Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Evrópumál

Þrír í fríi en einn á vaktinni.

Vinur minn sem búsettur er í Danmörku, sagði mér, að vinafólk hans, búsett skammt frá honum í einu af betri hverfum kóngsins Kaupmannahafnar, hefði fengið 4 Íranska hælisleitendur í næsta hús við hliðina, eftir að húsið var leigt bæjarstjórninni. 

Vinafólkið var í vanda með hvernig það ætti að bregðast við nýju nágrönnunum. En að góðum dönskum skikk, ákváðu þau að koma fram við þá eins og aðra nema undanskilja gammel dansk og öl.

Þau fóru því næsta sunnudag með nýbakaða tertu til að bjóða írönsku hælisleitendurna velkomna. Hælisleitandi opnaði fyrir þeim, þakkaði fyrir tertuna, en sagði,að því miður væri hann einn heima hinir þrír væru í fríi í Íran. Semsagt farnir aftur heim stuttu eftir að fá hæli vegna lífshættu í Íran.

Þessi saga er ekkert einsdæmi og svipaðar sögur eru sagðar í bók Douglas Murray í bók hans "Dauði Evrópu." 

Sagan sýnir hversu fráleitt allt þetta kerfi og lagaumgjörð varðandi hælisleitendur er.

Það er fráleitt, að bjóða hælisleitendum betri kjör en við bjóðum öldruðum eða öryrkjum. Það er fráleitt, að það skuli vera hlutverk ríkisvaldsins að sýna fram á að hælisleitandi eigi ekki rétt á að koma hingað. Þar er hlutunum snúið á haus. Það er líka fráleitt að íslenskir skattgreiðendur borgi allt fyrir þessa stráka.

Hælisleitandi ætti undantekningarlítið að þurfa að sýna fram á það með óyggjandi sönnunargögnum, að honum væri bráð hætta búin í heimalandi sínu. Þá þyrftu engar úrskurðarnefndir eða dýra málsmeðferð. Málin væru afgreidd með eðlilegum hætti strax.

Á sama tíma og þjóðir Evrópu eru að sligast undan þessari innrás hlægja Kínverjar, Japanir og Saudi Arabar sig máttlausa yfir því hvað Vestur Evrópa er galin að viðhalda þessu kerfi. Það dettur þessum þjóðum ekki í hug.  

 


Er eitthvað rotið í konungdæminu?

Það er eitthvað rotið í Danmörku segir í "Hamlet" einu höfuðleikriti Vilhjálms Seikspír.(William Shakespear)Þessa umsögn hefur í tímans rás mátt færa upp á margar þjóðir. 

Forseti Kína setur sína taflmenn á mikilvægustu reitina, á meðan Vesturveldin sér í lagi Bandaríkin hafast ekki að. 

Meðan Kínverjar sóttu fram sem áhrifavald í Mið-Austurlöndum, þar sem Bandaríkjamenn voru einráðir voru Bretar uppteknir við að ræða það hvort að konur gætu haft tippi eða ekki. 

Í Bandaríkjunum beindust allra augu að réttarhaldi yfir fyrrum forseta Bandaríkjanna, þar sem vinstri sinnaður saksóknari gerir sitt til að vekja á sér athygli með svo galinni málssókn, að helstu andstæðingar Donald Trump í Repúblíkanaflokknum fordæma hana sem og flestir virtir lögmenn í Bandaríkjunum. 

Meðan þau Macron og Ursula flugu til Kína til að biðja forseta Kína ásjár vegna Úkraínustríðsins, beindust allra augu á Vesturlöndum sérstaklega í Bandaríkjunum að málssókninni gegn Trump. Fjölmiðlafólk beið í röðum til að ná myndum af uppákomunni, þar sem nánast engir aðrir voru viðstaddir en fjölmiðlafólk til að taka myndir hvert af öðru. 

Í góðri grein sem Douglas Murray skrifar í DT í dag, vísar hann til þess, að á sama tíma vaxi rán og gripdeildir í Bandarískum borgum einkum þeim sem stjórnað er af Demókrötum og þær séu að rotna innanfrá á meðan forsetinn hinn "svefnþrungni Jói" er aðgerðarlaus í felum og varaforsetinn hefur enga burði til að gera eitt eða neitt.

Kína blómstrar og fer sínu fram í öllum málum hvort sem er varðandi mannréttindi eða kolefnisfótspor. Vesturlönd eru upptekin við að gera lífskjör verri og draga mátt úr framleiðslu sinni vegna bábilju pólitísku veðurfræðinnar.

Svo illa er komið fyrir Bandaríkjunum, forusturíki Vesturlanda í hartnær heila öld, að helstu forustumenn Vestur Evrópu halda til fundar við Kínverska forsetann í máli, sem forustumenn Evrópu hefðu sótt Bandaríkjaforseta heim til að biðja hann um að taka að sér forustu frá lokum síðasta heimsstríðs 1945. 

Fólk á Vesturlöndum þarf að huga að þeirri nýju stöðu, sem er að verða til í heimspólitíkinni og átta sig á að leið Evrópu og Bandaríkjanna verður  bara verri í samanburði við önnur lönd, ef fólk ætlar að halda áfram að eyðileggja framleiðslutækifæri sín, rífa sig niður á grundvelli sögulegra sjálfsásakana og muna ekki hvaða mannréttindi skipta mestu máli og er harðast sótt að.


Kína í öndvegi

Macron forseti Frakklands og Ursula von der Leyen flugu til Kína til að biðja forseta Kína um að beita sér fyrir friðarviðræðum milli Úkraínu og Rússlands.

Góðs viti að forustufólk í stjórnmálum í Evrópu átti sig á því, að það skiptir miklu máli fyrir lífskjör og framtíð Evrópu,að þessu stríði ljúki sem fyrst. Svo virðist sem þetta sé ákveðin stefnubreyting, þar sem hingað til hafa stjórnmálamenn í Evrópu virst vera á Joe Biden línunni um að magna ófriðinn sem mest.

Vonandi tekst forseta Kína vel upp þegar hann talar við forseta Úkraínu og Rússlands og einnig er vonandi að hann nái með aðstoð stjórnmálamanna í Evrópu, sem átta sig á að það skiptir miklu að koma á friði sem fyrst í stað þess að magna stríðið. (því miður virðist utanríkisráðherra og forsætisráðherra Íslands ekki vera í þeim hópi)

Takist Kínaforseta að fá aðila að samningaborðinu svo ekki sé talað um ef hann nær að ná fram friðarsamningum, þá hefur hann enn og aftur náð verulegum árangri þar sem Bandaríkin undir stjórn Biden eru hliðsett úti að aka í Guðs grænni náttúrunni. 

Forseti Kína náði samningum á milli Saudi Araba vinaþjóð  Bandaríkjanna og Írana. Bandaríkjamenn voru ekki einu sinni á hliðarlínunni. Þeir voru ekki með. En afgerandi pólitískur sigur forseta Kína. Nái hann árangri nú varðandi Úkraínu og Rússland, ýtir hann Bandaríkjunum út af borðinu sem því stórveldi, sem mest áhrif hefur varðandi samskipti þjóða. 

Það hefnir sín þegar þjóðir velja lélega forustumenn eins og Bandaríkjamenn gerðu þegar þeir kusu Joe Biden til forseta. Undir stjórn hans eru Bandaríkin því miður á hraðri leið til að verða annars flokks stórveldi á vettvangi heimsmálanna. Því  miður svo virkilega því miður. 

 


Hægri sveifla í Finnlandi

Hægri flokkarnir í Finnlandi, Sameiningarflokkurinn og Sannir Finnar juku fylgi sitt í kosningunum um 6.4% og eru sigurvegarar kosninganna. Formaður Sameiningarflokksins Petteri Orpo mun hefja stjórnarmyndunarviðræður. Flokkur hans ásamt Sönnum Finnum og Miðflokknum geta myndað meirihluta.

Sanna Marin forsætisráðherra vann persónulegan sigur með flest persónulega greiddum atkvæðum,en flokkur hennar tapaði töluverðu fylgi.

Vinstri flokkarnir og Sósíalistaflokkur Sanna Marin hömuðust á Sönnum Finnum og kölluðu þá sem hægri öfgamenn. Formaður Sameiningarflokksins sagði hinsvegar,að það væru engir hægri öfgamenn í framboði og tók þar myndarlega af skarið, sem kollegar hans í Moderata Samlingspartiet mættu taka til fyrirmyndar varðandi Svíðþjóðardemókratana. 

Riikka Purra formaður Sannra Finna, sem er lengst til hægri, vann mikinn persónulegan sigur. Á sama tíma tapa Græningjar miklu fylgi, vegna þess,að kjósendur eru farnir að sjá framan í afleiðingar af stefnu þeirra í loftslagsmálum eins og kjósendur í Hollandi. 

Petteri Orpo sem leggur nú af stað til stjórnarmyndunar leggur áherslu á að draga verði úr ríkisútgjöldum til að bregðast við skuldavandanum, sem sósíalistastórn Sanna Marin skilur eftir sig eins og jafnan þegar sósíalistar fara með völd.

Fyrir okkur hægri menn, þá er það sérstaklega ánægjulegt hvað Sannir Finnar fengu góða kosningu og að Formaður Sameiningarflokksins skuli ekki láta hræða sig frá samstarfi við Sanna Finna þó hrópað sé að þeim af "góða fólkinu". 

Vonandi leiða þessi úrslit ásamt úrslitunum í Hollandi til þess, að skynsamlegar verði talað um hnattræna hlýnun og orkuskipti, sem vega að lífskjörum almennings í Evrópu og vikið verði frá þeirri stefnu til stefnu vaxtar, framfara og betri lífskjara fyrir almenning. 


mbl.is Orpo næsti forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við trúum ekki á draugasögur

Á mánudaginn kom út nýjasta skýrslan frá IPCC (loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna(SÞ) þar er sama svartagallsrausið og í skýrslum nefndarinnar síðustu áratugina. Nema hvað spárnar verða alltaf ýktari og hatrammari.

Það er bara mínúta til miðnættis. Klukkan gengur hratt. Tíminn er að renna frá okkur og það eru bara örfá ár sem við höfum til að bjarga jörðinni. Allt þekkt stef alla þessa öld og kór fyrirólks með Karl Bretakóng og Guterres,komma,framkvæmdastjóra SÞ sem forsöngvara kyrjar stefið um ógnar-og hamfarahlýnunina sem aldrei fyrr.

Sænska þjóðkirkjan tekur undir og bendir á Grétu Túnberg, sem spámann, sem allir eigi að trúa á. Ekki merkilegt að kristni skuli vera á hröðu undanhaldi í Svíþjóð og kirkjur tómar þegar kirkjan hefur snúið baki við Jesú, en fundið spámanninn Grétu.

Kolefnishlutleysi er sjálfstæð hugmyndafræði, sem stjórnmálamenn í Evrópu kyrja nánast í einum kór ásamt hefðbundnum fjölmiðlum. Á grundvelli þeirrar hugmyndafræði skal eyða gríðarlegum verðmætum og standa fyrir ríkisvæðingu í meira mæli en nokkru sinni fyrr.

Hvað eigum við að kalla þessa ríkisvæðingu. Er nokkuð betra orð en sósíalismi? En hægri flokkar í Evrópu þ.á.m. Íslandi ef það er þá til hægri flokkur í þvísa landi hamast við að afneita kapítalismanum en telja að með víðtækri skattlagningu á almenning og tuga milljarða styrkveitinga til þóknanlegra fyrirtækja verði hægt að ganga inn í fyrirheitna land kolefnishlutleysisins.

Hvernig skyldi standa á því að stjórnmálamenn Evrópu og Bandaríkjanna skuli ætla að eyða trilljónum Evra á altari þessarar hugmyndafræði í stað þess að leyfa einkarekstrinum að spreyta sig við að koma á nýungum hvað þetta varðar svo efnahagskerfið fari ekki algjörlega úr skorðum.

Markmið loftslagsnefndar SÞ, hefðbundinna stjórnmálamanna og meginstraums fjölmiðla er að kynda undir ótta fólks við afleiðingar meintrar hlýnunar andrúmsloftsins og koma með nýar skýrslur og nefndarálit til að stuðla að enn meiri inngripum ríkisvaldsins og auknum útgjöldum þess.

Markmiðið með framtíðarspám loftslagsnefnar SÞ er þetta:

1. Að auk á ótta fólks við hamfarahlýnun og heimsendi.

2. Að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir eitthvað hræðilegt og óbætanlegt með meinlæta- lifnaði venjulegs fólks, meðan nomen klaturan (hin nýja stétt) auðmanna og kónga og stjórnmálamanna fer sínu fram á einkaþotunum sínum og með öðrum hætti.

3. Tryggja að ríkisvædd möppudýr samtíðarinnar og stjórnmálaelítan taki undir og máli ástandið sem hræðilegt og hættulegt í samræmi við heimsendaspár.

4. Hægt sé að laga hið slæma ástand loftslagsmála aðeins með enn meiri ríkisrekstri og eyðslu hins opinbera.

5. Að einkafyrirtækin geti ekki ráðið við verkefni á sviði loftslagsmála nema þau séu sérstaklega valin af ríkisvaldinu og þiggi styrk frá því á grunvelli grænna sjónarmiða.

Hvað sem svartagallsrausinu líður, þá hafa orðið mjög jákvæðar framfarir á ýmsum sviðum við að gera jörðina hreinni og draga úr mengun einkum í okkar heimshluta. Þar hefur einkaframtakið heldur betur komið að hlutunum, þó að fréttamiðlar þegi yfir því eins vel og þeim er unnt.

En þessara framfara er ekki getið í loftslagsskýrslu SÞ. Á þeim bæ eru menn í baráttu fyrir því að ná sem mestum peningum frá skattgreiðendum í dýr verkefni, sem ríkið fjármagnar, alhliða skattheimtu og sölu aflátsbréfa kolefnisjöfnunar.

Af hverju dettur þeim stjórnmálamönnum okkar sem segjast vera til hægri í pólitík hvað þá þeim sem segjast berjast fyrir einstaklingsfresli og athafnafrelsi, ekki í hug að leysa þessi ímynduðu vandamál á forsendum samkeppninnar og einstaklingshyggjunar?

Af hverju má ekki tryggja þeim fyrirtækjum sem standa sig í baráttu við mengun og bjóða upp á nýungar sem gera umhverfið vistvænna, skattaafslætti í stað þess að skattleggja fyrirtæki upp í rjáfur og styrkja síðan þau sem eru í náðinni hjá sósíalistunum.

Af hverju týndi Sjálfstæðisflokkurinn algerlega glórunni og afnam grundvallarstefnu sína um lága skatta, markaðshyggju og einstaklingsfrelsi þegar ríkisstjórn var mynduð með VG, hvers formaður telur loftslagsvána vera yfirumgrípandi og allt í og um kring og yfirskyggi öll önnur vandamál í heiminum eins og kom fram þegar hún hitti Mike Pence þá varaforseta Bandaríkjanna í opinberri heimsókn hans til Íslands um árið.

En þrátt fyrir alla þessa baráttu og einhliða áróður til að koma á Sovét Evrópu og Sovét USA, þá er fólk að vakna til vitundar um að það sé eitthvað sem rímar ekki við heibrigða skynsemi í loftslagsáróðri SÞ, hefðbundinna stjórnmálamanna og fjölmiðla. Margir sjá að loftslagskeisararnir Guterres kommi og Karl arfakonungur hafa rangt fyrir sér og það stendur ekki steinn yfir steini í því sem þeir halda fram í þessum málum.

Hvernig á það líka að vera að það sé hægt að byggja á manni eins og Guterres komma, sem gerir Grétu Túnberg að leiðtoga lífs síns og telur hana hafa höndlað stóra sannleika veraldarhyggjunnar.

Vonandi er fólk að vakna til vitundar um allt þetta rugl og svo virðist vera sbr.: Í Frakklandi brutust út víðtæk mótmæli gegn bullhyggju loftslagsgoðana sem eru kennd við gul vesti. Í Hollandi er nýr stjórnmálaflokkur efahyggjunar í loftslagsmálum stærsti stjórnmálaflokkurinn. Í Þýskalandi sækir stjórnmálaflokkurinn Alternative für Deutschland aukið fylgi á meðan Græningjar tapa fylgi og AFD mælist nú með meira fylgi en Græningjar.

Á norðurhveli jarðar er vonandi að kveðja einn kaldasti vetur sem verið hefur um árabil og sennilega á þessari öld. Það er hinsvegar aldrei sagt frá því þegar kuldamet eru slegin en aðeins hitamet og þá verða þau iðulega til vegna þess að nýir mælar eru settir upp t.d. við enda flugbrauta þar sem hitinn mælist að sjálfsögðu mun hærri en annarsstaðar í nágrenninu.

Við höfum upplifað einn kaldasta vetur sem verið hefur og allar spár hlýnunarsinna hafa reynst rangar. Þessvegna þarf loftslagskirkjan að senda frá sér stöðugt hræðilegri spár, til að viðhalda trúnni og RÚV kallar reglulega til pöddufræðinginn, sem er loftslagssérfræðingur þjóðarinnar til að hann segi fólki, að hvað svo sem því finnist um kulda þá sé það ekki svo og raunar sé Miklatún í frostham aldingarður þar sem vaxi granatepli og glóaldin. Venjulegt fólk sér að þetta er bull, en þeir sem fjarri eru gætu e.t.v. látið glepjast.

Það er kominn tími til að venjulegir Íslendingar segi þessu liði upp og segi sig frá Parísarsamkomulaginu og við afnemum alla loftslagsskatta. Við eigum ekki að horfa upp á að það sé að kólna í veðri og sætta okkur við að borga háa skatta og gjöld vegna trúarbragðanna sem byggja m.a. á því að hnattræn kólnun þýði í raun hnattræn hlýnun. Hvers konar vitræn glóra er í slíku rugli?

Það er ljótt og ómennskt, aðhræða börn endalaust með þessum draugasögum?

 


Valdstjórnin hlustar ekki á þá, sem fordjörfuðu fullveldinu.

Nýr flokkur í Hollandi, Bændaflokkurinn vann stórsigur í þingkosningunum í síðustu viku. Flokkurinn fékk um 20% atkvæða og er stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum Hollands. Það sýnir að flokkurinn höfðar ekki síður til borgarbúa en bænda.

Formaður flokksins Caroline van der Plas, segir að velgengni flokksins sé vegna þess að kjósendur séu að gera byltingu gegn ofurvaldi Evrópusambandsins (ES) og hvernig bandalagið beitir sér andstætt hagmunum fólks. Kjósendur í Hollandi voru að mótmæla reglum um loftslags- og umhverfismál, sem Evrópusambandið dælir út í meira mæli en nokkru sinni fyrr.

Engu skipti þó að ríkisstjórn Hollands hefði beðið ES um að draga úr kröfum á hendur Hollandi varðandi notkun nítrógens (tilbúins áburðar). Valdstjórn ES í Brussel fór sínu fram, sem fyrr gagnvart minni ríkjum bandalagsins.

Afleiðing þessara reglna ES varð sú að hætta varð framleiðslu á mörgum búum á kostnað skattgreiðenda. Þar er ekki verið að tala um smápeninga. Áætlaður kostnaður er um 25 þúsund milljónir Evra vegna loftslagstrúarbragðana bara vegna þessra reglna.

ES puðrar út fleiri nýjum reglum í umhverfismálum en nokkru sinni fyrr og andstaðan fer vaxandi. Úrslitin í Hollandi sýna vaxandi vantrú á loftslagspólitík EU. Þrátt fyrir að fleiri greiddu atkvæði í kosningunum nú en síðustu 30 árin og úrslitin séu skýr,telja hollensk stjórnvöld sig ekki geta breytt reglum um notkun nítrógen nema með leyfi frá Brussel.

Svona fer þegar þjóðríki tapa fullveldi sínu til báknsins í Brussel.

Evrópusinnar hér á landi ættu að horfa til þess sem er að gerast í ES og hvernig valdstjórnin í Brussel hagar sér gagnvart aðildarríkjunum.

Það er raunar merkilegt miðað við þá breytingu sem hefur orðið á ES að nokkur maður skuli telja það fýsilegt lengur fyrir íslenska þjóð að segja sig til sveitar í Evrópusambandinu.


Látum ekki 100 ára gamla sögu vitfirringar endurtaka sig.

Sömu daga og þær Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fóru til Kænugarðs til að taka í höndina á Zelinski Úkraínuforseta, rak hann liðsforingjann Kupol,einn dugmesta liðsforingja sinn á vígstöðvunum við Bakhmut. Brottrekstarsökin:Kupol sagði sannleikann um mannfall Úkraínuhers.

Kupol sagði að úr 500 manna herdeild hans,væru nánast allir fallnir eða særðir. Hann greindi frá miklu mannfalli og stór hluti hermanna,sem nú kæmu á vígstöðvarnar væru illa þjálfaðir og mannfallið í Úkraínuher væri að aukast.

Áætlað er af Bandarískum yfirvöldum, að mannfallið í Úkraínustríðinu sé nú orðið meir en 300 þúsund manns, þar sem Rússar hafi misst um 200 þúsund en Úkraínumenn um 120.000. 

Á fjórða hundruð þúsunda ungra manna hafa verið drepnir í þessari hræðilegu styrjöld, sem allir skynsamir menn sjá, að getur ekki endað annarsstaðar en við samningaborðið. 

Katrín og Þórdís mættu ekki til Kænugarðs til að tala um frið. Þær mættu,sem hluti þeirrar halarófu úrræðalausra Evrópskra stjórnmálamanna, sem mætir til Zelinskys til að votta honum virðingu sína, dást að honum og hvetja hann til að láta hvergi deigan síga til að manndrápin magnist sem mest.

Kvikmynd eftir sögunni "Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum" vann Óskarsverðlaunin núna,sem besta erlenda kvikmyndin. Myndin segir sögu ungra óharðnaðra þýskra ungmenna, sem eru blekktir til að fara í stríð. Hún segir sögu tilgangslausra mannfórna og þann hrylling sem ungmennin þurftu að upplifa. Hershöfðingjar og úrræðalausir stjórnmálamenn öttu ungmennunum fram vitandi að þeir yrðu stráfelldir. Gjörsamlega án vitræns tilgangs eins og nú í Úkraínustríðinu. Þetta var á árunum 1914-1918. Nú öld síðar eru sömu tilgangslausu mannvígin og hryllingurinn.

Hermennirnir í skotgröfunum á víglínunni í kringum Bakhmut og víðar upplifa sama helvítið og hermennirnir á vesturvígstöðvunum í fyrri heimstyrjöld.

Í stað þess að fara í halarófur buktandi sig og beygjandi fyrir Zelinski ættu vestrænir stjórnmálamenn að móta afstöðu friðar milli Rússlands og Úkraínu og sjá til þess að þessum hryllingi ljúki þegar í stað. 

Stjórnendur koma og fara líka í Rússlandi. En það verður meiriháttar ógæfa til frambúðar fyrir Evrópu, ef Rússar verða  hraktir algjörlega í fang  Kínverja til að verða upp á þá komnir í fyrirsjáanlegri framtíð í stað þess að samskipti þjóða verði með þeim hætti, að Rússsar verið fullgildir í samstarfi Evrópuþjóða.

Haukarnir Katrín og Þórdís hefðu átt að taka sér stjórnmálamenn Íslands árið 1945 til fyrirmyndar þegar þeir neituðu að segja Þjóðverjum og Japönum stríð á hendur á þeim forsendum, að við værum herlaus þjóð, sem vildum hafa sem best samskipti við allar þjóðir. Hefðu þær Katrín og Þórdís farið sem friðardúfur til Kænugarðs væri hægt að taka ofan fyrir þeim. Þá hefði för þeirra haft vitrænan tilgang.   


Óþægilegar staðreyndir

Þegar viðskiptabann á Suður Afríku var til umræðu á Alþingi fyrir margt löngu, lagðist ég gegn því stjórnarfrumvarpi og fékk að sjálfsögðu bágt fyrir sem stjórnarþingmaður að skerast úr leik. Ég taldi að þær refsiaðgerðir mundu bitna mun harðar á almenningi en stjórnvöldum landsins.

Margaret Thatcher sagði varðandi refsiaðgerðir og viðskiptabann á Suður Afríku, að þær virkuðu sjaldnast eins og þeim væri ætlað að gera. Viðskiptaþvinganir auka á fátækt og/eða örbirgð almennings og megna sjaldnast að koma sitjandi stjórnvöldum frá völdum. Ronald Reagan Bandaríkjaforseti tók í sama streng. Ég var því í notalegum félagsskap þó að þessar skoðanir mínar þættu fordæmanlegar á meðal félaga minna í Sjálfstæðisflokknum.

Frá því að Vesturlönd beittu Suður Afríku refsiaðgerðum, höfum við mörg fleiri dæmi eins og t.d. Írak á valdatíma Saddam Hussein, þar sem viðskiptabann olli m.a. gríðalegum ungbarnadauða, en hafði engin áhrif á Saddam. Íran er annað dæmi, þar sem klerkaræðið er enn við lýði þrátt fyrir langvarandi viðskiptabann og aðrar refsiaðgerðir.

Ein ástæða þess að viðskiptaþvinganir virka ekki er að þær bitna iðulega verr á þann sem beitir þeim, en þann sem verður fyrir þeim. Fáir eru til lengri tíma tilbúnir til að fórna til langframa spón úr eigin aski.

Nú eru Rússar beittir harkalegum refsiaðgerðum skv. því sem forustumenn vestrænna ríkja halda fram. Refsiaðgerðirnar hafa þó mun minni áhrif en ætlað hefur verið.

Þó að refsiaðgerðir Vesturveldanna hafi slæm áhrif á efnahag Rússa, þá reiknar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samt með því að þjóðarframleiðsla Rússa hafi vaxið á árinu 2022. Á sama tíma drógst þjóðarframleiðsla Bretlands saman. 

Kínverjar og Indverjar kaupa jarðefnaeldsneytið af Rússum, sem annars hefði verið selt til Evrópu og vestrænar vörur koma bakdyramegin til Rússlands í gegnum t.d. Tyrkland og Armeníu.

Ýmsir mikilvægir vöruflokkar eru undanskildir refsiaðgerðunum t.d. áburður og ákveðnir málmar. Rússar framleiða um fjórðung til fimmtung af öllum tilbúnum áburði í heiminum og stjórnvöld í Bandaríkjunum sögðu að það gæti haft hræðileg áhrif á fæðuöryggi í heiminum og matvælaverð ef áburðurinn væri ekki undanskilinn.

Þessvegna þrátt fyrir að Bandaríkin séu það land, sem veitir mestan stuðning til Úkraínu með vopna- og peningasendingum, þá flæða ýmsar rússneskar vörur áfram inn á Bandaríkjamarkað. Svo notuð séu orð Biden forseta eru Bandaríkjamenn því að viðhalda og styrkja stríðsvél Pútín með því að halda áfram viðskiptum við Rússa á þeim sviðum, sem þeim þóknast. Þessi tvöfeldni Bandaríkjanna er eftirtektarverð. Þeir halda áfram að fæða stríðsvél Rússa á sama tíma og þeir senda peninga, skriðdreka og orustuþotur til Úkraínu.

Bandaríkin mótuðu reglurnar um refsiaðgerðir gegn Rússum og þar voru smugur til að þeir gætu haldið verðmætustu viðskiptum sínum áfram við Rússa þó krummaskuðafólk á Íslandi njóti ekki þess hagræðis og verði af milljarða tekjum árlega.

Tvöfeldni Bandaríkjanna og skortur á stefnumótun Vesturveldanna í Rússnesk/Úkraínska stríðinu og hugmyndir um hvernig beri að ljúka því og ná fram friði er ámælisverð og sorgleg.


Þrotin að kröftum? E.t.v. velti J.K.Rowling þessu þunga hlassi.

Með stuttu millibili gefast þær upp vinstri drottningarnar Jacinda Arden á Nýja Sjálandi og Nicole Sturgeon fyrsti ráðherra Skota. Jacinda Arden sagðist þrotin af kröftum og vildi ekki þurfa að standa fyrir máli sínu gagnvart kjósendum. Sturgeon segir svipað, að hún geti ekki lengur gefið sig alla í svo krefjandi starf. Allt er þetta fjarri sanni eins og svo margt annað hjá þessum stjórnmáladrottningum woke og vinstra fólks.

Arden og Sturgeon eiga margt sameiginlegt og með nokkrum rökum má segja að þær ásamt Trudeau í Kanada og Katrínu Jakobsdóttur séu hugmyndafræðilegir fjórburar. 

Í ráðherratíð Arden og Sturgeon leiddi stjórnarfar beggja til verri lífskjara. Meðan Sturgeon hefur verið ráðherra hefur meðalaldur skoskra karlmanna lækkað, sennilega eina ríkið í Vestur Evrópu og eiturlyfjaneysla tvöfaldast. 

Þrátt fyrir versnandi efnahag og aukna fátækt í stjórnartíð Sturgeon, þá var bullhugmyndafræði hennar varðandi transfólk, sem gerði útslagið. Sturgeon þvingaði í gegn löggjöf um kynrænt sjálfræði, sem var svo vitlaus, að breska ríkisstjórnin ákvað að hafna lagasetningunni, þeirri fyrstu frá skoska þinginu. 

Stuttu síðar var konu nauðgað í skosku fangelsi af transkonu og það mál allt sýndi fram á þá hættu sem konur eru settar í vegna þessarar löggjafar um kynrænt sjálfræði. Því er haldið fram, að það sé í raun rithöfundurinn J.K.Rowling höfundur Harry Potter bókana sem sé sá áhrifavaldur, sem hafi leitt til afsagnar Sturegon, en hún þorði að vekja athygli á bullinu í kringum transhugmyndafræðina, sem altekur marga ekki síst stjórnmálamenn á vinstri kanti stjórnmálanna sem geta ekki einu sinni skilgreint orðið "kona". Rowling sagði að það væru bara konur sem færu á túr og þar með varð hún að transhatara svo merkilegt sem það nú er. 

Í síðasta mánuði sagði Rowling á Twitter, en hún á 14 milljónir fylgjenda þar þegar meint transkona í kvennafangelsi nauðgaði samfanga sínum: " 

“Never forget,Sturgeon, her government and supporters have insisted that it is ludicrous to imagine anyone would dress in women’s clothes to get access to vulnerable women and girls. Wouldn’t happen. Everyone is who they say they are. To question this is hate. ‘The party told you to reject the evidence of your eyes and ears. It was their final, most essential command.’ George Orwell, Nineteen Eighty-Four …”

Katrín Jakobsdóttir fékk samþykkt eins og Sturgeon á  Alþingi Íslands lög um kynrænt sjálfræði. Þau lög eru sama eðlis og þau skosku nema örlítið vitlausari. Hér finnst stjórnmálamönnum það ekki tiltökumál, enda sjálfsagt ekki kynnt sér vitleysuna til hlítar. Þeir ættu að gera sér það til dundurs  að þýða það tilvitnunina í J.K.Rowling og vonandi opnast þá augu þeirra um brýna nauðsyn þó ekki væri vegna öryggis kvenna og almennrar skynsemi að afnema lögin um kynrænt sjálfræði.  


Er Úkraína að vinna stríðið við Rússa?

Í grein í DT í gær skrifar Richard Kemp fótgönguliðsforingi um stríðið í Úkraínu einu sinni sem oftar. Í greininni koma fram mikilvægar upplýsingar og hugleiðingar.

Bent er á að Rússar séu nú undirbúnir undir að sækja fram eftir að Úkraínumenn hafi unnið sigra fyrir nokkru síðan í Kharkiv og Kherson. Hann segir að síðustu vikur hafi verið þær blóðugustu í stríðinu til þessa, þar sem báðir aðilar hafi orðið fyrir miklu mannfalli. Fólk þurfi samt að búa sig undir að það eigi bara eftir að versna. 

Varnarmálaráðherra Úkraínu Oleksii Reznokov segir að Rússar hafi þegar undirbúið a.m.k. 300.000 og allt að hálfri milljón hermanna, sem þeir séu að senda á vígstöðvarnar í Úkraínu til að undirbúa stórsókn innan skamms.

Þá segir greinarhöfundur,að þó Úkraínumenn hafi verið að byggja upp herinn með nútíma hertólum sem séu gefin frá Vesturlöndum, þá hafi Rússar margfalt fleiri hermenn og raunar fleiri en þegar innrásin hófst fyrir ári síðan. Rússar eigi mikið af vígtólum og vígtólaverksmiðjur Pútín framleiði ný vígtól og þær séu í gangi allan sólarhringinn. 

Greinarhöfundur segir að fram að þessu hafi viðhorfið á Vesturlöndum verið, að Úkraínumenn væru með þægilegum hætti að vinna fullnaðarsigur á Rússum, en rauveruleikinn sé flóknari en það. Hvor aðilinn um sig í þessu stríði hafi misst sem fallna eða særða allt að 120.000 manns, en það bendi ekki til þess að Úkraína sé að vinna sigur og verri hlutir eigi eftir að gerast. Nú ráði Rússaher yfir margfalt fleiri hermönnum.

Greinarhöfundur bendir líka á, að Rússaher hafi staðið sig með endemum illa í upphafi stríðsins og nefnir þar mörg atriði, en skýrslur frá Úkraínumönnum núna bendi til þess að Rússar hafi lært erfiða lexíu og gert mikilvægar lagfæringar og ástand hersins sé allt annað nú og miklu betra.

Í lok greinarinnar segir höfundur: Við þurfum að horfa á ástandið í Úkraínu með meira raunsæi og horfast í augu  við hvað slæmt ástandið geti orðið. Nái Pútín auknum landvinningum neyðist Úkraínumenn til að gera harðari gagnárásir og þurfi fleiri vígtól, betri loftvarnir, langdrægar eldflaugar og gríðarlegt magn tóla fyrir stórskotaliðsárásir. Annars segir höfundur, "verður Zelensky forseti neyddur til að gera samninga sem felur í sér sigur fyrir Rússa og ósigur fyrir Úkraínu."

Nú þegar liggja um 240.000 ungir menn eftir, dauðir eða óvígir vegna stríðsins. Það mannfall mun aukast til muna e.t.v. margfaldast.  Ætla ríkisstjórnir Evrópu og Nato að horfa upp á þetta án þess að gera sitt ítrasta til að koma á friði?

Það er ekki ásættanlegt að pólitíska elítan á Vesturlöndum æði áfram eins og svefngenglar og láti sem þetta sé indælt stríð. 

Í bókinni Svefngenglar "Sleep Walkers" fjallar höfundur um hvernig pólitíska  elítan í Evrópu  gekk um eins og svefngenglar í aðdraganda fyrri heimstyrjaldar árið 1914. Milljónir ungra manna voru drepnar á vígvöllunum í Evrópu vegna þess.

Af hverju eiga stjórnmálamenn Evrópu svona bágt með að læra af sögunni? Hvað leggja þær Katrín Jakobsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Glfadótir til á hinum ýmsu skraffundum í NATO og á vettvangi Evrópu?

 

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 981
  • Sl. sólarhring: 1131
  • Sl. viku: 8435
  • Frá upphafi: 2312696

Annað

  • Innlit í dag: 926
  • Innlit sl. viku: 7816
  • Gestir í dag: 890
  • IP-tölur í dag: 856

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband