Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Sumarið er ekki búið.

Það er fyrri hluti ágúst og þá er dálítið snemmt að fara að tala um að sumarið sé búið. Miðað við veður undanfarin ár þá getum við átt von á yndislegum tíma næstu mánuði. Mér finnst haustið einn skemmtilegasti árstíminn en það er tími þangað til það kemur.

Þó að það sé ekki sól á hverjum degi og við Reykvíkingar höfum búið við hefðbundið sumarveður undanfarna daga þ.e. rok og rigningu þá er engin ástæða til að vera með eitthvað væl út af því. Við höfum undanfarin ár búið við eitt besta veðurleg í heiminum. Sem betur fer.

Undanfarið hefur rignt sem nánast aldrei fyrr á Bretlandi og víða í Mið Evrópu meðan við höfum notið einmuna veðurblíðu og það eru stórfelld mannskæð flóð í Asíu. Við getum þakkað fyrir hvað við höfum verið heppin en ættum að minnast þeirra og hjálpa þeim sem á þurfa að halda núna í Asíu.


mbl.is Er sumarið búið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróði Ryanair og neytenda.

Það eru ánægjuleg tíðindi að Ryanair skuli vera rekið með mesta hagnaði í sögu flugfélagsins. Ryanair var brautryðjandi í lágum flugfargjöldum og með tilkomu þess urðu til aðrar viðmiðanir í verðlagningu í flugi fyrir neytendur.  Önnur lágfargjalda flugfélög fylgja eftir Ryanair þannig að samkeppni er á þessum markaði sem betur fer.

Með þeim breytingum sem orðið hafa með tilkomu lággjaldaflugfélaga hafa ferðalög venjulegs fólks stóraukist og þar með frelsi með auknum möguleikum til að fara hvert sem er innan Evrópu án mikils kostnaðar.

Fyrir nokkrum árum flaug ég fram og til baka milli London og Brussel með Ryanair. Fargjöldin voru svo lág að það kostaði meira fyrir mig að taka lest inn í miðborg London en að fljúga með Ryanair til Brussel.

Fyrir okkur skiptir gríðarlegu máli að það sé samkeppni í samgöngum. Það verður að vera hægt að komast með auðveldum hætti og ódýrum á milli landa.  Þess vegna verða stjórnvöld að vinna að því að samkeppni í samgöngum verði sem mest bæði í flugsamgöngum og einngi í vöruflutningum til landsins. Hluti af skýringu á háu vöruverði til neytenda kann að vera fólgið í háum flutningsgjöldum skipafélaga.


mbl.is Methagnaður hjá Ryanair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Paradís breytist í víti.

Þegar ég kom fyrst til Kanaríeyja var mér sagt frá firnafögrum dal Mogan dalnum sem væri líkastur því sem hægt væri að hugsa sér aldingarðinn Eden. Ég hef síðan komið oft í Mogan dalinn og það er erfitt að gera sér í hugarlund að þessi fallegi dalur skuli hafa breyst þannig að flytja þurfi fólk á brott svo það verði ekki eldi að bráð.

Hér vorum við í vanda vegna landvarandi þurka þó þeir séu fjarri því svipaðir og á Kanaríeyjum þar sem rignir örsjaldan.  Kanaríeyjar hafa verið góður griðarstaður fyrir marga úr okkar heimshluta þegar vetrarkuldi og él hrjá okkur. En sannfærir þetta okkur ekki um að heima er best?


mbl.is Um 2.000 manns fluttir brott vegna skógarelda á Kanaríeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtulegur samanburður.

Þessi samanburður á hamborgaraverði hjá The Economist er skemmtileg aðferðarfræði við að bera saman verðlag og gengi í mismunandi löndum heimsins. Væri verð á hráefnunum í hamborgarann ekki skekkt með niðurgreiðslum, ríkisstyrkjum, sköttum og öðru slíku þá gæfi hamborgaravísitalan góða mynd af mismun í ýmsum þjóðfélögum.

Íslenska hamboragravísitalan hefur venjulegast verið sú allra hæsta. Ástæðurnar eru ekki bara ofmetin króna. Þar kemur lika til hæsta verð á landbúnaðarvörum í heiminum.  Vinnulaun skipta líka máli. Þessi mikli munur er samt allt of mikill og sýnir nokkuð sem er einkennandi fyrir íslenskt þjóðfélag í dag. Það er okur á neytendum.

Af hverju er hamborgarinn meir en helmingi dýrari hér en í Bandaríkjunum. Af hverju eru lyf þrefalst dýrari hér en í Svíþjóð. Af hverju kostar brauð miklu meira hér en annarsstaðar í Evrópu. Það getur vel verið að íslenska krónan sé ofmetin. En sé svo þá ættu erlendar vörur að vera ódýrari en þær eru. Af hverju lækkar ekkert þegar krónan styrkist en allt hækkar þegar hún veikist?


mbl.is Íslenska krónan ofmetnasta myntin samkvæmt Bic Mac vísitölunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður að breyta kerfinu.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að skera niður aflamark í þorski og halda óbreyttu kvótakerfið að öðru leyti. Kvótakerfið var sett á til að byggja upp þorskstofnin og stofna annarra nytjafiska. Þetta hefur mistekist.  Þrátt fyrir þessa tegund friðunar og vísindalegrar verndunar fiskistofna þá hefur stöðugt sigið á ógæfuhiðina. Af hverju ekki að viðurkenna að kerfið dugi ekki.

Af hverju má ekki breyta til og setja flotann á sóknarmark í stað aflamarks. Það mundi draga verulega úr framhjálöndun og brottkasti. Af hverju má ekki heimila bátaflotanum að setja fleiri öngla út í sjóinn? Það skaðar ekki lífkerfið og veldur engu hruni. 

Öllum má vera ljóst að það vantar æti í sjóinn.  Getur verið að ríkisstjórnin sé með þessari ákvörðun að vinna gegn því markmiði að byggja upp þorskstofnin? Magt bendir til þess.

Með því að taka einhliða ákvörðun um að færa aflamark í þorski svona mikið niður. Halda kvótakerfinu óbreyttu og hafna því að heimila lítt takmarkaðar krókaveiðar frá sjávarbyggðum er ríkisstjórnin að taka ranga ákvörðun. 

Miðað við þessa tilkynningu þá óttast ég að boðaðar mótvægisaðgerðir verði einnig vanhugsaðar og kosti mikil útgjöld úr ríkissjóði án þess að nokkuð verði byggt upp fyrir þá peninga. Það mætti ef til vill benda ráðherrum Sjálfstæðisflokksins á að skapa skilyrði til að leyfa markaðnum að vinna sig út úr vandanum í stað þess að múlbinda allt í boðum og bönnum.


mbl.is Þorskkvótinn verður 130 þúsund tonn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað skyldi sjávarútvegsráðherra hafa sagt?

Skyldi sjávarútvegsráðherra hafa sagt samstarfsráðherrum sínum á Norðurlöndunum að fiskveiðistjórnunin á Íslandi hefði gjörsamlega brugðist. Að við eftir vísindalega takmörkun veiða í aldarfjórðung stöndum frammi fyrir mun alvarlega ástandi þorskstofnsins en fyrr skv niðurstöðu Hafrannsóknarstofnunar.

Skyldi sjávarútvegsráðherra hafa sagt samráðherrum sínum að kvótakerið hafi Halldór Ásgrímsson klæðskearsniðiði í samráði við LÍÚ og farið á bak við formann sinn Steingrím Hermannsson. Steingrímur segir það alla vega í ævisögu sinni. Fiskveiðistjórnunarkerfið var sniðið að hagsmunum stórútgerðarinnar. 

Skyldi sjávarútvegsráðherra hafa sagt að afleiðingar kvótakerfisins væru að byggð við sjávarsíðuna væri víða að fara í eyði. Skyldi hann hafa sagt að formaður sjávarútvegsnefndar teldi það helst til varnar að takmarka veiði gríðarlega og láta ríkið standa fyrir atvinnubótavinnu?

Skyldi nokkur af fiskveiðiráðherrum Norðurlanda hafa orðað það að nauðsynlegt væri að breyta til þar sem kvótastýrðar fiskveiðar í því formi sem þær eru hér hafa hvergi skilað árangri?


mbl.is Rætt um fiskveiðistjórnun, kosti hennar og galla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá er komið andlit á ríkisstjórnina

Loksins er komið andlit á ríkisstjórnina og ástæða til að óska því fólki sem sest í ríkisstjórnina til hamingju og farsældar í starfi. Miklu skiptir að ráðherrar skili góðu dagsverki. Ekkert kom á óvart við skipun ráðherra Sjálfstæðisflokksins enda gamall stjórnar- og kerfisflokkur. Val Samfylkingarinnar kemur  heldur ekki á óvart nema hvað varðar skipan Björgvins G. Sigurðssonar í sæti viðskiptaráðherra. Ég var ánægður að sjá að fyrrverandi stjórnarmaður í Neytendasamtökunum skuli nú vera orðinn viðskiptaráðherra og vænti þess að hann eigi eftir að taka undir með mér í þinginu varðandi brýn hagsmunamál neytenda í landinu.

Þó andlitin séu komin og skipun í ráðherraembætti þá er þó enn eftir að sjá fyrir hvað stjórnin stendur. Hvað flokkarnir hafa samið um. Ég hef beðið mun spenntari eftir því.

Nýr utanríkisráðherra byrjar sennilega á að taka okkur af lista yfir hinar viljugu þjóðir og hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Var það ekki annars höfuðmálin sem Samfylkingin stóð fyrir í utanríkismálum?


mbl.is Þrjár konur og þrír karlar ráðherrar fyrir Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorgerður

Mér er sagt að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sé einskonar guðmóðir þeirrar ríkisstjórnar sem er að fæðast. Hún hafi lagt á ráðin og viljað slíta samstarfi við Framsóknarflokkinn. Sé þetta rétt þá væri e.t.v. ekki úr vegi að kalla samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðísflokksins "Þorgerði"  Nema annað nafn finnist betra.

Fróðlegt verður í ljósi frétta síðustu daga að sjá með hvaða loðmullu kvótakerfið verður afgreitt í stjórnarsáttmálanum og hvort Samfylkingarmenn standi við það að afnema bæri kvótakerfið sem væri mesta ranglæti Íslandssögunnar.

Ástandið á Flateyri þar sem braskararnir taka sitt en fólkið sem hefur atvinnu af sjávarútvegi og á allt sitt undir bæði atvinnu og eignir ætti að hafa sýnt þeim sem setið hafa við stjórnarmyndun fram á nauðsyn þess að afnema óréttlætið.


mbl.is Sjálfstæðismönnum og Samfylkingu kynntur stjórnarsamningurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þýðir hlé á viðræðum.

Það er sérkennilegt að forustumenn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins skuli hafa gert hlé á viðræðum sínum.  Slíkt orðalag er helst þekkt við kjarasamninga þegar aðilar telja örvænt um að þeir nái saman og tilgangslaust sé að halda áfram að sinni.  Það á þó sennilega ekki það sama við hér miðað við yfirýsingar þeirra um að þau muni halda áfram og engin sérstök ágreiningsmál séu uppi.

Hvað sem líður fullyrðingum þeirra Geirs og Ingibjargar þá virðist einhver fyrirstaða vera sem flokksformennirnir telja nauðsynlegt að unnið sé úr áður en lengra er haldið. Annars þyrfti ekki að gera hlé. Svona hlé eru notuð til að tala við þingflokkana og fá samþykki þeirra fyrir áframhaldandi viðræðum. Fróðlegt að vita hvað er að.

 


mbl.is Hlé gert á stjórnarmyndunarviðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg vill ekki hreina vinstri stjórn.

Yfirlýsing Geirs og Ingibjargar um stjórnarmyndunarviðræður Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks fela í sér að Ingibjörg vill frekar reyna stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokknum en Vinstri grænum og þess vegna Framsóknarflokknum.  Sjálfsagt er það vegna þess að Ingibjörg metur það svo að Vinstri grænir séu ekki samstarfshæfir og þykir því vænlegra að sitja í skjóli Geirs. Fróðlegt verður að sjá hvort flokkarnir ná saman um myndun ríkisstjórnar og um hvernig málefnasamningurinn verður:

Skyldi Samfylkingin krefjast breytinga á kvótakerfinu?

Skyldi Samfylkingin gera kröfu um aðildaviðræður við Evrópusambandið?

Skyldi Samfylkingin standa á kosningaloforðinu um að eyða biðlistum og byggja viðunandi aðstöðu fyrir aldraða.

Skyldi Samfylkingin standa föst á því að skattkerfið verði leiðrétt þeim tekjulágu til hagsbóta.

Svör við þessu og mörgu fleiru verða fróðleg. Nái flokkarnir saman þá kemur í ljós hverskonar hryggjarstykki er í Samfylkingunni og formanni hennar.


mbl.is Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjast væntanlega á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 53
  • Sl. sólarhring: 165
  • Sl. viku: 3554
  • Frá upphafi: 2513358

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 3329
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband