Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Mismunandi verðmætamat.

Svo eru menn að býsnast yfir því að það sé hátt verð hundrað milljónir fyrir góðan stóðhest á hestamannamóti þjóðarinnar meðan málverk seljast á hundruðir milljóna.
mbl.is Þrjár teikningar Goya seldar á 610 milljónir króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eða dollar?

Einhver sagði að þegar stjórnmálamenn vildu drepa málum á dreif og komast hjá að taka ákvarðanir þá notuðu þeir hið mikilvæga orð "eða". 

Geir H. Haarde fór þannig að þegar í spurningu lá hvort taka ætti upp Evru að þá sagði hann, eða dollar eða norsku krónuna eða sænsku krónuna eða svissneska frankann.  Af hverju ekki Evruna?

Viðskipti okkar við Bandaríkin eru 5.3% af útflutningi og 13.5% af innflutningi árið 2007. Viðskipti Íslands við EES svæðið eru 78.4% af útflutningi og 64.6% af innflutningi. Evrutengd viðskipti okkar  eru um 60%.  Hvaða glóra er þá í því að tala um dollar eða þá svissneska frankann þar sem viðskipti eru milli 1 og 2% í inn- og útflutningi.

Skiptir ekki mestu máli ef taka á upp eða tengjast öðrum gjaldmiðli að það sé gjaldmiðill sem skiptir miklu máli í viðskiptum við landið?


Iðnaðarráðherra hunsar "Fagra Ísland"

Sama dag og Mörður Árnason varþingmaður Samfylkingarinnar og ritstjóri vefsíðu flokksins skrifar leiðarann " Almenningur styður stefnu Samfylkingarinnar Fagra Ísland", undirritaði iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson viljayfirlýsingu um byggingu 250 þúsund tonna álvers á Bakka við Húsavík.

Við það tækifæri sagði Össur að stóriðja sem þessi væri jákvæð fyrir þær sakir að aðgætni væri viðhöfð gagnvart náttúrunni og var helst að skilja að það væri vegna þess að jarðvarmi væri nýttur.

Raunar verður ekki séð að það skipti umhverfismáli hvort stóriðja notar jarðvarma eða orku úr fallvötnum. Fróðlegt væri að iðnaðarráðherra skýrði hvaða umhverfislegi munur þar er um að ræða.

Mörður Árnason vefsíðustjóri Samfylkingarinnar segir að almenningur styðji "Fagra Ísland" stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum. 

Í þeirri stefnumörkun segir m.a.  að slá eigi ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð.  Í annan stað er talað um að úthluta mengunarkvótum og í þriðja lagi að sérstök félög sem fjármagni sig á markaði og greiði fyrir afnotarétt af auðlindum reisi virkjanir fyrir stóriðju. Ekkert af þessu kemur fram í viljayfirlýsingunni sem iðnaðarráðherra undirritaði.

Viljayfirlýsingin um að byggja 250 þúsund tonna álver á Bakka af Alcoa er ekki í samræmi við stefnumótunina "Fagra Ísland."  Hafi Mörður Árnason vefsíðuritstjóri  rétt fyrir sér að almenningur styðji stefnuna þá er ljóst  að ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni gera það ekki. 

Eða hvað? 

 


mbl.is Álversyfirlýsing undirrituð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur verðbólgan engum á óvart?

Verðbólga mælist nú meiri en verið hefur í tæpa 2 áratugi. Þessi verðbólga virðist ekki koma neinum á óvart miðað við að greiningardeildir bankanna höfðu sumar spáð meiri verðbólgu en skráð er. Þrátt fyrir Evrópumet í stýrivöxtum til að vinna gegn verðbólgu hefur Seðlabankinn aldrei náð verðbólgumarkmiðum sínum. Þvert á móti má færa rök að því að stefna Seðlabankans sé mikill orsakavaldur vandans nú og þess vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar og síðustu ríkisstjórna, einkum skattastefnan og síaukin útþensla opinbera báknsins ásamt vanhugsuðum og allt of takmörkuðum aðgerðum Seðlabankans leiddi til hágengis, spennu í efnahagslífinu og mikillar einkaneyslu. Þjóðin verður nú að taka afleiðingum af þessari vitlausu stefnu. Það var alltaf ljóst að það mundi koma að skuldadögunum. Þrátt fyrir það markaði hvorki ríkisstjórn né Seðlabanki neina stefnu um það hvernig bregðast ætti við þegar hágenginu yrði ekki lengur haldið uppi. Þegar skuldasöfnun þjóðarinnar gæti ekki haldið áfram og þegar verðbólgudraugurinn berði að dyrum.

Efnahagskreppur á Íslandi hafa hingað til stafað af lækkandi fiskverði og minnkandi sjávarafla. Nú er fiskverð hinsvegar í hámarki og útflutningsverðmæti haldast þrátt fyrir að heimilað sé að veiða minna en oftast áður. Efnahagskreppan nú er því af öðrum toga en áður. Hún er heimatilbúin. Hún er bein afleiðing hagstjórnarmistaka Seðlabanka og ríkisstjórna í rúman áratug.

Aukin umsvif og skattheimta hins opinbera er einn af helstu orsakavöldum þeirra efnahagsþrenginga sem við erum nú að ganga í gegn um. Það er því með ólíkindum að þrátt fyrir þetta og stöðugt vaxandi hlutar hins opinbera þá skuli talsmenn sósíalismans í Vinstri Grænum og Samfylkingunni nú kalla eftir enn meiri ríkisafskiptum og jafnvel þjóðnýtingu á kostnað skattborgaranna. 

Er ekki nóg komið af sósíalismanum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir? Sjálfstæðisflokkurinn hefur síðasta áratug aukið útgjöld og umsvif hins opinbera þvert á stefnu sína? Sjálfstæðisflokkurinn hefur aukið skattheimtuna á launafólk í landinu en lækkað skatta þeirra sem best eru settir? Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið sumum þjóðarauðlindir og selt öðrum rýmingarsöluverði.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur þannig  stundað sósíalisma í anda sérkenninegrar frjálshyggju?

Væri ekki skynsamlegra að takmarka umsvif hins opinbera, lækka skatta og leyfa borgurum þessa lands að ráða meiru um fjármál sín. Er nokkur hætta á því að fólkið mundi stjórna fjármálum sínum verr en ríkið og Seðlabankinn hefur gert fyrir það?


mbl.is Verðbólga mælist 12,7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blindir fá sýn og spádómsgáfu eða hvað?

Greiningardeild Glitnis kynnir nýja þjóðhagsspá og spáir því að hafið sé tveggja ára stöðnunarskeið í íslensku efnahagslífi.  Því miður má gera ráð fyrir að þessi spá sé rétt en að sjálfsögðu er alltaf óvissa í svona spám og spurja má af hverju sáu greiningardeildir bankanna og aðrar greiningardeildir ekki nokkra mánuði fram í tímann fyrir tæpu ári.

Stöðnunarskeið og framfaraskeið í efnahagslífinu er komið undir mörgum atriðum og eitt af því sem miklu skiptir er hvað og hvernig ríkisstjórnin ætlar að koma að málum.  Því miður er ástæða til að vera svartsýnn um framvinduna í íslensku efnahagslífi vegna þess að Samfylkingin ætlar sér að koma í veg fyrir nýja framfarasókn á grundvelli trúarsetninga hugmyndafræðinnar sem þeir Samfylkingarmenn gáfu heitið "Fagra Ísland".   

Ástæða er til að óttast að samdráttarskeið og stöðnun vari lengur en greiningardeildin spáir í íslenska efnahagslífinu. Það er undir því komið hvort Samfylkingin verður áfram í ríkisstjórn  og hvort Samfylkingin ætlar að láta rómantíska stefnumótun velmegunaráranna koma í veg fyrir nýja framfarasókn þjóðarinnar í efnahags- og atvinnumálum.


mbl.is Tveggja ára stöðnunarskeið hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi dregur úr verðbólgu.

Vonandi hefur greiningardeild Landsbankans rétt fyrir sér hvað það varðar að verulega muni draga úr verðbólgu á næstunni. Ég tel raunar að verðbólgumælingin sé ekki alls kostar rétt eins og nú háttar til. 

Mjög fáar fasteignir hafa selst undanfarin misseri og raunverðlækkun fasteigna er því ekki komin fram í vísitölunni. Mér finnst líklegt að fasteignir hækki ekki í krónutölu á næstunni og stærri eignir muni jafnvel lækka en það hefur mikil áhrif ti lað draga úr verðbólgunni.

Gengisþróunin skiptir miklu máli. Meðan við erum með krónu sem er ein óstöðugasta myntin í dag þá gætir því miður mikillar óvissu um verðbólgu framtíðarinnar. Veiking krónunnar mun valda verðbólguskoti á sama tíma og styrking hennar ætti að draga úr verðbólgunni. Nú er eðlilegt að neytendur og eftirlitsaðilar fylgist með því að seljendur lækki verð jafn hratt vegna sterkari krónu eins og þeir hækkuðu verð þegar krónan veiktist.

Vonandi stenst spá greiningardeildarinnar um að það dragi úr verðbólgu á næstunni.


mbl.is Spáir því að verðbólga hjaðni hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ársafmæli ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin á eins árs afmæli í dag.  Eðlilegt er að óska stjórnarliðum til hamingju með daginn. Þjóðin hefur hins vegar ekki yfir miklu að gleðjast. Eða er það svo?

Hverju hefur ríkisstjórnin áorkað á valdatíma sínum?

Jú ákveðnir ráðherrar hafa staðið sig með ágætum. Félagsmálaráðherra hefur komið ýmsum umbótum fram fyrir aldraða og öryrkja í góðu samstarfi við stjórnarandstöðuna. Viðskiptaráðherra hefur einnig komið ýmsum góðum málum fram einnig í góðu samstarfi við stjórnarandstöðuna.

En stendur eitthvað annað uppr úr.

Með hvaða hætti hefur ríkisstjórnin brugðist við þeirri efnahagsvá sem fyrir hefur legið frá því s.l. haust að mundi skella á þjóðinni?  Því miður er lítið um aðgerðir. Þess vegna er fasteignamarkaðurinn hruninn. Þess vegna hefur gengi krónunnar fallið um rúm 20%. Þess vegna er atvinnuleysi að aukast og þess vegna sjá margar ungar fjölskyldur fram á slæma tíma  og skert lífsgæði vegna þess að unga fólkið í landinu þarf að greiða hærri vexti og verðtryggingu af lánunum sínum. Ríkisstjórnin sér ekki ástæðu til að koma lánamálum fólksins í landinu í sama horf og er í nágrannalöndum okkar.

Við erum með dýrasta mat í Evrópu og dýrustu lánin. Finnst stjórnarliðum það vera ásættanlegur árángur eftir eitt ár við stjórnvölin?


Hvað lækkar?

Skyldu seljendur vera jafn fljótir að lækka þegar gengi krónunnar styrkist og þeir voru tilbúnir að hækka þegar gengi krónunnar veiktist. Það verður fróðlegt að sjá.
mbl.is Krónan styrktist um 1,12% í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúmlega 17 milljarða tap á Orkuveitu Reykjavíkur.

Orkuveita Reykjavíkur tapaði rúmum 17 milljörðum á fyrstu 3 mánuðum ársins. Tapið þessa fyrstu þrjá mánuði nemur rúmlega 9 mánaða heildarrekstrartekjum fyrirtækisins.

Forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur segja að óhagstæð gengisþróun valdi því að tapið sé svona mikið. Skuldsetning fyrirtækisins í erlendri mynt er þá greinilega of mikil.

Sættir borgarstjórn Reykjavíkur sig við þessar skýringar á þessu gríðarlega tapi?  Auðvelt er að reka Orkuveitu Reykjavíkur með góðum hagnaði. Fyrirtækinu hefur því miður verið illa stjórnað í langan tíma og ráðist í gæluverkefni lokaða borgarstjórnarklúbbsins sem fyrirtækinu koma ekki við. Þar liggur hinn raunverulegi hundur grafinn.

Svona tap hefði aldrei orðið hefði Orkuveitan einbeitt sér að því verkefni að þjónustu viðskiptavini sían á þeim sviðum sem Orkuveitan á að gera.


Órói í þingflokki Sjálfstæðisflokksins?

Morgunblaðið segir í Staksteinum að umtalsverður órói sé í þingflokki Sjálfstæðisflokksins vegna ummæla Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur varaformanns Sjálfstæðisflokksins  um Evrópusambandið á fundi með Sjálfstæðismönnum í Kópavogi í síðustu viku.  Ég efa ekki að höfundur Staksteina hafi traustar heimildir um ástandið í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hvorst sem er þetta mál eða önnur.

Þorgerður Katrínu opnaði á Evrópusambandsumræðuna þó ekki með öðrum hætti en þeim að tala um að leggja málið undir þjóðaratkvæðagreiðslu og huga að breytingum að stjórnarskrá. Ég varð þess ekki var að Þorgerður Katrín lýsti yfir stuðningi við Evrópusambandið.

Svo vandmeðfarið er Evrópusambandsmálið greinilega fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sérfræðingur flokksins í utanríkismálum Björn Bjarnason og formaður Sjálfstæðisflokksins Geir H. Haarde sáu sig tilknúna til að tjá sig sérstaklega um andstöðu við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Varaformaðurinn mátti ekki anda í átt að Evrópusambandinu án þess að reynt sé til hins ítrasta að koma flokkshandjárnunum á umræðuna og dæma ummæli Þorgerðar Katrínar dauð og ómerk.

Staksteinahöfundur sem þekkir vel pólitíska sögu Sjálfstæðisflokksins vísar til að dæmi séu um að varaformaður hafi markað sér sérstöðu í Sjálfstæðisflokknum og vísar í því sambandi til dr. Gunnars Thoroddsen og tekur fram að Þorgerður Katrín þurfi að hafa sterkt pólitískt bakland innan flokksins vilji hún halda þeim lýðræðislega rétti sínum að marka sér pólitíska sérstöðu.

Með öðrum orðum þýðir þetta að það jafngildi klofningi í Sjálfstæðisflokknum að vilja skoða kosti Evrópusambandsaðildar og þeir sem þær skoðanir hafa innan flokksins verði að búa yfir ákveðnum flokksstyrk en ekki er vísað til þess hvað gerist ef slíkur styrkur er ekki fyrir hendi. Hvað er hægt að hugsa sér í því sambandi? Að varaformanninum verði vikið frá á næsta Landsfundi? Að varaformaðurinn teljist ekki lengur hæf til að vera einn helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins?

Sjálfstæðisflokkurinn var sterkastur þegar hann var forustuflokkur þjóðarinnar í utanríkismálum og brautryðjandi í því að koma Íslandi í samfélag þjóðanna. Á þeim tíma var sótt að Sjálfstæðisflokknum fyrir þá afstöðu og honum iðulega brigslað um landráð, landssölu og óþjóðhollustu. Dr. Bjarni Benediktsson sem var helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma í utanríkismálum hikaði ekki við að berjast fyrir aðild Íslands að Sameinuðu Þjóðunum, NATO og EFTA.  Á þeim tíma voru opnar umræður í Sjálfstæðisflokknum um stefnuna í utanríkismálum og blæbrigðamunur á afstöðu manna varð aldrei til þess að þeim væri hótað viðurlögum vegna skoðana sinna.

Margir töldu að þegar Davíð Oddsson hætti sem formaður í Sjálfstæðisflokknum þá mundi hugmyndafræðileg umræða í flokknum og nútímaleg umræða um utanríkismál þar á meðal Evrópusambandið blómstra en hvorutveggja hafði kalið í valdatíð Davíðs.

Viðbrögin við réttmætum áherslum varaformanns Sjálfstæðisflokksins og ábendingum í Evrópumálum benda  til að sá hugmyndafræðilegi sífreri sem hefur verið  í Sjálfstæðisflokknum frá valdatöku Davíðs Oddssonar hafi ekki náð að bráðna nema örlítið á yfirborðinu.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 2736
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2577
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband