Leita í fréttum mbl.is

Utanríkisstefnan er andstæð hagsmunum þjóðarinnar

Sama dag og Erdogan einræðisherra sölsaði undir sig nánast allt vald í kosningum, sem Efnahags- og framfarastofnun Evrópu gagnrýnir harkalega, undirritaði utanríkisráðherra sérstakan fríverslunarsamning við Tyrki þar sem mælt er með aukinni samvinnu og vináttu þjóðanna. 

Erdogan hefur fangelsað tugi þúsunda blaða og fréttamanna og gert út af við tjáningarfrelsið og prentfrelsið í landinu sem og rekið meir en hundrað þúsund opinbera starfsmenn. Þá hefur sölsað undir Tyrki stórt landsvæðí í Sýrlandi og ætlar sér að innlima það. 

Þetta þvælist ekkert fyrir íslensku ríkisstjórninni, þrátt fyrir að mannréttindabrotin séu þau verstu í Evrópu og þeir víli ekki fyrir sér að fara með ófriði á hendur nágrannaríki og sölsa undir sig stór landssvæði. 

Á sama tíma bannar þessi sama íslenska ríkisstjórn, forseta lýðveldisins að sinna þeirri sjálfsögðu skyldu sinni að sitja í heiðursstúku þegar íslenska landsliðið í knattspyrnu keppir í fyrsta skipti á heimsmeistaramóti í knattspyrnu og veita strákunum okkar stuðning. 

Það var ömurlegt að horfa á þau Katrínu Jakobsdóttur og Guðna Th. Jóhannesson eins og tvo niðursetninga á Hrafnseyri við Arnarfjörð, norpandi fyrir framan sjónvarpsskjá við að horfa á landsleikinn við Argentínu. Þetta þurfti Guðni Th. að þola allt vegna þeirrar fáránlegu utanríkisstefnu Íslands að troða illsakir við Rússa að fyrirskipun Evrópusambandsins. 

Þessi utanríkisstefna sem felur í sér viðskiptastríð við Rússa veldur íslensku þjóðinni milljarðatjóni árlega og miklu tekjutapi bænda og sjómanna. Afsökunin er að Rússar virði ekki mannréttindi og hafi innlimað Krímskagann skv. vilja mikils meirihluta íbúa þar. Á sama tíma semur þessi sama ríkisstjórn við Tyrki sem virða engin mannréttindi og hafa innlimað landssvæði í Sýrlandi í blóðugri styrjöld gegn íbúunum. 

Hagsmunir okkar af viðskiptum við Tyrki eru nánast engir, en miklir við Rússa. Hvaða glóruleysi er þá þessi utanríkisstefna.

Í hvers þágu starfar utanríkisþjónustan? Fyrir íslendinga eða fer hún eftir dyntum Angelu Merkel og Evrópusambandsins. 

 


Ætla æðstu menn þjóðarinnar að sýna landsliðinu í knattspyrnu fyrirlitningu?

Landslið Íslands í knattspyrnu náði þeim einstæða árangri að öðlast rétt til þáttöku í heimsmeistaramótinu í knattspyrnu, sem hefst í dag i Rússlandi. Það var afrek sem vakti athygli um víða veröld. Fólk um allan heim spyr hvernig fer jafn fámenn þjóð að því að eiga slíkt afrekslið í knattspyrnu og Ísland. Ætla hefði því mátt, að æðstu embættismenn þjóðarinnar, forseti lýðveldisins og jafnvel einhverjir ráðherrar teldu eðlilegt að sýna landsliðinu virðingu og veita því stuðning. En svo er ekki.                                                          

Ákvörðun hefur verið tekin af pólitískri skammsýni af ríkisstjórninni að hvorki forseti né ráðherrar sýni afreksfólkinu okkar tilhlýðilega virðingu allt í þeim tilgangi að viðhalda þeim pólitíska hráskinnaleik, sem ríkisstjórnin hefur efnt til gagnvart ríkisstjórn Rússlands, sem kostar okkur nokkra milljarða á ári og er gjörsamlega tilefnislaus.

Sú var tíðin að Ísland átti afreksfólk sem keppti á Olympíuleikunum í Peking í Kína árið 2008. Þá fannst íslenskum ráðamönnum við hæfi að sækja þá leika þrátt fyrir víðtæk mannréttindabrot kínverskra stjórnvaldas auk annars. Formanni Viðreisnar fannst einnig við hæfi á þeim tíma sem menntamálaráðherra að fara tvívegis til Kína á kostnað skattgreiðenda og bauð með sér í síðara skiptið á kostnað skattgreiðenda eiginmanni sínum sem þá var einna hæst launaði stjórnandi í stærsta fjármálafyrirtæki landsins. Ferðirnar til Kína orkuðu tvímælis.

Það er með ólíkindum að jafn góður maður og gegn og Guðni Th. Jóhannesson forseti skuli taka það í mál, að láta ríkisstjórnina setja á sig ferðabann og hefði honum verið sæmra að segja eins og merkasti Oddaverjinn forðum daga. "Heyra má ég erkibiskups dóm, en ráðinn er ég í að hafa hann að engu." og halda síðan rakleiðis til Moskvu og sýna landsliðinu okkar eðlilegan og sjálfsagðan heiður. 

Ég skora á forseta lýðveldisins að sýna landsliðinu í knattspyrnu þann heiður sem það á skilið. Minna má það ekki vera.

 

 

 


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Júní 2018
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 272
  • Sl. sólarhring: 350
  • Sl. viku: 4862
  • Frá upphafi: 2268006

Annað

  • Innlit í dag: 251
  • Innlit sl. viku: 4490
  • Gestir í dag: 249
  • IP-tölur í dag: 239

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband