Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Evrópumál

Þjóðernissinnaður hægri flokkur

Í dag eru þingkosningar á Spáni. Fréttastofa RÚV hefur fundið sinn óvin þar, VOX flokkinn, sem RÚV segir öfgahægri flokk.  

Fréttastofa RÚV andskotaðist út í flokk Melloni á Ítalíu vegna sömu ávirðinga. Eftir að Melloni varð forsætisráðherra sést, að ríkisstjórn hennar er sú besta á Ítalíu um áratuga skeið.

En hver er þessi VOX flokkur á Spáni? 

VOX byggir á kristnum gildum, virðingu fyrir einstaklingnum og er andstæðingur fasisma, nasisma og kommúnisma. VOX er á móti kynrænu sjálfræði og vill loka moskum öfgamúslima. Þeir berjast fyrir lægri sköttum og gegn útþennslu ríkisbáknsins.

VOX telur að lög Spánar eigi að gilda umfram lög Evrópusambandsins(ES)og er sammála okkur, sem erum á móti tillögu utanríkisráðherra um að ES lög gildi umfram íslensk.

VOX stendur fyrir einstaklingshyggju,valddreifingu, kristin gildi og mannréttindi. Þessvegna kærðu þau Kóvíd ráðstafanir stjórnar sósíalista, til stjórnlagadómstóls Spánar og unnu sigur. 

RÚV greinir ekki frá því að Sósíalistar hafa staðið fyrir árásum á frambjóðendur VOX. Þessir vinstriöfgamenn, sem saka VOX um fasisma eru þeir einu sem beita frambjóðendur annarra flokka ofbeldi og reyna að koma í veg fyrir lýðræðislega starfsemi andstæðinga sinna. 

VOX er róttækur þjóðernissinnaður hægri flokkur, sem vill ekki að það sé skipt um þjóð á Spáni og leggur fram tillögur um að stemma stigu við straumi hælisleitenda til landsins. Þeir vilja verja einingu Spánar og andæfa gegn grænu öfgahyggjunni.

Athyglisverð eru ummæli eins helsta forustumanns VOX fyrir nokkru varðandi innflytjendastrauminn, en hann sagði: "Það eru bara þeir ríku sem geta veitt sér þau lífsgæði að eiga ekki föðurland."  Þeir ofurríku, berjast nú flestir fyrir glópalisma og alheimsstjórn með Davos sem höfuðborg sína. Gegn þjóðríkinu og hefðbundnu lýðræði. 

Við lýðræðissinnar sem viljum venda þjóðríkið, valddreifingu og réttindi einstaklinganna verðum  að vera í varðstöðu gagnvart þeim öflum. Raunverulegu lýðræði og þjóðríkinu stafar hætta frá auðkýfingunum í Davos, en ekki frá þeim sem vilja vernda hefðbundið lýðærði og fullveldi þjóðríkisins.  


Fjórfrelsi fólk vinna og auðhyggja

Sérkennilegt að talsmenn verkalýðsins skuli ekki gagnrýna alþjóða ofurkapítalismann fyrir að nota reglur um frjálsa för verkafólks eingöngu til að þjóna skammtímahagsmunum og  auðhyggju hinna skammsýnu. 

Fjórfrelsi Evrópusambandsins: Frjáls flutningur á vörum, fjármunum, þjónustu og fólki. Vörur eru hlutir, fjármagn eru peningar, þjónusta eru aðgerðir, en fólk er allt annað og ólíkt. Fólk eru vitsmunaverur, bundið eigin menningu, tilfinningum, afstöðu, hegðunarmynstri og þjóðfélagssýn o.s.frv. 

Frjáls för er sett í Evrópusáttmálann til að þjóna hagsmunum stórfyrirtækja til að geta meðhöndlað vinnuaflið eins og hráefni og flytja það fram og til baka og halda launakjörum niðri, en um leið að búa til lágstétt innflytjenda og aðra lágstétt velferðarfarþega, sem telur það ekki þess virði að vinna láglaunatörfin sem lágstétt innflytjenda vinnur. 

Hin hliðin á peningnum er sú, að með því að flytja hæfasta fólkið frá þróunarríkjunum eða fátæku löndunum, er verið að taka frá þeim mestu verðmætin, mannauðinn, sem þessi ríki gætu byggt framfarasókn sína á. 

Ofurfyrirtæki glóbalismans í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu hafa átölulaust flutt verksmiðjur og framleiðslufyrirtæki frá Evrópu og Ameríku, þar sem verkalýðurinn hefur náð góðum réttindum og starfskjörum. Vel launuð vinna er tekin frá hinum vinnandi stéttum í Evrópu og Bandaríkjunum til að flytja þau til ríkja þar sem réttindi hinna vinnandi stétta eru engin og launakjör vísa til nútíma þrælahalds.

Verkalýðshreyfingin og stjórnmálamenn Vesturlanda hafa látið þetta yfir sig ganga og brugðist gjörsamlega. Það veldur þeim ekki vökunum á Davos fundum hinna ofurríku og stjórnmálamanna í þjónustu þeirra. Þar ræða menn um að koma í veg fyrir að venjulegt fólk geti ferðast í sumarleyfinu sínu vegna meintrar hnattrænnar hlýnunar á sama tíma og Davos furstarnir koma á fundinn á um þúsund einkaþotum.

Verkalýðshreyfingin virðist ekki hugsa um annað en kjarasamninga í krónum og aurum, en horfir ekki til langtímamarkmiða. Stjórnmálastéttin hefur brugðist alla þessa öld og raunar lengur, þar hefur auðhyggjan ráðið öllu, en siðræn gildi og virðingin fyrir einstaklingnum vikið algjörlega nema viðkomandi sé auðmaður og skiptir þá ekki máli hvernig auðurinn er tilkominn. 

Mammon spyr bara um hvað þú átt mikla peninga ólíkt hinum kristilegu  og siðrænu gildum þar sem glaðst er yfir velgengni fólks þegar það hefur unnið til þess á heiðarlegan hátt. 

 


Stjórnmál í Hollandi og Íslandi

Helsta baráttumál hefðbundinna stjórnmálaflokka á Vesturlöndum um nokkurt skeið, hefur verið að komast í ríkisstjórn og vera með í partíinu. Ekki þó til að gera neitt umfram að deila og drottna í þágu vina og flokksfélaga.

Eftir að BBB flokkurinn (Borgara og bænda hreyfingin) í Hollandi varð stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum m.a. vegna andstöðu sína við loftslagsstefnu stjórnvalda, voru góð ráð dýr fyrir stofnanaflokkana. 

Mark Rutte,Teflon Mark eins og hann er kallaður,  sem leitt hefur fjórar samsteypustjórnir samfellt á 13 ára tímabili sá til þess, að hægt var að mynda samsteypustjórn fjögurra stærstu hefðbundinna stjórnmálaflokka til að halda BBB utan stjórnar og gera þá áhrifalausa og gæta þess, að vilji stórs hluta kjósenda næðu ekki fram að ganga að neinu leyti. 

Nú þrýtur Mark Rutte örendið vegna þess að jafnvel í Hollandi halda stofnanaflokkarnir samt í ákveðna grunnstefnu, ólíkt því sem er hér. 

Hér norður við heimskautsbaug fylgir ríkisstjórnin óábyrgri stefnu í málum hælisleitenda þrátt fyrir að Jóni Gunnarssyni tækist með harðfylgi að koma fram örlitlum breytingum þrátt fyrir andstöðu VG. 

Óneitanlega hlítur Sjálfstæðisfólk að velta fyrir sér hvort forusta flokksins sé tilbúin til að gefa hvað sem er eftir bara til að hanga í ríkisstjórn með Framsókn og Vinstri grænum. 

Þrátt fyrir góðæri til lands og sjávar er ríkissjóður rekinn með gríðarlegum halla og báknið þennst út. Atvinnumálaráðherra VG tekur fyrir að atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar séu virt. Varaformaður VG þvælist fyrir því að lögfestar verði nauðsynlegar reglur varðandi stéttarfélög og vinnudeilur. Ólöglegir innflytjendur flæða inn í landið og ríkisstjórnina skortir samstöðu um að gera nauðsynlegar breytingar á lögum og stjórnvaldsreglum til að koma í veg fyrir hamfarir vegna þess.

Til að kóróna allt boðar forsætisráðherra, að leggjast á árar til að takmarka tjáningarfrelsið með því m.a. að setja opinbera starfsmenn á námskeið til að læra hvað má segja og ekki segja. Allt er það með blessun formanna hinna stjórnmálaflokkana

Hvenær er eiginlega kominn tími til að ljúka þessu stjórnarsamstarfi. Ég taldi næsta öruggt að þegar Svandís Svavarsdóttir braut gegn atvinnufrelsinu þá væri nóg komið. En svo var ekki. Sumarfríið heillaði. 

En hvað ætlar þá Sjálfstæðisflokkurinn að bjóða upp á í næstu kosningum?  

 


Hverju á að spá?

Á tímum Sovétsins voru hundruðir Sovétfræðinga að fylgjast með og meta hvernig þróunin yrði.  Þeir höfðu ævinlega rangt fyrir sér. Engin þeirra sá fyrir breytingar í stjórn Æðsta ráðsins hvað þá hrun Sovétríkjanna.

Nú þegar ein furðulegasta byltingartilraun í Rússlandi hefur runnið út í sandinn með samningum stjórnvalda og Wagner hersveitanna, er eins líklegt að Rússlandsfræðingarnir eins og Sovétfræðingarnir fyrrum eigi erfitt með að sjá fyrir hver þróunin verður í þessu víðfeðma landi. 

Stóra spurningin er hvað gekk Prígjórsín til með þessu herhlaupi?  Ætlaði hann að steypa Pútín eða var þetta eingöngu ætlað til að ná fram breytingum á herstjórn Rússa. Herstjórn Rússa er raunar skelfileg. Undirmenn sýna ekkert frumkvæði og gera ekki neitt nema fá beinar fyrirskipanir. Þess vegna gat Prígórsjín og Wagner liðar hans sótt svona hratt fram í áttina á Moskvu án þess að nokkur viðbrögð  yrðu lengi vel. 

En hvað gekk Prígórsjín til? Var þetta bara skelfilegt frumhlaup af hans hálfu eða úthugsað plott til að ná árangri. Hið fyrrnefnda virðist líklegra. En engu að síður náði hann þeim árangri að taka stjórnunarstöðvar rússneska hersins sem stjórna aðgerðum í Úkraínu. Honum tókst að sækja gegn Moskvu og sýna þar með veikleika rússnesku herstjórnarinnar. En skilaði þetta herhlaup nokkru öðru?

Svo fremi ekki sé  í gangi djúphugsað master plan til að blekkja andstæðingin þá er ekki hægt að segja annað en þetta herhlaup hafi veikt Pútín og her Rússa. Á þessari stundu er ekki hægt að segja fyrir hverjar afleiðingarnar verða.

Enn á ný er sýnt fram á þá miklu veikleika sem eru í her og herstjórn Rússa, sem gerir þá að annars flokks herveldi. Þar sem sú staðreynd liggur fyrir og á því verður ekki breyting á næstunni, þá er með ólíkindum að Vesturveldin sjái sig tilknúinn til að auka gróða vopnaframleiðenda vegna yfirvofandi hættu, sem er ekki fyrir hendi.

Meðan her Rússa er eins veikburða og hann hefur sýnt sig að vera og þjóðfélagslegar andstæður eru jafnmiklar og raun ber vitni í Rússlandi, þá eru þeir ekki raunveruleg hernaðarleg ógn við NATO ríkin.

Allir fundir Katrínar Jakobsdóttur og Þórdísar Kolbrúnar sem og stríðsherra NATO sem krefjast aukinna framlaga til hergangnaiðnaðarins er því ástæðulaus, fjandsamleg atlaga að vestrænum skattgreiðendum allt til að hyggla vopnaframleiðendum og það algjörlega að ástæðulausu. 


Ógnarstjórn sektarkenndar

Enn einn bátur yfirfullur af fólki sökk á rúmsjó í Miðjarðarhafi næst Grikklandi og mikill fjöldi fólks fórst. Fjölmiðlar töluðu um sök Grikkja, en Grikkir höfðu ekkert með þennan skipsskaða að gera.

Alla þessa öld hafa smyglarar grætt gríðarlega á að selja fólki sem vill komast frá Afríku og Asíu til Evrópu far á okurverði. Í fæstum  tilvikum mundu bátarnir fá haffærnisskírteini hér. Þegar eitthvað fer úrskeiðis hamra fjölmiðlar á sök Evrópubúa og ógnarkennd sektarkenndar heltekur marga einkum vanstilltum leiðtogum bresku biskupakirkjunnar. Við berum samtn enga ábyrgð á framferði smyglarana eða þá áhættutöku, sem farendurnir svokölluðu takast á hendur. 

Þ. 3.október 2013 sökk bátur við eyjuna Lampedusa. Ítalska strandgæslan bjargaði meira en 100 manns, en 300 drukknuðu. Í kjölfar þessa greip ítalska ríkisstjórnin til víðtækra björgunaraðgerða á ítalska hafssvæðinu, sem kostuðu ítalska skattgreiðendur mikið fé. 

Til svipaðra aðgerða var gripið af hálfu Spánar og Grikklands auk aðgerða sem Evrópusambandið stóð að sbr.störf áhafna á flugvél landhelgisgæslunnar íslensku á Miðjarðarhafi. 

Þrátt fyrir þessar víðtæku aðgerðir til að tryggja aukið öryggi á Miðjarðarhafi, svo að farþegar á lekahripum smyglarana komist alla leið, þá gerast slysin enn enda Miðjarðarhafið ógnar stórt.

Evrópa hefur gert meira en hægt er að ætlast til, en löndin sem heimila starfsemi smyglaranna gera ekki neitt. Það er þessum ríkjum að kenna löndum eins og Líbýu, Marokkó, Alsír,Túnis og að hluta til Tyrklandi að smyglararnir geta haldið upp iðju sinni en ekki okkur. 

Smyglararnir vita hvernig kaupin gerast og nú fara smyglbátarnir af stað með minnsta mögulega bensín, sem dugar ekki til að fara lengra en út á mitt Miðjarðarhafið. Smyglararnir vita að þar verður fólkinu að öllum líkindum bjargað.  

Frá 2013 hefur Evrópa verið að berjast gegn þessu smygli á fólki til Evrópu með litlum árangri. Samt láta fjölmiðlar í Evrópu og einstaka kirkjkudeildir eins og Evrópubúar eigi að bera ábyrgð á öryggi allra sem fara um Miðjarðarhafið löglega eða ólöglega. 

Vilji Evrópubúar gera eitthvað skynsamlegt í þessum málum og koma í veg fyrir að Miðjarðarhafið verði áfram stærsti kirkjugarður í heimi, þá er ekki rétta leiðin að floti og strandgæsla Evrópuríkja sigldi strax með fólkið til baka til þess lands þaðan sem þau lögðu af stað.

Með þeim eina hætti er hægt að koma í veg fyrir að Miðjarðarhafið haldi áfram að vera stærsti kirkjugarður í heimi. Með þeim hætti er hægt að tryggja málefnalegri afgreiðslu umsókna hælisleitenda og með þeim hætti yrðu tekið fyrir starfsemi glæpamannanna sem gera sér neyð fólks að féþúfu auk þess að beita það allskyns harðræði m.a. nauðgunum og eignaupptöku. 

Sem betur fer er stjórn Giorgiana Melloni á Ítalíu byrjuð að feta sig inn á þessa leið og vonandi nær hún árangri, en Evrópusambandið dregur lappirnar og gerir ekki neitt skynsamlegt í málinu því miður líklega hér eftir sem hingað til. 

Skipasskaðarnir með flóttafólk á Miðjarðarhafi eru ekki okkur að kenna, en við eigum að leysa vandamálið með því eina sem hægt er að gera þ.e. að sigla beint með fólkið til baka til þess staðar þar sem lagt var úr höfn. 

 


mbl.is Að minnsta kosti 78 fórust og fjölmargra er saknað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er kominn tími á mið-vinstri stjórn í landinu?

Viðtal við Kristrúnu Flosadóttur í Morgunblaðinu í dag er um margt athyglisvert. Svo virðist sem Kristrún sé ekki haldinn þeim vinstri derringi og dreissugheitum, sem hefur einkennt flestar flokkssystur hennar enda fékk hún pólitískt uppeldi annarsstaðar en þær. 

Kristrún leggur málin fram með jákvæðum hætti og vísar til að Samfylkingin sé hluti alþjóðlegrar hreyfingar sósíaldemókrata. Ég vona að hún sé með því m.a. að vísa til stefnu danskra sósíaldemókrata í hælisleitendamálum. Þeir nálgast þau mál af skynsemi, andstætt þeirri ómálefnalegu og þjóðfjandsamlegu umræðu sem einkennt hefur afstöðu Samfylkingarinnar til þeirra mála.

Þá er athyglisvert, að Kristrún útilokar ekki stjórnarsamvinnu við neinn flokk, en segir að mikilvægt sé að ná þeim styrk, að Samfylkingin þurfi ekki á Sjálfstæðisflokknum að halda. M.ö.o. þá þýðir það að hún hugsi að líklegasta stjórnarsamvinnan verði með Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki nema verulegar breytingar verði á fylgi flokkana. 

Þó Kristrún sé almennt jákvæð og athyglisverður stjórnmálamaður, þá kom það óþægilega á óvart, að hún sér að það geti helst orðið til varnar vorum sóma, að auka skattlagningu á borgarana. 

Í viðtalinu segir hún orðrétt: "Það þarf að byrja á fjármálaráðuneytinu og endurskoða tekjuhliðina því stór ástæða þess að við erum með halla á ríkissjóði er ekki bara útgjaldavandi heldur tekjuvandi."

Kristrún er því ekki stjórnmálamaður, sem boðar aðhald og sparnað þrátt fyrir að bruðlið og óhófið blasi við hvar sem litið er í ríkisbúskapnum. Hennar lausn eins og annarra sósíaldemókrata því miður er að leggja auknar byrðar á skattgreiðendur. 

Því miður kveður því ekki við nýjan og ferskan tón hjá Kristrúnu hvað þetta varðar heldur samsamar hún sig rækilega með sitjandi stjórnmálaelítu, sem hefur aukið útgjöld ríkissjóðs svo gríðarlega á undanförnum árum, að ekki verður séð hvernig á að leysa vandann sem við blasir nema með markvissum niðurskurði útgjalda. 

En niðurskurður útgjalda ríkis og sveitarfélaga hefur aldrei verið atriði sem sósíaldemókratar hafa í langri sögu sinni haft áhyggjur af. Því miður virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn sé fyrir nokkru kominn í sömu vegferð og sósíalistarnir. 

Vandinn er sá að núna er ekkert pólitískt afl í landinu sem berst fyrir aðhaldi og sparnaði. Það kann ekki góðri lukku að stýra. 

Ég hafði vonað að nýr formaður Samfylkingarinnar hefði einmitt boðað afturhvarf frá eyðslustefnunni sem bitnar alltaf á endanum á þeim sem minnst hafa fyrir sig að leggja. 

 


Gleðileikur innihaldsleysisins.

Leiðtogafundi Evrópuráðsins er lokið. Allir eru sammála um að umbúnaður fundarins, öryggisgæsla og framkvæmd hafi verið frábær. Við eigum því hrós skilið. Jákvæður árangur af fundinum er fyrst og fremst, að það var fjölgað í lögreglunni og hún fékk þjálfun og tæki,sem á hefur skort í langan tíma.

Fundir sem þessir eru athyglisverðir einkum fyrir þá sök, að þeir sem taka til máls eru sammála síðasta ræðumanni og reyna að yfirbjóða hann í orðfæri og framsetningu. Megintemað Rússar eru vondir komst vel til skila.

Niðurrigndir fulltrúar með kalda sultardropa í nefinu komnir inn í Hörpu úr norðannepjunni töluðu um ógnir af loftslagshlýnun, sem er álíka raunveruleg og Grýla og Gilitrutt í hugum ungbarna á árum áður.

Utanríkisráðherra meinaði breska forsætisráðherranum að taka á dagskrá, raunveruleg vandamál þ.e. Innflytjendamálin og vandamál vegna furðulegra dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Sagt er að honum hafi verið svo misboðið að hann lét sig hverfa þegar hann hafði gætt sér á lambalærinu og fúlsaði við skyrinu sem sletta átti í hann í eftirrétt.

Í sjálfu sér var eðlilegt að utanríkisráðherra meinaði Rishi Sunnak forsætisráðherra Breta, að tala um eitthvað sem gæti eyðilagt þann guðdómlega gleðileik innihaldsleysisins, sem fram fór í Hörpu sl. þriðjudag og miðvikudag.

Ef til vill vantaði mann eins og listmálarann Jóhannes Sveinsson Kjarval til að greina mikilleik ráðstefnu eins og þeirri sem fram fór í Hörpu. Hann var fyrir löngu á fundi í Félagi íslenskra myndlistarmanna og fannst lítill árangur af fundarstörfum og tók því til máls og sagði:

"Heiðruðu félagar. Áður en ég kom á fundinn var ég að lesa í Vísi og rakst þar á auglýsingu um að grár köttur hefði tapast. Eins og þið finnið þá er frost og nepja, svo að veslings kötturinn getur haft illt af. Nú er það svo, að félag þetta hefur fátt unnið sér til fræðgar eða ágætis, þá legg ég til að við slítum fundinum nú þegar og förum að leita að kettinum. Það er ekki víst að við finnum köttinn, en það verður þó líklega fjallað um þetta framtak í blöðunum."


Barátta fyrir aukinni fátækt og fækkun valkosta.

Hvað varð um baráttu stjórnmálamanna fyrir bættum lífskjörum fólks. Af hverju hafa t.d. sósíalistar snúið við blaðinu í þessum efnum ef undan eru skilin vígorð þ.1.maí. Sósíalistar ásamt og umfram flesta stjórnmálamenn á Vesturlöndum berjast nú hatrammri baráttu fyrir að gera fólk fátækara, fækka valkostum og tækifærum. Allt á grundvelli pólitísku veðurfræðinnar um kolefnisjöfnuð. 

Róttækt vinstra fólk í VG og Samfylkingunni segir í öðru orðinu að vinnandi fólk fái of lítil laun, en á sama tíma berjast þau gegn því að verkalýður og neytendur geti notið lífsgæða, sem fram að þessu hafa verið talin sjálfsögð og segja að fólk geti veitt sér of mikið og þessvegna verði að leggja sérstaka skatta á lífsgæði sem hingað til hafa verið talin sjálfsögð.

Því miður er Sjálfstæðisflokkurinn heltekinn af þessum ruglanda í stað þess að standa fast á þeim grundvallarskoðunum sínum, að fólk beri sem mest úr bítum fyrir vinnu sína og geti ráðstafað sem mestu af launum sínum án þess að kreppt sé að því með ofurskattheimtu eða neyslustýringu.

Barátta vinstri manna gegn því að fólk geti notið lífsgæða og því verði kaldara vegna hækkunar á orkuverði og geti ekki farið til heitari landa þegar norðangarrinn hamast á hurðum,gluggum og veggjum í hamfarahlýnuninni er ótrúleg og gjörsamlega fráleit. Almenningur á að finna afsökun eða þola refsingu, fyrir að hita heimili sín, kaupa bensín á bílinn hvað þá að fara í flugferðir.

Á sama tíma og meginhluti stjórnmálaelítunnar berst fyrir minni lífsþægindum borgaranna, þá er bent á einhverja draumaveröld orkuskipta, þar sem öll óleysanleg vandamál verða leyst. Þetta er gert jafnvel þó að allt hugsandi fólk viti að hagkvæmir kolefnissnauðir orkugjafar verða ekki til á næstu áraum eða áratugum. 

Það er lyginni líkast að stjórnmálastéttin og fréttaelítan skuli hafa snúist gegn eigin þjóðfélögum velmegun og framleiðslu. Nú skal framleiðsla eyðilögð vegna þess að hún er ekki nógu vistvæn og helst ber líka að senda nútíma landbúnað sömu leiðina.

Stjórnmálastéttin hfur gert og er að gera mikil mistök með því að brjóta niður og setja í höft framtak, framsýni og dugnað fólksins á þeim forsendum að það sé allt af hinu illa þrátt fyrir að einmitt þeir hlutir hafi orðið til þess að stuðla að aukinni velmegun og jafnari tekjuskiptingu í landinu. Já og draga úr mengun.

Athyglisvert, en kemur í sjálfu sér ekki á óvart, að nú eru það stjórnmálamenn sem sagðir eru yst til hægri á vettvangi stjórnmálanna, sem berjast fyrir auknum jöfnuði í samfélaginu, aukinni velmegun almennings, frelsi fólks til orðs og athafna og fjölbreyttu gróskumiklu atvinnu- og þjóðlífi? 


Stríð við hina dánu

Eftir að hersveitir Karls V. Spánarkonungs og keisara hins heilaga Rómverska keisaradæmis höfðu tekið Wittemberg í Þýskalandi, en í kirkjugarði þar í borg voru jarðneskar leifar Marteins Lúthers grafnar. Spurði yfirhershöfðingi Karls V hvort ekki væri rétt að grafa upp líkið af trúvillingnum Lúther og koma því fyrir á sorphaugum. Karl V svaraði. Ég á í stríði við þá lifandi ekki hina dauðu.

Í tæp 500 ár hafa menn talað um hvað Karl V. hafi sýnt mikla vitsmuni þegar hann neitaði að hefja stríð við lík.  

Sósíalísk stjórnvöld á Spáni nútímans hafa rofið þessa 500 ára hefð og létu grafa upp lík Francisco Franco einræðisherra, þar sem hann hvíldi í dómkirkjunni í dal hinna föllnu.

Í dag á að grafa upp lík Primo de Rivera einræðisherra á Spáni á öðrum áratug síðustu aldar. Því er lýst sem sigri lýðræðisins.

Hefði Karl V verið sama sinnis og þeir sem nú stjórna Spáni og hamast að jarðneskum leifum fólks, þá hefði hann getað farið að ráði hershöfðingja síns og sagt "Það er mikill sigur fyrir kaþólska trú að trúvillingurinn Marteinn Lúther skuli hafa verið grafinn upp og beinum hans hent út úr kirkjugarðinum og fyrir hundana. En hefði það orðið sigur hinnar kaþólsku kirkju? Fjarri fer því. 

Synd hvað nútíminn er firrtur sögulegri þekkingu og hæfileikum til að  geta dregið réttar ályktanir um hvað sé siðlegt, eðlilegt og hvað skipti máli.   


Frekja, óbilgirni og yfirgangur.

Í gær lýsti innviðaráðherra því í sjónvarpi, hvernig gæslumenn íslenskra hagsmuna hefðu á öllum stigum reynt að koma í veg fyrir, að lagður yrði sérstakur skattur á flugferðir til og frá Íslandi, af hálfu Evrópusambandsins(ES), en skatt þennan á að leggja á í viðleitni ES.til að þóknast pólitísku veðurfræðinni.

Skatturinn mun bitna hart á Íslendingum og gæti kippt stoðum undan ferðamannaiðnaðinum og valdið ferðafólki stórauknum kostnaði.

Þrátt fyrir tilraunir íslenskra ráðamanna, var ekki annað að skilja af ráðherranum, en að engar varanlegar undanþágur yrðu veittar frá þessum skatti. Spurning væri líka hvort að tímabundnar undanþágur yrðu veittar. Innviðaráðherra var í raun að lýsa því sem þekkt er í samskiptum ES og einstakra EES og/eða ES ríkja. Þeim  samskiptum má lýsa með tveim orðum. Yfirgangur og óbilgirni.

Að óbreyttu verður þessi ósanngjarni skattur lagður á með þeim ófyrirsjáanlegu afleiðingum sem það kann að hafa.

Hvenær gengumst við undir það að ES hefði eitthvað með loftslagsmál að gera fyrir okkar hönd. Þau atriði eru ekki hluti af EES samningnum. Hvenær gengumst við undir það að ES hefðu einhliða með skattlagningarvald á Íslandi? 

Í 40.gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er sérstaklega tekið fram,að engan skatt megi leggja á þjóðina nema með lögum frá Alþingi. Ekki verður því séð, að þessi skattur verði lagður á íslenskt fólk eða fyrirtæki nema með samþykkt Alþingis, þar sem enn höfum við ekki framselt löggjafarvaldið, þó tilburðir séu uppi til að vængstýfa það með því að veita ES löggjöf forgang umfram íslensk lög. 

Er ekki kominn tími til að þjóðin taki EES samninginn til endurskoðunar á grundvelli hagsmuna þjóðarinnar, en hætti að láta eins og hjáleiga í samskiptum við ES höfuðbólið. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 106
  • Sl. sólarhring: 148
  • Sl. viku: 4289
  • Frá upphafi: 2296079

Annað

  • Innlit í dag: 96
  • Innlit sl. viku: 3928
  • Gestir í dag: 90
  • IP-tölur í dag: 90

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband