Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Evrópumál

Er Úkraína að vinna stríðið við Rússa?

Í grein í DT í gær skrifar Richard Kemp fótgönguliðsforingi um stríðið í Úkraínu einu sinni sem oftar. Í greininni koma fram mikilvægar upplýsingar og hugleiðingar.

Bent er á að Rússar séu nú undirbúnir undir að sækja fram eftir að Úkraínumenn hafi unnið sigra fyrir nokkru síðan í Kharkiv og Kherson. Hann segir að síðustu vikur hafi verið þær blóðugustu í stríðinu til þessa, þar sem báðir aðilar hafi orðið fyrir miklu mannfalli. Fólk þurfi samt að búa sig undir að það eigi bara eftir að versna. 

Varnarmálaráðherra Úkraínu Oleksii Reznokov segir að Rússar hafi þegar undirbúið a.m.k. 300.000 og allt að hálfri milljón hermanna, sem þeir séu að senda á vígstöðvarnar í Úkraínu til að undirbúa stórsókn innan skamms.

Þá segir greinarhöfundur,að þó Úkraínumenn hafi verið að byggja upp herinn með nútíma hertólum sem séu gefin frá Vesturlöndum, þá hafi Rússar margfalt fleiri hermenn og raunar fleiri en þegar innrásin hófst fyrir ári síðan. Rússar eigi mikið af vígtólum og vígtólaverksmiðjur Pútín framleiði ný vígtól og þær séu í gangi allan sólarhringinn. 

Greinarhöfundur segir að fram að þessu hafi viðhorfið á Vesturlöndum verið, að Úkraínumenn væru með þægilegum hætti að vinna fullnaðarsigur á Rússum, en rauveruleikinn sé flóknari en það. Hvor aðilinn um sig í þessu stríði hafi misst sem fallna eða særða allt að 120.000 manns, en það bendi ekki til þess að Úkraína sé að vinna sigur og verri hlutir eigi eftir að gerast. Nú ráði Rússaher yfir margfalt fleiri hermönnum.

Greinarhöfundur bendir líka á, að Rússaher hafi staðið sig með endemum illa í upphafi stríðsins og nefnir þar mörg atriði, en skýrslur frá Úkraínumönnum núna bendi til þess að Rússar hafi lært erfiða lexíu og gert mikilvægar lagfæringar og ástand hersins sé allt annað nú og miklu betra.

Í lok greinarinnar segir höfundur: Við þurfum að horfa á ástandið í Úkraínu með meira raunsæi og horfast í augu  við hvað slæmt ástandið geti orðið. Nái Pútín auknum landvinningum neyðist Úkraínumenn til að gera harðari gagnárásir og þurfi fleiri vígtól, betri loftvarnir, langdrægar eldflaugar og gríðarlegt magn tóla fyrir stórskotaliðsárásir. Annars segir höfundur, "verður Zelensky forseti neyddur til að gera samninga sem felur í sér sigur fyrir Rússa og ósigur fyrir Úkraínu."

Nú þegar liggja um 240.000 ungir menn eftir, dauðir eða óvígir vegna stríðsins. Það mannfall mun aukast til muna e.t.v. margfaldast.  Ætla ríkisstjórnir Evrópu og Nato að horfa upp á þetta án þess að gera sitt ítrasta til að koma á friði?

Það er ekki ásættanlegt að pólitíska elítan á Vesturlöndum æði áfram eins og svefngenglar og láti sem þetta sé indælt stríð. 

Í bókinni Svefngenglar "Sleep Walkers" fjallar höfundur um hvernig pólitíska  elítan í Evrópu  gekk um eins og svefngenglar í aðdraganda fyrri heimstyrjaldar árið 1914. Milljónir ungra manna voru drepnar á vígvöllunum í Evrópu vegna þess.

Af hverju eiga stjórnmálamenn Evrópu svona bágt með að læra af sögunni? Hvað leggja þær Katrín Jakobsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Glfadótir til á hinum ýmsu skraffundum í NATO og á vettvangi Evrópu?

 

  


Rússarnir

Ég varð vegmóður á langri göngu í Glóaldinlandinu og settist á bekk í garði. Tvær fjölskyldur voru að leika framandi kúluleik. Ég spurði hvaðan þau væru. 

Nokkur bið var á svari en svo sagði annar mannanna. Við erum Rússar frá Moskvu,en búum hér. Konan hans kom og sagði. Það er ekki gaman að segja frá því núna. Ég sagði fólk er fólk og ég virði ykkur sem einstaklinga og hef ekkert á móti Rússum. Næstu nágrannar mínir hér eru Rússar yndislegt fólk og erfitt að finna betri nágranna. Heiðarlegt, hjálplegt og gott fólk sem við getum alltaf leitað til eins og þau til okkar.

Við eigum að meta fólk að verðleikum, sem einstaklinga. Nágrannar mínir hafa átt í verulegum erfiðleikum með að lifa eðlilegu lífi eftir að stríðið í Úkraínu brast á, þó þau hafi ekkert til saka unnið og búið á Vesturlöndum um árabil. Við Íslendingar tökum nú þátt í slíkum aðgerðum gagnvart venjulegu fólki eingöngu vegna þjóðernis þess. Einhvern tíma hefði það verið kallað fasismi.

Vel má færa rök fyrir því að beita skuli Rússa refsiaðgerðum, en það verður þá að vera gagnvart aðilum sem einhverju máli skipta og hafa með ákvörðunartöku að gera en ekki gagnvart venjulegu fólki, sem hefur jafnvel lítil sem engin tengsl lengur við gamla móðurlandið. 

Svo má spyrja. Af hverju settum við ekki refsiaðgerðir á Rússa og Sovétríkin, þegar þeir réðust inn í Ungverjaland 1956 eða Tékkóslóvakíu 1968 og skyldi forseti Alþingis hafa sýnt Rússum þá óvirðingu, að bjóða ekki sendiherra Rússlands þá Sovétríkjanna í boð fyrir sendiherra eins og forseti Alþingis gerir núna? 

Væri ekki affarasælla að íslenska þjóðin fylgdi þeirri stefnu sem best hefur gefist okkar þjóð, að eiga vinsamleg samskipti við allar þjóðir. Allt annað er glapræði í utanríkisstefnu lítillar þjóðar.

Við fengum ekki að verða meðal þeirra þjóða, sem stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar af því að við neituðum að segja Þjóðverjum og Japönum stríð á hendur þegar ósigur þeirra blasti við árið 1945. Þá voru íslenskir ráðamenn óhræddir við að hafa sjálfstæða afstöðu til utanríkismála í samræmi við stöðu okkar sem vopnlausrar þjóðar hvað sem leið köllum helstu vinaþjóðar okkar þá Bandaríkjanna.

Af hverju erum við hrædd að við að hafa sömu stefnu núna.   


Paradís glæpagengja

Svíþjóð er orðin Paradís glæpamanna og dæmi um hvernig á ekki að fara að í innflytjendamálum segir Fraser Nelson ritstjóri Spectator í grein í DT í gær, en hann hefur tengsl við Svíþjóð.

Svíþjóð, sem var fyrirmynd allra annarra þjóða varðandi öryggi, vistvænt, vinsamlegt og fyrirmyndar þjóðfélag hefur tapað þeirri stöðu vegna stefnu sinnar í innflytjendamálum. Stefna, sem Píratar berjast hatrammlega fyrir á Íslandi nú með málþófi á Alþingi.

Fraser bendir á að á 6 mánaða tímabili hafi fjórir verið skotnir til bana í Södertälje skammt frá Stokkhólmi og stríð milli glæpagengja sé með þeim hætti að það minni frekar á Chicago á fjórða áratug síðustu aldar, þegar Al Capone og aðrir slíkir voru upp á sitt besta. Gamla góða Svíþjóð er horfin.

Á síðasta ári voru 61 skotnir til bana í Svíþjóð, sex sinnum fleiri en samanlagt í Danmörku, Finnlandi og Noregi.

Fótgönguliðarnir sem eru sendir til að fremja glæpaverkin eru aðallega svo ung börn, að þau sæta ekki ákæru skv. sænskum lögum. Greinarhöfundur segir að skv. upplýsingum sænsku lögreglunnar séu þessir barnahermenn glæpagengjanna um 1.200. Helmingur þeirra sem eru handtekin í átökum glæpagengjanna eru börn á skólaskyldualdri. Fyrir nokkrum dögum náðist í tvo drengi annan 13 ára og hinn 14 á leið til að myrða með sjálfvirkum byssum í Hammerbyhöjden í Stokkhólmi. 

Af hverju gerist þetta í Svíþjóð? Af hverju er þetta svona slæmt? Af hverju börn? Af hverju er þetta að verða verra og verra? 

Greinarhöfundur segir að þegar bylgja hælisleitenda kom árið 2015 hafi Svíþjóð flutt inn alls konar glæpastarfsemi. Útgjöld til lögreglunnar hafi aukist um 75% en dugar ekki til, óöldin og glæpirnir aukast.

Aðlögun hælisleitenda að sænsku þjóðfélagi hefur mistekist hrapalega og Svíum er nú refsað fyrir stefnu nánast opinna landamæra og rausnarskap í garð hælisleitenda.

Lisa Tamm fyrrum saksóknari í Svíþjóð kvartar undan barnaskapnum sem eigi sér stað í öllu kerfinu, þar sem hagsmunum venjulegs heiðarlegs fólks sé ekki sinnt á meðan verið sé að vernda glæpamenn.

Við þurfum að gæta þess að gera ekki það sama og Svíar og það er  þegar nóg komið og það fyrir löngu.

 

 


Nýir skattar og nýar takmarkanir

Sl. fimmtudag komust samningamenn Evrópusambandsins að samkomulagi um að innleiða kolefnis landamæra skatt. Skatturinn á að leggjast á vörur sem fluttar eru til Evrópu frá löndum, sem eru ekki eins loftslagsgalin og Evrópusambandið. Skattlagningin er nýjasta dæmi þess hvernig frelsið er stöðugt takmarkað og meiri hömlur lagðar á þegar regluverk heildarhyggju  sósíalískra hugmynda nær fótfestu.

Kolefnisskattar sem Evrópusambandið hefur lagt á fyrirtæki í Evrópu dregur úr samkeppnishæfni þeirra og hækkar vöruverð til neytenda. Þegar það liggur svo fyrir,að önnur lönd eru ekki jafnkolefnisgalin og Evrópusambandið, þá verður að gera eitthvað til að rétta hlut evrópskra samkeppnisfyrirtækja og þá dettur kommissörunum í Brussel aldrei neitt annað í hug en nýir skattar.

Í fréttum í Sunnudagsblaði Financial Times segir frá því að norskir milljónamæringar flýji nú landið í umvörpum vegna sérstaks auðlegðarskatts sem sósíalistarnir í Noregi hafa lagt á. Ofurríka fólkið getur þetta og komið sér hjá óhóflegri skattpíningu, en það getur millistéttin og hinn almenni neytandi ekki.

Ríkisstjórnir sósíalista hafa aldrei skilið það, þ.m.t.ríkisstjórn Íslands, að ofurskattar á framtak einstaklinganna leiða alltaf til verri lífskjara og frelsisskerðingar.

 


Hvað kostar þingmaður eða þá borgarfulltrúi?

Leiðtogi Sovétríkjanna Leonid Bresnev leit á Willy Brandt sem þann mann, sem Sovétríkin gætu treyst og mundi ekki standa að árás á Sovétríkin. Bresnev var mikið í mun að halda honum við völd. Framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins þýska, flokks Brandt sagði í þætti þar sem fjallað var um líf og starf Brandt, að ákveðinn sendimaður Sovétstjórnar hefði komið á skrifstofu sína með 2 milljónir marka í seðlum og beðið hann að sjá um að þessir peningar yrðu notaðir til að koma í veg fyrir að vantrausttillaga á Brandt yrði samþykkt, ekki þyrfti að kaupa nema tvö atkvæði. Framkvæmdastjórinn sagði að það gæti hann ekki gert og sagði að sendimaðurinn hefði þá sagt að hann yrði að leita annarra leiða.Framkvæmdastjórinn sagði að sér hefði síðan komið á óvart hvernig tveir þingmenn greiddu atkvæði þ.á.m. fyrrum  kanslari og formaður kristilegra demókrata. 

Undanfarið hefur verið vakin athygli á því í Morgunblaðinu, að sérkennilegir hlutir eigi sér stað varðandi lóðamál borgarinnar þar sem milljarða hagsmunir eru í húfi og þar sitji oddviti Sjálfstæðisflokksins á hljóðskrafi við borgarstjórann. Annað mál er kaup fyrirtækis Orkuveitunnar á munum frá Sýn fyrir 3 milljarða. Miklir hagsmunir eru í húfi og málin fá hvorki viðhlítandi umfjöllun í fjölmiðlum né á vettvangi borgarinnar. 

Í Belgíu hefur lögreglan um nokkurt skeið haft til rannsóknar mútumál,sem talið er hafa haft áhrif á ákvarðanir Evrópuþingsins. Nýverið var gerð húsleit hjá nokkrum þingmönnum m.a. einum varaforseta þingsins og öðrum þingmanni og við það fundust annars vegar 900.000 evrur og hins vegar 700.000 evrur og það allt í seðlum. Ekki þykir vafi á því að þessir peningar komi frá Katar með milligöngu Marakósku leyniþjónustunar.

Giorgiana Maloni forsætisráðherra Ítalíu hefur haft hörð orð um að Evrópusambandið þurfi heldur betur að taka til hendinni og uppræta þessa spillingu á meðan Macron nýkominn úr ferð til Katar segir einhverra hluta vegna, að það verði að bíða þangað til fullnaðarrannsókn hefur farið fram. Jafnvel þó að spillingin og múturnar æpi framan í alla sem hafa gripsvit í kollinum.

Það sem liggur fyrir er að Katar reynir með mútufé að hafa áhrif á ákvarðanir Evrópuþingsins. Til hvers? Til fjárhagslegs ávinnings. Þannig er það alltaf þegar ríki eða auðfólk kaupir þingmenn eða borgarfulltrúa. 

Af því að heimspeki Filippusar Makedóníukonungs föður Alexanders mikla um að "það sé engin borgarmúr svo hár,að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir hann" hefur reynst rétt og sönn í þau 2.400 ár frá því þessi orð voru sögð, þá verða fjölmiðlar og lögregla,sem og kjörnir fulltrúar að vera á varðbergi og kanna alla hluti til hlítar þegar spurning getur verið um mútur  eða hagsmunaárekstri. 

Einnig vegna þessa verður að athuga sérstaklega varðandi val á frambjóðendum, að þeir séu ekki settir í óviðunandi aðstöðu eins og t.d. í prófkjörum,sem bjóða hættunni heim og dæmi sanna, að ítrekað hafa ákveðnir aðilar notið ótrúlegs stuðnings ákveðinna hagsmunaafla. 

Það kaupir engin þingmann eða borgarfulltrúa nema um sé að tefla mun hærri fjárhæðir í endurgreiðslu sem neytendur eða skattgreiðendur þurfa þá að greiða.

 

 


Frjáls og fullvalda þjóð

Sumir Samningamenn Íslands í samningaviðræðum við Dani um þjóðréttarstöðu Íslands fyrir rúmum 100 árum tárfelldu af gleði þegar Danir samþykktu sjálfstæði og fullveldi landsins. Langri sjálfstæðisbaráttu hafði veri stýrt farsællega í höfn.

Krafturinn og hugsjónaeldurinn,sem fylgdi sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar lagði grunn að framförum á öllum sviðum þjóðlífsins. 

Íslensk þjóð,talaði eigið tungumál og byggði á íslenskri menningu og íslenskum viðhorfum á grunni hins ævaforna arfs íslendinga frá landnámsöld, þau viðhorf og manngildishugsjónir, sem norrænt fólk hafði þróað í aldanna rás.

Framan af gekk okkur vel að fara með þann fjársjóð sem fólst í fullveldi þjóðarinnar. Á síðari árum hefur hallað undan fæti. Íslensk tunga á í vök að verjast og á almennum þjónustustöðum er nú almennt töluð  enska. Við höfum heimilað óheft innflæði fólks, án þess að eiga þess kost eða sýnt nægjanlega viðleitni til að aðlaga það íslenskri menningu.

Þar við bætist, að við höfum samþykkt ýmsar reglur sérstaklega á vettvangi EES samstarfsins sem eru þess eðlis að spurning er hvort að fullveldi okkar sé óskert eða hvort við höfum afsalað fullveldinu að hluta alla vega tímabundið. 

Evrópusambandið (ES)telur nú að lög ES séu æðri þjóðarrétti aðildarþjóða og EES þjóða í þeim atriðum sem EES þjóðir hafa samið svo um, að viðkomandi atriði væru ekki undanskilin. Það er engin millileið. Við þurfum að standa einarðlega gegn þessum sjónarmiðum og halda okkur við það, að fullveldi Íslands er ekki falt fyrir fé eða samninga við ES.

Einmitt á fullveldisdaginn, þegar við þjóðhollir Íslendingar höldum upp á þann mikla sigur sem vannst árið 1918 þegar Ísland varð sjálfstætt og fullvalda ríki finnst leiðarahöfundi Fréttablaðsins, fyrrverandi þingmanni Samfylkingarinnar rétt, að mæla fyrir því að Ísland afsali sér fullveldinu með því að ganga í ES.

Þetta fólk á sér ekkert föðurland þar sem hið nýja  "Internationalen" er mikilvægari fyrir það  en sjálfstætt fullvalda föðurland.

 


Er Samfylkingin á tímamótum?

Nýr formaður Samfylkingarinnar Kristrún Flosadóttir var borin til valda nánast á gullstól. Ekkert mótframboð og hún fékk 95% greiddra atkvæða í formannskjöri. 

Í sjálfu sér var ekkert óeðlilegt við það, að Samfylkingarfólk sameinaðist um að fela Kristrúnu formennsku. Hún er sú fyrsta í gjörvallri sögu Samfylkingarinnar, sem hefur gripsvit á þjóðhagslegum fjár- og efnahagsmálum. Það sem á skortir hjá henni eru aðrir flokksmenn vanbúnir til að gagnrýna vegna þekkingarskorts.

Venjan er sú, að frambjóðendur gera grein fyrir stefnu sinni áður en kosið er, en Kristrún komst upp með það að lofa engu fyrirfram heldur gera grein fyrir stefnu sinni eftir kjörið. 

Nýar áherslur Kristrúnar eru um margt athyglisverðar m.a. áhersla á að aðild að Evrópusambandinu sé ekki lausn allra vandamála þjóðarinnar. Þá áttar Kristrún sig á að vitrænar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins verða ekki nema í þokkalegri sátt að bestu manna ráði og yfirsýn.

Vissulega kveður á nýjan leik eftir um 15 ára hlé, við vitrænan tón í framsetningu hins nýja formanns Samfylkingarinnar. 

Spurningin er hve vel henni gengur að koma fram nýum áherslum. Ýmsir aðrir í forustu Samfylkingarinnar tala með ððrum hætti og virðast ekki tilbúnir til að fórna þeirri öfga woke stefnunni, sem þróaðist í formannstíð Jóhönnu Sigurðardóttur og hefur verið haldið við síðan þó með þeirri undantekningu, þega Árni Páll Árnason reyndi að koma Samfylkingunni aftur á vitrænar brautir, en þraut örendið fljótt enda óvættir í fleti fyrir. 

Nú er spurning hvort Kristrúnu gengur betur að koma vitinu fyrir aðra í forustu Samfylkingarinnar og þróa starf og stefnu flokksins í átt að vitrænum praktískum þjóðfélagsmarkmiðum. Vonandi gengur henni vel. Það hefur verið slæmt að Samfylkingin skuli hafa svo lengi skilið eftir eyðu á þeim væng stjórnmálanna, sem sósíaldemókratískir flokkar í nágrannalöndum okkar fylla.

 

 

 

 

 


Boris valdi rétt

Boris Johnson hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér við leiðtogakjör íhaldsflokksins að þessu sinni. 

Vafalaust var það rétt ákvörðun hjá honum. Hann hefur takmarkaðan stuðning í þingflokknum og í partygate málið er enn óuppgert. Allt partístandið við embættisbústað hans á tímum útgöngubanns og samkomutakmarkanna vegna Covid mæltist illa fyrir. En enn verr, að hann skyldi ekki segja þinginu satt.

Í Bretlandi er það litið allt öðrum og alvarlegri augum en hér þegar ráðherra segir þinginu ekki satt. 

Tími Boris Johnson að leita eftir endurkjöri svo skömmu eftir að hann hrökklaðist úr leiðtogastöðunni var því klárlega ekki núna. Hann þarf því að bíða enn um stund eftir að þjóðin kalli á hann, ef hún gerir það þá nokkru sinni aftur.


mbl.is Boris gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættustig og gapuxaháttur

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hættustigi á landamærunum vegna mikils fjölda hælisleitenda sem streyma til landsins. Í flestum löndum mundu stjórnvöld bregðast hratt við til að tryggja örugga stjórn á landamærunum svo hættustig verði fellt úr gildi. Þrátt fyrir að dómsmálaráðherra sé reiðubúinn til að gera breytingar þá fær hann ekki stuðning í ríkisstjórninni til að gera nauðsynlega og skynsamlega hluti. 

Hættustigi er ekki lýst yfir nema innflytjendamálin séu í alvarlegri stöðu. Það kemur þó sumum lukkuriddurum á Alþingi ekki við m.a. þingmönnum Viðreisnar og Pírata, sem héldu því fram í umræðum á Alþingi í gær, að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra væri með hræðsluáróður. Þetta fólk er annað hvort úr vitrænu sambandi við samfélagsástandið eða hefur ekki fylgst með fréttum í áravís og kemur á óvart þar sem einn þeirra sem þessa tuggu tugði á Alþingi er fyrrum fréttamaður á RÚV.

Í grein sem Bergþór Ólafsson þingmaður Miðflokksins skrifar í Morgunblaðið í dag bendir hann á, að við erum að taka á móti 66% fleiri hælisleitendum en Þjóðverjar gerðu árin 2015 og 2016. Það asnastrik Angelu Merkel var næstum búið að ríða þýsku velferðarkerfi og samélaginu á slig og eyðilagði það sem eftir lifði af pólitískum valdaferli hennar.

Þjóðverjar lærðu þá, að stefna opinna landamæra eða hálfopinna gengur ekki upp. Hún er ógn við velferð og öryggi borgaranna. 

Hér á landi er eins og stjórnmálastéttin fylgist ekki með fréttum og hafi engan skilning á því hvað er að gerast í okkar eigin landi og geti ekki áttað sig á hvernig nágrannalöndin hafa brugðist við í málefnum hælisleitenda. 

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur átt við ramman reip að draga þegar hann hefur viljað koma vitrænum tillögum fram í hælisleitendamálum og skemmst er að minnast, að völdin voru tekin af honum af forsætisráðherra með samþykki formanns Sjálfstæðisflokksins, þegar hann ætlaði að framfylgja lögum um að flytja ólöglega hælisleitendur úr landi í samræmi við íslensk lög. 

Látum vera þó að einstakir þingmenn gerist gapuxar í umræðum á Alþingi, en þegar meirihluti ríkisstjórnar ákveður að bregða ítrekað fæti fyrir skynsamlegar og bráðnauðsynlegar tillögur dómsmálaráðherra, þá er ekki von á góðu. Þjóðina á skilið betri ríkisstjórn. 

 

 


Flóttamannabúðir

Meira en 3 þúsund beiðnir fólks um alþjóðlega vernd, þ.e. mismunandi löglegra og ólöglegra innflytjenda hafa borist á árinu 2022. Talsmaður Rauða Krossins í þessum málum segir að e.t.v. þufi að koma upp flóttamannabúðum (notaði fínna orð.) 

Neyðarkallið kemur ekki á óvart. Við erum með gölnustu stefnu í innflytjendamálum í allri Evrópu. Eðlilega eykst því straumur fólks hingað í stöðugt auknara mæli eftir því sem kostir þrengjast fyrir gervihælisleitendur í öðrum löndum.  

Í haust mótmælti hópur ungs fólks í Reykjavík vegna skorts á dagheimilisplássum fyrir börn vinnandi fólk. Að hluta til stafa erfiðleikarnir af fjölgun hælisleitenda. Sama er varðandi húsnæðisskortinn. 

Á sama tíma og Kína tekur ekki við hælisleitendum og Saudi Arabar telja að flóttamannavandi í Arabíu komi þeim ekki við og þá ekki heldur Japanir, þá er pólitíska elítan á Íslandi svo snargalin, að telja að við séum Guðs útvalin þjóð, til að taka við hvaða hlaupastrák sem vera skal á kostnað skattgreiðenda.  

Ríkisstjórnin stefnir að því lóðbeint með hælisleitendadekri sínu að gera lífskjörin í landinu verri og svipta Íslendinga aðgangi að  grunnþjónustu. 

Samþykkja kjósendur það að stjórnmálaelítan haldi áfram að skaða lífskjörin í landinu með þessari gölnu stefnu í málefnum útlendinga.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.4.): 74
  • Sl. sólarhring: 521
  • Sl. viku: 2092
  • Frá upphafi: 2505520

Annað

  • Innlit í dag: 70
  • Innlit sl. viku: 1965
  • Gestir í dag: 70
  • IP-tölur í dag: 70

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband