Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2020

Miðflokkurinn í kompaníi við allífið.

Sú var tíðin að Sameinaða Samfylkingin (SS) þ.e. Píratar,Viðreisn, Flokkur fólksins og að sjálfsögðu Samfylkingin útskúfuðu Miðflokknum og töldu hann ómerkilegri og ef eitthvað var ógeðslegri en skítinn undir skónum sínum. Talsmenn þessara flokka sögðu í einkasamtölum, ræðu og riti eftir Klausturhlerunina, að ekki væri komandi nálægt Miðflokknum og útskúfa ætti honum algerlega í þingstörfum og helst að gera hann þingrækan. 

Stormsveit Pírata tók auk heldur til þess ráðs að beita einn Klausturbaróninn einelti þegar hann kom í ræðustól Alþingis og stillti stormsveitin sér upp í sérútbúnum klæðnaði þar sem lýst var yfir skefjalausri óbeit á viðkomandi.

Miðflokkurinn var firrtur vinum á hinu háa Alþingi þar sem stjórnarflokkarnir sýndu þeim óvirðingu sem og SS, þó það væri allt mun þekkilegra.

Svo sérkennilega brá við, að eins fór um Miðflokkinn og púkann á fjósbitanum. Miðflokkurinn fitnaði því meir hvað fylgi varðaði, þeim mun harðar sem SS sótti að honum.

Nú er öldin önnur. Miðflokkurinn er kominn í kompaní við allífið eins og Matthías Johannesen ritstjóri og skáld orðaði það í viðtalsbókinni við meistara Þórberg. Í gær stóð SS ásamt Miðflokknum að sameiginlegum tillögum um hefðbundið sósíalískt yfirboð í anda slíkrar stjórnarandstöðu. Þetta gerðist, þegar mestu skipti að stjórnmálamenn þessa lands standi saman og láti skynsemina ráða frekar en reyna að fiska atkvæði með yfirboðum.

Miðflokkurinn er greinilega ekki ótækur lengur að mati SS, allar bjargir bannaðar og enginn hlutur heimill nema helvíti eins og það var orðað til forna þegar einstaklingur, hópar eða þjóðir voru bannfærðir af prelátum kaþólsku kirkjunnar.

Miðflokkurinn hefur verið tekinn í sátt

Spurningin er þá hvort fjósbitanum hafi verið kippt undan Miðflokknum með alkunnum afleiðingum fyrir þann sem þann bita sat. 

 


Arðgreiðslur og ríkisaðstoð

Ríkisvaldið hefur ákveðið m.a. að greiða launþegum sem þurfa að sætta sig við skert starfshlutfall vegna Kóvit faraldursins ákveðnar bætur skv. nýsamþykktum lögum um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. 

Ljóst er t.d. að ferðamannaiðnaðurinn er hruninn tímabundið og mörg lítil einkafyrirtæki í verslun og þjónustu þurfa að draga verulega saman vegna þess að eftirspurn er mun minni en áður og í sumum tilvikum engin. 

Lögin eiga aðtryggja launþegum svipaða afkomu tímabundið eins og þeir bjuggu við áður en til þessara hamfara kom. 

Allir voru sammála þessum aðgerðum þegar lögin voru afgreidd frá Alþingi. Nú heyrist hins vegar víða úr holtum nær og fjær, að það sé hið versta mál að borga launakostnað aðila sem hafi grætt vel á undanförnum árum og eigendurnir hafi leyst til sín mikinn hagnað í formi arðgreiðslna. 

Eðlilegt er að mörgum finnist það fjarri félagslegu réttlæti að borga að sumra mati hluta launakostnað fyrirtækja, sem voru í góðum rekstri og hafa mokað inn hagnaði á undanförnum árum. En lögin og þessar greiðslur hafa ekkert með arðsemi og arðgreiðslur fyrirtækjanna að gera. Lögin og úrræðin snúa að launþegum og því, að launþegar verði ekki fyrir hnjaski. 

Þeir sem gagnrýna þessar ráðstafanir út frá sjónarmiðum svokallaðs félagslegs réttlætis sést yfir þær staðreyndir, að það er ekki verið að borga launakostnað fyrirtækja hvorki Bláa lónsins né annarra og það ættu allir að geta verið sammála um að það er betra að taka þessu vonandi tímabundna höggi með því að fyrirtækin skerði starfshlutfall og því sé mætt af ríkinu með greiðslum til launþega heldur en að fyrirtækin segi upp starfsfólki. Þá yrðu heildargreiðslur vegna atvinnuleysis mun meiri en með þessu fyrirkomulagi. 

Öllum er vonandi ljóst, að segi fyrirtæki upp starfsfólki og það starfsfólk fær greiðslur úr atvinnuleysistryggingarsjóði, þá er ekki verið að borga launakostnað fyrirtækjanna ekki frekar en þegar starfsólk fyrirtækjanna þarf að sæta skertu starfshlutfalli.

Í umræðunni nú sem fyrr skiptir máli að draga réttar ályktanir af gefnum forsendum en rugla ekki saman andstöðu við einstök fyrirtæki og eigendur þeirra græði, og þess félagslega réttlætis fyrir launafólk, sem verið er að hlúa að með lögunum.


Sitthvað gerum við vel.

Í úttekt í Daily Telegraph í gær er m.a. fjallað um könnun á fjölda smitaðra af Covid veirunni. Þar kemur fram að hvergi er skráning eða eftirlit með földa smitaðra betra en hér á landi. Skv. úttektinni verður ekki annað séð, en að útilokað sé að sjá hver fjöldi smitaðra er t.d.á Ítalíu, Spáni, Bretlandi og Bandaríkjunum. Tölur frá þessum löndum um fjölda smitaðra og dánartíðni eru því nánast ómarktækar.

Við höfum staðið okkur best í alþjóðlegum samanburði varðandi skráningu og að mestu leyti varðandi viðbrögð, þó getum við hugsanlega sitthvað lært af Suður Kóreu. 

Fjöldi smitaðra á Íslandi nálgast að vera o.3% þjóðarinnar og tæp 3% landsmanna eru eða hafa verið í sóttkví. Miðað við það  er eðlilegt,að skoða hvort stöðugt hertari aðgerðir við að loka á mannleg samskipti og atvinnulíf séu réttlætanlegar. 

Mér er til efs, að ekki sé hægt að halda margvíslegri starfsemi gangandi, sem nú hefur verið lokað, án þess að það auki á smithættu, ef full aðgát er höfð. Í því sambandi kemur manni í hug m.a. starfsemi hárskera, líkamsræktarstöðva, sjúkraþjálfara,kvikmyndahúsa og margrar annarrar starfsemi. Hafa einhver eða það mörg smit greinst frá þesskonar starfsemi að kalli á lokun? Er ekki hægt að setja viðmiðunarreglur um slíka starfsemi til að lágmarka áhættu á smiti?

Það sem við vitum fyrir víst um þessa veiru í dag er að hún er fyrst og fremst hættuleg fyrir fólk sem hefur náð sjötíu ára aldri og þaðan af meira og er með undirliggjandi sjúkdóma.

Er þá ekki mikilvægast að reyna eftir megni að koma þeim þjóðfélagshópi í var, en láta þjóðfélagið ganga að mestu leyti sinn gang að öðru leyti?  

Fólkið sem hefur verið í framlínunni hjá okkur í baráttunni við þessa veiru hefur staðið sig vel og gert sumt best af því sem gert hefur verið í heiminum. Það kemst þó ekki hjá því að verða fyrir áhrifum stöðugt harkalegri aðgerða sem gripið er til annarsstaðar, sem og ákalli öfgafólks um að lokað verði á alla mannlega starfsemi í landinu. En þar reynir á, að það sé gert sem þarf, en frjóangar atvinnulífsins séu ekki drepnir eða settir í dvala umfram það sem brýna nauðsyn ber til. 

 


Kynbundið ofbeldi eða pólitískt samsæri?

Í gær var Alex Salmond fyrrum fyrsti ráðherra Skotlands og þáverandi formaður Skoska þjóðarflokksins sýknaður af ákærum um nauðgun, kynferðslegt áreiti og ósæmilega hegðun gagnvart konum. Saksóknari höfðaði málið gegn Salmond vegna meintra brota gagnvart 13 konum.

Það tók kviðdóminn, sem var að meirihluta til skipaður konum, ekki langan tíma að komast að þeirri niðurstöðu, að Salmond væri ekki sekur um þær ávirðingar sem bornar voru á hann. 

Þessi niðurstaða sýnir ein með fleirum hversu svona mál eru vandmeðfarin og hversu auðvelt er að nota ávirðingar af þessu tagi gagntvart mönnum,ekki síst þeim sem eru í pólitík, þó þeir hafi ekkert til saka unnið. Alex Salmond telur að málatilbúnaðurinn gagnvart sér sé af pólitískum rótum runnið og svo virðist sem mikið sé til í því.

Þá sýna þessi réttarhöld og niðurstaða þeirra hversu glórulaus sú krafa öfgafemínista er, að þeim mun fleiri konur sem komi fram og saki karlmann um kynferðislegt áreiti eða eitthvað þaðan af verra, þá hljóti staðhæfingar þeirra að vera réttar. 

Salmond var sýknaður af kröfum og ávirðingum 13 kvenna. Svo fjölmennur hópur hefði samkvæmt kenningunni átt að vera yfirdrifinn til að Salmond yrði dæmdur án laga og réttar. Sem betur fer lifum við í réttarríki og málið fékk eðlilega umfjöllun og í stað sakfellingar almenningsálitsins kom sýknudómur hlutlauss dómstóls eftir að málið hafði fengið eðlilega réttarfarslega umfjöllun.

Fyrir nokkrum árum gerði Donald Trump tillögu um að Brett Kavanaugh yrði skipaður Hæstaréttardómari í Bandaríkjunum. Þá kom fram kona að nafni Christine Blasey Ford og sakaði hann um kynferðislega áreitni. Fljótlega bættust fleiri konur í hópinn. Öfgafemmínistar og Demókratar settu þá fram þá kenningu,að þegar margar konur ásökuðu mann um ósæmilega kynferðislega hegðun þá skyldi taka það sem heilögum sannleik. Rannsókn lögreglu sýndi hinsvegar fram á, að ávirðingarnar á hendur Brett Kavanaugh voru gjörsamlega tilhæfulausar. Algjör tilbúningur. Þær voru settar fram til að koma höggi á hann og að sjálfsögðu Trump í pólitískum tilgangi.

Í báðum tilvikum urðu þeir Brett Kavanaugh og Alex Salmond fyrir verulegum persónulegum álitshnekki,áður en þeir gátu sýnt fram á sakleysi sitt.

En síðan er hin hliðin á þessu makalausa réttleysisfari, þar sem menn geta átt það á hættu, sérstaklega ef þeir eru áberandi, að vera stimplaðir glæpamenn á samfélagsmiðlum án þess að geta rönd við reist fyrr en síðar, þó ekkert sannleikskorn sé í ávirðingunum.  Þá er spurningin hvaða refsingu fá þeir sem bera fram rangar sakir og valda fólki miklu tjóni og mannorðsmissi. Engar.

Á sama tíma og það er og var mikilvægt að vekja athygli á og bregðast við kynbundnu ofbeldi sem bitnar í yfirgnæfandi tilvika á konum og koma lögum yfir þá sem gerast sekir um slíkt, þá verður samt alltaf að hafa í huga grunnreglur réttarríkisins og hvika ekki frá þeim eins og öfgafemínistarnir hafa þó ítrekað krafist að verði gert.  


Þriðja bylgjan

Bókin "Þriðja bylgjan" eftir Alvin Toffler kom út fyrir réttum fjörutíu árum. Framtíðarspár bókarinnar og þess sem síðar hefur komið frá höfundinum eru athyglisverðar.

Fyrsta bylgjan er í huga höfundar þegar landbúnaður ýtti til hliðar þjóðfélagi veiðimanna og safnara. Önnur bylgjan er þjóðfélag iðnbyltingarinnar. Þjóðfélag fjöldaframleiðslu, ofurneyslu, miðstýringar og skrifræðis.

Þriðju bylgjuna kallar Toffler tímabilið að lokinni iðnbyltingu. Hann sér fyrir sér þróun vísinda-og tæknisamfélags okkar tíma. Horfið yrði frá skrifræði, miðstýringu og samþjöppun vinnuafls á stórum sem smáum skrifstofum í miðborgarsamfélagi. 

Mér fannst athyglisvert að kynnast þeim framtíðarspám Tofflers, að heimavinna fólks mundi aukast til muna með tölvubyltingunni. Ekki yrði lengur þörf á að fólk væri á endalausum ferðalögum til og frá vinnu eða til fundarhald, heldur gæti það sinnt daglegum störfum heima. Við tæki að hluta það sem engilsaxar kalla "cottage economy" (sjálfsþurftarbúskapur heima við)og Global village. 

Með þriðju bylgjunni yrði dagleg þörf mikilvirkra samgöngutækja mun minni og fólk gæti notið tímans sem slík ferðalög tækju, til að hugsa um sjálft sig og notið þess að versla og njóta þjónustu í nágrenni við heimilið. Orkusparnaður yrði gríðarlegur. 

Hugmyndir Toffler um framtíðina eru heillandi. Til yrðu margir bæir í borginni, þar sem fólk mundi vinna heima og hverfin yrðu lifandi hverfi og híbýli fólks yrði staður þar sem mestur hluti vinnunar yrði framkvæmdur auk þess sem að stutt yrði að sækja í þjónustu og frístundastarf. 

Eftir því sem tölvutæknin, rafrænar undirskriftir og fjarfundarbúnaður ýmis konar hafa tekið stórstígum framförum er furðulegt hvað hægt hefur gengið að þjóðfélagið aðlagaði sig að þriðju bylgjunni. Fólk yrði  meira heima og ofurskrifstofurnar heyrðu sögunni til.

Hvernig stendur á því, að það þurfi að marséra börnum og unglingum á hverjum virkum degi í skóla til að hlusta á það sem vel má nýta tölvutæknina til að miðla fróðleik með fullkomnara hætti. 

Stöðnunin og andstaðan stafar e.t.v. af því að iðnríki okkar tíma reynir að halda í óbreytt ástand, af ótta við að yrði miðstýringu hætt og skrifræðið einfaldað, mundu borgararnir fá meira frelsi til sjálfstæðs þroskaferlis án stöðugrar mötunar ofurfréttamennskunar sem reynir að tryggja meðvitaða eða ómeðvitað hugmyndafræði alræðisríkisins sem og þeim hagsmunum að halda fólki við ofurneyslu, sem það hefur enga þörf fyrir.

Nú á tímum hræðslunnar og aðgerða stjórnvalda vegna Covid veiru faraldursins þarf fjöldi fólks að vinna heima og fær þá reynslu af því hvaða hagræði er fólgið í því. Þetta hafa skáld, rithöfundar, sem og margir fleiri áttað sig á um árabil. Nauðsynlegt er að fleiri og fleiri geri sér grein fyrir þeim kostum að stund vinnu sína að heiman. 

Ef til vill munu þessar ráðstafanir vegna Covid reynast sú blessun í þessu dulargervi, að þriðja bylgjan sem Toffler spáði fyrir um árið 1980 nái í auknum mæli fótfestu í veröldinni, öllum til góðs. 


Forustulaus Evrópa

Þegar forseti Evrópusambandsins (E) Ursula Geirþrúður von der Leyen birtist á sjónvarpsskjánum á mánudaginn,  til að fjalla um aðgerðir Evrópusambandsins vegna Coveit 19 (C) faraldursins, sáu áhorfendur valdalausan stjórnmálamann,sem var að reyna að láta líta svo út, sem Brussel valdið hefði einhverja þýðingu í baráttunni gegn C. Úrsúla talaði fyrir ferðabanni,sem var þá þegar orðin staðreynd.

Enn sem oftar bregst Evrópusambandið algjörlega. Samstaða Evrópusambandsríkja þegar bjátar á, hefur alltaf verið meira í orði en á borði. Aðgerðarleysi E hefur leitt til þess að hvert aðildarríkið af öðru hefur brotið sáttmála E í mörgum grundvallaratriðum hvað varðar hið margrómaða fjórfrelsi. E hefur ekki burði til að standa vörð um hagsmuni bandalagsríkja sinna þegar utanaðkomandi vandi steðjar að. 

Ítalía var fyrsta landið í Evrópu sem þurfti að fást við fjöldasmit. Á þeim tíma hefði verið rétt fyrir Brusselvaldið að bregðast við, og hlutast til um að öll bandalagsríkin kæmu Ítalíu til aðstoðar. En Brusselvaldið gerði ekki neitt. Ítalir báðu bandalagsþjóðir sínar um liðsinni m.a. að fá andlitsgrímur og öndunarvélar. En Evrópusambandsríkin gerðu ekki neitt. Meira en það. Þýskaland bannaði á tímabili útflutning á andlitsgrímum til Ítalíu. Fjórfrelsisákvæði Evrópusambandsins risti þá ekki djúpt hjá Angelu Merkel og félögum. Með þessu sýndu Þjóðverjar að ákvæðin um frjálsa verslun milli landa skipti þá ekki máli þegar hagsmunir Þýskalands eru annarsvegar. Engar athugasemdir hafa borist frá Bussel vegna þessa.

Það kom síðan í hlut Kínverja að útvega Ítölum lækningatæki þegar bandalagsþjóðir þeirra í Evrópusambandinu brugðust þeim.

Hvert þjóðríkið í Evrópu á fætur öðru hafa gripið til ráðstafana án samráðs við önnur ríki Evrópu. Frakkar og Þjóðverjar hyrningarsteinar þjóðríkja E hafa tekið ákvarðanir um að takmarka útflutning á lækningavörum, sem er brot á ákvæðum E um frjáls viðskipti milli ríkja E. Þjóðlöndin eitt af öðru hafa lokað landamærum sínum t.d. Austurríki og Tékkland, sem er brot á ákvæðum um frjálsa för. 

Ef til vill ætti þessi vanhæfni stjórnenda E og ríkja Evrópu ekki að koma á óvart. Sama gerðist þegar leysa þurfti skuldavanda Grikkja og síðar Ítala. Í stað þess að leysa vandann voru bæði ríkin sett í skuldafangelsi. 

Vanhæfni Evrópusambandsins til að móta stefnu í málefnum svonefndra flóttamanna er dæmi um, að þjóðríkin taka eigin ákvarðanir en E mótar enga stefnu. Angela Merkel gerði mikil mistök árið 2015 þvert á reglur Schengen sáttmálans. Eftir þau mistök reyndi Merkel með aðstoð Brussel valdsins að kúga önnur ríki E til að samþykkja að taka við ákveðnum hluta af hennar eigin mistökum án árangurs. Þegar það gekk ekki stóð Merkel fyrir því ásamt Brusselvaldinu að múta Tyrkjum til að meina meintu flóttafólki för frá Tyrklandi gegn því að Tyrkir fengju greiddar sex þúsund milljónir Evra árlega. En Grikkir og Ítalir eru látnir einir um að fást við vanda vegna stöðugs straums meintra flóttmanna til Lesbos og Lampedusa. Engin stefna er mörkuð af E og vinstri sósíalistinn Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóanna þrýstir á um, að Evrópa leysi vanda alheimsins í þessum málum sem og meintum vanda í loftslagsmálum.

Forustuleysi yfirstjórnar Evrópusambandsins og flókið regluverk bandalagsins kallar á að breytingar verði gerðar ef bandalagið á að vera marktækt í framtíðinni.  

Þessar staðreyndir ættu þó að færa íslenskum ráðamönnum heim sanninn um það, að fjórfrelsið margrómaða er ekki merkilegra en svo þegar kemur að mikilvægum hagsmunum stærstu þjóðríkja E, að þeim finnst sjálfsagt að brjóta gegn því. Af hverju ættum við í EES samstarfinu ekki að hafa sömu viðmið þegar kemur að mikilvægustu hagsmunum íslensku þjóðarinnar og segja þegar kemur að vitlausum orkupökkum sem öðru, það sama og einn framsýnasti forustumaður í íslenskri pólitík sagði forðum.

"Heyra má ég erkibiskups dóm, en ráðinn er ég í að hafa hann að engu."


Hvar er fjölþjóðasamstarf og fjölþjóðleg ábyrgð?

Þegar þúsundir Kínverja smituðust af óþekktri veiru sem hlotið hefur nafnið Coveit 19,mátti telja víst, að um heimsfaraldur yrði að ræða. Í þá tæpu 3 mánuði sem þetta hefur legið fyrir skortir algjörlega alþjóðlegar ákvarðanir um samræmdar aðgerðir þjóða á heimsvísu til að stemma stigu við þessum ófögnuði. 

Sameinuðu þjóðirnar(SÞ) undir stjórn vinstri sósíalistans Antonío Guterres virðist ekki telja sig hafa neinar skyldur umfram það að berjast fyrir aukinni skattheimtu á almenning vegna loftslagshlýnunar og  troða sem flestum innflytjendum inn í Evrópu. Nú þegar raunveruleg vá steðjar að, gerir SÞ ekkert Stjórn Alþjóða heilbrigðismálastofnunar(WHO)gerir ekkert heldur enda er haft á orði að þar á bæ hafi menn meiri áhuga á ferðalögum, flugmiðum og flottum hótelum en nokkru öðru. 

Bandaríkin telja það ekki sitt hlutverk lengur að hafa forustu við að koma á samstarfi þjóða, heldur taka þeir ákvarðanir án alls samráðs og reyna nú að einoka kaup á væntanlegu bóluefni fyrir Bandaríkjamenn í stað þess að stuðla að því að þeir sem eru í mestri þörf fái bóluefnið fyrst. 

Evrópusambandið og einstök Evrópuríki hafa brugðist í því að koma á samræmdum aðgerðum á sínu svæði og á heimsvísu og sama má segja um Norðurlandaþjóðirnar. Evrópusinnar ættu að íhuga, hvaða þýðingu Evrópusambandið hefur þegar raunverulegur vágestur sækir að heilsufarslega og efnahagslega og víðtæk þörf er á samstarfi Evrópuríkja. Hvar er margrómað samstarf Evrópuríkja nú?

Orsök þessa eru hugmyndasnauðir og vanhæfir stjórnmálaforingjar og forustufólk hvert sem litið er. Víggirðingar og lögregla og her  eru sett á landamæri og útgöngu- og ferðabann í ætt við einræðisríki er sett á, án þess að nokkur þörf sé á víða þar sem útgöngubann er í gildi.

Ísland er fámennt land og vanmegnugt, en hefur samt rödd innan NATO, Norðurlandaráðs og Sameinuðu þjóðanna. Þá stöðu ættum við að nýta núna og láta þá skoðun heyrast, hvar sem því verður við komið, að til þess sé ætlast að Sameinuðu þjóðirnar sem og aðrir, sem fara með fjölþjóðlegt vald og fjölþjóðlegt samstarf, sýni nú af sér forustu þannig að með samræmdum hætti verði unninn sigur á þessum vágesti sem fyrst.  

 

 


Hið þekkta óþekkta

Fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna Donald Rumsfeld talaði um "the known, unknown", hið þekkta óþekkta þ.e. meint gereyðingarvopn þáverandi einræðisherra í Írak, Saddam Hussein. Rumsfeld sagði að hið þekkta væri að Saddam ætti gereyðingarvopn, en það væri óþekkt hvar þau væru.

Kórónuveiran hefur breiðst út til flestra landa, en staðreyndir um hana eru mjög á reiki, t.d.fjöldi smitaðra og dánartíðni. Það þekkta óþekkta, er að kórónuveiran er þekkt, en það er ekki vitað hversu slæmar afleiðingar hún hefur.

Í slíku andrúmslofti er hætta á, að sá sem hæst galar ráði för. Kári Stefánsson hefur bent réttilega á, að í sumum tilvikum eru stjórnvöld að grípa til ráðstafana, sem eru meira í ætt við lýðskrum en sjúkdómsvarnir.

En hversu hættulegur er kórónuvírusin? Fjöldi smitaðra er vafalaust vantalinn og verulega óþekktur, en fjöldi látinna er sennilega rétt skráður. Skráning á smitum er í skötulíki í nánast öllum löndum í heiminum, hvort heldur það er Ítalía eða Íran eða Bretland og Bandaríkin. 

Fáar ef nokkrar þjóðir  hafa jafngott yfirlit yfir fjölda smitaðra og Suður Kórea og Ísland. Hér hafa yfir 150 manns smitast, ekkert dauðsfall hefur orðið sem betur fer og einungis þrír hafa farið á sjúkrahús. Þó við og Suður Kórea höfum bestu skráninguna, þá eru sennilega fleiri smitaðir en vitað er um. 

Í Suður Kóreu hefur veiran verið í gangi frá seinni hluta janúar. Meira en 8000 hafa smitast. Suður Kórea er í fjórða sæti landa í heiminum yfir fjölda smitaðra. Suður Kórea er e.t.v. líkust okkur hvað varðar góða skráningu smita. Kannað hefur verið hjá meir en 220 þúsund manns, hvort þeir væru smitaðir, fleiri en í nokkur öðru landi. Treysta má tölum frá þeim um hvað varðar dánartíðni af völdum veirunnar. Skv. frétt í Daily Telegraph í dag eru 67 dauðsföll rakin til veirunnar í Suður Kóreu eða 0.8% af þeim sem fá veiruna. Þá virðist yfirvöldum í Suður Kóreu ganga hvað best að ráða við málið þó þeir hafi ekki gripið til jafnyfirgripsmikilla ráðstafana og t.d. Ítalir, Danir,Norðmenn og Bandaríkjamenn.

Ef til vill er það vegna þess, að yfirvöld í Suður Kóreu gera allt sem þau geta til að koma upplýsingum til borgaranna. Íbúar Suður Kóreu eru meðvitaðir um samfélagslega ábyrgð sína og allir geta fengið skimun á því hvort það er sýkt eða ekki með auðveldum hætti algjörlega ókeypis. Er ekki ástæða til að taka Suður Kóreu til fyrirmyndar í vörnum gegn veirunni, að því leyti sem við höfum ekki þegar gert það? 

 


Frestur er á illu bestur en dugar ekki alltaf.

Fjármála- og efnahagsmálaráðherra mun fljótlega mæla fyrir tillögum ríkisstjórnarinnar um heimild sumra skattgreiðenda til að fresta greiðslu gjalda sinna. Tillögurnar eru nauðsynlegar en duga ekki til. 

Þegar Donald Trump tók þá glórulausu ákvörðun að loka á ferðir flugvéla frá Evrópu til Bandaríkjanna varð ljóst, að kreppan vegna Kórónuveirunnar mundi dýpka verulega. Tekjur fjölmargra fyrirtækja og einstaklinga munu því óhjákvæmilega dragast verulega saman eða í sumum tilvikum verða að engu. 

Við slíkar aðstæður hefur það áhrif á allt þjóðfélagið og nánast allir rekstraraðilar verða fyrir verulegu áfalli. Þá skiptir máli að ríkisstjórnin geri ráðstafanir sem dugi. Þá þarf meira að koma til en frestur á greiðslu opinberra gjalda og markaðssetning Íslans fyrir ferðafólk.

Tvennt skiptir þar máli umfram annað sem ríkisstjórnin getur gert. Í fyrsta lagi að afnema eða lækka verulega skatta á fyrirtæki og einstaklingsrekstur m.a. með tímabundnu afnámi tryggingargjalds og ýmissa annarra rekstrartengdra gjalda á fyrirtæki. Einnig að afnema tímabundið svonefnda græna skatta og kolefnisjöfnunarskatta. 

Annað sem ríkisstjórnin getur gert til að auka verðmætasköpun í landinu er að heimila verulega auknar fiskveiðar við landið og þá er verið að tala um aukningu umfram tilmæli Hafrannsóknarstofnunar auk þess, sem að krókaveiðar yrðu gefnar frjálsar tímabundið. 

Líkur eru á að verðbólga hækki nokkuð í svona árferði með falli krónunnar og þá mælir neysluverðsvísitalan verulega hækkun án þess að raunveruleg verðmætasköpun standi á bakvið þá hækkun heldur öðru nær. Við þær aðstæður er nauðsynlegt til að vernda heimilin í landinu með því, að afnema tímabundið afleiðingar hækkunar vísitölunnar. Á sama tíma þarf að fara fram á það við bankakerfið í landinu að lækka vexti almennt bæði á almennum skuldabréfum til almennings t.d. til húsnæðislána og til atvinnurekstrarins. 

Grípa þarf til þessara aðgerða strax. Síðan getur þurft að grípa til frekari aðgerða ef kreppan vegna veirunnar dregst á langinn og dýpkar enn.  

Mikilvægt er að fara að ólíkt Trump í þessu efni og taka fumlausar, velígrundaðar og skynsamar ákvarðanir, sem eru líklegar til að styðja við bakið á þeim sem mest þurfa á að halda og koma í veg fyrir að almenningur í landinu þurfi að liggja óbættur hjá garði. 


Pólitísk yfirboð eða nauðsyn?

Bandaríkjamenn hafa bannað flugferðir milli Evrópu og Bandaríkjanna til að koma í veg fyrir útbreiðslu Kórónaveirunnar. Ferðabannið er vanhugsað svo vægt sé til orða tekið.

Smit greinast í öllum heimsálfum. Hefðu Bandaríkjamenn viljað vera sjálfum sér samkvæmir, hefðu þeir sett 30 daga bann á flugferðir frá öllum löndum en ekki bara Evrópu. Slíkt hefði raunar líka verið vanhugsað.

Á tímum skorts hugmyndafræðilegrar staðfestu stjórnmálamanna eiga geðþóttaákvarðanir og pólitísk yfirboð greiðari aðgang að ráðamönnum. Krampakenndar aðgerðir stjórnvalda á Ítalíu og í Danmörku í baráttunni við veiruna sýna það heldur betur. 

Enn sem komið er hafa íslensk stjórnvöld og heilbrigðisyfirvöld haldið haus og ekki farið fram með óeðlilegum glannagangi. Ákvarðanir hafa verið markvissar og fumlausar, þó að spurningamerki megi setja við það hvort eðlilegt sé að halda fullfrísku fólki í sóttkví.

Vonandi halda heilbrigðsyfirvöld áfram að nálgast vandamálið af fagmennsku án þess að láta æsingafólk, sem reynir að slá pólitískar keilur vegna alvarlegs sjúkdóms rugla sig í ríminu.

Þó þessi sjúkdómur sé alvarlegur og dánartíðni há, þá hefur hann hvergi verið með þeim hætti að það afsaki að Bandaríkjamenn, Ítalir og fleiri beiti aðgerðum sem munu leiða til gríðarlegrar kreppu á heimsvísu með enn ófyrirsjáanlegri afleiðingum en sjúkdómurinn sjálfur. 

Mikilvægast er að gæta sérstaklega að þeim sem veikastir eru fyrir, eldra fólki og fólki með undirliggjandi sjúkdóma. Ráðstafanir stjórnvalda ættu sérstaklega að beinast að því að vernda þessa hópa með þeim ráðum sem tiltæk eru. Samkomubann fullfrísks ungs fólks, lokun skóla fyrir börn og unglinga er hinsvegar ekki rétta leiðin. 

Lífið verður að fá að ganga sinn gang, þó allur sé varinn góður. Brýna verður fyrir fólki að viðhafa allar ráðstafanir til að koma í veg fyrir smit og verja veikustu hópana í þjóðfélaginu með öllum skynsamlegum ráðum. 

Þjóðfélagið á ekki að lama með krampakenndum tilefnislausum aðgerðum það mun leiða til kreppu sem yrði mun alvarlegri en tilefni er til. 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 19
  • Sl. sólarhring: 430
  • Sl. viku: 4235
  • Frá upphafi: 2449933

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 3946
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband