að þetta eru upplýsingar sem eiga erindi til almennings og skipta máli í lýðræðislegri umræðu. 


Neyðarástand og kynjakvóti bara fyrir konur

Samfylkingin er stórhuga flokkur, sem skortir ekki stefnumál eða úrræði eins og sést á samþykktum flokkstjórnarfundar flokksins,sem haldinn var um helgina. Raunar voru samþykktirnar fáar og smáaar í anda þess, sem Þórbergur Þórðarson kvað um á sínum tíma um Seltirninga.

Í fyrsta lagi lýsir Samfylkingin því yfir að það sé neyðarástand í loftslagsmálum og bregðast verði við því.

Í annan stað lýsir Samfylkingin yfir stuðningi við kröfur BSRB og fleiri aðila um styttingu vinnuvikunar.

Rúsínan í pylsuendanum er síðan samþykkt um að brjóta skuli gegn jafnrétti kynjanna, þannig að körlum skuli aldrei lyft upp um sæti heldur bara konum lendi þær undir körlum í prófkjörum, sem Samfylkingarfólki finnst að sjálfsögðu hin mesta skömm. 

Óneitanlega sérkennilegt hjá flokki,hvers alþingsfólk samþykkti einum rómi lög um kynferðislegt sjálfræði fólks,sem veitir fólki rétt til að ákveða kyn sitt eftir geðþótta nánast án takmarkanna hvorki tímatakmarkanna eða annarra takmarkanna. 

En þannig skal það vera, að jafnræði skal ekki vera á milli karla og kvenna. Óneitanlega dettur manni í hug að einhvern veginn hafi farið framhjá flokkstjórnarfulltrúum Samfylkingarinnar langvarandi barátta fyrir jafnstöðu kynjanna og mismunandi þjóðfélgshópa, sem að eftirfarandi lagaákvæði kveða ótvírætt á um. 

Í fyrsta lagi 65 gr. stjórnarskrárinnar

Í annan sað lög nr. 37/1993 stjórnskipunarlög

Í þriðja lagi Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnarfarsleg réttindi nr. 10/1979, 26.gr.

Í fjórða lagi 14.gr. laga um mannréttindassáttmála Evrópu sem og 14 gr. mannréttindasáttmálans. 

Raunar er spurning um hvort að svonefndir fléttulistar og ruglun frá vali kjósendas í prófkjörum stenst skoðun miðað við ofangreind lagaákvæði en það er engin spurning að nýgerð samþykkt flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar um mismunun kynjanna gerir það ekki.

Fróðlegt verður að vita hvort að Samfylkingin telur sig að einhverju leyti bundna af lögum landsins, en telji hún svo ekki vera þá er úti um að hægt sé að tala um Samfylkinguna sem lýðræðislegan jafnaðarmannaflokk.

 

 


Að bera sannleikanum vitni

Þeir sem hafa góðan málstað þurfa almennt ekki að grípa til lyginnar. Annað gegnir um þá sem hafa vondan málstað. 

Í 30 ár hefur stór hluti stjórnmálastéttarinnar og fréttaelítunar ásamt forustu og loftslagsráði Sameinuðu þjóðanna hamast við að segja að allt væri að fara í kalda kol á jörðu hér vegna loftslagshlýnunar af mannavöldum. Ítrekað hafa verið lögð fram hamfaratölvulíkön, sem eiga það sameiginlegt að þau reynast öll röng. Til að leggja sérstaka áherslu á þá vá sem væri fyrir dyrum greip forusta loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna til þess ráðs að falsa mælingar á jöklum í Himalaya fjallgarðinum, en þá komst upp um strákinn Tuma.

Þetta kom upp í hugann þegar blaðið the Economist sem almennt er talið nokkuð trúverðugt, birti þ.21.september frásögn af andláti "Okjökuls" Hugsanlega hefur blaðið fengið upplýsingar frá innlendum heimildarmönnum, en það réttlætir samt ekki rangfærslurnar.

Í greininni segir m.a.: "Hann var ekki minnsti jökullinn á svæðinu eða afskekktastur. Þú gast séð hann frá úthverfum Reykjavíkur höfuðborgar Íslands og á löngu svæði á hringvegi landsins"

Það sem er sérkennilegt við þessa frásögn að engin af staðhæfingunum er rétt. Ok var minnsti svokallaði jökull á svæðinu. Það er ekki hægt að sjá hann frá úthverfum Reykjavíkur eða nokkursstaðar frá höfuðborgarsvæðinu og hann sést ekki á löngu svæði á hringveginum. 

Hinsvegar greinir blaðið rétt frá því, að tveir Texasbúar hefðu gert heimildarmyndina "Not Ok" árið 2018 og það hefði dregið að rithöfunda, stjórnmálamenn og skólabörn til minningarathafnar um hinn látna jökul. Síðan hafi minningaskjöldur verið settur upp sem segi: "Til minningar um það sem mannkynið hefur gert."

Blaðið fékk greinilega ekki upplýsingar um það að Ok var í raun löngu dáinn og það fyrir tíma hinnar meintu hamfarahlýnunar af mannavöldum. Þá nefnir blaðið fjallið Ok, Okjökul, sem fjallið hefur almennt ekki kallað, en í frásögninni er það tilkomumeira. 

Í barnaskóla var mér kennt að varla væri hægt að kalla Ok jökul og hann væri að hverfa. Þetta var löngu fyrir meinta hlýnun af mannavöldum. Þegar ég gekk á fjallið þrisvar sinnum að sumri til árin 2010 til 2012 gat ég ekki merkt að þarna væri jökull frekar en að hægt sé að kalla skaflinn sem sjaldan hverfur úr Gunnlaugsskarði í Esjunni jökul.

Síðan segir blaðið rétt frá þessu: "Þrátt fyrir, að þetta hafi verið seinnipart sumars, þá var fólkið (sem var viðstatt útförina) klætt í úlpur og skíðahúfur og þurfti á því að halda í ísköldum vindinum.

Hamfarahlýnunin var nú ekki meiri og allt þetta tilstand í var sviðsetning til að fá auðtrúa fólk til að trúa því að hér væri birtingamynd hamfarahýnunar, sem við hér vitum að er ekki. En þannig er það með lygina og  sviðsetninguna á loftslagsleikritinu. 

Þó þessi frétt the Economist sé ónákvæm og röng, þá kemst hún þó ekki í hálfkvisti við furðugreinina sem birtist í Morgunblaðinu í gær eftir aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, fyrrum forseta heimssambands Sósíalista, Antonio Guterres, en þar má sjá allavega 7 staðreyndavillur og einn hálfsannleika og það í tæplega hálfsíðugrein. Ég veit ekki um neinn, sem hefur náð slíkum árangri fyrr í hálfsíðugrein í Mogganum. Það er hinsvegar ekkert nýtt að Guterres og sannleikurinn eigi ekki samleið.  


Svik á svik ofan í meira en 100 ár.

Í lok fyrri heimstyrjaldar árið 1918 lagði þáverandi Bandaríkjaforseti Woodrow Wilson fram nokkur grundvallaratriði, sem hann talaði um að væru ófrávíkjanleg varðandi friðarsamninga. Meðal þeirra var að tryggja þjóðum og þjóðarbrotum landa sem Bandamenn höfðu tekið sjálfstæði og þjóðernisleg viðurkenning. 

Heimsveldi Ottómana riðaði til falls. Bandamenn náðu yfirráðum á öllu landi frá Súesskurði til landamæra núverandi Tyrklands. Stærsta þjóðin á þessu svæði fyrir utan Araba voru Kúrdar. Miðað við tillögur Wilson áttu Kúrdar að fá yfirráð yfir eigin landi og sjálfstæði í nýju landi Kúrdistan. 

Samt fór svo að gömlu heimsveldin Frakkland og Bretland náðu sínu fram og ákváðu að skipta á milli sín því landi sem tekið var frá gamla Ottómanveldinu. Þeir teiknuðu upp landamæri að eigin geðþótta og komu  til valda stríðsherrum, sem voru þeim þóknanlegir. Kúrdar voru sviknir af Vesturlöndum og þeir dreifðust á milli Íran, Írak,Sýrland og Tyrklands í kjölfar friðarsamninganna.

Þetta voru fyrstu svik Vesturlanda við Kúrda. Þessi stolta þjóð þurfti enn einu sinni að sætta sig við að þeir áttu enga vini nema fjöllin, þar sem þeir gátu leynst fyrir vígasveitum óvinveittra stjórnvalda. 

Enn sviku Vesturlöndin Kúrda ítrekað og þau svik urðu síðan öllum augljós fyrir og í kjölfar Flóastríðsins sem háð var til að koma aftur til valda gjörspilltri furstafjölskyldu í Kúvæt. Saddam Hussein hefndi sín þá sem fyrr á Kúrdum vegna stuðnings þeirra við Vesturlönd og beitti hernum af öllu afli gegn þeim m.a. með ítrekuðum eiturvopnaárásum. Vesturlönd gerðu ekkert fyrr en að lokum að þeir bönnuðu flug herflugvéla Saddams Hussein yfir landsvæði Kúrda. Þá höfðu mörg þúsund þeirra fallið í valinn. 

Nú hafa Kúrdar um nokkurra ára skeið barist hetjulegri baráttu gegn vígaveitum ISIS. Nú síðast við hlið Bandaríkjamanna, þar sem Kúrdar hafa beitt mannafla, en Bandaríkjamenn lagt til nokkurn hóp hermanna og nýjustu og bestu vopnin sem völ hefur verið á. Kúrdar eru taldir hafa misst um ellefuþúsund hermenn og herkonur í þessum átökum á meðan mannfall annarra hefur verið mjög takmarkað. 

Á sama tíma sat Erdogan Tyrkjasoldán beggja megin borðsins í samskiptum við ÍSIS og vígamenn á leið til þeirra áttu greiða leið í gegnum Tyrkland og olíuviðskipti við ISIS liða voru arðvænleg fyrir Tyrki á sínum tíma.

Ef til vill muna einhverjir enn eftir Kúrdíska þorpinu Kobane, sem sveitir ÍSIS sátu um mánuðum saman, en þorpið er við landamæri Tyrklands. Tyrkir komu í veg fyrir að nokkur aðstoð bærist lengi vel og tálmuðu för herfólks Kúrda til að gæta þess að fólkið þeirra í Kobane yrði ekki drepið eða selt í þrældóm þessvegna kynlífsánauð.

Nú þegar fullnaðarsigur Kúrda með aðstoð Bandaríkjanna er í augsýn lætur Trump Bandaríkjaforseti undan kröfu Erdógans Tyrkjasoldáns um að hann megi ráðast á þessa bandamenn Bandaríkjanna þannig að enn á ný mundu Bandaríkjamenn og Vesturlönd svíkja þjóð, sem á rétt til sjálfstæðis, fullveldis.

Erdógan fer ekki leynt með það að hann ætli að ráðast á vopnabræður Bandaríkjanna í stríðinu við ÍSIS og Trump ákvað í gær að auðvelda honum leikinn með því að draga hersveitir sínar frá líklegum átakasvæðum. Hann hefur að vísu dregið nokkuð í land núna eftir hatrammar árásir m.a. eigin flokksmanna á þessar fólskulegu aðgerðir hans. Þessi afstaða Trump er ömurleg og eitthvað annað en búast hefði mátt við eftir réttmæta gagnrýni hans á forvera sinn Barrack Obama vegna aulagangs hans í baráttunni við ISIS. 

Fullnaðarsigur á ÍSIS er ekki í höfn og Bandaríkjamenn og Kúrdar eiga enn verk fyrir höndum. Þar til viðbótar eru á annan tug þúsunda vígamanna ÍSIS í haldi Kúrda, hvað verður um þá þegar Kúrdar eiga hendur sínar að verja fyrir Tyrkjum. 

Hvað gera svo hin aumu Evrópulönd í málinu. Koma þau Kúrudum til hjálpar í orði eða verki? Nei heldur betur ekki. Þau halda áfram aðildarviðræðum við Tyrki um aðild þeirra að Evrópusambandinu. Þeir borga þeim milljarða á milljarða Evrur ofan til að hann passi upp á það sem Evrópubúar eiga sjálfir að passa upp á, að svonefndir flóttamenn flæði ekki yfir landamæri Tyrklands inn í Evrópu. 

Evrópa gerði ekkert meðan vígamenn landa þeirra flyktust til liðs við ÍSIS og ríkisstjórnir í Evrópu horfðu upp á hvernig mannréttindi voru fótum troðin. Kirkjur voru brenndar og kristnum söfnuðum var eitt og ráðist var á Yasida og Kúrda. Fjöldamorð voru framin og konur seldar í kynlífsánauð þar sem almennir uppboðsmarkaðir á konum sem kynlífsþrælum voru haldnir á svæðum ÍSIS. Kristnir söfnuðir þjóðkirkna Vesturlanda höfðu enga döngun í sér til að krefjast verndar fyrir trúbræður sína hvað þá að sína þeim einhvern samhug. Þeim kom það ekki við vegna þess að kristnir söfnuðir Vesturlanda voru uppteknir við vinstri sinnaða félagslega boðun og höfðu hvorki tíma til að sinna heimatrúboði né til að gæta hagsmuna kristins fólks í heiminum. 

Nú standa þessir aumu leiðtogar Vesturveldanna frammi fyrir því að horfa upp á árás bandamanns síns Tyrkja á fólk sem á að hafa fengið frelsi og sjálfstæði fyrir löngu. Evrópuráðið mun halda áfram aðildarviðræðum við Tyrki og halda áfram að fylla í ríkiskassann til að halda þeim góðum af því að ráðamenn í vesturhluta Evrópu eru rofnir úr öllum tengslum við menningarlega og siðfræðilega hvað þá kristna arfleifð álfunnar. 

Trump veldur stuðningsmönnum sínum sem og mörgum öðrum algjörum vonbrigðum og sýnir með þeirri gjörð að svíkja bandamenn sína Kúrda, að honum er ekki treystandi. Kúrdarnir sem fögnuðu kjöri Trump eftir ömurlega stjórn Obama klóra sér nú í höfðinu og velta fyrir sér hvort Trump sé sama pissudúkkan og leiðtogar Vestur-Evrópu sem og Obama áður. 

Er virkilega ekkert eftir af siðrænni og kristilegri réttlætiskennd hjá þjóðum Evrópu og Bandaríkjanna og baráttuanda fyrir réttlæti, svo þær í eitt skipti fyrir öll klári það verk sem átti að klárast með friðarsamningunum fyrir einni öld. Þannig að Kúrdíska þjóðin fái sjálfstæði í eigin fullvalda ríki og tryggingu fyrir því að ríki þeirra muni njóta verndar gagnvart árásargjörnum nágrönnum.


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 114
  • Sl. sólarhring: 1290
  • Sl. viku: 5256
  • Frá upphafi: 2469640

Annað

  • Innlit í dag: 104
  • Innlit sl. viku: 4812
  • Gestir í dag: 104
  • IP-tölur í dag: 104

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband