Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Frá hverjum fékk Roger Boyes upplýsingar um hrunið?

Egill Helgason fékk breskan blaðamann í þáttinn sinn í dag. Það var athyglivert að hlusta á sjónarmið hans. Raunar stóð ekki steinn yfir steini af mörgum fullyrðingum hans þegar betur er að gáð.

Í fyrsta lagi þá heldur þessi vinstri sinnaði blaðamaður því fram að ákveðin stjórnmálastefna í anda Margrétar Thatcher og ákveðinn fyrrverandi stjórnmálamaður séu helstu orsakavaldar hrunsins. Þetta stangast á við sjónarmið sem óháðir fræði- og kunnáttumenn hafa sett fram, menn sem voru fengnir af hálfu ríkisstjórnarinnar til að fjalla um málið. Nægir í því sambandi að nefna þá Karlo Jänneri og Mats Josefsson. Báðir leggja þeir höfuðáhersluna á ábyrgð bankamanna, eigenda bankanna og helstu skuldunauta bankanna.

Í annan stað fullyrðir Boyes að hrunið á Íslandi hafi verið fyrirséð árið 2006 og allir hafi gert sér grein fyrir því nema við Íslendingar.  Jafn sannfærandi og blaðamaðurinn var í vel æfðum leikþætti Egils Helgasonar, þá stangast þetta samt á við staðreyndir sem auðvelt er að benda á. Þannig fengu helstu eigendur íslensku bankanna veruleg lán erlendis á árinu 2007, fyrirtæki eins og t.d. Exista, Fl. Group, Milestone og fleiri. Þá voru íslensku bankarnir með besta lánshæfismat  (AAA) á árinu 2007 hjá alþjóðlegum matsfyrirtækjum.  Þó ekki séu tekin nema þessi dæmi þá sýna þau að ekki er um hlutlæga málefnalega umfjöllun að ræða hjá Boyes.

Við nánari athugun sést að umfjöllun Boyes ber öll merki náins faðmlags vinstri manna á Íslandi og útrásarfurstana. Fróðlegt væri að vita hverjir aðrir en Egill Helgason hafa verið að hvísla í eyru hans  við gerð bókarinnar, þannig að hann skyldi komast að þeim furðulegu niðurstöðum sem komu fram í sjónvarpsþættinum í dag.

Það má ekki gleyma því að það varð bankahrun á Írlandi en hvorki Sjálfstæðisflokkurinn, Geir H. Haarde né Davíð Oddsson voru þar við völd. Í Bretlandi hrundu bankar einnig en þar voru og eru sósíalistar við völd.  Sama má segja um Spán og halda mætti áfram um hrun sem varð í ýmsum gömlum kommúnistaríkjum, en þau þekkir Boyes betur en margir aðrir.  Málflutningur Boyes stenst ekki málefnalega skoðun. Hann er andstæður þeim staðreyndum sem liggja fyrir í mikilvægum atriðum.

En eftir stendur spurningin um hverjir hvísluðu þessum upplýsingum í eyru Boyes?

 


Frásagnir af skuldabyrði

Þingflokksformaður Framsóknarflokksins og þingmaður hreyfingarinnar hafa tjáð sig með þeim hætti um  nýjar upplýsingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að  helst mátti skilja að nýtt efnahagshrun yrði að loknum þrettándanum þar sem erlend skuldabyrði yrði þjóðinni ofviða.

Miðað við þá dramatík sem fylgdi orðum þessara þingmanna þá var eðlilegt að einhverjir misstu nætursvefn.  En hvaða aukna skuldabyrði er þetta?  Aðallega aukin skuldabyrði einstaklinga og félaga en ekki ríkissjóðs eða sveitarfélaga.  

Hvaða afleiðingar hafa þessar nýju upplýsinar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Í raun ekki neinar aðrar en í fyrsta lagi að við gerum okkur betur grein fyrir hvað skuldsetningin varð geigvænleg þegar við töldum okkur ríkustu þjóð í heimi.  Í öðru lagi að afskriftir erlendra kröfuhafa á íslenskum skuldum verða meiri en ráð var fyrir gert. Í þriðja lagi að mikill þungi afborgana vegna erlendra skulda er líkleg til að veikja gengi krónunnar. 

Staða okkar er nógu og erfið þó ekki sé verið að hræða fólk að óþörfu og það á sjálfri jólaföstunni.

 


Segir viðskiptaráðherra af sér?

Spurning er hvort viðskiptaráðherra mun axla ábyrgð og segja af sér.  Í nokkurn tíma hefur flogið fyrir að Vinstri grænir vilji losna við hann. Lilja Mósesdóttir þingmaður Vinstri grænna ber viðskiptaráðherra og ríkisbankana þungum sökum.

Lilja Mósesdóttir er formaður Viðskiptanefndar Alþingis. Hún sagði á Alþingi að Viðskiptanefnd hafi komist að raun um að bankarnir fari ekki að samræmdum lögum og reglum sem gilda varðandi endurskipulagningu fyrirtækja og hefur boðað viðskiptaráðherra á fund nefndarinnar á morgun.

Ummæli Lilju Mósesdóttur sýna fram á óþol gagnvart viðskiptaráðherra.  Það er alvarlegt þegar formaður Viðskiptanefndar Alþingis segir að bankarnir starfi ekki eftir lögum og reglum.  Ábyrgðina á því ber viðskiptaráðherra en hann eins og ríkisstjórnin hafa vanrækt að móta samræmdar reglur um starfsemi bankanna og gæta þess að þar sé farið að lögum. Þegar formaður Viðskiptanefndar segir nefndina hafa komist að raun um lögbrot bankanna þá liggja slíkar upplýsingar fyrir hjá Viðskiptaráðherra sem greinilega gerir ekkert í málinu. Viðskiptaráðherra var sá sem talaði hvað hæst um það á sínum tíma að aðrir tækju sinn poka og öxluðu ábyrgð. Hvað segir hann nú um sína ábyrgð?

Það verður óneitanlega fróðlegt að sjá hvernig þetta mál verður leyst á kærleiksheimili ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/11/25/bankar_fara_ekki_ad_reglum/

 


Hvað vill Arion banki?

Arion banki hefur ráð stærstu smásölukeðjunar í höndum sér.  Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður talsmaður hóps sem vilja kaupa keðjuna segir að stjórnendur bankans vilji ekkert tala við sig af viti. Á sama tíma er sagt frá því að Aríon banki sé í viðræðum við þá sem nú stjórna keðjunni.  Svo virðist sem stjórnendur Arion vilji ekki tala við aðra.

Íslensk verslun er sú óhagkvæmasta og dýrasta í okkar heimshluta. Þar ræður mestu hvernig Hagar reka verslanir sínar vegna þess að þeir eru markaðsráðandi. Stjórnendur Arion banka virðast staðráðnir í að halda þessari óhagkvæmu og samkeppnishamlandi skipan. Af hverju ekki að nýta tækifærið og brjóta keðjuna upp og reka í hagkvæmari einingum og leyfa einstaklingsfrelsinu og athafnafrelsinu að njóta sín. Gæti það ekki verið góður kostur fyrir neytendur.

Áður fyrr fóru einstaklingar og fyrirtæki á hausinn og gátu síðan byrjað upp á nýtt eins og dæmi er um marga íslenska athafnamenn í upphafi síðustu aldar. Þetta reyndist vel og ekki var svínað á samkeppnisaðilum. Af hverju má ekki fara að í samræmi við þessa eðlilegu leikreglu markaðssamfélagsins.


Félagsmálaráðherra fagnar

Helmingur lánþega Íbúðalánasjóðs sagði nei takk við greiðslujöfnunarleið Félagsmálaráðherra. Í framhaldi af því sagðist Félagsmálaráðherra fagna þeirri niðurstöðu. Sú Ráðstjórnarleið sem farin var að krefjast þess að fólk afþakki þennan meinta greiða Félagsmálaráðherra er með ólíkindum. Hún gengur þvert á þá lánasamninga sem fólk hefur gert. Vandséð er að gera megi breytingar á lánasamningunum nema með samþykki skuldara.

Getur verið að Félagsmálaráðherra sé svo veruleikafirrtur að hann telji sig bjóða skuldurum upp á ásættanlegar tillögur þegar helmingur þeirra afþakkar? Óvíst er með hinn helmingin hvort allir þar samþykkja í raun þá breytingu sem Félagsmálaráðherra leggur til.

Þrátt fyrir að Félagsmálaráðherra neiti að horfast í augu við það þá liggur nú fyrir að þessi tillögusmíð hjálpar ekki og er ekki sú skjaldborg um heimilin í landinu sem lofað var.


Kalli vinur minn vill líka fá lán

Kalli vinur minn sagðist eiga í erfiðleikum með að greiða laun starfsmanna fyrirtækisins en það væri allt í lagi. Hann ætlaði að fá lán hjá viðskiptabanka fyrirtækisins fyrir rekstrarkostnaði. Ég spurði Kalla hvort hann hefði einhver veð. Kalli sagðist hafa veð í fyrirtækinu sem væri all nokkuð þar sem allir starfsmenn félagsins væru sérfræðingar og ómetanlegir fyrir íslenska þjóð. Já sagði ég en Kalli þetta er meir en milljarður er þetta ekki svolítið 2007.

Nei sagði Kalli þetta er einmitt 2009.  Ríkisbankarnir fella niður  milljarða og Landsbankinn lánaði Decode einn og hálfan milljarð í byrjun ársins til að borga laun og annan rekstrarkostnað og fékk sambærilegt veð og ég er að bjóða. Já sagði ég en þú ert búinn að reka fyrirtækið í mörg ár með bullandi tapi Kalli og skuldar ofboðslega mikið.  Skiptir engu sagði Kalli það var Kári Stefánsson og Decode líka. Er ekki jafnræði í þjóðfélaginu?

Hvernig er það annars er ekki  ríkisábyrgð á ríkisbönkunum?  Borga skattgreiðendur ekki allar niðurfellingar, vitlausar lánveitingar og rugl í bönkunum?


Hvað er þá sannleikur?

Getur verið að Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri Kaupþings banka hafi ekki sagt þjóðinni satt í síðustu viku þegar fjallað var um hugsanlega aðild Nýja Kaupþings að Högum ehf.  og 1998 ehf. Finnur sagði að þetta væri allt í skoðun í síðustu viku en engar ákvarðanir verið teknar.

Samkvæmt fréttum sem staðfestar eru af forstjóra Samkeppniseftirlitsins þá barst tilkynning frá Nýja Kaupþingi í október s.l. um samruna bankans við 1998 ehf og Haga.  Ég fæ ekki séð að það sé í samræmi við fullyrðingar bankastjórans frá því í síðustu viku.

Nú skilur maður betur af hverju Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa þagað þunnu hljóði um þennan gjörning sem þau hljóta að hafa vitað af áður en hann var sendur Samkeppniseftirlitinu í október og hann væri ekki gerður nema við vitund þeirra og vilja.

Steingrímur og Jóhanna töluðu um að byggja upp þjóðfélag gegnsæis og heiðarleika. Það fer víðs fjarri að svo sé. Manni sýnist að frekar sé verið að byggja upp þjóðfélag sérdrægni, spillingar og klíkuskapar.


Að gera Ísland að viðundri meðal þjóða

Sama dag og tilkynnt var um hverjir sætu í samninganefnd fyrir Íslands hönd til að semja um aðild Íslands að Evrópusambandinu lýsti fjármálaráðherra  því yfir í Brussel að íslendingar hefðu ekki áhuga á að ganga í Evrópusambandið.  Að vonum litu menn hver á annan og spurðu til hvers var þá þessi þjóð að sækja um aðild og skipa samninganefnd til að semja um aðild að Evrópusambandinu.

Í tvígang hefur þessi sami fjármálaráðherra samið um Icesave skuldbindingarnar.  Í fyrra sinnið var samningur hans rekinn til baka og sá síðari bíður nú afgreiðslu Alþingis og veruleg spurning er hvort hann verður samþykktur af Alþingi.

Það er ekki óeðlilegt að vinir okkar og samstarfsaðilar erlendis spyrji hvað sé eiginlega að gerast á Íslandi og hvort þar sé engin alvöru ríkisstjórn.


Neytendur gúrkur og grænmeti

Grænmetisframleiðendur héldu kröfugerðarfund við Alþingishúsið um daginn. Þeir vilja að rafmagnsverð til þeirra verði lækkað. Í sjálfu sér ágætt mál nema að því leyti að þá hækkar rafmagnsreikningurinn hjá okkur hinum. Landbúnaðarráðherra mælti með því enda skóflupakkið eins og Höskuldur vinur minn Höskuldsson nefnir meðgjafarlausa íslendinga ekki of gott til að borga.

Flest viljum við borða íslenskt og auka íslenska framleiðslu. Vörurnar verða þá að vera samkeppnisfærar.  Í búðinni áðan sá ég verð  á hollenskum tómötum kr. 239 kr. kg en íslenska kr. 399 eða 160 kr. dýrara kíló af íslenskum. Ég sá líka að íslenskar gúrkur voru mun dýrari en gúrkur frá Spáni. Hvað þá með blómin og kálið?

Hátt verð hækkar vísitölubundnu lánin. Gengi krónunnar er óeðlilega lágt og þá eiga íslenskir framleiðendur að geta boðið neytendum jafndýrar eða ódýrari vörur en þær erlendu.  Annars verður þessi framleiðsla of dýr fyrir okkur.  Í fyrsta lagi að borga hærra verð fyrir vöruna. Í öðru lagi að borga hærra verð fyrir rafmagnið. Í  þriðja lagi að borga af hærri verðtryggðum lánum.


Bankar og samkeppni

Svo virðist sem stjórnendur ríkisbankanna séu í óða önn að afskrifa milljarða skuldir markaðsráðandi fyrirtækja.  Með því koma bankarnir í veg fyrir  eðlilega samkeppni hvort heldur um er að ræða smásöluverslun, líkamsræktarstöðvar eða annað. Bankarnir afskrifa milljarða óráðssíumanna en láta dugandi athafnamenn borga að fullu. 

Þeir sem reka fyrirtækin sín af ráðdeild og hagsýni og skulda lítið eru látnir líða fyrir það af ríkisbönkunum. Ráðdeildarfólkið hefur þurft að keppa við fyrirtæki milljarðaskuldaranna sem hafa notað óeðlilegar bankafyrirgreiðslu til að ná yfirhöndinni í samkeppninni. Nú á enn á ný að refsa þeim og girða fyrir samkeppni til að breiða yfir mistök.

Svona þjóðfélag er "velferðarstjórn" valdaránsflokkanna í óða önn að byggja upp á grundvelli félagslegrar samhjálpar fyrir suma þá ofurskuldugu. ´

Hætt er við að Ísland fari niður fyrir Víetnam og Úkraínu í næsta mati Fitch greiningarfyrirtækisins með sama áframhaldi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.9.): 14
  • Sl. sólarhring: 218
  • Sl. viku: 3379
  • Frá upphafi: 2606553

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 3183
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband