Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2022

Ólíkt höfumst við að

Upp komst um símhleranamál í Bretlandi 2005-2007. Blaða-og fréttamenn ákveðinna miðla stunduðu símhleranir og ólöglegt niðurhal og birtu af því fréttir  einkum í News of the World. Blaðamennirnir sem og forstjóri, ritstjórar o.fl. voru látnir hætta strax og rannsóknin fór af stað. Breskir fjölmiðlar fordæmdu þessa ólöglegu framgöngu kollega sinna innan Murdoch fjölmiðlasamsteypunnar. 

Hér hefur verið til rannsóknar stuldur á farsíma ákveðins manns meðan hann lá meðvitundarlaus, ólöglegt niðurhal og  birting frétta í ákveðnum fjölmiðlum af þessu ólögmæta niðurhali,sem m.a. RÚV tengist og nokkrir aðrir miðlar. 

En hér segir engin af sér og fjölmiðlar þegja allir þunnu hljóði um efnisatriði málisins. Samsæri þagnarinnar ríkir.  Páll Vilhjálmsson bloggari hefur þó verið iðinn við að segja frá þeirri meintu glæpastarfsemi, sem að tengist m.a. starfsfólki RÚV og fleiri miðla.

Þrátt fyrir að nokkrir blaða- og fréttamenn liggi undir grun um ólöglegan stuld á síma og ólöglegt niðurhald úr honum þegar eigandinn lá milli heims og helju á sjúkrahúsi, þá hefur umræðan hér verið með öðrum hætti en í símaskandalnum í Bretlandi.

Hér fara þeir sem liggja undir grun ítrekað fram með þeim hætti að halda því fram, að stöðu sinnar vegna eigi þeir að vera undanþegnir ábyrgð á meintum lögbrotum. Málsstaðurinn sé auk þess góður. En það eru fleiri sem taka þátt í þessari ömurlegu ómálefnalegu vörn sakborninga. 

Leiðari Fréttablaðsins í gær sló raunar allt út í fáránleika í umfjöllun um sakamál þegar reynt var að afsaka meinta brotastarfsemi fjölmiðlafólks á RÚV og viðar.

Leiðarahöfundur heldur eftirfarandi fram:

1. Rannsókn sem beinist að blaða- og fréttamönnum vegna farsímastulds o.fl. er smjörklípu afsprengi ljóts spillingarmáls í Namibíu. 

2. Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra liggur undir ámæli fyrir að vera ekki faglegur og hann gangi erinda Samherja.

Hvað svo sem líður Samherja og meintum brotum þess fyrirtækis, þá hefur það ekkert með að gera rannsókn á farsímaþjófnaði frá einstaklingi og ólöglegu niðurhali úr símanum. Engu skiptir í því máli þó að viðkomandi einstaklingur hafi verið starfsmaður Samherja. En við lestur leiðarans þá verður ekki annað séð, en að leiðarahöfundur telji að meint brot kollega hennar skipti í raun ekki máli þar sem að hinn illi Samherji sé vinnuveitandi þess, sem varð fyrir barðinu á meintu afbroti.

Svo er spurning undir hvaða ámæli liggur lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra fyrir utan hina grunuðu í málinu og þeirra sem þeim tengjast? Ekki nokkurs.

Þá lágmarskröfu verður að gera til leiðarahöfunda að þeir geri sér grein fyrir orsökum og afleiðingum og greini á milli aðalatriða og gjörsamlega ótengdra atriða. Það gerir leiðarahöfundur Fréttablaðsins ekki í fáránlegri vörn sinni fyrir það athæfi kollega hennar, sem nú er til rannsóknar.

Það er dapurlegt að verða ítrekað vitni að því að blaða- og fjölmiðlamenn átti sig ekki á þeim lagalegu grunnstoðum sem við byggjum á m.a. að hver skuli talinn saklaus þangað til sekt er sönnuð og allir séu jafnir fyrir lögunum.   

 

 


Glæsilegur sigur hægri manna á Ítalíu. Til hamingju Ítalía.

Hægri fylkingin á Ítalíu vann góðan sigur í þingkosningunum í gær. Talið er að hægra bandalagið muni fá allt að 60% þingsæta í báðum deildum ítalska þingsins.

 

Sigurvegari kosningana er Giorgia Meloni í flokki sem fjölmiðlaelítan á Vesturlöndum  hefur stimplað sem fasistaflokk. Þegar stefna Meloni og flokks hennar er skoðuð, þá verður ekki séð að um svonefndan hægri öfgaflokk sé að ræða eða stjórnlyndan andlýðræðissinnaðan flokk eins og fasistar voru. 

Nú þegar Meloni hefur unnið góðan sigur og fylgi rúmlega 26% þjóðarinnar og hægri fylkingin með góðan meirihluta, þá segja þessir sömu fjölmiðlar að nú fái Ítalía hægri sinnuðustu stjórnna frá því að gamli Benito Mussolini var við völd fyrir 100 árum. Hugmyndafræði hans var hinsvegar rótfest í sósíalisma og hann var pennavinur Lenin. Stjórn Mussolini var því engin hægri stjórn, en vonandi verðu stjórn Meloni það og því ólík stjórn Mussolini.

Sérkennilegt að konur skuli ekki fagna því, að kona verði forsætisráðherra í fyrsta skipti á Ítalíu. E.t.v. passar það ekki vinstri sinnaðri femínistahreyfingu að gera það. 

En hver eru helstu baráttumál Meloni og flokks hennar?

Aðaláherslan er fjölskyldan og hefðbundin fjölskyldugildi. Er það öfgafull hægri stefna?

Í annan stað leggur Meloni áherslu á að stjórna með þeim hætti, að fólk verði stolt af því að vera Ítalir. Sjálfsagt ofstopafull hægri stefna eða hvað?

Hún hafnar því að samtökin 78 hafi með kynfræðslu í skólum Ítalíu að gera. Eitthvað sem að íslensk stjórnvöld og bæjarstjórnir ættu líka að gera enda sérstakt þegar kirkjan má ekki koma með sína boðun í skólana, en transarar mega prédika fagnaðarerindi kynskiptaaðgerða. 

Meloni vill að Ítalir taki stjórnina á landamærum landsins og takmarki innflutning fólks. Er það öfgafull hægri stefna að vilja stjórna landamærum eigin ríkis. Valdhafarnir í Brussel segja það.

Sú afstaða Meloni, að hafna kynfræðslu samtakanna 78 á Ítalíu og berjast gegn óheftum innflutningi og útbreiðslu Íslam á Ítalíu hefur orðið til þess að Evrópusambandið og Gilitrutt von der Leyen hóta öllu illu ef stjórn Meloni ætlar að gera alvöru úr því að framkvæma stefnu sína í innflytjendamálum og hafna forsjá samtakanna 78 í kynfræðslumálum skólabarna.

Þá liggur það alla vega fyrir hvað eru mikilvægustu og hjartfólgnustu baráttumál Evrópusambandins og þingmenn á Íslandi mættu skoða það hvort þeir vilja lúta yfirþjóðlegu valdi eins og strákana í Brussel og sætta sig við það að geta ekki tekið sínar eigin pólitísku ákvarðanir án þess að eiga það á hættu að Evrópusambandið beiti refsiaðgerðum. 

Raunar má segja að sigur Meloni og félaga hafi um leið verið ósigur Evrópusambandsins. Nú bætist Ítalía í flokk með Pólverjum, Slóvökum og Ungverjum o.fl., sem hafna stefnu Evrópusambandsins í þessum málum og gera kröfu til þess að njóta fullveldis varðandi það hvað börnum er kennt í skólum og hverjir fái að setjast að í löndum þeirra. 

Er það virkilega svo, að það sé stór hópur þingmanna á Íslandi,sem vill afsala fullveldi íslensku þjóðarinnar til Brussel og sæta því að búa við ógnanir, hótanir og refsiaðgerðir Evrópusambandsins ef ekki er farið að því sem valdhafarnir í Brussel vilja. Það er nauðsynlegt að afhjúpa þá, sem vilja selja fullveldi þjóðarinnar fyrir baunadisk eins og Esaú gerði forðum þegar hann afsalaði sér fæðingarrétti sínum.

 


Kominn tími til að breyta.

Fáir hefðu trúað því,að forsætisráðherraskipti í Bretlandi mundu leiða til mikilla pólitískra breytinga. Sami flokkur, annað fólk.

Forsætisráðherran, Liz Trusss ætlar að stjórna á hugmyndafræðilegum forsendum hægri manna. Þó Íhaldsflokkurinn hafi verið í ríkisstjórn síðustu 10 ár, þá hefur ríkisbáknið þanist út og skattheimta aukist. Til hvers var þá barist?

Það verður að breyta þessu segir Liz Truss og fjármálaráðherra hennar Kwasi Kwarteng og fylgja loforðum og stefnumálum, hægri manna um að draga úr umsvifum ríkisins og lækka skatta.

Kwasi Kwarteng fjármálaráðherra lagði fram fjárlagafrumvarp sitt í síðustu viku og þar komu fram breytingar sem miða við að auka samkeppni í þjóðfélaginu, laða að alþjóðlega fjárfestingu m.a. með skattalækkunum. Stefnt er að auknum hagvexti með því að gefa borgurunum tækifæri til að nota peningana sína sjálfir í auknum mæli í staðinn fyrir að ríkið ráðskist með þá í allskonar millifærslum og gæluverkefnum.

Mikið hefði verið ánægjulegt, að sjá samskonar stefnumótun hér á landi varðandi báknið og fjárlagafrumvarpið. 

Það þarf að lækka skatta hér og megra ríkisbáknið, þók ekki væri til annars en að fólk hefði aukna möguleika til fjárfestinga t.d. í íbúðarhúsnæði.

Er ekki löngu tímabært að lækka tekjuskatt, tryggingargjald, fjármagnstekjuskatt og hætta að vaða í aldraða og öryrkja með því að skattleggja lágmarkstekjur sem og sparnað eldri borgara sbr.séreignarlífeyrissparnað. 

Ísland þarf á því að halda ekki síður en Bretland, að vikið sé af leið vinstri manna um upptöku fjármuna einstaklinga, gegndarlausra millifærslna og sívaxandi ríkisbákns þar sem meir en helmingur vinnuaflsins vinnur nú orðið hjá hinu opinbera. Það getur aldrei gengið. 

Það er löngu tímabært að fara í markvissa stefnumótun til að draga úr ríkisbákninu og ofurskattheimtunni á stjórnmálalegum forsendum í stað þess að láta möppudýrin í stjórnarráðinu, ein, ráða ferðinni. 


Ekki sama hver ræðst á hvern

Fyrir ekki alllöngu réðist her Aserbadsjan á Armena og hernámu mikið land og hröktu íbúana á flótta. Sú innrás ólíkt innrás Rússa í Úkraínu varð ekki tilefni til aðgerða af hálfu Bandaríkjanna eða Evrópusambandsins.

Engar refsiaðgerðir voru boðaðar og engar heitingar gagnvart árásaraðilanum Aserbadjan eða viðbúnaður. Rússum og Tyrkjum tókst að ná samningum um vopnahlé,en Vesturveldin létu eins og þeim kæmi þetta ekki við. 

Af hverju eru viðbrögðin svona ólík þegar innrásarlið ræðst inn í Armeníu annarsvegar og inn í Úkraínu hinsvegar?

Enn og aftur er það síðan sorglegt, að Vesturveldin, Evrópa og Bandaríkin, skuli ekki eiga neinn leiðtoga með framtíðarsýn og myndugleika til að koma á friði milli Úkraínu og Rússlands. Það hefði þurft að gera fyrir hálfu ári síðan.

Hætt er við því núna þegar harðnar á dalnum  hjá leitogum Rússlands, að þeir freistist til að grípa til örþrifaráða. Gagnvart slíkum aðilum er mikilvægt að standa fastur á sínu, en sýna sanngirni í leiðinni. 

 


mbl.is Vopnahlé á milli Armeníu og Aserbaídsjan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskipti í Svíþjóð

Þegar örfá atkvæði eru ótalin í sænsku kosningunum er hægri blokkin með meirihluta og tekst vonandi að koma á starfhæfri ríkisstjórn.

Stórtíðindi kosninganna er að Svíþjóðardemókratarnir eru orðnir næststærsti flokkur Svíþjóðar með yfir 20% fylgi. Við sem eigum hugmyndafræðilega samleið í innflytjendamálum með Svíþjóðardemókrötum bæði fögnum þessari niðurstöðu og óskum þeim til hamingju með gott starf og árangur. 

Hingað til hafa aðrir hægri flokkar komið fram við Svíþjóðardemókratana eins og þeir séu óhreinir. Góðir til að styðja hina, en eigi samt engu að ráða. Þannig er ekki hægt að fara að í pólitík og þessi afstaða tryggir eingöngu sósíalistum áframhaldandi völd. 

Staðreyndin er sú, að einn af hverjum 5 Svíum telja Svíþjóðardemókratana hæfasta til að leiða landsstjórnina. Það þýðir því lítið fyrir talsmenn flokka með 5-6% fylgi að vandræðast með að þeir séu ekki nógu góðir. Kjósendur hafa alltaf síðasta orðið í lýðræðisþjóðfélagi.

 

Svíar þrufa að fá góða starfhæfa ríkisstjórn hægri manna til að taka á orkuvandamálunum, bregðast við glæpagengjunum og vandamálum sem innflytjendastefna Svíþjóðar hefur valdið. Það er brýnt að vitræn ríkisstjórn taki við í Svíþjóð eftir langvarandi óstjórn sósíalista þar sem allt hefur rekið á reiðanum og ástandið orðið verra og verra. 


Sænskir sósíalistar sýna sitt rétta andlit

Vel til fundið hjá sósíalistum í Svíþjóð, að halda lokafund kosningabaráttunnar í Rinkeby hverfinu í Stokkhólmi. Þar hamaðist forsætisráðherran að Svíþjóðardemókrötum og kallaði þá öllum hefðbundnum illum nöfnum. Hún minntist hins vegar ekki á, að í Rinkeby hverfinu eru fjölmargir íbúar, í tengslum við Hamas, Hezbollah, Abu Nidal o.fl. hryðjuverkasamtök Íslamista og fannst allt í lagi að vera í samneyti með þeim.

Sósíaldemókratar eiga mikið fylgi í Rinkeby hverfinu þar sem um 90% íbúa eru innflytjendur eða afkomendur innflytjenda. Svo margir Sómalar búa í þessu hverfi, að það hefur stundum verið uppnefnt litla Mogadishu. Óeirðir eru tíðar í hverfinu, mikið um glæpi og eignaspjöll. Ráðist var ítrekað á lögreglustöðina og þegar byggja þurfti nýja,  neituðu verktakar að fara inn í hverfið nema að fá lögregluvernd. 

Í þessu umhverfi virðist sósíalistum í Svíþjóð líða best enda eiga þeir mest fylgi þar sem innflytjendur eru flestir. 

Það er dapurlegt að horfa upp á þessa miklu hnignun og þjóðfjandsamlegu stefnu sænskra sósíalista. Vonandi bregðast kjósendur við með að kjósa þá ekki, en greiða þess í stað Svíþjóðardemókrötunum og Moderata Samlingspartiet atkvæði sitt. 

Svíþjóðardemókratar hafa heldur betur unnið til þess, að Svíar veiti þeim öflugt brautargengi. Þeir hafa verið rödd skynseminnar í innflytjendamálum og mátt þola útilokun stjórnmálastéttarinnar og fjölmiðla, en hafa samt aukið fylgi sitt í hverjum kosningum og vonandi gengur það eftir í dag. 

Svíþjóð þarf að skipta um stefnu í innflytjendamálum og huga að hagsmunum sænskra borgara, eflingu sænskrar menningar og þjóðlegra gilda. Raunar er brýn nauðsyn að Ísland geri það líka ef þeir vilja komast hjá að lenda í sama öngþveiti og Svíar.

Undir stjórn sósíalista þar sem innflytjendastefnu þeirra hefur verið framfylgt og ekki má segja frá neinu sem þá varðar, hefur glæpatíðni aukist gríðarlega, fjöldi nauðgana er hlutfallslega mest í Svíþjóð í veröldinni, mörg hverfi eru lokuð innflytjendahverfi og skotárásir eru orðnar daglegt brauð í þessu áður fyrirmyndarríki. 

Vonandi sjá sænskir kjósendur að það þarf gjörbreytta stefnu í innflytjendamálum, stefnu þar sem hagsmunir sænskra borgara eru í öndvegi.

 


Heimurinn syrgir

Konungbornir verða ekki eilífir frekar en aðrir. Loðvík 14. Frakkakonungur var aldrei verið sáttur við að vera minntur á það. Helsta ráðgjafa hans varð einu sinni á orði "Allir deyjum við"  þegar hann sá svipinn á kóngi bætti hann við "eða næstum því allir."

Háöldruð drottning Stóra Bretlands er fallin frá. Hún naut þess, að vera landi sínu og þjóð ævinlega til sóma, þó hún hefði aldrei afgerandi áhrif á gang þjóð- eða heimsmála. Eðlilegt er að hennar nánustu syrgi hana sem og þegnar hennar minnist hennar sem farsæls þjóðarleiðtoga.

Elísabet var síðustu rúma tvo áratugi eins og góð gömul frænka eða amma, sem allir gátu látið sér líka vel við. Þegar slíkur aðili kveður eru vissulega kaflaskil og þá er spurning þegar sorgarathöfnum lýkur hvað gera skuli. 

Hvað með konungdæmið. Er það eðlilegt í lýðræðisríki?

Konungdæmið byggir á því að konungafólk sé æðra og öðruvísi en aðrir. Þeir eiga að hafa þegið vald sitt frá Guði og það tekur ekki bara til drottningar eins og Elísabetar heldur ættarinnar. Konungdæmi er andstæða lýðveldis, þar sem forustumaður þjóðar er þjóðkjörinn og allir borgarar eru jafnir. 

Mannréttinda- og lýðræðissinninn Thomas Paine, en hugmyndir hans koma m.a. fram í Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna, skrifaði metsöluritgerð á 18.öld sem hét "Common sense"(almenn skynsemi) Almenna skynseminn var fólgin í því að vera ekki með konung eða aðal. Paine segir að konungdæmi sé mikilvægasta uppgötvun djöfulsins til að viðhalda hjáguðadýrkun. 

Í Bretlandi tekur sonur hinnar ástsælu drottningar við. Fjarri fer því að hann sé yfirburðamaður að þekkingu eða mannviti. Hann hefur m.a. tvívegis spáð heimsendi vegna loftslagshlýnunar, án þess að nokkuð gerðist. Karl 3 telur, að hann sé meiri en aðrir í Bretlandi og þó víðar væri leitað þar sem Guð hefur valið hann eins og aðrar dúkkulísur og tindáta sömu gerðar. 

Væri ekki eðlilegt að lýðræðisríki mundu afnema þessa fokdýru fordild og skurðgoðadýrkun sem byggir í raun á andstæðu lýðræðislegra hugmynda?


Að snúa hlutum á haus.

Formaður Moderata Samlingspartiet(mið-hægriflokkur) leggur áherslu á að Svíar taki kjarnorkuver í notkun að nýju. Það mátti sósíalistinn forsætisráðherra ekki heyra og staðhæfði, að þá væri samstaða Evrópu rofin og þetta væri í þágu Pútín. 

Þarna var hlutum gjörsamlega snúið á haus. Það eru augljósir hagsmunir Svía að vera sjálfum sér nógir í orkumálum og þurfa ekki að leita á náðir Rússa til að fólk geti hitað heimili sín, kveikt á ljósaperum eða ekið rafmagnsbílum. Grænu lausnirnar og vindmyllurnar eru aumur valkostur þegar allt kemur til alls.

Í ræðu á Alsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna 2018 sagði Donald Trump þá Bandaríkjaforseti, að Þjóðverjar yrðu algerlega háðir Rússum með orkuöflun ef þeir héldu svona áfram. Þá var ekki brugðist við og sagt þetta er bara Trump af "framsýnu" stjórnmálaelítunni í Evrópu.

Svíar væru heldur betur í betri stöðu ef þeir hefðu hlustað á Trump og brugðist við í stað þess eins og sænski forsætisráðherrann gerði að stinga höfðinu í sandinn eins og strútur og færa Pútín öll trompspilin í hendurnar. Vonandi hafna sænskir kjósendur þessum sósíalska ruglanda í kosningunum


Örbirgð og kuldi

Stjórnmálastétt Evrópu, hefur um árabil hamast við að loka orkuverum og stuðla að svonefndum orkuskiptum, til þess, að koma í veg fyrir hlýnun af mannavöldum. Afleiðingin er hærra orkuverð til neytenda og heljartak Rússa á orkusölu.

Vinur minn í Danmörku á twin bifreið segir orkuverðið svo hátt, að honum detti ekki í hug að keyra á rafmagni, það sé miklu dýrara en bensínið.

Nú eru verksmiðjur í Evrópu, að draga úr framleiðslu og fólk býr sig undir helkaldan vetur. Orkuverð er svo hátt, að fólk hefur ekki efni á að hita húsin sín. 

Afleiðing af glórulausu ofstæki í orkumálum og hjátrú loftslagsbreytinga, verður til þess, að í vetur verður helkuldi víða á heimilum í Evrópu,af því að fólk hefur ekki efni á að hita upp. Framleiðsla dregst saman og örbirgð eykst vegna minni þjóðarframleiðslu. 

Kaldhæðni örlaganna verður þá, að fjöldi þeirra sem deyr úr kulda í Evrópu margfaldast vegna tilrauna stjórnmálastéttarinnar til að koma í veg fyrir að fólk deyi úr hita.

Því miður virðist íslenska stjórnmálaséttin jafnlangt gengin í ruglandanum og sú evrópska og hefur skuldbundið þjóðina til að greiða milljarðatugi á næstu árum á grundvelli Parísarsamkomulagsins svonefndas, sennilega af því að fólki finnst vera allt of  hlýtt á Íslandi. 

Á sama tíma berst forusturflokkur ríkisstjórnarinnar Vinstri grænir gegn því að vistvæn vatnsafls orkuver verði reist í landinu en hyggst leysa vandann með því að drita niður vindmyllum um allar koppagrundir. 

Væri ekki ráð að aftengja Vinstri græna frá forustu í íslenskri pólitík áður en þeir ná því marki að skapa sama ástand hér og ríkir nú í Evrópu.


Tjaldað til einnar nætur

Þegar nokkur sveitarfélög sömdu við ríkið um móttöku ólöglegra innflytjenda, töldu sveitarstjórnarmenn sig vera að gera góða samninga og peningar streymdu í bæjarsjóð. 

Þau lögðust á árar ásamt ýmsum öðrum skammtíma hagsmunaaðilum, við að troða sem flestum ólöglegum innflytjendum inn í landið og verja gjörsamlega galna stefnu um opin landamæri. 

Að því hlaut að koma að þessi stefna gengi ekki upp. 

Staðan er sú að þeir sem koma til landsins ólöglega eru komnir til að vera og er nánast aldrei vísað burt og jafnvel þó að dómar hafi fallið um að þeir séu hér ólöglega halda þeir samt styrkjum frá ríkinu, sem er ekkert annað en fráleit og siðlaus meðferð á almannafé.

Sveitarfélögn tjölduðu til einnar nætur og eru nú að uppskera eins og þau sáðu. Kostnaður við hælisleitendur er óendanlegur. 

Svo furðar fólk sig á því að það sé skortur á íbúðarhúsnæði, heimilislæknum, dagheimilum, skólum o.s.frv. og setur það almennt ekki í samband við þann fjölda, að hælisleitenda, sem streymir til landsins og allt fólk þarf almenna þjónustu. 

Hvernig stendur á því að það er ekki meirihluta vilji fyrir því á Alþingi að taka upp svipaða stefnu í innflytjendmálum og Danir hafa tekið upp. Af hverju viljum við hafa greiðustu leiðina fyrir innflytjendur til okkar. Hún þýðir bara það eitt, að við fáum ekki lengur við neitt ráðið svipað og bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur nú áttað sig á. 

Alþingi verður að breyta lögum um innflytjenda- og hælisleitendamál þannig að þau veiti ólöglegum innflytjendum eða svonnefndum hælisleitendum ekki greiðari leið til velferðarkerfisins á Íslandi en nágrannalanda okkar. 

Það verður fróðlegt að fylgjast með störfum Alþingis í þessum málum í vetur og sjá hvort meirihlutinn vill standa með þjóð sinni og velferð hennar eða halda áfram á þeirri braut opinna landamæra, sem kostar gríðarlega fjármuni og það er bara byrjunin með óbreyttri stefnu. 

 

 

 


mbl.is Innviðir sprungnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 114
  • Sl. sólarhring: 1290
  • Sl. viku: 5256
  • Frá upphafi: 2469640

Annað

  • Innlit í dag: 104
  • Innlit sl. viku: 4812
  • Gestir í dag: 104
  • IP-tölur í dag: 104

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband