Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2024

Hve lengi enn ætlið þið að misbjóða þolinmæði vorri?

Stjórnskörungurinn og ræðusnillingurinn Cicero í Róm, um öld f.kr., hóf mikilvægustu ræðu sína á þessum orðum. "Hve lengi enn ætlar þú Catalína að misbjóða þolinmæði vorri." Með sama hætti mætti segja um ríkisstjórnina vegna kynningar á tillögum um minniháttar breytingar á útlendingalögum í dag:

"Hve lengi enn ætlar ríkisstjórnin að misbjóða þolinmæði vorri."  

Algjört öngþveiti ríkir á landamærunum  og kostnaður skattgreiðenda er kominn yfir þolmörk,vegna gríðarlegs aðstreymis hælisleitenda. Þegar svo háttar til ætti að gefa auga leið, að verkefnið er að ná stjórn á landamærunum.

Í dag var kynnt frv. ríkisstjórnarinnar til breytinga á útlendingalögum. Formenn stjórnarflokkana þriggja kynntu það og fagnaðarerindi ríkisstjórnarinnar af því tilefni. Fyrirfram töldu landsmenn boðskapurinn væri um að ná stjórn á landamærunum og gæta hagsmuna fólksins í landinu ekki síst skattgreiðenda og ríkissjóðs. 

Annað kom í ljós. 

Ríkisstjórnin boðar af gefnu tilefni þetta: 

"Aðgerðirn­ar byggj­ast á því að horft er á mála­flokk­inn út frá fjór­um meg­in­mark­miðum. „Í fyrsta lagi áherslu á hag­kvæm­ari og skil­virk­ari regl­ur og betri þjón­ustu. Í öðru lagi að stuðlað verði að jöfn­um tæki­fær­um og þátt­töku í sam­fé­lag­inu. Í þriðja lagi betri nýt­ingu mannauðs. Í fjórða lagi betri sam­ræm­ingu og sam­hæf­ingu,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni."

Hvar eru stjórnmálamenn eiginlega staddir sem fjalla um mál með svona brenglaðri sýn miðað við tilefnið af óendanlegum léttleika eigin tilveru. Hvað kemur þetta sjórn á landamærunum við? 

Þegar breytingatillögur stjórnarfrumvarpsins um útlendinga eru skoðaðar,kemur í ljós að þar eru ákvæði, sem miða að aukinni skilvirkni á nokkrum sviðum, en kemur ekki í veg fyrir hinn stríða straum hælisleitenda með einum eða neinum hætti og hafi það átt að vera tilgangurinn að við næðum stjórn á landamærunum og eyddum minna fé í þessa algjöru dellu sem svonefnt "verndarkerfi hælisleitenda" byggir á, þá hefur frumvarpið ekkert með það að gera og er því miður bara nýtt kák sem þjónar ekki neinum þeim megintilgangi sem ætlast er til og síaukinn fjöldi landsmanna gerir kröfu til. 

Því miður eru þetta sár vonbrigði og alvarlegt fyrir framtíðarheill lands og þjóðar.  

 


Hvenær skiptir maður um stefnu?

"Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann? Hver hefur drepið mann og hver hefur ekki drepið mann? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Fari í helvíti sem ég drap mann. Og þó." sagði Jón Hreggviðsson í Íslandsklukku Halldórs Laxnes.

Svo virðist sem álíka skörp hugmyndafræðileg barátta sé komin upp innan Samfylkingarinnar, þar sem spurningin snýst um það hvort að Kristrún Frostadóttir formaður hafi skipt um stefnu eða ekki í útlendingamálum þegar hún vísaði í Milton Friedman hagfræðing sem sagði að velferðarkerfinu yrði ekki haldið uppi ef við hefðum opin landamæri.

Milton Friedman benti á þetta fyrir rúmlega hálfri öld, að opin landamæri væru í sjálfu sér ekkert vandamál ef við mundum afnema velferðarkerfið, en annars gengi það ekki. 

Kristrún er ekki að segja neitt annað en það sem engilsaxnesku mælandi fólk kallar "common sense" Ýmsir innan Samfylkingarinnar brugðust því hart við og sögðu að þetta væri svik við stefnu flokksins og sennilega er það rétt hjá þeim, að ekki fer saman "common sense" og stefna Samfylkingarinnar. 

Nú hamast fyrrverandi forustumenn Samfylkingarinnar eins og Össur og Ingibjörg við að segja að Kristrún hafi í raun ekki sagt neitt nýtt þó hún hafi vikið af almennri umræðu Samfylkingarfólks og farið að tala af skynsemi. 

Þær fréttir berast frá Egyptalandi að þarlendir séu að byggja múr á landamærum Gaza og Egyptalands. Utanríkisráðherra þeirra segir, þrátt fyrir að allir sjái múrinn að það sé ekki verið að byggja múrinn. Af sömu skynsemi mælir forustufólk Samfylkingarinnar sem segir að engin stefnubreyting felist í orðum Kristrúnar þó það sé jafn augljóst að svo er eins og múrinn sem Egyptar eru að byggja.

Já og hvenær byggir maður múr og hvenær byggir maður ekki múr. Fjandinn ef Egyptar eru bað byggja múr eða Kristrún að skipta um stefnu í málefnum hælisleitenda. Fari í helvíti, Kristrún er ekki að skipta um stefnu. Og þó.

 

 


Ábyrgð stjórnmálamanna

James Madison 4.forseti Bandaríkjanna, einn þeirra sem undirritaði sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjana sagði:

„Við höfum enga engla sem stjórna okkur, heldur metnaðargjarnar konur og karla,sem hugsa fyrst og fremst um eigin hagsmuni. Við verðum að takmarka stærð ríkisins til að hafa eftirlit með því hvernig þau beita valdi sínu. Við þurfum líka lýðræðislegt eftirlit til að kjörnir fulltrúar þurfi að sýna og axla ábyrgð gagnvart fólkinu sem þeir eiga að þjóna."

Því miður höfum við ekkert slíkt eftirlit og þessvegna fara metnaðarfullu karlarnir og konurnar sínu fram.

Var nokkru sinni borið undir kjósendur hvort rétt væri að greiða milljarða til Afganistan og Gaza þar sem í hermdarverkasamtök stjórna í báðum tilvikum. Hafa kjósendur samþykkt að greiða milljarða í loftslagsskatta.

Hafa skattgreiðendur einhverntíma samþykkt að endurgreiða 35% af öllum kostnaði við kvikmyndatökur erlendra og innlendra aðila

Síðast en ekki síst hafa skattgreiðendur samþykkt að greiða 20 milljarða vegna erlends förufólks á forsendum fáránleikans.

Svo er e.t.v.eðlilegt að spyrja hvort að ráðherrar þess flokks sem kenndi sig við frjálst framtak séu á réttri braut þegar fjármálaráðherra krefst ríkisvæðingar hluta Heimaeyjar og Góðmálaráðherrann leggur til að einkaskólar verði ríkisvæddir.

Ríkishyggja Sjálfstæðisflokksins er því miður slík, að vörn skattgreiðenda er nánast engin á Alþingi. Það er því skortur á því lýðræðislega eftirliti með störfum stjórnmálafólks, sem James Madison talar um að sé nauðsynlegt til að vernda borgara landsins og eigur þeirra fyrir metnaðargjörnum stjórnmálamönnum. 

 


Sorgardagur

Fréttirnar um dauða Navalní í fangelsi í Gúlaginu voru hræðilegar. Fáir trúa því að dauði hans stafi af náttúrulegum orsökum. Of mikið hefur gengið á gagnvart þessum manni, sem hafði það eitt til sakar unnið að hafa gefið kost á sér til þáttöku í pólitík sem andstæðingur Pútín. 

Sú afstaða Navalní að gefa kost á sér til stjórnmálastarfa sem andstæðingur Pútín hefði ekki valdið honum neinum sérstökum vandamálum hefði hann verið í þróuðu lýðræðisríki og alls ekki seint á síðustu öld þegar Sovétríkin liðuðust í sundur. En nú er kominn ráðamaður, sem ætlar sér ekki að missa völdin hvað svo sem það kostar og þessvegna er engin andstaða liðin. 

Það eru dapurleg örlög fyrri rússnesku þjóðina, að harðsvíruð valdaklíka með Pútín í forsæti skuli brjóta öll lögmál lýðræðisins nema þau að halda kosningar, hvað svo marktæk sem niðurstaða þeirra eru og sýna í verki að þeir muni einskis svífast til að halda völdum. 

Lýðræðissinnar geta ekki og mega ekki sætta sig við ógnarstjórn eins og þá sem Pútín hefur komið upp og verða að bregðast við en á sama tíma að muna það að Pútín er ekki rússneska þjóðin og hans tími og klíku hans mun líða og þeim mun fyrr sem raunveruleg lýðræðisríki taka hugmyndafræðilega forustu um nauðsynleg viðbrögð gegn einræðis og ógnarstjórnum hvar svo sem hún er í heiminum


Það sem verður að gera

Stöðugt hefur verið krafist vopnahlés í stríðinu á Gasa. Eina vopnahléð sem gert hefur verið fór út um þúfur vegna þess að Hamas virti ekki vopnahléið. Hamas var vel undirbúið átökum við varnarsveitir Ísrael og þessvegna hafa stríðsátök dregist á langinn.

Stríð í þéttbýli leiðir af sér gríðarlegar hörmungar fyrir óbreytta borgara. Brýnasta skylda alþjóðasamfélagsins er þá að ?finna leiðir til að koma óbreyttum borgurum í var. 

Af hverju þrýstir alþjóðasamfélagið ekki á Egypta að opna landamærin strax fyrir börnum, konum og eldri borgurum og síðar fleirum og koma upp tímabundnum flóttamannabúðum Egyptalandsmeginn við landamærin. Af hverju var það ekki gert strax?

Gera verður þá kröfu til Bandaríkjanna,Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins og Arabaríkjanna, að þegar í stað verði slíkum flóttamannabúðum komið upp til að vernda óbreytta borgara. 

 

 


Af hverju eru Arabaríkin stikkfrí?

Utanríkisráðherra sagði í gærkvöldi að hann ætlaði bregðast við kröfum ofbeldisaðilanna á Austurvelli. Kom á óvart miðað við fyrri ummæli og fordæmi. Ekki er þetta til að auka á trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki.

Skrýtið að engin skuli spyrja, hvers vegna Egyptaland skuli nánast ekki gera neitt meðan stríð varnarsveita Ísrael við hryðjuverkasamtök Hamas geisar og bjóða íbúum Gasa að koma tímabundið meðan átökin geysa. Slíkt mundi draga verulega úr mannfalli óbreyttra borgara. 

Þetta dettur Egyptum ekki í hug þó þeir eigi landamæri að Gasa og Gasa hafi áður verið hluti af Egyptalandi. Af hverju hamast framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kommúnistinn Guteres, ekki að Egyptum, Írönum og Saudi Aröbum og krefst þess að þeir sinni mannúð og taki við flóttamönnum frá Gasa meðan stríðið geisar. Af hverju hefur Evrópusambandið ekkert um þetta mál að segja?

Í flóttamannasamþykkt SÞ er gert ráð fyrir að flóttamenn séu sem næst heimaslóð þannig að þeir geti auðveldlega flutt til baka þegar styrjöld lýkur. Ursula von der Leyen sem hefur meira að segja skoðun á því hvort blaðamaður má tala við Putin eða ekki hefur enga skoðun á þessu og engin á vegum ES gerir kröfu um að nágrannaríki Gasa hjálpi. Flóaríkin taka ekki við öðrum frá Gasa en æðstu stjórendum þar sem þeir lifa í vellystingum á bestu lúxushótelum og eyða mannúðaraðstoð Vesturlanda sem fólkinu á Gasa var ætlað. 

Bjarni Benediktsson hefði átt að benda á þessi sjónarmið og gera kröfu um að nágrannaríki Gasa tækju til hendinni og lofað stuðningi til þess í stað þess að setja það vafasama fordæmi að flytja hátt í 200 manns frá Gasa til Íslands, þegar hægt hefði verið að hjálpa a.m.k. 20.000 manns á heimaslóð fyrir það sem það kostar og gera það sem Egyptum, Saudi Aröbum og Írönum ber að gera langt umfram okkur. 

Af hverju dettur engum í hug að einhver mannúðarskylda hvíli á Arabaríkjunum og Íran, en hún sé öll hjá ríkjum Evrópu og þó sérstaklega fámenna Íslandi og íslensk stjórnvöld skuli láta þessa vitleysu yfir sig ganga? 

 


Hvenær er mælirinn fullur?

Palestínuarabar sem fengið hafa að koma og dvelja á Íslandi, því miður, sýna ekkert þakklæti,frekar en við var að búast og hafa haldið uppi mótmælastöðu við Alþingi, utanríkisráðuneytið, lögreglustöðina og ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu til að reyna að þvinga íslensk stjórnvöld til að finna og sækja meint og/eða raunveruleg skyldmenni þeirra á annað hundrað manns,sem ríkisstjórnin illu heilli samþykkti að mættu koma til landsins.

Í Egyptalandi er helsta skrautblóm hins arabíska "jihad" Sema Erla Serdar, sérstakur fulltrúi Háskólarektors og fyrrum ritari Samfylkingarinnar, sem gusar út úr sér kröfum og hefur í heitingum við stjórnvöld bregðist þau ekki við kröfum hennar og mótmælendanna á Austurvelli. Garmurinn hann Ketill fréttastofa RÚV er síðan alltaf nálægur vinur upplausnar og óstjórnar. 

Í dag réðist mótmælandi að þingkonu, kastað í bíl hennar og hafði uppi ókvæðisorð í hennar garð. Það eitt og sér ætti ásamt öðru sem að framan er talið, að leiða til þess, að íslensk stjórnvöld segðu hingað og ekki lengra, það verður ekki með einum eða neinum hætti brugðist við kröfum ykkar og þar sem ekki er lengur um friðsamleg mótmæli að ræða, þá verðið þið að snauta í burt og hætta að trufla Alþingi við störf sín. Slík afstaða væri í samræmið við röggsama framgöngu Íslandsráðherrans Hannesar Hafstein á sínum tíma.

Mér er það hulin ráðgáta hvernig það gat gerst, að ríkisstjórnin samþykkti að heimila á annað hundrað palestínufólks komu til landsins og dvöl. Var ekki nóg komið? Með því rauf ríkisstjórnin grið gagnvart þjóðinni miðað við þær aðstæður sem um er að ræða í dag og við eigum fullt í fangi með að ráða við. 

Mér er líka hulin ráðgáta af hverju utanríkisráðherra segir ekki það sjálfsagða og hafi sagt það alla tíð.

"Við höfum nóg með íslenska ríkisborgara að gera og berum ekki sérstakar skyldur gagnvart fólki utan úr heimi, sem hefur fengið dvalarleyfi að gera, umfram aðra, en við munum standa myndarlega að aðstoð við fólk í stríðshrjáðum löndum og brýnni neyð og kanna hvar neyðin er mest og bregðast við í samræmi við það. Með því að hjálpa fólki á heimaslóð getum við hjálpað margfalt fleirum en með því að flytja nokkra um hálfan hnöttin heim til okkar með þeim afleiðingum sem það hefur hjálpum við margfalt færri."

Það væri því við hæfi að kalla sendinefndina frá Kaíró heim og segja við mótmælendurna á Austurvelli, að mælirinn sé fullur og það verði ekki brugðist jákvætt við ólögmætum kröfum þeirra. 

Við megum aldrei beygja okkur fyrir ofbeldinu, en sýna þeim sem því beita, að þeir gera málstað sínum illt verra.  


mbl.is Mótmælandi réðst að Diljá Mist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem ekki má.

Það er vandratað, þegar stjórnmálafólk í lýðræðisríkjum vill stjórna því við hverja fréttamenn ræða og hverja ekki.

Bandaríski fréttamaðurinn Tucker Carlson átti viðtal við Putin, Rússlandsforseta, sem yfir 200 milljón manns hafa séð. Ekki voru allir sáttir við þetta framtak Tucker Carlson þ.á.m. talsmaður Evrópusambandsins (ES) og fjöldi annarra. Því var jafnvel hótað að Tucker Carlson fengi ekki að koma til Evrópu vegna þessa framtaks síns. 

Dálkahöfundurinn Gideon Rachman sem skrifar í helgarútgáfu Financial Times (FT) kallar Carlson nytsama sakleysingja fyrir framtak sitt, en það heiti er sagt að Lenin hafi notað yfir þá, sem mærðu Sovétið  á sínum tíma, en þeir voru allmargir og lýðræðið í Evrópu á þeim tíma og allt fram undir 1990 gerði ekki aðrar athugasemdir við þá kjána aðrar en málefnalegar.

Hótarnir um að beita fjölmiðlamann viðurlögum fyrir það eitt að sækja efni sem á erindi til almennings í lýðræðisríki er alvarlegt mál eins og mátti heyra á talskonu ES. Fréttafólki á að vera frjálst við hverja þeir ræða og dreifa á markaðstorgi hugmynanna. Það eru grundvallarmannréttindi. En vissulega á að gagnrýna þá málefnalega eftir því sem tilefni gefst til.

Sé það svo, að almenningur í vestrænum lýðræðisríkjum geti ekki þolað að hlusta á viðtal við Putin og leggja hans rök og sjónarmið á vogarskálina ásamt öðrum rökum og sjónarmiðum sem boðið er upp á í lýðræðisríki, þá er illa komið fyrir fólki og alvarlegt að stjórnmálaelítan skuli telja að almenningur í lýðræðisríkjum sé ekki bær um að dæma um menn og málefni. 

Fyrir og um síðustu aldamót 2000 var ítölsk blaðakona sem hét Oriana Fallaci og þótti vera vaskasti blaðamaður síns tíma m.a. fyrir að ná viðtölum við leiðtoga hryðjuverkasamtaka og þursaríkja. 

Oriana Fallaci átti m.a. viðtal við Arafat, leiðtoga PLO, á þeim tíma sem PLO þjálfaði þýsku hryðjuverkasamtökin Baader-Meinhof og Khomeini erkiklerk í Íran um svipað leyti og hann gaf út fatwah eða dauðadóm yfir skáldinu Salman Rushdie og sótti hart að minnihlutahópum í Íran.

Þetta framtak Oriana, þótti hið merkasta og Oriana Fallaci fór efst á virðingarlista blaðamanna fyrir að ná viðtölum við ofangreinda einræðisherra auk margra annarra þeirra líka, sem og óumdeildan mannvin (nema í Peking)Dalai Lama. 

Hvað hefur breyst. Af hverju þykir það afbrot hjá Carlson,sem þótti stjörnublaðamennska hjá Fallaci. Af hverju má sannleikurinn og eftir atvikum lyginn hjá viðmælendum fjölmiðlamanna ekki fá að koma fram. Af hverju á að banna fólki að fá að dæma sjálft um skoðanir og framsetningu erlendra stjórnmálamanna?  

Aðilar og samtök sem þola ekki frjálsa hugsun og tjáningarfrelsi eiga ekki heima í lýðræðisríkjum. 


Í kulda og trekki í boði stjórnvalda

Það er óviðunandi að þúsundir Íslendinga skuli búa við þann veruleika, að hafa ekki nægan hita í híbýlum sínum og þurfa að spara rafmagn til að ekki komi til straumrofs. 

Þetta er samt veruleiki íbúa á Reykjanesi í dag.

Þurfti þetta að vera svona og þarf þetta að vera svona? 

Sjaldan hefur legið fyrir jafnalvarleg vanrækslusynd stjórnvalda og í þessu máli, sem bitnar nú illilega á íbúum Suðurnesja. 

Í rúm þrjú ár hafa verið miklir landsskjálftar og eldgos á Reykjanesi í nágrenni við helsta orkuverið á svæðinu, þannig að þá strax var ljóst, að það þurfti að bregðast við og hafa neyðaráætlun ef slæm sviðsmynd yrði að veruleika. Það var ekki gert. 

Þar fyrir utan þurfti að ganga svo frá, að hægt væri að miðla nægri raforku til Suðurnesja ef ástandið yrði þanngi að það væri nauðsynlegt. Það var heldur ekki gert. 

Stjórnvöld hafa enga afsökun fyrir því að hafa látið dekuráætlanir sínar um "orkuskipti" ganga fyrir og vanrækja að tryggja næga orku í landinu og það á fjölbýlustu stöðum landsins þar sem veður voru öll válynd. 

Ekki verður séð annað en að iðnviðaráðherra sé sá embættismaður sem ber þyngstu sökina á þessari vanrækslu, Sigurður Ingi Jóhnannsson. Honum bar að bregðast við strax fyrir þrem árum, en gerði það ekki með þeim afleiðingum, sem Suðurnesjabúar finna nú heldur betur fyrir. 

Ef til vill má minna á að Sigurður Ingi lagði til eftir Hrunið, að fjölmargir fyrrverandi ráðherrar og embættismenn þ.á.m. Geir Haarde, Árni Mathiesen og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir o.fl. yrðu sótt til saka fyrir Landsdómi vegna vanrækslu sem hann taldi vera fólgna  í því að bregðast ekki við óljósum aðstæðum nokkrum mánuðum fyrr.

Hér er hins vegar um raungerða, hlutlæga vanrækslu iðnviðaráðherra að ræða og atriði sem hann hefði getað komið í veg fyrir ólíkt þeim ráðherrum, sem Sigurður Ingi vildi að yrðu ákærðir. 

Skyldi Sigurður Ingi nú mæla sjálfum sér með þeim mæli og axla ábyrgð á vanrækslusyndum sínum sem hafa valdið  orkuskorti og neyð fyrir íbúa Reykjaness á Reykjanesi og segja af sér? 

Í þessu sambandi má hugleiða orð Jesú í Mattheusarguðspjalli 7.kafla 1-2 vers:

"Dæmið ekki svo að þér verðið eigi dæmdir. Því að með þeim dómi sem þér dæmið, munuð þér dæmdir,:" 

Þó að Sigurður beri ekki einn ábyrgðina, þá er hann samt sá sem átti að hafa frumkvæði að því að bregðast við fyrir þremur árum. 

En nú ríður á að bregðast eins fljótt og vel við og unnt er til að firra meiri vanlíðan og tjóni Suðurnesjafólks.

 

 


Leiðtoginn

Lengi vel hefur verið talað um Bandaríkjaforseta sem leiðtoga hins frjálsa heims. Sennilega þarf að fara aftur fyrir aldamót til að finna Bandaríkjaforseta, sem staðið hefur undir því nafni. En Bandaríkjaforseti er hvað sem öðru líður æðsti maður voldugasta ríkis heims. Það skiptir því mikl hver gegnir því embætti. 

Joe Biden hefur sýnt að hann er ófær til að vera forseti og mundi ekki einu sinni sóma sér vel sem óbreyttur í sveitarstjórn hvað þá heldur. 

Það segir sína sögu um hvað fjölmiðlunin er hlutdræg, að helstu fjölmiðlar heims hafa látið Biden algjörlega í friði þó honum verði ítrekað á gríðarleg mistök. 

Á blaðamannafundi í gær talaði hann um Abdel Fattah el Sisi Egyptalandsforseta, sem forseta Mexícó eftir að hann hafði greinilega gleymt nafninu á hryðjuverkasamtökum Hamas og ruglaði með hver er forseti Frakklands og kanslari Þýskalands. Þetta gerðist á sama blaðamannafundi þar sem allt er undirbúið í þaula.

Af miklu er að taka með ruglið í Biden, sem sýnir að hann er algerlega ófær um að sitja í sveitarstjórn hvað þá heldur að gegna embætti þar sem hann getur ráðið örlögum heimsbyggðarinnar. Joe Biden gæti í besta falli sómt sér vel í samræðum við Bakkabræður.

Hvernig geta helstu fjölmiðlar verið svo óheiðarlegir að þegja um það sem öllum ætti að vera augljóst og getur það verið að það sé óheiðarleika helstu fjölmiðla um að kenna hve djúpt bandaríks stjórnmál hafa sokkið.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 114
  • Sl. sólarhring: 1290
  • Sl. viku: 5256
  • Frá upphafi: 2469640

Annað

  • Innlit í dag: 104
  • Innlit sl. viku: 4812
  • Gestir í dag: 104
  • IP-tölur í dag: 104

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband