Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kjaramál

Af hverju er húsnæðisskortur

Hagstofan segir að 7.371 útlendingur umfram brottflutta hafi sest að í landinu fyrstu 6 mánuði ársins. Úkraínumenn eru innan við 1000 þeirra. Þetta er álíka fjöldi og allir íbúar Akranes.

Gríðarlegur aðflutningur útlendinga veldur ofurálagi á heilbrigðis-, skóla- og húnsæðiskerfið 

Íslensk stjórnmálastétt sér enga ástæðu til að bregðast við og takmarka aðkomu fólks, þó ekki væri nema til að tryggja fólkinu í landinu góðan aðgang að læknisþjónustu, skólagöngu svo ekki sé talað um húsnæði. 

Eðlilega verður húsnæðisskortur þegar álíka margir og búa á Akranesi flytjast til landsins á 6 mánaða fresti. 

Íslensk stjórnmálastétt virðist ætla að halda áfram að fljóta sofandi að feigðarósi í stað þess að stjórna landamærunum.

 


Öll dýr eru jöfn, en sum eru jafnari en önnur

Í bók sinni "Animal Farm" lýsir George Orwell því hvernig hin ráðandi dýr, svínin, sölsuðu undir sig öll völd og breyttu vígorðum byltingarinnar í samræmi við eigin hagsmuni. 

Stjórnmálastéttin á Íslandi hefur lögfest sérkjör hvað varðar eigin laun og æðstu embættismanna. Þau eru verðtryggð og hækka því mun meira en önnur laun í landinu. Katrín Jakobsdóttir telur þetta eðlilegt fyrir stjórnmálastéttina og embættismannaaðalinn en ekki aðra. Sum dýrin eru jú jafnari en önnur. 

Á sínum tíma voru bæði laun og lán verðtryggð í þjóðfélaginu, en það gekk ekki vegna þess að það var ávísun á óðaverðbólgu. Verðtrygging launa var því afnumin. En nú hefur hin ráðandi stétt innleitt hana aftur fyrir sig en að sjálfsögðu ekki aðra. Á meðan hagur launþega og neytenda versnar vegna óðaverðbólgu fitnar stjórnmálastéttin og embættismannaaðallinn því meir sem verðbólgan verður meiri.

Þar fyrir utan hafa sveitarstjórnarmenn komið sér upp launakerfi sem er gjörsamlega fráleit sjálftaka, að öllu venjulegu fólki ofbýður. Þeir fá líka laun þó þeir sinni ekki þeim störfum sem þeir voru kosnir til að gegna. 

Hvernig stendur á því að engin úr stjórnmálastéttinni hreyfir mótmælum og krefst jöfnuðar og sambærilegra launakjara og gildir um aðra launþega? 

Svarið getur ekki verið annað en að:

Stjórnmálastéttin öll er því miður gjörspillt.

Við það verður ekki unað að þessi siðlausa sjálftaka haldi áfram.

Vilmundur Gylfason heitinn orðaði svona háttalag á sínum tíma sem:

"Löglegt en siðlaust". 

Hversu lengi enn eigum við að láta stjórnmálastéttina misbjóða þolinmæði okkar.

 

 


Verðbólga og viðbrögð Alþingis

Verðbólga í helstu viðskiptalöndum Íslands nálgast tveggja stafa tölu. Verðbólga á Íslandi magnast og það skiptir því miður litlu máli hvað Seðlabankinn spriklar þegar ríkisstjórnin er upptekin við að prenta peninga, sem innistæða er ekki fyrir.

Ríkisstjórnin mætti hinsvegar hafa í huga, að þegar þú borgar fólki fyrir að gera ekki neitt og prentar peninga í því skyni þá færðu verðbólgu það er óhjákvæmilegt bara spurning hvenær. 

Verðbólga dregur úr kaupmætti launa og leiðir til gengisfellingar íslensku krónunnar. Verðtryggð lán hækka og vextir óverðtryggðra lána hækka líka og hjá því verður ekki komist í slíku ástandi.

Þetta er eitt alvarlegasta vandamálið sem blasir við þjóðinni. Þessvegna hefði verið brýn nauðsyn að þingmenn þjóðarinnar ræddu þennan mikla aðsteðjandi vanda lausnamiðað í stað upphrópana. 

Því miður er stjórnarandstaðan upptekin við að reyna að auka fátækt í landinu og valda auknum erfiðleikum í velferðarkerfinu með því að opna landamærin upp á gátt. Kemur á óvart að Viðreisn en einkum Flokkur fólksins skuli taka þátt í þessum leik, sem er ætlaður til að öll vinna í sambandi við vandaða málsmeðferð varðandi hælisleitendur verði gerð að engu.


Ofurlaunin

Í gærkvöldi var frásögn af ofurlaunum nokkurra forstjóra ríkisfyrirtækja, fyrirtækja sem tengjast hinu opinbera með einum og öðrum hætti og örfárra annara. Það er ljóst að ríkið leiðir ofurlaunaþróun í landinu. Svo hefur verið frá síðasta úrskurði Kjararáðs, en þar var ákveðið að embættismannaaðallinn skyldi fá ofurlaun miðað við aðra landsmenn. 

Finnst einhverjum skrýtið að lægra settir opinberir starfsmenn eða almennir launþegar á hinum frjálsa markaði reki í rogastans þegar þeim er sagt að hækki 700 þúsund króna mánaðarlaunin þeirra, þá setji það hagkerfið á hliðina, en 6 milljón króna laun ríkisforstjórans og hækkun þeirra um eina milljón skipti engu máli. 

Á sama tíma segist fjármálaráðherra í viðtali við Viðskiptablaðið að hann þurfi að fá lán til að borga launin þar sem ríkissjóður hefur ekki verið sjálfbær frá árinu 2018. 

Sérkennileg vegferð í þjóðfélagi.

Þeim þjóðfélögum vegnar best, þar sem launamunur er lítill. Það eru gömul sannindi og ný.


Kaupmáttur eykst meðan framleiðsla minnkar

Fjármálaráðherra sagði að kaupmáttur hefði aukist á síðasta ári.Vafalaust er það rétt. En hefur landsframleiðsla ekki dregist verulega saman frá því árið 2019? 

Sé það rétt að framleiðsla hafi minnkað en samt hafi orðið kaupmáttaraukning, er þá skýringarinnar að leita í vaxandi hallarekstri ríkissjóðs?

Ríkissjóður var rekinn með 530 milljarða halla á síðasta ári. Er þá ríkissjóður að borga kaupmáttaraukninguna með hallarekstri?

 


Ef til og kannski gerist eitthvað

Ríkislögreglustjóri lýsti yfir neyðarstigi fyrir nokkru. Ekki vegna þess að það væri einhver neyð heldur vegna þess að ef til vill mundi hún verða. Upptaktur fyrir hertari sóttvarnir, en sóttvarnarlæknir segir að kannski fjölgi smitum mikið og e.t.v. lendi svo margir á gjörgæslu að spítalinn eini ráði ekki neitt við neitt og e.t.v. gæti skeð að Omicronið sé hættulegra en það lítur út fyrir. 

Að sjálfsögðu samþykkir ríkisstjórnin hertari aðgerðir sem kosta milljarða á milljarða ofan vegna þess að e.t.v. gæti eitthvað vont gerst að mati e.t.v. og kannski "vísindana".

Í sjálfu sér ekki annars að vænta af ríkisstjórn sem hefur það sem aðalstefnumál, að auka skattheimtu og rýra lífskjör í landinu vegna þess að e.t.v. gæti hlýnað um eina gráðu. 

Þurfum við ekki að takast á við lífið af einurð og festu og muna, að það sem drepur okkur ekki gerir okkur sterkari. 

Ríkisstjórninin þyrfti líka að hætti að stjórna þjóðfélaginu á grundvelli ótta, hugarburðar og misjafnra reiknilíkana með hundraða milljarða ónauðsynlegum tilkostnaði vegna þess að e.t.v. og kannski gæti annars eitthvað gerst. Jafnvel þó það sé ólíklegt.

 

 


Straumrof

Ég las grein í þýsku dagblaði í gær um stöðu orkumála í Þýskalandi.  Þar hefur stjórnmálastéttin verið með hjarðhegðun pólitísku veðurfræðinnar og barist fyrir hröðun svokallaðra "orkuskipta" sem er tískuorð stjórnmála í dag, með þeim  afleiðingum að fjórða stærsta viðskiptaveldi heims, Þýskalandi býr nú við alvarlegan orkuskort og er auk þess komið upp á náð og miskun Pútín í orkumálum.

Vítt og breitt í Evrópu Evrópusambandsins með alla sína orkupakka horfir fólk fram á gríðarlegar hækkanir á raforku, orkuskort og tíðari straumrof vegna þess, að stjórnmálastéttin hefur neitað að horfast í augu við raunveruleikann í orkumálum og stundað bullpólitík meintrar hamfarahlýnunar eins og furðumaðurinn Boris Johnson gerði fyrir loftslagsráðstefnuna í Glasgow í haust.

Velferð og atvinna í löndum eins Íslandi og Þýskalandi byggjast á því m.a. að til sé næg ódýr orka til að atvinnulífið geti gengið og hægt sé að ráðast í gróskumikla nýsköpun. Skólar, sjúkrahús, tölvufyrirtæki ekkert síður en fiskvinnslufyrirtæki og stóriðja byggja tilveru sína og framfarasókn á því að það sé til næg orka.

Vera Vinstri grænna í ríkisstjórn á Íslandi hefur leitt til þess, að í fyrsta skipti svo árum skiptir er ekki til næg orka í landinu og grípa verður til skömmtunar. Samstarfsflokkarnir geta ekki heldur firrt sig  ábyrgð. Þessvegna hefði verið betra að gefa Vinstri grænum frí þetta kjörtímabil til að hægt væri að sinna mikilvægustu málum eins  og orkumálum af viti.

Það er mikilvægt að stjórnmálafólk hugi að velferð eigin borgara og láti gæluverkefni grænna lausna og orkuskipti bíða þess tíma,að þau geti verið raunhæfur valkostur til að tryggja atvinnu og velferð. Meðan þessi valkostur er ekki fyrir hendi, þá bjóða stjórnvöld upp á versnandni lífskjör og atvinnuleysi með stefnu sinni.

Slíka ríkisstjórn orkuskortsins er ekki hægt að styðja. Sjálfstæðismenn á þingi og í ríkisstjórn þurfa að taka þessi mál föstum tökum með eða án Vinstri grænna. Það er ekki hægt að bíða lengur.


Hin ofsóttu

Uppákoman í Eflingu er með ólíkindum. Starfsfólk á skrifstofu Eflingar gefur stjórnunarháttum Sólveigar Önnu Jónsdóttur fyrrv formanns og Viðars Þorsteinssonar fyrrv. framkvæmdastjóra algjöra falleinkun. Svo slæma falleinkun að óvíða sætir starfsfólk að eigin sögn annarri eins aðsókn eins og hjá þessum stjórnendum.

Samt var meiri hluti stjórnar félagsins tilbúinn til að styðja áframhaldandi ofsóknarstjórn Sólveigar Önnu og Viðars. Greinilega vanhöld á að standa með starfsfólkinu þar á bæ. 

Þegar Viðar Þorsteinsson fyrrv. framkvæmdastjóri tjáði sig í Kastljósi, stóð bunan út úr honum um það, hvílíkum ofsóknum hann og Sólveig Anna hefðu mátt sæta af hálfu starfsfólksins. Starfsfólksins sem þau sjálf réðu til starfa eftir að hafa rekið það sem fyrir var. 

Saga þeirra Viðars og Sólveigar Önnu í starfsmannamálum Eflingar er ljót. Þau sögðu upp nánast öllu starfsfólki Eflingar þegar þau komust til valda með svigurmælum um ýmsa sem voru reknir sumir eftir langa og dygga þjónustu.

Þrátt fyrir hreinsanirnar og ráðningu nýs starfsfólks sem var þeim Sólveigu og Viðari þóknanlegt, þá dugar það ekki til. Allt fer í óefni þannig að komið var að uppsagnarhrinu númer tvö, þegar þau Sólveig Anna og Viðar gugnuðu á frekari stalínískum stjórnunaraðgerðum gagnvart starfsfólki sínu og sáu það, að "illþýðið" sem þau höfðu ráðið til starfa  beitti þau ofsóknum. Við ofsóknirnar gátu þau Sólveig og Viðar ekki sætt sig. 

Trúir virkilega einhver því að Sólveig Anna og Viðar hafi verið beitt ofsóknum af hálfu starfsfólks Eflingar? 

 

 


Sérkennileg skattastefna Framsóknar

Leiðtogaumræðurnar í sjónvarpinu í gærkvöldi voru vægast sagt rislitlar. Eitt kom þeim sem þetta ritar sérstaklega á óvart, en það voru hugmyndir sem formaður Framsóknarflokksins reifaði um skattastefnu Framsóknarflokksins.

Sigurður Ingi boðaði einhverskonar háskattastefnu á þá sem gengur vel í atvinnurekstri. Þannig að færi hagnaður fyrirtækja umfram ákveðið mark, sem formaðurinn var ekki með á hreinu hvað væri, þá ætti að skattleggja viðkomandi sérstaklega þannig að helst væri að skilja, að lítið sem ekkert sæti þá eftir af hagnaðinum.

Hugmyndir sem þessar hafa iðulega komið upp, en jafnan hefur verið fallið frá þeim, þar sem þær leiða yfirleitt til þess, að vegið er í raun að hugmyndafræði frjálsrar samkeppni og markaðshyggju og skekkja samkeppnisaðstöðu fyrirtækja. 

Alla útfærslu vantaði þó hjá Sigurði Inga um það hvernig þetta ætti að vera. En aðalatriðið er það, að með þessu er Sigurður Ingi í raun að boða þá stefnu Framsóknarflokksins, að auka skattheimtu og láta hana vera valkvæða þannig, að þeir sem skara framúr skuli bera þyngri skattbyrði en aðrir eftir síðari tíma geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna. 

Íslenskir stjórnmálamenn þurfa heldur betur að vinna tillögur sínar um það hvernig þeir ætla að leggja ofurskatta á þjóðina en Sigurður Ingi hefur gert miðað við orð hans í leiðtogaumræðunum í gær. 

 


Er nóg til?

Ríkasti maður heims um næstliðin aldamót John D. Rockefeller var spurður að því af blaðamanni á sjötugsafmælinu sínu hvað hann þyrfti mikið meira til að hafa nóg. Rockefeller svaraði. Bara örlítið meira "Just a little bit more" 

Forseti ASÍ telur hinsvegar að nóg sé til svo auka megi millifærslur og hækka hverskyns styrki í þjóðfélaginu jafnvel þó ríkissjóður sé rekinn með umtalsverðum halla og við séum fjarri því að vera ríkust í heiminum eins og Rokcefeller var. 

Forseti ASÍ dansar ekki ein þennan dans ímyndunarinnar. Forustumenn allra stjórnmálaflokka dansa með henni í aðdraganda kosninganna. Fréttastofu RÚV hefur auk heldur verið með fastan þátt í hverjum fréttatíma í rúm 12 ár sem gæti heitið ég eða við eigum svo bágt að stórauka verður framlög ríkisins til mín eða okkar. Sérkennilegt ef nóg er til.

Af hverju er ekki hægt að ráðast í mörg brýn verkefni fyrst nóg er til. Já og hvers vegna er ríkissjóður rekinn með hundraða milljarða halla ef nóg er til. 

Getur verið að svo sé komið fyrir íslensku stjórnmálastéttinni og fréttaelítunni sem og verkalýðshreyfingunni, að þeir hópar séu ófærir um að taka á málum eða tala um þau út frá öðrum viðmiðunum en raunveruleikaheimi Lísu í Undralandi. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 19
  • Sl. sólarhring: 301
  • Sl. viku: 3486
  • Frá upphafi: 2603193

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 3260
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband