Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Seðlabankastjóri reynir að hafa áhrif á ákæruvaldið

Már Guðmundsson Seðlabankastjóri reynir ítrekað að hafa áhrif á ákæruvaldið og krefst þess aftur og aftur að Ríkissaksóknari ákæri í málum þar sem engar refsiheimildir eru fyrir hendi.

Í gær var illa unnin frétt á Stöð 2 hönnuð af Seðlabankastjóra,  þar sem draga mátti þá ályktun að "vandaðar" rannsóknir Seðlabankans á meintum gjaldeyrisbrotum væru unnar fyrir gíg þar sem Ríkissaksóknari vildi ekki ákæra í málinu. Þessi frétt var einnig flutt af Stöð 2 í ágúst s.l.

Afstaða Ríkissaksóknara lá fyrir í mars á þessu ári. Þar kom fram að fullnægjandi refsiheimildir skorti við þeim brotum, þar sem Seðlabankastjóri vildi ákæra. Seðlabankastjóri taldi þá að ákæruvaldið ætti ekki að fara að lögum, heldur geðþóttaákvörðun hans um að fullnægjandi refsiheimildir væru samt fyrir hendi þótt Ríkissaksóknari hefði komist að annarri niðurstöðu.

Þeir sem aðhyllast hugmyndafræði Ráðstjórnar telja rétt að ákæruvald og dómsvald lúti fremur vilja þeirra en lögum. Sú er afstaða Seðlabankastjóra í þessu máli.

Fyrrverandi Ríkissaksóknari Valtýr Sigurðsson sagði að forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefði ítrekað reynt að hafa áhrif á störf hans. Nú er skoðanabróðir forsætisráðherra í Ráðstjórninni, Már Guðmundsson Seðlabankastjóri beraður af því sama gagnvart Ríkissaksóknara. Þau Jóhanna og Már hafa tileinkað sér það viðhorf arfakónga frá fyrri öldum "Vér einir vitum".

Seðlabankastjóra datt ekki í hug þegar álit Ríkissaksóknara lá fyrir í mars s.l. að fara fram á það við Alþingi og ríkisstjórn að lögum yrði breytt og fullnægjandi refsiheimildir sett í lögin. Nei Ráðstjórnin átti að sjá til þess að ákært yrði,  hvað svo sem liði lögum í landinu.

Þannig er málum enn háttað í landinu að hér er réttarríki. Þess vegna fer hvorki Jóhanna Sigurðardóttir eða Már Guðmundsson með ákæruvald og dómsvald í landinu þó fegin vildu. 

Fréttamiðlar ættu að skoða störf Seðlabankastjóra m.a. ámælisverð vinnubrögð við sölu á Sjóvá-Almennum tryggingum sem leiddu til milljarða tjóns fyrir skattgreiðendur. Einnig klúðurslegar rannsóknir og afgreiðslu gjaldeyrismála. Það væru fréttir en ekki tilbúnar fréttir frá Seðlabankastjóra.


ASÍ forustan berst gegn hagsmunum launþega.

Forusta ASÍ hefur orðið viðskila við raunverulega verkalýðsbaráttu. Heildarhagsmunir launþega eru í dag aðrir en þeir hagsmunir sem forusta ASÍ hefur gert að inntaki í starfi sínu.

Hagsmunir launþega er að fá sem mest gæði fyrir laun sín. Þess vegna skiptir máli að verð á nauðsynjum sé sem hagstæðast fyrir launþega. Það skiptir líka álíka máli fyrir launþega að verð á lánum sé lágt.

ASÍ forustan heldur úti verðkönnunum á matvælum öðru hvoru, sem er góðra gjalda vert. En það er ekki nóg að mæla hitastigið á matvælamarkaðnum eins og ASÍ myndast við að gera. Það þarf líka að berjast fyrir og móta tillögur til raunlækkunar vöruverðs í landinu. Það er mikilvægasta kjarabót launþega í landi verðtryggingarinnar.

Hagstæð lán eru líka forsenda góðra kjara launþega. Þar hefur ASÍ forustan ekki bara brugðist, heldur vinnur gegn hagsmunum launþega. ASÍ forustan stendur dyggastan vörð allra um verðtrygginguna sem þýðir óhagkvæmustu lán til neytenda sem til eru í Evrópu og Norður Ameríku. 

ASÍ hefur ekki ljáð máls á því að neysluskattar séu teknir út úr vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.  Þess vegna bitna auknir neysluskattar með tvöföldum þunga á launþegum. Hækka matarverð og hækka lán í leiðinni.  Þá berst ASÍ forustan nú fyrir því að launþegar á Íslandi þurfi að þola hækkun lána sinna vegna t.d. uppskerubrests á korni í IOWA í Bandaríkjunum, en lánastofnanir fái meira í sinn hlut vegna þess.

Ekki má gleyma því að forseti ASÍ drap á dreif tilögum um að verðtryggingin yrði tekin úr sambandi með neyðarlögum í október 2008. Hann var formaður nefndar til að fjalla um málið á vegum Jóhönnu Sigurðardóttur og niðurstaða hans og Jóhönnu var sú að frekar skyldu heimilin tekin af fólkinu en að gæta sanngirni á óvissu og erfiðleikatímum.  

Hætt er við að gengi krónunnar gefi eitthvað eftir á næstunni. Það mun hækka verðtryggðu lánin. Þá er framundan veruleg hækkun matvæla vegna verulegrar hækkunar á kornveði. Hækki eldsneytisverð líka verður hér ný verðbólguholskefla. Hún bitnar þyngst á launþegum sem eru með verðtryggð lán. ASÍ forustan virðist neita að horfast í augu við þessar staðreyndir.

Stefna forustu ASÍ gagnvart heimilunum í landinu er álíka og stjórnenda flutningaskips sem byrjar að leka úti á rúmsjó og meðan hásetarnir rembast af öllu afli við að stöðva lekann og ausa þá bora yfirmennirnir stöðugt fleiri göt á skipið. Slíkum stjórnendum yrði kastað fyrir borð til að skipið sykki ekki.  Það þurfa launþegar líka að gera gagnvart forustu ASÍ meðan hún rekur helstefnu gegn heildarlífskjörum launþega í landinu.


Neytendur sviknir. Þess vegna hækka lánin.

Flest lán almennings eru bundin vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Vöruverð í landinu skiptir því meira máli hér en í nokkru öðru landi fyrir velmegun fólksins. Svo virðist sem kaupmenn hafi svikið neytendur í sumar með þeim afleiðingum að neytendur greiddu hærra verð fyrir vörurnar en þeir áttu að gera. Þess vegna hækkuðu lánin líka í stað þess að lækka.

Frá því í apríl þangað til í júlí hækkaði gengi krónunnar um tæp 12%. Af þeim sökum hefði vöruverð innfluttrar vöru átt að lækka um svipaða prósentutölu en svo er ekki. Þegar vísitölur Hagstofunnar eru skoðaðar, sést að breytingar á vöruverði vegna styrkingar krónunnar skilar sér ekki til neytenda.

Breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sýnir líka að  hækkun á gengi krónunnar skilar sér mjög illa til lækkunar á vöruverði. Hvað gerist þá núna þegar krónan er að veikjast?

Skrýtið að vöruverð skuli nánast standa í stað þegar Evran er 168.4 og þegar hún er 146.6. Þrátt fyrir þessa tæplega 12% hækkun krónunnar gagnvart Evru þá damlar vísitala neysluverðs til verðtryggingar á sama róli og hækkar milli júlí og ágúst en lækkar aðeins í september eða sem svarar broti úr prósenti.

Það er vitlaust gefið og það er allt á kostnað neytenda og þeirra sem skulda verðtryggð lán. Meðan stjórnvöld láta þetta viðgangast þá eru þau ekki að vinna fyrir almenning í landinu.


Spámaðurinn Kúbu Gylfi minnir á sig.

Dr. Gylfi Magnússon, dósent, fyrrum mótmælandi á Austurvelli og síðar viðskiptaráðherra, var af einhverjum ástæðum tekinn í fréttaviðtal á Stöð 2 þar sem hann færði þjóðinni þá speki, að "fylgjast þyrfti grannt með gangi mála í íslensku efnhagslífi" þar sem gjaldeyrishöftin gætu valdið eignabólu. 

 Margir hafa raunar bent á þetta áður þó þeir hafi hvorki doktorsgráðu né kenni í Háskóla Íslands. Gylfa er raunar vorkunn.  Spádómar völvu Vikunnar um áramót hafa ræst mun betur en spádómar Gylfa.   Doktorinn, mótmælandinn og ráðherrann Gylfi spáði því að Ísland yrði "Kúba norðursins" ef þjóðinn samþykkti ekki undirlægjusamninga við Breta og Hollendinga svokallaða Icesave samninga. Gylfi spáði því lika að ríkið þyrfti ekki að borga neitt með SpKef og Byr. 

Ráðherrann Gylfi spáði hins vegar hvorki í né sagði þingi og þjóð rétt frá varðandi dómsmál um ólögmæti gengistryggðra lánasamninga.  Í framhaldi af því að hafa leynt Alþingi mikilvægum upplýsingum hvarf Gylfi snögglega úr ráðherrastól áður en Alþingi fékk tækifæri til að ræða þau mál. Enda lítið annað að gera fyrir ráðherra sem var beraður af því að hafa misfarið með mál gagnvart Alþingi.

En nú er spámaðurinn Dr. Gylfi semsagt upprisinn að nýju á Stöð 2. Eðlilegt að fréttamiðlarnir komi sér upp "vönduðum marktækum" viðmælendum frá Háskóla Íslands um þjóðfélagsmál eins og Stöð 2 Dr. Gylfa Magnússon og Ríkisútvarpið Sigurbjörgu stjórnsýslufræðing.


Milton Friedman, Hannes Hólmsteinn og fleiri

Milton Friedman sá merki hagfræðingur fæddist 31. júlí 1912. Aldarafmæli hans er því minnst víða um heim. Milton Friedman þótti geta sett fram flóknar hagfræðikenningar á mannamáli sem er óvenjulegt fyrir hagfræðinga.

Margir hafa lesið bækur Friedman: "Markaðshyggja og frelsi" og "Frelsi til að velja" Í báðum bókunum (frelsi til að velja voru raunar sjónvarpsþættir líka) tekur hann fyrir brýn þjóðfélagmál og bendir á mikilvægi þess að einstaklingarnir, hinn frjálsi borgari hafi sem mest með sín mál að gera, en ríkið taki sér ekki valdið og stjórni á kostnað einstaklinganna.

Í upphafi bókar sinnar "Frelsi til að velja" er Friedman með tilvitnun í Lous Brandeis Hæstaréttardómara í dómi í málinu "Olmstead gegn Bandaríkjunum, þar sem m.a. kemur fram að mesta ógnin sem steðji að frelsinu sé vegna skilningslausra, velmeinandi  baráttumanna.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor hefur fremur öðrum kynnt kenningar Milton Friedman hér á landi. Hannesi ber að þakka fyrir það. 

Við Hannes ætlum að fjalla um Milton Friedman og raunar fleiri hagfræðinga á Útvarpi Sögu þriðjudag 31.ágúst kl. 16-18.  Hannes kynntist Miltin Friedman persónulega. Það verður fróðlegt að ræða við hann um manninn og kenningar hans sem og hvernig Milton Friedman kynni að hafa litið á íslenskt þjóðfélag í dag. Einnig hvaða úrræði hann hefði talið brýnust til að auka frelsi í okkar samfélagi.

Ég tel að sjónarmið og skoðanir Milton Friedman eigi einmitt erindi í dag og er ekki í vafa um að hann hefði orðið æfur yfir að sjá að ríkisstjórnir um allan heim eru að bjarga bönkum og óráðssíumönnum í pólitík á kostnað skaggrreiðenda jafnvel í löndum sem kemur málið ekkert við. Fróðlegt að heyra hvað Hannes segir um það mál.


Hvort segir fjármálaráðherra vísvitandi ósatt eða veit ekki betur?

Í kvöldfréttum RÚV var 90 milljarða halli á ríkissjóði árið 2011 gagnrýndur af ýmsum. Fjármálaráðherra  segir að hallinn sé eðlilegur og þetta hefði verið meira eða minna fyrirsjánalegt, þó áætlanir hafi sýnt mun minni halla. Spurning er var þá verið að segja ósatt þegar fjárlögin og áætlanirnar voru kynntar þingi og þjóð?

Í annan stað segir fjármálaráðherra að stór hluti af skýringunni á meiri ríkissjóðshalla en ráð var fyrir gert hafi verið vegna þess að greiða hafi þurft vegna Sparisjóðs Keflavíkur og það væri vonandi síðasti stóri reikningurinn vegna Hrunsins.  Hér vísar fjármálaráðherra til bankahrunsins í október 2008.

Þessi ummæli fjármálaráðherra eru ósannindi. Reikningurinn vegna Sparisjóðs Keflavíkur kemur bankahruninu í október 2008 ekkert við. Sparisjóður Keflavíkur var með jákvæða eiginfjárstöðu upp á nokkra milljarða samkvæmt ársreikningum sem birtir voru í apríl 2009 og þar var sagt að tekið hefði verið fullt tillit til bankahrunsins. 

26 milljarðarnir sem þarf  að greiða vegna Sp/Kef er vegna handvammar og slæmrar ráðsmennsku Steingríms J. Sigfússonar.  Eftir að Steingrímur J hlutaðist til um að Sparisjóður Keflavíkur starfaði áfram á undanþágum frá FME þá myndaðist  tapið sem þjóðin þarf að borga.

Fjármálaráðherra er fyrrverandi sveitarstjóri í Garðinum á Reykjanesi ætti að þekkja vel til Sparisjóðs  Keflavíkur. Henni hlýtur að vera ljóst að reikningurinn vegna Sparisjóðs Keflavíkur er ekki vegna bankahrunsins heldur alfarið á ábyrgð Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar.

Viti fjármálaráðherra ekki betur og telji hún sig vera að segja satt, þá er illt í efni. Þá hefur hún greinilega ekki fylgst með hvorki sem sveitarstjóri á sínum tíma né sem þingmaður og síðan ráðherra. Sé staðreyndin hins vegar sú að hún hafi áttað sig á hvað gerðist varðandi Sparisjóð Keflavíkur þá var hún í kvöld að segja þjóðinni vísvitandi ósatt.

Hvorugt gengur fyrir ráðherra.


Eyðum endilega um efni fram.

Vinur minn Guðmundur hefur lengi tekið hærri lán til að borga gömlu lánin og standa undir góðum launum og einkaneyslu. Bókarinn hans sagði að þetta væri allt í grængolandi, hann skuldaði of mikið og fyrirtækið væri rekið með tapi. Guðmundur sagðist þá ætla að taka enn meiri lán til að borga gömlu lánin og hækka launin sín. Bókaranum leist ekki á það og benti á að þá yrði hann gjaldþrota innan árs. Guðmundur er ekki sammála bókaranum og sagði að þetta væri eina leiðin út úr efnahagsvandanum sem hann væri í. Hann þyrfti að eyða meiru og auka veltuna, skítt með tapið.

Nú hefur þessi hagfræðikenning Guðmundar vinar míns fengið ágætiseinkun hjá Nóbels hagfræðingnum og vinstri manninum Paul Krugmann sem leggur til að bæði Betar og Frakkar leysi vandamál sín með því að eyða meiru um efni fram í stað þess að spara og draga saman í ríkisrekstrinum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virðist líka deila þessari hagfræðikenningu Guðmundar vinar míns.  Sjóðurinn hefur mestar áhyggjur af því að ríki heims ætli ekki að eyða jafn miklu um efni fram og verið hefur.  Sjóðurinn varar m.a. við því að þingið í USA leyfi  Obama ekki að  taka meiri og hærri  lán af því að þá þurfi að koma til niðurskurðar. Einnig eru Evrópuríki vöruð við að spara og skera niður ríkisútgjöld af því að það leiði til samdráttar.

Hagfræði Guðmundar vinar míns hefur greinilega sigrað heiminn.  Hvað skyldi þá vera langt í alvöru kreppu?

Vígorð dagsins eru: Sparnaður er synd. / Glötuð er geymd króna / Lán á lán ofan leysa vandann.

Var það virkilega ekki á öðrum forsendum sem velsæld varð til í okkar heimshluta?


Alvarlega námskreppan

Kalli vinur minn segir að námskreppan sé búin hjá sér. Hann hækkaði sig úr tveim í aðaleinkunn í 4 eða um 100% og sagði að kennarinn hefði sagt að hann væri langflottastur. Kalli sagði að Einar bekkjarbróðir hans hafi verið eitthvað súr af því að kennarinn sagði að það væri ekki í lagi hjá honum af því að hann lækkaði úr 8.4 í 8.3 í aðaleinkunn sem er náttúrulega rosalegt hallæri. Þannig að Kalli sagði að Einar væri í alvarlegri námskreppu meðan námskreppan væri búin hjá sér, eins og Gylfi Zoega aðal hagfræðingur RÚV mundi orða það.

Elsti banki í heimi fær aðstoð skattgreiðenda.

Banca Monte dei Paschi di Siena sem stofnaður var árið 1472 hefur fengið 3.9 milljarða Evru (630 milljarðar krónur)  fjárframlag og stuðning frá ítalska ríkinu. Hefði bankinn ekki fengið þessa fyrirgreiðslu frá skattgreiðendum hefði hann verið tekinn í skiptameðferð.

Bankinn var stofnaður 1472 af borgaryfirvöldum í Siena til að lána hinum fátæku. ´

Ítalska ríkisstjórnin segir að þetta sé gert til að Ítalía virði skuldbindingar sínar við Evrópusambandið um að styrkja bankastarfsemina.

Enn eitt dæmið um að svonefnd Evrukreppa er í raun bankakreppa og allt fárið og endalausir fundir leiðtoga Evrópusambandsins snúast í raun um með hvaða hætti og hvernig sem mestum byrðum af gjaldþrota bönkum og uppblásnum hlutabréfamörkuðum verði velt yfir á skattgreiðendum. Í raun hjálp fyrir hina ríku á kostnað samfélagsins. 

Ítalska þingið telur ekki  ástæðu til að skipa rannsóknarnefnd eða sérstakan saksóknara til að fjalla um þrot þessa banka. Þá verður sérstakur Landsdómur ekki kallaður saman.

Á Ítalíu virðast menn átta sig á að einkafyrirtæki geti farið í þrot án þess að stjórnmálamenn hafi með það að gera eða beri ábyrgð á því.  En því miður þá eru þeir eins og stjórnmálamenn í Evrópu og Ameríku helteknir af þeirri meinloku að það eigi að bjarga fjármunum hinna ríku á kostnað skattgreiðenda. 

Um það snýst fjármálakreppan í heiminum.


Ósýnilega höndin eða dauða höndin.

Stjórnmálamenn hafa sjaldnast búið til arðbær störf. Þeir geta hins vegar stuðlað að umhverfi hagvaxtar og velmegunar með  því að takmarka skattheimtu og afskipti ríkisvaldsins af þeim sem eiga sjálfir fyrirtækin sín og bera alla ábyrgð á þeim.

Ríkisstjórnin hefur farið þveröfuga leið. Skattlagning hefur verið óhófleg á lítil og meðalstór fyrirtæki.  

Það fer oftast framhjá stjórnlyndum stjórnmálamönnum að smá og meðalstór fyrirtæki eru forsenda framfara, hagvaxtar og velmegunar.  Þessi fyrirtæki verða útundan af því að litli kapítalistinn berst áfram og nýtur afrakstursins ef vel gengur en það hjálpar honum enginn ef illa fer. Smá- og meðalstóra fyrirtækið fær ekki milljarða lán og það fær ekki afskrifað háar fjárhæðir. Það nýtur heldur ekki sérstakra skattaívilnana sem stórfyrirtækin geta nýtt sér.  Eigendur litlu fyrirtækjanna vinna meira, taka minni laun og missa eignir sínar ef það gengur ekki vel.

Hvílíkt regindjúp er staðfest á milli þeirra sem vinna í umhverfi smáatvinnurekstursins og velferðarkerfis stórfyrirtækjanna og ríkisfyrirtækjanna þar sem stjórnendurnir taka venjulegast enga áhættu en geta átt völ á góðum eftirlaunum, starfslokasamningum auk ýmiss smáræðis eins og námsferðum, orlofsárum o.s.frv. Milljarðarnir eru afskrifaðir á stórfyrirtækin og síðan halda sömu stjórnendurnir sem ekkert eiga áfram að stjórna endurreistum fyrirtækjum og geta grafið upp milljarð eða fleiri ef á þarf að halda til að halda fyrirtækinu.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur aukið vanda smá og meðalstórra fyrirtækja verulega. Þannig var virðisaukaskattur hækkaður. Fjármagnskostnaður er sá hæsti sem þekkist í heimi og ofurskattheimta og pappírsfár í kringum lítil fyrirtæki íþyngir rekstrinum.

Nú hefur ríkisstjórnin komið með áætlun um atvinnusköpun með áherslu á millifærslur í gegn um ríkisfjárhirsluna með því að skattleggja suma og millifæra þá peninga til annarra. Atvinnuáætlun ríkisstjórnarinnar sem Guðmundur Steingrímsson alþingismaður kallar "planið góða" byggist aðallega á því að ná peningum frá útgerðinni með auðlindaskatti, til að millifæra peningana í gæluverkefni sem eru þóknanleg kommissar Jóhönnu og kommisar Steíngrími. 

Þessi hugmyndafræði fer þvert á það sem stjórnmálamenn í Bandaríkjunum eru að átta sig á að gengur ekki lengur. Obama forseti sem og pólitískir andstæðingar hans standa nú fyrir aðgerðum sem hafa fengið nafnið "Jumpstart our business startups act." Það felst m.a. í því að bæta stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja þar sem eigendurnir eiga og bera áhættu af fyrirtækjunum sínum.

Á Evrópska efnahagssvæðinu eru meir en 23 milljónir einkafyrirtækja þau fyrirtæki þyrftu ekki að ráða nema einn starfsmann hvert til að eyða atvinnuleysinu í álfunni en þar eru tæplega 23 milljónir atvinnulausir. 

Lítil og meðalstór fyrirtæki hér á landi eru umtalsvert fleiri en þeir atvinnulausu. Með því að lækka skatta og gefa litlum og meðalstórum fyrirtækjum eðlilegt svigrúm á markaðnum og eðlilegt lánaumhverfi  þá væri hægt að eyða atvinnuleysinu, auka velmegun og hagvöxt í landinu umtalsvert.

Dauða hönd ríkisstjórnarinnar, ríkisafskipta, gæluverkefnanna, útblásins svonefnds velferðarkerfis og andlitslausu stórfyrirtækjanna sem starfa á ábyrgð skattgreiðenda dregur hins vegar máttinn úr hagkerfinu.

Það verður að gefa því duglega fólki sem er tilbúið til að vinna mikið og leggja mikið af mörkum og taka áhættu til að gera drauma sína að veruleika eðlilegt svigrúm. Það er forsenda sjálfbærni og framfara í þjóðfélaginu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 812
  • Sl. viku: 3033
  • Frá upphafi: 2605624

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 2847
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband