Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Evrópumál

Þú hljómar eins og Hitler

Rökþrota einstaklingur og þeir sem vilja gera lítið úr öðrum, bregðast stundum við til að ljúka umræðunni, með því að segja "þú hljómar eins og Hitler". Af sjálfu leiðir að við slíkan mann er ekki hægt að ræða eða treysta honum til góðra verka. 

Þó ummælin séu röng og eigi engan rétt á sér eru þau sett fram í þeim tilgangi að gera viðkomandi einstakling ótrúverðugan og jafnvel fyrirlitlegan. Slíkt er raunar ekki boðlegt í umræðu siðaðs fólks, en því miður reyna sumir að hengja slíka merkimiða á þá,sem þeim er í nöp við, vilja lítillækka eða hafa skoðanir sem þeir eru andstæðir og hafa ekki málefnaleg rök til andsvara. 

Það kom á óvart þegar Sigríður Hagalín Björnsdóttir fullyrti í spurningu til  Arnars Þórs Jónssonar frambjóðanda til forseta í forsetaviðtali RÚV, að hann hljómaði eins og Marine Le Pen í Frakklandi og Nigel Farage í Bretlandi.

Ekkert gat réttlætt fullyrðinguna í spurningunni. Hún var sett fram til að reyna að koma þeim stimpli á Arnar að hann væri hægri öfgamaður. 

Þó Arnar Þór hafi lýst efasemdum um þróun  Evrópusambandsins og sókn þess í aukin völd og andstöðu við fullveldi aðildarríkjanna þá rökfærir hann og setur fram mál sitt með þeim hætti að merkimiðarnir sem Sigríður Hagalín reyndi að hengja á henn eiga engan rétt á sér. Af hverju vísaði hún ekki til Margaret Thatcher sem setti fram líkari athugasemdir þeim sem Arnar hefur fært fram, en þau Nigel og Marianne? 

Spurning Sigríðar Hagalín var sett fram í annarlegum tilgangi til að gera viðmælandanum upp skoðanir. 

Þó spurning frú Hagalín hafi verið utan við þann byggilega heim sem eðlilegur er, þá kastaði fyrst tólfunum þegar skopteiknari á Vísi teiknar Arnar Þór í brúnstakka búningi liðsmanna SA sveita þýsku nasistanna. Þó teiknarinn hafi farið á ystu mörk gagnvart sumum öðrum í meintri skopmynd sinni, þá fór hann út yfir öll siðræn og afsakanleg mörk gagnvart Arnari í skopteikningu sinni.

Arnar Þór Jónsson hefur haldið uppi málefnalegum málflutningi um árabil sérstaklega um stjórnskipunarmálefni Íslands og gildi þess að Ísland gæti að fullveldi sínu. Hann hefur barist fyrir einstaklingsfrelsi og að grundvallarmannréttindi séu höfð í heiðri. Málflutningur hans hefur verið vel ígrundaður og laus við allar öfgar. Þegar þetta er skoðað þá er með algjörum ólíkindum að farið sé í manninn með þessum fyrirlitlega hætti. 

Hér á við það sem skáldið kvað og skal beint til frambjóðandans Arnar Þórs Jónssonar:   

"Taktu ekki níðróginn nærri þér.

Það næsta gömul er saga,

að lakasti gróðurinn ekki það er,

sem ormarnir helst vilja naga.


Íran er ekki á dagskrá bara Ísrael

Árum saman hefur klerkastjórnin í Íran unnið að því að gerð verði allsherjarárás á Ísrael úr mörgum áttum og eytt hundruðum milljarða í það verkefni.

Árásarhringurinn um Ísrael, sem klerkastjórnin hefur búið til er Hesbollah í Líbanon, Hamas á Gaza, Vígasveitir m.a. íranskar í Sýrlandi og vígasveitir á svokölluðum  Vesturbakka. Árás Hamas á Ísrael 7.okt.s.l. var skipulögð og fjármögnuð af Íran.

Vestrænir fjölmiðlar fjalla ekki um þessi mál og hvað mikið er lagt í sölurnar til að ná fram allsherjarútrýmingu á Gyðingum ekki bara Gyðingum í Ísrael heldur öllum Gyðingum. Klerkastjórnin í Íran og ofangreindir nótar þeirra eru mun róttækari en nasistarnir á miðri síðustu öld, en glæpur þeirra ætti að vera öllum víti til varnaðar. 

Á Vesturlöndum hefur engin mótmælt þessum hrikalega stríðs undirbúningi klerkana í Íran eða hvatt fólk til að sniðganga Íranskar vörur.

Árið 2022 leyfði 22 ára stúlka í Íran Masha Amin sér að ganga um án þess að hylja hár sitt. Hún var handtekin og drepin. Frelsi til að ráða klæðaburði sínum nær ekki til kvenna í Íran þrátt fyrir langa baráttu. Kvennasamtök um allan heim horfa framhjá því þegar þær hitta kvenkyns fulltrúa klerkana á ráðstefnum. 

Í kjölfar drápsins á Masha Amin urðu mikil mótmæli og klerkastjórnin drap fjölda fólks aðallega ungt fólk allt niður í 9 ára börn. Margir halda því fram, að fleiri hafi verið drepnir vegna mótmælanna í Íran en fallið hafa á Gasa. 

Á Vesturlöndum hafa mótmæli verð óveruleg vegna þessarar kúgunar, illmennsku og morða í Íran. Ekki eru gerðar kröfur um að fólk kaupi ekki vörur frá Íran og þessi hryðjuverkastjórn verði sniðgengin. Á sama tíma æða þúsundir vinstri sinnaðs fólks og nytsamra sakleysingja í mótmælum gegn Ísrael og er orðið að fimmtu herdeild Írana í  fyrirhuguðu útrýmingarstríði þeirra gagnvart Ísrael. Þetta fólk tekur undir hugmyndir Hamas, Hesbollah og Íran um að má Ísrael út af landakortinu. Þess er krafist að fólk hætti að kaupa vörur frá Ísrael og sniðgangi fyrirtæki eins og Rapid, sem ekkert hefur til saka unnið, út frá rasískum forsendum.

Þetta er krafa af sama meiði og nasistarnir á síðustu öld beittu gegn Gyðingum. Þeir sem þekkja þá sögu blöskrar það sem nú er að gerast meðal vinstri sósíalista í Evrópu. Þeir hafa tekið sér þjóðernissósíalistanna á síðustu öld til fyrirmyndar. Gegn slíkum útrýmingar rasisma verður að bregðast af hörku. 

Þeir sem hingað til hafa jafnan haft rasistaheiti á hraðbergi gagnvart fólki sem vill vernda þjóðleg gildi og takmarka aðgengi ólöglegra hælisleitenda til landsins er fólkið sem nú gerir sig sekt um að vera hinir raunverulegu rasistar. Til dæmis um það má benda á,að engin af þessu liði setur fram kröfu á hendur Hamas að þeir láti eftirlifandi gísla sem voru á sínum tíma meir en 200 lausa. Enginn.

Er það ekki sérkennilegt að kröfur þessa fólks skuli bara vera á annan veginn og beinast á rasískum forsendum að Gyðingum. 

 

 

 


Við gefumst upp?

Danski stjórnmálamaðurinn Mogens Glistrup sagði að danski herinn gæti ekki varið Danmörku og þessvegna væri best að koma upp á öllum landamærastöðvum sjálfvirkum símsvara sem segði á öllum tungumálum "Við gefumst upp." Síðan þá hefur danski herinn heldur betur látið til sín taka.

Mér var hugsað til þessa þegar ég hlustaði á umræður á Alþingi vegna fyrirspurna Diljá Mist Einarsdóttur um stöðuna á landamærum þjóðarinnar. Svörin voru nánast þau, að ekkert væri hægt að gera vegna Schengen reglna, reglna Evrópusambandsins skorti á áhættumati Ríkislögreglustjóra og fram eftir þeim götunum. 

Hvað gerir þjóð sem ráðist er á? Hún gefst upp eins og Mogens Glistrup talaði um. Eða hún tekur til varna. Hún tekur til varna strax og árásin á sér stað, en bíður ekki eftir áhættumati Ríkislögreglustjóra, að Alþingi samþykki breytingar á lögum eða leyfi fáist frá Schengen. Skylda ráðamanna er við þjóðina en ekki við Schengen og Evrópusambandið. Taka verður strax á þeim málum sem þola enga bið.

Stjórnleysið á landamærunum verður að taka enda núna. 

Stjórnleysið við að koma ólöglegum innflytjendum úr landi verður að taka enda núna. 

Öryggi landsmanna og velferð er í húfi. 

 

 


Að gera skyldu sína.

Hælisleitandinn,sem ógnaði vararíkissksóknara er síbrotamaður, sem ítrekað hefur gerst sekur um alvarleg afbrot. 

Maðurinn fékk dvalarleyfi,sem er löngu útrunnið, samt hefur honum ekki verið komið úr landi. Hvað veldur? Af hverju gera yfirvöld ekki neitt. 

Þrátt fyrir að vararíkissaksóknari o.fl. hafi setið undir ógnunum hælisleitandans, þá var ekki brugðist við frekar en í svo ótal öðrum sambærilegum málum. 

Nú reynir á dómsmálaráðherra og sjá til þess að þeir embættismenn sem málið heyri undir geri skyldu sína og komi öllum í burtu, sem eru ólöglega í landinu. 

Ógnin sem beinist að saksóknara í dag,beinist líklega síðar að þeim. 

Þeir hælisleitendur sem hingað koma verða að vita að lögum sé framfylgt og fólk sent í burtu þegar það er hér ólöglega. Annars gera þeir bara réttilega grín að okkur og skilaboðin fara út um allt að takist fólki að komast inn í Ísland þá þurfi ekki að óttast að vera sent í burtu. Hvaða áhrif hefur það? 

Brottvísun ólöglegra hælisleitenda ásamt landamæraeftirliti skilar árangri og það fyrr en ráðgerðar breytingar á útlendingalögum.

Dómsmálaráðherra verður að bregðast við og gera það sem þarf til að lögum sé framfylgt og öllum hælisleitendum sem eru hér ólöglega verði tafarlaust komið í burtu. Ekki seinna en strax. 


Kæru múslimsku bræður og systur

Rochdale heitir bær í Bretlandi í nágrenni við Manchester. Bærinn komst á kortið fyrir nokkrum árum, þegar glæpahringur hafði hneppt illa staddar ungar hvítar stúlkur í kynlífsánauð o.fl. Stúlkunum voru gefin eiturlyf og þeim misþyrmt. Barnayfirvöld og lögregla varnræktu skyldur sínar varðandi stúlkubörnin og létu allar viðvaranir og sannanir um glæpsamlegt athæfi eins og vind um eyrun þjóta, lögregla, barnaverndarfólk óttuðust að fá á sig rasista stimpil, ef þau vernduðu börnin. 

Þegar yfirvöld komust ekki hjá því að taka á málinu sögðu þau og fjölmiðlar að glæpaklíkan sem framdi þessi hryllilegu brot væru menn af asískum uppruna. Það var lygi til að breiða yfir að glæpamennirnir voru múslimskir karlmenn aðallega frá Pakistan. Rochdale komst á blað ásamt ýmsum öðrum borgum í Bretlandi þar sem það  sama átti sér stað. Múslimsku glæpaklíkurnar hnepptu eingöngu hvítar unglingsstúlkur sem ekki voru múslimar í ánauð. 

Yngsta fórnarlambið var 11 ára stúlka. Öllum stúlkunum var nauðgað með svívirðilegum hætti, hellt bensíni yfir sumar og hótað að kveikja í þeim. Öðrum var hótað með byssum og neyddar til að horfa á þegar öðrum stúlkum var nauðgað með hrottafengnum hætti til að vara þær við að segja ekki frá glæpunum.

Yfirvöldin brugðust ungu hvítu stúlkunum í Rochdale af ótta við ásókn múslima ef þau gerðu skyldu sína og hefðbundnir fjölmiðlar brugðust líka þegar þeir reyndu að komast hjá því að segja frá því að  þetta væri glæpahópur múslimskra karla eins og við sambærileg brot í ýmsum öðrum borgum Bretlands m.a. Oxford og Rotherham svo dæmi séu nefnd.

Þingmaður Verkamannaflokksins, Ann Cryer tók þessi mál upp til varnar þessum illa stöddu unglingsstúlkum, en var samstundis stimpluð Íslamófób og rasisti. Múslimska samfélagið stóð með múslimsku glæpamönnunum, sem frömdu þessi hræðilegu afbrot. Ann Cryer var hótað lífláti og misþyrmingum og þurfti að fá lögregluvernd allan sólarhringinn.

Nú bregður svo við í Rochdale, að George nokkur Galloway var kosinn þingmaður í aukakosningum þ. 29 febrúar. Galloway var rekinn úr Verkamannaflokknum m.a. fyrir Gyðinga hatur. Hann var sérstakur vinur Saddam Hussein og viðraði sig upp við klerkastjórnina í Íran og nú dáir hann Pútín og hvetur til dáða í Úkraínu.

Galloway segir sigur sinn sigur Gaza. Alls voru um 78 þúsund manns á kjörskrá og Galloway fékk 12.355 atkvæði eða um 16% þeirra sem kosningarétt höfðu. Hann sigraði samt vegna skiptingar atkvæða og dræmrar þáttöku.

Múslimar eru fjölmennir í Rochdale eða um 26% kjósenda og Galloway sendi sérstök skilaboð til múslima í kjördæminu og sagðist hafa barist fyrir múslima allt sitt líf og í nafni Allah talaði hann til sinna múslimsku bræðra og systra.

Engum datt í hug að bregðast við þessum boðskap Galloway með því að benda á að um væri að ræða rasísk skilaboð og baráttu þar sem lóðin væru lögð á altari einmenningar múslima, sem neita að aðlagast samfélaginu eins og þeir gera allsstaðar. Frambjóðandi sem hefði eingöngu biðlað til kristinna kjósenda hefði verið hrópaður niður.

Glámskyggni evrópskra stjórnmálamanna ríður ekki við einteyming og nú um stundir fara íslenskir stjórnmálamenn þar fremstir í flokki og hamast við að flytja inn múslimska kvótaflóttamenn og samþykkja nýverið að flytja inn á annað hundrað sömu tegundar eins og það megi vera það sem helst færi íslenskt þjóðfélag fram á veginn.

Hvar er þetta fólk eiginlega statt í vitsmunalegu tilliti? Eða er því í nöp við það þjóðfélag og þau þjóðfélagslegu gildi sem gerðu vestræn lýðræðisríki að forusturíkjum hvað varðar mannréttindi,öryggi og virðingu fyrir einstaklingnum.


Af hverju eru Arabaríkin stikkfrí?

Utanríkisráðherra sagði í gærkvöldi að hann ætlaði bregðast við kröfum ofbeldisaðilanna á Austurvelli. Kom á óvart miðað við fyrri ummæli og fordæmi. Ekki er þetta til að auka á trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki.

Skrýtið að engin skuli spyrja, hvers vegna Egyptaland skuli nánast ekki gera neitt meðan stríð varnarsveita Ísrael við hryðjuverkasamtök Hamas geisar og bjóða íbúum Gasa að koma tímabundið meðan átökin geysa. Slíkt mundi draga verulega úr mannfalli óbreyttra borgara. 

Þetta dettur Egyptum ekki í hug þó þeir eigi landamæri að Gasa og Gasa hafi áður verið hluti af Egyptalandi. Af hverju hamast framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kommúnistinn Guteres, ekki að Egyptum, Írönum og Saudi Aröbum og krefst þess að þeir sinni mannúð og taki við flóttamönnum frá Gasa meðan stríðið geisar. Af hverju hefur Evrópusambandið ekkert um þetta mál að segja?

Í flóttamannasamþykkt SÞ er gert ráð fyrir að flóttamenn séu sem næst heimaslóð þannig að þeir geti auðveldlega flutt til baka þegar styrjöld lýkur. Ursula von der Leyen sem hefur meira að segja skoðun á því hvort blaðamaður má tala við Putin eða ekki hefur enga skoðun á þessu og engin á vegum ES gerir kröfu um að nágrannaríki Gasa hjálpi. Flóaríkin taka ekki við öðrum frá Gasa en æðstu stjórendum þar sem þeir lifa í vellystingum á bestu lúxushótelum og eyða mannúðaraðstoð Vesturlanda sem fólkinu á Gasa var ætlað. 

Bjarni Benediktsson hefði átt að benda á þessi sjónarmið og gera kröfu um að nágrannaríki Gasa tækju til hendinni og lofað stuðningi til þess í stað þess að setja það vafasama fordæmi að flytja hátt í 200 manns frá Gasa til Íslands, þegar hægt hefði verið að hjálpa a.m.k. 20.000 manns á heimaslóð fyrir það sem það kostar og gera það sem Egyptum, Saudi Aröbum og Írönum ber að gera langt umfram okkur. 

Af hverju dettur engum í hug að einhver mannúðarskylda hvíli á Arabaríkjunum og Íran, en hún sé öll hjá ríkjum Evrópu og þó sérstaklega fámenna Íslandi og íslensk stjórnvöld skuli láta þessa vitleysu yfir sig ganga? 

 


Ofurjarðskjálfti pólitískrar heimsku

Dálkahöfundurinn Ambrose Evans Pritschard hjá DT, segir um aðgerðir Evrópusambandsins(ES) í landbúnaði, að á Richter skala þá sé erfitt að finna nokkuð í líkingu við þá pólitísku heimsku, sem reglur ES í landbúnaði feli í sér.

Bændur í Frakklandi mótæla stefnu ES og sama gera bændur í Belgíu og Spænskir bændur eru taldir líklegir til að fylgja í fótspor þeirra. 

Hækkun á gjöldum á díselolíu til bænda var neistinn sem kveikti bálið að þessu sinni. Einn talsmaður franskra bænda sagði að vandamálin hafi verið valin og skipulögð af ES andstætt almennri skynsemi (common sense)og gegn hagsmunum bænda. Öllum varnaðarorðum hafi verið ýtt til hliðar.

Tekjur bænda í Frakklandi hafa dregist mikið saman og fyrirskipanir ES um að draga úr notkun á skordýraeitri um 50% og tilbúnum áburði um 20% og breyta framleiðslunni þannig að 25% séu lífræn í nafni grænna gilda er framtíð, sem að franskir bændur sjá að þeir geta ekki ráðið við. Með þessu regluverki eru völdin tekin frá þjóðríkjum og ráðstjórnin í Brussel tekur öll völd í sínar hendur. 

Ráðstjórnin í Brussel hefur að þessu sinni gengið allt of langt. Bændur í Hollandi buðu fram í síðustu sveitarstjórnarkosningum og náðu að verða stærsti stjórnmálaflokkur Hollands vegna andstöðu sinnar við fyrirskipanir frá Brussel. Hollenskur landbúnaður er einn sá besti í heimi, en það átti að endurtaka mistökin frá Sri Lanka og banna þeim að nota tilbúin áburð og loka 11.200 bændabýlum (þvingunarráðstöfun)og gera 17.600 bændum til viðbótar að draga úr framleiðslu um þriðjung. Allir sáu að þetta gat aldrei gengið upp - Nema ráðstjórnin í Brussel. Nú tala menn um Nexit í vegna þess hve þeim fjölgar hratt í Hollandi,sem vilja segja sig úr ES.

Í lok greinar sinnar segir Pritschart að best sé að láta kosin þjóðþing og ríkisstjórnir sjá um þessa hluti í stað teknókratana í ES, sem séu einangraðir frá almennri skynsemi og pólitískri ábyrgð, en það sé ekki hægt að víkja þeim frá og það sé mjög erfitt að breyta lagabálkum upp á 180 þúsund blaðsíður. Þessvegna geti stofnunin (ES) haldið áfram rangri stefnu í langan tíma áður en það springur. 

Það er dapurlegt að horfa upp á þessa einræðistilburði ólýðræðislegrar yfirstjórnar ES og þennan skynsemisskort, sem veldur því að Evrópa er stöðugt að dragast aftur úr öðrum. 

Hvaða erindi á Ísland í þennan klúbb ráðstjórnar og einræði, þar sem allt gengur út á að draga úr fullveldi aðildarríkjanna og að sama skapi draga valdið til Brussel á öllum sviðum.

Við þessar aðstæður er dapurlegt að íslenskir stjórnmálamenn telji það helst mega verða til varnar sínum sóma að lögfesta reglur varðandi bókun 35, sem veitir regluverki ES forgang umfram lög samþykkt á Alþingi. 

 


Lýðræðið og öfgarnar

Fólk á Vesturlöndum velkist ekki í vafa um að svokallað lýðræði í Íran sé bara að nafninu til. Hópur gamalla íranskra klerka ræður öllu og bannar öllum að bjóða sig fram nema þeim sem þeir samþykkja. Lýðræði þeirra er þið megið kjósa, en við ráðum. 

Í vaxandi mæli hefur þróunin orðið svipuð í Rússlandi, þar sem stjórnarandstæðingar eiga undir högg að sækja og þeim iðulega meinað að bjóða sig fram eða settir í fangelsi fyrir furðusakir.

Lýðræðið á undir högg að sækja og mun alltaf eiga það. Öflin sem vilja að þeim séu tryggð yfirráð án afskipta annarra eru alltaf sterk. Þannig er það á Davos ráðstefnunum þar sem helstu auðmenn heimsins  koma og bjóða völdum vinum sínum eins og Katrínu Jakobsdóttur og ráðslagast um hluti sem þeim kemur í raun ekki við heldur kjósendum í hverju ríki fyrir sig. 

Þýski stjórnmálaflokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) hefur verið að auka fylgi sitt og mælist nú af svipuðum styrkleika og Samfylkingin á Íslandi eða með rúmlega 20% fylgi. Það er of mikið fyrir sómakært Samfylkingarfólk í Þýskalandi, sem krefst þess að AfD verði bannaður. Sú staðreynd að slík krafa skuli koma fram í vestrænu lýðræðisríki er alvarleg.

AfD er lýðræðissinnaður flokkur, sem starfar á lýðræðislegum grundvelli og setur fram skoðanir sínar sem slíkur. 

Í þýskalandi hafa sósíalisar og kommúnistar farið í kröfugöngur og að sjálfsögðu tekið börnin með til að mótmæla tilveru AfD. Í lýðræðinu skiptir máli að fólk og flokkar reyni að sannfæra aðra en ætlist ekki til að ríkisvaldið banni skoðanir annarra. Þessvegna er tjáningarfrelsið svo mikilvægt. Í stað þess að banna skoðanir er mikilvægt að tryggja tjáningarfrelsið. 

Vinstrið í Evrópu, sem fékk hefðbundna Sósíalista og hægfara mið- og hægri flokka í lið með sér varðandi ýmis mál m.a. innflytjendamál horfir nú fram á að kjósendur í Evrópu þ.á.m. á Íslandi ætlast til þess að skipt sé um stefnu. Við því verður að bregðast að mati vinstrisins og banna skoðanir og stjórnmálaflokka sem leyfa sér að berjast fyrir skoðunum sem eiga sér mikið fylgi og vonandi meirihlutafylgi. 

Sjaldan bregður vinstra fólk vana sínum og það eitt að stórum hópum vinstra fólks skuli detta í hug að banna lýðræðissinnaðaun stjórnmálaflokk er fordæmanlegt og sýnir því miður hvað lýðræðið ristir grunnt hjá allt of mörgu fólki. 

 

 


Fullveldi í 105 ár

Helsti hátíðisdagur þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga er í dag. 105 ár eru liðin frá því að þjóðin fékk fullveldi.

Oft hefur verið auðvelt að glata fullveldinu á þessum 105 árum eða gera samninga við erlendar þjóðir sem gerðu það hjóm eitt. Sem betur fer hefur okkur borið gæfa til að gæta fullveldisins og það fjöregg megum við ekki brjóta.

Með breytingum á regluverki Evrópusambandsins hefur EES samningurinn verið túlkaður þannig, að í mörgum greinum er sótt að fullveldi þjóðarinnar. Þar verður að sporna við og taka samninginn til endurskoðunar svo að fullveldið verði tryggt.

Við vorum lánsöm, að heyra undir Dani. Hefði svo ekki verið er næsta víst, að við hefðum orðið bresk nýlenda og værum ekki frjáls og fullvalda þjóð heldur hluti Stóra Bretlands og algjör útnári. Íslenskan væri þá ekki lifandi tungumál. 

Viðskilnaður Íslands og Danmörku varð í fullum friði með samkomulagi landanna fyrir 105 árum,slíkt er fáheyrt í sögunni um nýlendu og herraþjóð.

Á þessum tímamótum ættum við að minnast þeirra sem börðust fyrir íslensku fullveldi. Þar var jafnan sótt með rökum og fullri einurð, en á sama tíma af kurteisi og virðingu fyrir Dönum. 

Við eigum að strengja þess heit á þessum degi, að Ísland skuli ávallt vera frjálst og fullvalda. Að því ber okkur að vinna.


Að gæta hagsmuna þjóðarinnar

Fróðlegt að lesa frásögn fyrrum forseta Ólafs Ragnars Grímssonar af viðtali við sjónvarpsstöðina Sky, þar sem hann fór réttilega hörðum orðum um Gordon Brown forsætisráðherra Breta fyrir að beita Ísland hryðjuverkalögum og setja okkar í hóp með Al Kaída, Talíbönum og ISIS þegar við áttum hvað erfiðast. 

Afar fróðlegt að heyra að Tony Blair fyrirrennari Gordon Brown skyldi segja við hann að Brown væri þrjótur,sem hann var. 

Ólafur Ragnar stóð sig best í forsetaembætti, þegar hann lét ekki bugast í fjármálahruninu, en stóð með íslenskum hagsmunum hvar svo sem við var komið. 

Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar stóðu báðir einarðir með íslenskum hagsmunum varðandi Icesave og náðu ásamt annarra góðra manna hjálp, að koma í veg fyrir að við yrðum beitt afarkostum. 

Því miður voru ekki allir jafn ákveðnir og framsýnir í hagsmunagæslunni fyrir hönd Íslands.

Setning hryðjuverkalaga á Ísland var ólöglegt skv. alþjóðalögum, ósiðlegt og ósæmilegt og gjörsamlega ófyrirgefanlegt gagnvart vinaþjóð og bandalagsþjóð í NATO. Sú aðgerð olli okkur gríðarlegu tjóni. Það tjón vildum við Guðni Ágústsson, að Bretum yrði gert að bæta okkur og settum ítrekað fram þau sjónarmið og kröfur strax eftir að Bretar settu hryðjuverkalögin. 

Því miður var þá og í framhaldinu engin Davíð og engin Ólafur í forsvari fyrir Íslands hönd í ríkisstjórn og þáverandi ráðamenn og þeir sem við tóku sáu því miður ekki ástæðu til að standa með málstað Íslands gagnvart þeirri fólskulegu árás sem Bretar beittu okkur. 

Það skiptir alltaf máli fyrir þjóðir, að hafa góða málsvara á hvaða vettvangi sem er. Fólk, sem þorir sérstaklega þegar bjátar á, að standa með Íslandi, Íslendingum og íslenskum hagsmunum. 


mbl.is Gordon Brown er bara þrjótur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 187
  • Sl. sólarhring: 840
  • Sl. viku: 4008
  • Frá upphafi: 2427808

Annað

  • Innlit í dag: 175
  • Innlit sl. viku: 3711
  • Gestir í dag: 173
  • IP-tölur í dag: 170

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband