Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Virði bréfa deCode hefur aldrei verið 50 senta virði.

david_oddsson 

Þegar markaðsstjóri deCode Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra auglýsti dótturfélag deCode sem eitt merkasta fyrirbrigði vísindasögunnar og fól Kára Stefánssyni forstjóra félagsins að búa til sérstök lög um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði héldu margir sem túðu að Davíð færi ekki með fleipur að deCode væri einhvers virði.  Þá voru ríkisbankar látnir kaupa bréf og aðrir bankar fylgdu á eftir og bréfin voru markaðssett sem demantar af forsætisráðherranum, bönkunum og varamarkaðsstjóranum Hannesi Smárasyni og að sjálfsögðu manninum sem sjálfur og sumir aðrir hér á landi töldu mankynsfrelsara, Kára Stefánsson.  Íslenskir fjölmiðlar kyrjuðu allir sama söngin um mankynsfrelsarann og þá miklu sigra vísindanna sem væru innan seilingar fyrir tilstillli deCode undir stjórn Kára 

hannes_smarason

 

 

 

 

Aldrei hefur verið rekinn eins skefjalaus áróður fyrir einu fyrirtæki eins og markaðsstjórarnir, Kári og bankarnir sem voru látnir kaupa bréfin í fyrirtækinu gerðu við að markassetja bréfin á gráa markaðnum. Óskráð bréf. Margir tóku lán og keyptu og keyptu. Þeir trúðu fagurgalanum.

Ný vísindi. Nýtt fyrirtæki. Ný tækni var sagt við þjóðina og líka að hún væri svo sérstök í erfðamenginu að annað eins væri ekki til á jörðinni. Fyrirtækið fékk síðan einkarétt á að gera miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði og markaðssetti sig á þeim grunni til að byrja með. Miðlægi gagnagrunnurinn varð aldrei til. Ef til vill var þetta bara viðskiptabrella. Alla vega er gagnagrunnurinn ekki til og sjálfsagt hefur fyrirtækið hvorki greitt ríkinu fyrir leyfið né verið krafið um greiðslur.

Ég og fleiri sem leyfðum okkur að vera með athugasemdir vorum níddir niður og reynt var að gera okkur hlægilega.   Á þeim tíma skrifaði hinn virti bandarísk hagfræðingur Paul Krugmann um fyrirtæki eins og deCode grein sem hét "The Ponsi Paradigm" og fjallaði um fyrirtæki sem voru rétt fyrir aldamótin að skjóta upp kollinum og voru sjálfvirkar seðlaprentanir eins og deCode. Paul Krugmann benti á að yfirleitt stæði ekkert á bak við þessi fyrirtæki en þau fengju svo mikla peninga að efasemdamennirnir yrðu gerðir hlægilegir og endalok þeirra yrði síðan mörgum árum seinna þegar umræðan væri þögnuð. Þannig gæti það orðið með deCode og þeir sem ábyrgðina bera þurfi aldrei að axla hana en fara í burtu forríkir menn og/eða í mektarstöðum hjá ríkinu þökk sé Davíð.

karistefansson

Ég hef alltaf vonað að það væri eitthvað í deCode og því tækist að komast á réttan kjöl rekstrarlega. Því miður hefur það ekki orðið og síendurteknar fullyrðingar Kára Stefánssonar um að eitthvað stórkostlegt væri í farvatninu eru farnar að hljóma hjákátlega.

Eins og fyrirtækið hefur þróast þann áratug sem það hefur verið til þá virðist sem að það hafi í raun aldrei verið nokkurs virði fyrir utan væntingarnar sem aldrei hafa orðið að veruleika. Samkvæmt hálfsársuppgjöri deCode á fyrirtækið 110.617.000 Bandaríkjadali en skuldar 297.446.000 Bandaríkjadali. Fyrirtækið skuldar því 186.829.000 Bandaríkjadali umfram eignir. Heitir það eitthvað annað en að vera rækilega á hausnum að skulda rúma 186 milljónir Bandaríkjadala umfram eignir?

Í lögum um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 segir í 64 grein:

64. gr. Skuldari getur krafist að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.
Skuldara, sem er bókhaldsskyldur, er skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta þegar svo er orðið ástatt fyrir honum sem segir í 1. mgr.

Vafalaust er deCode komið í þess stöðu fyrir löngu en fyrirtækið er með sveitfesti í Delaware fylki í Bandaríkjunum. Ef til vill gilda aðrar reglur þar.

Vonandi tekst að selja fyrirtækið og koma upp vitrænni starfsemi þannig að starfsfólkið haldi vinnunni. Það breytir hins vegar ekki því að ábyrgð Kára, Hannesar, Davíðs og fleiri er mikil. Þeir bera ábyrgð á fjárhagslegu skipbroti og gjaldþrotum fjölda fólks.

Því má svo ekki gleyma að maðurnn sem taldi sig vera markaðssinna Davíð Oddsson vildi að ríkið, skattgreiðendur ábyrgðust 200 milljón Bandaríkjadala lán fyrir fyrirtækið. Geir Haarde var fenginn til að flytja málið á Alþingi og biðja eftirlitsstofnun Efta um að leyfa þetta en sem betur fer leyfðu EES reglurnar þetta ekki og þess vegna eru skattgreiðendur 200 milljón Bandaríkjadölum ríkari í dag en þeir væru ef Davíð og Geir hefðu komist upp með þennan glórulausa pilsfaldakapítalisma eða eigum við að kalla það sósíalisma í þágu þeirra ríku?

 


mbl.is Gengi bréfa deCODE aðeins 50 sent
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurlaun, kaupaukar og kaupréttarsamningar

 græðgiJean Claude Juncker forseti Evrópuhóps fjármálaráðherra sagði fyrir nokkru að ofurlaun væru þjóðfélagsleg plága og krafðist aðgerða. Ofurlaun á Íslandi eru ekki einskorðuð við Kaupþing banka. Kjör stjórnenda þess banka  hafa þó oftar en ekki hneykslað þjóðina. Davíðs Oddsson þáverandi forsætisráðherra  tók út sparifé sitt  í mótælaskyni á sínum tíma.  Nýlega nýttu stjórnendur bankans sér kaupréttarsamninga sem færðu þeim meir en milljarð. Ekki hefur frést af því að forsætisráðherra hafi tekið út sparifé sitt úr bankanum. Nú kann  að vera að forsætisráðherra eigi ekkert sparifé í  bankanum og geti því ekki beitt þeirri táknrænu aðferð sem forveri hans notaði á sínum tíma. Hins vegar getur forsætisráðherra látið í ljós álit sitt á ofurlaunagreiðslum og hvernig á að bregðast við.  

Ofurlaunagreiðslur  voru ekki þekktar hér á landi fyrir nokkrum árum síðan. Nýr ósiður hefur rutt sér til rúms. Þessi ósiður hefur rutt sér til rúms í Evrópu en var lítið þekktur í álfunni þar til nýlega.  Markaðshyggjumenn í Evrópu státuðu sig jafnan af því að markaðshyggjan í Evrópu væri mun mannúðlegri en markaðshyggja engilsaxa í Englandi og Bandaríkjunum. Talað var um Skandinavíska mótdelið eða Rínar módelið sem dæmi um mannúðlega markaðshyggju. Nú er þetta því miður að breytast. Ofurlaun og aukin misskipting auðs og valda hefur verið að ryðja sér til rúms víða um álfuna.

Spurning er hvernig á að bregðast við þeim ofurlaunum sem er eitt helsta einkenni nýmarkaðshyggjunar, sem engu eirir og ekkert viðurkennir nema vald peninganna. Hér á landi hafa stjórnvöld ekki tjáð sig um aðgerðir og telja þær greinilega ekki viðeigandi. Íslenska ríkisstjórnin virðist telja eðlilegt að þeir sem stjórna fyrirtækjum geti skammtað sér þau laun sem þeir vilja og ríkisvaldið eigi ekkert að gera í því. Komi hins vegar til þess að fjármálastofnanir eins og banka skorti fé til útlána eða kreppi að í þeirra ranni þá beri stjórnvöldum að breiða út faðminn og leysa vandamál þeirra á kostnað skattgreiðenda.  Ég hygg að við séum eitt fárra landa í Evrópu hugsanlega eina landið þar sem talsmenn ríkisstjórnar hafa ekki gagnrýnt ofurlaun harðlega og talað um viðbrögð við þeim eða lagt fram tillögur í því efni.

Franska viðskiptablaðið L´Expansion áætlar að forstjóralaun hafi hækkað um 57% á árinu 2007. Fjármálaráðherra Frakka  Christine Lagarde hefur sagt að þetta væri hneyksli og hefur boðað aðgerðir. Forsetar Frakklands og Þýskalands, Nicolas Zarkozy og Horst Köhler hafa báðir fordæmt ofurlaunin. Í umræðunni í Evrópu er því haldið fram af sumum að ofurlaun stjórnenda fjármálafyrirtækja eins og banka hafi valdið því að þeir hafi tekið meiri áhættu en ella hefði verið og afleiðing þess sé gríðarlegt tap útlána. Hollenska þingið hefur til meðferðar lagafrumvarp þar sem sérstakur skattur er lagður á ofurlaun. Evrópusambandið er að vinna að aðgerðum vegna ofurlauna  sem afleiðing af gagnrýni Evrópuhópsins.

Hvað ætlar hnípin ríkisstjórn Geirs H. Haarde að gera í ofurlaunamálunum? Fyrsta spurningin er hvort að ráðamönnum á Íslandi finnist það eðlilegt að launamunur og ójöfnuður aukist í þjóðfélaginu? Ójöfnuðurinn er þegar til staðar þar sem að launþegar í landinu bera þyngstu skattbyrðarnar en ofurlaunafurstarnir hafa aðrar og betri leiðir í því sambandi. Mér finnst ekki koma annað til greina en að setja sérstakar reglur um ofurlaun, kaupauka og kaupréttarsamninga og skattleggja ofurlaun sérstaklega. Ofurlaunaskattur er við núverandi aðstæður sjálfsagður og eðlilegur.

græðgiergóðOfurlaun forstjóranna eru andstæð  hugmyndum um þjóðfélagslegt réttlæti og mannúðlega markaðshyggju.  Forstjórarnir mega ekki   komast upp með það á  tímum efnahagsþrenginga og atvinnuleysis, að halda áfram að borga sjálfum sér ofurlaun.

Samhjóða grein sem birtist í 24 stundum í vikunniþ


Kaupaukar í kreppu.

Mikið hljóta viðskiptavinir Kaupþings banka að vera ánægðir með að æðstu stjórnendur bankans geti nýtt kaupréttarsamninga sína til að hagnast hvor um hundruði milljóna. Bankinn er greinilega ekki á flæðiskeri staddur.  Það er ánægjuefni fyrir þessa stjórnendur að þurfa ekki að greiða nema 10% skatt af hagnaðinum af kaupréttarsamningunum á meðan venjulegt fólk þarf að greiða rúmlega þrisvar sinnum meira af laununum sínum.

Kaupþing er ekki eini bankinn sem gleður stjórnendur sína með kaupaukum og kaupréttarsamningum. Þegar kemur að viðgjörningi við æðstu stjórnendur fjármálastofnana á Íslandi þá eru nægir peningar til.  Það virðast samt ekki vera nægir peningar til að lána á viðráðanlegum vöxtum.

Ég hef lengi furðað mig á því af hverju stjórnvöld hlutast ekki til um að lánakjör hér á landi verði þau sömu og í nágrannalöndum okkar. Afnema verður verðtrygginguna og tryggja fólki svipuð vaxtakjör og t.d. í Danmörku eða Svíþjóð.

Þýðir þá að vera með Seðlabanka sem beitir snargölnum stýrivöxtum?


Ríkisstjórnin ber ábyrgð á vaxandi greiðsluerfiðleikum ungra íbúðakaupenda.

Verðbólga sem ríkisstjórnin ber verulega ábyrgð á og verðtrygging lána á verðbólgutímum og tímum gengisfalls krónunnar verður mörgum ofviða. Ég flutti í haust þingsályktunartillögu um að hlutast væri til um að lánakjör hér væru svipuð og á hinum Norðurlöndunum. Sú tillaga hefur ekki fengist afgreidd. Hvað sem tillögunni líður þá hefði ríkisstjórnin átt að hafa frumkvæði að því að vinna fyrir fólkið í landinu og koma lánamálum í svipað horf og hjá siðuðum þjóðum á lánamarkaði fyrir almenning.

Þegar að kreppti og fyrirsjáanlegt að að mundi kreppa bar ríkisstjórninni að hlutast til um að gera ráðstafanir til að aðstoða þá íbúðarkaupendur sem verða illa úti vegna gjörbreyttra aðstæðna í þjóðfélaginu.

En hvar er forsætisráðherra?  Hvar er ríkisstjórnin?  


mbl.is Erfiðleikar hjá húskaupendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin hefur ekki markað stefnu í efnahagsmálum.

Ólafur Ísleifsson lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík bendir á það í þættinum "orð í belg" í Markaðnum fylgiriti Fréttablaðsins í dag að "stjónrnarsáttáli flokkana var gerður við gerólík skilyrði  í efnahagsmálum"  Síðar segir Ólafur "Þessi sáttmáli  er tæpast klappaður í stein".

Ég tek undir með Ólafi og bendi um leið á að ríkisstjórnin hefur ekki markað sér stefnu í efnahagsmálum miðað við aðstæður. Á sama tíma og vandi steðjar að þá rífast ráðherrar og þingmenn stjórnarliðsins í fjölmiðlum um ýmis atriði en ekki sjást þess merki að unnið sé í nýrri stefnumótun í efnahagsmálum sem er í samræmi við þær aðstæður sem við búum við í dag.

stjornarsattmalinnÞrátt fyrir aðgerðar- og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar þá gera sumir stjórnarþingmenn sér grein fyrir því að það þarf að taka til hendinni en það kemur glögglega fram í viðtali við þá Bjarna Benediktsson og Illuga Gunnarsson í sama blaði í dag.  Bjarni segir í viðtalinu að það sé vá fyrir dyrum og það verði að viðurkenna að krónan hafi valdið okkur miklum vandræðum. Vonandi knýja þessir dugmiklu þingmenn Sjálfstæðisflokkinn á um það að ríkisstjórnin fari sem fyrst að vinna vinnuna sína.


Missa 200 manns vinnuna við yfirtöku Kaupþings á Spron?

Það er athyglivert að Morgunblaðið skuli birta þá forsíðufrétt að allt að 200 manns muni missa vinnuna við samruna SPRON og Kaupþings en sparisjóðsstjórinn neita sannleiksgildi fréttarinnar.

Hvað er um að ræða? Ranga frétt í Morgunblaðinu? Rangar staðhæfingar sparisjóðsstjórans?

Ég hef hingað til talið mig geta treyst fréttum Morgunblaðsins nema í ákveðnum undantekningartilvikum þegar pólitíkin hefur borið sannleiksástina ofurliði. Í þessu tilviki finnst mér með ólíkindum að jafn reyndur og fær blaðamaður og Agnes Bragadóttir skrifi og beri ábyrgð á frétt sem á ekki við rök að styðjast. 

Sparisjóðsstjórinn og forráðamenn Kaupþings verða, vilji þeir hafna fréttinni sem rangri, að sýna fram á það hvaða hægræðing felst í sameiningunni ef starfsfólki fækkar ekki eða jafnvel fjölgar eins og einhver fullyrti.  Hagræðing og samruni er jú til þess m.a. að fækka starfsfólki ekki rétt?

Eru því ekki allar líkur á að frétt Moggans sé rétt? 


mbl.is Allt að 200 missa vinnu við samruna SPRON og Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona getur ríkið ekki gert.

LandspítaliLandsspítali Háskólasjúkrahús skuldar birgjum sínum hátt í milljarð. Þessar skuldir eru margar orðnar mjög gamlar. Margir þeirra sem hafa selt sjúkrahúsinu tæki og vörur hafa orðið að þola verulegt gengistap á tímabilinu auk þess að vera í fullkominni óvissu um það hvenær skuldir spítalans þ.e. ríkisins fást greiddar. Aðspurður um málið segir heilbrigðisráðherra að skuldirnar verði greiddar. Í sjálfu sér ekki frétt. Spurningin er hins vegar hvenær ríkið leggur spítalanum til fjármuni til að hann geti greitt óreiðuskuldirnar.

Það er óhæfa að ríkisvaldið skuli ekki sinna fjárþörf stærsta spítala þjóðarinnar betur. Það er óhæfa að ríkisvaldið skuli láta hrannast upp óreiðuskuldir. Það er óhæfa að ríkisvaldið skuli valda einstaklingum og félögum sem selja ríkinu vörur og þjónustu gríðarlegum vanda vegna mikilla vanskila.

Svona stjórn er ekki ásættanleg. Ríkið verður að standa við skuldbindingar sínar. Ríkið verður að sýna gott fordæmi og sýna að það vilji gott viðskiptasiðferði og greiði því óumdeildar skuldir sínar á gjalddaga. Vanskil ríkisins við birgja spítalans hefur keðjuverkun og leiðir til vanskila þeirra sem eiga gudlaugurthormiklar fúlgur inni hjá spítalanum.  Svona gerir maður ekki eins og maðurinn í Seðlabankanum sagði.

Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra. Þér ber skylda til að hlutast til um að fjármálaráðherra leggi nú þegar fram þá fjármuni sem þarf til að tryggja skammlausan rekstur Landsspítala Háskólasjúkrahúss. Finnst þér það boðlegt að ríkisvaldið greiði birgjum spítala ekki fyrir sölu og þjónustu?


Vonandi gerir Kaupþing ekki sömu vitleysu og John Cleese

John Cleese er einn allra besti gamanleikari sem til er. Hann hefur farið á kostum í mörgum hlutverkum m.a. í kvikmyndunum "The life of Brian" og "A fish called Wanda" Þá eru sjónvarpsþættir og margt sem hann hefur gert með Monthy Python hópnum frábært.  Góður grínleikari er ekki endilega góður fjárfestir og nú tapar Cleese á vitlausri fjárfestingu. Ef að líkum lætur á hann samt nóg fyrir sig að leggja.

John Cleese hefur leikið í auglýsingum Kaupþings banka og vonandi eru fjárfestingar Cleese ekki til vitnisburðar um að Kaupþing hafi fjárfest með sama hætti og auglýsandinn.  Þá er það einnig vonandi að Cleese hafi ekki fengið ráðgjöf hjá Kaupþingi þegar hann gerði þessa misheppnuðu fjárfestingu.

En hver getur svo sem ekki gert mistök í lífinu?


mbl.is Cleese fórnarlamb fasteignaverðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okurverð á eldsneyti.

Ég tók eftir því þegar ég var staddur í einu Evrulandinu fyrir rúmum 2 vikum síðan að verð á bensíni og díselólíu var töluvert lægra en hér. Þá kostaði bensínlíterinn 0.94 Evrur en líterinn af bensíni kostaði eina Evru.  Þá kostaði meira að kaupa Evrur fyrir íslenskar krónur en það kostar í dag. Frá þeim tíma hefur gengi krónunnar hækkað en samt heldur eldsneytið áfram að hækka og hækka.

Ég geri mér grein fyrir því að álögur ríkisins skipta máli við verðlagningu á eldsneyti. Álögur ríkisins á eldsneyti eru of miklar. Við búum í landi þar sem einkabíllinn gegnir mun mikilvægara hlutverki en víðast annars staðar í okkar heimshluta þar sem valmöguleikar á farartækjum t.d. almenningssamgöngum eru miklu betri en hér og veðurlag gerir fýsilegra að nota vistvænni fararskjóta eins og t.d. reiðhjól.

Hátt heimsmarkaðsverð á eldsneyti og takkmörkuð samkeppni á olíumarkaðnum hér réttlætir þá kröfu að ríkið stórlækki gjaldtöku sína af olíum og bensíni. Það tekur tíma fyrir fólk að komast á hagkvæmari fararskjóta hvað eldsneytiseyðslu varðar.

Hvernig væri því að ríkisvaldið lækkaði álögur sínar á bensín og olíur tímabundið í 2 ár og felldi niður öll gjöld nema virðisaukaskatt af farartækjum sem eyða minna en 6 lítrum á hverja hundrað ekna kílómetra?


mbl.is Eldsneytisverð snarhækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankakreppa í Danmörku?

roskildebankÞað er með ólíkindum að danskir bankamenn og greiningaraðilar skuli í meir en ár hafa talað um bankakreppu á Íslandi og vandamál íslensks efnahagslífs á meðan vandamálin hrönnuðust upp fyrir augnum á þeim í dönsku þjóðlífi.

Nú hefur Hróarskeldubankinn neyðst til að taka neyðarlán hjá danska Seðlabankanum og fleiri danskir bankar hafa verið í vandamálum. 

Það er alvarlegt að lesa um vandann í dönsku fjármálalífi. Samdráttur, bankakreppa og verðhrun í Danmörku er alvarlegt mál fyrir okkur.  Íslenskir fjárfestar hafa fjárfest mikið í Danmörku og niðursveifla þar mun óhjákvæmilega bitna á okkur og sennilega flestum íslenskum fjármálastofnunum ef svo heldur fram sem horfir.

Af hverju skyldi danskt efnahagslíf sigla svona fljótt inn í vandamál?


mbl.is Eitthvað er rotið í Danaveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 2736
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2577
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband