Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Óvissa um gildi gjaldeyrislána

Óneitanlega er það skrýtin staða að sami dómstóll Héraðsdómur Reykjavíkur skuli kveða upp tvo ósamrýmanlega dóma um lán í íslenskum krónum miðuð við erlenda gjaldmiðla.  Óneitanlega er það líka sérkennilegt að dómurinn skuli ekki hafa verið fjölskipaður í jafn mikilvægu máli þegar þetta álitamál var upphaflega til afgreiðslu hjá dómstólnum.

Nú er algjör réttaróvissa um gildi gjadleyrislánanna og svo verður þangað til Hæstiréttur kveður upp dóma í þessum málum. Nauðsynlegt er að þessi mál fái forgang í réttarkerfinu hagsmunirnir eru það mikilvægir.

Eðlilega kviknar von hjá þeim sem tóku þessi lán og margir sjá fram á að halda eignum sínum verði vitleysa gengistryggðu lánanna leiðrétt. Raunar hefðu stjórnvöld átt að gera það strax.  En þau gerðu það ekki frekar en annað sem þeim bar að gera.

Mér finnst síðari gjaldeyrislánadómurinn athygliverður og er honum sammála að öðru leyti en því að mér sýnist að Neytendastofa hefði átt að tjá sig um þessar lánveitingar á sínum tíma og það stendur í raun enn upp á hana að gera það betra seint en aldrei. 

 


Hvað vill ASÍ í málum skuldara?

Miðstjórn ASÍ sendi frá sér ályktun í gær þar sem kvartað er yfir því að aðgerðir stjórnvalda vegna skuldavanda heimilanna sé í skötulíki. Það er vissulega rétt, en hvað vill ASÍ gera í málunum? ASÍ hefur barist  á móti afnámi verðtryggingar og að tekið verði upp lánakerfi hér svipað og á hinum Norðurlöndunum.

Leiðrétting á lánakjörum og lausn skuldavanda heimilanna fellst í að taka á  séraðstæðum sem við búum við vegna gengishruns og hækkunar vísitölubundinna lána í raunverulegri verðhjöðnun.  Vill ASÍ taka upp baráttu gegn verðtryggingu? Vill ASÍ krefjast þess að gengisbundnu lánin verði færð niður í viðmiðunargengi 1. janúar 2008? Ef ekki hvað vill ASÍ þá gera sem skiptir máli fyrir skuldsett heimili í landinu?

Stóra spurningin er hvort ASÍ metur hagsmuni lífeyrissjóðanna meira en hagsmuni vinnandi fólks. Hingað til hafa lífeyrissjóðirnir haft forgang hjá ASÍ forustunni.  Þannig er Ísland eina landið í heiminum þar sem hinn vinnandi maður kann að vera borinn út af eign sinni með velvilja verkalýðshreyfingarinnar svo að honum líði hugsanlega betur í ellinni.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/02/11/adgerdir_vegna_skulda_heimilanna_i_skotuliki/


Skynsemi eða mistök.

Það hefði verið skynsamlegra að ráða vanan samningamann en Svavar Gestsson sagði forsætisráðherra í kastljósi í gær. Hún viðurkenndi samt ekki að það hefðu verið mistök að fá Svavar Gestsson til verksins.  Þessi hárfína túlkun á mismun skynsemi og mistaka er þeim einum lagið sem setið hafa lengur á Alþingi en minnisbestu menn muna. 

Almenn skynsemi segir manni hins vegar að sé eitthvað skynsamlegt sem maður gerir ekki þá séu það mistök. Það hljóta að vera mistök að gera ekki það sem er skynsamlegast. 

Annað vakti einnig athygli í viðtalinu við Jóhönnu en það var yfirlýsing hennar um getuleysi ríkisstjórnarinnar til að hafa  stjórn á bönkunum.  Þannig reynir hún að koma sér, vanhæfum viðskiptaráðherra, ríkisstjórn og flokki sínum undan ábyrgð á milljarðaniðurfellingu bankanna á skuldum útrásarvíkinga og meðreiðarsveina þeirra. Milljarðaniðurfellingum sem miða að því að  halda gjaldþrota fyrirtækjum þessara Matadorspilara áfram undir þeirra stjórn.

Þegar Steingrímur J. Sigfússon talaði um að það þyrfti að frysta eignir auðmanna átti hann þá við að það þyrfti að frysta þær í höndum og undir stjórn auðmannanna?


Sigrar og siðferði

Á sama tíma og handboltalandsliðið vinnur verðskuldaða sigra er hver hrunbaróninn á fætur öðrum að vinna óverðskuldaða sigra. Í gær var sagt frá því að Ólafur Ólafsson héldi Samskipum og í dag berast fréttir af því að Jón Ásgeir hafi reitt fram milljarð til að halda fjölmiðlaveldi sínu sem kennt var við 365 miðla.  Bankakerfið stendur fyrir þessari endurskipulagningu til hagsbóta fyrir milljarðaskuldarana á sama tíma og verið er að hrekja venjulegt fólk úr húsunum sínum vegna milljónaskulda.

Kallast þetta að beita siðrænum lausnum við endurreisn þjóðfélagsins? 

Hver skyldi annars stjórna þessari vegferð?


Ósmekkleg fréttamennska RÚV

Á Stöð 2 og Ríkissjónvarpinu var sagt frá sérstökum vildarkjörum sem bróðir þingmannsins Björns Vals Gíslasonar Vinstri grænum hafði gert við kaup á stórhýsi á Grensásvegi. Þeir sem þekkja til fasteignaviðskipta sjá strax að þarna voru sérstök vildarkjör í boði þrátt fyrir að verð á fasteignum hafi lækkað. Þrátt fyrir það þurfa viðskiptin ekki að vera óeðlileg og þar vantaði upp á eðlilega fréttamennsku. Það eitt að vera bróðir Björns Vals Gíslasonar veldur því ekki sjálfkrafa að viðskipti séu óeðlileg.

Þá var það með endemum að nöfn þeirra Skúla Helgasonar þingmanns Samfylkingarinnar og Sigríðar Önnur Þórðardóttur fyrrum þingmanns Sjálfstæðisflokksins skyldu vera dregin inn í þessa umfjöllun. Við fyrsta augnakast þá verður ekki séð að um óeðlilega lágt verð hafi verið á þeirra eignum og það að vera eða hafa verið þingmaður gerir hluti ekki tortryggilega nema eitthvað meira komi til.

Það var með miklum ólíkindum að draga Skúla Helgason og Sigríði Önnu inn í umfjöllun um kaup á atvinnuhúsnæði. Fréttin á RÚV var fréttastofunni hvað þau varðaði var ósæmileg.


Óflekkaðar íslenskar konur.

Í viðtali í dag við dagblaðið New Statesman segir forsætisráðherra að konur séu ekki eins flekkaðar af efnahagsmistökum og karlarnir og eigi því skilið að fá tækifæri.  En hvað með þá karla sem ekki eru flekkaðir af efnahagsmistökunum eiga  þeir ekki skilið að fá sömu tækifæri?

Hvað yrði sagt ef karlmaður sem forsætisráðherra vísaði stöðugt til  kynbundinna gilda og mismunar eins og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gerir sig seka um aftur og aftur.

Í samræmi við þá skoðun forsætisráðherra  að skilja hafrana frá sauðunum og skilja á milli flekkunar og flekkleysis ákvað  Jóhanna Sigurðardóttur að velja kúlulánadrottningu sem forstjóra Bankasýslu ríkisins. Fannst ekki flekklausari kona úr röðum vinstra fólks á Íslandi? 

Flekklausir karlar komu að sjálfsögðu ekki til greina.


15 milljarða jólagjöf Jóhönnu og Steingríms

Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar á árinu hækka höfuðstól verðtryggðra skulda heimilanna um 15 milljarða. Þannig gefur ríkisstjórnin fjármagnseigendum 15 milljarða.  Verðtryggingin er djöfullegasta lánakerfi sem fundið hefur verið upp.  Þegar skattar hækka og fólk á minni peninga hækka lánin. Þó engin virðisauki sé í þjóðfélaginu eða jafnvel neikvæður eins og hjá okkur þá hækka verðtryggðu lánin samt. Þau hækkuðu líka þegar íslenska krónan var í hæstu hæðum. Kerfið er nefnilega galið.

Var það skjaldborg um fjármagnseigendur, banka og lánastofnanir sem Jóhanna ætlaði að slá upp?

Svona ranglæti má ekki þrífast lengur. Ríkisstjórnin verður að koma á eðlilegu lánakerfi strax, sambærilegu við það sem er í okkar heimshluta. Jóhanna Sigurðardóttir var einu sinni á móti verðtryggingu. Nú hefur hún völdin. Ætlar hún að standa með skoðunum sínum eða eru það aðrir hagsmunir sem ráða?

Höfuðstólsleiðrétting lána og eðlilegt lánakerfi er mikilvægast.


Forseti ASÍ gefur leiðbeiningar.

Getur það verið rétt að forseti ASÍ hafi gefið stjórnvöldum þær opinberu leiðbeiningar að  rétt sé að afskrifa milljarða skuldir á Bónusfeðga af því að þeir væru með fyrirtæki í rekstri en rangt að gefa skattaafslátt á fyrirtæki vegna þess að það væri  að hluta í eigu Björgólfs Þórs?

Getur einhver verið svo vænn að skýra fyrir mér hvaða vitræn glóra getur verið  í svona málflutningi verkalýðsforustunnar. 

Launafólk í landinu þarf greinilega engu að kvíða með forustu sem fer fram á milljarðaafskriftir opinberra banka á skuldum útrásarvíkinga.


Ofurlaun

Sýnt hefur verið fram á með ágætum rökum að svipaðar aðstæður sköpuðust í ýmsu fyrir efnahagshrunið 1929 og fyrir efnahagshrunið 2008. Hvað mest sláandi er þróun launa. Í báðum tilvikum fóru laun bankastjórnenda í himinhæðir. Stjórnmálamenn gerðu því miður ekkert í því.  Að því leyti má segja að stjórnmálastétt heimsins hafi brugðist.

Nú hafa forsætisráðherra Bretlands og forseti Frakklands náð samkomulagi um að berjast fyrir því að settar verði alþjóðlegar reglur um sérstaka skattlagningu ofurlauna eins og bankamenn skömmtuðu sér. Vandinn er  sá í þessum löndum að þrátt fyrir að teknar hafi verið trilljónir króna til að halda föllnum bönkum á lífi þá halda stjórnendur þeirra áfram að skammta sér  hundruði milljóna kaupauka og ofurlaun.

Væri ekki ráð að við gengjum á undan og mótuðum strax  skýrar lagareglur í þessu sambandi varðandi raunveruleg ofurlaun í stað þess að búa til skattahásléttu fyrir fólk með meðaltekjur. Það er oft betra að bregðast við áður en vandinn hefur knúið dyra.


Fyrirgreiðsla eða skynsemi

Enn hef ég ekki fengið trúverðugar skýringar á því af hverju viðskiptaráðherra felldi Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis og Straum fjárfestingabanka á sama tíma og  Sparísjóður Keflavíkur og Byr  eru látnir halda áfram starfsemi.  Á þeim tíma eins og nú hafði engin heildarstefna verið mótuð af ríkisstjórninni um það hvernig móta skyldi nýja uppbyggingu bankakerfisins.

Nú er spurning hvað ríkið ætlar sér að gera. Æltar ríkið að reka Landsbankann, Byr og sparisjóðina í semkeppni við tvo stóra viðskiptabanka? Ætlar ríkið að láta Byr fá 11 milljarða til að Byr geti haldið starfsemi sinni áfram og sparisjóðina álíka fjárhæð?  Spurning er hvort það sé eðlileg meðferð á almannafé eins og nú háttar til og hvaða hagsmuni verið er að vernda með slíkum fjárgreiðslum úr ríkissjóði ef til kemur.

gylfi_magnusson Ekki verður betur séð en viðskiptaráðherra hafi brugðist þeirri skyldu sinni að móta stefnu í banka- og sparisjóðamálum og það muni kosta þjóðina marga milljarða í aukakostnað. Spurning er hvort ekki er ástæða til að rannsóknarnefnd Alþingis skoði líka aðgerðir og aðgerðarleysi ráðherra í þessari ríkisstjórn og þá sérstaklega afskipti fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra af fjármálafyrirtækjunum. Með hvaða hætti einum var greitt af ríkisins fé á vafasömum forsendum á meðan öðrum var slátrað. Ráðherraábyrgð var ekki aflétt eftir stjórnarskiptin 1.febrúar s.l. Steingrímur og Gylfi ættu að athuga það.

Mergurinn málsins er sá að meðan ríkisvaldið gengur ekki frá sínum málum og tekur ákvörðun um hvað gera skuli og mál eru í óvissu, getur staða Byrs og sparisjóðanna ekki annað en versnað. Það bætist við annan aðgerðarleysiskostnað ríkisstjórnarinnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.9.): 8
  • Sl. sólarhring: 246
  • Sl. viku: 3373
  • Frá upphafi: 2606547

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 3177
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband