Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Öðru vísi mátti það ekki vera.

Ég vil óska borgarstjórn Reykjavíkur til hamingju með að hafa tekið þá einu réttu ákvörðun sem varð að taka í máli REY og Orkuveitunnar og vegna meints samruna Geysis Green og REY. Þó stjórnmálamennirnir sem standa að þessari ákvarðanatöku komi misjafnlega standandi niður úr þessu þá er þetta fyrst og fremst sigur heilbrigðrar skynsemi þar sem tekið er tillit til hagsmuna allra borgarbúa en ekki bara sumra útvaldra.

Staðið var að meintum samruna REY og Geysis Green með þeim hætti að ég fékk aldrei betur séð en þar væri ekki farið að lögum. Ýmislegt sem snéri sérstaklega að REY m.a. að velja ákveðinn fjárfesti stóðst heldur ekki.

Hver eða hverjir eru sigurvegarar í þessu máli og hverjir töpuðu?


mbl.is Svandís: Næg tilefni til að taka allan gjörninginn upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var ekki nóg komið?

Talsmenn framleiðsluatvinnuveganna hafa lagt áherslu á lækkun stýrivaxta til að gera íslenska framleiðslu samkeppnishæfari en nú er. Bankastjórn Seðlabankans ætlar greinilega að fara þveröfuga leið.

Með hækkun stýrivaxta nú er einu sinni enn verið að stuðla að viðhaldi hágengisstefnunnar. Bakarinn í Brussel og klæðskerinn í Kaupmannahöfn munu þá væntanlega enn fjárfesta í jöklabréfum og æska þessa lands mun búa við enn skuldsettari framtíð. Samkeppnisiðnaður og innlend framleiðsla líður fyrir hávaxta og hágengisstefnuna og er lítt samkeppnisnhæfur meðan hagstjórnin er með þessum hætti.

Yfirdráttarvextir í bönkum eru komnir í tæp 25% á ári. Hvað skyldu þeir hækka mikið með þessari hækkun stýrivaxta.  Af hverju þurfum við að vera með langhæstu stýrivexti í Evrópu?


mbl.is Stýrivextir Seðlabanka Íslands hækkaðir um 0,45%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er sjálfstæð rannsókn?

Nýr stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur neitar því sem Júlíus Vífill Ingvarsson heldur fram að stjórn Orkuveitunnar hyggist hefja sjálfstæða rannsókn á málefnum REI.  Samt sem áður viðurkennir stjórnarformaðurinn  að ákveðið hafi verið að nýjum stjórnarmönnum Orkuveitunnar verði afhent gögn varðandi REI þannig að þeir geti gert sér grein fyrir forsögu málsins.

Túlkun orða og orðskilningur getur verið vandmeðfarinn en vegna þessara yfirlýsinga annars vegar Júlíusar Vífils Ingvarssonar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitunnar  og hins vegar Bryndísar Hlöðversdóttur stjórnarformanns Orkuveitunnar á vegum BorgarBræðingsins, þá liggur alla vega fyrir að nýir stjórnarmenn Orkuveitunnar eiga að fá öll gögn í hendur varðandi REI. Til hvers er það gert? Væntanlega er ætlast til þess að nýir fulltrúar lesi gögnin en fari ekki að eins og fyrrverandi stjórn. Hvað svo geri einhver hinna nýju fulltrúa athugasemd við eitthvað sem fram kemur í gögnunum. Athugasemd sem á við full rök að styðjast. Verður hún þá ekki tekin til greina? Eiga stjórnarmenn Orkuveitunnar bara að skoða gögnin eins og um einskonar lestraræfingu á síðkvöldum sé að ræða? Eða er þetta sjálfstæði rannsókn af þeirra hálfu?

Af sjálfu leiðir að þegar lagt er fyrir starfsmenn Orkuveitunnar að útvega öll gögn um REI þá er það gert til að stjórnarmenn  geti kynnt sér þau sjálfstætt og gert sínar sjálfstæðu rannsóknir á þeim.

Hvað kallaði þá á yfirlýsingu Bryndísar Hlöðversdóttir um að túlkun Júlíusar Vífils væri fráleit? 


mbl.is Yfirlýsing stjórnarformanns OR: Túlkun Júlíusar Vífils fráleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússar styrkja stöðu sína sem stórveldi.

Vladimir Pútin hefur hægt og með yfirveguðum hætti byggt upp Rússneska stórveldið. Eftir árásirnar á Bandaríkin 9. september 2001 þá sýndi hann fulla samtöðu með Bandaríkjunum og George W. Bush jr Bandaríkjaforseta. Bush nýtti sér ekki þá framréttu hönd sem Pútín rétti þá fram og hlustaði ekki á varkára stjórnmálamenn í Frakklandi, Þýskalandi og víðar áður en hann hóf herhlaup út í kviksyndið í Írak. Með innrásinni í Írak braut Bush og bandamenn hans reglur Sameinuðu Þjóðanna og innrásin og hernaðurinn er andstæður reglum alþjóðaréttar.

Nú sér Pútín sér leik á borði. Hann aðstoðar Írani við kjarnorkuuppbyggingu þeirra. Hann styrkir stöðu Rússa í nágrannalöndunum og lætur í vaxandi mæli finna fyrir sér á alþjóðavettvangi. Leikurinn er auðveldari en áður vegna þess að stefna Bush hefur veikt Bandaríkin verulega og dregið úr trúverðugleika þeirra því miður.

Það  verður fróðlegt að sjá hvað verður í kosningunum í Rússlandi en líklegt er að bak við andlit þeirra sem kjörnir verða gægist fram sterki maðurinn í Rússneskri pólitík Vladimir Pútin.


mbl.is Pútín vill að Bandaríkin tímasetji brottför hers síns frá Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver bjóst við þessu?

Ég sá ekki ástæðu til að horfa á landsleik Íslands og Lichtenstein. Taldi það gefið að strákarnir okkar mundu vinna Lichtenstein stórt. En svona getur það verið og 3-0 tap fyrir Lichtenstein er meiri háttar áfall fyrir landsliðið.  Nú þýðir heldur betur ekki að hengja haus og gráta eða vandræðast yfir því sem ekki er hægt að breyta heldur láta hendur standa fram úr ermum á móti Dönum.  Það eru held ég miðað við metinn styrkleika þjóðanna í knattspyrnu meiri tölfræðilegar líkur á að við vinnum Dani en Lichtenstein Ísland.
mbl.is Eiður Smári: Þurfum að líta í eigin barm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dr. Jekyll og Mr. Hyde

Sagan af Dr. Jekyll og Mr. Hyde fjallar um sömu persónuna. Ég man það ekki lengur en minnir þó að Dr. Jekyll hafi verið góður en Mr. Hyde vondur. Hvorugur hafði áhyggjru af því sem hinn hafði gert þó þetta væri sami maðurinn.

Mér datt þessi saga í hug þegar ég las þá merku frétt að Sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur styðji nú málssókn Svandísar Svavarsdóttur Vinstri grænum til að fá ógiltan eigendafund sem að Vilhjálmur borgarstjóri og þáverandi meðreiðarsveinar hans stóðu að því að boða.  Fyrir tillögunni mælti fráfarandi borgarstjóri sem áður stóð ásamt þjónum sínum að boðun fundarins sem hann vill nú fá ógiltan.

Það verður  varla sagt  að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins sé  ekki stefnufastur og samkvæmur sjálfum sér.


mbl.is Sjálfstæðismenn vilja styðja málsókn Svandísar Svavarsdóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýi meirihlutinn í Reykjavík stóðst fyrsta prófið.

Val Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarmanna á fulltrúum í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur var gott. Hægt er að binda vonir við að nýi stjórnarformaðurinn Bryndís Hlöðversdóttir standi sig vel í starfi ólíkt fyrirrennurum hennar. Þá sýnir  val á Jóni Sigurðssyni fyrrum formanni Framsóknarflokksins og Ástráði Haraldssyni hrl. í stjórn Orkuveitunnar að því er ég best fæ séð vilja til að tekið verði til í spillingarfeninu sem hefur verið að gerjast mörg undanfarin ár í Orkuveitu Reykjavíkur.

Það er mikilvægt að fá allar upplýsingar upp á borðið varðandi Reykjavík Energy Invest og aðra umdeilda fjármálastarfsemi Orkuveitunnar.

Mikilvægast er samt að tryggja borgurunum eignarhald á náttúruauðlindunum hvort heldur Orkuveitu Reykjavíkur eða Hitaveitu Suðurnesja og gæta þess að fyrirtækið sinni vel þeirri grunnþjónustu sem Orkuveitunn er ætlað að sinna þ.e að selja borgurunum heitt og kalt vatn og rafmagn á sanngjörnu verði. Það skiptir mestu.

Önnur starfsemi á að vera í höndum annarra aðila. Orkuveitan á ekki að hætta peningum sínum og auðlindum í markaðsstarfsemi sem fyrirtækinu kemur ekki við. Það er nóg komið af slíku.


mbl.is Bryndís Hlöðversdóttir nýr stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðir Seðlabankans skila ekki árangri.

Þrátt fyrir stýrivexti í háhæðum þá fer verðbólga vaxandi á nýjan leik því miður. Hávaxtastefna Seðlabankans hefur leitt til hágengis og aukinnar spennu á fjármálamarkaði en valdið samkeppnis- og framleiðslufyrirtækjum vaxandi vandamálum.

 Fróðlegt verður að sjá hvernig verðbólga þróast til áramóta,en fari svo að hágengið haldist en verðbólga vaxi þrátt fyrir það þá ættu fleiri en nú að sjá að hávaxtastefna Seðlabankans skilar ekki árangri í þeim efnum sem ætlast er til.

Aðeins til skoðunar og íhugunar. Af hverju lækkar bensínið og kornflexið ekki þó að gengi íslensku krónunnar hækki. Evran stendur nú í 85 krónum en fór í síðasta mánuði í 90 kr. Þegar krónan féll hækkuðu allar innfluttar vörur. Af hverju lækka þær ekki í sama mæli þegar gengið styrkist? Væri ekki eðlilegt að birta vísitölu verðs á innfluttum vörum þ.e. verð þeirra í heildsölu. Þá geta neytendur betur gert sér grein fyrir hvort um eðlilega verðlagningu í smásölu er að ræða.

 Er e.t.v nauðsynlegt að taka upp viðmiðunarverð í Evrum til að efla verðskyn neytenda þar sem krónan flökktir svo mjög sem raun ber vitni og það virðist valda aukinni verðbólgu jafnvel þrátt fyrir að hún styrkist.  Verðmyndun í landinu er ekki eðlileg miðað við gengisþróun. Það er nú málið.


mbl.is Verðbólgan fer vaxandi á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Þriggja klukkustunda fundi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins er lokið með þeirri niðurstöðu að öll dýrin þar á bæ hafa ákveðið að vera vinir og selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavík Energy Invest.

Það hljóta að vakna margar spurningar upp vaðandi sölu Orkuveitu Reykjavíkur á Reykjavík Energy Invest. Í fyrsta lagi er þetta rétti tíminn til að selja? Í öðru lagi þá er óafgreidd spillingarmálin sem tengjast málinu varðandi mismunandi aðkomu borgaranna að málinu fyrir tilstilli borgarstjórnarmeirihlutans. Í þriðja lagi þá er spurning hvort sala á hlut Orkuveitunnar í fyrirtækinu ruglar ekki endanlega meirihlutaeign í Hitaveitu Suðurnesja. Í fjórða lagi þá hefur ekki verið úr því skorið hvort rétt var að samrunaferlinu staðið. Í fimmta lagi þá hefur ekki verið skýrt út af hverju og hvers vegna upphaflega var boðið upp á kaupréttarsamningana sem sumum borgarstarfsmönnum og sérvöldum vinum var boðið upp á. Í sjötta lagi þá er spurning hvort að aðkoma Orkuveitunnar styrkti ekki einhliða Reykjavík Energy Interest sem þeir einir njóta sem eftir verða í fyrirtækinu.

Afstaða borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í þessu máli sýnir að borgarstjórnarflokkurinn er sammála um að ekki hafi verið rétt staðið að málum. Það að afgreiða málið með þeim hætti að halda áfram að standa rangt að málum er ekki heppilegasta niðurstaðan.


mbl.is Stefnt að því að selja hlut Orkuveitunnar í REI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk spilling?

Ákveðið aðhald er að opinberri stjórnsýslu af hálfu Ríkisendurskoðunar. Árlega gerir Ríkisendurskoðandi athugasemdir vegna framkvæmda fjárlaga og stjórnsýslu einstakra ráðuneyta og embætta. Þetta er nauðsynlegt aðhald og það má ekki vera minna að mínu viti ætti að auka aðhaldið með því að koma upp eftirlitsnefnd með útdeilingu fjármuna hins opinbera og hvort þar hlutlæg málefnaleg sjónarmið hafi ráðið. Kastljós fjölmiðla er iðulega á handhöfum ríkisvaldsins og Alþingi, meir en á öðrum stjórnvöldum.

Sveitarstjórnir búa ekki við sama aðhald og ríkisstjórn og Alþingi. Af þeim sökum virðist ýmislegt hafa farið úrskeiðis og nauðsynlegt er að skoða með hvaða hætti hægt verður að koma við eðlilegu eftirliti almennings um fjárreiður sveitarstjórna.  Í borgarstjórn Reykjavíkur virðast hlutirnir vera farnir alvarlega úr skorðum. Nauðsynlegt er í því sambandi að upplýsa hver laun borgarstjórnarmanna eru með nefndarlaunum.  Einhvern veginn virðist mér sem undaleg græðgisvæðing hafi þróast meðal borgarfulltrúa við sjálftöku greiðslna með Björn Inga Hrafnsson í fararbroddi.

Á sínum tíma þótti athugavert þegar stjórnmálamenn þáðu boð Flugleiða til Skotlands og talað var um pólitsíka spillingu. Í DV í dag er upplýst að Björn Ingi Hrafnsson og Margrét Sverrisdóttir og einhverjir fleiri hafi farið í júmbóþotu Eimskipafélagsins til Kína á kostnað fyrirtækja borgarinnar og Eimskips. Æskilegt væri að fá frekari upplýsingar um þessa ferð. Hvort hér var um eðlilegt stjórnsýsluverkefni borgarfulltrúanna að ræða eða tildurferð á kostnað Eimskips og e.t.v. almennings?

Aðstöðumunur stjórnmálamanna og auðmanna í landinu er orðin svo mikill að það er áhyggjuefni. Nauðsynlegt er að siðvæða íslensk stjórnmál en upphaf þess er að fjölmiðlar, stjórnmálamenn og almenningur ræði þessi mál opinskátt og fletti ofan af spillingu í opinberri stjórnsýslu hvar sem hana er að finna. Það væri gott að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins mundi nú gangast fyrir vandaðri stjórnsýsluúttekt á Orkuveitu Reykjavíkur og stofnun og ákvörðunum í sambandi við Reykjavík Energy Invest.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 533
  • Sl. viku: 3502
  • Frá upphafi: 2513306

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3278
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband