Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2023

Ali Bongo

Herinn í Gabon hefur leitt Ali Bongo Ondimba út úr forsetahöllinni í Gabon, en hann var nýlega endurkjörinn forseti eftir vafasamar kosningar. 

Margir hafa brugðist ókvæða við m.a. aðilar á Vesturlöndum, sem telja þetta vera atlögu að lýðræðinu. En er það svo?

Faðir Ali Bongo, Omar Bongo var forseti landsins frá því að það fékk sjálfstæði frá Frökkum árið 1967, síðan tók sonurinn við eins og í Norður Kóreu. Sama fjölskylda því búinn að stjórna landinu í 55 ár. Er líklegt að við slíkar aðstæður að um sé að ræða virkt lýðræði?

Ætla má að ýmis ríki láti sér annt um málefni Gabon vegna þess að landið er auðugt sérstaklega af olíu. En lýðræðisríki Vesturlanda mega ekki hrapa að niðurstöðum um það hvar réttlætið situr í ríki eins og Gabon. Best er að fólkið þar fái að ráða fram úr sínum málum og komið verði í veg fyrir að spilltir stjórnmálamenn sópi þjóðarauðnum til sín eins og er því miður allt of algengt í nútíma stjórnun. Líka á Vesturlöndum því miður. 


Guð býr í myndverinu amma.

Í fréttamiðlum er greint frá því að Leonardo diCaprio leikari ásamt nokkrum erlendum kollegum hans hafi í hótunum við Íslendinga ef þeir ætli að voga sér að koma fram sem sjálfstæð þjóð og nýta landsins og sjávarsins gæði, svo sem gert hefur verið í aldir.

Leonardo þessi, skutilsveinar hans og hofróður halda, að peningarnir verði til í myndverinu og standa saman um að berjast fyrir því, að venjulegt fólk geti ekki farið í ferðalög og greiði mun meira fyrir nauðsynjar en áður. Það skiptir diCaprio og hans fólk litlu máli þar sem þau eru milljarðamæringar sem ferðast um á einkaþotum eins og enginn sé morgundagurinn.

Þetta kvikmyndafólk heldur að það geti ráðið málum á litla Íslandi og beygt fólk til hlýðni hvort sem er sjálfbærar veiðar á hval eða greiðsla loftslagsskatta. Fyrir svona fólki má ekki hvika því þá gerist aðeins eitt. Hótanirnar færast í aukana.

Haft er á orði að kvikmyndafólk þetta færi gríðarleg verðmæti inn í landið. Er það svo? Ríkið endurgreiðir vegna kvikmyndagerðar allt að 35% af framleiðslukostnaði. Hvað situr þá eftir þegar erlenda fyrirtækið krefst endurgreiðslunnar? Er í raun þjóðhagslegur hagnaður af þessari starfsemi þegar upp er staðið? Gæti verið að skattgreiðendur væru í raun að greiða meira en þeir fá til baka vegna þessarar starfsemi.

Hræddur er ég um að svo sé. 

En hvort heldur sem er, þá megum við aldrei beygja okkur fyrir hótunum eins og þessum en standa keikir við okkar gildi og grundvallaratriði stjórnarskrár landsins um atvinnufrelsi. 

En er ekki annars skrýtið að þessi mótmæli kvikmyndafólksins skuli koma einmitt í dag þegar spurningin er um að ráðherra framlengi ekki geðþóttaákvörðun sína um veiðibann á hval. 

Skyldi þetta erlenda sjálftökulið kvikmyndanna eiga sér innlenda vitorðsmenn, þegar beygja á Ísland til hlýðni?


Úrelta verndarkerfið

Allir helstu stjórnmálaflokkar Danmörku hafa á stefnuskrá að takmarka sem mest aðgengi og komu hælisleitenda til landsins. Sama er í Noregi og velferðarsamtök í þessum löndum, átta sig á að það eru brýnir þjóðhagslegir hagsmunir, að takmarka innflytjenda- og hælisleitendastraumin sem mest má vera.

Hin Norðurlöndin vöknuðu upp við þann vonda draum og áttuðu sig á, að hælisleitendakerfið var siðferðilega rangt og óafsakanlegt. Það er verið að eyða gríðarlegum fjármunum í fólk aðallega unga karlmenn (um 90% hælisleitenda) sem hafa efni á að greiða hundruðir þúsunda króna til smyglara sem lofa að koma þeim heilu og höldnu til landa þar sem velferðarkerfið borgar háar fjárhæðir til þeirra sem segjast vera hælisleitendur.

Það eru ekki þeir sem mest þurfa á aðstoð að halda, sem koma sem hælisleitendur. Það fólk er enn í flóttamannabúðum og mikilli eymd á heimaslóð. Vesturlönd gætu látið svo miklu meira af sér leiða í mannúðarskyni í þeim löndum sem þessir meintu flóttamenn koma frá í stað þess að eyða gríðarlegum fjármunum í einstaklinga sem svindla sér inn á skattgreiðendur. Þegar það er skoðað, þá er það með ólíkindum að hin ýmsu samtök velmeinandi samtaka, skuli hópast saman til að standa vörð um þá sem eiga engan rétt og áttu hann aldrei þannig að þeir geti á fölskum forsendum og ósannindum haldið áfram að stela peningum frá íslenskum skattgreiðendum.

Það þarf að breyta lögunum þannig að þeir sem reyna að svindla sér inn verði sjálfkrafa sendir til baka til þeirra staða sem þeir komu frá. Staðreyndin er sú, að yfir 99% þeirra hælisleitenda sem hingað koma og sækja um alþjóðlega vernd eru ekki að flýja styrjaldir eða hugsanlega líflátsógn. Allt verndarkerfið varðandi flóttafólk var búið til fyrir tæpum 80 árum í gjörbreyttum heimi og á ekki við lengur.

Þegar allir stjórnmálaflokkar segjast standa vörð um verndarkerfi flóttamanna, þá er það í raun yfirlýsing um að standa vörð um rugl á fölskum forsendum á kostnað skattgreiðenda.


Fólkið, forustan og Flokkurinn

Lengst af hafði Sjálfstæðisfólk þann háttinn á, að ræða málin innan flokks og afgreiða þau þar. Jafnvel þegar Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn þvert á vilja meirihluta þingflokksins og Flokksráðs flokksins, þá var málið rætt í þaula og fundi lauk ekki fyrr en þó nokkru eftir miðnætt, þegar allir höfðu haft tækifæri til að setja fram sínar skoðanir.

Vegna þess hvernig staðið var að málum klofnaði Flokkurinn ekki á þeim tíma þrátt fyrir þann mesta ágreining sem upp hefur komið í Flokknum.

Vegna skrifa í leiðara Morgunblaðsins, umfjöllunar Björns Bjarnasonar og Arnars Þórs Jónssonar um Flokksráðsfund Sjálfstæðisflokksins á laugardaginn verður ekki hjá því komist að fjalla um þau atriði, sem þar koma fram, þó heppilegra hefði verið að afgreiða þau mál með þeim hefðbundna hætti sem lengst af hefur tíðkast í Sjálfstæðisflokknum.En virðist hafa verið aflagður að verulegu leyti á Landsfundi árið 2015, þegar undirritaður og aðrir fengu ekki tóm til að ræða málefni hælisleitenda með þeim afleiðingum, sem ófremdarástandið í þeim málum nú ber glöggan vott um. 

Flokksráðsfundurinn var vel sóttur og þar sem ég sat í salnum gat ég ekki varist því að það sóttu á mig þær hugrenningar, að það væri sérkennilegt og nánast ótrúlegt, að jafn öflugur stjórnmálaflokkur og Sjálfstæðisflokkurinn sem hefði svona mikið mannval hæfileikaríks fólks skyldi ekki fá meira fylgi í kosningum en raun ber vitni. Í framhaldi af því velti ég því fyrir mér af hverju þessi staðreynd væri ekki meginatriði fundarins. 

Forusta Flokksins fór þá leið, að taka nánast allan tíma fundarins fyrir sig, en um leið nánast útiloka það, að almennir flokksmenn gætu tjáð skoðanir sínar. Þetta var slæmt einkum vegna þess, að nauðsynlegt hefði verið fyrir Sjálfstæðisflokkinn nú að fara vandlega yfir málin og gefa almennu flokksfólki tækifæri til að benda á það sem fólk telur aflaga hafa farið og hvað þurfi að gera til úrbóta og hvað þurfi að gera til að gera Sjálfstæðisflokkinn að þeim þjóðarflokki sem hann var lengstum. 

Björn Bjarnason fyrrum ráðherra hefur lengi vel skrifað hvað bestu og gáfulegustu pistla um þjóðmál á þeim vettvangi sem hann hefur, þá kom mér á óvart, að hann skyldi bæði í Morgunblaðsgrein á laugardaginn og í bloggi sínu vandræðast við Arnar Þór Jónsson varaþingmann vegna skoðunar hans og tillöguflutnings varðandi bókun 35. 

Barátta Arnars Þórs er virðingarverð og nauðsynleg og fráleitt, að Alþingi samþykki að framselja löggjafarvaldið að miklu leyti til yfirþjóðlegra samtaka og gera það þegar engin skynsamleg rök eða þörf mæla með slíkri lagasetningu.

Arnar Þór hafði boðað tillöguflutning um málið á fundinum og gerði það eftir því sem kostur var miðað við þann eigin bergmálshelli, sem forusta Flokksins hafði kosið að sitja í.

Ég og Einar Hálfdánarson höfðum sett fram tillögur í málefnum hælisleitenda fyrir fundinn og fylgdum þeim eftir svo sem hægt var og fengum nokkru áorkað og tókum því að koma ekki öllu okkar fram. Vissulega hefðum við kosið að hægt hefði verið að ræða þau mál á fundinum svo sem lengst var venjan að gera. 

Með sama hætti bar Arnar Þór fram þá tillögu sem hann hafði boðað og hún fékk ekki brautargengi í nefndinni, en eins var með þá tillögu og okkar Einars, að ekkert svigrúm var á fundinum til almennra umræðna um málið og bera það svo undir atkvæði fundarins.

Það var ólán, að skipulag Flokksráðsfundarins skyldi ekki vera með þeim hætti, að fram kæmi sá mikli styrkur og hugmyndagnógt, sem er meðal almennra flokksmanna, en það hefði gerst ef skipulag fundarins hefði miðast við flokksfólkið í stað Forustunar.

 

 

 


Réttleysisríki dyggðarflöggunarinnar er skelfilegt.

Enn á ný beitir stjórn KSÍ refsivaldi gegn leikmanni landsliðsins í knattspyrnu vegna ásökunar sem hann getur ekki afsannað að svo stöddu. Öll þessi dyggðarskreyting stjórnar KSÍ er andstæð grundvallarreglum laga um að hver skuli talinn saklaus þangað til sekt hans er sönnuð. 

Stjórn KSÍ eyðilagði íslenska landsiðið um árabil vegna þessarar dyggðarskreytingar gagnvart okkar bestu landsliðsmönnum vegna ásakana, sem ekkert varð úr. Nú á að halda áfram þeim leik. 

KSÍ er ekki eitt um þessi viðbrögð því miður. Íslenska dyggðarsamfélagið hefur hverfst um refsigleði af þessum toga um nokkurra ára skeið. En það er ekki hlutverk KSÍ að refsa fólki og það á ekki að taka sér refsivald í hönd.

Það sem er enn alvarlegra við þessa nýtískulegu refsigleði gagnvart mönnum, sem hafa ekki haft tækifæri til að grípa til varna er að refsing hins nýgerða almannavalds í réttleysisríki dyggðarflöggunarinnar felst í því sama og var á svörtustu tímum í sögu kaþólsku kirkjunnar þegar menn voru bannfærðir og gátu enga björg sér veitt. Þeir máttu ekki vinna og enginn mátti rétta þeim hjálparhönd. Í Réttleysisríki dyggðarflöggunarinnar eru menn flæmdir úr starfi og geta takmarkaða björg sér veitt að því leyti er um harðari refsingu að ræða, en almannavaldið gerir mönnum sannist meint sök þeirra. 

Svona má þetta ekki ganga til. Hver einstaklingur verður að njóta mannréttinda og þeirra kosta sem réttarríkið býður þegnum sínum. 


Þráhyggja RÚV og Göbbels taktar

Mér skilst að áróðursmálaráðherra Foringja þriðja ríkisins, Göbbels, hafi sagt, að væri sami hluturinn endurtekinn í síbylju, nógu oft mundi fólk fara að trúa því. RÚV virðist sama sinnis.

Ríkisútvarpið rekur trylltan áróður vegna nígerískrar konu sem kom hingað á fölskum forsendum og hefur nýtt sér öll úrræði réttarkerfisins án árangurs vegna þess að hún var ekki að segja satt. Konan átti aldrei rétt á að vera í landinu. 

Einhliða frásögn RÚV af málinu er með ólíkindum og það er ekki bara í fréttatímum sem fjallað er um málið heldur víða í dagskránni. Þar sem yfirvöld fjalla ekki um mál einstaklinga, er engin til að svara þessum ekki fréttum RÚV af málinu.

Nígeríska konan hefur þegar fengið yfir 20 milljónir(sennilega nær 30) frá íslenskum skattgreiðendum á fölskum forsendum. Á að verðlauna hana með því að halda áfram að borga fyrir hana eftir að sannleikurinn hefur verið leiddur í ljós. Hún átti aldrei rétt á þessum greiðslum hún varð sér úti um þær ranglega. 

Hvað hefði verið hægt að hjálpa mörgum sem þurftu á að halda og áttu rétt á því í stað þess að greiða þessari konu? 

Hvernig getur vinstra liðið réttlætt að skattgreiðendur eigi að halda áfram að leggja konunni til enn meira fé eftir að hún er ranglega búin að hafa milljónir út úr skattgreiðendum? 

 


Í tilefni hinseginn daga.

Í kosningum 2015 í bænum Hamtramck í Michican í Bandaríkjunum urðu múslimar í meirihluta. Vinstri sinnaðir stjórnmálamenn fögnuðu og sögðu þetta sýna gildi fjölmenningar og fólk frá ólíkum menningarheimum, gæti búið saman í sátt og samlyndi.

Vinstri menn voru ekki lengi í Paradís og vissu ekki í hvorn fótinn þeir ættu að stíga þegar bæjarstjórnin í Hamtramck samþykki samhljóða, að banna regnbogafána hinsegin fólks í bænum. Múslimar sem fylltu ráðhús bæjarins fögnuðu.

Hvað hefði gerst ef kristið fólk hefði verið í meirihluta og bannað regnbogafánann? Vinstra fólkið hefði farið hamförum vegna ofbeldis gegn minnihlutahópi og staðið fyrir mótmælagöngum og óeirðum og sagt bannið sýna ógeðfelda og fordæmanlega hvíta kynjahyggju ferðarveldisins .

En þarna var meintur minnihlutahópur að taka afstöðu gegn öðrum meintum minnihlutahópi. Málstað hvors á vinstri hugmyndafræðin að taka? Ef þeir snúast gegn múslimunum geta þeir sagt að verið sé að þvinga þá til að samþykkja ákveðin gildi þvert á trúarskoðanir og haldið því fram að um sé að ræða Íslamshatur.

Sérkennilegt, að vinstra fólk á Vesturlöndum, sem áður voru boðberar frelsis og mannréttina og hinsegin fólk hér á landi, skuli ekki skynja að múslimar og hinsegin fólk eru andstæður og múslimar og fjölmenning eru andstæður. Þeir eru boðberar einmenningar í andstöðu við frjálslynd gildi mannréttinda og tjáningarfrelsis.


Að sjálfsögðu viljum við hærri loftslagsskatta

Merkilegt viðtal við utanríkisráðherra í kvöldfréttum. Hún lýsti yfir, að hún væri sammála auknum álögum Evrópusambandsins (ES) á kaupskipaflotann. Skattféð sem út úr þessu kemur rennur til ES og það finnst ráðherranum allt í lagi þar sem mörlandinn við heimsskautsbaug geti þá ornað sér við þá tilhugsun, að verða ekki stiknunarhitun að bráð svo vísað sé til orða kommúnistans Guterres framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Auk þess telur ráðherrann að þessi skattlagning á siglingar að og frá landinu réttlætis af því að nú greiði þessir aðilar enga loftslagsskatta. Semsagt að greiði fyrirtæki eða atvinnutæki ekki skatta,beri stjórnvöldum að skattleggja það. Raunar er þetta forspá Ronald Reagan sen talaði um skattlagningaráráttu vinstri sinnaðra ríkisstjórna: If it moves, tax it. If it keeps moving, regulate it. And if it stops moving, subsidize it.” (ef það hreyfist skattlegðu það/Ef það heldur áfram að hreyfast settu reglur um það/ Ef það hættir að hreyfast styrktu það:

Það gleymist oft hverjir greiða í raun skatta eins og þessa sem lögð eru á fyrirtæki. Það gera neytendur. Í því tilviki þar sem utanríkisráðherra telur réttlætanlegt að skattleggja skipaflotann, þá munu neytendur á endanum greiða þessa skatta í hærra vöruverði. Finnst ráðherranum það réttlætanlegt og eðlilegt og hvernig rímar það við meinta baráttu ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgunni?


Vér mótmælum allir.

Þegar við gengum í EES, þá samþykktum við ákveðin atriði sem tengdust viðskiptum, þjónustu, frjálsri för og nokkur fleiri atriði. En við samþykktum aldrei, að Evrópusambandið hefði sjálfstæða skattlagningarheimild gagnvart Íslandi eða fólki og fyrirtækjum hér á landi. 

Evrópusambandið hefur samþykkt viðamiklar tillögur í loftslagsmálum vegna ímyndunar um manngerða hlýnun jarðarinnar. Tillögurnar fela í sér, að leggja verulega skatta á flutninga til og frá landinu með flugvélum eða skipum.

Svo virðist sem ríkisstjórnin hafi ekki gætt íslenskra hagsmuna í þessu efni og gert Evrópusambandinu grein fyrir að við værum ekki sett undir skattlagningarvald sambandsins og ætluðum okkur ekki að vera það. 

Það er ljóst, að frjáls og fullvalda þjóð, getur ekki sætt sig við að velferð og velmegun þjóðarinnar verði frá henni tekin vegna skattpíningar Evrópusambandsins. 

Við eigum hvert og eitt sem og þingmenn þjóðarinnar að rísa upp eins og gert var á þjóðfundinum í Menntaskólanum í Reykjavík í ágústmánuði árið 1851, þegar dönsk stjórnvöld ætluðu að innlima Ísland í Danmörku og Ísland hefði sömu lög og Danmörk.

Þá reis upp frelsishetjan Jón Sigurðsson sagði ég mótmæli þessu ranglæti fyrir hönd konungsins og þjóðarinnar og aðrir þingfulltrúar risu úr sætum og sögðu við mótmælum allir. 

Við eigum ekki að vera minni menn og mótmæla allir þeirri rangsleitni sem Evrópusambandið ætlar að beita okkur og gera möppudýrunum í Brussel það ljóst, að norður í Atlansthafi býr sjálfstæð þjóð, sem ætlar að vera það og hafnar að vera öðrum þjóðum háð hvað um lagsetningu og skattlagningu. 

Við höfum ekki enn framselt fullveldi okkar til Evrópusambandsins og megum aldrei gera.


Þegar staðreyndir verða hatursorðræða

Framsæknir minnihlutahópar eru iðnir við að fordæma skoðanir sem þeir telja sér mótdrægar. Í hinum vestræna heimi sækir transhópurinn hvað harðast fram og hafnar jafnvel líffræðilegum staðreyndum og fordæmir þá sem benda á þær staðreyndir.

J.K.Rowlings metsöluhöfundur Harry Potter ævintýranna hefur ekki látið þessar öfgar setja sig út af laginu. Þegar transhugmyndafræðin sagði; fólk sem fer á túr" sagði Rowlings "Það eru bara konur sem fara á túr." 

Gríðarleg hatursherferð fór þá af stað gegn Rowlings. Reynt var að banna verk hennar. Sumir brendu bækur hennar eins og nasistar forðum við bækur sem þeir töldu óæskilegar. 

Merkilegt að það skuli talin hatursorðræða gagnvart transfólki að segja frá þeirri líffræðilegu staðreynd að "það eru bara konur sem fara á túr".

Stórt  listasafn í Seattle (Museum of Pop Culture bannar nú verk Rowlings vegna öfgaskoðana og hatursorðræðu. 

Þó fólk almennt sé ekki að amast við transmálum, þá er ekki hægt að líða að þessi hópur frekist yfir allt og alla og krefjist þess að öllu verði breytt m.a. tungumálinu til að þóknast þeim. Slíkan yfirgang á að fordæma, þó viðurkennt sé að transfólk skuli hafa öll réttindi eins og aðrir í þjóðfélaginu.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 114
  • Sl. sólarhring: 1290
  • Sl. viku: 5256
  • Frá upphafi: 2469640

Annað

  • Innlit í dag: 104
  • Innlit sl. viku: 4812
  • Gestir í dag: 104
  • IP-tölur í dag: 104

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband