Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2020

Stendur Evrópa með sjálfri sér?

Erdogan Tyrkjaforseti hefur hótað því að ný og hatrammari bylgja hælisleitenda muni skella á Evrópu en nokkru sinni fyrr, af því að Evrópa hefur ekki lýst yfir afdráttarlausm stuðningi við áframhaldandi stríðsrekstur hans og Al Kaída félaga hans í Sýrlandi. 

Hvað ætlar Evrópa að gera í því? Láta það yfir sig ganga? Eða gera það rétta í stöðunni að loka öllum landamærum að Tyrklandi og flytja þá hælisleitendur sem þaðan koma aftur til baka án nokkurrar undantekningar. 

Hvað svo. Af hverju hættir Evrópa ekki strax í dag að senda Tyrkjum tugi og hundruð milljarða Evra á ári. 

Ef Evrópa vill vera einhvers virði, þá lætur hún ekki undansláttarstefnu Merkelismann ganga lengur yfir sig og svarar ofbeldi Tyrkja með viðeigandi hætti. 

Við eigum enga samstöðu með þjóð, sem berst við hlið og/eða fyrir hagsmunum Al Kaída,Al Nusra og ISIS.


"Vinir okkar" Tyrkir og NATO

Tyrkir hafa haldið úti vígasveitum í Sýrlandi frá því að svokölluð borgarastyrjöld hófst þar í landi. Tyrkir hafa leynt og ljóst stutt ýmsa harðsvíruðustu hópa Íslamista og leyft liðsmönnum ISIS, Al Kaída, Al Nusra ásamt öðrum álíka svívirðilegum glæpasamtökum Íslamista frjálsa för og vöruflutninga um Tyrkland. 

Tyrkland hefur oftar en ekki farið með hernaði inn fyrir landamærin á Sýrlandi og lagt undir sig stór landssvæði í Sýrlandi, sem er ekkert annað en árás á frjálst og fullvalda ríki. Atlantshafsbandalagið hefur ekkert haft um þessi brot Tyrkja skv. alþjóðalögum að segja. Sama er um Bandaríkin og Evrópusambandið sem setja viðskiptabann á Rússa fyrir að innlima Krím á nýjan leik í Rússland, þar sem meirihlutinn eru Rússar, en lýsa velþóknun á árásum og landvinningum Tyrkja í Sýrlandi. 

Nú er svo komið að sýrlenski stjórnarherinn sækir að síðasta vígi öfgaíslamistanna í Sýrlandi, en þá koma Tyrkir þeim til hjálpar einu sinni sem oftar, en nú með virkum hætti. Ljóst var að þegar Tyrkir tóku þá afstöðu og berjast við hlið Al Nusra, Al Kaída og ÍSIS liðum í Ídlib, að það mundi koma til átaka við Sýrlenska stjórnarherinn. Það gerðist í gær. 

Þá veinar Erdogan Tyrkjasoldán eins og stunginn grís og heimtar fund í fastaráði Atlantshafsbandalagsins (NATO) og í dag komu utanríkisráðherrar allra 29 aðildarríkja NATO saman á fund í Brussel borg og lýstu yfir eindreginni samstöðu með Tyrkjum og framkvæmdastjórinn lofaði þeim hernaðarstuðningi. 

Hernaðarstuðningi við hvað? Hernaðarstuðningi við að leggja undir sig fleiri landssvæði í Sýrlandi. Hernaðarstuðningi við að aðstoða Al Kaída, Al Nusra og ÍSIS við að halda síðasta landssvæðinu í Sýrlandi. Hvernig er hægt að réttlæta það að utanríkisráðherra Íslands og annarra NATO ríkja skuli lýsa yfir stuðningi við afskipti Tyrkja af Sýrlandi, sem eru brot á samskiptum þjóða skv. alþjóðalögum. 

Óhætt er að reikna með að mál eins og það að lýsa yfir stuðningi við landvinningastríð Tyrkja og samstöðu þeirra með ÍSIS, Al Kaída, Al Nusra og álíka fyrirlitlegum glæpasamtökum hafi verið rætt í ríkisstjórninni, en utanríkisráðherrann hafi ekki einn tekið ákvörðun um að samþykkja afdráttarlausan stuðning við landvinningastríð Tyrkja, mannréttindabrot þeirra og brot á alþjóðalögum. 

Hvenær misstu bandalagsþjóðir NATO eiginlega jarðtengingu við hagsmuni sýna og heilbrigða skynsemi.

Já og hvernig samrýmist það stefnu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna að lýsa yfir algerri samstöðu með ofbeldislandi eins og Tyrkjum þegar þeir leitast við í lengstu lög að tryggja að samtök sem hafa staðið fyrir að hneppa fólk í ánauð, kynlífsþrælkun hryðjuverk og þjóðarmorð haldi tökum á landssvæði í Sýrlandi, fyrir utan þau mannréttindabrot, sem stjórn Erdogan stendur fyrir á heimavelli.

Síðast en ekki síst þá er Gulli utanríkisráðherra og NATO, að lýsa yfir stuðningi við að Tyrkir geri árás á frjálsa og fullvalda þjóð.

Forsætisráðherra bliknar hvorki né blánar yfir þessu, ekki frekar en aðrar stríðshetjur í ríkisstjórninni, sem ætla nú að leggja Tyrkjum hernaðarlega lið við að koma í veg fyrir að frálst og fullvalda ríki geti gengið milli bols og höfuðs á öfgasamtökum og glæpamannasamtökum Íslamista í landi sínu, þar sem meginhluti stríðsmannanna eru erlendir vígamenn eða málaliðar Tyrkja. 

Rétt er að spyrja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hvort þetta sé virkilega sæmandi ríkisstjórn Íslands?


Slæmar fréttir frá Tenerife

Sú frétt, að ferðamaður á Tenerife sé smitaður af Kórónaveirunni er eitt það versta sem gat komið fyrir. Tenerife er ferðamannaeyja, þar sem ferðamenn dveljast venjulega ekki lengur en 2-3 vikur. 

Enginn veit hverja sá smitaði umgengst, en hann er á hóteli þar sem um tugur Íslendinga er og hótel sem eru vinsæl af Íslendingum eru í næsta nágrenni. Vinur minn sem ætlaði til Tenerife í morgun, hætti við þegar hann fékk fréttirnar, en hótelið hans er einmitt næsta hótel við það, þar sem fólk er nú í einangrun.

Fólk hefur verið að koma frá Tenerife og mun koma þar sem engar takmarkanir eru á ferðum fólks. Það er því brýn ástæða til að við tökum hættuna alvarlega og gerum strax ráðstafanir til að fræða fólk um það hvernig má draga úr líkum á að smitast og koma fyrir handspritti sem víðast til að fólk geti hreinsað hendur eftir að hafa snert fólk og hluti sem eru útsettir fyrir smit. 

Hætta  á að Kórónaveiran verði greind og dreifi sér á Íslandi er nú raunveruleg. Því miður og þá er allur varinn góður. 


Stefán

Ég var á niðurleið, eftir að hafa gengið á Þverfellshorn á Esjunni um hávetur. Þegar ég var kominn örskammt niður fyrir Stein gerðist veður afar válynt. Þegar ég fetaði mig áfram í sortanum með fullri aðgát, komu í huga mér orð bandaríska þingmannsins, þjóðernissinnans og frelsishetjunnar Davy Crocket, sem hafði fyrir einkunarorð "Vertu öruggur um leiðina og haltu síðan áfram" 

Þá kom allt í einu maður út úr sortanum, upp að mér og sagði, ég veit að þú ert vanur hér í fjallinu má ég ekki fylgjast með þér niður. Jú sagði ég það er öruggara fyrir okkur báða og miklu skemmtilegra.

Við fylgdumst síðan að niður fjallið. Þegar við vorum komnir það neðarlega, að við tóku göngustígar, sem náðu ekki hátt á þeim tíma, var meira skrafað. Ekki þurfti lengur að gæta sín við hvert fótmál. 

Félagi minn talaði um fólk, sem gekki reglulega á Esuna á þeim tíma og kannaðist ég við alla, sem hann talaði um, þangað til hann sagði, þú hlítur þá að þekkja hann Stefán. Stefán, hváði ég Stefán hvað. Ég veit ekki hvers son hann er sagði maðurinn, en ég veit að hann er verkfræðingur og er með verkfræðistofu í Skeifunni 19. Skeifunni 19, hváði ég. Ertu viss um það. Já var svarað. Þá hlít ég að þekkja hann sagði ég. Ég er með lögmannsstofu í Skeifunni 19. 

Það sem eftir lifði helgarinnar velti ég því fyrir mér hver þessi Stefán gæti verið sem gengi ótt og títt á Esjuna og væri með skrifstofu í sama húsi og ég. Engin mynd kom upp í hugann. 

Þegar ég kom til vinnu á mánudeginum skoðaði ég töfluna í anddyrinu, þar sem getið var um öll fyrirtæki og einstaklinga, sem væru í húsinu. Þar sá ég mér til undrunar, að verkfræðistofa Stefáns var á fjórðu hæð. Sömu hæð og lögmannsstofan. Aðrir voru ekki á þeirri hæð. 

Ég fór í heimsókn á skrifstofu Stefáns þegar leið að hádegi en hann var ekki við. Ég reyndi aftur nokkru síðar og þá hitti ég Stefán. Mér til mikillar undrunar, sá ég að ég hafði aldrei séð þennan mann fyrr. 

Við vorum búnir að vera með skrifstofur á efstu hæð í Skeifunni 19 í nokkurn tíma og höfðum aldrei hist. Ég sagði honum, að ég hefði viljað heilsa upp á hann þar sem að mér hefði verið sagt að hann gengi reglulega á Esjuna eins og ég, en mér fyndist skrýtið að ég hefði aldrei séð hann áður þar sem við hefðum sameiginlegt áhugamál og værum með skrifstofu á sömu hæð í húsinu. Hann svaraði nokkuð þurrlega, að sér fyndist það líka skrýtið, hann hefði aldrei orðið var við mig hvorki í húsinu né á Esjunni. Stefán sagði. Ég veit hinsvegar hver þú ert af því að ég hef lesið ýmislegt sem þú skrifar misjafnlega gáfulegt. Við höfum sjálfsagt aldrei hist hér af því að ég tek alltaf stigann. Það geri ég líka sagði ég. 

Nú brá svo skringilega við, eftir þetta stutta samtal okkar Stefáns, að við hittumst nánast daglega í húsinu. Iðulega annar á leið upp stigann þegar hinn var á niðurleið. Eftir þetta fór ég nánast aldrei á Esjuna nema hitta Stefán. Kynni okkar urðu því töluverð. Stefán stormaði stundum inn á skrifstofuna mína, ef hann var ekki sammála því sem ég skrifaði og við ræddum málinu í bróðerni. Stefán var afburðamaður, skoðana- og rökfastur, þannig að það var gott að eiga viðræður við hann, líka þegar við vorum ósammála. Viðræður við slíka menn dýpka skilning manns og leiða til þess að maður sér á stundum,að þeir hafa rétt fyrir sér og víkur þá frá villu síns vegar eða þá hitt, að maður heldur við sitt og þarf þá að rökfæra það betur. Hvoru tveggja af hinu góða.

Ég sagði við konuna mína þegar við fórum í okkar fyrstu Esjugöngu upp á Þverfellshorn, að við hlytum að hitta Stefán á leiðinni annað hvort á uppleið eða niðurleið. Hver er Stefán spurði hún og ég sagði henni söguna og ég hitti hann nánast alltaf þegar ég færi á fjallið eftir að við kynntumst. Það leið raunar ekki á löngu þangað til við hittum Stefán og það urðu fagnaðarfundir.  

Síðast þegar ég hitti Stefán í Esjuhlíðum, sagðist hann vera orðinn ósköp lélegur, en  hann ætlaði að ganga á Esjuna svo lengi sem hann gæti. Ég sagði að ég gæti ekki merkt það, hvorki með því að horfa á hann, fasi hans eða hreyfingum, að hann væri orðinn lélgur og sagði Stefán þá að hann tjaldaði að sjálfsögðu öllu sínu besta þegar aðrir sæju til.

Mér hefur alltaf fundist furðulegt að við Stefán skyldum vera jafn nálægt hvor öðrum í jafn langan tíma og um var að ræða, en hittast aldrei fyrr en fyrir tilverknað utanaðkomandi manns, að ég kynnti mig fyrir honum og síðan skyldu leiðir okkar liggja saman nánast daglega þegar við vorum með skrifstofu í sama húsi og mjög oft á Esjunni, þar sem við höfðum aldrei hist fyrir þann tíma. Í lífinu eru það raunar sérkennilegt hvernig fólk kemur inn og út úr lífi manns. Suma sér maður ekki svo árum skiptir, en síðan eru þeir stöðugt að verða á vegi manns. Aðra hittir maður reglulega þangað til þeir hverfa í lengri eða skemmri tíma. 

Það var ánægjulegt að eiga þess kost, að kynnast Stefáni. Hann var skoðanafastur, fróður og fylginn sér, hvort heldur sem var í fjallgöngum eða á öðrum vettvangi. Hann hafði mun meiri reynslu af fjallaferðum en ég, þegar við kynntumst. Þannig sagði hann mér þegar við vorum saman á Esjunni, frá mismunandi uppgönguleiðum og þegar ég var að leggja á ný fjöll fór ég alltaf áður inn á skrifstofu til Stefáns og spurði hann hvort hann hefði gengið á þetta fjall og oftar en ekki hafði hann gert það og gat gefið mér góða leiðarlýsingu og frætt mig um hvar ég skyldi fara og hvað ég skyldi varast. 

En svo kom, að því að ég sá ekki Stefán lengur á Esjunni og ég spurðist þá fyrir um hann og fékk að vita að hann ætti við vanheilsu að stríða og við mundum ekki framar eiga þess kost, að leggja á fjallið okkar og njóta frelsisins og þeirar nautnar að vera í fjallasalnum, glíma við fjallið og sigra það. 

Stefán lést í janúar í ár.

Ég minnist Stefáns af hlýhug og jafnan þegar ég geng á fjallið okkar og rifja upp þau skringilegheit forsjónarinnar, að byrgja mönnum sýn á ákveðið samferðarfólk þangað til að forsjónin kemur því þannig fyrir, að það kemur af miklu afli inn í líf manns og hefur varanleg áhrif. Ég er þakklátur forsjóninni fyrir að hafa fengið að kynnast Stefáni.

 


Af hverju svona fáir?

Fréttastofa Stöðvar 2 gerði ítarlega grein fyrir væntanlegum mótmælum og kröfugöngu námsmanna gegn loftslagsbreytingum og hvatti fólk til að mæta. Kröfugangan var í gær frá Skólavörðholti niður á Austurvöll. Það sem kom á óvart við þessi mótmæli er hvað fáir tóku þátt í þeim. Námsmannahreyfingar grunn- og framhaldsskóla og háskólanema stóðu fyrir mótmælunum og kröfugöngunni. Ef til vill hafa um 1% þeirra sem tilheyra þessum samtökum mætt í mótmælin. 

Er ekki eðlilegt að spurt sé hvar eru hin 99%, sem sáu ekki ástæðu til að mæta í loftslagsmótmælin. 

Fram kom af viðtölum við þáttakendur í mótmælunum, að ungt fólk væri hrætt við loftslagsbreytingar og teldu að framtíð þeirra væri ógnað. Í ræðum sem fluttar voru var gengið út frá því að stöðugt vaxandi hlýnun væri í heiminum vegna aukningar koltvísýrings í andrúmsloftinu. 

Það er slæmt að ungt fólk sé hrætt. En þannig hefur það verið í þekktri sögu mannkynsins. Fólk er alltaf hrætt við eitthvað.Sé það ekki raunverulegt þá býr fólk það til. Á árum áður var haldið að ungu fólki sögur um tröll, Grýlu, drauga og forynjur. Getur verið að trúin á "hamfarahlýnun" sem muni eyða öllu lífi á jörðinni sé álíka galin og stöðugt fleira ungt fólk átti sig á því. 

Í þessu tilviki er það ekkert vafamál að það sem fólk þarf að óttast í sambandi við loftslagsbreytingar, er óttinn sjálfur eins og Franklin Delano Roosevelt Bandaríkjaforseti orðaði það.

Væri vá fyrir dyrum í loftslagsmálum, væri það verðugt verkefni námsmmannahreyfingar og stjórnmálamanna að berjast fyrir því að við segðum okkur frá Parísarsamningnum um loftlagsmál, sem veitir m.a. Kínverjum og Indverjum frjálsar hendur um að auka losun koltvísýrings gríðarlega fram til ársins 2030 auk þess að leggja þungar álögur og gjöld m.a. á okkur, sem búum við eitt hreinasta loft og minnstu mengun af mannavöldum, sem um getur í heiminum. Síðan ættum við að einhenda okkur í að gera kröfur á mestu mengunarvaldana, Kínverja og Indverja, að taka til hjá sér og berjast gegn gríðarlegri mengun og bjóða þeim aðstoð við það.

  

 


Stefnuleysi og vingulsháttur

Sýrlandsher sækir fram í Idlib héraði í Sýrlandi,  þar sem mismunandi öfgahópar hafa ráðið mestu undanfarin misseri. Hópar eins og ISIS, Al Kaída, Al Nusra og aðrir álíka ógeðslegir öfgahópar, sem hafa drepið fólk miskunarlaust,hneppt fólk í ánauð m.a. stóra hópa kvenna í kynlífsánauð. Það ætti að vera gleðiefni að síðasta vígi öfgahópanna í Sýrlandi verði sigrað. 

En Evrópusambandið og Tyrkir eru ekki á sama máli. Evrópusambandið beitti 7 aðila refsiaðgerðum fyrir að eiga viðskiptaleg samskipti við Sýrlandsstjórn, í framhaldi af sókn Sýrlandshers, þar sem frelsuð hafa verið landssvæði í nágrenni Aleppo og tyggt að hægt er að nota flugvöll borgarinnar aftur. 

Algert stefnuleysi er og hefur ríkt hjá Evrópusambandinu varðandi styrjöldina í Sýrlandi nema helst að veita öfgaÍslamistunum stuðning.

Jafnan er talað um borgarastyrjöldina í Sýrlandi, en það er á mörkunum að hægt sé að tala um borgarastyrjöld þegar tugir þúsunda erlendra vígamanna hafa haldið stríðsvél uppreisnarmanna gangandi og Tyrkir, Saudi Arabar o.fl. hafa blandað sér með virkum hætti í styrjöldina sérstaklega Tyrkir. 

Af hverju stuðlar Evrópusambandið ekki að því að útrýma völdum og áhrifum öfga-Íslamistanna? Með því að gera það ekki, þá stuðlar bandalagði eingöngu að því að ófriðurinn stendur lengur og mannlegar hörmungar og flóttamannastraumurinn aukast. 

Tyrkir hafa hernumið ákveðin svæði í Sýrlandi meðan styrjöldin í Sýrlandi hefur staðið og þeir og ætla ekki að láta þessi landssvæði af hendi. Gildir eitthvað annað um Tyrkland heldur þegar Rússar innlimuðu Krímskagann þar sem mikill meirihluti fólksins eru Rússar? Tyrkir eru að hertaka landssvæði í Sýrlandi þar sem enginn er af tyrkneskum uppruna. Þeir eru að innlima landssvæði þar sem býr fólk, sem vill ekkert með Tyrki hafa. Væri Evrópusambandið sjálfu sér samkvæmt ætti það að beita Tyrki refsiaðgerðum m.a. viðskiptaþvingunum ekkert síður en Rússa. Skyldu íslensk stjórnvöld telja eðlilegra að eiga viðskipti við Tyrki en gamla vinaþjóð okkar Rússa? Ef svo er af hverju?

 


Líkt hafast menn að.

Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar tóku yfirvöld í þáverandi Sovétríkjum upp á því að senda stjórnarandstæðinga á geðveikrahæli. Það vakti ekki eins mikla eftirtekt og þegar þau voru send í hinar alræmdu fangabúðir kommúnista í Gúlaginu. Auðveldara var síðan fyrir stjórnvöld að bregðast við ef gagnrýnin varð mikil eins og Tom Stoppard gerir svo einstaklega góð skil í leikriti sínu "Every good boy deserves favour." 

Nú hefur dómsmálaráðherra brugðist við eins og þeir í Sovét forðum með því, eftir að hafa kiknað í hnjáliðunum vegna mótmæla við dómsmálaráðuneytið, að láta stjórnvöld sem undir hana heyra senda ólöglegan innflytjenda á barna og ungliðageðdeild til þess eins og Sovétherrarnir forðum að komast hjá gagnrýni fyrir lagabrot. 

Skyldi það fornkveðna eiga við að margt sé líkt með skyldum? 


Innviðir

Stjórnmálaumræða einkennist af því, að stjórnmálafólk segir sömu hlutina með sömu orðum. Ákveðinn orð fá nýjan sess og allt snýst um þau í pólitískri umræðu. 

Eitt þessara orða er "innviðir" Innviðir hafa þá sérstöku náttúru, að allir eru sammála um að hlúa þurfi að þeim og styrkja þá. Þetta hentar stjórnmálamönnum vel. Þeir eru alltaf á öruggu svæði þegar þeir tala um mikilvægi  þess að styrkja innviðina. Stjórnarsáttmálinn ber þess glöggt merki. 

Nýlega sagði fjármálaráðherra að rétt væri að selja einn ríkisbanka og nota söluverðið til að styrkja "innviðina".  

En hvað eru "innviðir" skv. skilgreiningu fjármálaráðherra, er það nánast allt sem varðar starfsemi hins opinbera. Styrking innviða táknar þá, að auka ríkisútgjöld til einhvers. 

Skv. orðabók menningarsjóðs árið 1963 segir að innviðir séu máttarviðir inni í byggingu, skipi eða þess háttar. Á vísindavef Háskóla Íslands hefur orið heldur betur farið á flug og hefur merkingu sem nær nánast þeim skilningi sem fjármálaráðherra setti fram um um merkingu þess.

Vísindavefur Háskóla Íslands segir m.a.:Það eru "sterk tengsl á milli fjárfestinga í innviðum og innviðastöðu hagkerfisins annarsvegar og framleiðniþróun og hagvaxtar hinsvegar. Á þessum grundvelli hvílir áhugi margra hagfræðinga(og stjórnmálamanna)á innviðauppbyggingu"

Með þokkalegri rökhugsun getur hver og einn komist að sömu niðurstöðu og vísindavefurinn,að með því að auka fjárfestingu í innviðum styrkist innviðastaða samfélagsins. Þessvegna er þetta orð gjörsamlega öruggt fyrir stjórnmálafólk að nota. Hver gæti verið á móti því að styrkja innviðastöðu samfélagsins?

Innviðir hafa orðið heildarhugtak fyrir eitthvað á vegum hins opinbera. Vafalaust yrði stjórnmálaumræðan markvissari ef stjórnmálafólk segði hvað það vill gera og hvernig þeir vilja forgangsraða.

Þannig var stjórnmálafólk á árum áður.

En nú þegar það þykir henta að stela stöðugt meira og meira af skattgreiðendum með ofurskattheimtu, þá er e.t.v. hentara að bregða fyrir sig merkingarlitlu tískuorði, sem enginn getur verið á móti, þegar seilast á dýpra í vasa skattgreiðenda eða selja eignir þeirra. 


Fjöldamorðin í Dresden

Fyrir nokkru minntust þjóðarleiðtogar heims þess, að 75 ár eru liðin frá því að heimurinn sá hryllinginn í Auswitch fangabúðunum. Þá var skipulögð útrýmingarherferð á Gyðingum staðfest. Flestum er óskiljanlegt, að mannleg grimmd og ónáttúra geti náð þeim hæðum að myrða milljónir til að útrýma heilum kynþætti. Slíkt má ekki endurtaka sig. 

Í dag eru liðin 75 ár frá öðrum fjöldamorðum. Engir þjóðarleiðtogar mæta til funda eða fordæma þau. Þetta eru morðin á saklausu fólki í þýsku borginni Dresden. Bretar og Bandaríkjamenn gerðu gríðarlegar sprengjuárásir á borgina með þeim fyrirsjáanlegu afleiðingum að meirihluti borgarbúa dó. Tala látinna er á reiki, en settar hafa verið fram ágiskanir um að allt frá 25.000 manns til yfir 100 þúsund hafi dáið í loftárásunum. 

Loftárásirnar á Dresden voru gerðar þegar Þjóðverjar voru komnir að fótum fram í stríðinu. Rauði herinn var við landamærin í austri og Bandarísku og bresku herirnir við landamærin í vestri. Uppgjöf Þjóðverja var fyrirsjáanleg bara spurning um hvenær. Dresden var menningarborg. Þar voru engin hernaðarleg mannvirki eða annað sem skipti máli varðandi hernað eða varnir Þjóðverja. Árásin á Dresden var með öllu ástæðulaus. Þeir sem tóku ákvörðunina vissu að þúsundir óbreyttra borgara mundu deyja og hernaðarleg þýðing árásarinnar væri engin. Samt gerðu Bretar og Bandaríkjamenn sig seka um þessa óafsakanlegu grimmd gagnvart óbreyttum borgurum, sem höfðu ekkert til saka unnið.

Hryðjuverk? Stríðsglæpur?

Í sumar verða 75 ár liðin frá kjarnorkuárásum á japönsku borgirnar Hirhoshima og Nagasaki þar sem yfir 100 þúsund óbreyttir borgarar voru drepnir. Var einhver afsökun fyrir þeim árásum? Af hverju þurfti að ráðast á Nagasaki eftir að eyðileggingarmáttur sprengjunnar og morðanna í Hiroshima var öllum ljós?

Sagt er að Truman Bandaríkjaforseti hafi sagt frá því á leiðtogafundi Bandamanna, að Bandaríkjamenn ættu kjarnorkusprengju og spurning væri hvort ætti að nota hana. Sagt er að Stalín og Churchill hafi verið eindregið fylgjandi því þannig að það var sameiginleg ákvörðun leiðtoga Bandamanna að standa að þessum fjöldamorðum á óbreyttum borgurum. 

Eru kjarnorkuárásirnar á Hirhoshima og Nagasaki afsakanlegar?

Sé svo hvað afsakar þær?

Að frátaldri þeirri geðveiki að ætla að útrýma kynþætti, er þá einhver munur á því að steikja fólk í gasofnum eða vítislogum sprengja sem falla af himni ofan.

Bandaríkjamenn og Bretar ættu að setja sjálfa sig undir sömu mælistiku og þeir nota gagnvart öðrum og Rússar ættu að viðurkenna stríðsglæpi í síðari heimstyrjöld eins og útrýmingu um þriggja milljóna Þjóðverja í Austur Evrópu eftir uppgjöf Þjóðverja sem og ýmissa annarra hryðjuverka. 

En sekur er sá einn sem tapar. 

En til þess að mannleg grimmd og ónáttúra nái aldrei hæðum á ný, þá þurfa allir að kannast við sinn hlut og fordæma óafsakanleg hryðjuverk gagnvart saklausu fólki. Miklu skiptir í því efni að sigurvegararnir séu ekki undanskildir.

 

Dresden var menningarborg. Engin hernaðarmannvirki voru í borginni eða annað sem hafði hernaðarlega þýðingu. Þjóðverjar voru komnir að fótum fram í styrjöldinni. Rauði herinn var við landamæri Þýskalands í austri og Bretar og Bandaríkjamenn við landamærin í Vestri. Öllum var ljóst að ekki var spurning um að uppgjöf Þjóðverja væri á næsta leiti. Spurningin var bara hvenær ekki hvort. 

Miðað við þessar aðstæður er með öllu óskiljanlegt að bresk og bandaríks hernaðaryfirvöld skyldu ákveða að fremja þessi fjöldamorð. Fjöldamorð á saklausu fólki eru alltaf óafsakanleg og ekki skiptir máli hvort 


Kurteisin uppmáluð

Margir hafa ráðist á Donald Trump fyrir orðfæri hans, sem er iðulega á mörkum hins byggilega heims. Demókratar o.fl. hafa farið hamförum yfir dónaskap hans og telja að svona maður geti ekki og megi ekki vera forseti Bandaríkjanna það sé þjóðarskömm. Vinstra fólk um allan heim hefur tekið undir þetta og telur Donald Trump vera þegar best lætur málsvara andskotans, ef ekki hann sjálfan holdi klæddur. 

Nú hafa Demókratar hinsvegar eignast átrúnaðargoð, sem er í engu eftirbátur Trump hvað illmælgi og gífuryrði snertir, Bernie Sanders. Sanders var sigurvegari Demókrata í nýjasta forvalinu. 

Í kosningabaráttunni sagði hann að Trump væri: "Racist, a sexist, a xenophobe, a homophope and a religious bigot. And those are his nice qualities." (Trump er karlremba, útlendingahatari, hommahatari og trúarlegur ofstækismaður og þetta eru hans góðu hliðar)

Það sannast oft hið fornkveðna og nú á Demókrötum í Bandaríkjunum:

"Það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann"


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 105
  • Sl. sólarhring: 1282
  • Sl. viku: 5247
  • Frá upphafi: 2469631

Annað

  • Innlit í dag: 97
  • Innlit sl. viku: 4805
  • Gestir í dag: 97
  • IP-tölur í dag: 97

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband