Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2020

Hvað svo?

Í dag segir breska stórblaðið the Daily Telegraph, að bókanir í ferðir með skemmtiferðaskipum árið 2021 hafi tekið kipp þrátt fyrir hryllingssögur af skemmiferðaskipum í sóttkví vegna C-19. Áhugi fólks á ferðalögum í framtíðinni hefur því ekki minnkað. 

Við ættum því ekki að örvænta hvað varðar íslenska ferðaþjónustu.

Miklu skiptir hvernig heimurinn bregst við á næstunni. Athyglisvert er að sjá hvernig Hong Kong brást við. Hong Kong er í nágrenni við Guangdong í Kína,sem varð illa úti vegna C-19. Faraldurinn náði sér samt ekki á strik í Hong Kong. Einn fremsti veirusérfræðingur Þýskalands Alexander Kekulé bendir á, að þeir hafi byrjað að nota andlitsgrímur fljótlega eftir að fréttist af sjúkdómnum. Hann segir að þær skipti litlu máli úti, en innandyra skipti þær miklu máli. Vígorð hans er "Kein Held ohne Maske" enginn hetja sem er án grímu. 

Mikilvægt er að þjóðfélagið komist sem fyrst í eðlilegt horf, þó brýnt verði áfram fyrir áhættuhópa að gæta sín sérstaklega. Ríkisstjórnin verður að meta heildarhagsmuni í því sambandi og getur ekki endalaust framselt vald sitt til sérfræðinga á afmörkuðum sviðum. 

Af hverju leggja yfirvöld ekki áherslu á að nægt framboð sé af andlitsgrímum og skyldi fólk til að vera með þær t.d. í verslunum og leyfi rökurum og hárgreiðslumeisturum og fleiri þjónustustéttum að vinna vinnuna sína, en skylda þá og viðskiptavinina til að vera með andlitsgrímur meðan smithætta er enn fyrir hendi. 

Mikilvægt er að þjóðfélagið komist sem fyrst í samt lag. Krafa um að fólk sé með andlitsgrímur innandyra í fjölmenni er ekki of hátt verð fyrir það. 

En hvar fáum við fullnægjandi andlitsgrímur í dag? Er það e.t.v. yfirsjón af hálfu þeirra sem öllu ráða, að hafa ekki tryggt fólki nauðsynlegan aðgang að þeim?

 


Höldum við upp á páska?

Við hugsum um páska sem upprisuhátíð, þar sem Jesús reis upp eftir krossfestinguna. Það sem gerðist á páskadagsmorgun er mikilvægasta undirstaða og grundvöllur kristinnar trúar. Það er fagnaðarerindið sem kristnu fólki ber að boða allri heimsbyggðinni. Sigur lífsins yfir dauðanum. 

Páskahátíðin var ævaforn hátíð Gyðinga og okkar upprisuhátíð, sem við nefnum líka páska á ekkert skylt við páskahátíð þeirra.

Skv. þjóðsögunni í 12. kafla annarrar Mósebókar er vísað til orðræðu guðs Gyðinga við Móse og bróður hans Aron. Guðinn segir þeim að hann ætli að deyða alla frumburði í Egyptalandi og segir þeim bræðrum að slátra gallalausu hrútlambi og rjóða blóðinu á dyrastafinn og þá muni engill dauðans fara framhjá. Guðinn sagði þeim að Gyðingar skyldu árlega halda páskahátíð árlega kynslóð eftir kynslóð til að minnast þessara fordæmalausu drápa ungbarna á grundvelli kynþáttahyggju. 

Okkar trúarbrögð hafa ekkert með páskahátíð Gyðinga að gera að öðru leyti en því, að Jesú var drepinn nokkru fyrir páskana og reis upp á páskadagsmorgun. Það að óska hver öðrum gleðilegra páska er því vafasöm skírskotun til óðgeðfelldrar hugmyndafræði um kynþáttabundin fjöldamorð framin af almættinu, en sem betur fer er skírskotun okkar vegna þeirrar kveðju, skírskotun til ljóssins og lífsins en ekki myrkursins og dauðans.  

Það er því spurning hvort kristið fólk á að tengja helstu trúarhátíð sína við páska. Saga Gyðinga um páskahátíðina og þau hryðjuverk sem þá átti að hafa verið framin er andstætt kristilegri hugsun og hugmyndafræði.

Farið og gjörið allar þjóðir veraldar að mínum lærisveinum sagði Jesú. Okkar trúarbrögð eru ekki bundin við þjóð, kynþætti litarhátt, konur, karla þræla eða frjálsborna.

Boðun Jesú er fyrir alla og ítrekað kemur fram í okkar fræðum og frumkristninni að: "Guð fer ekki í manngreinarálit."  Páskaboðskapur Gyðinga á því ekkert skylt við kristna boðun. 

Páskahátíð Gyðinga vísar til dauða, fordóma og kynþáttahyggju. Okkar páskahátíð visar til þess gagnstæða. Lífsins, upprisunnar, vonarinnar um endurlausn og eilíft líf sem býðst öllu fólki fyrir góð verk og trúna á Jesú Krist. Minnumst þess fagnaðarboðskapar hvort heldur við óskum fólki gleðilegra páska eða gleðilegrar upprisuhátíðar. 

Gleðilega upprisuhátíð kæru vinir. 


Vorboðinn ljúfi

Menn hafa misjafna hluti til marks um það að vorið eða sumarið sé í nánd. Í Bandaríkjunum treysta menn á viðbrögð snjáldurdýrs. Listaskáldið góða orti um vorboðann ljúfa, farfuglinn sem fór til Ísalands til að kveða kvæðin sín. 

Lóan hefur verið sá vorboði sem flestir Íslendingar hugsa til þegar talað er um vor og komandi sumar. Þó lóan komi þá hefur það sýnt sig að við þurfum samt að sitja undir hríðarbyljum og harðindum eftir komu hennar.. Lóan er því ekki óbrigðul í langtímaspánum frekar en Veðurstofan síðustu 100 ár. 

Sumir horfa til hrafnana og hvernig þeir haga sér. Mér hefur sýnst, að þegar hrafnar hópast til byggða, þá er það ávísun á harðindi og vont veður. Þegar þeir fara úr nánu sambandi við mannheima þá er það vísbending um batnandi tíð og blóm í haga.

Skv. því er hrafninn þá vorboðinn ljúfi fuglinn trúr sem fer. Þegar hrafninn fer má búast við að aftur komi vor í dal.  


Leiðindi á pallborði stjórnmálanna.

Fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins segir í grein í Fréttablaðinu, að krafan um að hlutir séu skemmtilegir til að geta talist áhugaverðir sé meira nútímafyrirbrigði. Greinin heitir raunar pópúlismi eða alvörugefin pólitík, en þá má ætla, að greinarhöfundur telji pópúlismann skemmtilegann og andstæðu hans alvörugefna póitík.

Margir sem hafa fylgst hvað lengst með stjórnmálum eru sammála um að pólitíkin hafi verið til muna skemmtilegri þegar greinarhöfundur sat sjálfur á þingi, eða jafnvel fyrr. Sagan sýnir, að fjarri fer því að hægt sé að setja samasem merki á milli leiðinda og alvörugefinnar pólitíkur hvorki þá né síðar. Nægir að benda á Abraham Lincoln og Winston Churchill svo dæmi séu tekin af erlendum vettvangi.

Stjórnmálamennirnir Ólafur Thors, Jóhann Hafstein og Gunnar Thoroddsen voru alvörugefnir stjórnmálamenn og sinntu störfum sínum af gjörhygli. Samt voru þeir skemmtilegir og ræður þeirra leiftrandi. Sama má segja um Bjarna Benediktsson, sem með skarpri meitlaðri rökhyggju gerði andstæðinga sína iðulega hlægilega þegar hann sýndi fram á málefnasnautt gaspur þeirra. 

Samasemmerki á mill þess að vera skemmtilegur og vondur stjórnmálamaður eða leiðinlegur og góður stjórnmálamaður er ekki til staðar.

Margir forustumenn af vinstri vængnum, áður fyrr, voru miklir húmoristar. Því miður virðist húmorinn þó að mestu hafa yfirgefið þennan hóp stjórnmálamanna einkum þó og sér í lagi Samfylkinguna. Eini húmoristinn sem eitthvað hvað að í þeirra röðum Össur Skarphéðinsson er ekki lengur á þingi fyrir flokkinn, sem varð við það jafnleiðinlegasti stjórnmálalflokkur landsins. Systurflokkur Samfylkingarinnar, Viðreisn, sem greinarhöfundur þekkir vel til virðist ætla að feta dyggilega í fótspor Samfylkingarinnar að þessu leyti sem öðru.  

Ef illa fer í íslenskri pólitík þá gæti það orðið til myndunar  leiðinlegustu ríkisstjórnar í sögu landsins með atbeina Viðreisnar og Samfylkingar.

Guð forði okkur frá þeirri ógæfu og bið ég þó almættið afsökunar á því að leggja nafn þess hér við þvílíkan hégóma.

 

 


Lokaðar kirkjur

Svo mjög hefur kristnum þjóðum fleygt fram í trúleysi sínu, að nú þykir rétt á viðsjárverðum tímum, að skella öllum kirkjum í lás og stunda sjáluhjálp á netinu.

Í 2000 ár hafa kirkjur verið griðastaður trúðara, á hverju sem hefur dunið. Drepsóttir og styrjaldir hafa ekki megnað að loka kirkjum. Þvert á það sem nú er, þá hafa kirkjunnar þjónar talið það vera mikilvæga skyldu sína að veita styrk í neyð með vísun til kristinnar trúar og lagt áherslu á mátt bænarinnar og einstaklingsbundna aðstoð og sáluhjálp. Nú opna prelátar  fjarfundarbúnað og básúna út í tómið.   

Af gefnu tilefni vegna helstu raunverulegu trúarhátíðar kristins fólks, sem fer í hönd í Dymbilviku og upprisuhátíðinni í framhaldi hennar, þá er vert að spyrja hvort kirkjuleg yfirvöld hafi farið fram á að hafa messur á föstudaginn langa og páskadag, með þeim hætti að fyllsta öryggis sé gætt, varðandi fjarlægð kirkjugesta hver frá öðrum o.fl. 

Kirkjulegar athafnir eru því miður jafnan illa sóttar og á það líka við um messur á upprisuhátíðinni. Sú kirkja er ekki til á höfuðborgarsvæðinu og víðar, þar sem messur geta ekki farið fram þannig, að tryggt sé að meir en tveir metrar séu á milli kirkjugesta. Vandamálið er þá, að fá undanþágu frá hámarksfjölda á samkomum og gera ráðstafanir sem eru í sjálfu sér einfaldar til að tryggja sóttvarnir og öryggi kirkjunnar þjóna og þeirra sem vilja taka við kristilegum boðskap. 

Telji yfirstjórn þjóðkirkjunnar enga ástæðu til að sækjast eftir því að opna kirkjur og veita þá þjónustu sem kirkjunni er ætlað að veita að viðhöfðum öryggisreglum, þá er hætt við því að hin hefðbundna kirkja hafi týnt hlutverki sínu og muni í framtíðinni standa í enn stærra tómi vantrúar og vonleysis.

Uns til þess kemur að virk kristileg boðun leysi hana endanlega af hólmi. 


Sök og ábyrgð Kínverja

Kínverjar reyndu í lengstu lög að þegja staðreyndir um C-19 í hel. Afleiðingin er sú,að hnattrænn faraldur sem kostar þúsundir mannslífa geisar nú um alla veröld.

Afhverju sögðu Kínverjar ekki frá og lugu til um C-19 í langan tíma. Er það e.t.v. í eðli ráðstjórnarríkja, að reyna að láta hlutina alltaf líta öðruvísi út en raunveruleikann.

Aðrar þjóðir gátu ekki brugðist við sjúkdómnum. Í tæpa tvo mánuði þögðu stjórnvöld í Kína þunnu hljóði eða gerðu lítið úr ástandinu. Farþegaflug að og frá Kína gekk sinn vanagang.

Kínverjar lýstu yfir sigri í baráttunni við C-19 þ.19 mars og létu stórkallalega yfir þeim mikla árangri sem þeir hefðu náð og buðu fram aðstoð. En þrátt fyrir að sigri hafi verið lýst yfir í Kína þá er C-19 því miður enn á kreiki í því landi. Ný smit eru greind daglega en Kínverjar segja að það séu allt smit sem séu vegna fólks sem kemur erlendis frá. Spurning er hvort Kínverjar ætli enn á ný að reyna að koma í veg fyrir að staðreyndir um það sem er að gerast nú, berist frá landinu. 

Það er síðan tímanna tákn, að yfirmaður WHO skuli lýsa yfir aðdáun sinni á því hvað Kínverjar hafi staðið sig vel í baráttunni gegn C-19,þrátt fyrir að fyrir liggi að þeir bera ábyrgð á dauða þúsunda vegna þess að þeir reyndu að koma í veg fyrir fréttaflutningi af málinu og vöruðu þjóðir heims ekki við í tíma.

Það eru engir sem bera eins mikla ábyrgð á þessum heimsfaraldri og Kínverjar. En eru þjóðir heims tilbúnir til að gera kröfur til að þeir greiði skaðabætur vegna atferlis síns eða beita þá refsingum vegna þess ábyrgðarleysis sem þeir hafa sýnt af sér gagnvart öryggi borgara annarra þjóða m.a. okkar?


Ólíkt hafast menn að.

Ráðherrar í ríkisstjórn Filipseyja hafa ákveðið að gefa 75% af launum sínum til að hjálpa til við baráttuna gegn Covid 19 veiruna. 

Á Íslandi ákvað ríkisstjórnin að fresta launahækkunum sínum til áramóta. 


Andlitsgrímur.

Austurríki skyldar fólk til að vera með andlitsgrímur í stórmörkuðum og í þýsku borginni Jena er skylt að vera með andlitsgrímur í búðum flugvélum, lestum og strætisvögnum. Tékkar, Slóvakar og Bosnia Herzegovinia ganga enn lengra og skylda fólk til að nota andlitsgrímur á almannafæri. 

Skv nýrri rannsókn sem Daily Telegraph vitnar til í dag kemur fram að noti fólk sem er sýkt af C-19 eða álíka veirum andlitsgrímu, þá dregur það verulega úr fjölda sýkinga sem berast út í andrúmsloftið.

Á sama tíma bendir þýskur sérfræðingur í veirufræðum prófessor Hendrik Streeck á, að það sé í lagi að fara á hárgreiðslustofu eða til rakara, Covid 19 smit berist ekki eins auðveldlega og fólk haldi.

Prófessor Streeck bendir á, eftir rannsókn á heimili sýktrar fjölskyldu hafi ekki verið hægt að finna lifandi C-19 veiru á neinu yfirborði m.a. símum og hurðarhúnum. Þá bendir hann á, að fyrsti C-19 smitaði Þjóðverjinn hafi smitað þá sem voru að borða með henni, en ekki aðra gesti í matsalnum eða á hótelinu. 

Hann segir að C-19 hafi dreifst á fótboltaleikjum,kúbbum og börum og ennfremur "Við vitum að það er ekki um snertismitun að ræða þegar fólk snertir hluti, heldur smitast fólk vegna nándar hvort við annað eins og t.d. á dansgólfinu, fótboltaleikju, skíðabrekkum og við hátíðarhöld.

Þetta tvennt er athyglisvert og hafi Streeck rétt fyrir sér eins og rannsóknir hans sýna, þá hefur spritt- og hanskanotkun sáralitla jafnvel enga þýðingu til að draga úr smiti, þó hvorutveggja stuðli að almennu hreinlæti.

Það er hinsvegar nánd fólks sem skiptir máli við útbreiðslu C-19. Tveggja metra fjarlægðin er því skynsamleg og til þess fallin að koma í veg fyrir smit. En þá skiptir máli líka, að fólk noti andlitsgrímur úti við til að forðast að dreifa smiti. 

Væri ekki eðlilegt að Veirutríóið tæki það til alvarlegrar skoðunar miðað við það sem komið hefur í ljós, að skylda fólk eða alla vega mæla með að fólk væri með andlitsgrímur í stórmörkuðum, almenningsfarartækju og við  ýmis önnur tækifæri.

Þó ég viðurkenni, að ákveðin hjarðhegðun sé nauðsynleg við aðstæður eins og þessar sbr. "ég hlýði Víði," þá er nauðsynlegt í lýðræðisríki að ræða hlutina og komast jafnan að bestu niðurstöðunni miðað við þekkingu okkar hverju sinni. Því enn gildir það, að mennirnir eru ekki Guðir og enginn er óskeikull.  

  


Heilbrigðiskerfið

Íslenska heilbrigðiskerfið er greinilega eitt það besta sem til er í heiminum. 

Í Covid fárinu sem herjar nú á lönd og álfur verður ekki annað séð miðað við það sem kemur fram á hinum ýmsustu fréttastöðvum erlendis, en að íslenska heilbrigðiskerfið sé að standa sig best í baráttunni við Covid veiruna og sinna þeim sjúklingum vel sem þurfa á spítalavist og sérhæfðum búnaði að halda. 

Dánartíðni af veirunni er enn lægst hér og vonandi verður svo áfram.

Þó alltaf megi að öllu finna og fráleitt annað en gerð séu á stundum mistök í svo viðkvæmum málum sem heilbrigðisstarfsfólk þarf að fást við. Þó mistök eigi sér stað, þá verður alltaf að skoða hver er heildarárangurinn og gæðin í alþjóðlegum samanburði

Undanfarin ár hefur heyrst margraddaður söngur úrtölu- og sjálfshirtingarfólks, sem hefur kyrjað það að heilbrigðiskerfið væri ónýtt. Meira að segja hafa samtök og félög lækna sent hin ýmsustu betli- og kröfubréf þannig orðuð að heilbrigðiskerfið væri ónýtt. Jafnvel svo að biði upp á almannahættu.

Þær staðreyndir sem blasa við okkur í dag ættu að sýna, hversu glórulaus opinber umræða getur stundum verið á landi hér. 


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 61
  • Sl. sólarhring: 604
  • Sl. viku: 3002
  • Frá upphafi: 2294621

Annað

  • Innlit í dag: 57
  • Innlit sl. viku: 2735
  • Gestir í dag: 57
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband