Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Staðgöngumæður

Forsjárhyggjan lætur ekki að sér hæða og birtist í mörgum og sérkennilegum myndum. Þannig hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðum um staðgöngumæður undanfarna daga.

Sérfræðingar úr heilbrigðis- siðfræði- og andans stéttum mæta hver af öðrum til umræðunnar og segja að það sé í sjálfu sér allt í lagi með að fá staðgöngumæður en þó megi þessir hlutir ekki vera svona og aðrir hlutir ekki hinseginn. Ég hélt að þetta væri fyrst og fremst spurning um að gengið væri frá málinu með tryggum samningum milli aðila og gætt væri að heilbrigði og jafnræði þeirra aðila sem í hlut eiga.

Eitt flækjustigið er að staðgöngumæður megi ekki græða á að vera staðgöngumæður. Í umræðunni hefur mér fundist þetta taka hvað lengstan tíma.  Af hverju skyldu staðgöngumæður ekki mega græða á því að vera staðgöngumæður. Af hverju ættu þær ekki að taka gjald fyrir það. Hverjum kemur það í sjálfu sér við hvort samningar ganga út á það eða ekki svo fremi sem þess sé gætt að jafnræði sé með aðilum og annar aðilinn sé ekki að misnota hinn.

Af hverju þarf að gera einfalda hluti flókna?


Á að leggja jólin niður?

Samfylkingin, Besti flokkurinn og Vinstri grænir standa að því í Mannréttindaráði Reykjavíkur að bannað verði að syngja jólasálma eða fara með bænir á jólahátíðum. Auk þess að bannað verði að dreifa Nýja testamenntinu í skólum eða ástunda bænahald.

Fjölmenningarpostulinn Margrét K. Sverrisdóttir, sem nú er pólitísk próventukona hjá Samfylkingunni og formaður Kvenréttindafélags Íslands stendur fyrir þessari aðför að íslenskri trúarhefð og menningu. Það er raunar athyglivert með þá konu, að hún og félag hennar hefur iðulega amast við smámunum í íslensku samfélagi, en gætt þess vandlega að tala ekki um kvennakúgun í Íslömskum ríkjum. Raunar hefur þessi kona séð ástæðu til að setja á höfuð sér tákn kvennakúgunarinnar þegar hún þurfti að sækja próventu sína á þær slóðir.

Á sama tíma og fólk í Evrópu gerir sér grein fyrir því að nauðsyn ber til að gæta að þjóðlegri menningu og standa vörð um trúarleg gildi eins og kom m.a. fram í ræðu kanslara Þýskalands í gær, þá sér fjölmenningarfólkið í Mannréttindanefnd ástæðu til að sækja að kristni og íslenskri trúarhefð.

Gangi tillögur þessar eftir er spurning hvort ekki sé rökrétt að leggja jólahald  og jólaskreytingar alfarið niður í skólum og afnema jólafrí.

Skyldi þessi fjölmenningarlegi meirihluti hafa velt því fyrir sér hvert börnin í grunnskólum Reykjavíkur eigi að leita huggunar ef eitthvað bjátar á. Í slíkum tilvikum verður líklega bannað að fara með bænir eða leita til þjóna kristinna safnaða gangi tillögur nefndarinnar eftir.

Tillögur Mannréttindanefndarinnar sýna að pólitík skiptir máli og það getur verið dýrt að henda atkvæðinu sínu í vitleysu. Yfir 90% þjóðarinnar aðhyllist kristna trú og meiri hluti þeirra sem gera það ekki amast ekki við kristnihaldi eða kristilegri boðun. Hvað veldur því þá að þessi öfgaboðskapur Margrétar Sverrisdóttur nær fram að ganga í Mannréttindanefnd?  Ekki er það í samræmi við stefnu Samfylkingarinnar- eða er það svo?


Af hverju ákæra menn ekki Bush eða Brown?

Af hverju dettur engum í hug í Bandaríkjunum að ákæra þá Hank Paulson fyrrum fjármála-og bankamálaráðherra og Bush jr. fyrrum forseta? Af hverju ákæra Bandaríkjamenn ekki þessa menn fyrir að hafa bakað bandarísku þjóðinni þúsunda millarða dollara skuldbindingar við björgun banka.

Af hverju dettur engum manni í hug í Bretlandi að ákæra þá Alstair Darling fyrrum fjármálaráðherra og Gordon Brown fyrrum forsætisráðherra vegna bankahruns og taka á skattgreiðendur þúsunda milljarða punda skuldbindingar til að bjarga bönkum?

Af hverju þurfum við hér á Íslandi að fara í vonlausar glórulausar sérleiðir?

Á sama tíma og ríkisstjórn Bretlands gerir sér grein fyrir þeim alvarlega vanda sem við er að eiga og ákveður stórfelldan niðurskurð ríkisútgjalda ákveða þau Jóhanna og Steingrímur að halda partíinu áfram og reka ríkissjóð með halla.

Hvernig var það annars. Sat ekki Jóhanna Sigurðardóttir í 4 manna ríkisfjármálahóp ríkisstjórnar Geirs H. Haarde? Eru þá ekki ríkari ástæður til að kæra hana enn Björgvin Sigurðsson?  Það er að segja ef menn eru svo skyni skroppnir að vilja fara í sérleiðir pólitískra hefndaraðgerða.


Formaður Framsóknarflokksins og þjóðkirkjan

Formaður Framsóknarflokksins skrifar góða og athygliverða grein í Morgunblaðið í dag um þá storma sem geisað hafa um þjóðkirkjuna undanfarnar þrjár vikur. Þar vekur hann m.a. athygli á því með hvaða hætti og ómaklega hafi verið vegið að sr. Geir Waage vegna tímabærrar umfjöllunar hans um trúnaðarskylduna og ómaklega hafi verið vegið að kirkjunni og einstökum forustumönnum hennar í umræðunni undanfarið.

Formaður Framsóknarflokksins varar við upplausninni í þjóðfélaginu og bendir á mikilvægi kirkjunnar sem þjóðfélagsstofnunar.

Búast hefði mátt við því að forsætisráðherra tæki til máls með þeim hætti sem formaður Framsóknarflokksins gerir nú, en hún kaus að vega að kirkjunni þegar harðast var sótt að henni. Sú framganga forsætisráðherra var henni jafnmikið til skammar og skrif formanns Framsóknarflokksins um málefni kirkjunnar eru honum til sóma.


Davíð Þór Jónsson

Í þeirri orrahríð sem hefur geisað að undanförnu um málefni þjóðkirkjunnar þá var það nánast andleg svölun að hlusta á yfirvegaðan og öfgalausan málflutning Davíðs Þórs Jónssonar í Kastljósi í kvöld.

Það er allt of algengt að fólk beri af leið í umræðum hér á landi og þær séu óvandaðar. Sú var hins vegar ekki raunin á í Kastljósi kvöldsins. Viðmælandi Davíðs var mjög góð, en Davíð var að mínu mati þungavigtarmaður í umræðunni.  Það er full ástæða til að óska honum til hamingju með frammistöðu sína í kvöld. Hann á það skilið.  


Sótt að þjóðkirkjunni

Herra biskupinn yfir Íslandi, Karl Sigurbjörnsson hefur verið farsæll í starfi. Honum hefur gengið vel að setja niður alvarlegar deilur innan kirkjunnar og fara þann gullna meðalveg sem nauðsynlegt er á óróleikatímum.  Karl Sigurbjörnsson er líka góður kennimaður og skilaði góðu dagsverki sem prestur áður en hann settist í biskupsstól.

Miðað við þessa forsögu þá er það óneitanlega nokkuð sérstakt að talað sé um það í einhverri alvöru að biskupinn eigi að segja af sér.  Stjórnandi Kastljóss spurði biskup að þessu í kvöld og hann svaraði að vonum að til þess kæmi ekki.  Ég sé ekki að nokkuð réttlæti þessa spurningu stjórnandans.

Dregið hefur verið upp gamalt mál þar sem sr. Karl Sigurbjörnsson kom að ásamt sr. Hjálmari Jónssyni og varðaði fyrrverandi biskup. Hugsanlega hefðu þeir báðir getað höndlað það mál betur en áttu sennilega báðir að neita að koma að málinu í upphafi og benda á þær leiðir sem væru í boði í réttarríkinu.

En ég get ekki betur séð en þeir hafi ákveðið að ganga erinda fyrir konu sem hafði verið órétti beitt til að málið fengi þann endi sem hún þá óskaði. Það gekk ekki eftir og málið var þá ekki lengur í höndum þeirra sr. Karls og sr. Hjálmars.  Hvorugur þeirra var í þeirri stöðu að vera rannsóknarréttur í máli þáverandi biskups, því miður.  Þessi viðleitni sr. Hjálmars og sr. Karls til að láta gott af sér leiða þó ekki tækist betur til verður því ekki höfð uppi gegn þeim með nokkrum skynsamlegum rökum og það er svo gjörsamlega fráleitt að Karl Sigurbjörnsson hafi bakað sér einhverja ábyrgð með því að freista þess af góðmennsku sinni að láta gott af sér leiða.

Þeir eru til sem telja nauðsynlegt að veikja allar þær stofnanir sem eru hornsteinar réttarríkisins og siðaðs þjóðfélags.  Kirkjan er einn af þessum hornsteinum. Hún liggur því undir árásum þeirra sem eru í almennum mótmælum gagnvart þjóðfélaginu. Kirkjan á einnig ævarandi óvini í mörgum trúleysingjum sem telja það æðstu skyldu sína að sverta kirkjuna og gera lítið úr mikilvægu starfi hennar.  Af þeim sökum eru alltaf margir tilbúnir til að leggja mikið af mörkum til að sverta og gera lítið úr kirkju og kristindómi.

Kirkjan á ekki að hrekjast undan hvaða goluþyt sem er og standa fast á sínu sem sá klettur sem henni er og var ætlað að vera. En kirkjan verður að bregðast við réttmætum efasemdum um heilindi eigin þjóna. Það er þess vegna mikilvægt að mál sem varða fyrrverandi biskup verði tekin upp og þau leidd til lykta með eðlilegum hætti á grundvelli þeirra leikreglna sem gilda í réttarríkinu Íslandi.  Ásakanir á hendur fyrrverandi bískupi eru svo alvarlegar að það skiptir máli bæði fyrir þá sem hafa þær í frammi, kirkjuna og aðra sem að koma að leiða þau farsællega til lykta eftir því sem framast er unnt.

Ég gat ekki skilið biskupinn yfir Íslandi Karl Sigurbjörnsson með öðrum hætti í kvöld en það væri einmitt það sem hann ætlaði sér að gera.  Á hann þá ekki frekar heiður skilið en að vandlætingarsvipann sé látin dynja á honum gjörsamlega að ástæðulausu. En engin verður víst óbarinn biskup.


Dómharði presturinn í Laugarnessókn

Samfylkingarpresturinn sr. Bjarni Karlsson úr Laugarnessókn, sem frægastur hefur orðið þegar hann gerði ásamt nokkrum félögum sínum aðför að dómstólum landsins gerir nú kröfu til þess að sett verði það sem Þjóðverjar kalla "Berfusverbot" eða bann við að einstaklingar gegni starfi hafi þeir skoðanir andstæðar þeirri einu réttu.

Ef til vill gerir sr. Bjarni Karlsson sér ekki grein fyrir því áð þær skoðanir sem hann setur fram á Eyjabloggi sínu undir heitinu "Nú verður sr. Geir Waage að víkja" eiga ekkert skylt við fjálslynd viðhorf og grundvöll þeirra mannréttinda sem mótuð hafa verið ekki síst á grundvelli kristilegra lífsskoðana.  Því miður verður ekki annað séð en sú skoðanakúgun og ofstopi sem birtist í skrifum sr. Bjarna í garð sjónarmiða og viðhorfa kollega síns liggi nær fasisma og kommúnisma en frjálslyndra viðhorfa nútíma lýðræðissinna.

Sem dæmi um ummæli í bloggi sr. Bjarna má nefna: "það er háskalegt og varðar hreinan brottrekstur  úr prestsembætti að halda því fram sem sr. Geir Waage gerir" 

Í annan stað segir þessi öfgafulli þjónn þjóðkirkjunnar: "Hér er ekki um mál að ræða sem þolir deildar meiningar". 

Í þriðja lagi má nefna úr þessum skrifum klerksins í Laugarnesi, sem lýsti fyrir nokkru þeirri girnd sinni að berja Brynjar Níelsson formann lögmannafélagsins vegna skoðana hans, að hann telji biskup Íslands og Kirkjuráð ekki líkleg til að sýna einurð og dug til að  stunda þá skoðanakúgun sem Bjarni Karlsson telur nauðsynlega  og standa að brottrekstri þeirra kollega hans sem ekki eru sammála honum.  

Dómharði presturinn í Laugarnessókn mætti e.t.v. huga að orðum frelsarans um dóma.  Hann mætti e.t.v. líka íhuga grundvöll og hugmyndir þeirra sem vörðuðu leiðina til almennra mannréttinda. Hann ætti síðan að ígrunda vel hvort að þær hugmyndir sem hann setur fram séu meira í ætt við skoðanakúgun eða virðingu fyrir frjálsum skoðanaskiptum.

Mér var nóg boðið þegar ég sá Laugarnesklerkinn gera aðför að dómstólum landsins. Mér var ofboðið þegar Laugarnesklerkurinn lýsti yfir þeirri girnd sinni að berja Brynjar Níelsson vegna skoðana hans og mér er enn meira ofboðið nú þegar sr. Bjarni Karlsson setur sig í dómarasæti og  krefst að sett verði "Berufsverbot" á sr. Geir Waage sóknarprest í Reykholti.

Sr. Geir Waage vekur athygli á mikilvægu atriði sem skiptir miklu máli fyrir alla sem njóta starfa sinna vegna sérstaks trúnaðar. Þar koma til greina prestar, lögmenn, læknar, sálfræðingar og margar fleiri starfsstéttir. Hversu langt þagnarskylda presta og fleiri starfsstétta skuli ná hefur verið ágreiningsefni um langa hríð. Sr. Geir Waage, Bjarni Karlsson, biskupinn yfir Íslandi eða ég höfum engan einkarétt á sannleikanum í því sambandi. En allir megum við og eigum við að geta haft okkar skoðun án þess að þurfa að þola fasísk viðurlög.


Af hverju?

Af hverju styrktu ákveðin fyrirtæki einstaka frambjóðendur í prófkjörum um milljónir? Gefur auga leið. Til þess að þetta fólk gæti keypt sér atkvæði og ímynd með auglýsingum og komist fremst í röð frambjóðenda við Alþingis- og sveitarstjórnarkosningar

 Af hverju styrkti t.d. Landsbankinn formann þingflokks Samfylkingarinnar um rúmar 3 milljónir í prófkjöri? Kom eitthvað í staðinn fyrir styrkinn. Einkafyrirtæki styrkir ekki stjórnmálamann um þvílíka upphæð hvað þá minni nema í þröngu eiginhagsmunaskyni. Er það ekki ljóst?

Listinn yfir stóru styrkhafa hrunfyrirtækjanna sýna vel hvað prófkjörin eru hættuleg lýðræði og siðferði stjórnmálastéttarinnar. Ég hef iðulega bent á og gerði áður en ég vissi hvað þessi starfsemi var ógnvænleg að þarna væri um slíkan vanda að ræða að finna yrði aðrar leiðir en prófkjör til að velja stjórnmálaflokkum frambjóðendur. 

Vegna þess sem þegar hefur verið upplýst varðandi fjármál flokka og styrki til stjórnmálamanna er óhjákvæmilegt að stjórnmálaflokkarnir setji á fót Rannsóknarnefnd til að fara ítarlega yfir þessi mál síðustu 10 árin til að hægt sé að byggja upp heilbrigðara og siðrænna stjórnmálastarf í landinu.


Mikilvægasta trúarhátíð kristins fólks

Gleðilega upprisuhátíð.  

Upprisa Jesú eftir að hafa beðið algeran ósigur með krossfestingunni á föstudaginn langa var staðfesting á fyrirheitinu um sigur lífsins yfir dauðanum og réttmæti kenninga Jesú um eilíft líf fyrir trúna á Guð, kærleika og fyrirgefningu.

Upprisan ásamt kærleiksboðskapnum og fyrirgefningunni er það inntak sem skilur kristnina frá öðrum trúarbrögðum og gerir hana einstaka. Þessi boðun gerir kröfur til okkar hvers og eins m.a. um virðingu fyrir einstaklingnum frelsi hans og tjáningu til jafns við okkur. 

Á undanförnum árum hefur orðið hnignun í kristnum samfélögum. Ein birtingarmyndin er sú að það veraldlega hefur tekið páskadaginn nánast algerlega yfir. Siðræn gildi varðandi auðsöfnun og peningaöflun hurfu. Allt var leyfilegt og sigurvegarinn varð sá einn sem eignaðist skjótfenginn gróða. Þá skipti engu máli hvernig peninganna var aflað.

Hrunið sýndi betur en nokkuð annað hvað fráhvarf frá siðrænum gildum og aga í fjármálastarfsemi er dýrkeypt.  Þess vegna skiptir svo miklu að við rísum á ný sem þjóð á þeim forsendum og siðrænu gildum sem færðu okkur sjálfstæði almenna velferð og þau grundvallarmannréttindi sem við höfum.

 


Kirkjan komi að velferðarmálum með ákveðnari hætti.

Á fundi sem var á kosningaskrifstofu minni í hádeginu kom fram sú hugmynd frá einum fundargesta að þjóðkirkjan ætti að beita sér í auknum mæli í velferðarmálum fólks t.d. koma að hjálparstarfsemi og opna sérstaka neyðaraðstoð fyrir þá sem á þurfa að  halda.  Mér finnst þetta góð tillaga og kirkjunnar fólk ætti að taka þetta til sérstakrar skoðunar.

Það eru margir sem þurfa á aðstoð að halda og ég tel að tvær þjóðfélagsstofnanir eigi nú að bregðast við sérstaklega en þá er ég að tala um kirkju og kristilega söfnuði og verkalýðshreyfinguna.  Það er mikilvægt að við vinnum að því að komast út úr kreppunni og einstaklingsbundnum erfiðleikum með virkri samhjálp.

Eða eins og segir á einum stað í Nýja Testamentinu: "Berið hvers annars byrðar."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 21
  • Sl. sólarhring: 249
  • Sl. viku: 3280
  • Frá upphafi: 2602911

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 3063
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband