Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2023

Hvað með Sýrland?

Hræðilegir jarðskjálftar riðu yfir Tyrkland og Sýrland í gær. Talið er að allt að 20.000 manns kunni að hafa farist í þessum jarðskjálftum. Það sem fólki dettur fyrst í hug þegar það les um slíkar hamfarir er hvað getum við gert til að hjálpa og lina þjáningar þeirra sem fyrir þessu hafa orðið. 

Vestræn ríki hafa lýst yfir vilja til að senda aðstoð til Tyrklands og rústabjörgunarsveitir eru á leiðinni þangað. 

En það heyrist ekkert um að það eigi að senda rústabjörgunarsveitir eða aðra aðstoð til Sýrlands. Vonandi er það svo, en hefur ekki ratað inn í fréttir af hamförunum og aðstoð sem í boði er nú þegar. 

Viðskiptaþvingunum er beitt gagnvart Sýrlandi og vöruflutningar þangað eru erfiðari og með öðrum hætti en til Tyrklands vegna stríðsástands undanfarinna ára. Nú eru stríðshrjáð héruð í Sýrlandi sem verða fyrir þessum náttúruhamförum. 

Hvað ætlum við Íslendingar að gera í þessu. Ég skora á utanríkisráðherra og íslensk stjórnvöld, að hlutast til um það að hjálp og aðstoð verði send til allra jafnt, sem urðu fyrir þessum hamförum og viðskiptaþvingunum gegn Sýrlandi verði hætt þegar í stað. 

 


Ef til vill og kannski.

Þó dómar vegna Eflingar í héraðsdómi og Félagsdómi séu allrar athygli verðir, þá vekur frávísunarúrskurður héraðsdóms Reykjavíkur í stóra hryðjuverkamálinu svokölluðu mesta athygli. 

Hátt var reitt til höggs af lögegluyfirvöldum og boðað til blaðamannafundar, þar sem gerð var grein fyrir hræðilegri hryðjuverkaógn sem lögreglan hefði náð að afstýra. Þjóðin varð að sjálfsögðu skelkuð. En svo fóru að renna tvær grímur á fólk. Var þetta e.t.v. nýtt vindhögg hjá lögreglunni. 

Í dag kom í ljós, að málatilbúnaðurinn í stóra hryðjuverkamálinu er með endemum. Miðað við frávísunardóminn og ákæruna, þá kom lögreglan ekki í veg fyrir hryðjuverk svo sem lýst var á blaðamannafundinum. Þá er það makalaust að fara fram með ákæru á hendur einstaklingum um að þeir muni e.t.v. og kannski gera eitthvað gagnvart einhverjum einhverntíma svo orðalag ákærunnar sé aðeins ögn stílfært. 

Þetta eru óásættanleg vinnubrögð hjá lögreglu og ákæruvaldi. Borgararnir eiga að geta treyst upplýsingum frá lögreglu og það grefur undan trúverðugleika hennar þegar svona er haldið á málum.

 


Rússarnir

Ég varð vegmóður á langri göngu í Glóaldinlandinu og settist á bekk í garði. Tvær fjölskyldur voru að leika framandi kúluleik. Ég spurði hvaðan þau væru. 

Nokkur bið var á svari en svo sagði annar mannanna. Við erum Rússar frá Moskvu,en búum hér. Konan hans kom og sagði. Það er ekki gaman að segja frá því núna. Ég sagði fólk er fólk og ég virði ykkur sem einstaklinga og hef ekkert á móti Rússum. Næstu nágrannar mínir hér eru Rússar yndislegt fólk og erfitt að finna betri nágranna. Heiðarlegt, hjálplegt og gott fólk sem við getum alltaf leitað til eins og þau til okkar.

Við eigum að meta fólk að verðleikum, sem einstaklinga. Nágrannar mínir hafa átt í verulegum erfiðleikum með að lifa eðlilegu lífi eftir að stríðið í Úkraínu brast á, þó þau hafi ekkert til saka unnið og búið á Vesturlöndum um árabil. Við Íslendingar tökum nú þátt í slíkum aðgerðum gagnvart venjulegu fólki eingöngu vegna þjóðernis þess. Einhvern tíma hefði það verið kallað fasismi.

Vel má færa rök fyrir því að beita skuli Rússa refsiaðgerðum, en það verður þá að vera gagnvart aðilum sem einhverju máli skipta og hafa með ákvörðunartöku að gera en ekki gagnvart venjulegu fólki, sem hefur jafnvel lítil sem engin tengsl lengur við gamla móðurlandið. 

Svo má spyrja. Af hverju settum við ekki refsiaðgerðir á Rússa og Sovétríkin, þegar þeir réðust inn í Ungverjaland 1956 eða Tékkóslóvakíu 1968 og skyldi forseti Alþingis hafa sýnt Rússum þá óvirðingu, að bjóða ekki sendiherra Rússlands þá Sovétríkjanna í boð fyrir sendiherra eins og forseti Alþingis gerir núna? 

Væri ekki affarasælla að íslenska þjóðin fylgdi þeirri stefnu sem best hefur gefist okkar þjóð, að eiga vinsamleg samskipti við allar þjóðir. Allt annað er glapræði í utanríkisstefnu lítillar þjóðar.

Við fengum ekki að verða meðal þeirra þjóða, sem stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar af því að við neituðum að segja Þjóðverjum og Japönum stríð á hendur þegar ósigur þeirra blasti við árið 1945. Þá voru íslenskir ráðamenn óhræddir við að hafa sjálfstæða afstöðu til utanríkismála í samræmi við stöðu okkar sem vopnlausrar þjóðar hvað sem leið köllum helstu vinaþjóðar okkar þá Bandaríkjanna.

Af hverju erum við hrædd að við að hafa sömu stefnu núna.   


Þetta er ekki mitt verksvið

Sumir hlutir eru algildir hvað sem líður þekkingu, þróun eða uppfindingum þess vegna á eftirfarandi alltaf við: 

"Sagan er um fjóra menn sesm heita; Sérhver, Einhver, Hver sem er og Enginn. 

Það þurfti að vinna áríðandi verk og Sérhver var viss um að Einhver mundi gera það. 

Hver sem er hefði getað gert það, en Enginn tók sig til og gerði það. Þá varð Einhver reiður, þar sem þetta var í raun á verksviði Sérhvers. Sérhver taldi hinsvegar og fannst að Hver sem er gæti vel gert þetta. Engum var ljóst að Hver sem er myndi aldrei gera það. 

Þetta endaði með því að enginn gerði það sem Hver sem er hefði getað gert."

Mér verður stundum hugsað til þessarar stuttu frásagnar þegar ég hlusta á kröfugerð fólks úr öllum hornum og áttum á hendur öðrum vegna hluta,sem Hver sem er getur leyst.  

En svo koma líka stjórnmálamenn ef eitthvað bjátar á og þykjast hafa ráð og lausnir undir rifi hverju, sem þeir venjulega hafa ekki og lofa og lofa, en síðan gerist ekkert annað en ríkisútgjöld hækka vegna þess sem Sérhver hefði getað gert og þess sem skipti Engan máli. 

Felst ekki raunveruleg samfélagsvitund í því að reyna að bæta þjóðfélagið og aðstæður sjálfur í stað þess að hrópa á Einhvern annan til að gera það?


Paradís glæpagengja

Svíþjóð er orðin Paradís glæpamanna og dæmi um hvernig á ekki að fara að í innflytjendamálum segir Fraser Nelson ritstjóri Spectator í grein í DT í gær, en hann hefur tengsl við Svíþjóð.

Svíþjóð, sem var fyrirmynd allra annarra þjóða varðandi öryggi, vistvænt, vinsamlegt og fyrirmyndar þjóðfélag hefur tapað þeirri stöðu vegna stefnu sinnar í innflytjendamálum. Stefna, sem Píratar berjast hatrammlega fyrir á Íslandi nú með málþófi á Alþingi.

Fraser bendir á að á 6 mánaða tímabili hafi fjórir verið skotnir til bana í Södertälje skammt frá Stokkhólmi og stríð milli glæpagengja sé með þeim hætti að það minni frekar á Chicago á fjórða áratug síðustu aldar, þegar Al Capone og aðrir slíkir voru upp á sitt besta. Gamla góða Svíþjóð er horfin.

Á síðasta ári voru 61 skotnir til bana í Svíþjóð, sex sinnum fleiri en samanlagt í Danmörku, Finnlandi og Noregi.

Fótgönguliðarnir sem eru sendir til að fremja glæpaverkin eru aðallega svo ung börn, að þau sæta ekki ákæru skv. sænskum lögum. Greinarhöfundur segir að skv. upplýsingum sænsku lögreglunnar séu þessir barnahermenn glæpagengjanna um 1.200. Helmingur þeirra sem eru handtekin í átökum glæpagengjanna eru börn á skólaskyldualdri. Fyrir nokkrum dögum náðist í tvo drengi annan 13 ára og hinn 14 á leið til að myrða með sjálfvirkum byssum í Hammerbyhöjden í Stokkhólmi. 

Af hverju gerist þetta í Svíþjóð? Af hverju er þetta svona slæmt? Af hverju börn? Af hverju er þetta að verða verra og verra? 

Greinarhöfundur segir að þegar bylgja hælisleitenda kom árið 2015 hafi Svíþjóð flutt inn alls konar glæpastarfsemi. Útgjöld til lögreglunnar hafi aukist um 75% en dugar ekki til, óöldin og glæpirnir aukast.

Aðlögun hælisleitenda að sænsku þjóðfélagi hefur mistekist hrapalega og Svíum er nú refsað fyrir stefnu nánast opinna landamæra og rausnarskap í garð hælisleitenda.

Lisa Tamm fyrrum saksóknari í Svíþjóð kvartar undan barnaskapnum sem eigi sér stað í öllu kerfinu, þar sem hagsmunum venjulegs heiðarlegs fólks sé ekki sinnt á meðan verið sé að vernda glæpamenn.

Við þurfum að gæta þess að gera ekki það sama og Svíar og það er  þegar nóg komið og það fyrir löngu.

 

 


Meistarastykki í vondri og hlutdrægri fréttamennsku

Þegar kemur að einhliða,hlutdrægri og vondri fréttamennsku á fréttastofa RÚV hvert meistarastykkið af fætur öðru. Fréttir,sem eru ætlaðar til að fá fólk til að taka afstöðu með ákveðnum málstað á einhliða og oft röngum forsendum.

Undanfarna daga hefur fréttastofa RÚV flutt einhliða fréttir og  samhengislausar þar sem þess er gætt að sjónarmið eins aðila en ekki beggja varðandi starfrækslu flugvélarinnar TF-Sif á vegum Landhelgisgæslunnar. Allt virðist þetta gert til að varpa rýrð á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra þegar líður að lokum málþófs Pírata um lagafrumvarp ráðherrans um útlendingamál. Í því máli hefur fréttastofan skipað sér í sveit þeirra sem vilja opin landamæri og galopin ríkissjóð fyrir hvaða hlaupastrák sem vera kann. 

Í fréttum RÚV varðandi starfrækslu og notkun flugvélarinnar kom ekki fram, að notkun hennar er aðallega við Miðjarðarhafið í Frontex verkefnum. Þá kom ekki fram, að notkun hennar hér á landi s.l. ár voru 98 flugtímar. Ekki liggur fyrir hvaða verkefnbum vélin sinnti í þessa 98 tíma eða 8 klukkustundir á mánuði.

Þá kom ekki fram hvort hægt væri að sinna þessum verkefnum með öðrum ódýrari og jafnvel skilvirkari hætti. Síðast en ekki síst, þá kom ekki fram að sala vélarinnar er til kominn vegna viðbragða Landhelgisgæslunnar um hvernig megi spara í rekstri stofnunarinnar, vegna þess að fjárlaganefnd hafnaði beiðni um fjárveitingu, sem hefði leitt til þess að tillagan um sölu vélarinnar hefði ekki komið fram. Það var því afstaða Alþingis sem leiddi til þess að tillaga var gerð um sölu vélarinnar. Það hefði þá átt að vera inntak fréttarinnar.

Hið meinta illmenni, Jón Gunnarsson, að mati fréttastofu RÚV, átti því ekki frumkvæðið í þessu máli heldur á það sinn feril, þar sem ráðherran kemur að málinu eftir að hafa fengið tillögur og þurfa að grípa til ráðstafana vegna afstöðu fjárveitingavaldsins á Alþingi.

Þrátt fyrir fréttaflutning RÚV í tvo daga af málinu, þá hefur fréttastofan ekki upplýst hver notkun vélarinnar hefur verið innanlands síðustu ár, en 8 flugtímar á mánuði afsaka ekki þá dýru útgerð sem vélinni fylgja,m.a.10-12 stöðugildi. Það ætti að vera hægt að leita hagkvæmari og ódýrari leiða, þar sem aukin nýting vélarinnar er ekki í sjónmáli að því er forstjóri Landhelgisgæslunnar upplýsti.

 

 

 


Lindarhvoll og leyndarhyggja

Fjármálaráðuneytið stofnaði félagið Lindarhvol. Verkefni þess var að hafa umsjá með sölu á eignum sem féllu til ríkisins við hrunið. Eignir föllnu bankanna runnu til Lindarhvols, sem átti að hámarka verð þeirra. Lindarhvoll er fyrirtæki í almannaeigu til að gæta hagsmuna fólksins í landinu. 

Mikil leynd hefur hvílt yfir starfsemi Lindarhvols, sem er að sumu leyti eðlileg í ákveðin tíma, en langvarandi leynd um starfsemina er hinsvegar ekki ásættanleg. 

Sigurður Þórðarson fyrrum ríkisendurskoðandi var fenginn til að gera skýrslu um Lindarhvol. Nú mörgum árum eftir að skýrslan var afhent Alþingi og fjármálaráðuneyti, hefur hún ekki fengist birt. Sjálfur furðar Sigurður Þórðarson sig á því.

Skýrslu Sigurðar Þórðarsonar á að birta þegar í stað. Sú afsökun forseta Alþingis að málið sé ekki fullrætt í forsætisnefnd Alþingis stenst ekki og er aumlegt yfirklór yfir eitthvað sem almenningur á rétt á að vita hvað er.

Komið hefur fram að fjallað sé um mikilvæg atriði í skýrslu Sigurðar. Mikilvægt er því,að skýrsla hans sé birt sem fyrst. Einkum og sér í lagi þar sem óeðlilegur draugagangur virðist vera í kringum starfsemi Lindarhvols, sbr. að í nýlegum réttarhöldum, þar sem lögmaður ríkisins í málinu og aðalmaður í Lindarhvoli á sama tíma boðaði stjórnarfólk sameiginlega á vitnafund fyrir þinghald í dómsmálinu  þ.á.m. dómara við Hæstarétt Íslands,sem Hæstiréttur verður að gaumgæfa hvort hafi gert sig vanhæfa til setu í æðsta dómi landsins vegna þess. 

Við ungir Sjálfstæðismenn höfðum og höfum sem vígorð "gjör rétt, þol ei órétt." Nú ríður á að Birgir Ármannsson og Bjarni Benediktsson verði trúir þessu kjörorði okkar og hlutist til um það að skýrsla Sigurðar Þórðarsonar um Lindarhvol verði gerð opinber þegar í stað og skipuð  rannsóknarnefnd til að fjalla um starfsemi félagsins frá upphafi til dagsins í dag og niðurstöðurnar birtar þegar rannsóknarnefndin lýkur störfum. 

Þetta er félag stofnað af fjármálaráðuneytinu í almannaþágu og.  almenningur á því á rétt á að fá allar upplýsingar um starfsemi félagsins jafnt góðar sem slæmar.

Sé eitthvað slæmt í farteskinu verða þeir sem ábyrgð bera að axla hana, en Sjálfstæðisflokkurinn má ekki vera málssvari leyndarhyggju, vondrar stjórnsýslu og einhvers e.t.v. þaðan af verra. Sjálfstæðisflokkurinn má aldrei koma í veg fyrir að mál sem eiga erindi til almennings í lýðræðisríki verði falin fyrir fólkinu í landinu.   Málefni Lindarhvols á varða svo sannarlega almenning. 

 

 


Heróín, áfengi og sykur.

Í Vancouver í Kanada og raunar í allri bresku Kólumbíu(BK) er leyfilegt að vera með 2.5 gr. af heróíni, fentanyl, kókaíni, metaamfetamíni eða ecstasy. Fólk er hvorki handtekið né efnin tekin af því. Neysla efnana er vandalaus fyrir þau sem vilja.

Dauðsföllum vegna ofneyslu hefur fjölgað mikið í BK,en spurningin stendur um það hvort neysla þessara efna sé heilsufarslegt vandamál eða hvort glæpavæða eigi neysluna. Stóra spurningin um hvort og hvað langt ríkisvaldið eigi og megi ganga til að vernda fólk fyrir sjálfu sér og hvenær bregðast beri við og hvernig.

Á sama tíma og vinstri sinnuð stjórnvöld í BK og Kanada auðvelda og leyfa  neyslu efna sem hingað til hafa verið ólögleg fíkniefni og telja það skref í frjálsræðisátt, er verið að setja tálmanir og reglur um það sem hingað til hefur verið talið sjálfsagt í lýðræðislegu þjóðfélagi. 

Höft og bönn í Kanada á tímum Kóvíd voru mjög harkaleg og þá þvældist ekki fyrir hinum vinstri sinnaða forsætisráðherra Justin Trudeau að takmarka borgaraleg mannréttindi. 

Á sama tíma og kókaín og heróínneysla er leyfð þá ráðleggja Kanadísk yfirvöld fólki að drekka ekki meira en tvö glös af víni á viku og frá árinu 2026 verða öll matvæli með hátt fituinnihald, sykur eða sódíum að vera merkt með varúðarmerkjum á framhlið pakninga slíkra matvæla annars má ekki selja þau. En engar varúðarmerkingar þurfa að vera á heróíninu eða kókaíninu. 

Vinstri nauðhyggjan og afskiptasemi af borgurunum er aldrei langt undan þó að sum efni séu sumu fólki  hugleiknari en önnur. 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 297
  • Sl. sólarhring: 691
  • Sl. viku: 4118
  • Frá upphafi: 2427918

Annað

  • Innlit í dag: 273
  • Innlit sl. viku: 3809
  • Gestir í dag: 264
  • IP-tölur í dag: 253

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband