Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Hagsmunir launafólks og neytenda að kanna ESB aðild

Það eru tvímælalausir hagsmunir fyrir launafólk og neytendur að aðild að ESB verði könnuð. Við búum hvort sem okkur líkar það betur eða verr í mesta okurþjóðfélagi í Evrópu. Maturinn er dýrastur, lánin eru dýrust og lyfin eru dýrust svo fátt eitt sé nefnt. Líkur eru á að þetta mundi lagast með ESB aðild.

Hinsvegar geta komið til aðrir hagsmunir sem gætu vegið þyngra. M.a. erum við með galið fiskveiðistjórunarkerfi sem þyrfti að gera grundvallarbreytingar á áður en kæmi til viðræðna um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu.

Ég tel að það sé nauðsynlegt að kanna kosti og galla aðildar. Annað er algjört ábyrgðarleysi ríkisstjórnar. Það yrði síðan að vera kalt mat þegar allar staðreyndir liggja fyrir hvort það þjóni hagsmunum Íslands að ganga í bandalagið og þá með hvaða skilyrðum.


mbl.is Mikilvægt að kannað verði hvort ESB og evra þjóni hagsmunum Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt Kjördæmafélag stofnað. Þjóðin á auðlindirnar.

Við Frjálslynd í Reykjavíkurkjördæmi suður stofnuðum kjördæmafélag í kjördæminu í kvöld. Um 50 manns sóttu fundinn. Þóra Guðmundsdóttir var kjörin formaður og með henni einvalalið í stjórn. Nú er komin nauðsynleg félagsleg umgjörð utan um flokksstarfið hér í Reykjavík.

Góðar skemmtilegar og fróðlegar umræður voru á fundinum eftir góða ræðu formanns flokksins. Það var áberandi að flokksmenn gjalda mikinn varhug við fyirrhuguðum áformum meirihlutans í Reykjavík í orkumálum. Við Frjálslynd munum ekki horfa á það aðgerðarlaus að auðlindum þjóðarinnar einni af annarri sé ráðstafað til fárra útvaldra.

Það er kominn tími til að snúa við og taka til baka það sem þjóðin á með réttu og láta fólkið fá tekjur af auðlindum sínum í stað þess að láta fáa útvalda hirða nýtinguna og arðinn af auðlindunum. Reynslan af kvótakerfinu í fiskveiðum sýnir að kvótagreifarnir kunna ekki að fara með þá auðlind sem þeir hafa allt of lengi fengið að nýta og kaupa og selja þó að ekki sé um varanlegan eignarétt að ræða.

Það er nóg komið.


Góð niðurstaða.

Hægt er að óska þjóðkirkjunni og Dómkirkjuprestakalli til hamingju með að hafa fengið góðan og öflugan prest þar sem Anna Sigríður Pálsdóttir er. Ég lít  á stöðu Dómkirkjuprests sem ein helstu prestsembætti landsins. Þær stöður eru nú vel skipaðar þar sem sr. Hjálmar Jónsson og sr. Anna S. Pálsdóttir munu skipa þær stöður.

Það skiptir líka miklu að konur komist til aukinna áhrifa innan þjóðkirkjunnar en þær gegna í vaxandi mæli prestsembættum víða um land.

Skemmtilegt að dóttir Dómorganistans Páls Ísólfssonar skuli koma til starfa fyrir sóknina sem Dómkirkjuprestur.


mbl.is Valnefnd valdi Önnu Sigríði Pálsdóttur í starf Dómkirkjuprests
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru það okkar hagsmunir að vera í Schengen?

Það eru milljónir manna týndir á Schengen svæðinu. Schengen samstarfið færir okkur takmörkuð þægindi eða gæði en galopnar landið fyrir tæplega 500 milljón manns. Þeir íbúar Schengen svæðisins sem hingað vilja koma geta það án nokkura takmarkana eða eftirlits og verið hér í ákveðinn tíma án þess að íslensk yfirvöld hafi nokkuð með það að gera.

Það er merkilegt að menn skuli reka í rogastans yfir því að hér sé mikið af fólki við störf án þess að það sé nokkurs staðar skráð. Síðustu 12 mánuði hafa verið skráðir 15.000 þúsund manns inn í landið löglega til starfa eða 1.250 manns á mánuði. Það lætur því nærri að um það bil ein Akureyri hafi komið til landsins frá útlöndum á einu ári. Spurning er þá hvað eru margir óskráðir? Hvað koma margir í gegn um Schengen samstarfið og eru hér án þess að íslensk yfirvöld viti nokkuð um það.  Er það annars nokkuð skrýtið miðað við þetta að víða í verslunum eða þjónustufyrirtækjum t.d. Pissastöðum sé samskiptamálið frekar enska en íslenska.

Í dag var greint frá því að Frakkar ein fjölmennasta þjóð Evrópu hefði ákveðið að takmarka enn innflytjendastrauminn til landsins með ákveðnum aðgerðum. Hvað ætlum við að bíða lengi með að gera nauðsynlegar ráðstafanir.

Dómsmálaráðherra getur brosað út í bæði um leið og hann skálar í kampavíni við starfsfélaga sína til að fagna því að tugir milljóna manna til viðbótar hafa nú fengið frjálsan aðgang að Íslandi. 


mbl.is Shengensvæðið stækkar til austurs á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Datt eitthvað af himnum ofan?

Miðbærinn er búinn að vera eins og vígvöllur um helgar frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók við sem borgarstjóri í Reykjavík. Á þeim tíma sem síðan hefur liðið hefur ástandið eingögnu versnað. Aldrei datt þeim Samfylkingarmönnum á öllum þessum árum að endurmeta þyrfti löggæslustörf.

Sjálfsagt er það af hinu góða að endurmeta löggæslustörf. Vandamálið er þó frekar að það eru of fáir lögregluþjónar í Reykjavík. Það þarf að fjölga í lögreglunni. Það þarf að borga lögreglumönnum hærri laun. Annars fáum við ekki góða lögreglumenn. Lögregluþjónar hafa dregist aftur úr hvað launakjör snertir miðað við ýmsar aðrar stéttir opinberra starfsmanna og mér skilst að nú horfi illa með að manna lögregluna.

Við því verður að bregðast. Við verðum að hafa gott lögreglulið og nægjanlega fjölmennt til að tryggja sem best öryggi borgaranna hvort heldur er í miðbæ Reykjavíkur eða annarsstaðar í höfuðborginni.  Við verðum líka að tryggja starfsöryggi lögreglumanna sem best og endurskoða viðurlög við afbrotum gegn lögreglunni og hótunum í garð lögregluþjóna. Síðast en ekki síst þá verða lögreglumenn að hafa viðunandi tryggingar komi eitthvað fyrir í starfi. Þessi atriði eru nauðsynleg og það er til vansa fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að hafa ekki gripið til aðgerða í löggæslumálum höfuðborgarinnar fyrir löngu.

Það datt ekkert af himnum ofan þessi mál hefði Samfylkingin átt að skipta sér af fyrir löngu í stað þess að láta þessi mál lönd og leið meðan þeir stjórnuðu í Reykjavík.


mbl.is Samþykkt að endurmeta löggæsluþörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúklingar eiga rétt á lyfjum á lágmarksverði strax.

Heilbrigðisráðherra er vænn maður og vill láta gott af sér leiða. En þá þarf hann að hrista af sér aðferðarfræði stjórnmálamanns í stjórnlyndum valdaþreyttum stjórnmálaflokki. Sem slíkur hefur hann náð að skilgreina að lyf eru á hærra verði á Íslandi en annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Í anda sömu aðferðarfræði er leitað til Evrópusambandsins og málið sett í nefnd þar sem ráðherra biður um að staða Íslands verði sérstaklega skoðuð. Allt gott og blessað en við erum hér að tala um ferli sem tekur ekki mánuði heldur nokkur ár.

Nú liggur fyrir að það er hægt að lækka lyfjaverð til sjúklinga strax með því að heimila póstverslun með ákveðnum skilyrðum með lyf. Slík starfsemi var byrjuð en  hún var stöðvuð með vísan til ákveðinna lagaheimilda. Heilbrigðisráðherra ber að leggja til breytingar á lögum til að tryggja það strax frá og með haustinu verði póstverslun með lyf heimil. Þá geta sjúklingar fengið lyf allt að þrisvar sinnum ódýrari en þeir eru að fá þau nú.

Það ber að hafa í huga að sjúklingur á ekki val. Hann er ekki venjulegur neytandi sem velur eða hafnar. Sjúklingurinn verður að kaupa ákveðið lyf. Valmöguleikar hans eru því skertir. Þegar honum er líka meinað að kaupa lyf á lágmarksverði og þarf að sæta endalausu okri þá er of langt gengið og stjórnvöld eru ekki að gæta lágmarksskyldu sinnar við veikasta þjóðfélagshópinn. Heibrigðisráðherra þú þarft að lagfæra þetta mál strax og þú hefur vald til að gera það. Vafalaust getur þú fengið víðtækan stuðning í þinginu við að rétta hag sjúklinga strax. Ekki skal standa á mér að styðja þig til allra góðra verka. 

 Það er ekkert annað að gera en bretta upp ermar og koma þessum málum í viðunandi horf strax. Lyfjaverð hrynur ekki af himnum ofan það er ákveðið af lyfjafyrirtækjunum. Hátt lyfjaverð á Íslandi er vegna þess að samkeppnin virkar ekki. Þá verður hið opinbera að bregðast við og gæta hagsmuna borgaranna.


mbl.is Heilbrigðisráðherra fundaði um lyfjamál með framkvæmdastjórum ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er aldrei á vísan að róa með flotkrónu.

Sá sem vogar miklu getur bæði unnið stórt og tapað miklu. Að vera með minnsta gjaldmiðil í heimi á floti eins og við gerum er áhætta og það hefur verið ljóst frá því að við  tókum upp þessa gengisviðmiðun. Seðlabankinn hefur haldið gengi krónunnar uppi með firnaháum stýrivöxtum þrátt fyrir að innistæða hágengisins væri ekki fyrir hendi. Nú er spurningin hvar endar þessi gengislækkunarhrina? Það getur enginn sagt fyrir meðan við höfum myntviðmiðun með þeim hætti sem við gerum.

Það sjá það vafalaust fleiri í dag að það hefði verið heppilegra að taka undir með okkur í Frjálslynda flokknum og binda gengi krónunar veið vegið meðalgengi gjaldmiðla helstu viðskiptalanda okkar með ákveðnum vikmörkum. Það hefði gert viðskipti tryggari og losað okkur við þá hækju sem krónan er studd með í lánaviðskiptum innanlands, vísitala neysluverðs til verðtryggingar. Væri gjaldmiðillinn í lagi þá þyrfti ekki að vera með gervigjaldmiðil frá Hagstofunni eins og verðbótavísitöluna.


mbl.is Krónan veiktist um tæp þrjú prósent í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræðagangur ríkisstjórnarinnar vegna ratsjárstöðva.

Forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins tók heldur betur aðra afstöðu en Bjarni Benediktsson varðandi rekstur ratsjárstöðva í meintu varnarskyni. Forsætisráðherra telur rétt að við eyðum einum milljarði í rekstur ratstjárstöðvana á þessu ári og næsta án þess að þörfin hafi verið skilgreind. Í frétt Morgunblaðsins nú segir hann að ekki sé útséð um hvernig rekstri ratsjárstöðva hersins verði hagað eftir að Ísland tekur þann rekstur yfir þ.16. ágúst þ.e. ekki á morgun heldur hinn. Lítil fyrirhyggja það og ámælisverður skortur á stefnumótun og afgreiðsllu máls.

William T. Hobbins yfirmaður flughers Bandaríkjanna í Evrópu segir mikilvægt að Bandaríkjamenn geti verið með æfingar hér en ræða eigi mál varðandi varnir Íslands á næstunni. Því er semsagt ekki lokið enn.

Enn vantar svör við þeim spurningum hvaða tilgangi ratsjárstöðvarnar þjóna? Þjóna þær einhverjum tilgangi á ófriðartímum? Þjóna þær tilgangi á friðartímum. Engin viðhlítandi svör hafa fengist við þeim spurningum eða eins og formaður utanríkismálanefndar sagði. "Það er mörgum spurningum ósvarað"

Það skiptir máli hvernig farið er með peninga skattgreiðenda jafnvel þó að ríkissjóður sé rekinn með góðri afkomu vegna þenslu í þjóðfélaginu. Það má gera ýmislegt fyrir einn milljarð króna og sennilega flest skynsamlegra en reka það sem er að öllum líkindum tilgagnslausar ratsjárstöðvar.

Vandræðagangur Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í þessu máli er ófyrirgefanlegur.

En meðal annarra orða er einhver ógn sem að Íslandi stafar úr lofti? Ekkert ríki í okkar heimshluta ógnar okkur og ekki verður séð að breyting verði á því í fyrirsjáanlegri framtíð. Hvaða brýna þörf er þá á loftvörnum. Er ekki mun brýnni þörf á að efla varnarviðbúnað og stuðla að öryggi borgaranna með öðrum og markvissari hætti. T.d. ná stjórn á miðborg Reykjavíkur um helgar.  


mbl.is „Íslensk stjórnvöld þurfa að ákveða framtíð ratsjárstöðva“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta tákn ófrelsisins hrundi sem betur fer

Mér er það ógleymanlegt þegar ég kom að Berlínarmúrnum fyrir tæpum 40 árum og gat horft af útsýnispalli yfir í Austur Berlín þar sem fólki hafði ekki frelsi til að ferðast vestur yfir múrinn. Það var oft svipt því frelsi að fá að hitta ástvini sína. Börn voru skilin frá foreldrum og foreldrar frá börnum. Landamæravörðum var skipað að skjóta alla þá sem reyndu að flýja til frelsisins. Viðbrögð mín við þessari sýn var hryggð. Ég var hryggur að sjá hvernig mannskepnan getur misnotað vald sitt. Með sama hætti var ég eins og sennilega flestir andkommúnistar glaður þegar fólkið í Austur Þýskalandi tók völdin í sínar hendur og múrinn féll og landið var sameinað.

Þannig getur samstillt átak fólks skilað árangri. Þannig er hægt að fella ófrelsið og óréttlætið.

Því miður rísa nýir múrar ófrelsis. Ísraelsmenn hafa reist aðskilnaðarmúr á milli sín og Palestínuaraba og víðar er verið að reisa múra ófrelsis og takmarkana. Frjálslynt fólk verður þess vegna alltaf að vera á varðbergi og vera heiðarlegt í gagnrýni og berjast gegn ófrelsi og óeðlilegum höft í hvaða mynd sem þau birtast.


mbl.is 46 ár frá byggingu Berlínarmúrsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning hvort timburmennirnir séu að byrja

Ég er sammála Seðlabankastjóra að það er ekki ástæða til að Seðlabankinn bregðist við lækkun krónunar.  Flestum hefur verið ljóst um nokkurn tíma að gengi krónunnar hefur verið óeðlilega hátt og til þess mundi koma að hún lækkaði verulega. Spurning var eingöngu hvenær. Örgjaldmiðill eins og okkar verður alltaf eins og korktappi í ólgusjó þegar aðstæður breytast á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eins og núna.  Slíkt gengur ekki. Framleiðsluatvinnuvegirnir og neytendur geta ekki búið við þá óvissu sem korktappagjaldmiðill veldur. Þess vegna er mikilvægt að taka gengisviðmiðun krónunnar til endurskoðunar í samræmi við langtíma hagsmuni þjóðarinnar. Lottóstefna Seðlabankans gengur ekki til lengdar.
mbl.is Seðlabankinn mun ekki grípa til aðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 44
  • Sl. sólarhring: 198
  • Sl. viku: 3545
  • Frá upphafi: 2513349

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 3321
  • Gestir í dag: 43
  • IP-tölur í dag: 43

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband