Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Þú skalt ekki stela.

Í gær ungaði Umboðsmaður Alþingis út athugasemdum sínum við framgöngu þáverandi innanríkisráðherra um lekamálið svokallaða. Niðurstaða hans var í samræmi við það sem við mátti búast að gefnum þeim upplýsingum sem lágu fyrir.  Í sjálfu sér þarf ekki mörgum orðum við það að bæta. Svona gerir maður ekki og svona hagar maður sér ekki. Þessi atriði liggja ljós fyrir í hugum venjulegs fólks

Í framhaldi af skýrslugjöf Umboðsmanns alþingis um lekamálið talaði reyndasti lögfræðingurinn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um mikilvægi siðareglna og óljóst regluverk. Innanríkisráðhera talaði um það að fara þyrfti yfir alla verkferla innan ráðuneytisins í kjölfar málsins og athuga hvað hefði farið úrskeiðis. Sjálfur talaði Umboðsmaður alþingis með svipuðum hætti.

Verkferlar og siðareglur eru ágæt orð en segja í sjálfu sér ekkert um það hvað á að gera eða af hverju þörf er á því að skoða verkferla eða setja siðareglur. Venjulegt fólk áttar sig á hvað má og má ekki og hvað er innan marka eða utan. Það virðist bara vefjast fyrir stjórnmálastéttinni að ráða við að skilgreina augljósa hluti sem augljósa.

Í boðorðunum 10 segir m.a. "þú skalt ekki stela" Inntakið í því bannákvæði hefur verið ljós öllu fólki um þúsundir ára þó sumir hafi ekki getað látið vera að brjóta gegn boðorðinu. Hvað hefði nú orðið ef Guð almáttugur eða sá sem talaði í hans nafni hefði talið eðlilegt að setja sérstakar siðareglur til skýringar og útfyllingar á boðorðunum og öðrum auðskildum bannákvæðum í hvert sinn sem einhver braut gegn því.

Óneitanlega væri fróðlegt að sjá skráðar siðareglur um boðorð eins og "þú skalt ekki stela" "Þú skalt ekki morð fremja" og "heiðra skaltu föður þinn og móður". Það væri einnig þess virði að horfa framan í þá verkferla sem þyrfti að skoða ef brotið væri gegn þessum boðorðum. Af hverju datt engum þetta í hug í þær þúsundir ára sem þessar reglur hafa gilt. Komst fólk virkilega af og vissi það hvað mátti og hvað var bannað.

Hætt er við að lagasafnið ásamt siðfræðilegum og verkferlalegum skýringum verði öllum ofviða og mundi ekki duga til að geyma það í jafnstórum vörugeymslum og nú hýsa regluverk Evrópusambandsins.


Bannfærðar skoðanir.

Borgarstjórnarflokkur Framsóknarflokksins snéri sér til manns úti í bæ, Gústafs Níelssonar, og bað hann um að taka sæti sem varamaður í mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar. Þrátt fyrir að Gústaf sé yfirlýstur Sjálfstæðismaður og hafi verið það frá 14 ára aldri þá vildu Framsóknarmaddömmurnar fá hann í þetta ábyrgðarstarf. Gústaf sagði já og borgarstjórn Reykjavíkur kaus hann með 10 atkvæðum en 5 sátu hjá.

Gústaf er því réttkjörinn varamaður í mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar. Borgarstjórnarflokkur Framsóknarflokksins getur ekki breytt því og ógilt kosningu borgarstjórnar upp á sitt eindæmi. Gústaf verður því ekki vikið frá nema af borgarstjórn en hversu auðvelt eða flókið það kann að vera þekki ég ekki.

Gústaf þarf að víkja segja Framsóknarmaddömurnar af því að hann hefur óæskilegar skoðanir. Undir það tekur ríkisfjölmiðillinn og vinstri sinnaðir álitsgjafar sem kalla alla pópúlista hverra skoðanir þeim líkar ekki við. Þá liggur það fyrir að Gústaf þarf að víkja vegna skoðana sinna en ekki vegna þess að hann sé ófær eða óhæfur til að gegna því trúnaðarstarfi sem hann var kosinn til.

Eitthvað er þetta á skjön við ummæli sem eru eignuð Voltaire þar sem hann á að hafa sagt. "Ég fyrirlít skoðanir þínar, en ég er reiðubúinn til að leggja mikið í sölurnar til að þú fáir að halda þeim fram."  Með sama hætti og það er á skjön við þau sjónarmið sem komu fram hjá mörgum sem tóku upp vígorðið "Je suis Charlie" vegna hryðjuverksins sem unnið var gagnvart ritstjórn blaðsins. Sjálfur gat ég tekið undir þau sjónarmið sem sjónarmið málfrelsis og ritfrelsis þó mér finnist þetta Charlie Hedbo blað óttalegt sorarit, sem gerir m.a. út á það að særa og meiða.

En sumar skoðanir eru óæskilegri en aðrar og þó ég deili ekki þeim skoðunum sem Gústaf vinur minn hefur varðandi samkynhneigð eða mosku í Reykjavík þá finnst mér það lýðræðislegur réttur hans að mega halda þeim fram og hafa til þess sama svigrúm og aðrir. Með sama hætti og mér finnst gott að sjónarmið talsmanns Alþýðufylkingarinnar fái að koma fram þó ég sé algjörlega ósammála þeim kommúnisma sem þar er boðaður og við skulum ekki gleyma að í hildarleik hugmyndafræðiátakanna á síðustu öld þá féllu flestir í valinn fyrir Kommúnistum.

Hefði Gústaf verið vinstri maður hefði öll menningarelítan farið úr límingunum yfir því að hann ætti að víkja og kallað það Berufsverbot eða að viðkomandi þyrfti að víkja vegna skoðana sinna. En sumar skoðanir eru heilagri en aðrar og Gústaf fer og vinstri menn telja það ekki atlögu að skoðanafrelsinu.

Með sama hætti og Robert Bork einn merkasti lögfræðingur Bandaríkjanna fékk ekki að setjast í Hæstarétt vegna þess að hann var á móti fóstureyðingum. Það var meira en vinstri elítan á Bandaríkjaþingi gat þolað honum.

Hættulegar skoðanir mega ekki vera til í lýðræðisríki. En gilda ekki sömu reglur um þær og æskileg eða óæskileg blöð. Á að banna Charlie Hedbo af því að það er sorarit sem særir og meiðir? Gildir annað um fólk en fjölmiðla?


Samband ungra sjálfstæðismanna vaknar til lífsins

Mikið var ég ánægður að sjá að mín gömlu samtök, SUS samband ungra sjálfstæðismanna, voru lifandi og stjórn þess meira að segja farin að álykta. Þegar liggur mikið við er eðlilegt að fólk hristi af sér slenið og láti til sín taka. Tilefnið var lítt hugsuð ummæli eins þingmanns flokksins að kanna bakgrunn þeirra múslima sem hér búa. Auk fordæmingarinnar er þess krafist að þingmaðurinn biðjist afsökunar.

Nú víkur svo við að ég er ekki sammála umræddum ummælum þingmannsins en sé þó ekki að hann þurfi að biðjast á þeim afsökunar eða einvher ástæða sé til að fordæma þau. Ef til vill hefði SUS frekar átt að láta í sér heyra þegar einn af ráðherrum flokksins vill auka á ríkisvæðinguna og hlutast til um það að venjulegir íslendingar hafi ekki lengur aðgang að helstu náttúruperlum þjóðarinnar nema geta framvísað certificati frá stjórnvöldum um heimild til þess. En það verður hver að forgangsraða í pólitík sem hann telur mikilvægast.

Svo er það nú annað sem að þeir sem fordæma þingmanninn Ásmund Friðriksson ættu að hugleiða, en það er sú staðreynd að lögregludeildir hvort sem eru á hinum Norðurlöndunum og Bretlandi eru einmitt uppteknar við að skoða sérstaklega þá sem aðhyllast þennan trúarhóp sem þingmaðurinn gerði að umtalsefni með tilliti til öryggis borgaranna. Þingmaðurinn er því ekki að segja neitt sem fer í bág við almenna praktík í nágrannalöndum okkar og sjálfsagt hér líka. Þá má líka benda á að stofnaðar hafa verið lögregludeildir sérstaklega til að fylgjast með fólki sem aðhyllist Íslam.

Stjórn SUS mætti taka til umræðu og skoðunar það eftirlitskerfi sem hefur verið hrúgað upp á ýmsum sviðum t.d. varðandi öryggismál þar sem heimiluð hefur verið víðtækt eftirlit og símhleranir hjá almennum borgurum. Stjórnvöld á Vesturlöndum eru stöðugt að taka sér víðtækara og víðtækara vald til að hafa afskipti af borgurunum og eftirlit með þeim á grundvelli ímyndaðs eða raunverulegs þjóðáröryggis. Hvað langt á að ganga og hve mikið viljum við gefa eftir af einstaklingsbundinni friðhelgi einstaklinganna vegna þessa. Það er spurnignin sem einstaklingshyggjumenn þurfa fyrst og fremst að svara en ekki vandræðast vegna vanhugsaðra ummæla einhvers þó hann sé þingmaður.

 


Kristið fólk þarf vernd.

Á þessu ári hefur kristið fólk orðið fyrir meir en 80% ofsókna gegn trúuðum. Sú tölfræði segir þó ekki allt. Ofsóknir gegn kristnum hafa verið þær alvarlegustu.  Kristið fólk hefur verið drepið, konur seldar í kynlífsánauð og þrælkun. Heilu söfnuðunum hefur verið eytt.

Elstu söfnuðir kristins fólks í Sýrlandi og Írak sem hafa lifað í sátt og samlyndi við umhverfi sitt í hartnær 2000 ár eru nú á flótta eða söfnuðunum verið eytt. Sums staðar hafa karlar og drengir verið drepnir en konur og stúlkur hnepptar í kynlífsþrælkun.  Í þessum löndum er kristið fólk ásamt Yasidum drepið eða selt í ánauð á meðan heimurinn horfir aðgerðarlaus á.

Í jólaboðskap sínum vék Franscis páfi sérstaklega að þessum ofsóknum gegn kristnum og hvatti til virkra aðgerða. Á sama tíma lagði biskupinn yfir Íslandi áherslu á að vinna gegn fordómum gegn öðrum trúarbrögðum með aukinni þekkingu á þeim. Boðskapur biskupsins var beint til kristinna, en ekki minnst á þær ofsóknir sem kristið fólk verður fyrir.

Ofsóknir gegn kristnu fólki eru svo miklar og alvarlegar að jafnvel systurflokkur Samylkingarinnar á Bretlandi, Verkamannaflokknum er nóg boðið. Þeir gagnrýna ríkisstjórn Cameron fyrir að vanrækja þá skyldu sína að bregðast við og koma í veg fyrir trúarlegar ofsóknir og hafa birt tillögur um að vinna gegn trúarofsóknum.

Talsmaður flokksins Douglas Alexander segir að margir stjórnmálamenn bregðist skyldu sinni með því að tala ekki um árásir á kristið fólk og kristni af því að það telji það ekki pólitískt rétt.

Óneitanlega er sú hugsun áleitin að biskupin yfir Íslandi forðist að minnast á ofsóknir gegn kristnu fólki af því að hún telji það ekki pólitískt rétt.

Það er rétt hjá biskupi að meiri hluti þjóðarinnar er kristinn og vill hafa kristin gildi í heiðri. En það þýðir ekki að kristið fólk vilji tilheyra kirkjudeild sem lætur sér ekkert um mannréttindi trúsystkina okkar varða og sneiðir hjá að hafa skoðun á mikilvægustu málum samtímans sem snertir siðferði og kristni.


Óslitin sigurför

En Guði séu þakkir, sem fer með oss í óslitinni sigurför Krists og lætur oss útbreiða ilm þekkingarinnar á honum á hverjum stað. Því að vér erum góðilmur Krists fyrir Guði meðal þeirra, er hólpnir verða, og meðal þeirra , sem glatast;

Þeim síðarnefndu ilmur af dauða til dauða, en hinum ilmur af lífi til lífs. Og hver er til þess hæfur?

Ekki erum vér eins og hinir mörgu er pranga með Guðs orð, heldur flytjum vér það af hreinum huga frá Guði frammi fyrir augliti Guðs, með því að vér erum í Kristi. (II Korintubréf 2 kap.14-17)


Ekki skjóta þá skýt ég ekki. Friðarboðskapur á jólanótt fyrir 100 árum.

Fyrir hundrað árum í desember 2014 í byrjun fyrri heimstyrjaldar höfðu Þjóðverjar sótt fram að landamærum Belgíu og Frakklands og voru þar í skotgröfum en andspænis þeim í skotgröfum nokkrum hundruð metrum frá voru hersveitir Breta.  Á milli þeirra á einskis manns landi voru lík fallinna félaga.

Á aðfangadagkvöld settu þýsku hermennirnir upplýst jólatré fyrir ofan skotgrafirnar og sungu Heims um ból. Bresku hermennirnir tóku undir. Eftir að hafa skipst á hrópum sín á milli "You no shoot, we no shoot" komu hermennirnir upp úr skotgröfunum til að heilsast og skiptast á sígarettum, skosku vískii og þýskum snafs. Þeir tóku þá ákvörðun að hafa vopnahlé á jóladag svo að þeir gætu hist aftur og grafið hina dauðu. Þeir hjálpuðust að við að grafa hina föllnu og héldu minningarmessu. Þeir sungu saman 23. Davíðssálm á þýsku og ensku jafnhliða. Hermennirnir skiptust síðan á gjöfum og kepptu í fótboltaleikjum.

Engin vildi halda stríðinu áfram. Ungir menn sem áttu framtíðina fyrir sér og vildu eiga hana í sátt og samlyndi við þá sem þeir voru í stríði við. Hershöfðingarnir urðu æfir þegar þeir fréttu þetta og hótuðu hermönnunum refsingum. Tilgangslausa stríðið hélt því áfram. Milljónir ungra manna féllu fyrir ekki neitt. Það var engin málsstaður sem verið var að berjast fyrir.

Þýskur hermaður skrifaði heim eftir jólavopnahléðo 1914 og sagði: "Mikið var þetta yndislegt, en samt svo skrýtið"  Haldið hafði verið að ungu mönnunum að hermennirnir í skogröfunum andspænis þeim væru samviskulausar skepnur- annað kom í ljós á aðfangadagskvöld. Þetta voru ungir menn sem voru að berjast á fölskum forsendum.

Því miður voru stjórnmálaforingjar stríðslandanna og herforingjaráðin svo heillum horfin að þeir gátu ekki horft á fáránleika stríðsins og samið vopnahlé og reynt a koma á friði.

Æskilegt væri að heimurinn í dag gæti tekið sér þýsku og bresku hermennina sem sömdu vopnahlé upp á sitt eindæmi til fyrirmyndar og sameinast um að gera heiminn betri og stuðla að bættum hag og aukinni velferð. Sá er í raun boðskapur jólanna.

Friður, fyrirgefning og kærleikur er inntak jólaboðsskaparins.

Vona að þið eigið öll kæru vinir gleðileg friðarjól.

Gangið á Guðs vegum.


Af hverju þessi fjandskapur við kristni?

Það er með ólíkindum hvað forustu Samfylkingarinnar er uppsigað við kristni og kirkjuhald. Þeir beita meirihuta sínum í Reykjavík ítrekað til að koma í veg fyrir að skólabörn fái að njóta jólaboðskaparins á sama tíma og þeir mæta tímanlega í öll jólaglögg á vegum Borgarinnar og aðrar uppákomur í tilefni jólanna. Slíkt er ekki hræsni að þeirra mati. En þetta sama fólk segir það hræsni þegar kristið fólk vill fylgja almennum helgisiðum.

Þegar borgarstjóranrflokkur Sjálfstæðisflokksins vonum seinna áttaði sig á nauðsyn þess að standa vörð um þau grunngildi sem kristið samfélag byggir á þá froðufellir margt Samfylkingarfólk af illsku.

Fyrstu verðlaun fær vafalaust Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingarinnar sem kallar afstöðu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins  "Djöfulsins teboðshræsni" Í sjálfu sér eðlilegt að þingmaðurinn skuli þegar á bjátar ákalla þann máttinn sem næst henni stendur.

Sósíaldemókratarnir í Samfylkingunn hafa fyrir löngu tapað hugmyndafræðilegum grundvelli sínum og viðurkenna í raun gjaldþrot hinna sósáilísku kenninga og yfirburði markaðssamfélagsins. Í þeirri pólitísku tilvistarkreppu hafa þeir tekið upp baráttu gegn kristni og kirkjuhaldi, fyrir opnum landamærum, réttindum samkynhneigðra og múslima.

Það hefði verið meira samræmi í stefnunni, ef þeir beittu sömu rökum um kristni og Íslam en því er heldur betur ekki þannig varið.

Nú er það svo að samkynhneigð er refsiverð og liggur jafnvel dauðarefsing við í flestum ríkjum sem játa Íslam og jafnstaða kynjana er ekki virt þar. En það veldur ekki vökum hjá hinu frjálslynda Samfylkingarfólki sem man ekkert þegar það á við.


Píratar og prentfrelsið

Þingflokkur Pírata hefur lagt fram frumvarp sem ber heitið "afnám fangelsisrefsingar fyrir tjáningu skoðana"  Þó að þessi breyting yrði að lögum þá breytti hún engu í raun þar sem engin hefur verið settur í fangelsi vegna þeirra brota sem frumvarpið varðar undanfarna áratugi þó slík refsing hafi verið dæmd.

Það er virðingarvert að óbreyttir þingmenn leggi fram lagafrumvörp og hugsunin er sú að endurskoða refsiákvæði vegna ærumeiðinga og standa vörð um eðlilega tjáingu. Þess vegna hefði verið æskilegt að þingmennirnir hefðu hugsað málið aðeins lengra fyrst á annað borð verið er að leggja til breytingar á refsiákvæðum vegna ærumeiðinga.

Þeir sem þurfa helst á æruvernd að halda eru einstaklingar vegna brota fjöl- og vefmiðla gagnvart t.d. friðhelgi einkalífs þeirra og heiðri. Þeir sem þurfa síður á æruvernd að halda eru þjóðríki, trúarhópar eða kynþættir. Það skaðar almennt ekki Þýskaland þó einhverjir kalli þjóðverja bölvaða nasista, sem þeir eru ekki. Kristið fólk á Vesturlöndum hefur mátt búa við árásir á trúarskoðanir sínar og trúartákn án þess að ástæða þyki til að beita refsilöggjöfinni. Þess vegna kom það fólki á Vesturlöndum á óvart þegar meðlimir Pussy Riot voru fangelsaðir fyrir brot á refsiákvæðum þess lands sem er hliðstætt þeim sem hér eru.

Meginatriðið er að fólk hafi víðtækt tjáningarfrelsi, en verði að bera ábyrgð á orðum sínum. Það verður þó að vera innan skynsamlegra marka.  Gamanleikarinn Rowand Atkinson sem lék m.a. Mr. Bean hefur verið hvað ákveðnasti talsmaður víðtæks tjáningarfelsis og fundist hatursákvæði vegna trúarhópa, hagsmunahópa og þjóða ganga allt of langt og takmarka eðlilega tjáningu og þess vegna eðlilega kerskni og húmor.

Þingmenn Pírata mættu skoða þetta mál nánar hvað varðar meiri breytingar á meiðyrðalöggjöfinni þannig að eðlileg umræða geti þróast í þjóðfélaginu þannig að þöggun tepurskaparins verði ekki alls ráðandi.


Hyskið á landsbyggðinni og útældi skíturinn á gólfinu

Rithöfundur sem ég held töluvert upp á talar í dag um hyskið á landsbyggðinni. Um daginn talaði skipuleggjandi mótmælafundar á Austurvelli um útældan skít á gólfi. Er svona orðfæri viðeigandi í umræðu siðaðs fólks?

Sýnir þetta ekki skort á að fólk gæti hófs í almennri umræðu og sýni hvort öðru tilhlhýðilega virðingu.

Fólkið á landsbyggðinni er ekki hyski heldur almennt gott fólk. Með sama hætti og það fólk sem býr í Reykjavík og foringi Framsóknarflokksins kallaði einu sinni "Grimsbýlýðinn" er líka almennt gott fólk. Að nota orðið hyski eða lýður er því orðanotkun sem lýsir hroka þess sem notar það og lítilsvirðingu gagnvart þeim sem hljóta þessar einkunnir.

Þegar stærstu viðskiptabankarnir urðu gjaldþrota árið 2008 varð þjóðin fyrir verulegu áfalli og þurfti að horfast í augu við að við vorum ekki með sérstök viðskiptagen sem gerðu okkur að "übermenschen"(ofurfólki) í viðskipta- og fjármálalífi eins og forseti lýðveldisins talaði iðulega um. Við vorum í besta falli fyrirhyggjulítið fólk í fjármálum.

Í framhaldi af því virðist eins og annað Hrun hafi orðið, sem birtist oft í illvígri umræðu, illmælgi gagnvart mönnum og málefnum þar sem stöðugt er verið að kenna einhverjum um það, sem ef til vill var, ef betur er að gáð ansi mörgum að kenna.

Það skiptir máli fyrir þjóðina til að komast áfram í tilverunni og skapa sér og afkomendum sínum betri tilveru og betri lífskjör að sýna hvort öðru virðingu og gaumgæfa hvað horfir til framfara.

Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja er orðtæki sem er alveg rétt. En það má hins vegar ekki láta fortíðina skyggja svo á framtíðina að hún verði ekki. 


Fréttablaðið, maðurinn og boltinn.

Fjölmiðlafólk sem margt vinnur við að setja fram skoðanir og gagnrýna aðra, á oft erfitt með að taka gagnrýni. Sér í lagi þegar svara verður vant. Þá er stundum gripið til þagnarinnar. Stundum til útúrsnúninga en ef viðkomandi hefur engin rök og getur ekki svarað málefnalega þá grípa lélegir fjölmiðlar stundum til þess ráðs að fara í manninn sem gagnrýndi og setja á hann stimpil sem á að gera hann ótrúverðugan.

Í bloggfærslu fyrr í vikunni benti ég á að Fréttablaðið færi rangt með staðreyndir og höndlaði þær eins og blaðið væri komið í kosningabaráttu fyrir Jón Gnarr.  Engin á Fréttablaðinu hefur getað svarað þessari réttmætu gagnrýni og þar sem svara varð vant var ákveðið að fara í manninn sem gagnrýndi og hengja á hann merkimiða.  Þetta var innleggið til að sýna fram á að lítt mark væri á gagnrýninni takandi.

Nú tel ég mér heiður af því að vera í þeim hópi sem blaðið bendlaði mig við en þar greinir menn þó á um ýmislegt. En þessi merkimiði kemur málinu ekkert við þar er reynt að fara í manninn en ekki boltann eins og allir góðir KR ingar skilja.  Eftir stendur að blaðið gerir kjánalega tilraun til útúrsnúninga af því að það treystir sér ekki til að svara málefnalega. 

Er við því að búast að umræða geti verið vönduð og málefnaleg þegar fjölmiðlar kinoka sér við að halda uppi málefnalegri umræðu en telja þess í stað rétt að bullukollast um menn og málefni.

það skiptir máli að fjölmiðlar séu vandaðir og taki sjálfa sig alvarlega og taki tillit til réttmætrar gagnrýni í stað þess að stuðla að ómálefnalegri umræðu út í bláinn.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 361
  • Sl. sólarhring: 362
  • Sl. viku: 3862
  • Frá upphafi: 2513666

Annað

  • Innlit í dag: 336
  • Innlit sl. viku: 3613
  • Gestir í dag: 314
  • IP-tölur í dag: 310

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband