Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2020

Hræðslan við að taka ákvörðun

Hræðsla stjórnmálamanna við að taka ákvörðun og stjórna er víða einkennandi og á raunar við fleiri forustumenn í þjóðfélaginu. 

Hvað veldur og hvernig gerðist þetta?

Sérfræðivaldið hefur tekið yfir og stjórnmálamenn taka almennt ekki ákvarðanir nema geta varið þær með því að benda á niðurstöðu sérfræðinga. Í Kóvíd fárinu hafa sóttvarnarlæknir og Kári Stefánsson ráðið stefnunni í sóttvarnarmálum og ríkisstjórnin dansað eins og þeir lögðu til.

Nýfallinn dómur mannréttindadómstóls Evrópu felur í sér að veitingavald á dómarastöðum sé ekki hjá ráðherra og Alþingi, ef ekki er leikið eftir þeim takti sem sérfræðingarnir lögðu til. Ráðherrar framtíðarinnar verða því varkárari en ella og líklegir til að láta sérfræðina ráða meiru og segja sig frá raunverulegri ákvarðanatöku. 

Upplýsingalög valda því að stjórnsýsla og stjórnmálamenn þurfa að opinbera nánast allt, sem skrifað hefur verið niður. Afleiðingin af því er að það þorir enginn að skrifa neitt niður nema það sem allir mega sjá og helst ekkert um ákvarðanir nema það sé gjörsamlega skothelt.

Við erum að breytast í að vera þjóðfélag þar sem þjóðfélagsvaldið liggur ekki hjá kjörnum fulltrúum, en hefur færst til sérfærðinga og dómstóla. 

Hræðslan við minnihlutahópa og þá sem eru taldir hafa lögmætar heimildir til að móðgast út af hvaða lítilræði sem er, eykur enn á vanmátt stjórnmála- og forustumanna. Stjórnandinn lítur svo á, að það sé mikilvægara að hafa hávaðahópinn góðan frekar en þann breiða meirihluta sem taka á ákvarðanir fyrir.

Svo virðist því sem að ákveðin valdaskipti hafi átt sér stað. Fólkið sem fær borgað fyrir að stjórna sem stjórnmálafólk þorir það ekki og hefur stundum ekki vald til þess. Hávaðahópar taka við stjórninni og ríkisstjórn hrekst undan þeim.

Íslenska þjóðin hefur iðulega dásamað vanþekkingu hjá stjórnmálamönnum sem dyggð. Staðreyndin er samt sú, að þeim mun minni þekkingu sem stjórnmálamaður hefur á samfélagsmálum,  þeim mun minni möguleika á hann til að vinna góða vinnu fyrir þjóðina og hann er ofurseldari sérfræðivaldinu og hávaðahópum en ella. 

Við þurfum því að spyrja hver á að stjórna Íslandi og hvað er til ráða þegar stjórnmálaflokkarnir eru nánast hugmynda- og hugsjónalausir eins og sést vel á áramótahugvekjum forustumanna þeirra í dagblöðum dagsins. Þær hugvekjur eru einsleitar að nánast öllu leyti með einni undantekningu.

Ein leið er að virka fólkið í landinu með því að koma á beinu lýðræði í auknum mæli. 

En það eitt dugar ekki til. Það er því mikilvægt og heillandi viðfangsefni framtíðarstjórnmálamanna á kosningaári að setja fram hugmyndir til að breyta óstjórnarþjóðfélaginu, sem hefur leitt til aukinnar ríkishyggju og undanlátssemi á öllum sviðum í stjórnhæft kerfi þar sem unnið er fyrir hagsmuni heildarinnar í stað sérhagsmuna.


I don´t speak Icelandic

Góðan daginn sagði ég við afgreiðslumanninn. Sá tók ekki undir kveðjuna og þegar ég falaði ákveðinn hlut til kaups, sagðist hann ekki tala íslensku, þannig að ég varð að endurtaka kauptilboðið á ensku. 

Enginn kippir sér upp við það lengur, þó fólk í þjónustustörfum á Íslandi tali ekki íslensku. Viðskiptamálið enskan er óðum að taka yfir í samskiptum fólks. Þeir sem ekki kunna góð skil á enskri tungu lenda iðulega í vandræðum. 

Íslenskan lifir góðu lífi meðal þjóðarinnar vegna þess, sem vel var gert á árum áður. Nú hallar hinsvegar verulega undan fæti. Við höfum því miður ekki sýnt þann þjóðlega metnað að gera kröfu til þess, að þeir sem sinna þjónustustarfsemi á Íslandi fyrir Íslendinga tali íslensku. Af hverju ekki? Er okkur ekki annt um að íslenskan fái að dafna og vera áfram lifandi mál á Íslandi?

Án tungumálsins fjarar undan íslenskri menningu og íslenskri þjóðarvitund. Það skiptir því máli, að við gerum sjálfsagðar kröfur til þess að neytendur eigi undantekningarlítið rétt á því að þjónustuaðilar tali íslensku.

Löggjafinn getur gert ráðstafanir í þessu sambandi og ætti að hafa þjóðlegan metnað til að gera það. 

 


Hvenær brýtur maður lög og hvenær brýtur maður ekki lög?

Sagt er að sá mikli heimspekingur, flakkari og listamaður Sölvi Helgason hafi eitt sinn reiknað tvíbura í afríkanska konu og hafi annar verið ljós á hörund en hinn hörundsdökkur. 

Svipaðir útreikningar eru nú á sveimi mismunandi áreiðanlegir eins og gengur. Rekstraraðilar Ásmundasalar hafa komist að þeirri niðurstöðu 5 dögum eftir að lögregla stöðvaði samkvæmi í salnum á Þorláksmessu, að það hafi ekki verið um nein brot á sóttvarnarlögum að ræða. Afsökunarbeiðni þeirra var því röng og þar af leiðandi aðgerðir lögreglu fráleitar og óafsakanlegar.

Fjármálaráðherra var þar af leiðandi að biðjast afsökunar á broti, sem enginn möguleiki var skv. því að hefði verið framið. Raunar hefur þeim sem skrifað hafa um það mál yfirsést, að það var ekki hlutverk fjármálaráðherra að sjá um sóttvarnir í Ásmundarsal og á þeim bar hann ekki ábyrgð. Þá mundi einhver vafalaust segja: "og þó.

Á sama tíma berast fregnir af því að sjálfur sóttvarnarlæknir og heilbrigðisráðherra hafi brotið eigin reglur og tilmæli við móttöku á heilfrystu bóluefni í morgun og sjáist það glögglega á ljósmynd, sem tekin var af því tilefni. 

Hvorki heilbrigðisráðherra né sóttvarnarlæknir hafa beðist afsökunar og geta vafalaust sagt eins og frambjóðandi Framsóknarflokksins á Vestfjörðum sagði forðum þegar deilt var um útlit stórhýsis sem verið var að byggja í Reykjavík og andstæðingur hans frambjóðandi Sjáflstæðisflokksins brá þá upp ljósmynd af byggingunni. Þá varð Framsóknarmanninum að orði: "Lygi er lygi jafnvel þó hún sé á ljósmynd". Þannig gæti sóttvarnalæknir einnig farið að en Guðni vinur minn Ágústsson fullyrðir að í honum séu rótföst Framsóknargen sem stuðlaberg í marga ættliði.

Vandi þjóðarinnar er því ekki minni en hann var þegar Jón Hreggviðsson viðhafði hin frægu ummæli: "Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Fari í helvíti sem ég drap mann. Og þó."


Blessaði bóluefnið

Sjá ég boða ykkur mikinn fögnuð, yður er í dag frelsari fæddur,  sagði engillinn við fjárhirða á Betlehemsvöllum fyrir rúmum 2000 árum.

Í dag eru það ekki englar heldur ljósvakamiðlar sem hafa verið ótrauðir við að boða þann hinn mikla fögnuð, að bóluefni gegn Covid væri á leiðinni. Frá því kl. 7 í morgun hefur verið hægt að fylgjast með því hvar bóluefnið væri statt allt frá Amsterdam til lendingar á Keflavíkurflugvelli, þar sem bóluefninu var ákaft fagnað.

Fréttirnar af komu bóluefnisins hafa verið ítarlegri og æsilegri en við komu þjóðhöfðingja. Á móti þjóðhöfðingjanum er tekið og ekið með hann á Bessastaði. Bóluefnið fær líka konunglegar móttökur og ekið með það í móttökufyrirtæki í sama sveitarfélagi. Síðan hefst samfelld hátíðadagskrá þar sem veirutríóið og nokkrir ráðherrar sjá um að halda uppi fagnaðinum og fjörinu. 

Mikið er það nú gott að geta búið við samfellda gleði alla jólahátíðina í þeirri trú að þarna hafi endurlausnin verið fram borin fyrir hnípna þjóð í vanda, þar sem bóluefni fyrir rúmlega 1% þjóðarinnar er hér með komið til landsins.

Sjálfsagt verður ríkisstjórnin í hópi þeirra sem fyrst verða bólusettir. Slíkt verður kærkomið einkum fyrir þá ráðherra sem treysta sér ekki til að hlíta þeim reglum, sem þeir setja fyrir almenning í landinu. 


Sigurvegarar ársins

Forseti Evrópusambandsins, Úrsúla Geirþrúður frá Leyen og Boris Jónsson geta bæði fagnað sigri fyrir það að viðskiptasamningur Breta og Evrópusambandsins sé svo gott sem í höfn. Samningar sigldu ítrekað í strand, en þau Úrsúla og Boris gerðu sitt til að samninganefndirnar settust aftur og aftur við samningaborðið og hlutuðust til um atriði, sem réðu því að samningar náðust. 

Boris og Úrsúla eru ótvíræðir sigurvegarar ársins 2020.

Þar með er lokið margra ára þrautagöngu Breta við að komast þokkalega heilu og höldnu út úr Evrópusambandinu. Vonandi verður samningurinn báðum aðilum til góðs. Eitt er víst, að hefðu samningar milli Evrópusambandsins og Breta ekki náðst, hefðu báðir aðilar liðið fyrir það og mikil verðmæti tapast. 

Sennilega var það rétt hjá hinum skarpskyggna De Gaulle hershöfðingja og fyrrum Frakklandsforseta, að Bretar áttu ekki heima í Evrópusambandinu. Auk þess sá hann, að með aðild þeirra væri hætta á að öxullinn, sem öllu réði þá Þýskaland/Frakkland yrði þá ekki lengur einráður, en svo fór hinsvegar ekki. Fyrir vikið voru breskir hagsmunir hliðsettir oft á tíðum með þeim afleiðingum sem nú eru orðnar. 

Það eru mikil tíðindi, að Bretar sem hafa verið mestu áhrifavaldir á Evrópska þróun frá því á 18.öld fram yfir síðari heimstyrjöld, skuli nú vera utanveltu og algjörlega áhrifalausir. Þeir geta ekki lengur att Evrópuþjóðum í stríð hvort gegn öðru, hlutast til um málamiðlanir eða ógnað Evrópuþjóðum til að sitja og standa eins og þeir vilja, sem þeir hafa gert um aldir. 

Bretar sömdu um að deila fiskimiðum sínum að verulegu leyti með Evrópusambandinu. Um annað gátu þeir ekki samið. Athyglisvert hvað Evrópusambandið sótti það fast að njóta sem víðtækustu réttinda til fiskveiða í breskri lögsögu og vildu í lengstu lög ekki gefa neitt eftir. 

Þessi staðreynd ættu að sýna okkur Íslendingum, að aðild að Evrópusambandinu kemur, því miður eða sem betur fer, ekki til greina. Það er sá pólitíski veruleiki, sem íslenskir stjórnmálamenn ættu að gera sér grein fyrir. 


Hvað verður nú til varnar vorum sóma?

Fyrir nokkru hafði lögreglan afskipti af mótmælafundi fólks, sem taldi sóttvarnaryfirvöld og ríkisstjórn ganga of langt. Sagt var, að ákæra yrði þá sem að þessu höfðu staðið þ.á.m. lækni, sem nýverið var svipt starfi sínu vegna skoðana sinna. 

Á Þorláksmessu hafði lögreglan afskipti af partíi ríka fína fólksins í Ásmundarsal í Reykjavík. Ráðherra sem hafði sett reglur sem bannaði slíkt samkomuhald, tók þátt í partíinu, sennilega á forsendunni sem orðuð var í rómverska orðtakin: Quod licet Jovi non licet bovi" (í frjálslegri þýðingu: Það sem guðunum leyfist leyfist ekki skóflupakkinu)

Laust eftir miðnætti á jólanótt hafði lögreglan síðan afskipti af messu í Landakotskirkju, en þeir í kaþólska söfnuðinum eru ekki eins værukærir og Lútherskir kollegar þeirra. 

Hvað gerir nú ákæruvaldið? Verða mótmælendurnir, sem draga í efa gildi sóttvarnarreglnanna ákærðir?  Verður ráðherrann og hitt ríka fína fólkið ákært? Verða kirkjugestir og forstöðumenn kaþólskra safnaðarins ákært? 

Málsvörn mótmælendanna er til staðar, þeir fylgdu sannfæringu sinni. Málsvörn kaþólsku kirkjunnar er líka til staðar, trúfrelsisákvæði stjórnarskrár og mörk þess og alsherjarreglu. 

En hver er þá málsvörn ráðherrans og hins ríka og fína fólksins? Þau voru vísvitandi að brjóta reglur og hætt er við að málsvörn aðila sem stendur að því að setja reglur og brjóti þær svo, verði harla haldlítil. Svo er spurningin sem þjóðin þarf að svara hvort það skipti yfirhöfuð einhverju máli.


Covid, kirkjan og jólin

Jólaguðþjónustur opnar almenningi verða ekki í kirkjum um jólin vegna Covid sóttvarna. 

Fyrir margt kristið fólk skiptir máli að fara í kirkju um jólin Í sumum tilvikum er það mikilvægasti hluti jólahátíðarinnar. 

Sumir prestar auglýsa að þeir muni mæta í tóma kirkju og senda guðþjónustu út á netinu. En af hverju má ekki opna kirkjuna á sömu forsendum og með sömu varúðarreglum m.a. fjöldatakmörkunum og viðhafðar eru í stórmörkuðum eða á sundstöðum? 

Í Danmörku mega kirkjur vera opnar um jólin og það er undir sóknunum sjálfum komið til hvaða ráðstafana þær grípa. Þar í landi eru smit nú mun meiri en hér og gripið hefur verið til harðra ráðstafana af hálfu sóttvarnaryfirvalda, sem telja þó að smithætta sé svo lítil í kirkjum, að sjálfsagt sé, að heimila fólki að sækja messur með ákveðnum takmörkunum þó.

Ég veit ekki til þess, að prestar hafi sótt um undanþágu til að halda messur opnar almenningi um jólin. Hafi þeir og biskupar ekki gert það,þá sýnir það því miður lítinn trúarlegan áhuga og skort á trúarlegri sannfæringu.   


Neyðarástand

Aðalritari Sameinuðu Þjóðanna,öfgasósíalistinn Antonio Guterres krefst þess að þjóðir heims lýsi yfir neyðarástandi vegna meintrar hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum. Jafnframt gagnrýnir hann "ríku" þjóðirnar, sem á hans tungumáli er gamla Vestur Evrópa og norður-Ameríka fyrir aðgerðarleysi í loftslagsmálum. Skynsemin og yfirlýsingar þessa aðalritara SÞ fara sjaldnast saman. 

En það er ekkert neyðarástand í loftslagsmálum. Ítrekað hefur verið sýnt fram á það með samanburði á hitamælingum hér á landi, að hlýnun er ekkert sérstök miðað við það sem áður hefur gerst og ástandið er ekkert slæmt síður en svo.  

Sósíalistinn Guterres hefur haft þau helstu baráttumál, að Evrópa taki við óendanlegum fjölda af svonefndum hælisleitendum og flóttafólki. En hann gerir enga kröfu á hendur öðrum ríkjum eða heimshlutum t.d. Saudi Arabíu, Kína, Japan og fleiri löndum sem taka ekki á móti neinu svonefndu flóttafólki. Af hverju skyldi hann ekki gera kröfur á hendur þeim ríkjum?

Krafa hans í loftslagsmálum beinist eingöngu að Vestur Evrópu og Bandaríkjunum, þrátt fyrir að þeir sem eru helstu sökudólgarnir skv. þessum trúarbrögðum eru Kína og Indland, sem og flestar aðrar þjóðir Asíu þar sem kolefnissporið er að aukast á meðan Vesturlönd fórna hagsmunum verkafólks síns og neytenda í stórum stíl á altari þessrar hjátrúar og samþykkja aukna kolefnsilosun þessara ríkja fram til 2030.

Hvað skyldi Guterres ganga til með því að gera endalausar kröfur á hendur Vestur Evrópu varðandi þessi tvö helstu áhugamál sín? Þessi barátta hans er til þess fallin, að draga efnahagslegan mátt úr Evrópu og Bandaríkjunum og veikja menningu þeirra. 

Kína sækir fram og ætlar sér að verða öflugasta stórveldið bæði á hernaðar- og viðskiptavsiðinu. Stjórnmálamenn í Vestur Evrópu hafa verið svo skyni skroppnir að þeir hafa lagt allt á sig til að hjálpa þeim að ná þessari yfirburðastöðu. Það sást heldur betur á síðasta leiðtogafundi Evrópusambandsleiðtoga hversu skyni skroppið þetta fólk er og tilbúið til að fórna eigin hagsmunum til að Kína og ýmsar aðrar þjóðir nái yfirburðarstöðu, en Evrópa veikist. 

Atonio Guterres náði þeim árangri sem forsætisráðherra Portúgal að koma landinu í alvarlega kreppu og kjósendur þar í landi höfnuðu honum í byrjun þessarar aldar. Þá tóku heimssamtök sósíalista sig til og komu því til leiðar að þessi foringi þeirra sem hafði hatast út í samkynhneigða, yrði aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Spor þessa manns hræða og hann hefur ekki hikað við að reyna að breiða yfir og afsaka falsanir loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna, sem mælir stöðugt hækkandi hita á jörðinni með því að setja upp hitamæla þar sem heitast er og forðast með því að bera saman raunveruleikan og það sem þetta fólk vill að hafi gerst. 

Það er dapurlegt, að það skuli ekki vera forusta í Evrópu til að taka á bulli eins og kemur frá Antonío Guterres og standa vörð um hagsmuni evrópsks verkafólks og neytenda. Vonandi tekst Guterres ekki að eyðileggja efnahag Evrópu með sama hætti og honum tókst að gera gagnvart efnahag Portúgal meðan hann var forsætisráðherra þar í landi. 

 


Gargandi minnihluti

Vinstri grænir vilja breyta helmingi landsins í þjóðgarð. Með því aukast völd og áhrif ríkisins þá sérstaklega umhverfisráðuneytisins um málefni þessa helmings landsins. 

Engin sérstök þörf er að gera allt miðbik landsins að þjóðgarði. Samt sem áður skal það knúið fram vegna miðstjórnaráráttu  og ríkishyggju vinstri grænna.

Steingrímur J. Sigfússon hefur verið þingmaður Vinstri grænna frá upphafi. Meginhluta síns þingmannsferils hefur hann staðið á öskrinu í ræðustól Alþingis sem gargandi minnihluti. Í ræðu um þjóðgarðsmálið sagði hann,að gargandi minnihluti eigi ekki neinn rétt til að þvælast fyrir þeim hugumstóru ríkishyggjuáformum, sem Vinstri grænir vilja ná fram.

Með þessari framsetningu gerir Steingrímur J. athugasemd við rétt minnihluta til að hafa skoðun og halda henni fram.

Ólíkir eru þeir Steingrímur J. sem vill meina minnihluta um lýðræðisleg réttindi þegar hann telur sig vera  í meirihluta og sá merki lögfræðingur og stjórnmálamaður dr. Gunnar Thoroddsen, sem oftast var í meirihluta á sínum stjórnmálaferli.

Gunnar  talaði ítrekað um réttindi minnihluta og mikilvægi þess að minnihlutinn léti í sér heyra. Forsenda lýðræðis,væri að menn létu skoðanir sínar í ljósi. Af því tilefni sagði dr. Gunnar eitt sinn:

"Við skulum ekki gleyma því, að minnihlutinn í dag getur orðið meirihluti á morgun."

Þannig er það í lýðræðisþjóðfélagi og þannig á það að vera og það er vonum seinna að forseti elsta þjóðþings Evrópu átti sig á að hann starfar í lýðræðisríki en ekki Hvíta Rússlandi þar sem skoðanabræður hans hanga enn á völdunum og neita að hlusta á það sem þeir kalla gargandi minnihluta. 


Landakot og aðrir valkostir. Hvers er ábyrgðin?

Niðurstaðan úr könnun Landsspítalans á orsökum hópsmitsins á Landakoti, alvarlegasta hópsmitsins í Cóvíd faraldrinum, var sú að húsnæðið hefði verið ófullnægjandi. Sóttvarnarlæknir sagði af því tilefni, að það hefði öllum verið ljóst í töluverðan tíma. Fleiri tóku undir það.  

Nú liggur fyrir að aðrir kostir voru í boði, sem hefðu gert mögulegt að koma í veg fyrir þetta. En það var hjá einkaaðilum, sem heilbrigðistráðherra vill helst ekki eiga samskipti við.

Ekkert gert og ófullkomna hættulega húsnæðið var notað áfram. 

Ber engin ábyrgð á þessu? Vitað var að húsnæðið á Landakoti var ábótavant en tiltækir kostir til að bæta úr því voru ekki nýttir. Þarf enginn að axla ábyrgð vegna atviks sem leiddi til þess að meira en tugur einstaklinga lét lífið? 

Nú er verið að sækja tvo einstaklinga til saka skv. ákæru Héraðssaksóknara fyrir manndráp af gáleysi vegna slyss sem varð í fyrirtæki þeirra. Gildir eitthvað annað um þá opinberu aðila, sem með ákvörðunum sínum eða ákvarðanaleysi verða valdir að ótímabærum dauðsföllum?   


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 172
  • Sl. sólarhring: 832
  • Sl. viku: 3993
  • Frá upphafi: 2427793

Annað

  • Innlit í dag: 160
  • Innlit sl. viku: 3696
  • Gestir í dag: 159
  • IP-tölur í dag: 157

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband