Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Hættum að versla í Harrods?

Fyrir nokkru spurði Jack Straw fyrrverandi utanríkisráðherra Breta af gefnu tilefni, að því hvort stjórnvöld í Bretlandi hefðu kannað tengsl Quatar og Kuweit við alþjóðlega hryðjuverkasamtök eins og ISIS og fleiri.

Í blaðinu Daily Telegraph 21. september er sagt frá því  að Quatar hafi sent flutningaflugvélar með vopnum til Íslamista í Líbýu sem eru bandamenn samtakanna sem stóðu fyrir morðinu á bandaríska sendiherranum og stjórna nú Tríbolí og eru óðum að ná því takmarki að gera Líbýu að óstjórntæku ríki, þrem árum eftir að Bretar og Frakkar sögðust hafa komið á lýðræðislegri þróun í landinu.

Blaðið segir að það séu athyglisverð sannindi að Quatar styðji Hamas samtökin, æstustu vígamenn Íslamista í Sýrlandi og írak m.a. hópa með tengsl við Al Kaída.

Gerd Müller ráðherra alþjóðlegrar þróunar í Þýskalandi staðhæfir einnig að Quatar fjármagni hryðjuverkasamtök í Sýrlandi, Írak, Líbanon, Nígeríu og á Gasa svæðinu. 

Á sama tíma og vígamenn vopnaðir og fjármagnaðir af Quatar myrða þúsundur saklausra borgara, selja konur í ánauð, nauðga og ræna þá er emírinn í Quatar, Tamim bin Hamad al-Thani, og helstu sporgöngumenn hans að fjárfesta sem mest þeir mega í Bretlandi og hafa m.a. keypt stórverslunina Harrods, Hyde Park 1, dýrustu íbúðablokk í London og Shard sem er hæsta bygging í London.  

Einnig á sama tíma er fólk í Bretlandi, Frakklandi og Íslandi að tala fyrir viðskiptabanni á Ísrael en dettur ekki í hug að það væri nærtækara,  að eiga ekki viðskipti við ríki sem fjármagnar hryðjuverk.  Af hverju hafa Bretar ekki bundist samtökum um að sniðganga Harrods. Af hverju láta Bretar sér vel líka að Quatarar fjárfesti og fjárfesti í London á sama tíma og vígamenn þeirra standa fyrir morðum í Mið-Austurlöndum m.a. á breskum hjálparstarfsmönnum.  

Svo heillum eru Vesturlönd horfin að þau hafa samþykkt að Quatar haldi heimsmeistarkeppni í knattspyrnu árið 2022 og höndli sem ekkert sé á fjármálamörkuðum.

Það hreyfir ekki við fólki ekki einu sinni kistnum kirkjum þó að trúbræður þeirra séu myrtir vegna trúar sinnar. Það hreyfir ekki við Evrópubúum þó að hundruð þúsunda flýji yfirvofandi fjöldamorð, nauðganir og mansal. Sé einn Bandaríkjamaður tekinn af lífi eða einn Breti þá lítur fólk örstutta stund upp úr bjórglasinu og Obama segir að eitthvað verði að gera.

Svo halda menn áfram að versla í Harrods og Obama heldur áfram að 16 holu á Golfvellinum. Ríkisstyrktu kirkjurnar í Evrópu snúa sér á hina hliðina værukærar í vellystingum ríkisstyrkjanna og strákarnir í Cheers panta annan umgang. 

Hugmyndafræðileg og trúfræðileg niðurlæging Vestur Evrópu og Bandaríkjanna er algjör og svo virðist sem sama sé þar upp á teningnum og hjá íbúum Konstantínóbel árið 1492 þegar vígasveitir Tyrkja sóttu að borginni. Þá söfnuðust borgarbúar saman í Hagia Sofía kirkjunni þáverandi og lögðust á bæn á meðan fámennt varnarlið á borgarvirkjunum var ofurliði borið.  


Hatursorðræða og tjáningarfrelsi.

Ótrúlegt að sjá hvað er skilgreint sem hatursorðræða í nýrri skýrslu Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur. Dæmi:

"„Ég hata ekki samkynhneigða og er ekki með fordóma út í ykkur. En ég er ykkur ekki sammála með skilgreininguna á því hvað hjónaband er. Þótt þér finnst þetta eðlilegt að þá finnst mér það ekki."

Ég tel þetta eðlilega tjáningu í lýðræðisþjóðfélagi. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum um ruglandann í þessari skýrslu.

Þeir sem gerðu skýrsluna átta sig greinilega ekki á að tjáningarfrelsi eru lögvernduð mannréttindi samkvæmt stjórnarskrá og hatursorðræða er ekki til staðar fyrr en eðlilegri tjáningu og skoðanaskiptum sleppir.

Már kemur ekki til greina.

Tveir þekktir baráttumenn fyrir sósíalisma þeir Úlfar Þormóðsson, sem hefur alltaf verið heiðarlegur vinstri maður, og Stefán Ólafsson prófessor, sporgöngumaður Jóhönnu Sigurðardóttur og leigupenni, vandræðast með það að Sjálfstæðismenn ætli sér að nýta sér hlutdeild Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra í umboðssvikum þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabankans til að koma í veg fyrir að hann verði endurráðinn.

Hugleiðingar þessara annars dómhörðu vinstri manna sýnir vel hversu lágt siðferðisstuðull þessara manna er stilltur, þegar kemur að því að meta brot þeirra sem standa þeim nærri í pólitík. 

Hvað sem líður hæfni eða vanhæfni Más Guðmundssonar þá kemur ekki til geina að endurráða mann sem hefur verið gripinn með báða hrammana ofan í hunangskrukkunni við að ná til sín peningum í leyndum, í samvinnu við þáverandi formann Bankaráðisins, með þeim hætti sem aðrir í bankaráðinu máttu ekki vita af.  Venjulegur Már væri þegar til rannsóknar hjá Sérstökum ásamt bankaráðsformanninum fyrir þetta athæfi.

Ég er hræddur um að hljóðið í þessum vindbelgjum þeim Stefáni og Úlfari væri með öðrum hætti ef sá sem í hlut ætti héti Davíð og væri Oddsson, Sjálfstæðismaður en ekki Már Guðmundsson fyrrverandi kommi.   


Heiðra skaltu skálkinn svo hann skaði þig ekki.

Dagur B. Eggertsson hefur undanfarin fjögur ár verið raunverulegur borgarstjóri á meðan leikarinn og sjónhverfingamaðurinn Jón sem kallar sig Gnarr hefur stjórnað uppákomum og almannatengslum á borgarstjóralaunum.

Dagur tók þá ákvörðun,  fyrst hann var rúinn trausti eins og aðrir helstu leikendur í borgarstjórn á kjörtímabilinu 2006 til 2010, að best væri að starfa í anda spakmælanna  "Heiðra skaltu skálkinn svo hann skaði þig ekki." og  "Sá vinnur sem kann að bíða."  Nú hefur Dagur fengið verðuga umbun æðruleysis og þýlyndis síns og er orðinn borgarstjóri bæði í orði og á borði.

Ástæða er til að óska Degi B. Eggertssyni til hamingju með að vera orðinn borgarstjóri í annað sinn og vonandi tekst betur til nú en í hið fyrra skiptið. 

Óneitanlega hefur Dagur sýnt stjórnvisku á þeim tíma sem liðinn er frá borgarstjórnarkosningunum í anda rómverskra yfirgangsmanna fyrir um 2000 árum í þýlendum sínum þegar þeir störfuðu eftir meginreglunni að  "Deila og drottna"  Dagur byrjaði á því að bjóða Pírötum og Vinstri grænum til meirihlutasamstarfs með sér og Bjartri Framtíð, sem þeir þáðu  með þökkum. Síðan bauð hann Sjálfstæðisflokknum dúsu sem að Sjálfstæðisflokkurinn þáði með þökkum, en með því tókst Degi að reka fleyg á milli stjórnarandstöðuflokkana í borgarstjórn.

Í ljós umræðu um lóð undir Mosku ákvað Dagur í samræmi við boðun spámannsins Múhammeðs að Samfylking, Björt framtíð, Píratar og VG væru í félagsskap útvaldra. Sjálfstæðisflokkurinn væri í Dhimmi stöðu þ.e. megi vera með, þó þeir njóti ekki nema takmarkaðra réttinda. Framsókn er hins vegar  með öllu útskúfað.

Vissulega er fólgin stjórnviska í að deila og drottna. En sú stefna gengur ekki upp nema skammsýnt fólk láti það yfir sig ganga og taki þátt í því.  Því miður féll Sjálfstæðisflokkurinn á fyrsta prófinu í nýrri borgarstjórn.  

 


Eigi leið þú oss í freistni

Fyrir mörgum árum hætti ég að biðja Faðir vorið með þeim hefðbundna hætti að segja "eigi leið þú oss í freistni" Mér fannst það rökleysa að algóður Guð leiddi fólk í freistni.  Eðlilegra væri að segja í staðinn: "Forða oss frá að falla í freistni." Í sjálfu sér gat þetta fallið undir meðfæddan þvergirðingshátt minn. En nú telja fleiri að hefðbundin þýðing Faðir vorsins sé röng af sömu ástæðum.

Frá því er sagt í dag að Rómversk kaþólska kirkjan hafi leiðrétt frönsku þýðinguna á Faðir vorinu þar sem segir "og leið oss eigi í freistni" og fallist á að það gæti skilist með þeim hætti að Guð geti valdið því að fólk ánetjaðist freistingum eða yrðu þeim að bráð, í stað þess að hjálpa okkur að þræða þrönga veginn dyggðarinnar.  

Á enskri tungu er breytingin þessi:  Í staðinn fyrir að segja "And don´t submit us to temptation"  skal segja "And don´t let us enter into temptation."  Þessi breyting verður sett í nýja franska þýðingu Biblíunnar sem Vatíkanið hefur samþykkt. Páfadómurinn hefur því ákveðið að taka undir ofangreindan þvergirðingshátt hvað varðar Faðir vorið.

Skyldi hin evangelíska Lútherska kirkja á Íslandi samþykkja þessa sjálfsögðu breytingu á Faðir vorinu?

 Þannig breytt yrði sagt. "Forða oss frá að falla í freistni og forða oss frá illu."  Er það ekki rökrétt ákall eða bæn til hins algóða Guðs sem allt hið góða er komið frá?

 


Íslam, kaþólikar, Franklin Graham og þjóðkirkjan.

Múhameðstrúarmenn, kaþólikar og Franklin Graham prédikari á hátíð vonar eiga það sameiginlegt að þeir eru á móti hjónaböndum samkynhneigðra. Þeir eru að sjálfsögðu frjálsir að hafa þessa skoðun og njóta skoðana- og málfrelsis. Samt sem áður amast ýmsir bara við því að Franklin Graham fái að tjá þessar skoðanir sínar jafnvel þeir hinir sömu berjist fyrir byggingu Mosku í Reykjavík. 

Laugarnessöfnuður sem stýrt er af Samfylkingarklerknum Bjarna Karlssyni hefur ítrekað sent frá sér ályktanir þar sem íslensk alþýða er vöruð við villutrúarmanninum Franklin Graham en lengra nær þjóðfélagsbarátta safnaðarins ekki. Tvískinnungshátturinn sést best á því að á sama tíma og verið er að mótmæla Franklin Graham vegna skoðana hans þá berst sóknarpresturinn fyrir að söfnuður byggi Mosku til að halda fram sömu skoðunum hvað samkynhneigða varðar með hatrammari hætti en Franklin Graham.

Á sama tíma og Samfylkingarklerkar þjóðkirkjunnar voru að sjóða saman ályktunartillögur gegn Franklin Graham og biskupinn yfir Íslandi að afsaka tilveru sína við hlið hans voru hundruðir kristins fólks drepið annas vegar í Nairobí í Kenýa og hinsvegar í kirkju í Pakistan.

Samfylkingarklerkarnir í Laugarnessókninni og biskupinn yfir Íslandi hafa ekkert um þessi morð að segja. Þar er um líf og dauða að tefla. Þetta kristna fólk fékk ekki að njóta þeirra mannréttinda sem er forsenda annarra mannréttinda, rétturinn til lífs.

Er ástæða til þess að skattgreiðendur hafi þetta fólk lengur í vinnu? 

 


Sprengjur eða friðarsamningar og umbætur

Obama fer nú um lönd og álfur og reynir að fá ríki til fylgis við sprengjuárásir Bandaríkjanna á Sýrland. Sýrland þarf ekki fleiri sprengjur heldur frið og umbætur. Vesturlandabúar hafa mislesið hið svokallaða arabíska vor hrapalega. Arabíska vorið snérist ekki um lýðræði heldur brauð og lífskjör.

Uppreisnir og stríð snúast sjaldnast um grundvallaratriði í trúfræði, pólitík eða heimspeki. Efnahagsleg atriði eru venjulega það sem skiptir mestu. Stundum er það auglóst eins og þegar nasistar komust til valda vegna óðaverðbólgu, vonleysis og hungurs í Weimar lýðveldinu sem og franska byltingin.

Sömu ástæður eru að baki Arabíska vorinu. Efnahagslíf ríkja á þessu svæði er undantekningarlítið í miklum erfiðleikum. Fámenn valdaklíka arðrænir almenning og skiptir olíuauðnum á milli sín. Almenningur býr við sára fátækt og vonleysi. Aðeins tvö lönd í þessum heimshluta Ísrael og Sameinuðu Arabísku furstadæmin skera sig úr enda búa þau ein við opið hagkerfi án gjaldeyrishafta.

Þjóðarframleiðsla á mann í Sýrlandi og Egyptalandi er um 400 þúsund krónur á ári. Matarverð fer hækkandi og helmingur  er undir 25 ára aldri, fólk sem sér ekki fram á að geta látið drauma sína rætast nema með því að gera uppreisn gegn valdaklíkunni eða flytja úr landi til Evrópu eða USA. 

Assad og klíka hans vill ekki breytingar frekar en hershöfðingjarnir í Egyptalandi eða kóngar og prinsar í Jórdaníu og Saudi Arabíu. Forréttindastéttin gerir allt til að tryggja sér auð og völd meðan almenningur sveltur. Frelsi einstaklinganna er takmarkað og frjálst markaðshagerfi ekki fyrir hendi. 

Það þjónar litlum tilgangi að skipta á einum einræðisherra fyrir annan eins og raunin varð í Egyptalandi. Víðtækar breytingar á stjórnarstofnunum og efnahagslífi verða að eiga sér stað.  Það verður að afnema einokunarfyrirtækin og forréttindin og koma á markaðshagkerfi og stjórnarskrárbundnum ríkisstjórnum sem hægt er að skipta um í frjálsum kosningum.

Obama og Bandaríkjamenn telja það skipta  máli að skjóta eldflaugum á stjórnarstofnanir í Sýrlandi. Sú leið Bandaríkjanna að senda fyrst inn landgönguliðið og athuga svo málið er röng. Obama ætti að reyna að fá Rússa og Kínverja til að standa að áætlun um friðsamlega lausn í Sýrlandi og víðar í þessum heimshluta. Bandaríkjamenn ættu að berjast fyrir því að spilltu valdastéttirnar færu frá en reynt yrði að byggja upp stjórnarstofnanir, lýðræðiskerfi og efnahagslíf á grundvelli markaðslausna. 

Milljónir flóttamanna og þær hroðalegu mannlegu hörmungar sem fólkið í Sýrlandi þarf að þola kallar á alvöru lausnir en ekki bull og flugskeytaárásir. Hvernig stendur á því að lýðræðið í dag hefur hvergi komið afburðafólki til valda í hefðbundnum lýðræðisríkjum, sem sjá víðtækari og betri lausnir en flugskeytaárásir.

 


Barátta Jóns Gnarr gegn Guði

Jón Gnarr hefur hafið baráttu gegn æðra mætti, sem hann nefnir Guð óháð því hvaða trúarbrögð eiga í hlut. Hann segir að Íslamistar, Ameríkanar og Rússar tali mikið um Guð, drepi og undiroki í nafni Guðs. Þá segir hann líka að trú á Guð leiði til geðveiki og heimur án trúarbragða væri miklu betri og öruggari.

Þessi ummæli hafa fengið feiki góðar viðtökur og m.a. dæmi um að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi lýst velþóknun á þessu nýjasta rugli borgarstjórans.

Fólki er frjálst að trúa því sem það vill eða trúa ekki neinu ef það vill. Jón Gnarr er ekki sá fyrsti og verður ekki sá síðasti sem ákveður að berjast gegn Guði. Það er hans mál. Hins vegar er miður þegar menn byggja skoðun á staðreyndavillum eins og borgarstjóri gerir.

Rússar og Bandaríkjamenn tala ekki mikið um Guð og heyja ekki stríð og undiroka þjóðir í nafni Guðs. Íslamistar eru trúarbragðahópur.  Sú skoðun að trú á  Guð leiði til geðveiki er dæmi um algera kerlingarbók dragdrottningarinnar Jóns Gnarr. Í þriðja lagi þá hafa stríð á síðari tímum sjaldan verið háð í nafni Guðs eða þjóðir undirokaðar í nafni hans. Þó margt vont hafi verið gert í nafni trúarinnar af spilltum leiðtogum þá jafnast það ekkert á við illvirki guðleysingja sem hafa iðulega stjórnað för.

Stalín, Hitler og  Djengis Khan og fjölmargir aðrir illvirkjar í mankynssögunni voru trúleysingjar. Allir fóru þeir í stríð á öðrum forsendum en Guðlegum. Allir drápu þeir milljónir manna. Heimurinn var hvorki góður né öruggur þegar þeir trúleysingjarnir Stalín og Hitler voru upp á sitt besta. Satt að segja hefur hann aldrei verið jafnslæmur og hættulegur.

Sem betur fer kallar trú og leit að æðra mætti á það besta hjá langfelstum sem þess leita. Í sögu Evrópu geta menn lesið um það hvernig trúin varð þess valdandi að á 200 ára tímabili hernaðar í álfunni þá fékk almenningur að vera í friði. Stríð var á milli herja. Þeir trúleysingjarnir Stalín og Hitler ásamt öðrum illvirkjum breyttu þessu af því að þeir höfðu ekki neina trúarlega staðfestu og drápu a.m.k. meir en 20 milljónir almennra borgara í nafni sjálfskipaðs almættis stefnu og yfirburða kynþátta.

Fram að þessu hefur fyrirbrigðið í stóli borgarstjóra aðallega veist að kristninni, en nú er hann kominn í baráttu við öll trúarbrögð. Miðað við ruglingslega delluframsetningu í stuttum pisti hans gæti hann talið að þetta verði honum til framdráttar til að ná endurkjöri.


Sóknarnefnd og sóknarprestur Laugarneskirkju sjá ljósið.

Sóknarnefnd og sóknarprestur Laugarneskirkju sjá sérstaka ástæðu til að álykta gegn aðkomu þjóðkirkjunnar að komu Franklin Graham til landsins vegna afstöðu hans til samkynhneigðar. Sagt er frá því að umræður á fundinum hafi verið ítarlegar.

Sóknarpresturinn í Laugarneskirkju hefur látið lítið fyrir sér fara síðan hann varð sér til skammar með hrópum og skrílslátum í héraðsdómi Reykjavíkur auk þess sem hann krafðist að sr. Geir Waage yrði vikið úr embætti vegna skoðana sr. Geirs. Þá lýsti sr. Bjarni yfir þeirri girnd sinni að berja þáverandi lögmann en núverandi alþingismann Brynjar Níelsson vegna þess að hann var honum ósammála.   Ekki er vitað til að sóknarnefnd Laugarneskirkju hafi þótt þessi atlaga sr. Bjarna að tjáningarfrelsinu og girnd til að brjóta hegningarlögin vera fundar eða ályktunar hvað þá ítarlegrar umræðu virði.

Afstaða Franklin Graham til samkynhneigðra raskar hins vegar ró og makindum sr. Bjarna og sóknarnefndar hans.

Mér er nær að halda að sóknarnefnd Laugarneskirkju og presturinn viti harla lítið um Franklin Graham.

Ég er ósammála Franklin Graham í veigamiklum málum. Afstaða hans til samkynhneigðar vegur þar ekki þyngst. Franklin Graham studdi innrás Bandaríkjanna í Írak. Hann hefur vegið að Obama forseta vegna trúarskoðana þó hann hafi beðið hann afsökunar síðar. Hann hefur haldið fram dæmalausum hlutum um ýmis önnur trúarbrögð auk ýmissa rangfærslna og margs annars sem ég er andvígur trúfræðilega. Þá hefur hann oftar en einu sinni eins og sr. Bjarni snúist eins og pólitískur vindhani.

 Þrátt fyrir það tel ég eðlilegt að Franklin þessi fái að tjá skoðanir sínar og þjóðkirkjan beri sig ekki að vingulshætti með að segja sig frá þáttöku í þessari vonar uppákomu. Sjálfur ætla ég að hlusta á Franklin Graham ef ég á þess kost þó ég sé honum ósammála í veigamiklum atriðum.

Sóknarnefndin í Laugarneskirkju ætti að muna eftir orðum sem  franska skáldinu og heimspekingnum  Voltaire eru eignuð: " Ég fyrirlít skoðanir þínar, en ég er tilbúinn að fórna lífi mínu til að þú fáir að halda þeim fram."


Þjóðkirkjan og tjáningarfrelsið

Þegar ég las afsökunarbeiðni kirkjunnar vegna auglýsingar um komu bandaríska evangelista prédikarans, Franklin Graham til landsins þá duttu mér í hug orð séra Sigvalda úr Manni og Konu eftir Jón Thoroddsen "Nú er víst kominn tími til að biðja Guð að hjálpa sér."

Kirkjan biðst afsökunar á því að hafa auglýst komu þessa prédikara til landsins af því að hann er á móti hjónaböndum samkynhneigðra. Jafnframt ítrekar íslenska þjóðkirkjan þetta í tilkynningu: 

"Það var ekki ætlunin með birtingu hennar að varpa neinum skugga á Hinsegin daga eða taka undir orð Franklin Graham um samkynhneigða og hjónaband þeirra. Við biðjumst afsökunar á þessu. Um leið viljum við ítreka að þjóðkirkjan hvikar hvergi frá samstöðu sinni með samkynhneigðum, réttindabaráttu þeirra og hjónabandi samkynhneigðra."

Þá finnst Sigríði Guðmarsdóttur presti í Guðríðarkirkju nægt tilefni vegna þessa til að nota orðið "fokk" í netfærslu vegna þessa.  Prestlegra getur það nú varla orðið. Oh my God hefði Kristján heiti ég Ólafsson yfirneytandi úr Spaugstofunni sennilega sagt við þessu.

Eftir því sem ég fæ skilið þennan málatilbúnað þjóðkirkjunnar og prestsins í Guðríðarkirkju, þá hefur þjóðkirkjan tekið afstöðu gegn tjáningar- og skoðanafrelsi kristins fólks sem talar gegn samkynhneigð og hjónabandi samkynhreigðra.  Eftir því sem ég fæ skilið prestinn í Guðríðarkirkju og tilkynningu þjóðkirkjunnar þá eiga menn ekki lengur samleið með þjóðkirkjunni séu þeir á móti samkynhneigð og hjónaböndum samkynhneigðra og óheimill prédikunarstóll í kirkjudeild Agnesar Sigurðardóttur biskups.  Sérstaklega á þetta við á Hinsegin dögum samkvæmt tilkynningunni.

Þrátt fyrir að ég telji eðlilegt að samkynhneigðir hafi öll lýðréttindi og megi ganga í hjónabönd þá finnst mér of langt gengið þegar það er fordæmanlegt að hafa aðra skoðun en mína hvað þetta varðar. Hinsegin dagar eru til að draga úr fordómum gagnvart samkynhneigðum og berjast fyrir mannréttindum þeirra. Sá tilgangur er góður og með sama hætti verða aðrir líka að njóta sömu réttinda hvorki meiri né minni.

Háskólinn fær iðulega fyrirlesara sem hafa skoðanir sem margir eru á móti og finnst jafnvel fordæmanlegar. Háskólinn risi hins vegar ekki undir nafni ef hann fengi ekki slíka fyrirlesara og gengist fyrir vandaðri málefnalegri umræðu þar sem fólk deilir og sitt sýnist hverjum.  Ég sótti tvo slíka fyrirlestra manna sem ég er andstæður í pólitík sósíalistanna Göran Person og David Milliband. Þó ég væri að mörgu leyti ósammála þeim þá fannst mér miklu skipta að eiga þess kost að hlusta á fróðlegt framlag þeirra og geta spurt þá spurninga og komið að gagnstæðum sjónarmiðum.

Á ekki það sama að gilda innan þjóðkirkjunnar eða er þar aðeins heimil ein skoðun. Sé svo þá er best að Agnes Sigurðardóttir biskup fari að biðja Guð að hjálpa sér þar sem grundvöllur er þá brostinn fyrir þjóðkirkjunni.

Hvernig væri að koma smá skynsemi og umburðarlyndi inn í þetta þjóðfélag?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 27
  • Sl. sólarhring: 401
  • Sl. viku: 3207
  • Frá upphafi: 2513707

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2995
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband